15.1.2007 | 15:38
Svört skýrsla Ríkisendurskoðunar um Byrgið

Er það skýrt mat Ríkisendurskoðunar í skýrslunni að ekki sjáist nein merki þess að þessum fjármunum hafi verið ráðstafað í þágu Byrgisins. Í henni liggur fyrir að fjármunir sem runnið hafa til stjórnenda og starfsmanna Byrgisins eru langt umfram það sem fram kemur í bókhaldi eða ársreikningum félagsins. Launagreiðslur eru ekki færðar rétt í bókhaldið og ekki taldar fram til skatts. Auk þessa lítur út fyrir að stjórnendur og starfsmenn Byrgisins hafi látið bókfæra hjá félaginu og greiða útgjöld sem félaginu eru óviðkomandi.
Í skýrslunni er talið að slík útgjöld megi fullyrða að nemi að minnsta kosti tæpum þrettán milljónum á árinu 2005 og rúmlega 3 milljónir á fyrstu 10 mánuðum ársins 2006, en gætu verið hærri. Ergó: kolbikasvört skýrsla. Það er ekki furða að allt fjárstreymi til Byrgisins hafi verið stöðvað og ekki annað hægt að ímynda sér en að síðustu ríkispeningarnir að óbreyttu hafi farið þar inn í sjóði. Þessi skýrsla er mikill áfellisdómur yfir Byrginu og öllum hliðum reksturs þess.
![]() |
Ríkisendurskoðun vill lögreglurannsókn á rekstri Byrgisins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.1.2007 | 13:03
Frú Dorrit á forsetavakt segir sína sögu

Mikla athygli mína í viðtalinu vakti að þar var frekar athyglisverð kynning á álverinu í Straumsvík, sem er eins og flestir vita ekki svo fjarri Bessastöðum. Talaði Dorrit fallega um fyrirtækið og forstjórann Rannveigu Rist. Var þar meira að segja viðtal við Rannveigu og sýndar myndir frá heimsókn forsetafrúarinnar í álverið. Þetta var fróðlegt innlegg í þáttinn, en nú er ekki langt þar til að greiða á atkvæði um hvort stækka eigi álverið. Þetta er því merkileg tímasetning þessa innleggs í viðtal við forsetafrúna að mínu mati. Þetta var mjög áberandi allavega.
Dorrit Moussaieff hefur í tæpan áratug verið áberandi fulltrúi íslenska forsetaembættisins. Hún kom þar til sögunnar eftir andlát Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur, forsetafrúar, fyrri eiginkonu Ólafs Ragnars Grímssonar, sem lést úr hvítblæði í október 1998. Hún var stór hluti forsetaembættisins er hún féll frá, enda ekki verið minna áberandi í forsetakosningunum 1996 en Ólafur Ragnar. Það hlýtur að hafa verið erfitt fyrir Dorrit að koma þar til sögunnar, svo skömmu eftir lát Guðrúnar Katrínar og raun bar vitni, en henni hefur tekist að verða fulltrúi á vegum forsetaembættisins með sínum hætti og hefur ekki reynt að fara í fótspor ástsællar forsetafrúar, sem Guðrún Katrín var.
Mér fannst að heyra á þessu viðtali að Dorrit telji Ólaf Ragnar Grímsson eigi margt eftir í embætti forseta Íslands, þó hann hafi setið á Bessastöðum í tæp ellefu ár. Það má kannski marka af þessum orðum að Ólafur Ragnar stefni á fjórða kjörtímabilið, eins og Ásgeir Ásgeirsson og Vigdís Finnbogadóttir en láti ekki tólf ár duga eins og dr. Kristján Eldjárn. Mér fannst ummæli hennar um framtíðina athyglisverð. Þau mátti merkja á báða vegu en mér fannst þau þó skýrari merki í þá átt að hún telji Ólaf Ragnar eiga enn nokkuð eftir á forsetastóli.
Dorrit hefur verið í kastljósi fjölmiðla allt frá sögufrægum útreiðartúr þar sem forsetinn axlarbrotnaði og hún birtist við hlið hans í samlitum fötum við útgang Landsspítalans. Þar var hún hin framandi kona sem fáir þekktu en allir vissu að hafði fangað hug og hjarta þjóðhöfðingja sem var að jafna sig eftir erfiðan ástvinamissi. Áratug síðar er hún enn framandi og segir enn sögu sem við þekkjum ekki. En eitt er víst; ævi Dorritar á forsetavakt er athyglisverð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.1.2007 | 18:14
Er Herbalife hættulegt?

Frænka mín ein hefur sérhæft sig í að selja Herbalife og hefur eflaust haft eitthvað út úr því, þó ég hafi ekki og vilji ekki kynna mér það. Í þessu hefur verið einhver svakalegur bissness eflaust. Þetta er eitthvað sem er allt með ólíkindum, enda eru ótrúlega margir sem taka þetta sem eitthvað fullkomið töfradæmi að lausn á sínum málum. Finnst það vera fjarri lagi. Fyrir nokkru tók ég mitt líf í gegn; minnkaði að borða sykur og fór að hugsa um hvað ég borðaði, og ég fór einfaldlega að hreyfa mig. Mér finnst það grunnatriði að labba helst tíu kílómetra á viku.
Leið vel með það og taldi það töfralausn. Þetta Herbalife er eitthvað jukk sem enginn veit hvað samanstendur af í raun og hvað felst í því að hrúga því í sig. Þessar fréttir fá vonandi einhverja til að hugsa sitt ráð um þetta.
![]() |
Sex lifrarbólgutilfelli eftir neyslu á Herbalife |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
14.1.2007 | 17:07
Áfall fyrir Sarkozy - hvað mun Chirac gera?

Það að Sarkozy hafi ekki hlotið meira afgerandi umboð sýnir vel hversu klofinn hægriarmurinn er í afstöðunni til hans. Þetta er eiginlega mjög alvarlegt mál, enda gæti klofin afstaða til kjörsins komið þjóðernisöfgamanninum Jean-Marie Le Pen mjög til góða og gert að verkum að hann gæti jafnvel komist í aðra umferðina gegn Royal, en flestum er eflaust enn í fersku minni að Le Pen tókst að komast í seinni umferðina gegn Jacques Chirac í forsetakosningunum árið 2002 og felldi sósíalíska forsætisráðherrann Lionel Jospin úr kjörinu og batt enda á stjórnmálaferil hans.
Klofningur hægriblokkarinnar er öllum ljós nú. Hvorki Jacques Chirac, forseti, né Dominique de Villepin, forsætisráðherra, hafa lýst yfir stuðningi við Sarkozy og enn er öllum hulið hvort Chirac forseti muni fara fram, en hann hefur setið við völd í Elysée-höll á forsetastóli allt frá vorinu 1995 og var endurkjörinn í forsetakosningunum 2002 í fyrrnefndum sögulegum slag við Le Pen og hlaut þá stuðning sósíalista til að koma í veg fyrir sigur þjóðernisöfgamannsins. Það þótti kaldhæðnislegt og markaði í raun sætasta pólitíska sigur hins umdeilda Chirac. Flestir spyrja sig um fyrirætlanir Chiracs. Hann hefur ekki enn útilokað forsetaframboð, þó 75 ára gamall verði á árinu.
UMP var byggð upp sem pólitískur heimavöllur Jacques Chirac. Á nokkrum árum hefur Sarkozy tekist að gera hana að sinni með einkar athyglisverðum hætti. Það bauð sig enginn fram gegn honum innan flokksins sem forsetaefni hans er framboðsfrestur rann út um jólin. Þar þarf þó kosning að fara fram. Sarkozy varð felmtri sleginn á svip, ef marka má franska vefmiðla, er úrslitin voru lesin upp. Hann hlaut aðeins 70% atkvæða gildra flokksmanna í netkosningu. Það er mikið áfall, enda segir það með afgerandi hætti að hann er ekki óumdeildur frambjóðandi hægriblokkarinnar. Royal tókst t.d. að ná yfir 60% í baráttu við tvo þekkta baráttuhunda innan flokksins; Fabius og Strauss-Kahn.
Fjarvera Jacques Chirac, forseta Frakklands, á baráttufundi UMP-hægriblokkarinnar í dag, þar sem úrslit kosningarinnar voru tilkynnt, var svo sannarlega hrópandi áberandi að öllu leyti. Hann ætlar sér greinilega ekki að leggja Sarkozy lið. Hann hefur ekki útilokað að fara fram í vor, þó óháður frambjóðandi yrði í slíkri stöðu. Villepin forsætisráðherra hefur ekkert sagt heldur sem flokkast sem stuðningsyfirlýsing við Sarkozy og segist bíða ákvörðunar forsetans. Villepin mætti á fund UMP í dag en kaus ekki. Afgerandi skilaboð það. Það vakti reyndar gríðarlega athygli að Sarkozy gaf kost á sér án þess að fyrirætlanir forsetans væru ljósar.
Það er greinilega kalt stríð þarna milli aðila og fer sífellt versnandi eftir því sem styttist í örlagastund. Jacques Chirac hefur aldrei fyrirgefið Sarkozy að hafa ekki stutt sig í forsetakosningunum 1995 og það verið dökkur blettur í hans huga. Það var til marks um það pólitíska minni Chiracs að hann skyldi ekki velja Sarkozy sem forsætisráðherra í júní 2005 er hann sparkaði Jean-Pierre Raffarin og skyldi velja Villepin. Það verður fróðlegt að sjá hvernig fer. Menn bíða enn einu sinni eftir Chirac, sem er og hefur alla tíð verið pólitískt ólíkindatól. Tekur hann slaginn?
![]() |
Sarkozy formlega útnefndur forsetaframbjóðandi hægrimanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.1.2007 | 14:13
Hvað mun Ágúst Einarsson gera?

Skipan Ágústs í rektorsstöðu á Bifröst gerðist innan við tveim árum eftir að hann tapaði fyrir Kristínu Ingólfsdóttur í rektorskjöri í Háskóla Íslands. Kaldhæðnislegt var annars að heyra í Kristínu um málefni Ágústs í fréttatímum í gær. Barátta þessara tveggja var mjög harkaleg og einbeitt, eiginlega fyrsta fjölmiðla- og netbaráttan um rektorsstöðuna. Flestir muna enda eflaust eftir því að Ágúst var sérstaklega með öfluga baráttu á sínum tíma og opnaði vefsíðu þar sem hann kynnti áherslur sínar og verk með áberandi hætti. Tap Ágústs í kjörinu var honum eflaust mikið áfall.
Ágúst hefur verið prófessor við viðskipta- og hagfræðideild Háskólans frá árinu 2000. Hann var virkur stjórnmálamaður til fjölda ára áður en hann hélt til starfa í Háskólanum. Hann var tvívegis alþingismaður; 1978-1979 fyrir Alþýðuflokkinn og 1995-1999 fyrir Þjóðvaka, flokk Jóhönnu Sigurðardóttur. Hann gaf kost á sér fyrir Samfylkinguna í Reykjaneskjördæmi í kosningunum 1999 en náði ekki öruggu þingsæti í prófkjöri og féll af þingi í kosningunum. Ágúst var fyrsti formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar 1999-2001 en hætti sem slíkur til að helga sig verkum í Háskólanum. Ágúst er faðir Ágústs Ólafs Ágústssonar, varaformanns Samfylkingarinnar.
Hann situr nú í stjórn Landsvirkjunar fyrir Samfylkinguna og var eitt sinn formaður bankastjórnar Seðlabankans, en sagði af sér sem slíkur árið 1994 í kjölfar þess að flokksbróðir hans, Sighvatur Björgvinsson, þáv. viðskiptaráðherra, skipaði Steingrím Hermannsson þáv. formann Framsóknarflokksins og fyrrum forsætisráðherra, sem seðlabankastjóra. Var hann á móti pólitískri skipan í embætti bankastjóra. Ennfremur var Ágúst um tíma formaður samninganefndar ríkisins, af hálfu Alþýðuflokksins, sem hann vann fyrir þar til hann gekk til liðs við Jóhönnu.
Ágúst Einarsson mun að mér skilst taka við rektorsstarfinu á Bifröst á morgun en Bryndís Hlöðversdóttir, aðstoðarrektor, hefur verið starfandi rektor skólans frá því að Runólfur Ágústsson hætti störfum þann 1. desember sl. Bryndís og Ágúst kannast vel hvort við annað. Þau sátu saman á Alþingi kjörtímabilið 1995-1999 og voru saman í fyrsta þingflokki Samfylkingarinnar í aðdraganda þingkosninganna 1999. Bryndís sat á þingi í áratug, 1995-2005, og var þingflokksformaður Samfylkingarinnar 2001-2004. Það má því segja að reynsluboltar frá Samfylkingunni stýri skólanum til verka. Þau þekkjast allavega mjög vel.
Mér finnst líklegra en ekki að Ágúst fari í Bifröst og segi skilið við HÍ. Eða hvað? Erfitt svosem um að segja. Þetta er væntanlega mikið val fyrir Ágúst. Það verður fróðlegt hvort hann velur rektorsstöðu í Borgarfirðinum eða prófessorsstöðu í höfuðstaðnum.
![]() |
Fær ekki launalaust leyfi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
14.1.2007 | 01:56
Austfirskir framsóknarmenn missa tvo þingmenn

Alla tíð frá stofnun Framsóknarflokksins hefur flokkurinn haft afgerandi og sterka leiðtoga fyrir austan. Allir þekkja Halldór Ásgrímsson eldri, Eystein, Vilhjálm frá Brekku, Tómas Árnason, Halldór Ásgrímsson yngri og Jón Kristjánsson. Dagný Jónsdóttir varð svo síðasta vonarstjarna þeirra og hún var mest allra kynnt í kosningunum 2003. Jafnskjótt og hún kom hvarf hún. Þessir menn mörkuðu sögu Framsóknarflokksins að fornu og nýju. Gleymum því ekki. Þeirra hlutur í sögu flokksins er og hefur alla tíð verið talinn afgerandi.
Það eru merkilegustu tíðindi þessa vals að enginn kemur í staðinn. Austfirðingar áttu engan til að fylla skörð Jóns og Dagnýjar, sem bæði hætta í pólitík, þó stjórnmálamenn tveggja ólíkra kynslóða séu. Það var fyrirsjáanlegt að svona myndi fara, en þó taldi ég ólíklegt að Austfirðingar færu neðar en í fjórða sætið. En svo fór sem fór. Það vantaði einhvern einn forystumann til að fara fyrir svæðinu. Hann var ekki fyrir hendi að þessu sinni. Þetta er rothögg fyrir þetta gamalgróna vígi framsóknarmanna sem Austfirðirnir voru.
Eysteinn Jónsson var pólitískur lærifaðir Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands. Hann mótaði hann manna mest. Sömu áhrif hafði hann á Tómas og Halldór Ásgrímsson hinn yngri. Eysteinn mótaði heila kynslóð framsóknarmanna fyrir austan. Hann hafði mikil áhrif. Það er bjargföst trú mín að þessi gamli baráttumaður og forni forystumaður austfirskra framsóknarmanna snúi sér við í gröfinni vitandi að enginn framsóknarmaður verður á þingi að austan kjörtímabilið 2007-2011.
En framsóknarmenn nyrðra geta glaðst. Framsóknarmenn á Akureyri eygja nú von á sínum fyrsta þingmanni síðan að Ingvar Gíslason sat á þingi. Hvort að Höska tekst að komast á þing skal ósagt látið, en í versta falli verður hann varaþingmaður og áberandi í þingsölum. Ég má til með að samfagna framsóknarmönnum hér í bænum við fjörðinn fagra með árangurinn sem þeir hafa beðið eftir í tvo áratugi, eða síðan að Ingvar fór.
En austur sendi ég samúðarkveðjur. Þær eiga vel við, enda tel ég að margir séu hryggir fyrir austan með þetta. Fyrir fjórum árum var fögnuður með árangur Dagnýjar. Nú er enginn til að gleðjast yfir. Merkileg örlög í þessu forna vígi sem er ekki fagurt á að líta nú.
13.1.2007 | 21:55
Valgerður skammar Geir - sundrung í Evrutali

Tónninn í Valgerði Sverrisdóttur sýndi okkur mjög vel gjána sem er til staðar milli aðila. Mér finnst það mjög ótrúverðugt fyrir þessa ríkisstjórn að svona stór meiningarmunur sé til staðar milli forsætisráðherra og utanríkisráðherra, sem eru valdamestu ráðherrar ríkisstjórnarinnar. Það gerir ekkert annað en að veikja þetta ríkisstjórnarsamstarf og innviði samstarfs þar á milli. Þetta er sérstaklega óheppilegt í aðdraganda þingkosninga. Sundrungarhjal milli Valgerðar og Geirs, er táknrænt og skaðlegt í meira lagi að mínu mati. Það afhjúpar að tveir valdamiklir ráðherrar eru algjörlega ósammála og þetta er varla traustvekjandi fyrir þessa stjórn.
Reyndar er ágreiningur ekki bara innan ríkisstjórnarinnar um Evrópumál. Þar eru mikil átök innan Framsóknarflokksins. Halldóri Ásgrímssyni mistókst sem forsætisráðherra að gera Evrópumálin að stórstefnumáli á flokksþingi Framsóknarflokksins í mars 2005, þrátt fyrir stuðning nánustu samstarfsmanna sinna, þ.m.t. Valgerðar Sverrisdóttur, nú utanríkisráðherra. Þar var afgerandi andstaða. Nú styttist aftur í flokksþing og innan flokksins starfar nefnd skv. samþykktum flokksþingsins 2005 sem m.a. skilgreinir samningsmarkmið. Það verður fróðlegt að sjá niðurstöður hennar. Reyndar virðist andstaðan skörp innan Framsóknarflokksins. Ekki fyrr hafði Valgerður tjáð sig fyrst en Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, hafði svarað henni af krafti.
Mér finnst Jón Sigurðsson, viðskiptaráðherra, vera eins og blaktandi lauf í vindi í þessum málum eins og svo mörgum öðrum. Hann virðist vera ótrúlega stefnulaus í fjölda mála og fáir vita hver pólitík þessa manns er, sem á að vera einn valdamesti maður landsins. Ólíkt Halldóri Ásgrímssyni vantar í þennan formann flokksins það að tala hreint út og vera afgerandi í tali. Það er stundum eins og maður þurfi orðabók til að skilja samræmi orða hans. Það er varla kostur fyrir nokkurn stjórnmálamann. Mér finnst þó frekar eins og hann vilji ekki ESB núna, en hann flöktir verulega mikið til, einum of fyrir minn smekk.
Mér finnst ágreiningur um Evrópumál innan þessarar ríkisstjórnarinnar vera orðinn vandræðalegur fyrir hana. Það ætti að standa forsætisráðherra nær að standa vörð á ráðherrum sínum en að fjargviðrast yfir því hvað formaður Samfylkingarinnar segir. Vandinn nú finnst mér vera ágreiningur forsætis- og utanríkisráðherra með áberandi hætti, eins og við höfum séð í gær og í dag. Þetta er algjörlega óviðunandi hringavitleysa, segi ég og skrifa.
13.1.2007 | 17:53
Valgerður leiðir - Birkir og Höskuldur næstir

Valgerður er afgerandi forystumaður Framsóknarflokksins og verið áberandi forystumaður innan flokksins, hún var þingflokksformaður 1995-1999 og verið ráðherra frá 31. desember 1999, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1999-2006 en varð fyrst kvenna utanríkisráðherra í júní 2006. Birkir Jón Jónsson, alþingismaður, hlýtur afgerandi kosningu í annað sætið, sem kemur engum að óvörum í ljósi þess að hann var eini sitjandi þingmaðurinn í framboði, utan Valgerðar. Hann er formaður fjárlaganefndar og sveitarstjórnarmaður í Fjallabyggð fyrir flokkinn og hefur sterka stöðu. Birkir kom inn síðast sem eitt af framtíðarefnum flokksins og er nú næstur Valgerði og líklegur eftirmaður hennar síðar meir.
Höskuldur Þórhallsson hlýtur kosningu í þriðja sætið. Hann var augljós fulltrúi Akureyringa í fremstu röð á listann, en Akureyringar náðu aðeins efst fimmta sætinu á kjördæmisþingi fyrir fjórum árum, en þá varð Þórarinn E. Sveinsson í því sæti. Höskuldur hefur lengst af sinnar ævi búið í Hörgárdal og Akureyri, en faðir hans, sr. Þórhallur Höskuldsson var sóknarprestur á Möðruvöllum 1968-1982 en á Akureyri 1982-1995, er hann lést langt fyrir aldur fram. Höskuldur hefur eflaust farið mjög langt á verkum sínum sem kosningastjóri flokksins í Norðausturkjördæmi í síðustu alþingiskosningum, en flokkurinn vann þá glæsilegan sigur og hlaut yfir 30% atkvæða og fjóra þingmenn.
Athygli vekur að efsti Austfirðingurinn á listanum er Jón Björn Hákonarson í fimmta sætinu. Það var fyrirséð að Austfirðingar ættu erfitt uppdráttar nú, þó að þeir hefðu jafnan haft sögulegt séð sterka stöðu austur á fjörðum og lykilforystumenn. Þeir áttu engan afgerandi forystumann eftir að Jón Kristjánsson og Dagný Jónsdóttir, sitjandi alþingismenn, ákváðu að draga sig í hlé úr stjórnmálum nú að vori. Austfirðingar lenda því í sömu stöðu nú og Akureyringar síðast að eiga ekki þingmann.
Það mun vafalaust styrkja flokkinn hér að hafa Akureyring í baráttusæti en væntanlega munu framsóknarmenn leggja áherslu á að Höskuldur fari inn á þing hið minnsta, allt annað yrði sögulegt afhroð fyrir þá. Ég held að listi framsóknarmanna verði sterkari en ella í ljósi þess að skýr fulltrúi stórs svæðis á borð við Akureyri er inni í vænlegu sæti.
![]() |
Valgerður í fyrsta sæti á lista framsóknar í NA-kjördæmi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.1.2007 | 17:08
Valdimar Leó vill í framboð fyrir frjálslynda

Ég ítrekaði fyrri skrif í öðrum pistli að kvöldi 16. nóvember og gekk eiginlega lengra í fullyrðingum, eftir að Steingrímur Sævarr Ólafsson hafði staðfest þessar kjaftasögur og líka skrifað um málið. Nokkrir aðilar véfengdu þær heimildir sem ég hafði í fyrri skrifunum, sem bæði voru fengnar frá stjórnmálaáhugamönnum í kraganum og viðtali við Valdimar Leó á Útvarpi Sögu þar sem hann neitaði engu. Þær efasemdarraddir urðu rólegri í seinni skrifunum og gufuðu hægt og rólega algjörlega upp.
Nú hefur Valdimar Leó opinberlega sagst horfa til frjálslyndra, svo að öll voru þessi skrif rétt af minni hálfu. Þar var nákvæmlega engar kjaftasögur rangar eða eitt né neitt ýkt. Einfalt mál það. Væntanlega horfir Valdimar Leó til þess að reyna að fá umboð til að leiða lista frjálslyndra í kraganum, sínu gamla kjördæmi. Það er óvíst hver leiðir listann þar nú, enda engin prófkjör hjá frjálslyndum nú frekar en nokkru sinni áður.
Það verður frekar skondið ef að Valdimar Leó verður kjördæmaleiðtogi af hálfu frjálslyndra í sama kjördæminu og Gunnar Örn Örlygsson leiddi lista árið 2003. Frjálslyndir forystumenn gagnrýndu ekki svo lítið brotthvarf Gunnars úr flokknum. Þá vændu Frjálslyndir Gunnar Örn um svik og reyndu að beita sér fyrir því að Gunnar afsalaði sér þingmennsku sinni þar sem staða mála væri breytt frá kosningunum.
Það er spurning hvort að Frjálslyndir leiði kjörinn þingmann í nafni Samfylkingarinnar til leiðtogasætis í kosningum að vori. Svo segir kjaftasagan. Fróðlegt hvað gerist í þeim efnum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.1.2007 | 16:17
Tiktúrur stjarnanna
Heimur stjarnanna er oft órafjarri okkar sem lifum hið daglega líf með bros á vör oftast nær. Þó að sú tilvera sé oft frekar litlaus er hún samt að ég tel miklu skemmtilegri en gervitilveran sem stjörnurnar lifa í kastljósi fjölmiðla og með paparazzi-hundana á eftir sér alla daga, eins og hrægamma. Það er ekki beint draumatilvera neinnar vitsmunaveru, hreint út sagt
Það er orðið nokkuð langt síðan að ég hef hlegið eins mikið og yfir þessari frétt um væntanlegt brúðkaup Elizabeth Hurley, sem er alþekkt glamúrdama. Ekki er hún mikið í aukabitunum, enda borðar hún ekkert eftir kl. 16.00 á daginn til að passa nú alveg 110% örugglega í brúðarkjólinn sinn. Engin kaloría umfram eftir síðdegið. Það er því eflaust lítið um popp og kók át þar yfir sjónvarpinu á kvöldin og pizzupantanir.
Það er eitthvað svo kaldhæðnislega margt fyndið við þessa tilveru sem stjörnurnar eiga. Það fylgir sögunni að fröken Hurley borði nú aðeins eggjahvítur, grænmeti og gufusoðinn fisk, og smávegis af franskbrauði og fólínsýru til að auka möguleika sína á að verða barnshafandi. Jamm, það er ekki öll vitleysan eins. Ég vona að bloggvinir mínir lifi ekki svona steríleseruðu lífefni og frökenin sem þarf að passa í brúðarkjólinn sinn.
Sem minnir mig á það að ég má alls ekki gleyma því að panta mér pizzu í kvöld, fá mér kók með og borða Nóa kropp svona með til hátíðabrigða. Svo þarf að poppa líka. Mjög gott, enda er klukkan nú officially orðin 16:00. Þessu má ég alls ekki gleyma. :)
![]() |
Elísabet Hurley neitar að borða eftir klukkan 16 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 16:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.1.2007 | 15:12
Fjórir mánuðir til alþingiskosninga

Kosningabaráttan virðist vera hafin á fullum krafti. Framboðslistar liggja nú fyrir einn af öðrum. Þegar eru fjórir framboðslistar Sjálfstæðisflokksins tilbúnir, en eftir er að samþykkja lista í Norðaustur- og Suðurkjördæmi, en þar verða kjördæmisþing haldin um næstu helgi. Aðrir flokkar eru langt komin með sín framboðsmál. Framsóknarflokkurinn hér í Norðausturkjördæmi ákveður lista sinn í dag og í Suðurkjördæmi skýrast þau mál um næstu helgi er kosið verður á milli Guðna Ágústssonar, landbúnaðarráðherra, og Hjálmars Árnasonar, þingflokksformanns, um leiðtogastól.
Formenn flokkanna eru komnir í kosningaham. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Steingrímur J. Sigfússon eru í fundaferð um landið. Formenn stjórnarflokkanna; Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Jón Sigurðsson, viðskiptaráðherra, hafa verið rólegi í tíðinni en samt sem áður verið áberandi í fréttum. Kastljós fjölmiðla hefur verið á Jóni, en hann er eini flokksleiðtoginn í þessum kosningum sem aldrei hefur tekið virkan þátt í kosningabaráttu áður sem frambjóðandi. Á hann reynir nú mjög. Reyndar er óvissa um leiðtogamál frjálslyndra en þar á eftir að verða landsfundur senn, þar sem kjörin er forysta.
Það stefnir í spennandi kosningar. Ef marka má skoðanakannanir verður þetta fjörleg barátta. Aðalmál þingsins síðustu vikurnar sem þingið starfar á kjörtímabilinu er frumvarp um málefni RÚV. Það verður fróðlegt hvort að stjórnarmeirihlutinn nær því í gegn, en ansi oft hafa breytingar og frestanir sett mark sitt á það.
![]() |
Vorþing hefst á mánudag með umræðum um RÚV ohf. |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.1.2007 | 10:58
...að vera heimtur úr helju

Það leiddi til þess að Devlin var handtekinn og strákarnir fundust báðir. Eins og fyrr segir hefur Hornbeck verið týndur í fimm ár, en hann hvarf októberdag einn árið 2002 og verið talinn hreinlega af, enda mjög ólíklegt að einstaklingar sem hafi verið horfnir svona lengi komi í leitirnar aftur. Það er vissulega sláandi að sjá að svona geti enn gerst, að fólk ræni einhverjum og geti haldið honum svo árum skipti. Þetta er jafnan alheimsviðburður að upplifa svo gleðilegan atburð að þeir sem hafi lent í svona örlögum geti þó náð aftur heim til sín og verið heimtur úr helju.
Innan við ár er nú liðið síðan að stelpan Natascha Kampusch fannst í Austurríki. Hún hafði verið týnd í átta ár og verið talin af. Henni var haldið á heimili vitfirrts manns og lifði mjög hrörlegu lífi. Fréttamyndirnar af vistarverum hennar í kjallara hússins sem henni var haldið fanginni í fóru um allan heim og voru sláandi. Fréttaviðtalið við Kampusch var alheimsviðburður og með ólíkindum þótti af hversu mikilli stillingu hún gat talað um lífsreynslu sína, sem var ógnvekjandi og sorgleg í senn.
Það vekur svo sannarlega athygli kastljóss fjölmiðla þegar að fólk er heimt úr helju eftir áralanga vist sem fangi einhvers. Það er skelfilegt að vakna upp við það að svona geti gerst, einkum er um er að ræða börn sem eru í haldi vitfirrtra manna. Það er þó auðvitað sérstaklega ánægjulegt að það takist að heimta það úr helju. Væntanlega munu fjölmiðlar fylgjast jafnvel með Shawn Hornbeck og Natöschu Kampusch fyrir nokkrum mánuðum.
![]() |
Fannst á lífi eftir að hafa verið saknað um árabil |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.1.2007 | 09:13
Isabel Peron handtekin... en látin svo laus

Isabel var látin laus gegn skilyrðum skömmu eftir handtökuna, en yfir henni vofir að vera framseld til Argentínu, landsins sem hún dvaldi aðeins í sem þegn í tæpan áratug, en varð samt þjóðhöfðingi þess. Hún og Peron komu úr útlegð hans árið 1973, þá hafði Peron ekki komið þangað í 18 ár, en honum var steypt af stóli í byltingu árið 1955. Hann gerði Isabel að varaforseta sínum. Isabel, sem var næturklúbbadansmær í Panama á sjötta áratugnum, er hún kynntist Peron, erfði svo stjórn landsins er Peron féll frá. Það varð svo sannarlega brösugt tímabil, sem endaði með kuldalegum hætti.
Í stuttum pistli hér í gær fór ég yfir bakgrunn Isabel og pólitíska sögu þeirra hjónanna, sem er auðvitað stórmerkileg þó seint verði hún talin glæsileg. Valdatími Isabel, sem auðvitað var algjörlega óreyndur stjórnmálamaður og hafði ekki hundsvit á málefnum Argentínu eða gat ekki verið andlit stjórnmálatilveru þar, var þyrnum stráður og að því kom auðvitað að honum lauk með hranalegum hætti. Herinn steypti henni af stóli. Hún var enda vissulega mjög utanveltu stjórnmálamaður og hafði það ekki til að bera sem þurfti til að stjórna landinu, sem eins og fyrr og síðar hefur verið mjög hriktandi af hernaðarlegum og fjárhagslegum krísum.
Isabel, sem markaði spor í söguna með forsetaferlinum, vill varla halda aftur til Argentínu. Stjórnvöld þar vilja að hún svari til saka fyrir að bera ábyrgð á mannránum og mannshvörfum þegar hún var forseti Argentínu á árunum 1974-1976. Hún er nú komin í sömu stöðu og Augusto Pinochet, annar litríkur forystumaður í s-amerískum stjórnmálum undir lok tíunda áratugarins og eftir það; að vera á flótta undan réttvísinni. Það verður fróðlegt að sjá hver örlög þessarar hálfáttræðu konu verða, fyrsta kvenforsetans í sögu heimsins.
![]() |
Isabel Perón látin laus með skilyrðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.1.2007 | 14:11
Magni á ekki sjö dagana sæla

Þegar að ég fór síðast til Bandaríkjanna var það í gegnum flugvöllinn í Baltimore. Þar sem ég var með gömlu týpuna af vegabréfi lenti ég í nokkrum vandræðum hjá konu sem hleypti fólki í gegn sem einhvers konar vörður laganna þarna. Þessi hægláta blökkukona, sem var með augu arnarins, lét á mér dynja eitthvað það mesta og flóknasta spurningaflóð um tilveru mína síðan að ég komst til vits og ára. Mér leið eins og hryðjuverkamanni frá fjarlægum löndum en ekki sögusjúkum sérvitringi frá gamla góða Íslandi.
Vona annars að Magna gangi vel úti, þegar að hann kemst þangað á annað borð. Þetta er harður bransi sem hann heldur í, en hann er eflaust með þau sterku bein sem þarf í þau. Það hefur allavega sést vel af umræðunni um nánustu innviði lífs hans síðustu dagana.
![]() |
Magni án atvinnuleyfis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.1.2007 | 13:27
Carl Bildt sleppur fyrir horn

Carl Bildt varð utanríkisráðherra við valdaskiptin í október er samfylking borgaralegu aflanna steyptu stjórn jafnaðarmanna af stóli eftir tólf ára valdasetu. Innkoma Bildts aftur í stjórnmálin vakti þá mesta athygli, enda hafði hann afsalað sér forystuhlutverki á þeim vettvangi eftir þingkosningarnar 1998 og haldið til annarra verkefna. Hann hafði reynslu og þekkingu í alþjóðastjórnmálum til að bera og hélt embætti utanríkisráðherra með vigt og þunga, þó að Jan Eliasson léti af embættinu, en hann hafði áður verið forseti allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna og heimsþekktur diplómat.
Bildt er eflaust mest þekktur fyrir sáttasemjarahlutverk sitt við Balkanskagann á tíunda áratugnum og að hafa leitt stjórn hægriaflanna í upphafi tíunda áratugarins, þá kornungur í raun og maður nýrra tíma. Hann kom aftur sem enn ferskur vindblær og tryggði festu við stjórn hægriaflanna eftir langa stjórnarandstöðu með því að taka við utanríkisráðuneytinu, sem er lykilráðuneyti í sænskum stjórnmálum. Þessi vegtylla kom honum aftur í miðdepil norrænna stjórnmála. Þetta hneykslismál veikti hann og stjórnina sem hann situr í, enda ekki sterk eftir lítt glæsileg pólitísk endalok tveggja ráðherra í byrjun valdaferilsins.
Nú verður fróðlegt að sjá hvort að þessi skandall eltir hann uppi, þó rannsóknin sé búin sem slík. Einn skítablettur á hvítaflippann getur nefnilega verið nógu áberandi.
![]() |
Carl Bildt sleppur við rannsókn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.1.2007 | 11:41
Verður Kristinn H. forstjóri Tryggingastofnunar?

Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra, mun skipa forstjóra Tryggingastofnunar ef að því kemur fyrir þingkosningar. Fyrirséð er að forstjóraskipti verði þar fljótlega, enda er Karl Steinar Guðnason, sem verið hefur forstjóri stofnunarinnar allt frá árinu 1993, nú að nálgast sjötugt. Skipan Karls Steinars í forstjórastól Tryggingastofnunar fyrir einum og hálfum áratug var umdeild og þótti til marks um vandræðalegar skipanir í embætti af hálfu Alþýðuflokksins. Umræðan um hana varð mikil og enn heyrast þær raddir að Karl Steinar hafi fengið stöðuna til að rýma til fyrir ráðherrakapli og öðrum málum í stjórnmálum. Um hafi verið að ræða dúsu.
Sé einhver framsóknarmaður í aðdraganda þessara kosninga sem flestir framsóknarmenn telja rétt að gefa dúsu og embætti til að rýma til í vondum aðstæðum er það Kristinn H. Það er ekki óvarlegt a ætla að hann komi til greina í þessa stöðu enda er hann formaður stjórnar Tryggingastofnunar og hefur verið á þessu kjörtímabili. Vangaveltur um stöðu Kristins H. er væntanlega mikið til umræðu innan stjórnmálalitrófsins í Norðvesturkjördæmi. Það hlýtur að vera mikilvægt fyrir Framsóknarflokkinn að afstýra sérframboði eða klofningi sem yrði með brotthvarfi Kristins H. Enn liggur ekkert fyrir en það blasir við að niðurstaða fáist í málið, enda stutt í kjördæmisþing flokksins þar sem samþykkja á endanlegan lista.
Kristinn H. hefur verið miðpunktur átaka innan Framsóknarflokksins nær allt frá fyrsta degi innan flokksins, en þó umfram allt á þessu kjörtímabili. Hann missti formennsku þingflokksins strax eftir kosningarnar 2003, missti allar nefndasetur sínar með eftirminnilegum hætti haustið 2004 vegna átaka við Halldórsarminn, var tekinn í sátt í ársbyrjun 2005 en hefur haldið uppi andstöðu og beittum efasemdum gegn forystu flokksins. Hann hefur þó virst rólegri í þeim efnum eftir að Halldór Ásgrímsson yfirgaf stjórnmálaþátttöku. Fari hann til verka í Tryggingastofnun blasir við öllum af hverju það verður.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.1.2007 | 09:27
Saga af næturklúbbadansara sem varð forseti

Juan Peron hafði öðlast sess í sögunni sem forseti Argentínu fyrr á árum. Hann var orðinn gamall og slitinn maður er hann reyndi aftur að komast til Argentínu og á gamals aldri varð hann aftur forseti landsins árið 1973. Sér við hlið fyrrum var hin sögufræga Evita. Henni var gerð skil í kvikmyndum og söngleikjum. Hún varð ódauðleg í huga allra heimsbúa en fyrst og fremst íbúa Argentínu fyrir sitt framlag í sögu landsins við hlið Perons. Árið 1973 sneri Juan Peron aftur með Isabel sér við hlið. Ekki aðeins var hún 35 árum yngri en hann, heldur með aðra fortíð en Evita.
Juan Peron gerði næturklúbbadansmeyna, hina pólitískt algjörlega óreyndu, að varaforseta. Með því varð hún valdamesta konan í heiminum. Hann gerði hana ódauðlega í huga allra heimsbúa. En hún varð ekki ódauðleg með sama hætti og hin þokkafulla Evita. Þær voru ekki úr sama efniviði. Það kom enn betur í ljós í ágúst 1974 er Juan Peron dó, farinn að heilsu og kröftum. Eftir stóð hin óreynda næturklúbbadansmær sem fyrsti kvenforseti heimsins. Í Argentínu vöknuðu menn upp við hana við völd er Peron dó. Hún tók erfitt hlutskipti í arf eftir mann sinn er hann skildi við. Það varð henni um megn. Árið 1976 steypti herinn henni af stóli og hún flúði landið sem var eiginmanni hennar allt.
Þrem áratugum síðar vilja Argentínsk yfirvöld fá Isabel Peron, næturklúbbadansmeyna sem markaði söguna með athyglisverðum hætti í stjórnmálalegu tilliti, aftur í sínar hendur. Hún hefur dvalið í eftirlaunakyrrðinni á Spáni, fjarri því að mæta uppgjöri við valdatíð sína og eiginmannsins litríka. Þeir krefjast framsals og að hún sé tekin höndum.
Isabel er orðin gömul kona og hlýtur að vilja forðast þess að mæta örlögunum í landinu sem hún erfði eftir mann sinn. Það er ekki arfleifð sem hún getur verið stolt af. En mikið er þetta annars ótrúleg saga. Kannski er sagan af næturklúbbadansmeynni ekki síður efni í söngleik en saga hinnar áferðarfallegu Evitu.
![]() |
Argentína vill fá Isabel Perón framselda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.1.2007 | 21:13
Líður að lokum stjórnmálaferils Tony Blair

Þegar að pólitískur ferill Tony Blair verður rakinn mun Íraksmálið verða þar ofarlega á baugi. Það er eitt stærsta mál hans ferils og grafskriftin sem því fylgir er öllum ljós. Oftar en þrisvar á fjórum árum Íraksstríðsins var hann nærri kominn að því að hrökklast frá embætti. Tæpast stóð hann sumarið 2003 þegar að vopnaeftirlitsmaðurinn dr. David Kelly fyrirfór sér. Hann stóð það mál af sér, með naumindum þó, og hvítþvottaskýrslan var svo augljóslega lituð og undarleg að enn er um talað. Íraksstríðið eyðilagði pólitíska arfleifð Blairs, það blasir við öllum.
Hvað er hægt að segja um Blair þegar að hann fer? Hann hafði jú vissulega níu líf kattarins og tókst svipað oft að sleppa frá afsögn og skammarlegum pólitískum endalokum. Hann reddaði sér fyrir horn síðast í september er litlu sem engu munaði að hallarbylting yrði gerð. Sá hristingur afrekaði þó að tímasetning fékkst upp úr Blair með hvenær að hann myndi hætta. Hann beygði sig undir óvildarmennina og varð að gefa upp dagsetningu til að hann næði valdaafmælinu í maí. Það var eina ambítíón Blairs er þar var komið sögu að geta staðið brosandi vígreifur í dyragættinni í Downingstræti, rétt eins og Thatcher árið 1989. Hann fer þó þaðan eins og Thatcher; skaddaður og rúinn í gegn.
Einu sinni fannst mér Tony Blair vera einhvers virði, ég viðurkenni það fúslega. Mér fannst John Major aldrei spes. Það að Thatcher skyldi ekki þekkja vitjunartíma sinn var mikill pólitískur harmleikur og öflugur eftirmaður kom ekki til sögunnar. Major dugaði, en ekki hótinu meira en það. Hann virkaði á mig og flesta aðra sem meinleysislegt grey sem reyndi sitt besta og tókst hið ómögulega; að vinna kosningarnar 1992. En honum var sturtað út fimm árum síðar. Þó að ég vonaði lengi að Major hefði það fannst mér ferskleiki yfir innkomu Blairs, enda var hann byrjun á einhverju nýju. Hann hlýtur að hafa valdið mestu stuðningsmönnum sínum gríðarlegum vonbrigðum.
Þeir segja spekingarnir sem ég met mest hjá Guardian að Gordon Brown sé enn nógu sterkur til að halda það lengi út að geta tekið við af honum Blair fyrir haustvindana. Það hafa orðið sættir milli hans og helstu Blair-istanna og Brown fær að öðlast lyklavöldin þegar að Blair fer loksins. Brown hefur beðið í árafjöld eftir tækifærinu. Fær hann að blómstra í embættinu? Er hann ekki orðinn einn þeirra krónprinsa sem biðu of lengi? Getur hann blómstrað í slag við David Cameron? Þetta er stóra spurning breskra stjórnmála nú.
Nú stendur nefnilega Brown blessaður og fellur með arfleifð Blairs. Hann tekur hana nefnilega í arf með öllu því vonda og beiska sem henni fylgir. Nú verður fróðlegt að sjá hvort að skotinn plotteraði stendur undir þeirri arfleifð er Teflon-Tony keyrir inn í sólsetrið í eftirlaununum á besta aldri.
![]() |
Blair: Skynsamlegt að fjölga í liði Bandaríkjamanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.1.2007 | 18:44
Kosningabarátta Valgerðar Sverrisdóttur hafin

Þó sjálfkjörin sé í leiðtogastöðu kjördæmisins hjá flokknum á kjördæmisþingi hefur Valgerður opnað kosningaskrifstofu hér í miðbænum með dagskrá allan daginn á sama stað og Kristján Þór Júlíusson, forseti bæjarstjórnar, var með aðstöðu í prófkjörinu þar sem hann barðist við tvo keppinauta að því markmiði að verða eftirmaður Halldórs Blöndals, sem hann og náði. Prófkjörsbarátta Valgerðar er fyrst og fremst til að peppa upp flokkinn hér. Ekki er vanþörf á sýnist manni, enda galt Framsókn afhroð hér í fyrravor og tapaði tveim bæjarfulltrúum hér í gamla höfuðvígi sínu.
Ekki verður öfundsvert fyrir Valgerði að halda til þeirrar baráttu ef hún hefur meðreiðarsveina á borð við Hjörleif Hallgríms, fyrrum pirraðan ritstjóra á Vikudegi, sér til fulltyngis. Hann virðist reyndar vera að slaufa sig út af landakortinu án allrar aðstoðar og ráðleggingar svo að væntanlega sleppur Valgerður við þessa pínu í kosningabaráttunni að hafa Hjörleif sér við hlið. Enda væri sú blanda pars með öðrum frambjóðendum jafnheillandi og Addams-fjölskyldan gamalkunna. Að óbreyttu verður þetta erfið barátta fyrir Framsókn, sem virðist eiga í miklum vandræðum um allt land og stefna í erfiðar kosningar þar að þessu sinni.
Hér í Norðausturkjördæmi blasir það verkefni við Framsókn að velja frambjóðendur í annað og þriðja sætið, enda hætta bæði Jón Kristjánsson og Dagný Jónsdóttir, sem skipuðu þau sæti árið 2003, nú í stjórnmálum. Fyrirséð er að Birkir Jón Jónsson, alþingismaður, nái gamla sætinu hans Jóns en mikil spenna er um þriðja sætið. Það verður sögulegt vissulega ef Austfirðingur nær því ekki, enda hafa framsóknarmenn á Austfjörðum alltaf átt sterk þingmannsefni en staðan er önnur nú, þar er óvissa yfir.
Fyrst og fremst reynir þessi kosningabarátta á Valgerði, hún á allt sitt undir að koma vel út hér. Síðast var sigurinn stór en nú stefnir í afhroð. Flestir tala um þetta sem síðustu kosningabaráttu Valgerðar. Það verður fróðlegt að sjá hvernig henni gengur, enda stendur hún nú eftir án þeirra sem með henni leiddu baráttuna síðast og það verður meira kastljós á henni, þó að eflaust styrkist staða Birkis við að færast upp. Valgerður þarf nú á öllu sínu að halda og gott betur en það.
![]() |
Útibú frá þýðingarmiðstöð utanríkisráðuneytisins opnað á Akureyri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.1.2007 | 17:39
Lífleg viðbrögð við skrifum um Barnaland

Margir virðast skrifa á spjallvefum, svo að þetta er nokkuð stór menningarheimur. Flestir virðast þar skrifa nafnlaust. Sumir sem sendu mér póst töldu að ég væri að setja alla undir sama hatt, en svo er ekki, enda er til það nafnlausa fólk sem skrifar af ábyrgð og málefnalega og fer ekki yfir rauðu marklínuna, þ.e.a.s. fer of langt. Þeir eru þó vissulega margir. Þetta voru allavega lífleg skoðanaskipti og sumir hafa svo líka kommentað hér á vefinn um þetta. Alltaf gott að fá viðbrögð á skrifin.
Heilt yfir eru spjallvefirnir svolítið spes horn á netheimum. Sumum líkar það menningarlíf, öðrum hreint ekki. Þetta verður alltaf umdeilt. Þar sem ég hef sjálfur verið í spjallskrifunum með einhverjum hætti get ég talað um þetta af reynslu. Þó að ég telji Málefnin til þessa hóps vefja finnst mér það vera eins og barnakór miðað við Barnaland oft á tíðum. En Málefnin hafa verið beittur vettvangur og svolítið spes auðvitað. Hef haft gaman af að spjalla við suma þar en aðra ekki, sem gengu frekar langt. Persónulega fannst mér gott að vera þar sem persóna undir nafni en ekki einhver nafnlaus karakter.
Ég notaði enda alltaf einkennisnafn mitt sem hér er yfirskrift sem nafn á spjallvefum. Ég allavega vildi frekar segja mínar skoðanir með þeim hætti. Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, var beittur gegn spjallvefunum á sínum tíma og kallaði á reiði þeirra sem á slíkum vefum skrifuðu. Sama gerðist þegar að ég skrifaði greinar á gamla bloggið mitt árið 2004. Sama gerist nú. Eðlilegt að þeir sem eru nafnlausir vilji vera það áfram og sárni að sjá viðkvæma hlið.
Hef fundið vel fyrir þessum pirringi með ýmsum hætti. Það pirrar mig svosem ekki. Hér segi ég mínar skoðanir og spjallvefir eru eitt álitaefnanna sem vert er að skrifa um.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)