Setning Alþingis - forsetinn ver íslenskuna

Forseti Íslands setur Alþingi Alþingi Íslendinga, 135. löggjafarþing, var sett fyrir stundu af Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands. Þingsetningin var með nýjum brag að þessu sinni og hefur verið stokkuð upp. Leikin var tónlist í þinghúsinu og Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, gekk beint til forsetastóls en var ekki kjörinn sérstaklega, í ljósi þess að þingsköpum hefur verið breytt, en Sturla var kjörinn þingforseti eftir kosningar, á þingsetningardegi 31. maí sl.

Í ræðu forseta Íslands talaði hann mjög skynsamlega um íslenska tungu og mikilvægi þess að standa vörð um íslenskt málfar í alla staði. Það veldur miklum vonbrigðum að varaformaður annars stjórnarflokksins hafi tjáð sig með þeim hætti að taka eigi upp tvítyngda stjórnsýslu. Þetta er óttalegt rugl og eðlilegt að fólk tjái sig um þessa skoðun sem stingur mjög í stúf við allt fyrra tal um að standa vörð um íslenskuna í miðju baráttunnar við enskuna hérlendis. Það er því mikilvægt að forseti tali skýrt í þessum efnum nú sem fyrr og ég tek undir skoðun hans á þessu máli.

Það gerðist ekki á þessum þingsetningardegi að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, tilkynnti starfslok sín eins og margir höfðu jafnvel átt von á. Fyrir tólf árum notaði Vigdís Finnbogadóttir þetta tækifæri til að tilkynna þingi og þjóð um starfslok sín á forsetastóli. Morgunblaðið tjáði sig reyndar í gær með þeim hætti hvort að tilkynning Ólafs Ragnars myndi koma á Bessastöðum á nýársdag. Vel má vera, en í ljósi þess að Ólafur Ragnar var alþingismaður árum saman finnst mér líklegra að tilkynning kæmi þar. Þetta hlýtur að gefa kjaftasögum um fjórða kjörtímabilið byr undir báða vængi.

Það var vel við hæfi að Ólafur Ragnar minntist Einars Odds Kristjánssonar, alþingismanns, í ræðu sinni. Einar Oddur lést langt um aldur fram á hæsta tindi Vestfjarða á fögrum sumardegi fyrir nokkrum vikum. Mikill sjónarsviptir er af honum. Ólafur Ragnar talaði af virðingu um þennan litríka þingmann sem setti svo sterkan svip á þjóðmálin árum saman, bæði sem atvinnurekandi og alþingismaður á löggjafarsamkundunni. Sturla Böðvarsson flutti ennfremur góð minningarorð um hann síðar er hans var minnst formlega við þingsetninguna.

Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, tilkynnti í ávarpi við þingsetninguna að breytingar væru framundan á störfum Alþingis. Virðist vera í sjónmáli löngu tímabær uppstokkun á starfstíma þingsins og fundafyrirkomulaginu, t.d. ræðulengd. Sérstaklega er löngu úrelt að þingið komi ekki saman fyrr en í október og væntanlega verður þetta í síðasta skipti sem það verður gert. Sturla hefur þegar gert breytingar sem tekið er eftir og vonandi verður hann forseti verkanna í þessum efnum.

Löngu er kominn tími til að hætta að segja að þetta og hitt þurfi að gera, það sem allir vita að þarf sannarlega að gera, og fara að koma orðum í framkvæmdir. Það er kominn tími til að vinna hlutina markvissar þarna, hætta næturfundunum og losa stífluverklagið sem verður ávallt í desember og í maí og reyna að gera starfið þéttara og traustara.

mbl.is Ólafur Ragnar: Engin efnisrök fyrir því að víkja íslenskunni til hliðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján Magnús Arason

Stefán, hver var að leggja til að taka upp tvítyngda stjórnsýslu?  Mér er sama hver það er, burt með hann/hana!

Kristján Magnús Arason, 1.10.2007 kl. 15:49

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Það var Ágúst Ólafur Ágústsson sem lét þessi orð falla. Mikið verið talað um þau orð undanfarna daga og þeir eru afar fáir sem taka undir með honum, sem kemur sannarlega ekki að óvörum.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 1.10.2007 kl. 15:53

3 Smámynd: Óðinn Þórisson

Stefán, Ágúst Ólafur er bara of mikill evrópusinni og er reynir allt til að halda vonlausri umræðu um EU og myntbreytingu á lofti.
Hann eins og annað sf-fólk með þessa skoðun verður bara að skylja það að þessi mál eru ekki á dagskrá þessarar ríkisstjórnar.
Setningarathöfnin var fín en það vantaði tilfinnanlega í ræðu Ólafs að þetta væri hans síðasta kjörtímabil - hefði made my day.
Tónlistin var flott.

Óðinn Þórisson, 1.10.2007 kl. 16:41

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Fínt komment Óðinn. Er algjörlega sammála þér.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 1.10.2007 kl. 18:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband