Dramatískt afmælisár Framsóknarflokksins

Halldór Ásgrímsson Framsóknarflokkurinn varð níræður um helgina. Það verður seint sagt að þetta afmælisár hafi verið markað sælu fyrir þennan elsta starfandi stjórnmálaflokk landsins. Halldór Ásgrímsson hætti þátttöku í stjórnmálum á árinu, eftir rúmlega þriggja áratuga stjórnmálaferil og tólf ára flokksformennsku. Hann hætti eftir slæma útkomu flokksins víða í sveitarstjórnarkosningum, en mun þó hafa kortlagt starfslokin vel áður. Halldór kvaddi forsætisráðherraembættið á eftirminnilegum blaðamannafundi á Þingvöllum annan dag hvítasunnu.

Formennsku Framsóknarflokksins og flokkskjarnann kvaddi Halldór formlega á flokksþingi í ágúst með hjartnæmri ræðu - ræðu þar sem hann fór yfir feril sinn og lykilverkefni. Það var í senn ræða tilfinninga og styrkleika, en ekki uppgjörs, merkilegt nokk. Það blasti við öllum sem upplifðu forsætisráðherraferil Halldórs að honum tókst aldrei sem skyldi að festa sig í sessi. Hver vandræðin komu fram ein af öðrum og svo fór sem fór. Að því kom að þáttaskil voru óumflýjanleg. Halldór fór greinilega sorgmæddur af velli, enda varð leki af ákvörðun hans til að leggja planað skipulag hans við framtíðarforystu flokksins í rúst. Hann lenti í þeirri stöðu að hafa ekki stjórn á endalokunum. Spinnið fór í rúst.

Halldór hafði í hyggju að tryggja samstöðu um Finn Ingólfsson, fyrrum viðskiptaráðherra og forvera Guðna Ágústssonar á varaformannsstóli, sem nýjan formann, eftirmann sinn. Vandinn í stöðunni varð fyrrnefndur Guðni. Samkomulag um Finn dagaði uppi er Guðni sneri við blaðinu og hætti við að hætta með Halldóri, eins og var um tíma talað um. Á blaðamannafundinum á Þingvöllum talaði Halldór fallega um Finn, allir skildu meiningu þeirra orða. Guðni varð æfur og strunsaði fúll í bragði frá Þingvöllum. Frægt varð þegar að fjölmiðlamenn eltu hann að bíl sínum á staðnum. Guðni leit á vinnulag Halldórs sem svik við sig og hið sama gilti um Halldórsarm flokksins sem kenndi Guðna um að samstaða um Finn væri af borðinu.

Snemma morguninn eftir blaðamannafundinn réðist Valgerður Sverrisdóttir, einn nánasti pólitíski samstarfsmaður Halldórs, af krafti að Guðna á Morgunvakt Rásar 1. Valgerður sagði að Guðni væri orðinn of gamall til að verða formaður flokksins. Valgerður vildi ekki neita því hvort hún sæktist eftir formennsku sjálf. Á ríkisstjórnarfundi síðar sama morgun sagði Guðni aðspurður vegna viðtalsins orðrétt við fjölmiðla: "Ég er árinu eldri en Valgerður". Kalt stríð var skollið á innan flokksins og hörð orð féllu í allar áttir. Síðar sama dag lýsti Finnur því formlega yfir að hann sæktist ekki eftir formennsku. Halldórsarminum vantaði skyndilega formannsefni. Í Kastljósi sama kvöld útilokaði Guðni í stjörnuframmistöðu ekki formannsframboð.

Væringar héldu áfram og deilt var um tímasetningu flokksþings, þar sem formannskjör færi fram. Samstaða var ekki heldur enn orðin ljós á þessu stigi hvenær Halldór hætti og ráðherrakapall Framsóknarflokksins virtist upp í loft án aðkomu Halldórs sem ráðherra. Sjálfstæðisflokkurinn tók að ókyrrast og vildi að Framsóknarflokkurinn tæki af skarið ef hann ætti að vera metinn samstarfshæfur stundinni lengur. Útlit var orðið jafnvel fyrir haustkosningar og upplausn stjórnarsamstarfsins. Framsókn gat ekki horfst í augu við kosningar á þessum tímapunkti. Á síðustu stundu fyrir miðstjórnarfund náðu Halldór og Guðni samkomulagi með öðrum ráðherrum um tímasetningu flokksþings og lykildeilum frestað um tíma, settlað yfir hásumarið.

Samstaða náðist daginn eftir miðstjórnarfundinn, 10. júní, um skipan ráðherraembætta. Skipan embætta varð að nýju með sama hætti og varð áður en Halldór Ásgrímsson varð forsætisráðherra. Sjálfstæðisflokkurinn hlaut forsætið en missti utanríkis- og umhverfisráðuneytið í hrókeringunni. Jón Kristjánsson ákvað að hætta í ríkisstjórn með Halldóri, en sitja hinsvegar áfram á þingi fram til kosninga. Geir Haarde varð forsætisráðherra, Valgerður Sverrisdóttir varð utanríkisráðherra fyrst kvenna, Magnús Stefánsson varð félagsmálaráðherra og Jónína Bjartmarz varð umhverfisráðherra í stað Sigríðar Önnu Þórðardóttur sem missti ráðherrastól og ákvað skömmu síðar að hætta í stjórnmálum.

Merkilegustu tíðindi hrókeringanna var að Jón Sigurðsson, seðlabankastjóri, varð viðskiptaráðherra í stað Valgerðar. Hann fórnaði bankastjórastól fyrir ótrygga tilveru stjórnmálanna. Innkoma Jóns kom sem þruma úr heiðskíru lofti fyrir stjórnmálaspekúlanta. Með ákvörðun um að hann yrði ráðherra þótti mörgum opinberast flétta Halldórsarmsins. Jóni væri ætlað að taka við forystu flokksins og fara í formannsframboð. Greinilegt var að innkoma hans sló Guðna út af laginu. Það var ennfremur gríðarlegt áfall fyrir Guðna sem varaformann flokksins að missa lykilráðuneyti að hálfu flokksins til Valgerðar Sverrisdóttur. Halldór og hans menn undirbjuggu greinilega vel fléttu mála og hún var listilega sniðin.

Reyndar var hún svo listilega sniðin að ljóst varð að Guðni átti við ramman reip að draga, enda Jón gamalreyndur innan flokksins og þar með marga bandamenn. Undir lok júnímánaðar lýsti Jón formlega yfir formannsframboði sínu í Morgunblaðinu. Hann varð á undan Guðna, sem byrjaði að hopa stig af stigi. Svo fór að hann ákvað að gefa áfram kost á sér til varaformennskunnar. Þá þegar hafði Jónína Bjartmarz tilkynnt um varaformannsframboð sitt. Lengi vel þótti stefna í að Jón yrði einn í kjöri til formennsku. Frægt viðtal við hann á NFS í júlí þótti klúðurslegt og Helgi Seljan sótti af krafti gegn Jóni, sem þótti orða hlutina klúðurslega. Hann missti heilagahjúp og svo fór að Siv Friðleifsdóttir ákvað formannsframboð sitt og tilkynnti það 10. ágúst.

Framan af formannsslagsins þótti Jón vera með örugga stöðu. Siv sótti að krafti og enginn vissi hvert stefndi er á hólminn kom í formannskjörinu sem fram fór á seinni flokksþingsdeginum þann 19. ágúst. Svo fór að Jón var kjörinn formaður, sá þrettándi í röðinni. Jón hlaut 412 atkvæði eða tæp 55%. Siv Friðleifsdóttir hlaut 336 atkvæði eða rúm 44%. Þótti Siv koma vel frá kosningunni og geta vel við unað. Guðni Ágústsson var endurkjörinn varaformaður og hlaut rúm 60% atkvæða og örugga kosningu. Þegar þarna kom sögu drógu Birkir Jón Jónsson og Kristinn H. Gunnarsson ritaraframboð sín til baka, enda krafa um konu í embættið. Svo fór að Sæunn Stefánsdóttir, eftirmaður Halldórs á þingi, var kjörin ritari.

Halldór sagði af sér þingmennsku formlega þann 5. september. Þrátt fyrir uppstokkun mála og miklar breytingar innan flokksins hækkaði fylgi hans ekki í skoðanakönnunum. Er líða tók að kjördæmisþingum til að ákveða aðferðir við val á framboðslistum varð örvænting áberandi þar innan veggja. Í Norðvesturkjördæmi og Suðurkjördæmi var prófkjörsleið ákveðin, í Reykjavíkurkjördæmum var valin uppstilling og í Suðvestur- og Norðausturkjördæmi var ákveðið að velja á listana á tvöföldu kjördæmisþingi. Í Norðvesturkjördæmi féll Kristinn H. Gunnarsson, harður andstæðingur ráðandi afla innan flokksins úr öruggu þingsæti og flest bendir til að hann horfi í aðrar áttir. Óvissa er yfir stöðu mála í því kjördæmi nú.

Í skugga lækkandi fylgis ákvað Jón að snúa af braut Halldórs Ásgrímssonar í Íraksmálinu þann 25. nóvember á miðstjórnarfundi. Sagði hann ákvarðanir stjórnvalda um Írak árið 2003 hafa byggst á röngum upplýsingum og hafi því verið rangar eða mistök. Þótti þetta athyglisvert innlegg. Var klappað lengi fyrir Jóni er hann mælti þessi orð á fundinum og var greinilegt að þetta mál hafði lengi hvílt á flokknum. Verður fróðlegt að sjá hvort ummæli formannsins hafi áhrif í skoðanakönnunum eftir jólin. Fleiri þáttaskil en þessi voru merkileg fyrir flokkinn á árinu en í marsbyrjun hætti Árni Magnússon, ein helsta vonarstjarna flokksins, í stjórnmálum við undrun margra. Hann hélt til starfa hjá Glitni.

Á nýársdag verður Halldór Ásgrímsson framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, staðsettur í Kaupmannahöfn. Á sama tíma og Halldór verður að hefja störf í fjarlægri borg reyna samstarfsmenn hans og lykilráðgjafar að snúa vörn í sókn fyrir flokkinn sem hann leiddi í 12 ár - snúa honum á sigurbraut eftir margra ára erfiðleika, en segja má að allt kjörtímabilið hafi verið ein sorgarsaga fyrir Framsóknarflokkinn. Það verður erfitt verkefni að snúa Framsókn í sigursveit eins og staðan er. Það verður fróðlegt að sjá hvernig það verkefni gengur næstu mánuðina. Lífróður er orðið sem manni dettur helst í hug yfir pólitískt verkefni Jóns Sigurðssonar á næstunni. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband