Eðalræma eins og þær gerast bestar

North by NorthwestÞað eru um tveir áratugir síðan að ég sá fyrst úrvalsmyndina North by Northwest, eftir meistara kvikmyndasögunnar Sir Alfred Hitchcock. Hún hefur alla tíð verið ein af uppáhaldskvikmyndum mínum - sannkallað meistaraverk sem stendur fyrir sínu enn í dag. Ég ákvað að horfa á hana í kvöld, það er orðið mjög langt síðan að ég missti töluna á það hversu oft ég hef séð hana. Hún verður alltaf betri í hvert skiptið sem ég horfi á hana, óaðfinnanleg snilld.

Cary Grant fer þar á kostum í hlutverki Roger Thornhill sem er hundeltur um gjörvöll Bandaríkin án þess að vita gjörla hvaðan á sig stendur veðrið. Thornhill er enn einn Hitchcock-sakleysinginn er lendir í kringumstæðum sem hann hefur engin tök á sjálfur en leggur á einhvern skemmtilegasta flótta kvikmyndasögunnar með mörgum frægum senum eins og þeirri þegar flugvélin ræðst á Grant úti á sléttunni og hápunktinum í blálokin innan um forsetahausana á Rushmore-fjalli.

Cary Grant var að mínu mati aldrei betri og öflugri en í þessari mynd (hápunktur glæsilegs leikaraferils) og þetta er um leið ein af allra bestu myndum Hitch, sem sló fáar feilnótur á sínum ferli. Psycho er þó sú mynd Hitch sem mest áhrif hefur haft á mig. Þar er með snilldarbrag hrært í áhorfendanum, án blóðs og hryllings en með því að fara í undirmeðvitundina. Þar er hryllingurinn fenginn fram með klippingum og áhrifstónlist. Snilldin ein.

Það er sennilega til að æra óstöðugan að ætla að lýsa myndinni í smáatriðum. Það er aðeins hægt að sjá hana til að meta hana sem það meistaraverk er hún er. Ég er miklu meiri kvikmyndafíkill en nokkru sinni áhugamaður um stjórnmál. Hef skrifað mikið um kvikmyndir og stúderað formið mikið.

Ég held að enginn kvikmyndagerðarmaður hafi sennilega haft meiri áhrif á mig en Hitchcock. Gríðarlega vel gerðar myndir sem hann skildi eftir sig og þær tala sínu máli enn í dag - eru órjúfanlegur hluti kvikmyndasögunnar. Hver er uppáhalds Hitchcock-myndin þín?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband