Er Eiríkur guðfaðir ríkisstjórnarinnar?

Halldór Ásgrímsson Halldór Ásgrímsson, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar og fyrrum forsætisráðherra, upplýsti í viðtali á gamlársdag á Stöð 2 að Eiríkur Tómasson, lagaprófessor, hefði haft milligöngu um myndun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um páskana 1995, en stjórnin var mynduð á örfáum dögum eftir páskana í apríl 1995. Milliganga Eiríks hefði leitt til þess að viðræður Halldórs og Davíðs Oddssonar hefðu hafist.

Á þeim tímapunkti að ríkisstjórnin var mynduð voru í gangi stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks í kjölfar alþingiskosninga 8. apríl 1995, en stjórn flokkanna hafði setið frá árinu 1991 og haldið velli í kosningunum en með minnsta möguleika meirihluta, 32 alþingismenn af 63. Svo fór að Davíð mat það ekki öruggan meirihluta og hann hóf viðræður við Halldór. Lengi hefur verið um það rætt hvort einhver hafi haft milligöngu um þær viðræður í fyrstu.

Viðræður milli þeirra hófust um páskana 1995 meðan að viðræðum stjórnarflokkanna hafði ekki verið slitið. Stjórnin var mynduð á örfáum dögum. Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson höfðu aldrei unnið saman í stjórnmálum þegar að þessi stjórn var mynduð. Þeir höfðu aldrei setið saman í ríkisstjórn og Halldór hafði verið einn af leiðtogum stjórnarandstöðunnar kjörtímabilið 1991-1995 þegar að Framsóknarflokkurinn sat í fyrsta skipti utan ríkisstjórnar frá því að minnihlutastjórn Alþýðuflokksins undir forsæti Benedikts Gröndals sat 1979-1980. Það hefur því lengi verið ljóst að einhver hefði einhver haft milligöngu um viðræðurnar.

Í viðtölum á þessum tíma var líka mikið um það rætt hvort að Davíð og Halldór gætu unnið saman í ríkisstjórn. Það reyndust óþarfa áhyggjur og sennilega má telja bandalag þeirra félaga og gott samstarf með þeim sterkari í íslenskri stjórnmálasögu. Samstarf þeirra stóð samfellt í áratug, eða þar til að Davíð Oddsson hætti í stjórnmálum árið 2005, en Halldór hætti eins og kunnugt er innan við ári síðar í stjórnmálum sjálfur. Ein mestu vatnaskilin á pólitískum ferli Halldórs Ásgrímssonar voru alþingiskosningarnar 1995, fyrstu kosningarnar sem Halldór leiddi Framsóknarflokkinn. Í þeim kosningum vann flokkurinn nokkurn sigur, hlaut 15 þingsæti og var með mjög vænlega stöðu.

Það vakti mikla athygli í kveðjuræðu Halldórs sem formanns Framsóknarflokksins í ágúst í fyrra að Framsóknarflokkurinn hefði að loknum kosningunum 1995 boðið A-flokkum Alþýðuflokks og Alþýðubandalags samstarf, sem hefði vænlega orðið undir forsæti Halldórs. Alþýðuflokkurinn afþakkaði það og hélt í viðræður við Sjálfstæðisflokkinn. Eins og allir vita ákvað Sjálfstæðisflokkurinn hinsvegar að slíta samstarfinu og ganga til samninga við Framsóknarflokkinn við milligöngu einhverra þar um. Nafn Eiríks Tómassonar í þessari umræðu vekur mikla athygli. Úr varð sögulegt samstarf í íslenskri stjórnmálasögu sem enn er við völd.

Það er enginn vafi á því í mínum huga að í sögubókum framtíðarinnar verður stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks metið farsælt og það hafi skipt íslenskt þjóðarbú miklu. Farsæl forysta flokkanna hafði mikil áhrif til hins góða. Forysta Davíðs Oddssonar og Halldórs í því samstarfi var öflug og setti mark á íslensk stjórnmál, og verður lengi í minnum höfð. Þessir flokkar náðu saman um að mynda grunn að öflugu samstarfi, sem er orðið langlífasta stjórnarsamstarf Íslandssögunnar.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband