6.10.2007 | 00:04
Helga bannað að vera með þátt á RVKFM

Eftir því sem kjaftasagan segir mun Óli Palli á Rás 2 hafa orðið fúll, en honum var víst boðið að vera í einhverjum sjónvarpsþætti, veit ekki alveg hvaða þáttur það er en sennilega var það dómarahlutverk í þættinum þar sem söngvari bandsins hans Bubba er valinn. Ýmisleg dæmi eru um að starfsmönnum sé ekki leyft að vinna í kross, en þetta virkar spes í ljósi þess að þetta er þáttur á útvarpsstöð og mun minna áberandi, en hefði þetta verið t.d. þáttur á Bylgjunni.
Það er skrýtið að útvarpsstjóri grípi fram fyrir hendurnar á dagskrárstjóranum með þessum hætti. En hann er sennilega að reyna að hafa alla góða, enda dæmi vissulega um að ólga hafi verið vegna þess að starfsmenn sinni verkum utan Efstaleitis. Það verða semsagt engin Helgispjöll hjá Helga á RVKFM og fróðlegt hvað komi í staðinn á sunnudögum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.10.2007 | 19:39
Hriktir í stoðum sjálfstæðismanna í Reykjavík

Það er skiljanlegt að kjörnir fulltrúar nenni ekki að sætta sig við svona verklag og gusti milli kjörinna fulltrúa. Það er auðvitað algjörlega afleitt verklag að borgarstjórinn, þó leiðtogi hópsins sé, taki svona stórar ákvarðanir án samráðs við samstarfsmenn sína innan borgarstjórnarflokksins og telji sig vera kóng í ríkinu þar sem ekkert skipti máli nema hans boð og bönn. Þetta virðist vera alvarlegur trúnaðarbrestur og ekki við öðru að búast svosem eins og komið er málum en að vinna þurfi sig úr málinu með aðkomu forystu Sjálfstæðisflokksins.
Það er til marks um veika stöðu Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar að enginn borgarfulltrúa vill fara í fjölmiðla til að verja hann, nema Júlíus Vífill Ingvarsson. Þögnin er það eina sem kemur frá Gísla Marteini Baldurssyni, formanni borgarstjórnarflokksins, og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, forseta borgarstjórnar. Sú þögn er hróplega áberandi eins og staða mála er orðin. Ef marka má fréttir er andstaðan leidd af fjórum borgarfulltrúum, auk fyrrnefndra tveggja, þeirra Jórunnar Frímannsdóttur, formanns velferðarráðs, og Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttur, formanns leikskólaráðs.
Það verður áhugavert að sjá hver lausnin á átökunum verður. Verður hún kannski sú að Vilhjálmi og Hauki Leóssyni verði skipt út sem fulltrúum flokksins í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur? Stórt er spurt vissulega, en varla of stórt enda hefur sá orðrómur verið uppi síðan í gær að þeir sem ósáttastir eru við verklagið vilji algjörlega nýtt upphaf með nýjum fulltrúum. En það verður varla flokkað öðruvísi en sem vantraust yfir borgarstjóranum verði honum skipt út úr stjórninni eftir allt sem á undan er gengið.
Það hriktir altént í stoðum Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og þýðir ekkert að afneita þeirri krísu sem uppi er. Hún sést vel orðalaust í fjölmiðlunum þegar að enginn borgarfulltrúi vill bakka upp ákvarðanir borgarstjórans og tekist er á innan hópsins með þeim hætti sem fjallað hefur verið um. Þessi átök hafa verið að mestu utan kastljóss fjölmiðla, en samt vakið athygli, enda virðist borgarstjórinn standa einn eftir.
Það boðar auðvitað viss tímamót og hlýtur að leiða til þess að kjaftasögur grasseri um pólitíska framtíð borgarstjórans í Reykjavík. Það er alveg ljóst að hann mætir meiri mótspyrnu innan sinna raða en áður hefur gerst og ekki undrunarefni eins og allt er í pottinn búið í þessu REI-máli.
![]() |
Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins á fund Geirs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
5.10.2007 | 17:24
Útvöldum boðið að sjá friðarglampann í Viðey

Það er að verða ansi áberandi að svona menningarsamkomur eða viðburðir eru að verða boðsviðburður þeirra sem sumir vilja kalla ríka og fræga fólkið, en ég vil kalla þverskurð samfélagsins og menningarelítunnar. Veit ekki hvaða mælistika er fengin út hinsvegar til að finna þennan þverskurð, það er kannski enn eitt spurningamerkið sem kviknar á rétt eins og friðarljósinu. Varla er bara verið að bjóða friðarsinnum í eyjuna.
Það er alveg ljóst að það er mjög vel til fundið að minningu meistara Lennons sé sómi sýndur. Friðarsúlan mikla er að ég held undir merkjum Imagine, sem ber ennfremur heiti eins þekktasta lags Lennons á sólóferli hans. Um er að ræða ljóssúlu sem stendur upp í mikla hæð. Það er viðeigandi að heiðra minningu Lennons og gott mál að þetta gerist hér á Íslandi. Lega landsins gerir það að verkum að það er mitt á milli austurs og vesturs og greinilega er Ísland valið til að birtunni stafi héðan um allan heiminn, enda miðja vegu milli risaveldanna.
Greinilegt er að þessi friðarsúla er hjartans mál Yoko Ono nú, enda liggur hún mikla áherslu á verkið. Hef ég lengi verið mikill unnandi tónlistar Lennons, sérstaklega áranna með Bítlunum og seinni hluta sólóferilsins. Framlag Bítlanna og Lennon varð til þess að breyta gangi sögu tónlistarinnar. Eitt þekktasta lag Lennons er fyrrnefnt Imagine. Er það ekki annars uppáhaldslag okkar flestra? Tær snilld.
Vonandi verður bein útsending á einhverri stöðinni frá þessu svo að friðarglampinn lýsist ekki bara yfir boðsgestina útvöldu og þá Reykvíkinga, án boðskorts, sem sjá ljósið heiman úr stofu.
![]() |
Dr. Gunni fékk ekki boðskort |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.10.2007 | 13:33
Afleitt verklag - fundurinn dæmdur ólöglegur?

Heimdallur hefur nú sent frá sér góða ályktun um þetta mál - gert sitt af krafti og öryggi. Ungliðahreyfingin á að vera samviska flokksins og það gerist sannarlega í þessu máli. Þetta er rödd sem hlustað er á og á að skipta máli í flokksstarfinu. Það sem svíður mest í þessu máli er hversu mjög verklagið sem Alfreð Þorsteinsson beitti innan Orkuveitunnar er yfirfært yfir á daginn í dag en nú undir verkstjórn og forystu Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur. Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, sendir borgarstjóranum beitta pillu á vef sínum þar sem hann spyr sig upphátt að því hvort menn hafi ekki lært neitt í áranna rás.
Það hefur blasað við frá því að samruninn var tilkynntur að deilt er um hann bæði hugmyndafræðilega og efnislega innan borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins. Kjaftasagan segir að borgarstjórinn sé svo til einn á báti í málflutningi sínum. Það kemur ekki á óvart. Þetta verklag og áhættufjárfestingin sem þessu fylgir minnir svo mjög á risarækjueldið og annað ruglið sem frá Alfreð Þorsteinssyni kom að almennum sjálfstæðismönnum blöskrar. Þetta minnir á byltingarhöfðingjann sem barðist gegn hinu illa hjá stjórnarherrunum og steypti stjórninni. Þegar að hann komst til valda gekk hann ósómanum á hönd og var ekki hótinu skárri í spillingunni.
Það sem er verst af öllu í þessu máli er vafinn á lögmæti fundarins. Það er algjörlega ljóst að mjög deildar meiningar eru um stöðu hans og stefnir allt í það að farið verði með það fyrir dóm. Er eðlilegt að lögmætið verði kannað til fulls. Það verður ekki forystu Sjálfstæðisflokksins til sóma fari svo að þetta verklag verði dæmt ólöglegt og fundurinn strikaður út. Það er greinilegt að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson virðist ekkert hafa lært á minnihlutasetu árum saman og sest við kjötkatlana með sama brag og R-listaflokkarnir gerðu í denn innan veggja Orkuveitunnar.
Það er greinilegt að trúnaðarbrestur hefur átt sér stað í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins. Ólgan er meira að segja það mikil að talað er um það af fullri alvöru bakvið tjöldin að borgarstjóranum mistæka verði sparkað úr stjórn Orkuveitunnar við fyrsta tækifæri. Ekki eykst hróður gamla góða Villa við það að missa tiltrú samstarfsmanna sinna vegna þessa verklags.
![]() |
Vilja fara með Orkuveitufund fyrir dómstóla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
5.10.2007 | 11:42
No Reservations
Í kvikmyndagagnrýni á film.is skrifa ég um kvikmyndina No Reservations í leikstjórn Ástralans Scott Hicks og með Catherine Zeta-Jones, Aaron Eckhart, Abigail Breslin og Patriciu Clarkson í aðalhlutverkum.
No Reservations
Það er ávallt hressandi í miðri runu hasar- og ævintýramynda að sjá stöku sinnum raunverulegt drama með dassa af rómans og laufléttum undirtón - sanna og góða mynd með traustum kjarna, ekki bara vellublaður út í bláinn. Þannig mynd er hiklaust No Reservations. Gerði mér engar sérstakar væntingar svosem, þó að ég vissi að góðir leikarar væru þar vissulega í frontinum og myndin væri byggð á góðri evrópskri mynd sem ég hef oft séð. Gat því varla klikkað, en það hefur þó stundum klikkað rosalega feitt þegar að evrópskar myndir eru ameríkanseraðar. Það verður ekki í tilfelli No Reservations.
No Reservations er bandarísk endurgerð þýsku kvikmyndarinnar Bella Martha frá árinu 2001. Í stað þess að sögusviðið sé Hamborg erum við nú komin til gömlu góðu New York, sem Sinatra söng svo fallega um og Allen hefur gert ódauðlega á hvíta tjaldinu. Segir frá listakokknum Kate Armstrong, sem haldin er fullkomnunaráráttu um starf sitt. Eftir að hún missir stjórn á skapi sínu við matargest sendir yfirmaðurinn hana í meðferð hjá sálfræðingi til að reyna að vinna úr augljósum vandamálum. Systir Kate, sem hefur verið nánasta tenging hennar við lífið utan vinnunnar, deyr snögglega í bílslysi og hún erfir systurdóttur sína. Í ofanálag eignast Kate nýjan vinnufélaga, kokkinn Nick, sem á eftir að hafa jákvæð áhrif er yfir lýkur.
Í heildina er þetta notaleg og vel gerð mynd. Leikstjórinn Scott Hicks á að baki gloppóttan leikstjóraferil. Hann gerði t.d. hina frábæru Shine (sögu píanósnillingsins David Helfgott – sem skartaði Geoffrey Rush í óskarsverðlaunahlutverki), Snow Falling on Cedars og Hearts in Atlantis. No Reservations markar endurkomu hans í bransann eftir að hann tók sér pásu fyrir nokkrum árum og hann heldur vel utan um þræðina að mestu leyti. Leikhópurinn er traustur. Catherine Zeta-Jones glansar í hlutverki Kate, eins og svo oft áður. Er hennar besta mynd frá því að hún fékk óskarinn fyrir að leika skassið Velmu í Chicago að mínu mati.
Aaron Eckhart túlkar karakter ítalska kokksins Nick með tilþrifamiklum hætti. Það er sérstaklega gaman að sjá hann reyna við óperuaríurnar. Eckhart hefur verið þekktur fyrir bæði aðal- og aukahlutverk í myndum, sennilega þekktastur fyrir að leika George, sambýlismann Erin Brockovich, fyrir um áratug, og Nick í Thank You For Smoking. Hann passar vel við hlið Zetu og Breslin í þessari hugljúfu mynd og þau fúnkera öll vel saman, eiga fínan neista sem tríó. Patricia Clarkson passar mjög vel í hlutverk yfirmannsins Paulu. Clarkson hefur lengst af verið í bakgrunni kvikmynda, var fyrst sýnileg í The Untouchables en toppaði seint og um síðir fyrir nokkrum árum í Pieces of April.
Ungstirnið Abigail Breslin, sem heillaði alla með frábærri túlkun sinni á smellnu dúllunni Olive í Little Miss Sunshine og fékk óskarsverðlaunatilnefningu fyrir, er sú rétta í hlutverk systurdótturinnar Zoe, sem Kate erfir sisvona. Breslin sýnir flotta takta og sannar að hún er sannarlega á framabrautinni í bransanum. Zoe kemur Kate sannarlega á jörðina og reynir á mannlegu taugarnar í þeim vinnualka sem hún er orðin. Sérstaklega er alveg magnað að sjá matinn sem listakokkurinn frænkan eldar handa stelpunni, en það er óhætt að segja að hún lifi einum of í gourmet-fæðinu. En Zoe laðast að Nick, sem nær með því til frænkunnar.
New York leikur lykilhlutverk í myndinni. Það er orðið nokkuð langt síðan að þessi yndislega heimsborg hefur verið flottari í kvikmynd en þarna. Myndatakan er vel heppnuð og öll umgjörð myndarinnar er virkilega vönduð. Heildarmyndin er öll hin besta. Handritið er kannski gloppótt að vissu marki, alls ekki fullkomið, en það er freistandi að líta framhjá nokkrum áberandi göllum því að takturinn í myndinni fangar mann. Hún er hvorki of væmin né tapar sér í oftúlkuðum húmor. Þarna mætast andstæður á miðri leið og útkoman er áhugaverð, heldur manni við efnið sannarlega.
Í heildina er No Reservations ágætis yndisauki í haustrokinu og ætti að passa vel við á ágætisbíókvöldi. Leikhópurinn nær vel saman og umgjörðin er vel gerð í heildina. Það er oft sagt að einfaldar myndir geti verið ágætar með þeim stóru. No Reservations passar vel fyrir þá sem leita eftir rólegu og notalegri stund með mannlegu yfirbragði, um kosti og galla hversdagslífsins. Það verður seint sagt að No Reservations toppi þýska forverann yndislega, en það var þó varla tilgangurinn.
4.10.2007 | 22:39
Stálheppinn milljónamæringur á Akureyri

Þó að viðkomandi maður vilji ekki láta nafns síns getið held ég að fullyrða megi að nú fari kjaftasögurnar strax af stað um það í þessum kyrrláta bæ við fjörðinn fagra um hver nýjasti milljónamæringurinn í samfélaginu okkar sé. Það er kannski eðlilegt að fólk vilji vita það, en ég skil manninn enn betur að vilja verða nafnlaus milljónamæringur í fjölmiðlum.
Það er fullt af fólki sem vill verða millar á einni nóttu. Það getur kannski verið erfiðara að höndla er á hólminn kemur. Skilst að þetta sé Akureyringur á sjötugsaldri. Er því sennilega veraldarvanur í lífinu og hefur upplifað sínar hæðir og lægðir, öll upplifum við þannig daga með einum hætti eða öðrum.
Það hljóta að vakna spurningar um hvað fólk geri við svona fregnir, jafnvel fólk sem stundar sinn hversdag í brauðstriti. Eflaust tekur tíma að ná áttum eftir svona mikinn lífsins gróða, en vonandi verður lífið samt eftir, þó eflaust sé hægt að gera margt sem hugurinn hefur girnst árum saman.
![]() |
Vinningshafinn gaf sig fram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.10.2007 | 20:14
Sigrún Björk svarar ályktun Varðar með skætingi

Sjálfur kynntist ég sem formaður Varðar ýmsu verklagi sem vel gæti verið að fjallað yrði um síðar. Hafði ég ekki hugsað mér að opinbera marga þætti þess, en ég get ekki sagt annað en ég skilji vel hvernig þessi mál horfi við stjórn Varðar. Sjálfur var ég þar formaður um nokkurt skeið og tók þátt í innsta starfi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri. Það var mjög líflegt starf, en hinsvegar fann ég vel fyrir því er á hólminn kom að ekki var ætlast til þess að fólk sem leiddi starf félagsins sæktist eftir fleiru en helst að sópa gólfin eftir fundina og hella upp á kaffið fyrir þá.
Það var verklag sem ég nennti ekki að sætta mig við og ég get mun frekar þá mætt í annan félagsskap og uppbyggilegri en þennan. Held ég að margir hafi gefist upp á þessum félagsskap af sömu ástæðum. Hef ég dregið mig verulega út úr pólitísku starfi hér á Akureyri og tel óhætt að fullyrða að stór þáttur þess sé einmitt það sem núverandi stjórn Varðar hefur kvartað yfir. Varla þarf að fjölyrða um skoðun mína á ályktuninni. Ég held að þetta sé vandamál til fjölda ára sem kvartað er yfir. Það að binda það einni skipan í eitt ráð eins og bæjarstjórinn talar um er algjör fjarstæða og henni ekki til sóma.
Mér finnst sum verk Sigrúnar Bjarkar Jakobsdóttur sem bæjarstjóra ekki lofa góðu. Eitt þessara mála er klúðrið varðandi tjaldsvæðamálin um verslunarmannahelgina síðustu, þar sem 23 ára aldurstakmark var sett. Það var verklag sem ég get ekki stutt og ég mun ekki styðja stjórnmálamenn af þeim toga sem taka slíkar ákvarðanir ef fram heldur sem horfir. Það er greinilegt að verk SBJ eru umdeild og margt í fari þess sem gerist á hennar vakt farið að fara í pirrurnar á fjölda fólks.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.10.2007 | 16:37
Ólga meðal sjálfstæðismanna í Reykjavík

Það blasir við að ekkert samráð hefur verið haft við óbreytta borgarfulltrúa vegna þessarar sameiningar, staðið var frammi fyrir orðnum hlut og ákvörðunum sem tveir menn virðast hafa tekið á lokuðum fundi sín á milli. Það er verklag sem stundum getur orðið traust, sé samstaða fyrir hendi innan meirihlutaflokka, en getur æ oftar orðið fleinn í samskiptum milli fólks, dregið úr því að flokkar geti keyrt samstillt til verka. Foringjaræði í stjórnmálum getur verið sterkt sé unnið heiðarlega og vel en getur líka grafið undan leiðtogum sé ekki unnið almennilega og með samráð að leiðarljósi milli fólks, enda getur aldrei einn maður í sjálfu sér tekið ákvarðanir á öllum stigum ákvarðanaferils.
Það verður áhugavert að sjá hvaða eftirmálar þetta mál hafi, hvort þessi sameining verði að veruleika og meirihlutinn standi heill að þessari ákvörðun. Lekinn sem sýnir vafann á því vekur mikla athygli og hlýtur að vekja spurningar um samstöðu meðal fólks. Þetta gæti verið prófsteinn á það hversu sterkur foringi Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri, er í sínum hópi. Það að talað sé um að skipta honum jafnvel út úr stjórn Orkuveitunnar eru stórtíðindi, sé vilji fyrir því á meðal borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Mér finnst Vilhjálmur Þ. hafa sýnt það mjög vel síðustu mánuði að hann er gamaldags útbrunninn stjórnmálamaður með lítinn sans fyrir því hvað fólk vill eða samstöðu meðal hópsins. Nokkur fyrri mál hafa skaðað hann verulega og greinilegt að hópurinn fylgir ekki leiðsögn hans í þessu máli. Ég hef orðið fyrir vonbrigðum með forystu Vilhjálms Þ. og tel fróðlegt að sjá hvort hann muni leiða flokkinn í næstu kosningum eftir allt klúðrið sem hefur gerst á hans vakt.
Fyrir nokkrum vikum birtist fróðlegur pistill á Andríki um útrás Orkuveitu Reykjavíkur á erlendan markað. Vert að benda á þau skrif hér. Það eru 99,9% líkur á því að sjálfstæðismaður hafi haldið þar á penna og fróðlegt að sjá hversu mikil samstaða verði með þessar útrásarhugmyndir sem Orkuveitan stendur í.
Hversu mikil sátt er meðal sjálfstæðismanna með verklag leiðtoganna tveggja sem tekið hafa þessa ákvörðun? Varla er við því að búast að Björn Ingi rífist við sjálfan sig í borgarstjórnarflokki Framsóknarflokksins en þess þá meiri líkur á að gusti meðal sjálfstæðismanna í borgarstjórn.
![]() |
Sjálfstæðismenn ósáttir við sameiningu REI og Geysir Green Energy |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.10.2007 | 00:34
Akureyringur dettur í lukkupottinn

Það eru tveir áratugir liðnir frá því að fyrsti lottóvinningur Íslandssögunnar kom til Akureyrar, en þá vann Ólöf Ananíasdóttir nokkrar milljónir. Ólöf hafði skömmu áður misst mann sinn og var mikið fjallað um þennan fyrsta lottóvinningshafa landsins. Um áratugur er liðinn frá því að hjón hér í bæ unnu stóran vinning í Víkingalottóinu. Minnir að það hafi verið 42 milljónir og það þótti mikið hér þá.
Vil óska vinningshafanum til hamingju. Það hlýtur að hafa gríðarleg áhrif á lífsstandardinn að taka svona stóran pott og vonandi mun verða vel haldið utan um það. Vona að viðkomandi fylgi ekki algjörlega eftir lífsstandard Lýðs Oddssonar, lottóvinningshafa í túlkun Jóns Gnarr, í auglýsingunum.
Það hlýtur að þurfa sterk bein að lifa með svo stórum vinningi í sjálfu sér, enda sannarlega dæmi um að fólk hafi illa getað höndlað svo mikla gæfu.
![]() |
Íslendingur vann 105 milljónir í Víkingalottói |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 00:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.10.2007 | 17:25
Geir Haarde syngur I Walk the Line inn á plötu

Geir söng það reyndar tvisvar það kvöld, fyrst við undirleik Óskars Einarssonar yfir borðhaldi og síðla kvölds með Baggalút. Og sló sannarlega í gegn. Þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti sem Geir syngur inn á plötu, en eins og vel er kunnugt söng hann á hljómplötu Árna Johnsen, nokkur lög einn og ennfremur eitt með Árna sjálfum. Vakti það mikla athygli, en Geir hefur þó alla tíð verið mikill söngmaður og flestir muna er hann söng Volare í skemmtiþætti Steinunnar Ólínu á sínum tíma í Sjónvarpinu.
Það er mjög góður kostur að góður formaður geti glatt með því að syngja og hann sló svo sannarlega í gegn á landsfundarhófinu með þessu lagi, sem átti vel við þá, enda ljóð sr. Hjálmars mjög gott. Það verður áhugavert að heyra Geir syngja þennan fræga Johnny Cash-slagara með South River Band.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.10.2007 | 13:08
Strokufangar frá Litla-Hrauni finnast
Vissulega á fangelsi að vera betrunarvist. Það eru samt sem áður deildar meiningar um það. Dauðsfall tveggja fanga nýlega hefur kallað á umræðu um aðbúnað þar og eins hlýtur að vera rætt um öryggismálin núna. Veit ekki betur en að þar hafi verið hert á verkferlum, svo að það geti hreinlega ekki gerst að fangar flýi eða komist undan. Eitthvað virðist að í því. Það má vel vera að einhverjar glufur séu í öryggismálum og verður að taka á því.
Það er þó ánægjulegt að fangarnir hafi fundist, enda er flestum ljóst að fangar geta ekki falist lengi eftir flótta sinn alla jafna. En það hlýtur að vera spurt að því hversu stórar glufurnar á Litla-Hrauni eru fyrir fanga sem eru í þeim hug að láta sig hverfa.
![]() |
Strokufangarnir fundnir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.10.2007 | 13:58
Gillzenegger sprellast í Kringlunni

Það er reyndar spurning hvort að Garðar Örn Hinriksson, dómari, hafi í og með gert þetta að gamni sínu til að ná höggi á Gillzenegger. Erfitt um að segja svosem, en varla hefur honum þótt þetta leiðinlegt í ljósi hinna stóru orða Gillzenegger. En nú virðist kappinn þurfa að skella sér í Kringluna.
Tippa á að hann sprellist þar þó í skjóli nætur eða eitthvað svoleiðis. Varla fer kappinn að gera þetta síðdegis á föstudegi eða um hádegið á laugardegi.
![]() |
Gillzenegger hleypur nakinn í Kringlunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
2.10.2007 | 10:20
Britney missir börnin - gleðivímunni lýkur

Það fór ekki framhjá neinum sem sá endurkomu Britney Spears á sviði á MTV-hátíðinni fyrir nokkrum vikum að hún er búin að vera sem alvöru tónlistarmaður og er hreinasta hryggðarmynd orðin. Ekki nóg með að hún mæmaði lagið sem spilað var heldur var hún eins og silakeppur á sviðinu, engar snöggar hreyfingar og taktfastur hraði, heldur bara ígildi uppstoppaðs hvítabjörns, svo silaleg var hún. Það þarf varla gáfaða showbiz-menn til að sjá að ferli þessarar glamúrgellu er lokið að óbreyttu.
Það er mjög vægt til orða tekið að fræg ímynd Britney Spears sem saklausrar blondínu með englablæ sé endanlega fokin út í veður og vind eftir fjölmiðlaáföll hennar undanfarið árið og fátt þar eftir sem minnir á forna frægð, ef marka má misheppnaða endurkomuna sem beðið hefur verið eftir í yfir þrjú ár. Nokkrir mánuðir eru síðan að stjarnan flippaði yfir um og rakaði af sér hárið og lét í ofanálag tattúvera sig. Það var stílbreyting sem fáum þótti líklegt að stílisti ráðleggði.
Nú hefur hún misst börnin. Þetta er enn eitt merkið hvert stefnir hjá þessari fornu stjörnu. Ég man þegar að Britney var að byrja að ótrúleg ímynd saklausrar stelpu, allt að því hreinnar meyjar með tæra englaásýnd, var búin til fyrir hana. Sú ímynd var kostulega hjúpuð. Hún var undir þeim merkjum mjög lengi. Á tveim til þrem árum er ferill hennar fokinn út í veður og vind og hún er orðin eins og útlifuð tuskudúkka sem heldur aðeins áfram að steypast í glötun.
Britney virðist ekki lifa neinu skemmtilífi lengur, þó það sé reynt. Það er ekki fjarstæðukennt að telja að henni vanti stórlega hjálp frá glötun. Hún er nefnilega á hraðri niðurleið og aðeins spurning hvenær að hún steypist endanlega í duftið. Þetta eru í senn skelfileg og nöpur örlög. Það að hún missi börnin sín er kuldalegt endatafl í hnignun hennar.
![]() |
Ástæður þess að Britney missti forræðið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
2.10.2007 | 01:57
Stefnir Ólafur Ragnar á fjórða kjörtímabilið?
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, gaf eins og kunnugt er enga yfirlýsingu um framtíð sína á forsetastóli við þingsetningu. Er ekki við öðru að búast en að þetta gefi sögusögnum um að hann stefni að vist á Bessastöðum fjórða kjörtímabilið í röð byr undir báða vængi. Þar sem að Ólafur Ragnar var alþingismaður til fjölda ára var ekki undarlegt að margir töldu að ræðustóll Alþingis yrði vettvangur yfirlýsingar af einhverju tagi.
Eins og vel er kunnugt er von á ævisögu Ólafs Ragnars á næstu vikum, sem er færð til bókar af Guðjóni Friðrikssyni. Verður áhugavert að sjá hvaða bragur verði á þeirri bók. Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins var því velt fyrir sér hvort að Ólafur Ragnar tilkynnti um fyrirætlanir sínar af friðarstóli á Bessastöðum í ávarpi á nýársdag. Það má vissulega vel vera að þar muni Ólafur Ragnar tilkynna að hann ætli að hætta, eða jafnvel gefa kost á sér aftur. Kristján Eldjárn og Ásgeir Ásgeirsson tilkynntu báðir ákvörðun sína um að hætta í nýársávarpinu en Vigdís gerði það í þingsal á þingsetningardegi.
Það má búast við því að ævisaga Ólafs Ragnars verði ein vinsælasta bókin fyrir þessi jól. Stíllinn á bókinni mun vekja athygli; verður þetta settleg yfirferð yfir hæðir og lægðir Ólafs Ragnars á áratugulöngum ferli hans sem umdeilds stjórnmálamanns og þjóðhöfðingjans á Álftanesi, eða bók þar sem engin tæpitunga er töluð um átakamál - uppgjörsmál á það sem gerst hefur á síðustu árum sérstaklega; t.d. fjölmiðlamálið þar sem ÓRG beitti 26. grein stjórnarskrár í beinni útsendingu fjölmiðla? Þetta eru spurningar sem velt verður fyrir sér vissulega.
Framganga Ólafs Ragnars á alþjóðavettvangi síðustu mánuði hefur vakið athygli. Hefur þar frekar virst maður í leit að nýju verkefni í fjarlægri heimsborg heldur en þjóðhöfðingi sem talar með sannfæringu fyrir hönd heillar þjóðar. Sérstaklega vakti ferð hans til Washington nýlega mikla athygli og hann hefur fundað með Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, og fleiri aðilum í bandarísku þingstarfi. Það væri ekki undarlegt þó því væri velt fyrir sér að Ólafur Ragnar horfði annað en vildi halda þeim möguleika enn opnum að fara fram.
Það er ekki óeðlilegt að því sé velt fyrir sér hvert hugur Ólafs Ragnars stefndi og víst er að flestir fylgdust vel með ræðunni, enda vel vitað að brátt verði ljóst hvað hann ætlast fyrir. Mér fannst glott vera á andliti hans við lok ræðunnar í þingsal í gær, enda vissi hann vel að með hverju orði væri fylgst. Það varð fljótt ljóst að þetta yrði ekki ræða stórtíðinda á forsetaferli hans, þó að vissulega hafi ÓRG flutt góða ræðu í gær, sérstaklega hvað varðar þann hluta sem tengdist íslenskunni, okkar mesta djásni.
Ólafur Ragnar hefur oft kunnað á tímasetningar á forsetaferli sínum og er vel fókuseraður. Hann er mjög líklegur til að vilja tilkynna ákvörðun sína um framtíðina í þjóðhöfðingjahlutverkinu og vilji ekki feta í fótspor annarra í þeim efnum. Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist. En hitt er víst að kjaftasagan um fjórða kjörtímabilið lifir betra lífi nú en sú að hann ætli sér að hætta að vori.
Ætli að ævisagan margnefnda verði ekki bara settlegt spjall yfir kaffibolla, frekar en uppgjör manns sem er með sigg á sálinni eftir pólitísk átök fortíðarinnar? Fróðlegt verður að sjá annars.
1.10.2007 | 19:37
Hvernig kaffi ertu?
Rakst á stórskemmtilega kaffigetraun á netinu. Var einmitt staddur á kaffihúsi þegar að ég tók það, en ég fékk þetta í ábendingu í pósti frá vini. Hló mikið af spurningunum. Flott stemmning yfir þessu og gaman að sjá hvað hentar best. Og hjá mér var það Espresso, sem kom ekki að óvörum sannarlega.
Orðrétt segir:
Espresso!
Þú ert með eindæmum sjálfsöruggur einstaklingur. Þú ert vandvirkur og samviskusamur en lætur það þó stundum eftir þér að fresta verkefnum til morguns. Þú ert á sífelldri hraðferð án þess þó að það hái þér á nokkurn hátt.
Þú ert 30 ml af mikið brenndu eðalkaffi.
Taktu kaffiprófið líka
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.10.2007 | 15:17
Setning Alþingis - forsetinn ver íslenskuna

Í ræðu forseta Íslands talaði hann mjög skynsamlega um íslenska tungu og mikilvægi þess að standa vörð um íslenskt málfar í alla staði. Það veldur miklum vonbrigðum að varaformaður annars stjórnarflokksins hafi tjáð sig með þeim hætti að taka eigi upp tvítyngda stjórnsýslu. Þetta er óttalegt rugl og eðlilegt að fólk tjái sig um þessa skoðun sem stingur mjög í stúf við allt fyrra tal um að standa vörð um íslenskuna í miðju baráttunnar við enskuna hérlendis. Það er því mikilvægt að forseti tali skýrt í þessum efnum nú sem fyrr og ég tek undir skoðun hans á þessu máli.
Það gerðist ekki á þessum þingsetningardegi að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, tilkynnti starfslok sín eins og margir höfðu jafnvel átt von á. Fyrir tólf árum notaði Vigdís Finnbogadóttir þetta tækifæri til að tilkynna þingi og þjóð um starfslok sín á forsetastóli. Morgunblaðið tjáði sig reyndar í gær með þeim hætti hvort að tilkynning Ólafs Ragnars myndi koma á Bessastöðum á nýársdag. Vel má vera, en í ljósi þess að Ólafur Ragnar var alþingismaður árum saman finnst mér líklegra að tilkynning kæmi þar. Þetta hlýtur að gefa kjaftasögum um fjórða kjörtímabilið byr undir báða vængi.
Það var vel við hæfi að Ólafur Ragnar minntist Einars Odds Kristjánssonar, alþingismanns, í ræðu sinni. Einar Oddur lést langt um aldur fram á hæsta tindi Vestfjarða á fögrum sumardegi fyrir nokkrum vikum. Mikill sjónarsviptir er af honum. Ólafur Ragnar talaði af virðingu um þennan litríka þingmann sem setti svo sterkan svip á þjóðmálin árum saman, bæði sem atvinnurekandi og alþingismaður á löggjafarsamkundunni. Sturla Böðvarsson flutti ennfremur góð minningarorð um hann síðar er hans var minnst formlega við þingsetninguna.
Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, tilkynnti í ávarpi við þingsetninguna að breytingar væru framundan á störfum Alþingis. Virðist vera í sjónmáli löngu tímabær uppstokkun á starfstíma þingsins og fundafyrirkomulaginu, t.d. ræðulengd. Sérstaklega er löngu úrelt að þingið komi ekki saman fyrr en í október og væntanlega verður þetta í síðasta skipti sem það verður gert. Sturla hefur þegar gert breytingar sem tekið er eftir og vonandi verður hann forseti verkanna í þessum efnum.
Löngu er kominn tími til að hætta að segja að þetta og hitt þurfi að gera, það sem allir vita að þarf sannarlega að gera, og fara að koma orðum í framkvæmdir. Það er kominn tími til að vinna hlutina markvissar þarna, hætta næturfundunum og losa stífluverklagið sem verður ávallt í desember og í maí og reyna að gera starfið þéttara og traustara.
![]() |
Ólafur Ragnar: Engin efnisrök fyrir því að víkja íslenskunni til hliðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.10.2007 | 00:41
Mun Ólafur Ragnar tilkynna starfslok sín í dag?
Alþingi verður sett eftir hádegið í dag. Þá mun Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, flytja ávarp í þingsal. Það er ekki undrunarefni að hugleitt sé hvort hann muni tilkynna þá um hvort hann muni ekki gefa kost á sér til endurkjörs. Hugleiðingar hafa verið um framtíð hans á forsetastóli eftir að ljóst varð fyrir nokkrum mánuðum að hann ætlaði að gefa ævisögu sína út fyrir jólin.
Á þingsetningardegi, 2. október 1995, tilkynnti Vigdís Finnbogadóttir um að hún ætlaði ekki að gefa kost á sér til endurkjörs. Hún valdi ræðustól Alþingis sem vettvang tilkynningar um ákvörðun sína eftir fjögur kjörtímabil á forsetastóli frekar en friðarstólinn á Bessastöðum á nýársdegi. Orðrómur hefur verið um hvort að Ólafur Ragnar ætlaði að fara fram fjórða kjörtímabilið eða hætta nú. Er því velt fyrir sér hvort hann sé líklegri til að tilkynna starfslok á Bessastöðum eða á Alþingi.
Þar sem að Ólafur Ragnar Grímsson er fyrrum alþingismaður yrði ekki ólíklegt að teljast að hann myndi feta í fótspor Vigdísar og tilkynna starfslok sín í þingsal, þegar að því kemur. Ólafur Ragnar sat á þingi samtals í tíu ár, 1978-1983 og 1991-1996, er hann var kjörinn fimmti forseti lýðveldisins. Í ljósi þess að Ólafur Ragnar tilkynnti sérstaklega í kosningabaráttunni 1996 að heppilegast væri að forseti sæti aðeins tvö kjörtímabil hlýtur að teljast ósennilegt að hann fari fram í fjórða skiptið. Það verður þó að koma í ljós hvort að hann vilji feta í fótspor Ásgeirs Ásgeirssonar og Vigdísar Finnbogadóttur.
Í kvöld horfði ég á gamla fréttaupptöku frá 2. október 1995, deginum er Vigdís lýsti yfir ákvörðun sinni. Þar voru skemmtilegar svipmyndir, í senn frá tilkynningunni, sem kom mörgum að óvörum, blaðamannafundi Vigdísar á Bessastöðum og viðbrögðum stjórnar og stjórnarandstöðu. Þar tjáir Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, sig um ákvörðun Vigdísar og ennfremur Ólafur Ragnar Grímsson, sem þá var enn formaður Alþýðubandalagsins. Þar segir Ólafur Ragnar orðrétt að það hafi verið heppilegt af forsetanum að tilkynna þingi og þjóð þessa ákvörðun á þessum stað.
Fáum hefði órað fyrir því þá að Ólafur Ragnar yrði eftirmaður Vigdísar og myndi standa í sporum hennar við setningu þings ári síðar. En, í ljósi þessara ummæla verður áhugavert að sjá hvað gerist á morgun. Mun Ólafur Ragnar tilkynna starfslok sín í dag, frammi fyrir þingi og þjóð, eins og Vigdís forðum?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)