Kofi Annan kveður sviðsljós fjölmiðlanna

Kofi Annan Komið er að leiðarlokum á litríkum ferli Kofi Annan á framkvæmdastjórastóli Sameinuðu þjóðanna. Í dag flutti hann sína síðustu lykilræðu í embættinu í háskóla í Missouri. Þar réðst hann með áberandi hætti að Bush Bandaríkjaforseta og ríkisstjórn hans. Lokapunktur hans í embættinu var ekki ósvipaður síðasta stóra viðtalinu við hann sem birtist nýlega en það var skörp gagnrýni vegna stöðu mála í Írak. Þann 1. janúar nk. mun Ban Ki-Moon, fyrrum utanríkisráðherra Suður-Kóreu, formlega taka við embættinu af Annan.

Annan hefur gegnt embættinu í tíu ár nú um áramótin, en það er hámarkstími sem framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna getur setið í forsæti hjá SÞ. Afríka hefur átt seturétt í embættinu nú samtals í 15 ár, en forveri Annans, Egyptinn Boutros-Boutros Ghali, ríkti á framkvæmdastjórastóli árin 1992-1997 en hlaut ekki stuðning til að sitja lengur í embætti, en Bandaríkjastjórn (Clinton-stjórnin) beitti neitunarvaldi til að stöðva tilnefningu hans til endurkjörs haustið 1996, svo að hann gat ekki náð endurkjöri og hann féll í forkönnun svokallaðri. Það var í fyrsta skipti fram að því sem sitjandi yfirmaður fékk ekki endurkjör.

Það blasir við öllum að mikil breyting verður er Ban Ki-Moon tekur við embætti framkvæmdastjórans. Kofi Annan hefur verið einn af mest áberandi framkvæmdastjórum Sameinuðu þjóðanna, lykilfriðarpostuli og holdgervingur fjölmiðlaathygli og fréttaumfjöllunar fyrir framkvæmdastjóraferilinn og auðvitað mun frekar á meðan honum stóð. Valið á Ban Ki-Moon í embættið í haust markaði þau þáttaskil að nú er valinn yfirmaður með öðru ívafi í Sameinuðu þjóðirnar, yfirmaður sem ekki er fjölmiðlastjarna og er diplómat sem lítið mun bera á miðað við hinn vinsæla Kofi Annan, sem hefur verið öflugur friðarpostuli og alheimsmálsvari friðar, en hann hlaut friðarverðlaun Nóbels fyrir fimm árum, árið 2001.

Annan var framan af farsæll í embætti sínu, en mjög hallaði á seinna tímabili hans. Árin 2004 og 2005 voru sérstaklega erfið fyrir hann, enda lá hann þá undir ámæli vegna málefna sonar síns, Kojo Annan. Var sérstaklega um það deilt hvort Annan hafi haft vitneskju um það að svissneskt fyrirtæki sem sonur hans starfaði hjá, hafði gert samninga í tengslum við áætlun Sameinuðu þjóðanna um olíusölu frá Írak meðan á viðskiptabanninu við landið stóð. Í formlegri úttekt á málinu kom fram að ekki væru nægar vísbendingar fyrir hendi um að Annan hefði vitað um málið en hann var þó gagnrýndur þar harkalega.

Í úttektinni í mars 2005 mátti finna mikinn áfellisdóm yfir Annan vegna þessa máls. Hafði verið talið fyrirfram að úttektin myndi hreinsa Annan af öllum grun, og því enginn vafi á að þetta var mesta áfall ferils hans, enda var hann ekki hreinsaður af málinu, enda þar m.a. sagt að hann hafi fyrirskipað eyðingu gagna eftir að rannsóknin hófst. Enginn vafi leikur á að orðspor Annans skaðaðist af öllu málinu. Fram að því hafði hann verið nær óumdeildur og talinn mr. clean innan Sameinuðu þjóðanna, en þetta mál skaðaði hann mjög og bar hann merki þessa hneykslismáls eftir það.

Það verður fróðlegt að fylgjast með nýjum framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna við yfirmannsskiptin um áramótin. Jafnframt verður mikið fylgst með því hvert hlutskipti Kofi Annans verður er hann hættir störfum; hvort að hann verði áfram sama fjölmiðlastjarnan og var á tíu ára framkvæmdastjóraferli eða muni draga sig mjög í hlé úr sviðsljósinu.

mbl.is Annan mun ávíta Bandaríkin í lokaræðu sinni sem framkvæmdastjóri SÞ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband