Johnson í lífshættu - demókratar óttast hið versta

Tim Johnson Öldungadeildarþingmaðurinn Tim Johnson liggur milli heims og helju eftir heilaskurðaðgerð á sjúkrahúsi í Washington í morgun. Falli hann frá munu repúblikanar halda völdum í öldungadeild Bandaríkjaþings, enda myndi fráfall hans leiða til þess að repúblikaninn Mike Rhodes, ríkisstjóri í S-Dakóta, myndi velja eftirmann hans í deildinni, sem myndi sitja til næstu kosninga. Búast má við að yfirlýsing verði gefin út frá spítalanum á hverri stundu um eðli veikinda hans, en CNN segir að heilsu hans hafi hrakað mjög síðustu klukkustundirnar.

Demókratar óttast nú hið versta og til marks um það fór Harry Reid, leiðtogi demókrata í öldungadeildinni, sem á að öllu eðlilegu að verða meirihlutaleiðtogi í þingdeildinni þann 3. janúar, á sjúkrahúsið síðdegis í gær og var þar langa stund með fjölskyldu þingmannsins. Við öllum blasir að það mun velta á heilsu Johnsons hvort demókratar geta tekið við völdum í öldungadeildinni. Nái hann ekki heilsu mun koma til þess að Dick Cheney, varaforseti, fái oddaatkvæðið í öldungadeildinni þar sem eftir er af forsetaferli George W. Bush, fram til janúarmánaðar 2009.

Það verður mjög fylgst með heilsu Tim Johnsons, enda velta valdahlutföll í valdameiri þingdeild Bandaríkjaþings á því hvort hann heldur heilsu eður ei. Tim Johnson hefur setið í öldungadeildinni frá árinu 1996 og var endurkjörinn í kosningunum 2002. Johnson verður sextugur síðar í þessum mánuði. Hann greindist með krabbamein árið 2004 en náði sér af því. Eiginkona hans hefur tvívegis verið greind með krabbamein.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Agnar Freyr Helgason

Helvíti finnst manni það nú durtalegt að ríkisstjórinn geti tekið fram fyrir lýðræðislegan vilja kjósenda og valið einhvern sér þóknanlegan.

En jújú, þetta er einstaklingskosning og allt það. 

Agnar Freyr Helgason, 14.12.2006 kl. 13:39

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Sæll Aggi

Takk fyrir kommentið. Já, það er nú bara þannig að það er ríkisstjórans að tilnefna þingmann forfallist sitjandi þingmaður fylkisins. Sú skipan getur þó aðeins virkað fram til næstu kosninga, en þær eru alltaf á tveggja ára fresti. Kosið er til fulltrúadeildarinnar annaðhvert ár en öldungadeildarsætin eru kjörin til sex ára en róterast á milli svæða svo alltaf getur þingmeirihluti fallið eða styrkst á tveggja ára fresti.

Nýlegasta dæmið um að ríkisstjóri hafi tilnefnt öldungadeildarþingmann var þegar að Paul Wellstone í Minnesota lést í kosningabaráttu í flugslysi. Þá valdi Jesse Ventura óháðan mann til sætisins, enda óháður sjálfur. Sú skipan gilti þó bara í nokkrar vikur enda voru þingkosningar í gangi. Árið 2000 vann Mel Carnahan í Missouri, en hann var þó látinn reyndar en nafn hans ekki hægt að taka af atkvæðaseðlinum. Ríkisstjórinn ákvað að skipa eiginkonu hans Jean í sætið, en henni mistókst að vinna sætið í eigin nafni árið 2002.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 14.12.2006 kl. 17:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband