Carla Bruni orðin forsetafrú Frakklands

Nicolas Sarkozy og Carla Bruni Sarkozy Það kemur engum að óvörum að Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, og Carla Bruni hafi gift sig í Elysée-höll. Þau hafa átt í fjölmiðlavænu ástarsambandi síðustu vikur og fjölmiðlar hafa elt turtildúfurnar heimshornanna á milli. Það eru samt stórmerkileg tíðindi að hin ítalska Carla sé orðin forsetafrú Frakklands og maður sér hana ekki alveg fyrir sér í hlutverki húsfreyjunnar í Elysée-höll.

Hún hefur verið kennd við marga heimsþekkta menn í gegnum tíðina; nægir þar að nefna Mick Jagger, Donald Trump, Eric Clapton, Kevin Costner og Laurent Fabius, fyrrum forsætisráðherra sósíalista í Frakklandi. Margir telja að hún hafi verið ástæða endaloka áratugalangs og margumtalaðs sambands Mick Jagger og fyrirsætunnar Jerry Hall. Hún á að baki tónlistarferil en sneri baki við þeim bransa fyrir fyrirsætuferil.

Það varð ljóst í desember að hún væri nýja konan í lífi Sarkozy Frakklandsforseta, en tveim mánuðum áður hafði forsetinn skilið við Cesiliu, eiginkonu sína í áratug. Það hafði verið ljóst allt frá kjöri forsetans í fyrravor að hjónabandi þeirra væri í raun lokið og þátttökuleysi Ceciliu í forsetakosningunum í maí 2007 voru mjög sterk ábending í þá veru að ekki yrði hjónabandssælan í Elysée-höll langlíf - hún sást ekki þar og kjaftasagan sú að hún hafi ekki einu sinni kosið eiginmanninn, hafi ekki farið á kjörstað.

Þau skildu tímabundið meðan að Sarkozy var innanríkisráðherra og það hafði verið stirt þeirra á milli árum saman - kuldaleg samskiptin í fyrrasumar og haust í sviðsljósi forsetaembættisins voru mjög áberandi og augljóst að draga myndi til tíðinda. Enda sáust þau ekki saman í marga mánuði áður en þau skildu. Mesta athygli vakti þetta þegar að Cecilia þáði ekki heimboð Bush-hjónanna til Maine er Sarkozy forseti átti leið um Bandaríkin í heimsókn sem markaði upphaf þíðu milli Bandaríkjanna og Frakklands eftir að Jacques Chirac flutti úr Elysée-höll. Fjarvera Ceciliu var æpandi áberandi.

Ástarsamband forsetans við Cörlu Bruni hefur verið umdeilt og það verður áhugavert að sjá hvernig það fer í franska alþýðu að eignast forsetafrú af tagi Cörlu. Hún er ekki beinlínis týpan sem telst líkleg til að vera konan við hlið hins önnum kafna eiginmanns eins og fyrri forsetafrúr, en það er ekki hægt að segja annað en að þær Bernadette Chirac, Danielle Mitterrand, Anne Giscard d´Estaing, Claude Pompidou og Yvonne de Gaulle hafi verið hinar ekta týpur makans við hlið forsetans, þær sem sinntu hlutverkinu upp á klassíska mátann.

Sarkozy vann frönsku forsetakosningarnar í maí 2007 með afgerandi hætti, hlaut sterkt umboð og naut lengi vel mikils stuðnings, sem sást best í því að bandamenn hans unnu þingkosningarnar mánuði síðar. Það hefur þó verið að halla undan fæti. Erfiðleikar heima fyrir og ástarsambandið við fyrirsætuna umdeildu hafa greinilega veikt stöðu hans. Enn eru þó rúm fjögur ár eftir af kjörtímabili forsetans og áhugavert að sjá hvernig honum gangi með þessa nýju og umdeildu konu upp á arminn.

Cecilia Sarkozy yfirgaf Sarkozy forseta og franska forsetaembættið í haust með þeim orðum að hún hvorki vildi né gæti fetað í fótspor Bernadette Chirac - gæti aldrei orðið hin eina sanna forsetafrú Frakka. Enn áhugaverðara verður að sjá Cörlu Bruni í þessu hlutverki, satt best að segja.

mbl.is Forseti Frakklands kvæntur á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nokkuð sammála síðasta ræðumanni, annars til að besserwisserast aðeins þá var það öfugt með feril cörlu, hætti fyrirsætustörfum til að hefja tónlistarferil, gaf síðast út disk í fyrra minnir mig...

Hildur Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 2.2.2008 kl. 17:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband