John Edwards í forsetaframboð

John EdwardsÞað kemur engum að óvörum að John Edwards, fyrrum öldungadeildarþingmaður, gefi kost á sér í forsetakosningunum 2008, en hann tilkynnti um framboð sitt í dag í viðtali á NBC. Edwards gaf kost á sér í forsetakosningunum 2004 og náði góðum árangri í forvali demókrata. Hann náði þó ekki að tryggja sér útnefningu flokksins og varð að lokum að lúta í gras fyrir John Kerry, öldungadeildarþingmanni frá Massachusetts. Edwards þótti þrátt fyrir ósigurinn stjarna forkosninganna, enda tiltölulega óreyndur stjórnmálamaður.

6. júlí 2004, á afmælisdegi George W. Bush, tilkynnti John Kerry að hann hefði valið Edwards sem varaforsetaefni sitt. Með framboðinu gaf Edwards eftir sæti sitt í öldungadeildinni, ólíkt Joe Lieberman, varaforsetaefni Al Gore i forsetakosningunum 2000, sem valdi að fara bæði fram með Gore og í Connecticut, sem þótti niðurlæging fyrir Gore. Lieberman og Gore töpuðu kosningunum en Lieberman vann endurkjör í sínu heimafylki og hélt því sínum sess í öldungadeildinni fyrir vikið. Edwards var kjörinn í öldungadeildina fyrir Norður Karólínu árið 1998 og hann valdi frekar þann kostinn að hugsa eingöngu um baráttuna með Kerry.

John Edwards þótti standa sig vel við hlið Kerrys í forsetakosningunum 2004 og margir töldu þá draumateymið sem myndi tryggja demókrötum sigurinn. Margir fundu að við Edwards að hann væri óreyndur stjórnmálamaður utan sex ára sinna í öldungadeildinni, en hann þótti svara vel fyrir sig og vera öflugt varaforsetaefni. Hann þótti þó gloppóttur og t.d. þótti mörgum hann vera of kurteisan við Dick Cheney í kappræðum varaforsetaefnanna í október 2004. Svo fór að Kerry tapaði kosningunum, naumlega þó, en úrslitin í Ohio réðu að lokum úrslitum kosninganna. Eftir að Kerry viðurkenndi ósigur hefur Edwards verið lítið áberandi, enda utan beins vettvangs í stjórnmálum.

Edwards stefnir hátt nú. Vandinn nú virðist vera að meginþungi baráttunnar stefnir í áttina til Hillary Rodham Clinton og Barack Obama, sem hafa ekki tekið ákvörðun um framboð en flestir bíða nú eftir að taki ákvörðun. Jafnframt er orðrómur um framboð Al Gore, forsetaefnis demókrata árið 2000, og jafnvel Kerrys sjálfs, sem tapaði síðast. Væntanlega munu þau mál skýrast fljótt á nýju ári. Tæpir 13 mánuðir eru til fyrstu forkosninga demókrata fyrir forsetakosningarnar 2008. Línur fara því brátt að skýrast, en mikil óvissa er þó enn yfir. Í forsetakosningunum 2008 verða hvorki forseti og varaforseti í endurkjöri, svo að miklar breytingar blasa við hvernig sem kosningarnar fara.

Edwards virðist leggja óhræddur í slaginn. Það verður fróðlegt að sjá hvernig að honum gengur er á hólminn kemur. Fullyrða má að forkosningaslagur demókrata verði bæði óvæginn og hvass.


mbl.is John Edwards ætlar fram í forsetakosningum 2008
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband