3.11.2006 | 14:17
James Bond snýr aftur á hvíta tjaldið

Ég hef alla tíð verið gríðarlegur Bond-aðdáandi. Ég á allar myndirnar 20 sem gerðar hafa verið og er fíkill í spennu og hasar myndanna. Hraðskreiðir bílar, stórhættuleg og seiðandi glæpakvendi, banvænir bardagasnillingar og forríkir glæpamenn eru auðvitað stór þáttur í hverri Bond-mynd og við viljum auðvitað engar drastískar breytingar frá þessum höfuðreglum. James Bond, þarf varla að kynna fyrir nokkru mannsbarni. Í fjóra áratugi hefur þessi lífseigi kvennabósi skemmt bíógestum um allan heim með hnyttnum tilsvörum og fáguðu skopskyni.
Það jafnast sjaldan neitt á við það að fá sér popp og kók og hverfa inn í hugarheim sagnanna. Uppáhaldið mitt í þessum myndaflokki er og hefur alla tíð verið Goldfinger frá árinu 1964. Þvílík dúndurmynd, alveg klassi. Sean Connery er og hefur alla tíð verið minn uppáhaldsBond og sá sem bæði skapaði hlutverkið á hvíta tjaldinu og markaði fyrstu og mikilvægustu sporin í hlutverkinu. Annars hlakka ég svo sannarlega til að sjá nýjustu myndina. Ég held að fullyrða megi að ég verði einn af þeim fyrstu sem skelli sér á hana hér. Enda held ég að þessi skothelda blanda af spennu, hasar og gríni klikki aldrei.
Annars gæti svo sannarlega vel verið að maður rifji upp Bond-taktana í kvöld og skelli góðri Bond-mynd í tækið. Það er alltof langt síðan að ég hef einmitt horft á uppáhaldsmyndirnar mínar í seríunni; Goldfinger og The Spy Who Loved Me (með Roger Moore). Þessar myndir klikka svo sannarlega aldrei. Hver er annars uppáhaldsmyndin þín? Hafirðu skoðun á því, láttu endilega í þér heyra hér!
![]() |
Craig sár og reiður vegna persónulegra aðdróttana í sinn garð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 14:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.11.2006 | 13:10
Spennandi prófkjörshelgi hjá Samfylkingunni

Í Suðurkjördæmi hefur verið hörð barátta á milli Björgvins G. Sigurðssonar, Jóns Gunnarssonar, Lúðvíks Bergvinssonar og Róberts Marshall um leiðtogastól Margrétar Frímannsdóttur, sem hefur leitt lista á Suðurlandinu síðan 1987, en Róbert nefnir reyndar annað sætið líka inn í það á hvað hann stefnir. Er ljóst að ekki munu allir verða sáttir við úrslit helgarinnar, enda er tryggt að ein kona muni komast upp á milli þeirra og virðast flestir reikna með að Ragnheiður Hergeirsdóttir, leiðtogi Samfylkingarinnar í Árborg, verði sú kona sem nái að komast ofarlega.
Virðist í fljótu bragði vera mesti hasarinn á milli Björgvins og Lúðvíks, enda er það visst uppgjör sömu hópa og síðast, en Lúðvík gaf kost á sér gegn Margréti Frímannsdóttur í prófkjöri flokksins í Suðrinu í nóvember 2002, en Margrét vann nokkuð nauman sigur, þó að henni væri sótt af krafti. Nú er Lúðvík með aðra stöðu, enda er Róbert Marshall ættaður úr Eyjum og sækir á sömu mið og hann. Það er víst að Björgvin G. Sigurðsson virðist hagnast mest á þessari stöðu. Það yrði mikið áfall fyrir Lúðvík, næði hann ekki að sigra prófkjörið og jafnvel verða illa úti tapi hann leiðtogaslag og falli niður listann. Þetta verður hörkubarátta milli þeirra.
Í Suðvesturkjördæmi takast Árni Páll Árnason, Gunnar Svavarsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir um leiðtogastól Rannveigar Guðmundsdóttur. Það er hörkubarátta sem gæti farið á hvern veginn sem er, þó ekki sé óvarlegt að reikna með því að Gunnar stórgræði á því að vera kandidat Hafnfirðinga til forystu, en Samfylkingin hefur eins og flestir vita hreinan meirihluta í bæjarstjórn Hafnarfjarðar og bærinn er mesta jafnaðarmannavígi kjördæmisins. Árni Páll er úr Kópavoginum og gæti grætt á því og svo er Þórunn með mesta þingreynslu allra frambjóðenda í prófkjörinu, og er orðin efst í kjördæminu utan Rannveigar og ætti sú reynsla að skila henni einhverju.
Um sætin fyrir neðan takast á t.d. Katrín Júlíusdóttir, Guðmundur Steingrímsson, Gunnar Axel Axelsson, Jakob Frímann Magnússon, Jens Sigurðsson, Kristín Á. Guðmundsdóttir, Kristján Sveinbjörnsson, Magnús M. Norðdahl, Sandra Franks, Tryggvi Harðarson og Valdimar Leó Friðriksson. Það er ekki beinlínis auðvelt að spá eitthvað í stöðu mála, þó auðvitað sé Katrín með mjög sterka stöðu ofarlega á listann, verandi þingmaður og hafa hlotið góða kosningu í prófkjörinu í nóvember 2002. Það eru margir sem gefa kost á sér í prófkjörinu, alls 19 manns, og ekki munu allir fá það sem þeir vilja. Það verður fróðlegt að sjá röð efstu manna er yfir lýkur.
Þetta verða spennandi prófkjör hjá Samfylkingunni og sérstaklega fróðlegt að sjá hverjir hljóta leiðtogastólana í þessum kjördæmum og taki við af kjarnakonunum Rannveigu og Margréti. Auk þessa alls munu úrslit liggja fyrir á morgun í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi. Á morgun munu því línur liggja fyrir í öllum kjördæmum innan Samfylkingarinnar fyrir komandi kosningar, utan Reykjavíkur, en þar fer prófkjör fram laugardaginn 11. nóvember nk. En meira að því síðar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.11.2006 | 12:16
Mikil samstaða um nýtt fjölmiðlafrumvarp

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, mælti í gær á þingi formlega fyrir nýjum fjölmiðlalögum og var lífleg umræða á þingi eftir framsögu hennar. Virðist góð samstaða einkenna tal stjórnmálamanna um fjölmiðlafrumvarp nú - það er gleðiefni svo sannarlega. Um fjölmiðlamálið hið fyrra var rætt í yfir 100 klukkustundir, aðeins EES var rætt lengur á þingi en það. Var enda mjög líflegt að fylgjast með umræðum um fyrra frumvarpið fyrir tveim árum. Sérstaklega misstu menn húmorinn yfir annarri umræðu er stjórnarandstæðingar lásu upp úr ljóðabókum og fleiri ritum fjarlægum málinu sem slíku.
Samkvæmt nýja frumvarpinu er eignarhald á fjölmiðli takmarkað við 25% ef markaðshlutdeild er meira en þriðjungur. Þetta er því í meginmáli það sem kom fram í nefndinni og er ánægjulegt að hægt sé að fara í þingið og ræða þetta á þeim grunni að menn séu meira og minna sáttir við undirstöður málsins og halda með það út úr skotgröfunum, sem einkenndu deilurnar fyrir tveim árum. Það var til marks um samstöðuna sem yfir málinu er að fyrsta umræða stóð ekki mjög lengi. Eina sem virtist vera greinanlegt af gagnrýni í málflutningi stjórnarandstöðunnar var að ekki skyldi málið rætt um leið og frumvarp til laga um Ríkisútvarpið.
Fjölmiðlamálið árið 2004 var eins og fyrr segir mikið hitamál. Öll hljótum við að fagna því að ekki sé annar eins hasar í uppsiglingu. Í haust skrifaði ég ítarlegan sögupistil um fjölmiðlamálið anno 2004 og bendi að sjálfsögðu á hann hér með.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.11.2006 | 11:08
Heilsu Ariels Sharons hrakar

Löngum var góð heilsa og úrvalsúthald eitt af aðalsmerkjum Ariels Sharon. Hann var maður sem vann alla tíð langan vinnudag, helgaði sig vinnu og áhugamálum tengdum stjórnmálum. Seinni kona hans, Lily, lést úr krabbameini árið 2000, ári eftir að Sharon varð leiðtogi Likud-bandalagsins. Var það honum mikið áfall og vann hann sig út úr því áfalli með meiri vinnu og álagi tengdu henni. Helgaði hann sig pólitískri baráttu og lagði sig allan fram í þingkosningunum í febrúar 2001, þar sem hann var forsætisráðherraefni Likud-bandalagsins.
Þegar að Sharon fékk höggið mikla stefndi í enn einn kosningasigurinn. Hann hafði slitið á bönd sín við Likud, sem hann átti stóran þátt í að stofna árið 1973, og stofnaði eigin flokk, Kadima (Áfram). Er stefndi í líflega kosningabaráttu og næg verkefni til úrlausnar hjá hinum 77 ára gamla forsætisráðherra kom að því að úthald hans brást. Þess sáust merki laust fyrir síðustu jól að heilsa Sharons væri tekin að dala. Þann 18. desember sl. fekk hann vægt heilablóðfall. Hann sýndi þá engin merki alvarlegrar heilabilunar eða þess að veikindin hefðu sett mark á hann að neinu alvarlegu ráði. Birtist hann skælbrosandi er hann yfirgaf spítalann og sagði heilsu sína góða.
Ákveðið var að hann tæki blóðþynningarlyf til að ná sér eftir veikindin og ákveðið var að hann færi í aðgerð í upphafi nýs árs til að laga meðfæddan hjartagalla sem komið hafði í ljós og talinn þáttur í veikindunum. Síðdegis þann 4. janúar sl. fékk Sharon annað heilablóðfall. Var hann fluttur á Hadassah-sjúkrahúsið öðru sinni. Fljótlega kom í ljós að það væri mun alvarlegra en hið fyrra - staða mála væri grafalvarleg. Var hann færður í bráðaaðgerð eftir að komið hafði í ljós í sneiðmyndatæki alvarleg heilablæðing. Var forsætisráðherrann á skurðarborðinu í tæpa sjö klukkutíma og við tók óviðráðanleg staða.
Samkvæmt fréttum nú hefur heilsu hans hrakað mjög hina síðustu daga. Það kemur væntanlega brátt að leiðarlokum fyrir Ariel Sharon. Eins og fram kom í kosningunum í mars átti Kadima sér líf án Ariels Sharons. En flokkur hans var stofnaður á krafti hans og stuðningi meðal þjóðarinnar og fékk sín völd þá byggt á því. Síðan hefur hallað undan fæti fyrir Kadima og nýjan leiðtoga, Ehud Olmert, sem tók við völdum á viðkvæmu tímabili fyrir ísraelsku þjóðina. En það stefnir í önnur kaflaskil. Lífsbaráttan ein stendur nú eftir fyrir skriðdreka ísraelskra stjórnmála.
![]() |
Sharon fluttur á gjörgæsludeild |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.11.2006 | 23:42
Sagnasjóður Össurar
Síðustu vikur hefur Össur skrifað af nokkrum krafti um innanbúðarmál í Sjálfstæðisflokknum með kostulegum hætti. Þar hefur hann sett sig í stellingar sagnakappa fortíðar og eiginlega komið með nútímaútgáfu af vígaferlum og átökum. Virðist hann heimfæra slíkan sögustíl yfir á Sjálfstæðisflokkinn. Ég veit vel að Össur er skemmtilegur og hress kall, en finnst mjög merkilegt að lesa þessi skrif, hafandi starfað nokkuð lengi innan Sjálfstæðisflokksins. Öllum er frjálst að skrifa og hafa skoðanir á málum en þessi sagnastíll vekur athygli svo sannarlega. Ekkert nema gott um það að segja svosem. En þetta er kómísk vígaferlissaga.
Einkum vekur hann athygli vegna þess að Össur fjallar lítið orðið um pólitísk baráttumál sín og stöðu Samfylkingarinnar í kosningabaráttunni. Ekki hef ég enn séð t.d. greiningu hans á prófkjöri flokksins í Norðvesturkjördæmi, né heldur á nýrri skoðanakönnun Gallups sem sýnir Samfylkinguna með 16 þingsæti, verandi með 20 á þessum tímapunkti á þingi. Það hentar greinilega ekki að skrifa um stöðu flokksins eða útkomu eina sitjandi þingmanns Samfylkingarinnar í prófkjöri í Norðvestri. Það er svosem skiljanlegt, við áttum okkur öll á því hversvegna það hentar ekki sagnaskáldinu góða þessar vikurnar. En öll hljótum við að fagna áhuga hans á Sjálfstæðisflokknum.
Er ég einn um það að vera á þeirri skoðun að Össur hafi áhyggjur af Sjálfstæðisflokknum? Flokknum sem mælist með 43% fylgi landsmanna þessar vikurnar, í nýjustu mánaðarkönnun Gallups. Það gerðist á sama tíma og gamall kjördæmahöfðingi Össurar innan Samfylkingarinnar upplýsti um að hann hefði verið hleraður eftir þrettán ára þögn sína um það og allt að því ásakanir fjölda vinstrimanna um að hér hefði verið rekin einhverntímann leyniþjónusta á vegum Sjálfstæðisflokksins. Sú tugga heyrðist á sömu stund og þetta hlerunartal sumra manna. Það má vel vera að þeir hafi áhyggjur af Sjálfstæðisflokknum. En líti hver maður sér nær, segi ég.
Samfylkingin er ekki að lifa í neinni gósentíð þessar vikurnar - það sýna kannanir. Það er merkilegt að þingmaður í prófkjörsbaráttu hefur fátt þarfara um að skrifa en fabúleringar um aðra flokka og ástandið innan þeirra. Össuri hefur orðið mjög tíðrætt um Björn Bjarnason og talar um pólitískt áfall hans, eftir að hann lenti í sama sæti og hann fékk í síðasta prófkjöri. Hvernig mun annars Össur Skarphéðinsson skrifa um sig með sagnasnilld ef hann nær ekki leiðtogastól í prófkjöri flokksins um aðra helgi, hafandi leitt lista flokksins og verið í fyrsta sæti í síðasta prófkjöri flokksins? Hvernig skrifar hann um eigin ófarir tapi hann fyrir aldursforsetanum Jóhönnu Sigurðardóttur?
Ég hef gaman af Össuri og skrifum hans. Það er alltaf nauðsynlegt að menn séu virkir að skrifa. Ég bíð samt eftir að hann skrifi eitthvað um stöðu Samfylkingarinnar, eftir könnunina og fleiri þætti. Hvernig sturlungulýsingu á vígaferlum mun hann annars skrifa um sjálfan sig missi hann annars leiðtogatign í prófkjöri og formennsku flokksins allt á sama kjörtímabilinu? Þegar stórt er spurt verður annars oft fátt um svör. En haltu áfram að skrifa Össur, ég les þig meðan að í mér rennur pólitískt blóð í æðum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 3.11.2006 kl. 00:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.11.2006 | 20:20
Borgar Þór hættir við framboð í fjórða sætið í NV
Borgar Þór Einarsson, formaður SUS, hefur nú ákveðið að hætta við framboð í fjórða sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. Herdís Þórðardóttir á Akranesi, móðursystir Borgars Þórs, systir Ingu Jónu Þórðardóttur, fyrrum borgarfulltrúa og framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, hefur ennfremur tilkynnt um framboð í sætið og bendir nú flest til þess að hún muni skipa sætið sem fulltrúi Skagamanna.
Uppstillingarnefnd vinnur nú að því að velja framboðslista Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu, en 16 manns hafa lagt fram nafn sitt í vinnuferlið við mótun listans. Allir þingmenn flokksins í kjördæminu; Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, Einar Kristinn Guðfinsson, sjávarútvegsráðherra, og Einar Oddur Kristjánsson sækjast eftir endurkjöri og bendir flest til þess að þeir skipi þessi efstu sæti áfram.
Öllum er ljóst að konu þarf ofarlega á listann og hlýtur Herdís að standa þar vel að vígi, enda er mikilvægt að fulltrúi Akraness og þess svæðis sé ofarlega á lista. Þetta er drengileg ákvörðun hjá Borgari Þór, en hann sagði í kvöldfréttum útvarps að hann myndi hinsvegar taka því sæti sem kjörnefnd myndi velja hann til að skipa.
Það verður fróðlegt að sjá skipan framboðslistans í Norðvesturkjördæmi, en væntanlega mun listinn þar liggja fyrir vel fyrir jólin.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.11.2006 | 18:05
Styttist í prófkjörsúrslit Samfó í Norðaustri

Benedikt Sigurðarson, Kristján L. Möller, Ragnheiður Jónsdóttir og Örlygur Hnefill Jónsson sækjast öll eftir leiðtogasætinu, en þeir Benedikt og Kristján sækjast aðeins eftir fyrsta sætinu en hin tvö nefna 1. - 3. sætið. Auk þeirra voru í kjöri Einar Már Sigurðarson, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Kristján Ægir Vilhjálmsson, Lára Stefánsdóttir og Sveinn Arnarsson. Einar Már og Lára berjast um annað sætið, en þau skipuðu annað og þriðja sætið í síðustu kosningum. Allt er þetta frambærilegt fólk, en með mismikla möguleika eins og gengur.
Svenni bloggvinur og Kristján Ægir takast á um þriðja sætið við Austfirðinginn Jónínu Rós og verður fróðlegt að sjá hvernig að ungliðunum gengur í slagnum, en báðir eru þeir héðan frá Akureyri. Mesta spennan verður yfir slagnum um fyrsta og annað sætið tel ég. Bensi og Kristján hafa tekist á af krafti um forystuna og minnt vel á sig með auglýsingum, heimasíðu og almennri kynningu á opinberum vettvangi. Það verður fróðlegt að sjá hvor vinnur kjörið, varla eiga hin möguleika á leiðtogastólnum. Ég tel Kristján standa mun sterkar.
Jafnframt er öllum ljóst að prófkjörsreglurnar tryggja að fulltrúi annars kynsins á öruggt sæti í topp þremur. Það geta því ekki verið þrír karlar eða þrjár konur í efstu sætunum, svo dæmi sé tekið. Fyrirfram má telja Láru sterkasta kvennanna í eitt af þrem efstu sætunum og það væru stórtíðindi næði hún ekki öruggri kosningu svo ofarlega. Austfirðingar munu vera orðnir uggandi um hag Einars Más, en varla á Jónína Rós séns á þessu. Það verður verulegt áfall fyrir austfirska samfylkingarmenn verði aðeins norðanmenn í efstu sætum.
Það vakti mikla athygli mína að bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar á Akureyri, Hermann Jón og Sigrún, skyldu styðja Kristján Möller með svo áberandi hætti, en bæði hafa þau birst í auglýsingum hans og á heimasíðunni. Við Akureyringar höfum ekki beinlínis séð mikið af verkum hans hér í bæ og teljum hann varla mikinn fulltrúa Akureyrar á Alþingi. Það er greinilega eitthvað þungt á milli forystu Samfylkingarinnar hér í bæ og Bensa, sé tekið mið af þessu öllu. Bensi gat ekki leynt vonbrigðum sínum og veittist á vef sínum að bæjarfulltrúunum fyrir að vinna með okkur sjálfstæðismönnum í bæjarstjórn.
En þetta verða fróðleg úrslit um helgina og við stjórnmálaspekúlantar hér við fjörðinn fagra fylgjumst öll vel með því. Einn spekingur sem ég hitti á kaffihúsi í gær vildi fá spá hjá mér um topp þrjú. Sagði ég kalt mat mitt verða að röðin yrði: Kristján - Lára - Bensi. Veit ekkert hvort staðan sé með þeim hætti, en ég efast ekki um að Kristján mun vinna þetta og að Lára verði "konan" í topp þremur. Óvissan hin mesta er um hver verði með þeim. Ég tel að Einar Már muni ekki ná í topp þrjú, ef svo er verður það óvænt.
Verður allavega áhugavert að sjá stöðuna við lok talningar og hvernig listi Samfylkingarinnar hér í kjördæminu verður.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
2.11.2006 | 16:18
Tilnefningar til Edduverðlaunanna kynntar

Ég mun því fylgjast með Eddunni af áhuga. Sýnist stefnu í óvenju spennandi kapphlaup um ýmis verðlaun þetta árið. Tilnefndar sem bestu myndir eru t.d. Blóðbönd, Börn og Mýrin, allt toppkvikmyndir að mínu mati. Best þeirra er þó hiklaust Mýrin, eins og ég hef farið yfir hér á vefnum var það mynd sem algjörlega heillaði mig, gríðarlega vel gerð, leikin og með brill heildarramma. Fannst merkilegt að hvorki Theódór né Þórunn Magnea voru tilnefnd fyrir leik sinn í Mýrinni, svo var greinilega ekki munað eftir Ágústu Evu.
Finnst reyndar verulega hallærislegt hjá þeim sem sjá um verðlaunin að hafa saman frammistöður karla og kvenna í leikaraflokkunum í aðal- og aukahlutverki. Það er svona frekar dapurt að mínu mati og vert mikillar umhugsunar. En ég tel að þetta geti verið óvenjuspennandi núna. Sérstaklega finnst mér gleðiefni að Jón Ársæll er tilnefndur enn eitt árið fyrir Sjálfstætt fólk, en mér finnst sá þáttur bera af í íslensku sjónvarpi og hann fær væntanlega verðlaunin enn eitt árið, ef allt eðlilegt er.
Bendi annars á tilnefningarnar hér með.
![]() |
Börn með átta tilnefningar til Edduverðlaunanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 16:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.11.2006 | 14:22
Sterk staða Sjálfstæðisflokksins

Eftir síðustu kosningar höfðu Framsóknarflokkur og Samfylking 32 þingsæti og hefðu getað myndað saman ríkisstjórn. Össur Skarphéðinsson bauð Halldóri Ásgrímssyni forsæti í ríkisstjórn flokkanna, örskömmu eftir að fyrir lá að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, svokallað forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar, hafði ekki náð inn á þing. Þrátt fyrir aftengingu hennar sem slíkrar kom ekki til samstarfs flokkanna. Nú mælast þessir flokkar samtals með 22 þingsæti. Mikið fall það.
Sjálfstæðisflokkurinn má vel við una, nú þegar að hann mælist með 27 þingsæti í könnun Gallups. Hann hefur minnst nú 35% fylgi í Norðvesturkjördæmi, en fer hæst í helmingsfylgi í Suðvesturkjördæmi. Þetta er sterk staða og ánægjuleg fyrir okkur - eftir langa og farsæla stjórnarforystu vilja landsmenn sterkan Sjálfstæðisflokk áfram við völd. Það eru mörg tækifæri fólgin fyrir okkur í þessari stöðu. Við verðum að nýta þau.
Hér í Norðausturkjördæmi mælumst við t.d. með yfir 35% fylgi. Við verðum nú að sækja þetta fylgi og tryggja að nýr leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, kjörinn í prófkjörinu eftir þrjár vikur, verði fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis að morgni 13. maí 2007. Það er markmið okkar allra hér nú í kjördæminu. Að því mun ég altént vinna eftir því sem mér er unnt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.11.2006 | 11:41
George W. Bush horfir til loka valdaferilsins

Tveim árum eftir kosningarnar hefur George W. Bush nú ákveðið að Dick Cheney, varaforseti, og Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra, verði í sínum embættum út kjörtímabilið með honum og yfirgefi valdastóla samhliða því er hann yfirgefur Hvíta húsið og flýgur inn í sólarlag ævinnar í Texas. Þessi yfirlýsing er að mínu mati mjög voguð og hugrökk í framsetningu á þessu viðkvæma tímabili repúblikana, en skiljanleg vissulega. Þó að báðir séu umdeildir eru þeir límið í ríkisstjórninni. Fyrirfram taldi ég ólíklegt að Rumsfeld yrði til loka í sínu embætti, en hann verður orðinn 77 ára í janúar 2009 er tímabilinu lýkur.
Það er merkileg staðreynd að John Kerry er búinn að missa allan trúverðugleika sem stjórnmálamaður eftir ummæli sín í vikunni, aðeins tveim árum eftir að hann var naumlega orðinn forseti Bandaríkjanna í jöfnum átökum við forsetann. Vandræðagangur hans er með ólíkindum og niðurlæging hans algjör. Ummæli hans eru áfall fyrir demókrata á viðkvæmum tímapunkti. Þrátt fyrir allt það virðist forskot demókrata nokkuð mikið. Staðan ræðst best í fulltrúadeildinni, þar sem öll sæti eru undir. Þar fáum við beint í æð hvernig Bandaríkjamönnum líður pólitískt fyrir forsetakosningarnar 2008.
Um fátt er meira rætt vestanhafs en hverjir takist á um forsetaembættið þegar að Bush hættir. Línur í þeim efnum skýrast verulega eftir kosningarnar á þriðjudag. Fyrirfram má telja Hillary Rodham Clinton og Barack Obama sterkust demókratamegin og þá John McCain og Rudolph Giuliani repúblikanamegin. Það verða nýjar áherslur því eftir tvö ár, sama hver verður ofan á. Það verða umskipti.
Ég hef aldrei farið leynt með að ég er ekki hrifinn af Donald Rumsfeld á þeim stað sem hann er nú. Mér finnst það bera vott um hugaðan stjórnmálamann að halda í hann og tilkynna það nú. Það verður fróðlegt að fylgjast með stöðunni eftir þriðjudaginn - þá ræðst hvernig síðasta misseri valdaferils Bush forseta mun ganga fyrir sig.
![]() |
Bush: Rumsfeld og Cheney munu starfa áfram í ríkisstjórn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.11.2006 | 01:28
Björn og álitsgjafarnir
Varla mátti framsóknarmaður hreyfa sig nema að Birgir væri beðinn um að greina þá hina minnstu breytingu. Þess vegna fannst mér merkilegt þegar að Birgir var kallaður til um daginn og settur í það verkefni að greina stöðu mála í Sjálfstæðisflokknum eftir prófkjörið í Reykjavík. Ég veit ekki hvaða þekkingu Birgir hefur á innri málum Sjálfstæðisflokksins umfram Jón Jónsson, verkamann í Breiðholtinu, svo ég tali hreint út. Þetta var mjög kostulegt álitstal um málefni okkar flokks sem fram komu.
Ég tek undir þá skoðun Björns að ég veit ekki hvaða forsendur Birgir hefur til að fara yfir mál okkar flokks og stöðuna sem þar er innbyrðis, frekar en hver annar maður úti á götu. Nú ætla ég að taka fram að mér finnst Birgir Guðmundsson ekki leiðinlegur stjórnmálaáhugamaður en ég verð hinsvegar að viðurkenna að mér þykir þetta álitsgjafahlutverk hans hafa farið nokkuð úr böndunum. Oftar en ekki hafa spádómar Birgis reynst skjóta yfir markið. Gott dæmi var þegar að hann spáði eftir að Halldór Ásgrímsson hætti að nú myndi sennilega Valgerður hætta bráðlega í stjórnmálum. Nokkrum dögum síðar varð Valgerður utanríkisráðherra, fyrst kvenna.
Nokkru síðar lýsti Valgerður yfir að hún ætlaði ekki í formannsframboð í flokknum og aftur kom sami spádómur Birgis. Reyndar var það skondið enda fylgdi það með yfirlýsingu Valgerðar að hún væri einmitt að ákveða að fara ekki í formannsframboð til að sinna betur kjördæmi sínu samhliða ábyrgðarmiklu ráðuneyti.
Það er gömul saga að álitsgjafar í stjórnmálum koma og fara. En það að telja Birgi Guðmundsson sérstakan álitsgjafa um innanbúðarmál í Sjálfstæðisflokknum er skemmtilega fjarstæðukennt að mínu mati. Getur hann ekkert sagt lengur um Framsókn?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:30 | Slóð | Facebook
1.11.2006 | 23:37
Dýrkeyptur brandari fyrir John Kerry

Lét Kerry þau orð falla að það væri nú eins gott fyrir bandarísk ungmenni að standa sig vel í lífinu, svo að þau myndu nú ekki enda í Írak. Með þessu mátti skilja að Kerry teldi að það væri aðeins fólk sem hefði orðið undir í námi eða í lífinu sem færi til Íraks. Þetta voru ummæli sem hittu ekki í mark og forystumönnum flokksins var ekki skemmt og honum var snarlega gert það ljóst að nærveru hans væri ekki óskað við þessar aðstæður í þeim lykilkosningabaráttum sem við flokknum blasa þessar vikurnar. Sérstaklega munu suðurríkjademókratar hafa orðið æfir og skipað flokksforystunni að halda Kerry í Washington.
John Kerry hefur jafnan verið mjög umdeildur stjórnmálamaður. Hann var mistækur í kosningabaráttunni um Hvíta húsið fyrir tveim árum og þótti vera lausmáll og ekki alltaf vera heppilegur í orðavali. Ummæli hans um að hann hefði fyrst greitt atkvæði með máli og svo greitt atkvæði gegn því voru spiluð aftur og aftur af Bush-kosningamaskínu repúblikana og voru skaðlegar fyrir hann, enda kom með því sú ímynd á hann að þar færi vingull sem skipti um skoðanir æ ofan í æ, sem reyndar kom svo berlega í ljós þegar að rekkord hans í öldungadeildinni var kannað með smásjá.
Nú verður að ráðast hvort að ummælin skaði möguleika demókrata í kosningunum í næstu viku. Demókratar eru allavega ekki tilbúnir að taka áhættuna af að ferðast með Kerry um landið næstu dagana og loka á fundaferð hans. Bush forseti hefur tekið málið upp æ ofan í æ í dag og bent á að Kerry ætti að skammast sín og biðjast afsökunar. Um fátt hefur verið meira rætt vestanhafs í dag en klaufaskap Kerrys, sem varla sannar með þessu reynslu sína sem stjórnmálamanns, en hann hefur setið í öldungadeildinni í 22 ár. Þetta eru með ólíkindum klaufaleg og dómgreindarlaus ummæli, hreint út sagt.
Nú ræðst hvort að demókratar tapa á ummælunum. Sjálfur hefur Kerry sagst iðrast ummælanna en ekki gengið svo langt að biðja afsökunar á þeim. Á meðan að umræðan grasserar og versnar er ekki furða að demókratar velji þann kostinn að þröngva Kerry út úr sviðsljósinu með kosningarnar svo skammt undan. Þetta er mjög neyðarlegt fyrir Kerry, sem fyrir aðeins tveim árum var forsetaefni demókrata en er nú ekki treyst fyrir að fara um landið í fundaferð fyrir þingkosningar vegna þessa dýrkeypta brandara síns.
Viðbót - kl. 23:45
Kerry var að gefa út yfirlýsingu og biðjast opinberlega afsökunar á ummælum sínum vegna þrýstings innan úr flokknum
Umfjöllun CNN um afsökunarbeiðni John Kerry
![]() |
John Kerry dregur sig í hlé |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
1.11.2006 | 21:29
Gott viðtal við Grazynu Maríu
Pólski hjúkrunarfræðingurinn Grazyna María Okuniewska telst einn af táknrænu sigurvegurum prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík um síðustu helgi. Hún varð vissulega ekki í efstu sætunum, en það má þó telja að margir hafi orðið nokkuð hissa að hún skyldi verða í tólfta sætinu í prófkjörinu og vera nærri því að fá bindandi kosningu. Hún verður í baráttusæti, sjötta sætinu, í öðru Reykjavíkurkjördæmanna að vori. Skv. skoðanakönnunum núna á hún möguleika á þingsæti.
Í Íslandi í dag í kvöld ræddi Sölvi Tryggvason við Grazynu Maríu í góðu viðtali og fór yfir málin með henni, t.d. úrslit prófkjörsins og verkefnin framundan. Það er ekki hægt að segja annað en að hún komi virkilega vel fyrir og það hlýtur að teljast sterkur leikur hjá sjálfstæðismönnum að velja hana í baráttusæti á framboðslista og tryggja henni góða kosningu. Ég er sannfærður um það að hún verður öflugur liðsmaður í kosningabaráttunni hjá flokknum í borginni að vori.
Grazyna María þótti ná góðum árangri, þrátt fyrir að vera ekki með standandi kaffi og kruðerí allan daginn á kosningaskrifstofu, auglýsa lítið, vera ekki með dýra vefsíðu og hringja út og suður. Hún var t.d. bara með einfalda og ósköp venjulega blogspot-kosningavefsíðu.
Fari svo að hún kæmist á þing yrði hún fyrsti innflytjandinn sem tæki sæti á Alþingi Íslendinga. Hvernig sem fer má telja öruggt að hún fari á þing á næsta kjörtímabili, í versta falli sem varaþingmaður.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.11.2006 | 20:26
Samfylking og Framsókn missa fylgi

Samfylkingin mælist með 25% og minnkar um tvö prósentustig milli mánaða og missir því fylgisaukninguna sem hún náði í síðustu mánaðarkönnun. Fylgi Vinstri grænna mælist nú 20% og Frjálslyndi flokkurinn er með 4%. Fylgi ríkisstjórnarinnar eykst milli mánaða, en það er nú 53% í stað 52% fyrir mánuði. Stjórnarflokkarnir mælast samanlagt með 51% fylgi og þingmeirihluta, þrátt fyrir lakt gengi Framsóknar, enda er staða Sjálfstæðisflokksins sterk.
Í greiningu Gallups á könnuninni segir orðrétt: "Eftir kjördæmum skiptist fylgið þannig að Framsóknarflokkurinn hefur minnst fylgi í Reykjavíkurkjördæmi suður, eða 3%, en mest í Norðvestur- og Norðausturkjördæmum, með 16% fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn mælist minnst með 35% fylgi í Norðvesturkjördæmi og mest fylgi í Suðvesturkjördæmi þar sem flokkurinn nýtur stuðnings helmings kjósenda.
Frjálslyndir fá minnst fylgi í Norðausturkjördæmi, eða 2%, og mest í Norðvesturkjördæmi eða 6%. Samfylkingin hefur mest fylgi í Suðurkjördæmi, 28%, en minnst í Reykjavík suður með 23%. Þar eru Vinstri grænir stærri, með 25% fylgi en minnst fylgi fær flokkurinn í Suðurkjördæmi eða 16%."
Þetta eru merkilegar vísbendingar, sérstaklega er athyglisvert hvað Vinstri grænir eru að styrkjast um allt á kostnað Framsóknar og Samfylkingar, enda er VG komið upp að Samfylkingunni um nær allt land. Svo er greinilegt á öllu að staða Framsóknarflokksins er gríðarlega erfið í öllum kjördæmum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.11.2006 | 16:44
Hlutur sveitarfélaganna í Landsvirkjun seldur

Þetta hefur lengi verið í umræðunni og margoft munað litlu að saman næðist um samkomulag sem öllum aðilum líkaði. Ekki var hægt að skrifa undir viljayfirlýsingu í lok nóvember 2004 eins og að var stefnt fyrir starfslok Þórólfs Árnasonar, þáv. borgarstjóra, vegna ólgu innan R-listans. Bakland hans, sem var brostið áður, var ekki til staðar í þessu máli þá. Í febrúar 2005 undirrituðu Geir Haarde, Valgerður Sverrisdóttir, Kristján Þór og Steinunn Valdís, þáv. borgarstjóri, svo loks viljayfirlýsinguna um kaup ríkisins. Þá ritaði ég þessa grein á vefritið íhald.is um málið og fór yfir stöðu þess.
Vinstri grænir stöðvuðu þetta alltaf innan R-listans skilst manni, en viðræður ríkisins við borgina og Akureyrarbæ hófust í valdatíð R-listans og þar var deilt um afstöðu til málsins margoft á bakvið tjöldin og Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn náðu málinu aldrei í gegn undir verkstjórn Steinunnar Valdísar og Þórólfs á síðasta kjörtímabili. Það er gott að þetta er komið á hreint, enda lengi verið í umræðunni. Nú fer þetta fyrir borgarstjórn Reykjavíkur, bæjarstjórn Akureyrar og þingið.
![]() |
Helmingshlutur í Landsvirkjun seldur á 30,25 milljarða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.11.2006 | 15:15
Snarpur jarðskjálfti
Það varð heldur betur snarpur jarðskjálfti í dag. Hann varð suðaustan af Flatey á Skjálfanda laust fyrir klukkan tvö. Ég fór í klippingu klukkan hálftvö og var nýlega kominn aftur við tölvuna er ég fann skjálfta. Taldi fyrst að þetta væri eitthvað sem ég hefði bara fundið en væri ekki neitt sérstakt. Hefur greinilega verið skjálftinn sjálfur, enda er ég að sjá fréttir um þetta núna á fréttavef mbl.is
![]() |
Allsnarpur jarðskjálfti suðaustur af Flatey |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.11.2006 | 14:12
Alvarlegar ásakanir í kjölfar prófkjörs
Mikið hefur verið rætt og ritað síðustu daga um nafnlaust bréf sem sent var til Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra, Andra Óttarssonar, framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, og Magnúsar L. Sveinssonar, formanns Varðar, þar sem sömu ásakanir komu fram. Það vekur athygli að umræðan sé nú komin á þetta stig og það gefur því meiri vigt og þunga að nafn og persóna sé þar á bakvið en var áður óneitanlega. Þetta er afleitt mál að öllu leyti í umræðunni, bæði fyrir flokksmenn um allt land og ekki síður þá sem eru í borginni.
Það er hiklaust mitt mat á þessu máli að það sé í senn gríðarlega mikilvægt og nauðsynlegt fyrir Guðlaug Þór Þórðarson að þetta mál verði leitt til lykta með þeim hætti að trúverðugleiki hans sem kjördæmaleiðtoga innan flokksins bíði ekki mikinn og varanlegan hnekki af. Það er að mínu mati ekki hægt að leiða mál til lykta með neinum öðrum hætti en þetta verði rannsakað til fulls og það af hlutlausum aðilum.
1.11.2006 | 14:08
Framboð Sigurjóns
Sigurjón Benediktsson er búinn að gefa kost á sér til þingframboðs fyrir Sjálfstæðisflokkinn hér í kjördæminu. Mér líst mjög vel á það og er staðráðinn í að styðja hann í prófkjörinu þann 25. nóvember nk. Vil þakka honum fyrir góð komment hér í gestabókina mína nýlega. Sigurjón er tengdasonur Herdísar Þorvaldsdóttur, leikkonu, en hún er víst nokkuð skyld mér eftir því sem Íslendingabók segir mér. Þannig að ég er víst skyldur meistara Hrafni, sem gerði eðalmyndina Hrafninn flýgur.
Sigurjón hefur aldrei verið feiminn að segja sínar skoðanir og vakti athygli þegar að hann gaf kost á sér gegn Halldóri Blöndal í fyrsta sætið á kjördæmisþingi í aðdraganda kosninganna 1999. Þá var líf og fjör svo sannarlega. Sigurjón er maður sem hefur unnið vel í kjördæmastarfinu og nauðsynlegt að hafa hann með á lista að vori. Alltaf nauðsynlegt að hafa öfluga menn með skoðanir! Ég vona að hann fái góða útkomu í prófkjörinu.
![]() |
Sækist eftir þingsæti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.11.2006 | 11:19
Sæunn í framboð í Norðausturkjördæmi

Sæunn tók sæti á þingi í september við afsögn Halldórs Ásgrímssonar, nýs framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar og fyrrum forsætisráðherra, og situr á þingi fyrir Reykjavík norður. Þar er ekki pláss fyrir hana svo að hún lítur nú á þingsæti Dagnýjar, vinkonu sinnar. Það styrkir stöðu Sæunnar gríðarlega að vera með fullan og óskoraðan stuðning DJ, Jóns Kristjánssonar, fyrrum heilbrigðis- og félagsmálaráðherra, en hún var aðstoðarmaður hans í báðum ráðuneytum, og ekki síður Valgerðar Sverrisdóttur, leiðtoga flokksins í kjördæminu, og ennfremur vera ritari Framsóknarflokksins og því yfir öllu innra starfi hans.

Það verður fróðlegt að sjá hverjir fara fram að hálfu Framsóknar, en framboðsfrestur rennur út 1. desember nk. og tvöfalt kjördæmisþing verður í janúarmánuði þar sem efstu menn verða valdir. Það er ekki furða að Akureyringar vilji þingmann, enda hafa framsóknarmenn á Akureyri ekki átt þingmann síðan að Ingvar Gíslason var þingmaður, en hann var menntamálaráðherra 1980-1983. Þetta verður því spennandi og gaman að sjá hvert Sæunn ritari sækir stuðning sinn til framboðs. En hún hefur greinilega víðtækan og öflugan stuðning lykilfólks.
Sæunn er allavega komin af stað og er nú á ferð um kjördæmið að funda og framboð ljóst hér að mati okkar sem hér erum. Öll teikn eru allavega á lofti í þessum efnum. Ennfremur er spurning hvernig að Birki Jóni muni ganga og hversu harður slagurinn um annað sætið verður. Þetta verða spennandi tímar hjá framsóknarmönnum og stefnir í endurnýjun og mjög breyttan lista framsóknarmanna að vori hér í NA.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.11.2006 | 09:41
Kristján Þór og Þorvaldur opna á sama tíma

Það vekur mikla athygli flokksmanna að þeir ætla báðir að opna kosningaskrifstofur sínar á föstudaginn og það á nákvæmlega sama tíma, kl. 17:00. Kristján Þór verður með kosningaskrifstofu í göngugötunni í miðbænum, að Hafnarstræti 108, þar sem Bókabúð Jónasar var til húsa í áratugi, en hún lokaði fyrr á árinu. Það er mjög öflugt pláss og svo sannarlega á besta stað í hjarta bæjarins og segir allt sem segja þarf um þungann sem leggja á í baráttuna af Kristjáni og stuðningsmönnum hans.

Eins og sagði hér í gær hafa bæði Kristján Þór og Þorvaldur opnað heimasíður á netinu. Þær fara þó varla af stað af miklum þunga fyrr en á föstudag við opnun á kosningaskrifstofum þeirra á sömu stundinni. Kristján Þór verður með vefinn stjaniblai.is og Þorvaldur mun verða með heimasíðuna á slóðinni valdi.is. Stefnir því í lífleg og hressileg átök svo sannarlega. Fögnum við flokksfólk hér svosem öflugum og beittum slag, en þunginn í slagnum stefnir í að verða meiri en áður var talið. Það er svosem ekki verra fyrir okkur öll að hafa valkosti til þingframboðs.
Enn er spáð og spekúlerað í hvað Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður, ætlar að gera í baráttunni, en þegar liggur fyrir að Ólöf Nordal verður með kosningaskrifstofu í Kaupvangsstræti 1, sama húsi og Ríkisútvarpið hefur aðstöðu í hér á Akureyri. Sýnir það vel að Ólöf sækir af krafti til Akureyringa og vill kynna framboð sitt hér með öflugum hætti, sem við kvörtum ekki yfir.
En það verður fróðlegt að rýna í föstudaginn og stöðu mála við opnun kosningaskrifstofanna hjá bæjarstjóranum og svo hjá formanni Sjálfstæðisfélags Akureyrar sem báðir berjast um leiðtogastólinn í sama öfluga slagnum og opna baráttuna á sömu stund á miðbæjarsvæðinu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)