Davíð Oddsson verður ritstjóri Morgunblaðsins

Nær öruggt má nú teljast að Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, verði ritstjóri Morgunblaðsins síðar í vikunni. Sögusagnir um þetta hafa magnast í dag og forsvarsmenn Árvakurs hafa ekki slegið á þær. Því þarf varla sérfræðing til að sjá að þær eiga við rök að styðjast.

Auk þess þarf varla að undrast að nýir eigendur hafi leitað til Davíðs - bæði er hann traustur og leiftrandi penni. Hann lumar á ýmsum leyndarmálum sem eflaust munu síast út í blaðið á næstunni.

Þetta eru góðar fréttir fyrir dagblaðalesendur... búast má við líflegum leiðaraskrifum í Morgunblaðinu á næstunni og væntanlega verður engin lognmolla yfir þjóðmálaumræðunni.

Þegar Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, varð ritstjóri Fréttablaðsins var mikið talað um að þungi leiðaraskrifanna og vigt þeirra hefði aukist til muna.

Ekki þarf að efast um það þegar Davíð Oddsson fer að skrifa úr ritstjórastóli í Hádegismóum.

mbl.is Ekki búið að ráða nýjan ritstjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Ég er alvarlega að hugsa um að segja Moggnum upp ef þetta er raunin.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 21.9.2009 kl. 21:07

2 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Þorsteinn Pálsson var ritstjóri dagblaðsins Vísis áður en hann varð þingmaður og ráðherra, svo Þorsteinn Pálsson var einfaldlega að snúa aftur á sitt gamla starfssvið með ritstjórn Fréttablaðsins. Það var svo hægt að færa fyrir því rök að útgefandi Fréttablaðsins hefði af ráðningunni viðskiptalegan ávinning og yki tiltrú blaðsins með ráðningu Þorsteins.

Ef Davið verður gerður ritstjóri Moggans er það hinsvegar hrein og klár pólitísk stefnuyfirlýsing eigenda Moggans. Davíð verður gerður að ritstjóra þó ljóst megi vera að áskrifendum Moggans muni fækka við það (flestir stuðningsmenn DO eru áskrifendur að Mogganum fyrir). Davíð væri þá gerður að ritstjóra þrátt fyrir verulega viðskiptalega áhættu og fórnarkostnað af því pólitíska markmiði sem eigendurnir stefndu að, þ.e. að koma í veg fyrir ESB aðild og verja kvótaeigendur og hvalafangara.

Helgi Jóhann Hauksson, 22.9.2009 kl. 04:04

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Vonandi skrifar hann mikið

Gunnar Th. Gunnarsson, 22.9.2009 kl. 08:18

4 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Vonandi gengur þetta eftir, að Davíð Oddsson verði ritstjóri Morgunblaðsins.Hvað sem um ritstjórn og skoðanir Styrmis Gunnarssonar verður sagt, þá hrakaði blaðinu þegar hann hætti og er nú orðið hálfleiðinlegt, svipað og Fréttablaðið.Ef fólk hættir að vita að Morgunblaðið er til, þá deyr það drottni sínum,verður sjálfdautt.Það er engin hætta á að slíkt gerist undir ritstjórn Davíðs.

Sigurgeir Jónsson, 22.9.2009 kl. 09:57

5 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Hvað þú hefur fyrir þér í þessu þá væri þetta hræðilegt ef „flokkseigendur“ Sjálfstæðisflokksins breyta þessum vinsæla fjölmiðli, blaði allra landsmanna.

Morgunblaðið yrði að íslenskri útgáfu Pravda þar sem mjög þröng sjónarmið væru ráðandi sem ekki eru sérlega vinsæl. Þurfum við á slíku að halda?

Hræða sporin ekki?

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 22.9.2009 kl. 10:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband