Ford fellir áfellisdóm yfir Bush og Íraksstríðinu

Gerald FordFlogið verður með lík Gerald Ford, 38. forseta Bandaríkjanna frá Kaliforníu til Washington með Air Force One á morgun. Á sunnudag og mánudag mun líkkista hans hvíla á virðingarbörum í Capitol Rotunda, hvelfingu þinghússins í Washington, og viðhafnarútför hans fer fram í dómkirkjunni í borginni á þriðjudag. Í skugga þessarar hinstu kveðju í garð Fords og stjórnmálaferils hans sem fram fer hina næstu daga er hulunni svipt af stórmerkilegu viðtali Bob Woodward við Ford forseta frá árinu 2004 sem aldrei hefur verið birt opinberlega áður.

Í þessu viðtali sem birt var í Washington Post fellir Ford algjöran áfellisdóm yfir George W. Bush, forseta Bandaríkjanna, og verklaginu við upphaf Íraksstríðsins. Ford er mjög beinskeyttur í gagnrýni sinni og skiljanlegt miðað við innihald orða þessa reynda þingspekings og stjórnmálamanns, sem varð forseti Bandaríkjanna án þess að sækjast aldrei fyrirfram eftir embættinu, að hann hafi viljað að viðtalið yrði fyrst birt að honum látnum. Það er enda svo afgerandi gagnrýni að hann hefði aldrei farið úr eftirlaunakyrrðinni til að tjá þær í viðtali eða farið í eld umræðunnar.

Bob Woodward hefur ritað margar bækur um stjórnmál og hefur í áratugi verið einn af helstu stjórnmálaskýrendum Washington Post. Woodward afhjúpaði ásamt Carl Bernstein eitt umfangsmesta pólitíska hneykslismál 20. aldarinnar, sjálft Watergate-málið, sem leiddi að lokum til afsagnar Richards Nixons af forsetastóli í Bandaríkjunum og þess að Gerald Ford varð forseti Bandaríkjanna. Þetta viðtal eru vissulega stórtíðindi og það er afhjúpað á þeim tímamótum að Ford hefur kvatt þetta líf og heldur hinsta sinni til Washington. George W. Bush mun flytja ræðu við útför Fords.

Athygli vakti að Bush ákvað að flýta ekki för sinni úr jólaleyfi í Crawford í Texas til að vera viðstaddur er komið verður með líkkistu Fords í þinghúsið á morgun þar sem athöfn á að fara fram. Þess í stað mun hann ekki halda til Washington fyrr en á nýársdag skömmu áður en þinghúsinu verður lokað, en landsmönnum gefst kostur að fara að kistu Fords í þinghúsinu til að votta honum virðingu sína. Eftir að þetta viðtal var afhjúpað ákvað Bush að vera um kyrrt í Texas framyfir helgina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband