Spennandi tímar framundan fyrir bíófíklana

Óskarinn Það eru spennandi mánuðir framundan fyrir okkur kvikmyndafíklana. Það eru margar góðar kvikmyndir væntanlegar fljótlega í bíó. Það sést vel af tilnefningum til Golden Globe verðlaunanna sem kynntar voru í vikunni að áhugaverðar og flottar myndir eru í hverju plássi og leikframmistöðurnar sem tilnefndar eru líta hver annarri betur út. Það má búast við að þessar tilnefningar setji mark sitt ennfremur á Óskarsverðlaunin, en t.d. hlutu allir sigurvegar leikaraverðlaunanna á Óskarnum í febrúar Golden Globe mánuði áður.

Þessi árstími og fyrstu mánuðir ársins eru oftast nær besti tími ársins í bíó, en þá koma Óskarsverðlaunamyndirnar og helsta gæðaefnið á hverju ári. Sérstaklega hlakkar mér til að sjá myndir á borð við Dreamgirls (kvikmynd Bill Condon) sem sögð er alveg virkilega góð og hefur hlotið mikið lof kvikmyndagagnrýnenda sérstaklega fyrir góðan leik Jennifer Hudson og Eddie Murphy, Little Children (kvikmynd Todd Field) með Kate Winslet og Jennifer Connelly, Bobby (kvikmynd leikarans Emilio Estevez) sem lýsir atburðunum á Ambassador hótelinu 5. júní 1968 - daginn sem Bobby Kennedy var myrtur, og Little Miss Sunshine með Toni Collette.

Það sem kom mér mest í opna skjöldu með Golden Globe var að Babel skyldi verða tilnefnd til fleiri verðlauna en The Departed. Ég hef heyrt mikið um það að Babel sé reyndar gríðarlega sterk og öflug kvikmynd, sem jafnvel geti komið á óvart á Óskarnum. Babel er leikstýrð af Alejandro González Iñárritu og skartar Brad Pitt og óskarsverðlaunaleikkonunni Cate Blanchett, sem hlaut Óskarinn árið 2005 fyrir The Aviator. Þessi mynd er að mér skilst alveg fullkomin og með allan pakkann. Kemur líka úr nokkuð óvæntri átt, enda áttu menn ekki von á henni svona sterkri í verðlaunapakkann eins og raun ber vitni. Sérstaklega lofa menn leik Brad Pitt í henni og hann sýni þar sitt allra besta til þessa í leik. Þetta er allavega mynd sem ég ætla mér að sjá.

Önnur mynd sem ég tel lofa góðu og verða sigursæla er The Last King of Scotland, en þar leikur Forest Whitaker sjálfan Idi Amin, fyrrum harðstjóra í Úganda, víst með svo miklum bravör að farið er að slá því föstu að hann fái bæði Golden Globe og Óskarinn. Hún er víst sögð allt í senn heillandi, óvægin, magnþrungin og blóðug. Þetta er mynd sem mun klárlega verða vinsæl í bíó er á klakann kemur. Whitaker hefði fyrir löngu átt að verðlauna fyrir sínar góðu leikframmistöður, t.d. fannst mér hann mjög góður í hlutverki Jody í The Crying Game, kvikmyndaperlu írska leikstjórans Neil Jordan. Svo ætla ég hiklaust að sjá Blood Diamond, en þar sýnir Leonardo DiCaprio víst ekki síðri snilldartakta en í The Departed.

Peter O´Toole á glæsilegt comeback skilst manni í myndinni Venus, og það er mynd sem ég verð að sjá sem mikill aðdáandi kvikmynda þessa 75 ára leikara. O´Toole er tilnefndur til Golden Globe og fær væntanlega Óskarstilnefningu. Hann hefur þegar hlotið átta slíkar á löngum og glæsilegum leikferli, en aldrei unnið. Hann hlaut heiðursóskarinn árið 2003 og þáði hann með þeim orðum að hann hefði nú helst viljað fá þann gyllta með öðrum hætti. O´Toole mun víst tjá karakterinn sinn í myndinni, Maurice, með miklum glæsibrag og spurning hvort hann fái loks aðalleikaraóskar eftir langa og stranga bið. Það er reyndar með ólíkindum að hann fékk ekki verðlaunin fyrir Lawrence of Arabia eða The Ruling Class.

Spænski leikstjórinn Pedro Almodovar er mikill snillingur. Hann hefur nokkrum sinnum hlotið óskarinn og Golden Globe, bæði fyrir myndir sínar og kvikmyndahandrit. Nú kemur frá honum enn ein eðalmyndin að manni skilst, Volver. Þar mun Penolope Cruz eiga mikinn stórleik og hún nokkuð trygg með óskarstilnefningu. Sem mikill aðdáandi kvikmynda Almodovars er bókað að ég sjái auðvitað Volver. Dame Judi Dench er enn einu sinni tilnefnd, nú fyrir leik sinn í kvikmyndinni Notes on a Scandal, þar sem hún leikur með Cate Blanchett. Enn ein myndin á listann. Maggie Gyllenhaal mun eiga stjörnuleik í kvikmynd sem ber heitið SherryBaby, hef heyrt vel talað um myndina og leik hennar. Nauðsynlegt að sjá hana.

Áður hef ég hér fjallað um kvikmyndina The Queen, en ég tel að Helen Mirren fái óskarinn fyrir að leika Elísabetu II drottningu. Hún hefur verið í bíó og kemur væntanlega fyrr en síðar á kvikmyndaleigurnar. En lengi má telja upp. Margar eðalmyndir á leiðinni og spennandi tími framundan eftir jólin í bíói hjá okkur kvikmyndafíklunum. Ef þið hafið fleiri myndir í pottinn en þessar er velkomið að bæta við og fara betur yfir þetta allt.

mbl.is Ólíklegt að Eastwood og DiCaprio fá tvöföld Óskarsverðlaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Uss. Þú verður að skella þér á James Bond-myndina nýjustu, klikkar ekki. Annars er margt í boði. Ráðlegg þér samt ekki að fara að sjá nýjustu Rocky myndina. Er þetta ekki sú sjötta? hehe alveg kostulegt hvað Stallone er orðinn langt leiddur.

Stefán Friðrik Stefánsson, 16.12.2006 kl. 23:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband