Gleðilegt ár!

Áramót Í þessari síðustu bloggfærslu minni á árinu 2006 vil ég senda lesendum vefsins og vinum mínum og kunningjum mínar innilegustu nýárskveðjur. Óska ég þeim farsældar á nýju ári og þakka þeim samfylgdina á árinu sem er að líða. Þeim sem ég hef kynnst á árinu vil ég þakka fyrir notaleg kynni.

Ég vil sérstaklega þakka öllum þeim sem ég kynnst í gegnum þennan vef minn, sem er eiginlega mitt líf og yndi, enda fæ ég hér útrás hér fyrir skoðanir mínar og pælingar. Vil ég þakka ykkur fyrir hollustu við vefinn og að lesa hann. Það er mér ómetanlegt að fá góðar kveðjur og skilaboð við skrif mín.

bestu nýárskveðjur frá Akureyri
Stefán Friðrik Stefánsson


Nú árið er liðið í aldanna skaut
og aldrei það kemur til baka,
nú gengin er sérhver þess gleði og þraut,
það gjörvallt er runnið á eilífðar braut,
en minning þess víst skal þó vaka.

En hvers er að minnast? Og hvað er það þá,
sem helst skal í minningu geyma?
Nú allt er á fljúgandi ferð liðið hjá,
það flestallt er horfið í gleymskunnar sjá.
En miskunnsemd Guðs má ei gleyma.

Hún birtist á vori sem vermandi sól,
sem vöxtur í sumarsins blíðum,
í næðingum haustsins sem skjöldur og skjól,
sem skínandi himinn og gleðirík jól
í vetrarins helkuldahríðum.

Hún birtist og reynist sem blessunarlind
á blíðunnar sólfagra degi,
hún birtist sem lækning við böli og synd,
hún birtist þó skærast sem frelsarans mynd,
er lýsir oss lífsins á vegi.

Nú Guði sé lof fyrir gleðilegt ár
og góðar og frjósamar tíðir,
og Guði sé lof, því að grædd urðu sár,
og Guði sé lof, því að dögg urðu tár.
Allt breyttist í blessun um síðir.

Ó, gef þú oss, Drottinn, enn gleðilegt ár
og góðar og blessaðar tíðir.
Gef himneska dögg gegnum harmanna tár,
gef himneskan frið fyrir lausnarans sár
og eilífan unað um síðir.

Valdimar Briem


Áhugaverð stjórnmálaumræða í Kryddsíld

Kryddsíld 2005 Venju samkvæmt var áhugavert að horfa á Kryddsíld á Stöð 2. Merkilegustu tíðindin í þættinum þetta árið var væntanlega að leiðtogar kaffibandalagsins eru ekki sammála um neitt. Hikstaði Steingrímur J. á því að lofa Ingibjörgu Sólrunu leiðtogasess í bandalaginu. Aðeins stóð eftir hálfvelgjutal um að reyna að mynda stjórn myndi sitjandi ríkisstjórn falla en ekkert annað liggur á borðinu greinilega. Stórtíðindi það.

Hef ég horft á Kryddsíldina allt frá því að Elín Hirst byrjaði með hana í denn á Stöð 2 á gamlársdag 1989, minnir mig allavega. Ávallt er þar áhugaverð og skemmtileg stjórnmálaumræða, enda formenn flokkanna að ræða hitamálin svo eftir er tekið. Oft hafa menn tekist hressilega á, minnast margir rimmu Davíðs Oddssonar og Össurar Skarphéðinssonar í Kryddsíld á gamlársdag 2002 um málefni Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem fór í varaþingmannsframboð eins og flestir muna eftir

Að þessu sinni var lífleg umræða, enda margt eftirminnilegt frá árinu. Rætt var um helstu hitamál ársins. Engum kom að óvörum að aftakan á Saddam Hussein, fyrrum forseta Íraks, var aðalumræðuefnið í byrjun þáttarins, enda vafalaust frétt ársins. Rætt var ennfremur um virkjunarmál, utanríkismál, endalok stjórnmálaferils Halldórs Ásgrímssonar, sem hætti sem forsætisráðherra á árinu og hélt til annarra verkefna, endalok varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli og svona mætti lengi telja. Þetta var líflegt fréttaár og lifandi umræður um stöðu mála á áramótum.

Var lítið um átök svosem. Enn sér maður keim þess að Davíð og Össur eru horfnir á braut, en þeir settu jafnan mesta svipinn á þáttinn hin seinni ár, og svo er auðvitað Halldór farinn frá velli. Þau Geir, Jón og Ingibjörg Sólrún eru komin þess í stað sem veigamikill hluti þáttarins. Leiðtogarnir léku á alls oddi, enda léttar og ljúfar umræður, heilt yfir voru þetta nokkuð heilsteyptar og málefnalegar umræður.

Tíðindin voru hinsvegar hikstið á kaffibandalaginu sem er mjög gott fyrir okkur stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar. Það virðist enginn grundvöllur vera undir lapþunnu kaffibandalagi stjórnarandstöðunnar, sem vekur athygli vissulega. Þetta var því áhugavert spjall, ómissandi fyrir sanna stjórnmálaáhugamenn og sýndu okkur vel hverjum er best treystandi fyrir stjórn landsins á nýju ári.

Áramótauppgjör 2006

Gleðilegt ár! Árið 2006 líður senn í aldanna skaut. Að baki er eftirminnilegt ár fyrir margra hluta sakir. Í ítarlegum áramótapistli mínum, sennilega þeim lengsta og ítarlegasta sem ég hef ritað á löngum pistlaferli mínum, sem birtist í dag á vef Sambands ungra sjálfstæðismanna fer ég yfir árið með mínum hætti og það sem ég tel standa helst eftir þegar litið er yfir það.

Ársins 2006 verður í framtíðinni eflaust minnst hér heima sem ársins er herinn fór, Halldór Ásgrímsson hætti þátttöku í stjórnmálum og sagði af sér sem forsætisráðherra, Geir H. Haarde varð forsætisráðherra, Jón Sigurðsson varð formaður Framsóknarflokksins og skipti um kúrs í Íraksmálinu, R-listinn leið undir lok og Vilhjálmur Þ. varð borgarstjóri, talað var um hleranir í kalda stríðinu, Jón Baldvin sagðist hafa verið hleraður, þjóðin hafnaði slúðurblaðamennsku DV, Hálslón varð að veruleika, Ómar kastaði af sér grímu hlutleysis í virkjunarmálum, Árni Johnsen náði öruggu þingsæti að nýju í prófkjöri í Suðurkjördæmi og nefndi afbrot sín tæknileg mistök, slökkt var á NFS og hvalveiðar hófust að nýju í atvinnuskyni.

Á erlendum vettvangi bar hæst að Saddam Hussein var tekinn af lífi í Bagdad, George W. Bush og Tony Blair áttu í miklum pólitískum erfiðleikum, repúblikanar misstu meirihluta í báðum deildum Bandaríkjaþings og breski Verkamannaflokkurinn missti mikið fylgi í byggðakosningum, Donald Rumsfeld sagði af sér, vargöld ríkti í Líbanon, Ariel Sharon fékk heilablóðfall sem leiddi til þess að hann varð óstarfhæfur og áratugalöngum stjórnmálaferli hans lauk, Ehud Olmert varð forsætisráðherra Ísraels, vinstristjórn Göran Persson féll í Svíþjóð og borgaraflokkarnir komust til valda, skopmyndir af Múhameð ollu ólgu í Mið-Austurlöndum, Augusto Pinochet og Slobodan Milosevic létust og Berlusconi missti völdin.


Heldur betur litríkt ár sem senn kveður. Að mínu mati ber algjörlega hæst brotthvarf hersins og endalok stjórnmálaferils Halldórs Ásgrímssonar. Erlendis gnæfir aftakan á Saddam Hussein yfir öllu, auk þess pólitíska loftslagið í Bandaríkjunum og Bretlandi að ógleymdri vargöldinni í Líbanon í sumar. Fjalla ég um öll þessi málefni í ítarlegum pistli og vona ég að þið njótið pistilsins og lesið hann af áhuga.

Saddam Hussein jarðsettur í Tikrit

Saddam Hussein Saddam Hussein, fyrrum forseti Íraks, sem tekinn var af lífi fyrir sólarhring, var jarðaður í heimabæ sínum, Tikrit, fyrir nokkrum klukkustundum. Hann var lagður til hinstu hvílu fyrir dögun að írökskum tíma í kirkjugarði í Awja-hlutanum í Tikrit. Lík Saddams var fyrir nokkrum klukkustundum afhent héraðshöfðingjum á svæðinu og greftrun fór fram að sið múslima skömmu síðar.

Lát Saddams og greftrun hans á sama sólarhringnum markar sláandi endalok á litríkum æviferli Saddams, sem var lykilpersóna í írökskum stjórnmálum og við Persaflóa í áratugi. Saddam hefur verið lykilpersóna átaka á svæðinu til fjölda ára og hefur verið táknmynd einræðisstjórnarinnar sem hann leiddi í yfir tvo áratugi. Dauði hans markar viss endalok þessa skeiðs í sögu landsins.

Skv. fréttum voru um 100 einstaklingar viðstaddir greftrun Saddams Husseins í Tikrit. Í sama kirkjugarðinum og hann hlaut sína hinstu hvílu eru ennfremur lík sona hans, Uday og Qusay, sem féllu sumarið 2003 í átökum við heri Bandamanna. Þar hvíla ennfremur aðrir fjölskyldumeðlimir Saddams. Beiðni dætra Saddams um að fá jarðneskar leifar hans afhentar til greftrunar í Yemen var hafnað og ákveðið af ríkisstjórn landsins að hann myndi hvíla á heimaslóðum.

Það leikur enginn vafi á því að dauði Saddams nú í lok ársins eru stærstu pólitísku tíðindi ársins og mestu tíðindi áratugarins væntanlega, ef undan er skilið Íraksstríðið sjálft og hryðjuverkin í Bandaríkjunum fyrir fimm árum. Þessi tíðindi marka þáttaskil. Það verður fróðlegt að sjá hvaða áhrif dauði Saddams Husseins muni í raun og sann hafa á stöðu mála í Írak næstu vikur og mánuði.

Halldór heldur til Köben

Halldór Ásgrímsson Eftir rúman sólarhring verður Halldór Ásgrímsson, fyrrum forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, orðinn framkvæmdastjóri norrænu ráðherranefndarinnar. Með því verður hann yfirmaður alls norræns samstarfs og verður yfirmaður fjölmennrar skrifstofu í Kaupmannahöfn, þar sem hann hefur störf eftir helgina. Þangað mun Halldór senn flytjast búferlum.

Það leikur enginn vafi á því að endalok stjórnmálaferils Halldórs Ásgrímssonar eru ein stærstu tíðindin af innlendum vettvangi á árinu. Halldór hafði setið í ríkisstjórn samtals í tvo áratugi, verið þingmaður í yfir þrjá áratugi og flokksformaður í rúman áratug þegar að hann ákvað að segja skilið við stjórnmálaþátttöku. Hann var áhrifamikill stjórnmálamaður í innsta hring landsmálanna um árabil og var áberandi á sínum vettvangi.

Halldór setti mark á stjórnmálaþátttöku og það að aðeins dr. Bjarni Benediktsson, fyrrum forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hafi setið lengur í ríkisstjórn en Halldór segir sína sögu um langan stjórnmálaferil Halldórs. Hvaða skoðun svo sem íslenskir stjórnmálaáhugamenn hafa á persónu og stjórnmálastörfum Halldórs Ásgrímssonar verður ekki deilt um það að hann markaði spor í íslenska stjórnmálasögu.

Halldór var lengi virkur þátttakandi í stjórnmálum og helgaði þessum bransa ævistarf sitt. Ég tel að það hafi verið merkt framlag sem hann lagði að mörkum og persónulega met ég mjög mikils persónu Halldórs Ásgrímssonar. Hann á að mínu mati heiður skilið fyrir gott verk sitt, sérstaklega á ellefu árum sínum sem ráðherra og leiðtogi Framsóknarflokksins í ríkisstjórn hans með Sjálfstæðisflokknum. Ég er mjög afgerandi þeirrar skoðunar að náið samstarf Davíðs Oddssonar og Halldórs í áratug hafi verið þjóðinni farsælt og Halldór átti ekki minni þátt í farsæld þess samstarfs en Davíð.

Ég hef ekki farið leynt með það að ég tel það gleðiefni fyrir okkur Íslendinga að reyndur stjórnmálaleiðtogi okkar skuli taka við þessari miklu stöðu í Kaupmannahöfn, fyrstur Íslendinga. Óska ég Halldóri allra heilla á nýjum vettvangi í Kaupmannahöfn.

Ríkið hættir greiðslum til Byrgisins

Byrgið Ríkið hefur ákveðið að hætta öllum greiðslum til meðferðarheimilisins Byrgisins, skv. tillögu Ríkisendurskoðunar. Þessi ákvörðun vekur athygli í ljósi þess að rannsókn Ríkisendurskoðunar á starfsemi Byrgisins er ekki enn lokið. Það er greinilegt skv. þessu það mat Ríkisendurskoðunar að staða mála í Byrginu sé ekki með þeim hætti sem eðlilegt teljist í það minnsta.

Það hefur verið deilt mikið á starfsemi Byrgisins undanfarnar vikur eftir umfjöllun fréttaskýringaþáttar Stöðvar 2, Kompáss. Þar kom fram að Guðmundur Jónsson, forstöðumaður Byrgisins, hefði átt í kynferðislegu sambandi við kvenkyns skjólstæðinga Byrgisins og fjárhagsleg staða Byrgisins væri mjög ótrygg og í raun eftirliti þar ábótavant og ekki vitað í hvað ríkisstyrkir þangað færu. Var orð á móti orði á milli Guðmundar og fréttastofu Stöðvar 2.

Skömmu fyrir jól birti fréttastofa Stöðvar 2 viðtal við 24 ára gamla konu sem staðfesti frásögn Stöðar 2 og sagðist hafa átt í tveggja ára löngu ástarsambandi við Guðmund, meðan að hún var skjólstæðingur hans í Byrginu. Sakaði hún hann ennfremur um fjármálamisferli og kærði hann. Allt að nokkurra ára fangelsi er skv. lögum viðurlög fyrir því að ábyrgðarmaður meðferðarheimilis misnoti traus í sinn garð með þeim hætti.

Frá 2003 hefur Byrgið fengið um 200 milljónir króna úr ríkissjóði, eða allt að 32 milljónir á ári. Við öllum blasir að með öllu óviðunandi er að sætta sig við að ríkið greiði til þessarar starfsemi meðan að orðrómur af þessu tagi stendur yfir og því skiljanleg þessi niðurstaða Ríkisendurskoðunar.


Ættingjar Saddams fá ekki jarðneskar leifar hans

Saddam Hussein Þetta hefur verið dagur hinna stóru tíðinda í alþjóðastjórnmálum, sennilega tíðindamesti dagur ársins. Saddam Hussein hefur verið hengdur í Bagdad og þáttaskil orðið við Persaflóa. Nú hefur verið tilkynnt af hálfu íröksku ríkisstjórnarinnar að ættingjar hins látna einræðisherra muni ekki fá lík hans afhent. Saddam verður væntanlega grafinn með leynd á næstu klukkutímum í ómerkri gröf. Þetta er væntanlega gert til að stuðningsmenn hans geti ekki byggt honum minnisvarða.

Ófriðsamlegt hefur verið í Írak á þessum táknræna degi og Baath-flokkur Saddams, sem var einráður um áratugaskeið og einum stjórnmálaflokka leyft að starfa í valdatíð Saddams, hótar hefndarárásum á bandaríska hernámsliðið í hefndarskyni við aftökuna. Fjórar bílasprengjur hafa sprungið í Bagdad og bænum Kufa, í grennd við borgina helgu, Nadjaf. Fjöldi manna hefur þar látist.

Það kemur varla að óvörum að Líbýa sé eina ríkið sem hafi sýnt Saddam virðingu með að aflýsa Eid-trúarhátíðarhöldunum. Íröksk stjórnvöld lögðu einmitt áherslu á að Saddam yrði tekinn af lífi fyrir þau.

Þetta ár hefur verið sviptingasamt í alþjóðastjórnmálum. Ég hef í dag verið að rita annál til birtingar á vef SUS og það er af mörgu að taka. Enginn vafi leikur á að dauði Saddams er frétt ársins.

Dauði Saddams - þáttaskil við Persaflóa

Saddam Saddam Hussein var hengdur í nótt. Það er svona varla að maður trúi því enn að hann sé dauður og þessu skeiði í sögu Íraks sé virkilega lokið. Ég sannfærðist ekki endanlega um þau endalok fyrr en ég sá myndirnar frá aftökunni og af líki Saddams. Táknrænar og afgerandi myndir. Ótrúleg endalok fyrir mann af kalíberi Saddams.

Nokkrar myndir með frásögn gerir hana alltaf raunverulegri, eða svo sagði hinn goðsagnakenndi fréttahaukur Ben Bradlee á Washington Post. Þessar myndir virðast sýna hræddan og bugaðan mann á örlagastundu. Menn mega ekki gleyma að Saddam var yfirmaður hers og taldi sig alla tíð mann átaka. Það er til marks um það að hann afþakkaði svarta hettu um höfuð sér.

Það er alveg ljóst að algjör þáttaskil verða nú við dauða Saddams. Enn er maður að venjast þeirri tilhugsun að hann hafi verið líflátinn fyrir áramót. Beðið er viðbragða almennings í Írak við fregnunum og myndunum, sem eru miklu áhrifaríkari en fréttin sem slík. Það er enda eins og fyrr segir varla fyrr en maður sér myndirnar sem maður sannfærist endanlega um að þessum kafla er í raun lokið. Fróðlegast verður nú að sjá hvað verður gert við lík Saddams. Það eru deildar meiningar um það, sem varla kemur á óvart.

Það er enginn vafi á því að dauði Saddams og aftakan á þessum næstsíðasta degi ársins er frétt ársins 2006. Mikil tíðindi og örlagarík, svo ekki sé fastar að orði kveðið.

mbl.is Saddam neitaði að láta draga hettu yfir höfuð sé fyrir aftökuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Saddam Hussein tekinn af lífi

Saddam Hussein Saddam Hussein, fyrrum forseti Íraks, var tekinn af lífi laust fyrir klukkan þrjú í nótt að íslenskum tíma. Hann var hengdur á ótilgreindum stað laust fyrir dögun að staðartíma. Dauði Saddams Husseins boðar þáttaskil í stjórnmálum í Mið-Austurlöndum en hann hefur verið lykilpersóna í stjórnmálum við Persaflóa í áratugi.

Saddam Hussein var 69 ára að aldri. Hann fæddist 28. apríl 1937. Saddam Hussein var forseti Íraks á árunum 1979-2003 en var steypt af stóli í Íraksstríðinu í mars og apríl 2003. Hann var handsamaður af Bandaríkjamönnum þann 13. desember 2003 og var í varðhaldi allt til hinstu stundar.

Saddam var dæmdur til dauða þann 5. nóvember sl. en áfrýjaði dómnum. Áfrýjun hans var hnekkt á öðrum degi jóla.

Búast má við að þessi þáttaskil sem verða nú með dauða Saddams boði þáttaskil í átökum í Írak, en landið hefur logað í átökum þar nær allt frá falli stjórnar Saddams.

Síðustu klukkustundir Saddams

Saddam Hussein Opinber staðfesting liggur nú fyrir frá Bagdad um að Saddam Hussein, fyrrum forseti Íraks, verði tekinn af lífi í nótt. Aftaka Saddams fer fram um þrjúleytið að íslenskum tíma í nótt, eða innan þriggja tíma. Það er því ekki hægt að segja annað en að klukkustundirnar nú séu örlagaríkar í lífi Saddams. Það er því komið að leiðarlokum á litríku æviskeiði þessa 69 ára gamla fyrrum einræðisherra Íraks.

Ég held að það hafi fyrst verið á árinu 1990 sem ég man virkilega eftir að hafa heyrt af Saddam Hussein. Einhvernveginn var ég ekki sá mikli stjórnmálaáhugamaður fyrir þann tíma að muna vel eftir átökum Íraks og Írans á árunum 1980-1988 að einhverju ráði. En ég man vel eftir deginum þegar að Írakar réðust inn í Kuwait og þeim miklu átökum sem eftir því fylgdi. Bandamenn og SÞ settu Írökum þá kosti að fara þaðan fyrir vissan tíma í janúar 1991. Svo fór ekki.

Persaflóastríðið varð væntanlega fyrsta sjónvarpsstríðið, ef má orða það því nafni. Það stríð var háð í beinni útsendingu vestrænna sjónvarpsstöðva og varð ljóslifandi í hugum þeirra sem horfðu á fréttir á þessum tíma af meiri þunga en fyrri stríð þó vissulega hafi þó verið áberandi í fréttaumfjöllun. Svipmyndir af því stríði eru mér enn mjög eftirminnilegar. Það voru átakatímar og örlagaríkar svipmyndir janúar- og febrúarmánaðar 1991 frá Persaflóa mörkuðu stór skref í sjónvarpssögu seinni hluta 20. aldarinnar í fréttamennsku. Lifandi stríð í lifandi framsetningu með áberandi hætti. CNN varð miðpunktur þeirrar umfjöllunar.

Saddam sat áfram við völd eftir Persaflóastríðið. Sumir töldu að Bandamenn myndu fara alla leið að markmiði sínu. Svo fór ekki. Mörgum var það vonbrigði. 12 árum síðar lét ríkisstjórn George W. Bush, sonur Bandaríkjaforsetans á dögum Persaflóastríðsins táknræna, til skarar skríða á öðrum forsendum. Að þessu sinni varð markmiðið skýrt og skotmarkið ennfremur. Stjórn Saddams og Baath-flokksins féll á innan við hálfum mánuði. Saddam og lykilráðgjafar hans komust undan. Einn af öðrum náðust þeir fyrir árslok 2003. Í desember 2003 var Saddam sjálfur dreginn upp úr holu við sveitabæ, fúlskeggjaður og eymdarlegur.

Þrem árum síðar, eftir söguleg réttarhöld og sviptingarsöm ummæli í réttarsal, er komið að leiðarlokunum. Það eru örlagaríkir dagar framundan við Persaflóa. Það blasir við öllum. Dauði Saddams Husseins í gálga í Írak á þessum næstsíðasta degi ársins markar þáttaskil.

mbl.is Segir Saddam verða tekinn af lífi í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ford fellir áfellisdóm yfir Bush og Íraksstríðinu

Gerald FordFlogið verður með lík Gerald Ford, 38. forseta Bandaríkjanna frá Kaliforníu til Washington með Air Force One á morgun. Á sunnudag og mánudag mun líkkista hans hvíla á virðingarbörum í Capitol Rotunda, hvelfingu þinghússins í Washington, og viðhafnarútför hans fer fram í dómkirkjunni í borginni á þriðjudag. Í skugga þessarar hinstu kveðju í garð Fords og stjórnmálaferils hans sem fram fer hina næstu daga er hulunni svipt af stórmerkilegu viðtali Bob Woodward við Ford forseta frá árinu 2004 sem aldrei hefur verið birt opinberlega áður.

Í þessu viðtali sem birt var í Washington Post fellir Ford algjöran áfellisdóm yfir George W. Bush, forseta Bandaríkjanna, og verklaginu við upphaf Íraksstríðsins. Ford er mjög beinskeyttur í gagnrýni sinni og skiljanlegt miðað við innihald orða þessa reynda þingspekings og stjórnmálamanns, sem varð forseti Bandaríkjanna án þess að sækjast aldrei fyrirfram eftir embættinu, að hann hafi viljað að viðtalið yrði fyrst birt að honum látnum. Það er enda svo afgerandi gagnrýni að hann hefði aldrei farið úr eftirlaunakyrrðinni til að tjá þær í viðtali eða farið í eld umræðunnar.

Bob Woodward hefur ritað margar bækur um stjórnmál og hefur í áratugi verið einn af helstu stjórnmálaskýrendum Washington Post. Woodward afhjúpaði ásamt Carl Bernstein eitt umfangsmesta pólitíska hneykslismál 20. aldarinnar, sjálft Watergate-málið, sem leiddi að lokum til afsagnar Richards Nixons af forsetastóli í Bandaríkjunum og þess að Gerald Ford varð forseti Bandaríkjanna. Þetta viðtal eru vissulega stórtíðindi og það er afhjúpað á þeim tímamótum að Ford hefur kvatt þetta líf og heldur hinsta sinni til Washington. George W. Bush mun flytja ræðu við útför Fords.

Athygli vakti að Bush ákvað að flýta ekki för sinni úr jólaleyfi í Crawford í Texas til að vera viðstaddur er komið verður með líkkistu Fords í þinghúsið á morgun þar sem athöfn á að fara fram. Þess í stað mun hann ekki halda til Washington fyrr en á nýársdag skömmu áður en þinghúsinu verður lokað, en landsmönnum gefst kostur að fara að kistu Fords í þinghúsinu til að votta honum virðingu sína. Eftir að þetta viðtal var afhjúpað ákvað Bush að vera um kyrrt í Texas framyfir helgina.


Saddam Hussein líflátinn í dögun

Saddam Hussein Saddam Hussein, fyrrum forseti Íraks, verður líflátinn í dögun. Hann hefur nú verið færður í varðhald íröksku ríkisstjórnarinnar frá bandarískum yfirvöldum, þar sem hann hefur verið í haldi í þrjú ár, og bíður þar aftöku sinnar. Saddam Hussein, sem ríkti í Írak á árunum 1979-2003, var dæmdur til dauða þann 5. nóvember sl. en áfrýjaði dómnum. Á öðrum degi jóla var áfrýjuninni vísað frá og dauðadómurinn endanlega staðfestur og ljóst að hann yrði tekinn af lífi innan 30 daga.

Síðasti sólarhringurinn á litríkri ævi einræðisherrans Saddams Husseins er því runninn upp. Það væri efni í langan pistil að fara yfir ævi þessa forna leiðtoga Baath-flokksins. Ekki er allt fagurt í þeirri valdasögu, eins og flestir vita. Ef marka má síðustu skilaboð hans til umheimsins í jarðneskri tilveru mun Saddam líta nú á sig sem píslarvott fyrir stuðningsmenn sína nú við endalok ævi sinnar. Væntanlega mun dauði hans leiða til gríðarlegra átaka og sviptinga af harðari tagi en við höfum séð í Írak frá falli stjórnar Saddams.

Saddam Hussein var dýrkaður sem Guð væri í hugum stuðningsmanna hans í einræðissamfélagi hans í áratugi. Það verður fróðlegt að sjá hvaða stall hann fær eftir morgundaginn, eftir að hann hefur sagt skilið við þennan heim.

mbl.is Gengið frá öllum pappírum vegna aftöku Saddams
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skelfilegur bikar fyrir íþróttamann ársins

Guðjón Valur Í gær var nýr bikar afhentur við val á íþróttamanni ársins. Gamli góði bikarinn sem afhentur var í hálfa öld er nú varðveittur á Þjóðminjasafninu. Einhvernveginn hafði farið framhjá mér útlit nýja bikarins og ég var því í fyrsta skiptið að sjá hann í gær. Ég eiginlega gapti af undrun þegar að ég sá hann og vorkenndi eiginlega Guðjóni Val er hann var með þetta skelfilega ferlíki í höndunum eftir að valið á honum hafði verið formlega tilkynnt.

Nýji bikarinn er svo skelfilegur að maður á varla nógu góð orð til að lýsa honum. Hann er samansettur úr efnum sem engan veginn eiga samleið og heildarmyndin verður stór og klunnalegur bikar sem virðist því miður ekki vera líklegur til að haldast önnur 50 ár milli þeirra sem fá titilinn. Í samanburði við hinn gamla góða bikar er þetta eiginlega ótrúlegt kúltúrsjokk, svo maður finni eitthvað almennilegt orð. Semsagt, orð dagsins til samtaka íþróttafréttamanna er: skiptið um bikar.

Eruð þið annars ekki sammála mér?

Saddam afhentur Írökum - aftaka um helgina

Saddam Hussein Saddam Hussein, fyrrum forseti Íraks, verður líflátinn fyrir dagslok á morgun, skv. fréttum vestrænu fréttastöðvanna í dag. Hann verður afhentur Írökum formlega fyrir lok dagsins og aftaka fer fram fljótlega eftir það. Lögmönnum Saddams hefur verið gert að sækja jarðneskar eigur Saddams í fangelsið sem hann hefur dvalið í síðustu árin, eftir að hann var handtekinn fyrir rúmum þremur árum, í desember 2003.

Búast má við miklum óeirðum og vargöld í Írak í kjölfar dauða Saddams Husseins nú um helgina. Greinilegt er að ekki átti að upplýsa meginþætti aftökunnar fyrirfram en leki af fyrirætlunum hefur breytt stöðu mála. Greinilegt er að írakska ríkisstjórnin leggur mikla áherslu á að Saddam verði tekinn af lífi fyrir trúarhátíðina Eid, sem hefst á sunnudag. Bandarísku fréttastöðvarnar, fyrst þeirra varð CBS, fullyrti í gær megindagsetningar og ákvarðanir um aftökuna og virðast að þær heimildir muni standast að fullu.

Flestir vilja eflaust vita hvernig að Írak verði handan Saddams Husseins. Við komumst eflaust brátt að því hvernig sú staða verði með raun og sann.

mbl.is al-Maliki: Ekkert hindrar aftöku Saddams Hussein
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður Árni Johnsen á lista í Suðurkjördæmi?

Árni Johnsen Pólitísk endurkoma Árna Johnsen í Suðurkjördæmi hefur verið mjög umdeild. Brátt styttist í að kjördæmisráð Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi ákveði endanlega framboðslista af hálfu flokksins í kjördæminu í kosningunum þann 12. maí nk. Það hefur blasað við öllum að mikil andstaða hefur verið innan Sjálfstæðisflokksins við að Árni taki sæti ofarlega á lista eftir það sem gerst hefur síðustu árin og sérstaklega síðustu vikurnar vegna orðalags Árna um afbrot sín fyrir nokkrum árum.

Flokksfélög hafa ályktað gegn því að Árni verði ofarlega á lista og fjöldi flokksmanna hefur tjáð sig gegn framboði Árna á bloggsíðum og á öðrum vettvangi. Margir í Suðurkjördæmi hafa stutt Árna og þeir veittu honum annað tækifæri í þessu prófkjöri. Er á hólminn kemur ráðast örlög þessara mála á kjördæmisþingi, en þar kemur vilji flokksmanna í æðstu trúnaðarstöðum og ábyrgðarverkefnum fram með afgerandi hætti. Það verður þeirra að taka afstöðu til þess hvort Árni fari fram í þeirra nafni.

Eins og ég hef áður bent á er Árni Johnsen að fara fram í nafni Sjálfstæðisflokksins fari hann að nýju í sæti á framboðslista sem gefur öruggt þingsæti. Áhrif þessa munu sjást stað víðar en bara í Suðurkjördæmi. Þetta vita flokksmenn um allt land mjög vel og margir óttast áhrif þessa framboðs. Nýjasta skoðanakönnun Gallups var sláandi að mörgu leyti og sýndi þónokkurt fall milli mánaða. Beðið er nú næstu skoðanakönnunar Gallups sem birtist á sunnudaginn, gamlársdag, síðasta dag ársins. Mun þar verða fyrst og fremst litið á stöðu stjórnarflokkanna og Frjálslynda flokksins væntanlega, þó að allir stjórnmálaáhugamenn bíði spenntir eftir könnuninni.

Framboðslisti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi fer fyrir miðstjórn Sjálfstæðisflokksins að lokum eins og allir aðrir slíkir fyrir þessar þingkosningar. Verði Árni Johnsen staðfestur í annað sætið á kjördæmisþingi verður fróðlegt að sjá hvað gerist í miðstjórn flokksins í þessu máli. Niðurstöðu er að vænta með þennan lista eins og fyrr segir í janúar. Vilji flokksmanna í Suðurkjördæmi skiptir vissulega máli í þessu efni, en þar ákveður innsti kjarni flokksins endanlega skipan síns lista. Athygli vakti í síðustu könnun að flokkurinn seig niður á við í öllum kjördæmum nema Suðrinu. Víða var fallið um tíu prósentustig, einkum á höfuðborgarsvæðinu en einnig í Norðausturkjördæmi.

Ég hef oft sagt mínar skoðanir á því hvað sé best fyrir Sjálfstæðisflokkinn í þessu svokallaða Árnamáli þó búast megi við að það verði flokknum erfitt sama hvernig því lýkur er á hólminn kemur.

Óvænt val á íþróttamanni ársins

Guðjón Valur Það er ekki hægt að segja annað en að valið á Guðjóni Val sem íþróttamanni ársins 2006 hafi komið nokkuð á óvart. Flestir höfðu talið Eið Smára með þetta nokkuð öruggt. Eiður Smári vann titilinn síðustu tvö ár og vakti t.d. athygli þegar að hann vann fyrir tveim árum er flestir töldu Kristínu Rós með sigurinn tryggan eftir glæsileg afrek á ólympíuleikum fatlaðra.

Fagna því mjög að Guðjón Valur vinni titilinn. Hann á þennan titil svo sannarlega skilið. Ég veit sem er að Guðjón Valur er vandaður og góður íþróttamaður og persóna sem gerir ávallt sitt besta og hefur átt glæsilegan feril.

Ég kynntist honum þegar að hann bjó hér á Akureyri, er hann keppti hér með KA, en þar átti hann glæsileg ár á sínum ferli. Sendi honum innilegar hamingjuóskir.

mbl.is Guðjón Valur íþróttamaður ársins 2006
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður Saddam hengdur fyrir áramót?

Saddam HusseinFlest bendir til að Saddam Hussein, fyrrum forseti Íraks, verði líflátinn fyrir áramót, ef marka má heimildir úr innsta hring íröksku ríkisstjórnarinnar. Saddam var dæmdur til dauða þann 5. nóvember sl. en áfrýjaði dómnum. Áfrýjun Saddams var vísað frá á öðrum degi jóla og þá ljóst að Saddam yrði líflátinn innan 30 daga.

Nú stefnir því í að dómnum verði framfylgt mjög fljótlega og það verði ekki gefið upp hvenær Saddam verð líflátinn. Saddam Hussein var forseti Íraks í 24 ár, á árunum 1979-2003. Skv. heimildum CBS á að kvikmynda síðustu andartökin í lífi Saddams, allt ferlið frá undirritun dómsskjala til hengingarinnar. Þar kom líka fram að dagsetning aftöku yrði ekki opinberuð.

Það verður svo sannarlega fróðlegt að sjá stöðuna í Írak í kjölfar andláts Saddams.


Verður gula slúðurblaðamennskan endurvakin?

DVÍ lok ársins sem slúðurblaðamennskan á DV beið algjört skipbrot og var hafnað af íslensku þjóðinni með eftirminnilegum hætti virðist ljóst að byggja á ofan á rústir þess dagblaðs sem heitir DV, en kemur nú út aðeins í mýflugumynd þess sem áður var. Talað hefur verið um vikum saman að Sigurjón M. Egilsson og fleiri nátengdir honum myndu byggja aftur upp DV með einum eða öðrum hætti. Það er nú staðreynd, skömmu eftir að Sigurjón gekk út frá Blaðinu. Ekki er vitað um hvert formið er eða hvað gerist. Sigurjón verður ritstjóri DV og eignaformið með öðrum hætti. Fleiri breytingar verða á blaðabatteríi 365 miðla.

Í janúar hné sól DV til viðar í þeirri mynd sem hún hefur lengst af verið þekkt. Þá neyddust báðir ritstjórar DV, Jónas Kristjánsson og Mikael Torfason, til að segja af sér. Með því lauk miklum umhleypingatímum í samfélaginu - byltingu fólksins gegn DV og vinnubrögðum blaðsins seinustu árin. Óhætt er að segja að samfélagið hafi skekist vegna "fréttamennsku" DV viku eina í janúar. Hafði blaðið reyndar virkað sem ein tímasprengja allt frá því að gerðar voru breytingar á blaðinu og ritstjórnarstefnu þess um leið og nýir eigendur tóku við eftir gjaldþrot gamla DV árið 2003. Slúðurblaðamennskan með breskri fyrirmynd fékk svo hægt andlát í apríl, er DV var slegið af virka daga, en umskiptin urðu ekki þá að mínu mati, enda voru atburðir í janúar þáttaskilin.

Í kjölfar sorglegrar umfjöllunar DV í janúar var ákveðið að efna til undirskriftasöfnunar gegn ritstjórnarstefnu DV. Var hún samstarfsverkefni Deiglunnar, Sambands ungra sjálfstæðismanna, ungra jafnaðarmanna, stúdentaráðs HÍ, Sambands ungra framsóknarmanna, Tíkarinnar, Múrsins, ungra frjálslyndra, ungra vinstrigrænna, Heimdallar, Vöku, Röskvu og H-listans. Söfnun undirskrifta stóð í nákvæmlega tvo sólarhringa. Alls skráðu 32.044 einstaklingar nafn sitt við áskorun þessara aðila um endurskoðun ritstjórnarstefnunnar. Þar kom fram mjög breið samstaða landsmanna. Sú samstaða var afgerandi. Samfélagið logaði og blaðið féll í hitanum sem þeim tímum fylgdu. Þessir tímar gleymast ekki.

Hvað á að gerast nú? Verður slúðurblaðamennskan nú endurvakin. Getur Sigurjón M. Egilsson strax orðið ritstjóri á öðrum vettvangi eftir að hafa sagt skilið við Blaðið? Allir vita hvernig farið hefur fyrir sjónvarpsfólki sem skiptir um skútu. Það er allt að því falið mánuðum saman meðan að samningsmörk líða undir lok. Hvað gerist í tilfelli Sigurjóns? Hvernig blað á DV að verða nú? Á að fylgja eftir slóð gamla DV? Athyglisvert er annars að það eigi að heita DV eftir allt sem áður hefur gengið á.

Eru rústir gamals slúðurblaðs að vakna við? Stórt er spurt svosem. Fróðlegt verður að sjá framvindu mála.


mbl.is Útgáfufélag í eigu Baugs og 365 tekur við útgáfu DV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helgi frændi Seljan farinn að blogga

Ég sé að Helgi frændi minn Seljan er farinn að blogga hérna á Moggablogginu. Fagna því. Hann er góður penni og með skemmtilegar skoðanir, svo að það er líflegt og gott að fá hann hingað. Það hefur reyndar sífellt fjölgað hérna í samfélaginu okkar síðustu vikurnar og bætist sífellt við hérna. Hef verið hérna í þrjá mánuði, sem hafa verið líflegir mánuðir svo sannarlega. Gott mál, vonandi bætist Stefán Pálsson í hópinn fyrr en síðar. :)

Davíð andvígur aðild að Öryggisráðinu

Davíð Oddsson Það er athyglisvert að lesa um það að Davíð Oddsson, seðlabankastjóri og fyrrum utanríkis- og forsætisráðherra, sé andvígur því að Ísland sækist eftir sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Í ljósi þess að Davíð var utanríkisráðherra á seinni stigum ferlisins fyrir nokkrum árum og þar áður forsætisráðherra í ríkisstjórn þar sem Halldór Ásgrímsson vann að málinu leynt og ljóst sem utanríkisráðherra til fjölda ára eru þetta óneitanlega athyglisverð ummæli.

Davíð hefði getað stöðvað málið sem utanríkisráðherra hefði hann viljað. Það var ekki gert, eins og allir vita. Ummælin koma núna rúmu ári eftir að Davíð lét af embætti utanríkisráðherra og hætti í stjórnmálum. Eitt af síðustu embættisverkum Davíðs í utanríkisráðuneytinu var að tala fyrir umsókninni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í september 2005, nokkrum dögum áður en hann vék úr ríkisstjórn. Davíð hafði reyndar undir lok ráðherraferilsins tjáð efasemdir sínar. Nú talar hann hreint gegn málinu. Betra er seint en aldrei vissulega.

Fyrir okkur sem höfum verið andvíg málinu innan Sjálfstæðisflokksins er gleðiefni að heyra af þessari skoðun Davíðs Oddssonar, þó leitt sé að ekki hafi verið gert neitt í þessa átt. SUS hefur verið andvígt þessu máli og sú andstaða náð víðar inn, t.d. var Einar Oddur Kristjánsson harður andstæðingur málsins í seinni tíð og mælti gegn málinu af krafti eftir að Davíð varð utanrikisráðherra í september 2004. Hik Davíðs í málefnum Öryggisráðsins voru orðin sýnileg þó áður en hann hætti. Tók hann mun vægar til orða hvað varðaði málið í ræðu fyrir allsherjarþingi SÞ í september 2005 en Halldór. Í raun var það Halldór sem lýsti þá endanlega yfir framboðinu og tók af skarið en ekki Davíð.

Ég fagna ummælum Davíðs, þó þau komi einum of seint. En svona er þetta bara. Ég hef verið einn þeirra sem hef verið mjög andvígur aðild að Öryggisráðinu þessi tvö ár sem um ræðir. Ég tel að þegar að frá líður verði það mál allt metið eitt klúður, enda hefur aldrei verið skilgreint með almennilegum hætti hvers vegna við sækjumst eftir sætinu og hvaða hag við hefðum af því.

Ennfremur finnst mér óneitanlega merkilegt að heyra skoðanir Davíðs á þróunaraðstoð, en Valgerður Sverrisdóttir, einn eftirmanna hans á utanríkisráðherrastóli, hefur markað það sem eitt aðalmála síns ráðherraferils.

mbl.is Davíð Oddsson: Óskynsamlegt að auka þróunaraðstoð Íslendinga of hratt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband