Lítilfjörlegir spjallheimar barnalands

Computer geek Ég ákvað að líta í dag á spjallsíðuna Barnaland og lesa umræðuna sem þar hafði verið í gangi um sambandsslit Magna Ásgeirssonar og það sem þar hafði verið rætt, eftir að ég las fréttir í gær um umræðuna þar. Mér fannst nokkuð merkilegt að fara yfir umræðuna sem þar var í gangi. Það var orðið nokkuð um liðið frá því að ég hafði lesið skrifin og sá að lítið var breytt í þeim efnum frá því að ég gerði mér netferð þangað síðast.

Það leikur lítill vafi á því að heiti vefsins er mikið rangnefni á þeim vettvangi. Að spjallvefur með svona yfirbragð og innihald gangi undir heitinu barnaland er þónokkuð umhugsunarefni. Það þarf ekki sérfræðing í netmálum til að finnast lítið til um umræðurnar þar koma og í raun merkilegt að spjallvefurinn gangi enn eftir allan þennan tíma og umræðuna um innihald hans undir þessu nafni. Spjallvettvangur Barnalands hefur lengi verið umdeildur og breyta þessi skrif um Magna og einkalíf hans engu þar um svosem, það hefur lítið batnað yfir þar í gegnum tímans rás.

Spjallvefir af þessu tagi eru annars oft athyglisverður vettvangur umræðu á netinu. Ég hef fylgst lengi með spjallvefunum og var til nokkurs tíma virkur notandi þeirra. Ég skrifaði bæði á innherjavefinn og málefnin.com um tíma, en lít orðið einu sinni til tvisvar á dag (hámark) á málefnin. Það er oft ágæt umræða svosem þar, sumir kunna þá list að geta skrifað yfirvegað og farið yfir málin undir nafnleynd. Mun fleirum er það ekki nógu tamt og úr vill æði oft verða níð og rógur um nafngreint fólk og almennt skítkast. Það er fylgifiskur umræðu af þessu tagi því miður, og hefur sá menningarheimur ekki batnað mikið að mínu mati. Það er eins og það er bara eflaust.

Mér finnst margt á barnalandi vera frekar lítilfjörlegt. Margt af því skýrir sig sjálft þegar að spjallsvæðið þar er skoðað. Þessi umræða um einkalíf Magna er ekki stóra málið svosem sem vakið hefur þar athygli, mörg önnur dæmi eru til staðar. Það væri eflaust verðugt verkefni fyrir einhvern sérfræðinginn að rannsaka þetta umræðusamfélag. Nafnleynd er vissulega fróðlegt fyrirbæri og hvernig fólk hegðar sér undir henni er oft á tíðum með ólíkindum. Það þekkja þeir best sem lesið hafa spjallvefi hvernig fólk getur gengið of langt í umræðu með þeim hætti. Það býr oft margt í myrkrinu.

Eflaust er hægt að segja miklu meira um spjallvefi. Ég hef aldrei legið á skoðunum mínum um spjallvefi og stöðu þeirra, einkum innviði þeirra, og flestum ættu þær skoðanir að vera kunnar. Kannski maður skrifi meira um þetta síðar.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er sammála þér með þessi skrif á barnalandi.is en þetta er allt rætt í umræðuflokki nefndum: annað. Það eru þarna flokkar fyrir barnið, meðgöngu og þungun þar sem þú getur rætt allt barnadótið, en í flokknum, annað, er rætt um allt milli himins og jarðar. En auðvitað þarf aðeins að hugsa áður en skrifað er á svona opinberan vef um svona viiðkvæm einkamál.

... (IP-tala skráð) 8.1.2007 kl. 21:33

2 Smámynd: Sveinn Hjörtur

Sæll. Ég var einn af fyrstu notendum á Barnalandi. Skrifaði hugrenningar mínar þegar ég var að verða faðir í fyrsta sinn og kallaði mig pabbinn. Ég var með ótal heimsóknir á dag og oft yfir 1000. Foráðamenn Barnalands sögðust ætla að hafa svæðið frítt. Svo jókst aðsóknin og græðgin kom upp.  Þá var farið að rukka fyrir aðsóknina. Ég hætti þá að vera á þessu svæði, enda var einnig farið að bera á ljótu orðbragði sem var furðulegt að merkja við ,,barnaland."

Svo greip önnur græðgi við barnalandi, en það var mogginn. Til að geta sagt að heimsókni séu bla bla, þá var barnaland "sett" í mbl.is Alltaf er neitað að mbl.is hafi keypt barnaland, en það held að sé raunin.

Barnaland er afar slæmt umræðutorg. Læknar, dagmæður, og venjulegt fólk er tekið af lífi í skjóli nafnleyndar þess sem stofnar spjallið. Það sést jafnvel umræða um það hvort einhver viti hvert sjúkrabíllinn á Laugavegi sé að fara, því viðkomandi hafi heyrt í babú!

Ég held að mogginn ætti að sýna frumkvæði og slökkva á þessu ljóta spjallsvæði. En því miður eru mjög margir orðnir samgrónir þessu svæði og þeim heimi sem hann er. Líklega fer ég að fá allskonar póst sendan til mín eftir að hafa sagt skoðun mína á þessu Landi bullsins og lélegrar umræðu. En það verður að hafa það.

Hvet þig að rita meira um þetta spjallsvæði. Taktu prufur á umræðunni, en farðu varlega. Þetta er grimmt svæði.

Sveinn Hjörtur , 8.1.2007 kl. 21:37

3 Smámynd: Birna M

Sem meðlimur á barnalandi kíkti ég í fyrstu inn á umræddan spjallvef en hætti mjög fljótlega. Ástæðan - sú sama og þú fjallar um hér. Þar var einfaldlega ekkert sem varið var í, bara skítkast. Frasinn: "skítuga hóran þín" virtist vinsælt orðtak þar um hvern sem var og það átti bara ekki við við mig að taka þátt í því. Eins og barnavefirnir þar geta verið ágætir, geta sumar mömmurnar alveg farið með mann á spjallinu. Að öðru leyti er vefurinn alveg í lagi. Svo fremi sem maður hætti sér ekki inná spjallið. 

Birna M, 8.1.2007 kl. 21:45

4 Smámynd: GK

Barnalandsspjallið er oft hin besta skemmtun. Sérstaklega þegar (að því er virðist) húsmæður með takmarkaða greindarvísitölu fara að spjalla um lífið og tilveruna á mjög málefnalegan hátt.

...en þær hafa víst ekkert annað að gera... :Þ

GK, 8.1.2007 kl. 22:42

5 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir öll kommentin. Öll eru þau mjög fín og skemmtileg, gott að heyra skoðanir annarra á þessu. Sérstaklega vil ég þakka Sveini Hirti fyrir innihaldsríkt og gott komment sem var gaman að lesa.

Stefán Friðrik Stefánsson, 8.1.2007 kl. 22:48

6 identicon

Komið þið sæl sem bloggið hér. Rakst á þetta er ég skannaði fréttir dagsins. Ég heiti Þórdís Malmquist og þarf ekkert að fela mig. Ég hef ekki talið mig hafa tíma til að blogga en í þessu máli hef ég myndað mér skoðun fyrir löngu. Í fyrsta lagi er það sorglegt að undir annars ágætu svæði sem Barnaland er skuli fá að þrífast sori og ljótt orðbragð, níð um náungan og því miður allt að því persónuskert, þroskahömluð umræða. Þetta minnir einna helst á skítkast milli einstaklinga sem greinst hafa með persónuleikaröskun. Mál er að linni og að reglur verði hertar um hvað má vera inni á síðu sem hýsir annars lífsins mesta hnoss, falleg, saklaus börn og uppvöxt þeirra. Lifið heil.

Þórdís Malmquist (IP-tala skráð) 9.1.2007 kl. 13:02

7 identicon

Góða kvöldið,

Þar sem ég hef stundað vefinn Barnaland.is lengi get ég ekki annað en lagt orð í belg til að benda ykkur á aðra hlið málsins. Því miður gerist það alltof oft að það er einblínt á það neikvæða en það jákvæða gleymist. Barnaland er stundað af gríðarlega mörgum íslenskum foreldrum, mæðrum í meirihluta. Auðvitað er hægt að finna þar "lítilfjörlegar" umræður og umræður sem sumir vilja kalla sora (sem enginn er reyndar tilneyddur að skoða) en þar eru líka oft mjög málefnalegar og líflegar umræður. Ég veit að margir hafa fengið mikla hjálp og stuðning á Barnalandi sem enginn talar um. Reyndar er einn notandi á Barnlandi sem kallar sig MUX sem bendir á þetta og leyfi ég mér að kópera umræðuna hennar hér því hún segir nákvæmlega það sem mér finnst vanta í umræðuna um vefinn Barnaland. Hér er linkurinn á umræðuna, vonandi virkar þetta hjá mér:  http://www.barnaland.is/messageboard/messageboard.aspx?advid=5563456&advtype=52

Varðandi þær vangaveltur um hvort mogginn hafi keypt barnaland þá veit ég fyrir víst, þar sem ég þekki systur eigandans, að mogginn á ekki barnaland og hefur aldrei keypt vefinn.

Ég hvet þá sem hafa áhuga að kíkja á umræðuna hennar MUX því það er gaman að þessum skoðanaskiptum.
Over and out, Sara.

Sara (IP-tala skráð) 9.1.2007 kl. 21:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband