26.10.2006 | 00:00
Fríblöð ekki móðins í Danmörku?

Merkilegt að sjá þessa Moggafrétt um fríblöðin í kóngsins Köben. Virðast ekki falla í kramið þessi fríblöð, enda nokkuð pappírsflóð vissulega sem fylgir þrem fríblöðum. Ekki beint móðins þessar vikurnar. Ég verð að viðurkenna að mér finnst ágætt að fá Fréttablaðið hér heima í lúguna og lesa, en pappírsflóðið sem fylgir er vissulega nokkuð mikið. Flestum þykir það fínn fórnarkostnaður að þurfa að henda meiru í ruslið en ég skil Danina nokkuð vel miðað við stöðu mála. Það verður gaman að sjá hvernig þessi tilraun íslenskra bissness-manna með Nyhedsavisen mun ganga er á hólminn kemur.
![]() |
Mikill fjöldi Kaupmannahafnarbúa vill ekki fá fríblöð í sín hús |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.10.2006 | 23:22
Kveðja frá Völu
Mér þótti vænt um að lesa góða kveðju frá Völu, Valgerði Bjarnadóttur, í gestabók minni hér á vefnum. Það er gott að finna það alltaf að gott fólk í stjórnmálum les það sem maður skrifar um daginn og veginn. Það er allavega svo að maður fær bæði komment á skrifin og finnur góðar óskir víða að og heyrir í öðrum með þeirra skoðanir á þeim skoðunum sem maður lætur flakka hér í gegnum dagsins annir.
Vala er mjög öflug kona. Kynntist henni í forsetakosningunum 1996 þegar að hún stýrði með röggsemi kosningabaráttu Péturs Kr. Hafsteins. Það var lífleg og spennandi barátta. Þó að hún hafi tapast á endanum var hún háð af krafti og efldum hug allra sem þar unnu til stuðnings þeim mikla sómamanni sem í frontinum var. Þar kynntist ég fyrst og fremst að Vala er kona krafts og einbeitni, en hún er komin af góðu fólki og verið öflug í sínum verkum.
Nú er hún í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík, stefnir á öruggt þingsæti. Ég er ekki Samfylkingarmaður en ég ætla mér þó að skrifa það hér og nú á þessum vettvangi að ég vona að Vala nái sínum markmiðum. Þar fer röggsöm og öflug kona sem á heima í pólitík.
Hún hefur nú opnað góða bloggsíðu. Hvet lesendur til að líta þangað og lesa.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.10.2006 | 20:08
Framboðsfrestur liðinn - hugleiðingar mínar

Framboðsfrestur í prófkjör Sjálfstæðisflokksins hér í Norðausturkjördæmi rann út nú síðdegis. Síðast þegar að ég vissi höfðu níu einstaklingar gefið kost á sér. Kjörnefnd mun, eftir því sem mér skilst, ekki hittast fyrr en á laugardag til að staðfesta endanlega öll framboð og ganga frá öllum málum tengdum þessu prófkjöri, enda er kjörnefndarfólk dreift um allt kjördæmið. Prófkjör mun verða haldið laugardaginn 25. nóvember, eftir sléttan mánuð og mun talning fara fram á Akureyri sunnudaginn 26. nóvember. Það mun væntanlega verða mjög spennandi talning og áhugaverðar línur sem að verða að henni lokinni.
Ég tilkynnti hér á vefnum 15. október sl. að ég hefði ekki áhuga á að gefa kost á mér í prófkjöri flokksins í Norðausturkjördæmi. Það er langt síðan að ég tók þá ákvörðun. Ég hugleiddi málið með mér í sumar og komst að því að ég ætti að horfa í aðrar áttir. Það er mjög dýrt að fara í svona slag, að ég tel í prófkjöri með þeim hætti sem útlistað er í prófkjörsreglum okkar, með almennilegum hætti svo vel eigi að vera og kostar gríðarlegan tíma, bæði til ferðalaga og annarra hluta. Þetta er að mjög mörgu leyti nokkuð harður heimur og þarf gríðarlegan áhuga og kraft til að halda í allar hliðar þess heims.
Á þessum tímapunkti finn ég ekki þörfina og áhugann til slíks framboðs og tel því óraunhæft að halda í þetta. Auk þess finnst mér mun vænna um þann heim sem ég hef byggt mér hérna með því að vanrækja hann og tel mig mun betur kominn sem beittan stjórnmálaskýranda inn í eigin flokk og í aðrar áttir. Það á betur við mig. Ég fór í prófkjör fyrr á þessu ári og bauð mig fram sem valkost hér. Þær hugmyndir og hugleiðingar sem ég bauð þá fram hittu ekki í mark. Það sem ég bauð upp á var valkostur af því tagi sem persóna mín hefur einkennst af. Þannig að ég tel framboð nú ekki vænlegan kost og var fljótur að afskrifa það.
En það er mín ákvörðun. Ég hef nú frelsi til að greina stöðu mála innan eigin flokks og annarsstaðar með öðrum hætti og það er valkostur sem ég hef valið sjálfum mér og tek fagnandi. Heimsmynd mín er með þessum hætti og ég ætla mér að nota hana af miklum krafti. Þar á hugur minn heima þessa stundina. Ég geri meira gagn með því að standa utan beinnar stjórnmálaþátttöku og stunda pólitík frá mínum eigin grunni, en ekki annarra.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.10.2006 | 19:28
Málað yfir fallegt listaverk
Á árunum þegar að ég var að alast upp bjó fjölskyldan mín við Norðurbyggð hér á Akureyri. Þaðan var nokkuð gott útsýni yfir að íþróttahúsinu við Laugargötu. Þá, og síðar, vakti athygli mína fallegt veggmálverk á íþróttahúsinu. Það var frumlegt og fallegt, eitt fallegu táknanna á svæðinu. Það var málað á árinu 1979, tveim árum eftir að ég fæddist og alla tíð síðan vakið athygli. Um var að ræða vinningstillögu úr samkeppni meðal nemenda í framhaldsflokki í málum við Myndlistaskólann á Akureyri.
Það hefur vakið nokkra athygli mína og fleiri sem búa hér á Brekkunni að nú hefur verið málað yfir þetta listaverk á vegg íþróttahússins. Í stað litafegurðar og fallegs verks er nú ósköp einfaldlega orðinn hvítmálaður ljótur veggur. Þetta er að mínu mati algjörlega til skammar fyrir alla hlutaðeigandi sem komu að því að mála yfir þetta. Í góðum pistli á Íslendingi, vef flokksins hér í bæ fer Helgi Vilberg, ritstjóri og skólastjóri Myndlistaskólans, yfir þetta mál með góðum hætti.
Bendi lesendum á að líta á þá grein.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 19:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.10.2006 | 15:21
Flott prófkjörsbarátta sjálfstæðiskvenna í Rvk



Það er ánægjulegt að fylgjast með prófkjörsátökunum sem eru í gangi um allt land úr hæfilegri fjarlægð. Það er notalegt að geta sagt það sem manni finnst af krafti. Hef fylgst mjög með prófkjörsslag sjálfstæðismanna í Reykjavík. Þar eru kjördagar á föstudag og laugardag, úrslitastundin nálgast því óðfluga. Í prófkjörinu í nóvember 2002 var mikið talað um að sjálfstæðiskonur hafi fengið skell. Það er ekki óeðlileg ályktun á málum, enda komust aðeins Sólveig Pétursdóttir og Ásta Möller inn á topp tíu listann og í kosningunum um vorið komst aðeins Sólveig inn á þing, þó vissulega hafi Ásta komist svo á þing að nýju við brotthvarf Davíðs Oddssonar haustið 2005.
Mér finnst prófkjörsbarátta sjálfstæðiskvenna að þessu sinni hafa verið litrík og fersk. Það eru viss tímamót að Sólveig Pétursdóttir er að hætta, hún er ekki í prófkjörinu og það eru því vissulega sóknarfæri fyrir nýjar konur að sækja fram og Ásta Möller fer sem sitjandi þingmaður fram til forystu. Allar konurnar sem fara fram núna eru frambærilegar og öflugar, hver á sinn hátt. Mér finnst prófkjörsbarátta þeirra og krafturinn sem sést í henni mjög fínn. Sérstaklega eru þær allar á réttri leið í vefmálum, en eins og allir alvöru stjórnmálaáhugamenn vita er vefsíða essential lykilatriði í svona kosningaslag, vilji frambjóðandi yfir höfuð ná að koma boðskap á framfæri.
Sérstaklega finnst mér mikill ferskleiki yfir prófkjörsbaráttu Sigríðar Á. Andersen og Guðfinnu S. Bjarnadóttur, sem eru báðar með prófkjörsskrifstofu í gamla Landssímahúsinu við Austurvöll. Sigga hefur verið litrík og fersk með flotta litatóna í baráttunni og hressandi kraft sem skilar sér alla leið til þess sem með fylgist. Það er altént mitt mat. Hennar barátta er björt og hress, slær flotta lykiltóna sem skipta máli. Guðfinna fer fram að hætti menntakonunnar sem sækist eftir áhrifum á vettvangi stjórnmála, kemur með reynslu og sóknarfæri sem valkost fyrir flokkinn sinn. Hún er líka með tóna valfrelsi og skapandi umhverfis í baráttunni, tóna sem láta vel í eyrum okkar allra.
Ásta Möller býður reynslu fyrir kjósendur. Hún er sitjandi þingmaður, með mikla þekkingu á stöðu mála og virðist vera með góðan stuðning lykilfólks, t.d. er Ragnhildur Helgadóttir, annar kvenráðherra landsmanna og þekkt forystukona innan Sjálfstæðisflokksins um árabil, stuðningskona hennar og talar hennar máli af krafti. Það er styrkleiki fyrir Ástu að hafa Ragnhildi í sínum röðum, enda Ragnhildur virt forystukona frá fyrri tíð. Ekki finnst mér hafa komið nægilega vel fram hverja Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis, styðji til forystu af hálfu kvennaarmsins. Sólveig hefur verið forystukona á listanum frá tímum Ragnhildar - hennar afstaða skiptir máli.
Dögg Pálsdóttir hefur verið með flottan vef og hressileg í prófkjörsslagnum. Dagbókin hennar er vel uppfærð á vefnum og hún veit vel hvaða áherslur eru réttar. Það voru margir hissa þegar að hún gaf kost á sér, enda er hún virtur lögfræðingur og þekkt fyrir verk sín á því sviði. Nú vill hún verða stjórnmálamaður í fremstu röð innan Sjálfstæðisflokksins og það verður fróðlegt að sjá hvort henni tekst að byggja sig upp með þeim krafti sem til þess þarf.
Altént stefnir í spennandi helgi. Það verður sérstaklega spennandi að sjá hvernig þessum konum muni ganga og með því verður fylgst þegar að tölurnar taka að berast síðdegis á laugardag. Ég vona að þeim gangi vel, enda eru þetta allt kjarnakonur sem verðskulda gott gengi í prófkjöri og verður fengur að í þingkosningum að vori fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.10.2006 | 14:36
Spenna í bandarísku þingkosningunum
Það stefnir í mjög spennandi þingkosningar í Bandaríkjunum eftir hálfan mánuð. Staða repúblikana virðist vera mjög erfið og við blasa töpuð staða í fulltrúadeildinni og jafnt standi jafnvel í öldungadeildinni. Skoðanakannanir sem birtust um helgina lofa ekki góðu fyrir repúblikana altént og stefnir í erfiðan lokasprett, með þeim erfiðari fyrir flokksmenn til fjölda ára í kosningabaráttu vestan hafs. Í ljósi alls þessa kemur ekki að óvörum að George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, boði til blaðamannafundar í Hvíta húsinu í dag til að fara yfir stöðu mála og svara spurningum fjölmiðlamanna um þau málefni sem hæst bera nú.
Það verður seint sagt að Bush forseti hafi haldið marga blaðamannafundi á tæplega sex ára forsetaferli sínum. Það hefur verið sjaldgæfur viðburður og jafnan þótt boða mikilvægi þess að forsetinn léti meira á sér bera til þess að efla flokk sinn með einum eða öðrum hætti. Það er öllum ljóst að Bush hefur látið mikið á sjá sem stjórnmálamaður. Það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt. Hann getur ekki haldið í aðrar kosningar og er því á lokaspretti sem stjórnmálamaður að mestu leyti. Það er oft hlutverk forseta í Bandaríkjunum í svona stöðu; hefur unnið tvær forsetakosningar og er með lamaða stöðu í almenningsálitinu eða þingið á móti sér.
Ósjálfrátt hallar undan fæti í svona stöðu. Þess vegna er æ mikilvægara fyrir forsetann að ná að halda inngripi inn í þingsalina, flokkur hans haldi þinginu. Ef marka má kannanir er staðan skelfileg sé litið á fulltrúadeildina og fátt virðist geta komið í veg fyrir valdaskipti þar nema hreint kraftaverk. Foley-málið hefur verið lamandi fyrir repúblikana ofan á margt annað og veikt stoðir þeirra sem máttu ekki við áfalli, trúaða hægrimenn sem þola ekki beint siðferðisbresti á borð það sem kom fram í því máli. Öldungadeildin virðist standa í járnum eins og nú horfir. Ef Bush missir völd í þingdeildunum syrtir verulega í álinn með stöðu hans lokasprett valdaferilsins.
Það eru því nokkrir örlagatímar í bandarískum stjórnmálum þessa dagana. Kosningabaráttan er að líða undir lok og þar kemur mæling á stöðunni núna. Það skiptir máli í forsetakosningunum 2008 þegar að eftirmaður George W. Bush verður kjörinn. Sum átök kosninganna nú eru meira í fréttum en annað. Það verður mest horft væntanlega til Connecticut, þar sem að Joe Lieberman heyr baráttu ferilsins sem óháður við manninn sem felldi hann í forkosningu meðal demókrata í fylkinu í ágúst, Ned Lamont. Allar kannanir benda til sigurs Lieberman. Arnold Schwarzenegger og Hillary Rodham Clinton þurfa svo væntanlega ekki mikið að hafa fyrir endurkjöri.
Þetta verða kosningar sem fylgst verður með. Nú ræðst hvort Bush snýr vörn í sókn eður ei. Nái hann því ekki verða næstu tvö árin, endaspretturinn á stormasömum stjórnmálaferli, frekar vandræðalegar og erfiðar fyrir þennan sextuga harðjaxl frá Texas, sem heldur heim innan skamms en á þó nokkur mikilvæg misseri enn eftir sem húsbóndi í Pennsylvaníu-stræti 1600.
![]() |
Bush boðar til blaðamannafundar í Hvíta húsinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.10.2006 | 13:10
Syrtir í álinn fyrir Verkamannaflokkinn

Ný skoðanakönnun breska dagblaðsins The Guardian sýnir forskot Íhaldsflokksins á Verkamannaflokkinn nú hið mesta í tvo áratugi. Íhaldsflokkurinn mælist með 39%, Verkamannaflokkurinn er með 29% og frjálslyndir hafa 22%. Þetta er mjög merkileg niðurstaða og sýnir vel þann vanda sem nú blasir við Verkamannaflokknum eftir áratug við völd undir forystu Tony Blair, forsætisráðherra, sem þegar hefur tilkynnt að hann láti af embætti fyrir flokksþing næsta haust. Í maí hefur Verkamannaflokkurinn leitt ríkisstjórn samfellt í nákvæmlega tíu ár og má búast við þáttaskilum fyrir flokkinn að því loknu þegar að formleg leiðtogaskipti verða.
Það hafa orðið straumhvörf í breskum stjórnmálum. Það hefur sést mjög vel seinustu vikurnar. Gullnu dagar Tony Blair og Verkamannaflokksins eru löngu liðnir - það hefur syrt í álinn. Staða mála er mjög augljós þessa dagana. Það hefur sést vel allt þetta ár að staða forsætisráðherrans og flokksins hefur veikst gríðarlega. Kjósendur vilja uppstokkun - nýja sýn og breytta tíma við stjórn landsins. Það sér fulltrúa þessara nýju tíma í David Cameron, leiðtoga Íhaldsflokksins. Cameron hefur eflt flokkinn gríðarlega á því tæpa ári sem hann hefur leitt íhaldsmenn. Meginstefnubreytingar hafa orðið, skipt var um merki flokksins og ásýnd. Nýir tímar eru komnir þar.
Enn stefnir flest í að Gordon Brown, fjármálaráðherra, verði eftirmaður Tony Blair sem forsætisráðherra og leiðtogi Verkamannaflokksins á næsta ári. Þó verður einhver samkeppni um það. Við hefur blasað lengi að stór hluti Blair-armsins vill ekki færa honum leiðtogahlutverkið á silfurfati, vissir um að hann geti ekki sigrað næstu þingkosningar. Það sem hefur breyst er að landsmenn telja það líka að stóru leyti. Cameron er enda vinsælli nú en bæði Blair og Brown. Það hefðu eitt sinn þótt tíðindi, en ekki lengur að mörgu leyti. Brown er í huga margra maður sömu tíma og kynslóðar og Tony Blair.
Það verður því fróðlegt að sjá hvað framtíð næstu mánaða ber í skauti sér, þegar að formlega líður að lokum langs valdaferils Tony Blair. Þá fyrst verður vissara hvernig vindar blása í þingkosningunum árið 2009. Nú þegar má altént finna vinda breytinga blása um bresk stjórnmál. Þessi könnun og margar hinar fyrri staðfesta það mjög vel að straumhvörf hafa orðið.
25.10.2006 | 10:56
Vetrarstemmning á Akureyri

Snjóað hefur nokkuð hér á Akureyri síðustu dagana. Ég fór út í gærkvöldi og það kyngdi niður snjó á meðan af krafti. Það er því orðið allnokkuð vetrarlegt hér. Skíðamenn og aðrir vetraríþróttamenn ættu því að gleðjast mjög. Ég vona hinsvegar að létti til fljótlega yfir. Ég vil ekki fá jólasnjóinn alveg strax. :)
![]() |
Vetrarlegt á Akureyri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.10.2006 | 00:31
Formleg tilnefning Halldórs Ásgrímssonar

Fram kom í kvöldfréttum ljósvakamiðlanna það sem ég sagði hér fyrr í dag að Halldór Ásgrímsson, fyrrum forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, muni verða tilnefndur af Íslands hálfu sem framkvæmdastjóraefni í Norrænu ráðherranefndinni. Í fyrrnefndum skrifum mínum fór ég yfir víðtæka stjórnmálareynslu Halldórs, sem var ráðherra samfellt í tæpa tvo áratugi, flokksleiðtogi í rúman áratug og þingmaður í þrjá áratugi, áhrifamaður í íslenskum stjórnmálum.
Það er mjög eðlilegt að íslensk stjórnvöld tilnefni fyrrum forsætisráðherra til þessa embættis og ég vona að Halldór fái hnossið eftir langan stjórnmálaferil sinn og víðtæka reynslu á mörgum sviðum. Það verður styrkleiki fyrir okkur að fá Íslending til starfans.
![]() |
Lagt til að Halldór Ásgrímsson verði næsti framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.10.2006 | 13:49
Meistaraverkið Mýrin
Í gærkvöldi fór ég í bíó og horfði á Mýrina, kvikmynd Baltasars Kormáks, byggða á þekktri skáldsögu Arnaldar Indriðasonar. Mýrin, sem kom út árið 2000, er ein víðlesnasta íslenska skáldsaga hérlendis á síðustu árum og mikil eftirvænting verið eftir myndinni. Það er óhætt að segja að Baltasar Kormákur og hans fólk valdi unnendum bókarinnar um Erlend Sveinsson, lögreglumann, og aðstoðarfólk hans, þau Sigurð Óla og Elínborgu, ekki vonbrigðum. Vart er feiltónn í myndinni og allur umbúnaður hennar er með því besta sem þekkist. Aðall hennar er svo stórfenglegur leikur þeirra frábæru leikara sem þar fara svo sannarlega á kostum.
Á ósköp venjulegum degi í Reykjavík finnst lík tæplega sjötugs karlmanns á heimili hans í Norðurmýrinni. Morð hefur verið framið og þau Erlendur, Elínborg og Sigurður Óli byrja að fara yfir fortíð mannsins lið fyrir lið. Það sem virðist vera ósköp venjulegt morðmál, ekki merkilegri en flest sakamál, vindur hægt og rólega upp á sig. Brátt koma í ljós slitrur úr stærri heildarmynd, upp rifjast gömul og gleymd saga sem enn sér ekki fyrir endann á og vísar hægt og rólega í áttinni að því hversvegna maðurinn var myrtur og hver fortíð hans var. Erlendi verður fljótlega ljóst að maðurinn var enginn engill og átti að baki sögu sem er engan veginn einföld og augljós.
Mýrin heillaði mig allt frá fyrstu stund, þegar að ég las bókina fyrir nokkrum árum. Ég las hana í gegn á einni kvöldstundu og langt fram á nóttina. Þetta var bók sem heillaði lesandann. Það hafa öll verk Arnaldar Indriðasonar gert. Þetta eru snilldarlega ritaðar sakamálasögur sem færa okkur raunsanna og heiðarlega sýn á íslenskan veruleika og mannlíf í sinni bestu og jafnframt dekkstu mynd. Hefur það verið alveg virkilega gaman að gleyma sér í sagnaheimi Arnaldar í gegnum tíðina og lesa magnaða frásögn hans á mönnum og ekki síður rannsókn á voðaverkum sem spinna upp á sig hægt og rólega, svo úr verður mósaík áhugaverðrar atburðarásar.
Kvikmyndatakan í Mýrinni er með því allra besta sem sést hefur í íslenskri kvikmynd. Gríðarlega vel gerðar senur og eftirminnilegustu augnablikin verða stórbrotin. Þarna er fagmannlega haldið á málum og úr verður mjög glæsilegur heildarrammi utan um meistaraverk. Tónlistin er glæsileg. Aldrei fyrr hefur karlakórsmenningu landans verið gert hærra undir höfði. Karlakórssöngur ber myndina uppi. Mér fannst það heillandi og vel til fundið að fá þennan þjóðlega og flotta ramma utan um þennan hluta myndarinnar. Sérstaklega er notalegt að heyra gömul íslensk lög í þessum búningi og lokaatriði myndarinnar er stórfenglegt. Vel gert hjá Mugison.
Leikurinn er stórfenglegur. Ingvar E. Sigurðsson glæðir persónu Erlendar Sveinssonar lífi. Hér eftir sjáum við Erlend í hans túlkun og sjáum engan annan fyrir okkur er bækurnar eru dregnar fram á dimmu vetrarkvöldi eða fögru heiðbjörtu sumarkvöldi. Fyrirfram hafði ég séð Erlend fyrir mér eldri en tel túlkun Ingvars svo vel gerða að vart verður betur gert. Hann túlkaði einmanalegt og innantómt líf hins hugula rannsóknarlögreglumanns af slíkri snilld að hér eftir verður ekki annar í hugskoti lesandans en Ingvar E. í hlutverki Erlendar. Meistaralega gert. Þessi glæsilega frammistaða færir Ingvar E. Sigurðsson endanlega í flokk allra bestu leikara landsins.
Ólafía Hrönn Jónsdóttir og Björn Hlynur Haraldsson standa sig mjög vel í túlkun sinni á Elínborgu og Sigurði Óla. Þau birtast ljóslifandi úr sögubókunum og marka sig í hlutverkunum mjög vel. Björn Hlynur er meira áberandi í myndinni og er skondið að sjá hvernig hann túlkar viðkvæmu strengina í Sigurði Óla, sem er ekki beint sami harðjaxlinn og yfirmaður hans, Erlendur. Þórunn Magnea Magnúsdóttir er alveg stórfengleg í túlkun sinni á Elínu, sem stendur mörgum áratugum eftir sorglegt fráfall systur sinnar og dóttur hennar, Auðar, enn vörð um minningu þeirra og er mjög beisk vegna örlaga þeirra. Svipmikil túlkun Þórunnar Magneu er glæsileg.
Ágústa Eva Erlendsdóttir vinnur sannkallaðan leiksigur í hlutverki nöfnu sinnar Evu Lindar Erlendsdóttur, sem er langt leidd í heim eiturlyfja og óreglu. Hún túlkar örvæntingu hennar og angist með glæsibrag. Ágústa Eva fer langt út úr heimi glæsidömunnar Silvíu Nætur og færir okkur glæsilega sorglegan heim Evu Lindar. Virkilega flott túlkun og gaman að sjá hana blómstra í krefjandi og góðu hlutverki. Söngkonan gamalreynda Guðmunda Elíasdóttir, sem lítið sem ekkert hefur sést af síðustu árin, birtist okkur glæsilega í hlutverki skagfirsku gömlu konunnar, móður Grétars. Flott sena með henni, því miður sú eina. Flott túlkun á gamalli kjarnakonu.
Theódór Júlíusson færir okkur misyndismanninn Elliða með svipmiklum hætti. Það er merkilegt að sjá Theódór sem hefur jafnan leikið dagfarsprúða og rólega menn leika þennan útúrlifaða og stórhættulega glæpamann með öllu sem til þarf. Theódór var flottur í hlutverki föðurins í Englum alheimsins en er enn flottari í þessu hlutverki, úr gagnstæðri átt. Flott túlkun, Theódór er einn af senuþjófum myndarinnar. Kristbjörg Kjeld á lágstemmd en flott augnablik í sinni túlkun. Hæst ber það í lokaatriðinu sem hún birtist í. Þorsteinn Gunnarsson birtist okkur eitt augnablik í hlutverki hins myrta og úr verður eftirminnileg sena og virkilega vel leikin af hans hálfu.
Atli Rafn Sigurðarson er dimmur og eftirminnilegur í harmrænu hlutverki Einars. Flott túlkun á manni sem er í örvilnan eftir að hafa komist að fortíð sinni, móður sinnar og síðast en ekki síst uppgötva hvers vegna dóttir hennar féll frá langt um aldur fram. Auk fyrrnefndra standa Eyvindur Erlendsson, Elma Lísa Gunnarsdóttir, Þór Tulinius og Jón Sigurbjörnsson sig vel í litlum en þó þýðingarmiklum hlutverkum. Sérstaklega var gaman að sjá Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, eina örskotsstund að leika sjálfan sig í viðtali en hluti myndarinnar er auðvitað tekinn í húsnæði fyrirtækisins í Reykjavík.
Í heildina séð er Mýrin algjört meistaraverk. Glæsileg kvikmynd í alla staði. Það er ekki hægt annað en að hrósa Baltasar Kormáki fyrir flotta kvikmynd, sem hefur einfaldlega allt sem spennumynd þarf að prýða. Spenna myndarinnar snýst ekki allan tímann um lausn morðgátunnar sem slíkrar, heldur flókinnar atburðarásar sem fær sorglegan endi er yfir lýkur. Það er ekki hægt annað en hvetja landsmenn alla til að fara í bíó og sjá myndina. Virðist þjóðin öll vilja sjá söguna birtast sér ljóslifandi og má búast við að hún slái öll áhorfsmet í kvikmyndahúsum síðustu ára og gæti alveg farið að hún muni að lokum fara nærri áhorfsmeti myndarinnar Með allt á hreinu.
Mýrin er ein allra besta íslenska kvikmyndin sem ég hef séð. Ég var altént mjög ánægður og vonast svo sannarlega eftir því að framhald verði á, enda viljum við landsmenn sjá bækurnar lifna við. Þetta eru stórfenglega skrifaðar bækur og það er greinilegt að þjóðin hefur áhuga á því að þær verði kvikmyndaðar. Þessi mynd lofar allavega mjög góðu. Þetta er einn af mestu hápunktum stormasamrar íslenskrar kvikmyndasögu.
![]() |
Hátt í 16 þúsund manns hafa séð Mýrina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 14:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.10.2006 | 11:44
Halldór tilnefndur í norræna toppstöðu

Flest bendir nú til þess að Halldór Ásgrímsson, fyrrum forsætisráðherra, verði tilnefndur af Íslands hálfu í embætti framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar. Mikið hefur verið hugleitt eftir að Halldór hætti þátttöku í stjórnmálum eftir rúmlega þriggja áratuga feril sinn hvað hann myndi takast á hendur og virðist svarið við því vera að koma í ljós. Það hefur aldrei gerst áður að Íslendingur gegni þessu embætti og virðist stefna í átök milli Íslendinga og Finna um hnossið. Halldór, sem var forsætisráðherra í tvö ár, utanríkisráðherra í rúm níu ár (lengur en nokkur annar íslenskur stjórnmálamaður), og að auki sjávarútvegs- og dómsmálaráðherra, hlýtur að teljast hafa sterka stöðu í þessum efnum.
Halldór Ásgrímsson var það lengi í stjórnmálum að víða ná þræðir hans í samskiptum við forystumenn norrænna stjórnmála. Það bendir nú allt til þess að Jónína Bjartmarz, samstarfsráðherra Norðurlanda hafi í hyggju að tilnefna Halldór til þessa embættis og hann verði valkostur okkar. Fyrir liggur nú þegar að íslensk stjórnvöld vilji fá sinn fulltrúa í embættið og má telja Halldór með mjög sterka stöðu í þeim efnum eftir langan pólitískan feril. Virðist grunnvinna þessa alls vera komin nokkuð langt á leið, en fyrirhugað er að valið fari fram eigi síðar en á Norðurlandaráðsþingi innan skamms.
Það verður fróðlegt að fylgjast með þessu og hvort að Halldór Ásgrímsson verði framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar. Fari svo yrði hann sem slíkur staðsettur í Kaupmannahöfn og þyrfti því að huga að búferlaflutningum yfir hafið í borgina við sundin.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.10.2006 | 10:20
Slobodan Milosevic enn með kosningarétt?
Það vekur nokkra athygli að heyra af því að Slobodan Milosevic, fyrrum forseta Serbíu, skyldi hafa verið sent bréf þar sem hann eigi að hafa verið boðaður til kjörstaðar í óbindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Kosovo. Það hefur varla farið framhjá neinum að Milosevic lést í varðhaldi í Haag 11. mars sl. Það má því fullyrða með nokkuð mikilli vissu að ekki reyni mikið á þessa áminningu til látins manns um kosningarétt hans. Þetta eru allavega fréttir sem eftir er tekið, það er ekki hægt að segja annað.
![]() |
Milosevic boðið að kjósa um framtíð Kosovo |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.10.2006 | 00:44
Umræður frambjóðenda í Reykjavík



Það stefnir í spennandi lokasprett í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins. Örfáir dagar til stefnu og flestir flokksmenn bíða spenntir eftir úrslitunum, hvernig listar flokksins verði skipaðir í borgarkjördæmunum í kosningunum að vori. Í kvöld ræddu þeir frambjóðendur sem bjóða sig fram í annað sæti framboðslistans, til forystu í öðru kjördæmi borgarinnar, stöðu mála og prófkjörsbaráttuna almennt í viðtali í Íslandi í dag á Stöð 2. Það var fróðlegt að sjá Björn Bjarnason, Guðlaug Þór Þórðarson og Pétur H. Blöndal í þessu viðtali.
Ég hef margoft sagt það hér að ég vona að Björn Bjarnason fái umboð til forystuverka. Hann á að baki langan feril í stjórnmálum og farsæl verk á mörgum sviðum sem vert er að minnast í vali á borð við þetta. Ég hef lengi þekkt Björn Bjarnason og metið hann mikils. Það er hið eina rétta að hann fái góða kosningu í leiðtogasæti eftir öll sín góðu verk fyrir Sjálfstæðisflokkinn í áranna rás. Allir eru þessir frambjóðendur þingmenn sem hafa unnið lengi fyrir flokkinn og njóta stuðnings flokksmanna fyrir þau verk til þingstarfa áfram og eiga það skilið.
Mestu skiptir þó reynsla og þekking Björns til forystu. Ég vona að hann fái gott umboð í þessu prófkjöri og tek í sjálfu sér undir það sem Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði í Valhöll á laugardag um pólitísk verk Björns Bjarnasonar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.10.2006 | 16:21
Bekkjarmót - fyndin gömul mynd
Var að skoða myndasíðuna sem Nonni bekkjarbróðir setti saman og er með bekkjarmyndunum af okkur. Set hér tengil á eina myndina, en þetta er myndin af tíunda bekk árið 1993, þegar að skyldunáminu lauk með glans.
Fyrir þá sem ekki vita alveg nákvæmlega hvar ég er, er ég í endaröðinni á endanum í bláu flottu merkjapeysunni.
ahaha þetta er alveg brill mynd, segi ekki annað sko.
Bekkjarmynd 1993
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 16:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.10.2006 | 14:58
Sápuópera í raunheimum
Það eru eitthvað um 40 ár síðan að bítillinn Paul McCartney samdi og söng lagið When I´m 64. Lagið var um lífið er aldrinum væri náð og hugleiðingar um tilveruna. Fyrr á þessu ári náði hann sjálfur þeim áfanga að verða 64 ára. Það verður seint sagt að þetta afmælisár sé ár gleði og ánægju fyrir bítilinn heimsfræga. Líf hans einkennist þessa dagana af harðvítugum skilnaðarátökum, forræðisdeilu, yfirráðum yfir peningum sínum og mannorðinu, sem konan ætlar að leggja í rúst. Það er oft kostulegt að lesa fréttirnar um skilnaðarmál þessa fólks. Þetta er algjör sápuópera í raunheimum, hreint út sagt.
![]() |
Fyrra hjónaband McCartneys dregið inn í skilnaðardeilu hans |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.10.2006 | 13:17
200 dagar til alþingiskosninga
Í dag eru 200 dagar í alþingiskosningar, en þær fara fram laugardaginn 12. maí nk. Spennan er orðin mikil vegna kosninganna. Prófkjör stjórnmálaflokkanna eru að hefjast af krafti. Hið fyrsta er nú um helgina, en þá munu sjálfstæðismenn í Reykjavík velja frambjóðendur sína á listana tvo í borginni. Eftir það tekur svo hvert prófkjörið við af öðrum. 11. nóvember verður hörkufínn prófkjörsdagur, en þann dag verða fjögur mjög stór prófkjör hjá Sjálfstæðisflokki og Samfylkingunni.
Mánuður er nú í prófkjör Sjálfstæðisflokksins hér í Norðausturkjördæmi. Framboðsfrestur rennur út á miðvikudaginn og verður fróðlegt að sjá hvort og þá hverjir muni bætast í hóp þeirra níu sem tilkynnt hafa um framboð sín. Það stefnir í spennandi prófkjör, en þrír gefa kost á sér í leiðtogastólinn og má búast við líflegum átökum um forystusessinn, nú þegar að Halldór Blöndal hættir í stjórnmálum eftir langt og farsælt verk á þeim vettvangi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.10.2006 | 09:03
Spenna í prófkjöri SF í borginni

Það stefnir í mjög spennandi prófkjör hjá Samfylkingunni í Reykjavík þann 11. nóvember nk. Þar verða 15 í kjöri, þar af hafa tíu þeirra tekið sæti á þingi, meðal þeirra eru þau 8 sem sitja nú á þingi fyrir Samfylkinguna í Reykjavík. Allir þingmenn flokksins þar gefa því kost á sér til endurkjörs. Flest þeirra sem við bætast í prófkjörið nú er því fólk sem er þekkt fyrir störf sín að stjórnmálum. Auk þessu eru nokkrir nýliðar í slagnum. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, er ein í kjöri um fyrsta sætið. Um annað sætið, hinn leiðtogastólinn, takast þau Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson. Samstaða virðist að mestu um að þau þrjú verði í efstu sætunum.
Það verður spennandi að sjá hvort þeirra verði í öðru sætinu. Þau leiddu lista flokksins í borginni í kosningunum 2003. Þá var Össur í fyrsta sætinu, enda formaður flokksins, og Jóhanna í öðru, en hún sigraði Bryndísi Hlöðversdóttur í slag um annað sætið. Jóhanna hefur verið á þingi í nærri þrjá áratugi, frá árinu 1978, því með mikla reynslu að baki og er nú starfsaldursforseti þingsins. Jóhanna sigraði í prófkjöri Samfylkingarinnar árið 1999 og verið drjúg í prófkjörum. Össur hefur verið á þingi í 15 ár og var formaður Samfylkingarinnar 2000-2005 og er nú þingflokksformaður. Það blasir við að það þeirra sem verður undir tekur þá annað sætið á lista leiddum af Ingibjörgu Sólrúnu.
Um fjórða sætið verður barist af krafti. Þar eru sjö í baráttunni, þau Ágúst Ólafur Ágústsson, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Helgi Hjörvar, Mörður Árnason, Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Valgerður Bjarnadóttir. Þarna getur allt gerst. Hver örlög þeirra verða sem undir verða verður fróðlegt að sjá. Aftur fram á pólitíska sjónarsviðið eru svo komnir þingmennirnir fyrrverandi Ellert B. Schram og Þórhildur Þorleifsdóttir. Ellert var þingmaður Sjálfstæðisflokksins 1971-1979 og 1983-1987 en Þórhildur fyrir Kvennalistann 1987-1991. Ellert fór síðast í prófkjör árið 1982 en Þórhildur hefur það aldrei gert. Fylgst verður mjög vel með hvernig þeim gengur.
Það vekur athygli að Stefán Jón Hafstein, borgarfulltrúi og leiðtogi Samfylkingarinnar innan R-listans 2002-2006, gefur ekki kost á sér í prófkjörinu og hyggst því greinilega sinna borgarmálunum áfram. Sennilega hefur hann litið svo á að slagurinn væri orðinn of þröngur og erfitt að ná að komast ofarlega á lista, nógu ofarlega svo hann gæti unað við. Það verður fróðlegt hvað hann gerir í pólitíkinni í kjölfar þessa.
Þetta verður altént spennandi prófkjör og fróðlegt að sjá hvernig raðast upp. Meginhluti þessa fólks er allt mjög sterkt pólitískt og hefur gegnt pólitískum trúnaðarstörfum svo að það verður fróðlegt að sjá útkomuna.
![]() |
Fimmtán bjóða sig fram í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.10.2006 | 08:04
Framboð Guðfinnu - töf á bíóferð

Það var mikill fengur fyrir Sjálfstæðisflokkinn að Guðfinna S. Bjarnadóttir skyldi gefa kost á sér á framboðslista hans í Reykjavík og fara í prófkjörið þar. Ég fagnaði því framboði hennar mjög þegar að hún tilkynnti það formlega. Guðfinna hafði samband við mig nýlega eftir skrifin og leitaðist eftir því hvort ég vildi ljá nafn mitt í stuðningsmannaauglýsingu. Er ég ekki sunnan heiða en er ófeiminn við að ljá góðu fólki stuðning með þessu tagi. Birtist auglýsingin í Fréttablaðinu í gær og þar er nafn mitt því að finna. Ég treysti því að flokksmenn í Reykjavík tryggi að Guðfinna verði í forystusveit flokksins í höfuðborginni í væntanlegum þingkosningum.
Eins og fram hefur hér komið kom ég seint í gærkvöldi heim eftir góða helgi sunnan heiða. Ætlaði mér að fara í tíubíó, strax eftir komuna heim, og sjá Mýrina. Var orðinn frekar þreyttur eftir helgina og ákvað því að fresta bíóferðinni lítið eitt og ætla mér því að fara í kvöld. Hef ekkert heyrt nema góðar umsagnir um myndina og hlakka því mjög til að sjá hana. Þau brot úr myndinni sem ég hef séð lofa mjög góðu. Það verður því eflaust gaman í bíó í kvöld þegar að við förum á myndina.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 08:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.10.2006 | 07:42
Fyrsti hvalurinn veiddur

Það voru mikil tímamót þegar að fyrsti hvalurinn var veiddur um helgina, eftir að ákveðið var að leyfa veiðar til manneldis á 30 hrefnum og 9 langreyðum. Þetta er í fyrsta sinn í yfir tvo áratugi sem hvalur er veiddur í atvinnuskyni hér við land. Langreyður var síðast veidd hér við land árið 1989, þá í vísindaskyni, en síðast í atvinnuskyni á árinu 1985.
Halldór Blöndal, leiðtogi Sjálfstæðisflokksins hér í Norðausturkjördæmi, var viðstaddur ásamt fjölda fólks er komið var með hvalinn í hvalstöðina og skar hvalinn með fagmannlegum hætti, en Halldór vann á fimmtán vertíðum í hvalstöðinni, áður en hann varð þingmaður, og því öllu vanur í þessum efnum.
![]() |
Vinnsla á fyrstu langreyðinni hafin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.10.2006 | 00:29
Öflugur fundur í Valhöll

Ég las í flugvélinni milli Reykjavíkur og Akureyrar í kvöld ítarlega forsíðufrétt Morgunblaðsins um fund Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, og Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra, sem haldinn var í Valhöll í gær. Því miður gat ég ekki setið fundinn, þó ekki væri ég langt staddur frá Reykjavík, en ég var á málefnaþingi SUS í Reykjanesbæ um helgina. Það er mikilvægt að þessir tveir forystumenn innan flokksins, kjördæmaleiðtogar í Reykjavík, fundi saman og sérstaklega mikilvægt að þar sé rætt um öryggismál Íslands, stöðu mála á þessum tímapunkti.
Það er gleðiefni að sjá hversu vel forsætisráðherra talar um pólitísk verk Björns Bjarnasonar hin síðustu ár. Tek ég undir ummæli Geirs í þessum efnum. Björn er einn traustasti og besti ráðherra sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur átt í sögu sinni. Yfirburðaþekking hans á utanríkis- og varnarmálum hefur skipt miklu máli og gleðiefni að formaður flokksins og forsætisráðherra fari svo vel yfir verk Björns almennt með þessum hætti.
Þetta virðist hafa verið velheppnaður og öflugur fundur í Valhöll og leitt að geta ekki setið hann. Það var fróðlegt að lesa frétt Moggans um þetta í sunnudagsblaðinu.
![]() |
Geir segir aðför að Birni Bjarnasyni sérlega ógeðfellda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)