Syrtir í álinn fyrir Bush - líður að leiðarlokum

George W. Bush Seinna kjörtímabil George W. Bush á forsetastóli í Bandaríkjunum er senn hálfnað. Það verður seint sagt að það blási byrlega fyrir forsetann á þessum tímapunkti. Repúblikanar misstu völd í báðum þingdeildum í kosningum í nóvember og í kjölfar þeirra hrökklaðist Donald Rumsfeld, einn umdeildasti ráðherra Bandaríkjastjórnar síðustu áratugina, af ráðherrastóli í Pentagon, eftir að hafa ríkt þar í tæp sex ár. Óvinsældir forsetans eru miklar í könnunum og tekist er harkalega á um stefnu stjórnar hans í Íraksmálinu.

Í dag hélt Bush forseti síðasta blaðamannafund sinn í Hvíta húsinu á þessu ári. Eftir hálfan mánuð munu demókratar taka við völdum í þinginu og þá verða leiðtogar flokksins, Nancy Pelosi og Harry Reid, þingleiðtogar og mun Pelosi verða fyrsta konan sem forseti fulltrúadeildarinnar og jafnframt verða þá valdamesta konan í sögu Bandaríkjanna og önnur í valdaröðinni, á eftir Dick Cheney, varaforseta. Á blaðamannafundinum var auðvitað spurt út í yfirvofandi valdasambúð repúblikana og demókrata næstu tvö árin og stöðuna í Írak. Hvort tveggja er viðkvæmt umræðuefni fyrir forsetann skiljanlega.

Val forsetans á Robert Gates sem nýjum húsbónda í Pentagon bætir fyrir milli repúblikana og demókrata, enda hefði verið mjög hart á milli aðila með Rumsfeld áfram á sínum stað. Uppstokkun í Pentagon var nauðsynleg í þessari stöðu. Það var enda mjög áberandi að enginn þingmaður demókrata greiddi atkvæði gegn Gates, en tveir repúblikanaþingmenn greiddu atkvæði gegn honum og voru ekki par hrifnir með að hann tæki við völdum í Pentagon. Gates hefur þótt fara vel af stað, hann þykir vera mildari málsvari í varnarmálum og hefur t.d. náð breiðum stuðningi með því að fara bil beggja í mestu hitamálunum sem nú geisa. Talið er að hann muni njóta fylgis í embætti langt út fyrir raðir repúblikana, einkum vegna þess.

Það sem brátt verður mál málanna vestanhafs í stjórnmálaumræðu eru forsetakosningarnar eftir tæp tvö ár. Aðeins eru þrettán mánuðir þar til að forkosningar flokkanna hefjast í fylkjunum og valferlið hefst með formlegum hætti. Búast má þó við að flest forsetaefnin fari að lýsa yfir framboði sínu eftir jólin. Talið er að John McCain og Rudolph Giuliani muni tilkynna um forsetaframboð sín í janúar og öruggt má telja að Hillary Rodham Clinton fari af stað snemma á nýju ári. Mikið er rætt um hvað þeldökki þingmaðurinn Barack Obama muni gera, en það má telja öruggt að hann fari ekki af stað nema vita hug Hillary í þessum efnum. John Edwards mun vera nær öruggur um að fara í framboð og margir bíða eftir því hvað Al Gore gerir.

George W. Bush mun sitja á forsetastóli til 20. janúar 2009. Það er enn langur tími til stefnu þar til hann heldur alfarinn til Crawford í náðuga daga ellilífeyris en vald og áhrif sitjandi forseta sem getur ekki farið fram aftur fer jafnan hægt og rólega minnkandi eftir miðtímabilskosningar. Þær eru nýafstaðnar. Valdamissir repúblikana var áfall fyrir forsetann og rýrir vald hans mun hraðar en ella hefði orðið. Það stefnir í miklar breytingar með næstu forsetakosningum.

Það má enda telja að öruggt að eftirmaður Bush, sem verður 44. forseti Bandaríkjanna, verði ólíkur honum um margt, sama hvort það verður demókrati eða repúblikani.

mbl.is Bush: Erum hvorki að sigra né tapa í Írak
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband