Er Hillary Clinton að missa tökin á stöðunni?

Hillary Rodham Clinton Eftir sigurför þeldökka þingmannsins Barack Obama til New Hampshire er nú um fátt meira rætt vestanhafs en hvort hann fari í forsetaframboð fyrir demókrata í kosningunum 2008. Fram til þessa hefur það verið metið nær öruggt að Hillary Rodham Clinton yrði frambjóðandi flokksins árið 2008 og myndi eiga auðvelt með að næla í útnefninguna í forkosningum Demókrataflokksins. En það er ekki tekið út með sældinni að vera lengi í forystu svona kapphlaups og það getur snúist upp í öndverðu sína er á hólminn kemur að lokum.

Fyrir forsetakosningarnar 2004 var mikið skorað á Hillary Rodham Clinton að gefa kost á sér gegn George W. Bush. Þá hefði hún getað snúið allri samkeppni upp bara með því að blikka augunum til flokksmanna. Hillary fór ekki fram enda vildi hún standa við loforð til íbúa í New York um að klára kjörtímabil sitt. Hún var hyllt sem sigurhetja væri á flokksþinginu í Boston árið 2004 og þau hjónin voru stjörnur þingsins þar sem krýna átti John Kerry sem forsetaefni flokksins í heimaborg sinni. Stjörnumáttur þeirra var þar yfirgnæfandi allt þingið, þó sérstaklega væri gætt upp á að þau kæmu saman fram bara fyrsta þingdaginn.

Það verða mikil tíðindi ef Hillary færi fram eins og staðan er orðin nú og myndi tapa fyrir t.d. Barack Obama eða einhverjum öðrum, enn hefur t.d. Al Gore, varaforseti Bandaríkjanna í forsetatíð Clintons 1993-2001 og forsetaefni flokksins árið 2000, ekki enn gefið upp hvort hann fari fram og hann hefur ekki enn sagt nei við þeim spurningum. Það má telja það svo að Hillary fari ekki fram nema telja sig örugga um útnefninguna og lykilstuðning um allt land. Líkur á því eru að minnka umtalsvert. Fari Obama fram verður útséð um að hún geti unnið stórt. Obama er enda þingmaður Illinois og eins og flestir vita er Hillary fædd þar og uppalin og bjó þar til fjölda ára, en varð síðar ríkisstjórafrú í Arkansas og er nú þingmaður New York.

Eins og ég benti í bloggfærslu hér neðar á síðunni var sigurför Obama til New Hampshire svo áberandi að hún er borin saman við það þegar að John F. Kennedy, 35. forseti Bandaríkjanna, kom þangað fyrir hálfri öld og lagði grunninn að lykilsigri sínum þar sem markaði hann sem forsetaefni demókrata og það sem tók við í sögulegum forsetakosningum sama ár þar sem hann lagði Richard M. Nixon, sitjandi varaforseta, að velli. Obama þykir hafa sjarmann og útgeislunina sem Kennedy hafði og virðist maður nýrra tíma meðal demókrata, ekki ósvipað því sem Bill Clinton var á sínum tíma. Fram að þessu hefur Hillary þótt stjarna á sviði flokksins. En er Hillary búin að missa sinn sjarma? Er hún að missa tökin á stöðunni? Þetta eru stórar spurningar óneitanlega.

Hillary hlýtur að hugsa málin vel næstu vikurnar um hvort hún fari fram. Varla fara bæði Hillary og Obama fram eins og staðan er. Margir hafa nefnt að sterkt væri að þau yrðu leiðtogapar flokksins. Það hefur hinsvegar breyst, enda hefur staða Obama styrkst mjög síðustu vikurnar og hann virðist geta komist langt án allrar hjálpar. Við þetta hljóta Clinton-hjónin að vera hrædd, enda hefur Hillary verið markaðssett sem stjarna flokksins og með hinn fullkomna pólitíska maka sér við hlið. Þær sögusagnir ganga svo að Clinton forseti gæti orðið varaforsetaefni eiginkonu sinnar. Það er ekkert í lögum sem bannar það, en sögulegt yrði það næði Hillary útnefningunni.

Það eru spennandi forsetakosningar framundan í Bandaríkjunum. Þetta verða fyrstu forsetakosningarnar frá árinu 1952 þar sem hvorki forseti eða varaforseti eru í kjöri og miklar breytingar blasa við Repúblikanaflokknum rétt eins og Demókrataflokknum. Repúblikanamegin stefnir flest í uppgjör Rudolph Giuliani og John McCain og ljóst er að hasar verður hjá demókrötum. Nú eru allra augu á Hillary og Obama, fleiri spá þó væntanlega í stöðu Hillary og fróðlegt að sjá hvernig hún spilar út næstu leiki í stöðunni í kjölfar sterkrar stöðu Barack Obama.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband