Verður Toblerone-Mona eftirmaður Perssons?

Mona Sahlin Flest virðist benda til þess að hin umdeilda Mona Sahlin verði eftirmaður Görans Perssons sem leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins, en leiðtogakjör fer fram í mars. Sænskir kratar misstu völdin í október í fyrsta skipti í tólf ár. Það er ekki beint um auðugan garð að gresja þar í leiðtogamálum nú og enginn augljós eftirmaður virðist vera. Mikil andstaða er þó við að Sahlin verði leiðtogi og öflugur armur innan flokksins má ekki til þess hugsa að hún leiði allt starf flokksins á næstu árum.

Dauði Önnu Lindh fyrir tæpum fjórum árum er enn stingandi fyrir flokkinn. Eftir að hún var myrt með sorglegum hætti í september 2003 hefur enginn afgerandi eftirmaður Perssons blasað við. Enn eru kratarnir að jafna sig á dauða hennar, en þá dó krónprinsessa flokksins og augljós eftirmaður eftir valdadaga Perssons. Sænsku spekingarnir töldu lengi vel Margot Wallström, kommissar hjá ESB og fyrrum ráðherra, vænlegasta en hún hefur fyrir löngu gefið það út að hún hafi engan áhuga á að leiða kratana í stjórnarandstöðu næstu þrjú árin.

Enn og aftur heyrist nafn Monu Sahlin. Hún var talin líklegasti eftirmaður Ingvars Carlssons lengi vel, en hann var leiðtogi kratanna 1986-1996 og forsætisráðherra 1986-1991 og 1994-1996. Svo fór að vegna kreditkortahneykslis sem jafnan hefur verið kennt við Toblerone (er varð er Sahlin keypti m.a. Toblerone súkkulaði út á ráðherrakort sitt) varð Sahlin að segja af sér árið 1995 og hnossið féll fjármálaráðherranum Persson í skaut. Sahlin hefur verið umdeild og skandalarnir hafa elt hana uppi lengi. Það er varla við því að búast að hún sé vinsæl og margir hugsa með hryllingi til þess að hún verði sú sem stjórni innra starfi flokkins á uppbyggingarárum stjórnarandstöðutilveru.

Mér finnst það reyndar kostulega dramatískt að heyra nafn Sahlin sem líklegasta leiðtogaefnisins hjá sænskum krötum, en hún er orðin frekar slitin sem stjórnmálamaður eftir sína skandala. Reyndar fannst mér það alveg kostulegt þegar að Sahlin var valin í bakgrunni allra auglýsinga Perssons í baráttunni í september og eiginlega til marks um hvað yfirgangur Perssons í flokknum hefur leitt til þess að leiðtogafátækt einkennir flokkinn nú þegar að hann hrökklast frá völdum. Þar eru fáir kostir eftir vænlegir ef kratarnir þarna líta á Sahlin sem rétta aðilann sem eigi að leiða þá aftur til vegs og virðingar eftir þennan ósigur í haust.

mbl.is Mona Sahlin hugsanlegur eftirmaður Perssons
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Stefán!

Ég veit ekki hvort það sé rétt að flest bendi til þess að Mona Sahlin verði næsti formaður. Aftonbladet hefur bitið það í sig að aðeins konur komi til greina sem arftakar Persson og hafa allnokkrar hafnað því að þær muni bjóða sig fram. Sem dæmi má nefna Margot Wallström, Carin Jämtin og Wanja Lundby-Wedin sem er formaður stærsta stéttarfélags Svíþjóðar. Allt eru þetta mjög öflugar konur og vel til þess fallnar að leiða flokkinn.

Á karlhliðinni má einnig finna nokkra vænlega leiðtoga, helst ber þar að nefna Thomas Bodström, fyrrum dómsmálaráðherra.

Það má segja að nú ríki hálfgert Silly Season hvað varðar leiðtoga flokksins, en það þýðir að fjölmiðlar nefna nánast hálfan flokkinn sem hugsanlegan leiðtoga.

Sverrir Þór (IP-tala skráð) 5.1.2007 kl. 16:57

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þakka þér fyrir kommentið Sverrir. Já, ég trúi nú varla að kratarnir prómóteri Sahlin að lokum sem leiðtoga. Það að hún sé nefnd oftast segir sína sögu um að þeir eiga í vandræðum með þetta leiðtogakjör. Það virðist vera leiðtogakreppa á bænum eins og er, en fróðlegt hver muni koma út úr atburðarás næstu vikna sem nýr leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Svíþjóð.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 5.1.2007 kl. 17:10

3 Smámynd: Eygló Þóra Harðardóttir

Blessaður Stefán,

ég er búsett í Svíþjóð þegar Mona Sahlin varð að segja af sér.  Man enn eftir sögunum um kjólinn sem hún keypti í ægilega sætri búð í GamlaStan og leikskólagjöldin sem hún hafði greitt seint o.s.frv.

Rifjaði þetta einmitt upp þegar lætin voru sem mest í kringum nýja viðskiptaráðherrann og menningarráðherrann.  Það virðist nefnilega vera þannig í þessu landi jafnaðar og réttlætis séu oft gerðar meiri kröfur til kvenna í pólitík.  T.d. kom fram að menningarráðherrann var ekki ein um að hafa ekki greitt afnotagjöldin. 

Hversu margir karlráðherrar hafa t.d. verið spurðir um hvort þeir hafi greitt leikskólagjöldin á réttum tíma eða greitt barnapíunni svart eður ei?

Bestu kveðju, Eyglo Harðar

eyglohardar.is

Eygló Þóra Harðardóttir, 7.1.2007 kl. 18:41

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Sæl Eygló

Þakka þér fyrir gott innlegg. Já, það er alveg rétt að Sahlin féll á nokkrum afdrifaríkum en skaðlegum skandölum. Hún fékk þó annan séns og varð aftur ráðherra. Sama gerðist um Lailu Freivalds, sem varð að segja af sér sem dómsmálaráðherra árið 2000 vegna fasteignaskandals, en fór svo aftur í ríkisstjórn sem utanríkisráðherra árið 2003 í kjölfar morðsins á Önnu Lindh. Í Svíþjóð er jafnan mikið gegnsæi og minnstu skandalar geta leitt til pólitískra endaloka. En hvort það séu frekar konur en karlmenn sem fjúka er athyglisverð pæling, tel það nú varla, en það vakti vissulega athygli að karlkyns ráðherra borgaraaflanna sem lenti í skandal í haust hélt velli meðan að tvær konur hrökkluðust frá, en reyndar vegna mjög skaðlegra skandala.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 8.1.2007 kl. 15:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband