Leggjum niður áramótaskaupið

Skaup 2006 Ég er enn að jafna mig á áramótaskaupinu sem okkur landsmönnum var boðið upp á í gærkvöldi. Það var með þeim hætti að mér stökk varla bros á vör og það sama gilti um þann félagsskap sem ég var staddur í, það var lítið sem ekkert hlegið. Þetta er meira og minna ekki húmor sem ég er hrifinn af. Ég brosti yfir einum þrem atriðum, en þar með var það algjörlega upp talið.

Það er því miður að verða árviss viðburður að ekki sé horfandi á þetta áramótaskaup. Miklu er kostað til, en það verður lélegra með hverju árinu. Ég man ekki eftir almennilegum skaupum síðan að Óskar Jónasson gerði tvö eftirminnileg árin 2001 og 2002. Skaup Spaugstofunnar árið 2004 var allt í lagi en ekkert meistaraverk, en það var þó hægt að hlæja að því og hafa gaman af.

Að þessu sinni var talað niður til aldraðra, öryrkja og þeirra sem minna mega sín. Hafi þetta átt að vera húmor féll hann í senn bæði dauður og flatur í mínum húmorsbókum, sem eru á eilítið hærra plani. En semsagt; mikil vonbrigði og bömmer yfir þessu skaupi. Einfalt mál.

Á ekki bara að fara að leggja niður þetta skaup og huga að betri dagskrárgerð yfir allt árið, frekar en dæla peningum í einn misheppnaðan sjónvarpsviðburð? Ég tel að það væri affarasælla.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur fannberg

sammála tími á að leggja það niður (skaupið) sá það að visu ekki grunaði hvernig það yrði og stillti á aðra stöð

Ólafur fannberg, 1.1.2007 kl. 12:55

2 Smámynd: TómasHa

Það er stöðugt alengara að menn bíða ekki eftir skaupinu, heldur halda áfram að skjóta flugeldum.  Það útskýrir auðvitað að hluta til aukna sölu á flugelda

TómasHa, 1.1.2007 kl. 13:02

3 Smámynd: Sveinn Hjörtur

Innilega sammála þér félagi. Tími komin á að breyta þessum málum. Palli tók af skarið með ávarpið og nú er bara að nota peningin sem fer í skaupið, í annað. Jón Gnarr og Þorsteinn Guðmundsson redduðu skaupinu í gær. Annað var ekki gott.

Sveinn Hjörtur , 1.1.2007 kl. 13:19

4 Smámynd: Sigríður Laufey Einarsdóttir

Áhugi minn hefur dofnað ár frá ári. Nú er komið nóg, ekkert um að vera og engin ástæða fyrir útvarðið að borga fyrir skaup. Hef ekki orð yfir hvað ég sá og heyrði. Ef til vill lágkúrulegt bull ef svo mætti að orði komast?

Það er t.d.löngu orðin úrelt plata þegar Örn Árnason hermir eftir Davíð Oddssyni, var fyrst góðlátlegt grín en löngu orðið persónulegt skítkast. Sama má segja um Valgerði Sverrisdóttur. Þeir sem ráða nota aðstöðu sína óbeint á pólitískan hátt með lákúrulegum hætti. Löngu kominn tími til að hreinsa til hjá Ríkisútvarpinu.

Sigríður Laufey Einarsdóttir, 1.1.2007 kl. 13:27

5 identicon

Ósammála! Að mínu mati besta Skaup í langan tíma. Jafnvel það allra besta. Ótrúlega skemmtilegur vinkill á mál málanna á nýliðnu ári.

http://skessa.blog.is/blog/skessa (IP-tala skráð) 1.1.2007 kl. 13:46

6 Smámynd: Sigurlín Margrét Sigurðardóttir

Sammála þér nema því að leggja það niður, vil fá Óskar Jónsson næst að leikstýra því. Hafðu svo gleðilegt nýtt ár!

Sigurlín Margrét Sigurðardóttir, 1.1.2007 kl. 14:29

7 Smámynd: Sigríður Laufey Einarsdóttir

Er ekki í neinni fýlu bara að reyna að segja skoðun mína með málefnalegum hætti. Enginn í stórfjölskyldunni "fýlaði skaupið." Auðvitað þyrfti að fara fram fagleg skoðanakönnun þar sem allar kynslóðir sætu við sam borð ef ætti að fá viðmiðun. Það er spurning hvað ríkisútvarpið á að leggja fram mikið fé af almannafé í skaup sem að mínu mati þjónar lægstu hvötum okkar? 

Sigríður Laufey Einarsdóttir, 1.1.2007 kl. 14:38

8 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Viðurkenni með glöðu geði að ég rak upp hlátursrokur öðru hvoru, ekki vegna þess að skaupið væri að skemmta mér, fekar vegna þess að þjóðin sat öll fyrir framan sjónvarpið og lét hafa sig að fífli með því. ;)

Heimir Lárusson Fjeldsted, 1.1.2007 kl. 14:41

9 identicon

Sammála þér.Legg líka til að "síðasta lag fyrir fréttir" fái að fjúka.

Róbert Trausti Árnason (IP-tala skráð) 1.1.2007 kl. 15:54

10 identicon

Hvernig fannst þér skaupið? Þetta er spurning sem að vel flestir kannast við að fá.Og ávalt eru skiptar skoðanir á því ekki síst vegna þess að "húmor" manna er svo mismunandi.Persónulega fannst mér skaupið núna bara fínt.Ekki það besta sem ég hef séð en vel yfir meðallagi og allir sem að það sáu með mér hlógu vel og mikið þannig að það féll í kramið hjá okkur. 

Sigurður Eðvaldsson (IP-tala skráð) 1.1.2007 kl. 16:57

11 identicon

Í fyrsta lagi held ég að flestum sé það ljóst að það var verið að gera grín að framkomu landsmanna við þá sem minna mega sín. Haldiði virkilega að leikstjórinn hafi verið að gera grín að öryrkjum með hjólastólaatriðinu? Get real.

Og annað, ég hló ekkert mikið að þessu skaupi en ég var allavega ekki hneykslaður yfir amatörslegum vinnubrögðum og lélegum leik eins og oft áður. Öll umgjörðin svo sem myndataka, lýsing, hljóð og fleira var algerlega til fyrirmyndar, og mun betri en áður hefur sést í skaupinu.

Fólk þarf bara aðeins að chilla á kröfunum. Að brosa 5 sinnum og hlæja einu sinni er ansi gott.

Haukur (IP-tala skráð) 1.1.2007 kl. 17:10

12 identicon

Sæll Stebbi og gleðileg ár.

Ég get að mörgu leiti verið sammála því að þetta skaup var ekki upp á marga fiska, lítið sem hægt var að hlæja af, rétt að maður brosti einu sinni eða tvisvar.

Mér finnst hins vegar með ótrúlegt að lesa það hér að ekki megi gera grín að einhverjum þjóðfélagshópum vegna þess að fólk setur það á einhverja bása sem það vill hafa þá í.  Ég er sjálfur öryrki og hef verið alla ævi.  Verð að segja það að mér finnst það vera meiri lítilsvirðing við mig að ekki megi gera grín að mér vegna þessa heldur en hitt.  Það skiptir engu máli í hverslags stöðu eða aðstæðum menn eru, það skiptir meira máli hvernig grínið er fram sett.

Mín skoðun er sú að til þess að gera gott skaup þá þurfi það að biggjast á mikilli tónlist og að setja saman smellna og létta teksta við þekkta dægurlagasmelli frá árinu sem verið er að fjalla um.

Með nýjárs kveðju,                                                                                   Rúnar Þórarinsson 

Rúnar Þórarinsson (IP-tala skráð) 1.1.2007 kl. 17:16

13 Smámynd: Júlíus Valsson

Þetta var fínt skaup. Ég gat með góðri samvisku hlustað á nýju Bítlaplötuna á meðan í ró og næði án þess að missa af einhverju fyndnu.  Listi Mannanafnanefndar yfir samþykkt mannanöfn finnst mér fyndnari en þetta skaup.   

Júlíus Valsson, 1.1.2007 kl. 17:29

14 identicon

Sammála þessarri færslu í öllu og einu. Ömurlegt Skaup og skammarlegt á að horfa. Klukkutími af ævi minni sem ég fæ aldrei aftur. og sbr. úr færslu sem ég skrifaði sjálf, hérna:  http://fruheimsmeistari.blog.is/blog/fruheimsmeistari/entry/96115/

"Satt best að segja þá hrundi þessi vinsælasti þáttur landsmanna niður á lágkúrulegt plan í gær og þarf mikið að gerast til að ná honum upp aftur. Í hreinskilni sagt þykir mér að Reynir Lyngdal eigí opinberlega að biðja afsökunar á þættinum í heild.
Þáttur sem fólk frá aldrinum fimm upp í hundrað ára situr yfir þetta kvöld ár hvert gerir sér meiri væntingar en lélega paródýu af South Park þætti.
Ég skora á RÚV að að sýna heldur gömlu góðu stillimyndina þennan klukkutíma að ári liðnu , fremur en að taka þátt í slíkum óþroskuðum leik. Satt best að segja þá hrundi þessi vinsælasti þáttur landsmanna niður á lágkúrulegt plan í gær og þarf mikið að gerast til að ná honum upp aftur. Í hreinskilni sagt þykir mér að Reynir Lyngdal eigí opinberlega að biðja afsökunar á þættinum í heild.
Þáttur sem fólk frá aldrinum fimm upp í hundrað ára situr yfir þetta kvöld ár hvert gerir sér meiri væntingar en lélega paródýu af South Park þætti.
Ég skora á RÚV að að sýna heldur gömlu góðu stillimyndina þennan klukkutíma að ári liðnu , fremur en að taka þátt í slíkum óþroskuðum leik.
"

Vala (IP-tala skráð) 1.1.2007 kl. 20:18

15 Smámynd: halkatla

vó! heyrið mig nú.... ég hef aldrei séð fyndnara skaup, og ég er svona klassískur gamall áramótaskaupsaðdáandi og ég hlæ ekki ef það er verið að gera ljótt grín að fólki eða dýrum. Þið þurfið að horfa á skaupið aftur - það var snilld!!! og það líkist ekkert þeim skaupum sem áður hafa verið. Þarna var allt hvaðeina tekið fyrir. Þetta var ótrúlegt, og stórskemmtilegt, en þetta var líka einkahúmor alveg einsog Silvía Nótt í eurovision. Ég hló að öllu sem hún gerði á Íslandi og í Athenu í aðdraganda og eftirköstum keppninnar, og sama með þetta áramótaskaup. Baugsmyndin er greinilega besta mynd ársins. Skellið ykkur á rúv.is og rifjið þessa dramatísku snilld upp

halkatla, 1.1.2007 kl. 21:53

16 identicon

ég hætti að horfa á skaupið þegar um 20 mín voru liðnar, hafði enga ánægju af og gafst hreinlega bara upp á að horfa, hrein tímaeyðsla í gærkvöldi og mikil vonbrigði.

odus (IP-tala skráð) 1.1.2007 kl. 22:18

17 identicon

Ég er ósammála því að þetta hafi verið lélegt skaup. Eitt af því betra sem boðið hefur verið uppá síðan þetta byrjaði að dala. Virkilega skemmtilegt og uppfært til nútímans og húmorsins sem við höfum smám saman verið að nota síðan Fóstbræður.. Td gerðu Fóstbræður, svínasúpann og allt þetta dóterí grín af fötluðum og þeim sem minna meiga sín. Það finnst mér allt í besta lagi, fatlaðir eru ekki húmorslaust fólk. Þau gera grín stundum af sjálfum sér og hafa ekki einkarétt á því. Einsog einhver skrifar hér að ofann þá er þetta skaup mikil ádeila á hvernig við högum okkur, og það má sko gera grín að því vegna þess að það væri stundum bara hægt að sýna sumt af því sem fólk segir og gerir í skaupinu sem grín.

Stefan (IP-tala skráð) 1.1.2007 kl. 22:25

18 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir allar kveðjurnar.

Það er alveg greinilegt að ekki erum við öll sammála um þetta áramótaskaup. Það er eins og það er. Ekkert við því að gera. Gott að fá bara skoðanir ykkar á því og heyra rödd annarra á því sem mér finnst.

nýárskveðjur

Stefán Friðrik Stefánsson, 1.1.2007 kl. 23:36

19 identicon

Þetta skaup var gott til að byrja með en síðan slaknaði á því þegar á leið.. 2,5 stjörnur af 5

Bergur Þorri Benjamínsson (IP-tala skráð) 2.1.2007 kl. 01:00

20 Smámynd: Hlynur Hallsson

Sæll Stebbi,

mér fannst þetta skaup frábært. Vel gert og skemmtilegt. Sá hópur sem ég var í á gamlárskvöld skemmti sér afar vel og hló mikið.

Bestu nýárskveðjur,

Hlynur Hallsson, 2.1.2007 kl. 10:43

21 Smámynd: Halldór Eldjárn

Hvað með bara að þú hættir að horfa á skaupið og sért einn af þeim fáu sem vilja frekar fara út og skjóta rakettum kl. 22 á gamlársdag og skiptast á politically correct bröndurum við þína vini, fyrst þú þolir ekki víðsýnan og nýbreytilegan húmor.

Þótt þér hafi ekki þótt það skemmtilegt, þarf ekkert að leggja það niður. Og ég skal segja þér að þó það sé smá íhaldssemi að hafa Áramótaskaupið einhverja hefð, þá er það sennilega einn besti spegillinn yfir þróun íslensks húmors og nýbreytni.

En svo er náttúrlega eitt sem ekki er hægt að breyta. Þú ert greinilega „of fínn“ fyrir þennan húmor.

Halldór Eldjárn, 4.1.2007 kl. 18:25

22 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Ég sé ekkert athugavert að ég tjái mínar skoðanir. Það er varla við því að búast að allir verði sammála um skaupið. Það er fastur liðir að einhver sé ekki sáttur við skaupið og varla er það tíðindi. Mér fannst mikilvægt að segja mitt mat og það hefur greinilega vakið skoðanir annarra hér og yfir því kvarta ég ekki. Eins og ég hef sagt voru þarna nokkur góð atriði inn á milli sem mér fannst fín. Ég sat allavega ekki steinrunninn yfir því öllu, en ég virðist ekki vera einn um þessa skoðun hér. Öll höfum við okkar húmor, en það er sennilega vanþakklátasta verkefni ársins að gera þetta skaup.

Stefán Friðrik Stefánsson, 4.1.2007 kl. 20:00

23 identicon

Ég veit að smekkur manna er misjafn en ég á enn eftir að heyra í einhverjum úr minni fjölskyldu eða vinahópi sem hafði gaman af þessu skaupi.  Mér stökk varla bros á vör og sonur minn spurði á tveggja mínútna fresti hvort þetta væri ekki að verða búið.  það er eins og maður verði nú samt að horfa til enda, ef það skyldi rætast úr.  Ég glotti aðeins yfir Nylon söngnum og kannski einu eða tveimur atriðum til viðbótar.  Fannst gervi Gísla á Uppsölum vel gert og jú, kannski húmor í því þó mér finnist alltaf dapurlegt að gera grín að látnu fólki.

 Skaupið í fyrra var að mínu mati það allrabesta í áratugi.  Þar fór Björgvin Franz á kostum og ég hló mig máttlausa.  Minnir að það hafi svo verið skaupið frá 1981 sem var svo skemmtilegt að vinahópurinn kom saman hvað eftir annað til að horfa á það aftur og aftur. 

Lífið heldur víst áfram þó skaupið hafi ekki fallið okkur öllum í geð.  Mér blöskrar nú meira peningarnir sem fara í beinar útsendingar af fótboltaleikjum en í árámótaskaupið.  Held að ekkert annað sjónvarpsefni fái eins mikið áhorf og ekki eru auglýsingarnar á undan og eftir skaupinu alveg ókeypis. 

Væri ekki ráð að bjóða bara skaupið út?  Þeir sem taka skaupið að sér fái bara auglýsingatekjurnar og verði svo bara að standa og falla með því?

H. (IP-tala skráð) 6.1.2007 kl. 17:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband