Magnús Magnússon látinn

Magnús Magnússon látinnSjónvarpsmaðurinn Magnús Magnússon er látinn úr krabbameini, 77 ára að aldri. Það leikur enginn vafi á því að Magnús varð ein skærasta stjarna bresks sjónvarps fyrir þætti sína Mastermind, sem til fjölda ára voru á dagskrá BBC og nutu mikilla vinsælda. Hann fæddist í Reykjavík, en bjó nær alla ævi sína erlendis, en hann fluttist til Skotlands tæplega ársgamall.

Magnús hélt vel í íslenskrar rætur sínar og talaði íslensku vel og hélt í málið með góðum hætti. Magnús gerði fjölda þátta um Ísland og þýddi bækur, bæði Íslendingasögurnar og nokkur skáldverk Halldórs Laxness. Sérstaklega hljóta að teljast eftirminnilegir þættir hans um fornleifafræði og sögu víkinganna, en hann var mikill áhugamaður um þá tíma og sinnti vel fornri arfleifð gamalla tíma hérlendis. Hann var sannur Íslendingur.

Magnús hlaut heiðursverðlaun íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar á Edduverðlaunahátíðinni í september 2002. Áður en hann tók við verðlaununum flutti Tómas Ingi Olrich, þáv. menntamálaráðherra, langa ræðu um verk og störf Magnúsar. Það var nokkuð merkileg ræða, enda varð mér þá fyrst ljóst hversu mjög Magnús hefði haldið í ræturnar sem hann hafði hlotið í gegnum það að vera Íslendingur og verið sannur áhugamaður um málefni fortíðar og nútíðar hér heima á Íslandi.

Þakkarræða Magnúsar sem hann flutti er hann tók við þessum heiðursverðlaunum er mér í fersku minni. Hún einkenndist af hógværð hans og frásagnargleði umfram allt. Mjög skemmtileg ræða og ég á hana einhversstaðar á spólu og þarf að grafa hana upp, væri áhugavert að sjá hana aftur, svo og ræðu Tómasar Inga við þetta tilefni. Þarna talaði Magnús íslensku og fipaðist hvergi í því. Hann hélt vel í málið og aðdáunarvert hvað hann talaði fallega íslensku eftir öll þessi ár. 

Það er raunar sérstaklega ánægjulegt fyrir okkur Íslendinga hversu vel hann hélt við íslenskt mál og sýndi með því vel að hann mat uppruna sinn mikils. Við lát þessa heimsfræga sjónvarpsmanns með íslensku ræturnar er okkur sennilega það fyrst og fremst efst í huga að hann var sannur Íslendingur og sýndi það alla tíð mjög vel.


mbl.is Sjónvarpsmaðurinn Magnús Magnússon látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur fannberg

innlitskvittun

Ólafur fannberg, 8.1.2007 kl. 00:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband