Foreldrar missa stjórn á tölvunotkun barnanna

Það er að verða ansi algengt að maður heyri sögur af því að foreldrar hafi algjörlega misst stjórn á tölvunotkun barna sinna og jafnvel að komi til handalögmála vegna þess að börn og unglingar sætti sig ekki við mörkin. Þess hafa verið dæmi að lögreglan sé kvödd að heimilum fólks til að grípa inn í heimilisátök þar sem foreldrarnir reyna að hafa stjórn á netnotkun barna sinna og missa alveg stjórn á stöðunni - lögreglan verður aðilinn sem aðeins getur lægt öldur.

Mér finnst það stóralvarlegt mál þegar að svo er komið að aðeins lögreglumenn geta leyst heimilisástand vegna deilna um tölvur. Hvert stefnir samfélagið eiginlega? Ekki veit ég hvað þessi strákur sem réðst að mömmu sinni vegna þess að honum voru settar skorður við tölvunotkun er gamall. Hef heyrt að hópurinn 10-15 ára sé einna verstur í þessu samhengi og jafnvel að yngri hóparnir verði stjórnlausastir.

Það má líka velta því fyrir sér hvernig heimilisaðstæður séu þar sem foreldrarnir hafa enga stjórn á börnum sínum og þurfa að leita til lögreglu til að halda heimilisfriðinn og það við ólögráða börn sín. Þetta hlýtur að teljast dæmi um einhverja vanrækslu þar sem börnin líta á tölvuna sem besta vin sinn og jafnvel þann aðila sem helst er leitað til, mun frekar en annarra einstaklinga.

Þetta er svolítið sláandi veruleiki og ekki nema von að spurt sé hvað sé til ráða, þegar að lögreglan ein getur lægt öldur í heimilisátökum barna og foreldra, sem hafa í sjálfu sér enga stjórn á vandanum.

mbl.is Ósætti vegna tölvunotkunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessir hópar verða stjórnlausir vegna þess að þessi fáránlega hræðsla foreldra við tölvunotkun er svo ósanngjörn. Þetta er 21. öldin, við tölum við vini okkar á netinu, við spilum allskonar leiki, lesum, lærum og allan fjandann annan. Að takmarka tölvunotkun bara upp á prinsippið er ekki á neinn hátt frábrugðinn því að takmarka bókalestur. Ef börnin væru að lesa spennubækur (þ.e. ekkert fróðlegt) væri öllum skítsama, en ef þau eru í tölvuleikjum, úúúú, það gengur ekki, það er svo nýtt og framandi!

Foreldrar, hættið þessari helvítis vitleysu og leyfið börnunum ykkar bara að vera í tölvunni eins og þeim sýnist! Tölvunotkun veldur ekki krabbameini, sko.

Dæmi er um konu hér á Morgunblaðrinu sem leyfir börnunum sínum bara að vera í eina skitna klukkustund á dag í tölvunni! Mér finnst það nú persónulega vera ábyrgðarleysi af verstu sort. Tölvur eru dásamleg tæki sem börn eiga að kynnast, ekki forðast.

Djöfulsins "unga kynslóðin í dag" kjaftæðið snýr aftur og aftur, alltaf með sömu ósanngjörnu og gjörsamlega heiladauðu, blindu agadýrkun. 

Helgi Hrafn Gunnarsson (IP-tala skráð) 2.2.2008 kl. 16:59

2 identicon

Foreldrar hafa aldrei haft stjórn á tölvunotkun barna frekar en bókalestri þeirra. Og það sem meira er, það er bara eins gott.

Að takmarka tölvunotkun er nákvæmlega engu frábrugðið því að takmarka bókalestur eða íþróttir. Látið ekki svona, ef börnin ykkar sýna tölvum mikinn áhuga skuluð þið bara gjöra svo vel að vera þakklát að það sé heili í þeim.

Hættið þessari helvítis hræðslu við tölvur. Þær valda ekki krabbameini. Það fer ekki allt á annan endann þó unglingurinn hangi í tölvunni allan daginn. Hver veit? Hann gæti jafnvel LÆRT EITTHVAÐ, ólíkt agadýrkandi, heiladauðu og stórmerkilega fáfróðu eldri kynslóðinni í dag.

Já! Hafiði það! ;) 

Helgi Hrafn Gunnarsson (IP-tala skráð) 2.2.2008 kl. 17:03

3 Smámynd: Gunnsteinn Þórisson

Það má velta þessu fram og til baka, kenna má agaleysi eða áhrif tölvuleikja um, hinsvegar vitum við ekki hvað fór þarna fram, hvort móðirin hafi verið fyrr til að tryllast eða hvað unglingurinn var að gera í tölvunni er eitthvað sem við einfaldlega vitum ekki. Hinsvegar finnst mér sjálfsögð mannréttindi að nota tölvuna, ég sagði mannréttindi og ég stend staðfastlega við þau orð. Held að þú Stebbi yrði lítt hress ef þér yrði meinað að blogga, einhver kæmi bara valsandi inn til þín í miðjum skrifum og kippti tölvuna úr sambandi, og gæfi ekki neina raunhæf ástæðu afhverju fremur en bara "af því ég ræð".

Hvað varðar þetta mál sérstaklega, í raun finnst mér skömmustulegt fyrir foreldrið að siga lögvaldið á barnið sitt, sú aðgerð hefur án efa ekki lagað heimilisfriðinn, get rétt ímyndað mér augnaráðin við kvöldmatarborðið þessa stundina. Betur hefði fúnkerað að tala við barnið, ef það er erfitt að ná samband við það vegna tölvunnar þá bara adda því á msn, segi svona. Eitthvað verður að koma í stað tölvunnar, þýðir ekki að kippa það úr sambandi og ætlast til að allt lagist. Annars held ég að það sé verið að blása þetta mál nokkuð mikið upp, ef börn á aldrinum 10 til 15 hefðu vit á að kalla til lögreglu í hvert skipti sem foreldri leggur hönd á greyin, þá myndum við hafa littlar áhyggjur á tölvunotkun þeirra... Köld og svört staðreynd.

Annars er ég á því að ég sé littla þörf fyrir því að takmarka tölvunotkun barna, auðvitað má passa uppá það að barnið veslist ekki upp fyrir framan tölvuna úr næringarskorti, en algjör óþarfi að takmarka það við klukkustund á dag eins og einhver gerir. Bara mín skoðun þó...

Gunnsteinn Þórisson, 2.2.2008 kl. 18:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband