Verður Árni Johnsen á lista í Suðurkjördæmi?

Árni Johnsen Pólitísk endurkoma Árna Johnsen í Suðurkjördæmi hefur verið mjög umdeild. Brátt styttist í að kjördæmisráð Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi ákveði endanlega framboðslista af hálfu flokksins í kjördæminu í kosningunum þann 12. maí nk. Það hefur blasað við öllum að mikil andstaða hefur verið innan Sjálfstæðisflokksins við að Árni taki sæti ofarlega á lista eftir það sem gerst hefur síðustu árin og sérstaklega síðustu vikurnar vegna orðalags Árna um afbrot sín fyrir nokkrum árum.

Flokksfélög hafa ályktað gegn því að Árni verði ofarlega á lista og fjöldi flokksmanna hefur tjáð sig gegn framboði Árna á bloggsíðum og á öðrum vettvangi. Margir í Suðurkjördæmi hafa stutt Árna og þeir veittu honum annað tækifæri í þessu prófkjöri. Er á hólminn kemur ráðast örlög þessara mála á kjördæmisþingi, en þar kemur vilji flokksmanna í æðstu trúnaðarstöðum og ábyrgðarverkefnum fram með afgerandi hætti. Það verður þeirra að taka afstöðu til þess hvort Árni fari fram í þeirra nafni.

Eins og ég hef áður bent á er Árni Johnsen að fara fram í nafni Sjálfstæðisflokksins fari hann að nýju í sæti á framboðslista sem gefur öruggt þingsæti. Áhrif þessa munu sjást stað víðar en bara í Suðurkjördæmi. Þetta vita flokksmenn um allt land mjög vel og margir óttast áhrif þessa framboðs. Nýjasta skoðanakönnun Gallups var sláandi að mörgu leyti og sýndi þónokkurt fall milli mánaða. Beðið er nú næstu skoðanakönnunar Gallups sem birtist á sunnudaginn, gamlársdag, síðasta dag ársins. Mun þar verða fyrst og fremst litið á stöðu stjórnarflokkanna og Frjálslynda flokksins væntanlega, þó að allir stjórnmálaáhugamenn bíði spenntir eftir könnuninni.

Framboðslisti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi fer fyrir miðstjórn Sjálfstæðisflokksins að lokum eins og allir aðrir slíkir fyrir þessar þingkosningar. Verði Árni Johnsen staðfestur í annað sætið á kjördæmisþingi verður fróðlegt að sjá hvað gerist í miðstjórn flokksins í þessu máli. Niðurstöðu er að vænta með þennan lista eins og fyrr segir í janúar. Vilji flokksmanna í Suðurkjördæmi skiptir vissulega máli í þessu efni, en þar ákveður innsti kjarni flokksins endanlega skipan síns lista. Athygli vakti í síðustu könnun að flokkurinn seig niður á við í öllum kjördæmum nema Suðrinu. Víða var fallið um tíu prósentustig, einkum á höfuðborgarsvæðinu en einnig í Norðausturkjördæmi.

Ég hef oft sagt mínar skoðanir á því hvað sé best fyrir Sjálfstæðisflokkinn í þessu svokallaða Árnamáli þó búast megi við að það verði flokknum erfitt sama hvernig því lýkur er á hólminn kemur.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur fannberg

mín skoðun er að hann eigi ekki að vera í framboði

Ólafur fannberg, 29.12.2006 kl. 08:17

2 identicon

Við höfum báðir tjáð okkur um hann Árna á blogginu hérna svo það þarf ekki að ræða hlutina. Að mínu mati á hann ekkert erindi inn á lista. En hann ver valinn í prófkjöri af okkar flokksfélugum í suðurkjördæmi og þannig virkar nú lýðræði. Mjög erfið staða sem verður gaman að fylgjast með hvernig hún leysist.

Hallgrimur Viðar Arnarson (IP-tala skráð) 29.12.2006 kl. 08:49

3 Smámynd: Sigurjón  Benediktsson

Þessi umræða um frambjóðanda sem vann sér inn sæti á lista í "heilögu" prófkjöri er einhæf. Ég veit ekki betur en framkvæmd prófkjörsins hafi verið í fullu samræmi við steinaldarlegar reglur flokksins og framkvæmdin "til fyirirmyndar" að sögn framkvæmdaaðila. Hvað vilja menn meira? Eru þessi prófkjör ekki eins góð og flokkurinn hefur prédikað, eða hvað? Verður skoðanakönnun í miðstjórn? Hverjir eru í miðstjórn? Berjast þar fylkingar um þetta mál? Gæfulegt!

Sigurjón Benediktsson, 29.12.2006 kl. 09:49

4 Smámynd: Agný

Ég er í hóp þeirra sem finnst að Árni hefði átt að sleppa þessu stjórnmálabrölti...allra vegna...

Agný, 29.12.2006 kl. 10:50

5 identicon

Drengir mínir.

  Árni fékk kosningu í 2 sæti listans.  Prófkjörið var löglegt.  Þúsundir tóku þátt og þúsundir kusu Árna.  Ef lítill hópur manna (miðstjórn eða kjördæmisráð) ætlar að velta honum af lista er verið að segja að kjósendur hafi ekki vit á að velja menn og þá erum við að færa okkur til stjórnkerfis sem er ekki það lýðræði sem við höfum valið að aðhyllast.  Ef lítill hópur manna (það er oft kallað klíka) getur breytt lýðræðislegu kjöri, þá er það Sovét aðferð sem lögð var niður 1989, en þekkist líklega enn í Kína.  Hvort sem ykkur líkar betur eða verr hljóta menn að hafa leyfi til að velja hvern þann sem það sjálft kýs sem sinn fulltrúa á Alþingi.  Að hafa vit fyrir okkur blessuðum alþýðulýðnum er gömul saga og ný.  Það eru alltaf einhverjir góðir drengir sem finna knýjandi þörf til að taka fyrir okkur ákvarðanir.  En svona er lýðræðið, elsku strákarnir mínir.  Ef við viljum Árna Johnsen fyrir okkar fulltrúa þá bara "so be it".  Og ekki reyna að breyta því !

Eyjapeyji (IP-tala skráð) 29.12.2006 kl. 12:05

6 identicon

Ég ætla að leyfa mér að vona að sú ákvörðun sem tekin verður nú í jan´07 verði sú rétta fyrir flokkinn, þ.e að Árni verði ekki hafður á listanum.
Ég vona að Árni einfaldlega dragi sig í hlé, það væri það besta fyrir flokkinn.

Óðinn Þórisson (IP-tala skráð) 29.12.2006 kl. 13:28

7 identicon

Mér finnst alveg ótrúlegt þegar menn rengja prófkjör bara af því að þeim er illa við einhvern sem þar fær góða kosningu. Þegar farið er í prófkjör þá liggja allar reglur fyrir, þær eru kristaltærar og því á að láta lögleg prófkjör gilda.

Það er ótrúlegt ef það á að taka framyfir fólk og hunsa skoðanir þeirra, fólk sem lagði á sig að mæta og leggja sitt atkvæði í púkk um það hvaða fólk það vilji að skipi lista fyrir sitt kjördæmi, listi yfir fólk sem það treystir best fyrir að vinna vel í sínum málum og gildir þá einu hvort menn ákveða að gefa öðrum annað tækifæri, menn sem brotið hafa af sér eða menn sem hafa bara verið farþegar á alþingi (nóg hefur nú verið af þeim).

Annað sem ég skil bara ekki í pistlum þínum, þ.e að þú virðist eiga erfitt með að hugsa rökrétt vegna angistar útí Árna J., þú lagðir það að jöfnu í pistli hérna fyrir þónokkru síðan að léleg útkoma sjálfstæðisflokksins væri eingöngu vegna góðrar kosningu Árna J. en "gleymdir" að geta þess að á sama tíma fór í gang gríðarleg umfjöllun um útlendinga þegar frjálslyndiflokkurinn tók harða afstöðu gegn útlendingum sem gerði það að verkum að í sömu könnun sópaðist fylgi til Frjálslyndra og þeir fengu jafnframt sína bestu útkomu og mesta umtal sem þeir hafa fengið frá stofnun flokksins og skv. könnunum sem birtust m.a í fréttablaðinu að þá var lang stærsti hluti þjóðarinnar sammála þeim, getur ekki verið að það hafi skýrt að "einhverju" leiti flótta frá X-D yfir í X-F?

Annars held ég að núna þegar búið er að lægja bæði tæknilegu mistök öldurnar og útlendingaöldurnar þá muni þetta leita aftur í það jafnvægi sem það var í fyrir, þ.e frjálslyndir missa fylgið sitt og sjálfstæðisflokkurinn fær það að mestu til baka

Sunnlendingur (IP-tala skráð) 29.12.2006 kl. 14:00

8 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Ég er ekki að segja neitt sem ekki hefur heyrst áður. Það er ekki beint svo að ég sé einn um það að vera efins um pólitíska endurkomu Árna. Það var nefnilega það sem vakti athygli að Sjálfstæðisflokkurinn seig um allt land nema í Suðurkjördæmi. Hér í Norðausturkjördæmi höfðum við t.d. misst um tíu prósentustig þrátt fyrir öflugt og vel sótt prófkjör og fylgistapið á höfuðborgarsvæðinu var gríðarlegt. En það er alveg rétt að menn bíða næstu könnunar og það ræðst þá hvernig staðan vissulega er. Fyrst og fremst tel ég mikilvægt að þetta mál verði leyst innan Sjálfstæðisflokksins. Hinsvegar tel ég borna von að samstaða geti myndast um framboð Árna innan flokksins.

Stefán Friðrik Stefánsson, 29.12.2006 kl. 14:12

9 Smámynd: GK

Eyjamenn hafa alltaf verið skrýtnari en restin af þjóðinni. Þeir komu Árna í 2. sætið sem er auðvitað algjör siðblinda. Sjálfstæðismenn eiga örugglega eftir að brenna sig á því, ætli þeir sér að hafa Árna á listanum. En auðvitað vann hann sætið sitt á lýðræðislegan hátt, eftir að hafa pantað sér uppreist æru á meðan forsetinn var erlendis. Æ, það eru svo margir skemmtilegir vinklar á þessu máli.

En eitt má Árni eiga. Eins og hann er lélegur á gítar þá er hann algjör vinnuhundur og kemur sínum málum áfram af krafti...

GK, 29.12.2006 kl. 21:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband