Björn Bjarnason vildi leika á móti Penelope Cruz

Björn Bjarnason Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, er mikill kvikmyndaunnandi eins og vel hefur sést t.d. á vef hans, þar sem hann hefur skrifað nokkuð um kvikmyndir og fjallaði þar t.d. nýlega yfir nýjustu James Bond-kvikmyndina, Casino Royale, og The Departed, nýjustu kvikmynd Martin Scorsese, sem mikið er orðuð við Óskarinn, sem afhentur verður í febrúar. Í Fréttablaðinu í dag er Björn mikið spurður út í kvikmyndir og aðdáun sína á þeim í spurningadálknum um kvikmyndir þar sem fjöldi kvikmyndaáhugamanna hefur verið spurður áður.

Þar segist Björn aðspurður helst myndu vilja leika á móti spænsku leikkonunni Penelope Cruz ef hann mætti velja sér kvikmynd til að leika í, söguþráðinn, leikstjórann og leikara með sér. Nefnir hann Cruz og Baltasar Kormák og myndin yrði spennumynd með sagnfræðilegu ívafi. Við Björn erum mjög sammála um kvikmyndir þykir mér heilt yfir. Hann nefnir Marlon Brando, sem mestu kvikmyndastjörnuna í kvikmyndasögunni og telur dr. Hannibal Lecter mesta skúrkinn. Hefur þetta lengi verið mitt mat líka.

Björn segir að þýska úrvalsmyndin Der Untergang hafi haft mest áhrif á hann í bíó og hann telur Pál í Englum alheimsins uppáhalds íslensku kvikmyndapersónuna. Hann telur Marge Gunderson (í túlkun Frances McDormand) mestu hetjuna á hvíta tjaldinu og minnist á að versta mynd sem hann hafi séð hafi verið mynd með Steven Seagal. Þar er ég svo sannarlega sammála honum. Mér finnst þetta skemmtilegur spurningaflokkur hjá Fréttablaðinu.

Kvikmyndaáhugamenn eru margir og mjög ólíkir og fínt að skyggnast svona inn í kvikmyndapælingar þeirra. Ég verð þó að viðurkenna að ég taldi að John McClane í ógleymanlegri túlkun Bruce Willis í Die Hard-seríunni væri mesta hetja hvíta tjaldsins að hans mati og kom valið því á Marge skemmtilega á óvart. En gaman af þessu.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband