Blæs ekki byrlega fyrir Valgerði Sverrisdóttur

Valgerður Sverrisdóttir Það blæs ekki byrlega fyrir Valgerði Sverrisdóttur, utanríkisráðherra, og framsóknarmönnum hér í Norðausturkjördæmi. Í nýjustu mánaðarkönnun Gallups mælist Valgerður ein inni af hálfu Framsóknarflokksins í kjördæminu. Staðan er sú að flokkurinn mælist með 15% fylgi og einn þingmann, hefur tapað 17 prósentustigum og þrem þingmönnum frá kosningum 2003. Það er því mikið fyrir borð hjá Valgerði og hennar fólki eins og staðan er núna.

Eins og staðan er núna er Framsókn orðin minnst fjórflokkana í kjördæminu, en hér varð Framsókn stærst í kosningunum 2003 og hlaut fjögur þingsæti. Þeir gullnu dagar virðast vera liðnir. Það er spurning hvort það veikir flokkinn að hafa ekki einn afgerandi Austfirðing ofarlega. Brotthvarf Dagnýjar Jónsdóttur hlýtur að veikja flokkinn hér. Hún varð aðalstjarna flokksins hér síðast og falin mikil ábyrgð. Segja má að Framsókn hafi veggfóðrað kjördæmið með kosningamyndum af henni og hún verið meira áberandi en Valgerður og Jón Kristjánsson.

Það verður fróðlegt að sjá stöðu Framsóknarflokksins hér í Norðausturkjördæmi að vori. Landsbyggðarþingmaður hefur ekki verið utanríkisráðherra frá því að Halldór Ásgrímsson sat á þeim stóli. Það munaði litlu að hann fengi skell í Austurlandskjördæmi hinu forna í kosningabaráttunni 1999 og hann fór um firðina á Cherokee-jeppanum sínum síðustu vikuna til að bjarga því sem bjargað yrði. Honum tókst það naumlega, en þá keyrði skelkaður landsfaðir um firðina austan heiða til að reyna að bjarga því sem bjarga yrði.

Nú verður fróðlegt að sjá hvort að fjarvera Valgerðar veiki Framsóknarflokkinn hér líkt og var fyrir austan í tilfelli Halldórs áður. Fer Valgerður í sama björgunarleiðanginn kortéri fyrir kosningar og Halldór fyrir austan fyrir tæpum áratug?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband