Burt með alla neyslustýringu

KókEf það er eitthvað sem ég gjörsamlega þoli ekki er það forræðishyggja af öllu tagi. Tal um neyslustýringu landans fer alltaf jafn mikið í pirrurnar á mér. Enn einu sinni hefur nú Lýðheilsustöð minnt á sig og úrelt hlutverk sitt við að reyna að hafa vit fyrir fólki. Nú er hún að gagnrýna að í frumvarpi um lækkun virðisaukaskatts á matvælum verði virðisaukaskattur á gosdrykkjum og sykruðum svaladrykkjum lækkaður úr 24,5% í 7% og einnig falli vörugjald á þeim niður. Athyglisvert innlegg.

Með öðrum orðum: Lýðheilsustöð kvartar yfir að þessar vörur muni lækka hlutfallslega mest allra matvara þegar lögin taka gildi. Mér finnst mat Samtaka verslunar og þjónustu miklu raunsærra. Þau lýsa yfir vonbrigðum með að enn verði lögð vörugjöld á ákveðnar fæðutegundir, þ.e. sykur og sætindi. Það er eðlilegt að menn láti svosem í sér heyra. En hvert er hlutverk Lýðheilsustöðvar? Er það hlutverk hennar að miðstýra því að allir hugsi um sig og heilsu sína? Er það hægt? Getur bákn af því toga stýrt hugsunum og gjörðum annarra?

Ég er sammála Pétri Blöndal um það sem hann sagði á þingi í dag að það á að henda út í hafsauga öllum neyslustýringum. Hvað á ríkið annars með að skipta sér af því hvað ég og aðrir borða. Okkur á að vera treyst fyrir því að vega og meta sjálf hvað við látum ofan í okkur. Það getur enginn miðstýrt því hvað ég og þú borðar til fulls. Hversvegna er það þá reynt, spyr maður kæruleysislega? Muna menn annars eftir því þegar að Samfylkingin kom inn á þing með tillögu þess efnis að banna auglýsingar á óhollum matvörum í fjölmiðlum á vissum tíma dags. Þetta var dómadagsvitleysa af áður óþekktum kalíber. Hversvegna á ríkið að rétta upp hendina til að hafa áhrif á þessi mál?

HamborgariFólk verður að standa sjálft vörð um heilsu sína, það er út í hött að ríkið geri það með lagarömmum. Hvað er annars að frétta af nefndinni sem Halldór Ásgrímsson, þáv. forsætisráðherra, skipaði í október 2005 til að vinna að neylustýringu. Muna menn annars ekki eftir henni? Um var að ræða nefnd sem (svo orðrétt sé vitnað í orðagjálfurstexta Stjórnarráðsins) "greina átti vanda sem tengist óhollu mataræði, offitu, átröskun og hreyfingarleysi og koma með tillögur að samræmdum aðgerðum til að taka á vandamálum sem tengjast þessu." Jahá, það var ekkert annað.

Hvernig átti nefnd einhverra besservissera fyrir sunnan að taka á þessu máli? Er þetta ekki bara enn ein nefndin sem sett er á fyrir fólk sem ekkert að gera nema sitja á nefndarfundum? Kannski drekka nefndarmenn kaffi og svolgra í sig sætabrauðsfóðri á þessum fundum til að meta heilsustaðal þjóðarinnar. Ég er eins og vel hefur áður komið fram algjörlega á móti því að ríkið eigi að setjast niður á básum sínum til að móta hvað sé öðru fólki hollt eður ei.

Það verður hver og einn landsmaður að vega það og meta hvað þau setja ofan í sig eða drekka, sama hvort það er hard liqueur, kaffisull eða gosdrykkir. Það er móðgun við allt hugsandi fólk að setja á stofn silkihúfunefnd til að ráða hvað ég og nágranni minn megum éta eða drekka. Burt með neyslustýringu eða aðra forræðishyggju af þessu tagi!


mbl.is Lýðheilsustöð gagnrýnir væntanlega verðlækkun á gosdrykkjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentið. Já, það er ekki hægt annað en láta í sér heyra vegna þessa. Forræðishyggja er svo sannarlega óþolandi.

Stefán Friðrik Stefánsson, 9.12.2006 kl. 18:52

2 identicon

Ég er svo ósammála þér en það er annað mál. Ef ég hef eitthvað að athuga við neyslustýringu þá er það hvernig sinfóníutónleikar eru niðurgreiddir af almannafé svo að elítan á höfuðborgarsvæðinu fær að njóta hennar nánast ókeypis. Einnig landbúnaðarafurðir, sumar iðnaðarvörur (kjúlli og svín) og mjólkurafurðir sem eru mjög óhollar.

Agnar Guðmundsson (IP-tala skráð) 9.12.2006 kl. 20:10

3 identicon

veistu hvað offita, sykursýki og tannlækningar kosta samfélagið?  Það sýnir sig að "samfélagið" hefur ekki vit á því sjálft hvað er gott og skynsamlegt að setja ofan í sig!  Hvers hlutverk er það þá að benda fólki á heilsusamlegar neysluvenjur? og draga þar með úr kostnaði samfélagsins?  Þakka samt annars fyrir gott og öflugt innlegg í umræður líðandi stundar.

Sigurlaug (IP-tala skráð) 9.12.2006 kl. 21:13

4 identicon

Mig langar að koma með smá innlegg í þessa umræðu. Hvað finnst fólki um að íslenskir unglingar drekki 1 lítra af sykruðu gosi á dag? Með því sporðrenna þeir svo snúðum eða öðru sætmeti. Ekki skrítið að stór hluti þjóðarinnar sé annað hvort of þungur eða of feitur því margir hverjir hafa ekki hugmynd um hvað er þeim fyrir bestu að borða. Hollustuvara eins og grænmeti, ávextir, fitusnauðar matvörur og annað þess háttar á að vera ódýrara en gos, snakk, sælgæti, súkkulaðikex og sætar kökur. Sykur er "fíkniefni" ... því meiri sykur sem fólk borðar því meiri sykur kallar líkaminn á!! Hafið þið t.d. velt því fyrir ykkur að þegar vara er merkt "sykurlaus" er yfirleitt gífurlegt magn af fitu í henni og öfugt. Það er því misskilin hollusta að kaupa eitthvað sem er annaðhvort bara "sykurlaust" eða "fitusanutt". Mikið af mjólkurvörum (jógúrt og skyr með ýmsum bragðtegundum) innihalda mikið magn sykurs ... misskilin hollusta þar líka í mörgum tilfellum.  Margir trúa líka að sætuefni séu af hinu góða og betra að neyta þeirra en hreins sykurs en af tvennu illu er sykurinn "hollari" því mikil neysla sætuefna (s.s. aspartams) hefur slæm áhrif á líkamann og upp geta komið allskonar líkamlegir kvillar s.s. höfuðverkur, bólgur o.fl. Er eitthvað réttlæti í því að við sem viljum borða lífrænar vörur og hollan mat greiðum fyrir heilbrigðisþjónustu óhollustupúkanna vegna t.d. offitu, sykursýki, stoðkerfiskvilla eða óþæginda í meltingarfærum? Hver og einn ber ábyrgð á eigin heilsu og á að hugsa um matarræði, hreyfingu og annað slíkt en því miður eru margir ekki þannig þenkjandi. Það verður að neyslustýra sumu fólki með verðlagningu og kenna því hvað er hollt og hvað ekki. Ef það vill endilega kaupa óhollustuna á það að borga meira fyrir hana!

Birna (IP-tala skráð) 9.12.2006 kl. 22:20

5 identicon

Sammála birnu og sigurlaugu, á meðan við borgum fyrir heilbrigðisþjónustuna úr sameiginlegum sjóðum þá höfum við hagsmuni af því að stýra neyslu fólks á hvort sem er sígarettum eða sykri.

lego (IP-tala skráð) 9.12.2006 kl. 22:36

6 Smámynd: Sigurjón  Benediktsson

Af hverju á þá ekki að leggja niður almannatryggingar og það hryllilega bákn Tryggingastofnun RÍKISINS??? Af hverju á ÉG að borga fyrir heilsuskaða sem fólk veldur sjálfum sér sí og æ? Coca -cola rútan fer með jólaljós um borgina og fagnar árangri lobbýista Vífilfells. Til hamingju.

Sigurjón Benediktsson, 9.12.2006 kl. 22:37

7 identicon

Mig langar að benda þér á eftirfarandi - bein af heimasíðu Lýðheilsustöðvar: "Lýðheilsustöð tók til starfa 1. júlí 2003, samkvæmt lögum nr. 18/2003. Lýðheilsustöð tilheyrir heilbrigðiskerfi landsins og fellur undir stjórn heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis."

Peningar fyrir starfsseminni er að fá úr fjárlögum og úthlutun í einstök verkefni er samkvæmt áherslum á hverjum tíma. Þær áherslur er að fá úr heilbrigðiskerfinu, hvar mest þörf er.

Þjóðina þarf að fræða og það er akkúrat það sem batteríið var að gera - benda okkur hættulegan lífstíl landans og að ekki sé verið að bæta ástandið með að lækka verð á þessum vörum.  Það er mikill misskilningur hjá þér að stöðin standi í predikunum, þetta er fræðsla. Ef þú þarft ekki á fræðslunni að halda og getur haldið í við þig í neyslu, þá ætti verðlagnin á þessum vörum ekki að fara fyrir brjóstið á þér....er það ekki?

Meðan ég borga heilbrigðisþjónustuna þína þá ætlast ég til þess að þú gerir það sem þarf til að halda þér heilbrigðum - og ef ég get ekki stólað á að þú haldir heilbrigðum lífsstíl - þá eru bara möguleikarnir í stöðunni þeir að taka vörurnar algjörlega út af markaðnum eða verðleggja hana það hátt að þú hugsar vandlega um hvort það sé peninganna virði að kaupa hana.

Íris (IP-tala skráð) 9.12.2006 kl. 23:55

8 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þakka öllum fyrir þessi innlegg. Það er áhugavert að heyra skoðanir annarra. Ég er og hef alla tíð verið talsmaður valfrelsis. Ætli það sé ekki þessvegna sem að ég er kallaður hægrimaður og hef lagt hönd á plóg í stjórnmálum í þá átt. En ég tel að vonlaust sé að stjórna því hvað fólk borðar yfir höfuð. Er fólk að segja það að ríkið eigi eða geti stjórnað því? Ég hef hingað til borðað og drukkið það sem ég hef áhuga á og hef ekki leitað til ríkisins með það. Það getur allavega enginn sagt að fólk stjórnist af ríkinu hvað það borðar. Innri freistingar breytast ekki eftir höftum og boðum ríkisins. Uppeldið segir ansi margt. Geti foreldrar ekki alið upp börnin sín skammlaus geta heilbrigðisráðherra og aðrir forystumenn stjórnmála ekki tekið það að sér.

Stefán Friðrik Stefánsson, 9.12.2006 kl. 23:57

9 identicon

Vá hvað fólk er verulega vitlaust sem er fylgjandi neyzlustýringu eða hvaða annarri stýringu almennt. Viðkomandi vilja kannski leggja til að upp verði tekin ferðaskrifstofa ríkisins sem skipuleggur utanlandsferðir á "góða" staði fyrir landann? Jónína Ben yrði þar í forsvari og allur lýðurinn yrði sendur á heilsuhæli í þrjár vikur á hverju ári?

 Væri kannski ekki bara réttast til að Íris geti nú haft vit fyrir okkur hinum að lágmarkshreyfing verði lögfest? Svona til að spara í heilbrigðiskerfinu, líka lögfesta að konur verði að eignast 3 börn, hvorki fleiri né færri. Það er þjóðhagslega óhagkvæmt ef þjóðinni fækkar. Nú svo lögfestum við líka að allir verði að ná sér í háskólagráðu eða framhaldsiðnmenntun, annað er bara ekki hagkvæmt, allt of dýrt fyrir samfélagið að hafa ómenntað fólk, enda leggja þau svo lítið til samfélagsins í formi skattgreiðslna. Leggjum svo niður stöð tvö, skjá einn og sirkus og bjóðum einungis upp á heimildarþætti á stöð 1, ekki viljum við að fólk sé heima að horfa á sjónvarpið og fitna!!!!!

Páll Heimisson (IP-tala skráð) 10.12.2006 kl. 00:57

10 Smámynd: Sigurjón  Benediktsson

Af hverju á að nota skattpeningana mína til einhverra forvarna? Af hverju á ríkið, a la ég og þú, að vera "upplýsa" fólk um einhverja hollustu og skaða. Það getur bara gert það sjálft. Hver er kominn til að segja hvernig uppeldi er "skammlaust". Hver er kominn til að segja hvað eru góðir og vondir foreldrar? Bullandi forsjárhyggja veður hér uppi á blogginu sem ég hef ímugust á.

Sigurjón Benediktsson, 10.12.2006 kl. 08:51

11 identicon

Ég held að Stefán og fleiri séu ekki alveg að skilja hvað ég var að fara með þessum skrifum mínum hér að ofan. Þeir sem hugsa ekki um hvað þeir setja ofan í sig og verða of feitir eða þjást af öðrum neyslutengdum kvillum eiga að sjálfsögðu að borga meira fyrir óhollustuna þ.s. hún kostar samfélagið (okkur skattborgarana) meira en heilsuboltarnir sem borða hollan mat og hreyfa sig. Þú ert það sem þú étur ekki satt? Offita og sjúkdómar tengdir slæmu/óhollu matarræði eru álíka mikið heilbrigðisvandamál og reykingar!! Að mínu mati ætti sígarettupakkinn að vera allavega helmingi dýrari en hann er til að vega upp á móti kostnaði í heilbrigðiskerfinu sem hlýst af afleiðingum reykinga. Það sama á við um gos, sælgæti, snakk, sætar kökur og kex (sem ég get engan veginn flokkað undir "matvörur") ... þeir sem ekki taka ábyrgð á eigin heilsu og vilja endilega innbyrða þessa óhollstu eiga einfaldlega að borga meira fyrir hana en hollar matvörur. Lifið heil!  

Birna (IP-tala skráð) 10.12.2006 kl. 12:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband