31.3.2009 | 20:34
Vinstrimenn setja neyðarhemilinn á
Frumvarpið í þinginu er neyðarhemill á alla lykilþætti. Við erum að stefna í haftatíma á fullum krafti. Allt í boði vinstrimanna. Þetta er ekki beysin framtíðarsýn, ofan í skattatalið og hugleiðingar um höftin. Kannski ættu menn að fara að rifja upp hvernig Ísland var á tímum haftanna.
![]() |
Brýnt og óumflýjanlegt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
31.3.2009 | 16:01
Ofurlaunin hennar Evu - ábyrgð Jóhönnu
Eftir mikla andstöðu Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, og Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, við ofurlaun og mörg orð gegn því verklagi er eilítið sérstakt að sjá þau færa Evu Joly slík ofurlaun í ráðgjafahlutverki sínu. En kannski þarf ekki að undrast. Jóhanna, sem hefur talað fyrir pólitískri ábyrgð og gegnsæi í pólitísku starfi, hefur verið dæmd fyrir að brjóta stjórnsýslulög og fara á svig við stjórnarskrána þegar norski aðgerðarlausi seðlabankastjórinn, sem er ekki að standa sig, var skipaður í embætti.
Mér finnst þeir oftast hlægilegir sem tala fyrir siðferði og breyttum vinnubrögðum en falla í forarpyttinn sjálfir þegar mest á reynir. Mér finnst verklagið við ráðningu Evu og einkum vörnin fyrir ofurlaunum hennar minna mig einna helst á pópúlisma sem einkennt hafa Össur Skarphéðinsson og suma Samfylkingarmenn sem hafa verið í liðsveit hans fyrr og nú. Jóhanna fellur kylliflöt í þessa sömu gryfju nú. Mun heiðarlegra væri að hún predikaði ofurlaunastefnu sína í verki en ekki bara orði. Annars verður hún auðvitað ómarktæk.
Ekki svo að skilja að ég sé á móti Evu Joly og því að fá hana til verka. Hef margoft stutt þá ákvörðun í skrifum hér. Vil allt upp á borðið og bind vonir við að niðurstaða málsins verði sú að öll minnstu smáatriði í bland við stóru punkta aðdraganda bankahrunsins verði gerð opinber, allt verði opinbert. En stjórnmálamenn þurfa að vera samkvæmir sjálfum sér, alveg sama hvað þeir heita, hvort það er heilög Jóhanna eða einhver annar.
Ég heyrði ekki betur en alþýðukonan Jóhanna messaði að tími ofurlauna væri liðinn á landsfundi Samfylkingarinnar. Gott og blessað. Sömu helgina kvittar hún hinsvegar upp á ofurlaun handa fransknorsku Evu. Ekki fara saman orð og gjörðir.
Vonandi hefur þjóðin vit á að hafna svona hentistefnu í kosningunum. Við þurfum að fá stjórnmálamenn til valda sem meina það sem þeir segja og segja það sem þeir meina.
![]() |
Dapurlegar fréttir af Samson |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
31.3.2009 | 13:57
Glæpsamlegir peningaflutningar til Tortola
Þeir tímar eiga að vera liðnir að þjóðin láti bjóða sér hálfkveðnar vísur og snúning í lygahringekjunni hjá þessum mönnum. Staðreyndir tala sínu máli nú þegar og í raun ljóst að þarna hefur óeðlilega verið staðið að málum og þjóðin verið höfð að fífli með ómerkilegum útúrsnúningum líkt og fyrrnefndu Silfursviðtali.
Stóra spurningin nú er hvort þessir menn muni hjálpa þjóðinni á þessum örlagatímum eða stinga af til Tortola með allan sinn auð endanlega. Velji þeir seinni kostinn verða þeir landflótta ræflar sem missa endanlega allan trúverðugleika hér heima. Þá verður Tortola þeirra föðurland.
![]() |
Samson greiddi fé til Tortola |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
31.3.2009 | 02:02
Stjarnan Emiliana
Emiliana Torrini hefur verið uppáhaldssöngkonan mín árum saman, eiginlega síðan ég heyrði hana fyrst syngja. Hún er einfaldlega algjörlega í sérflokki - frábær rödd og traustur persónuleiki. Hún er ekki að þykjast vera neitt nema hún sjálf. Hefur alltaf verið trú sínu og ekki breytt sér fyrir frægðina eða eitthvað stjörnulúkk, hefur einfaldlega komist áfram af eigin verðleikum og skapað sína ímynd, ekki ósvipað Björk.
Ég er ekki fjarri því að mér hafi fundist hún ná traustum stalli í sínum bransa á síðustu árum, ekki aðeins hérna heima heldur um víða veröld. Lagið hennar Jungle Drum þótti mér sérstaklega gott og það var ekki hægt annað en hrífast með. Algjörlega magnað lag. Hitti beint í mark.
Emiliana ávann sér sess í huga og hjarta þjóðarinnar með plötunum sínum um miðjan tíunda áratuginn. Þær eru urðu báðar feykivinsælar hér heima og stjarna var fædd. Af öllum frábæru lögunum sem hún söng þá finnst mér The Boy who giggled so sweet algjörlega í sérflokki. Yndislegt lag.
Gollum song úr kvikmyndinni Lord of the Rings: The Two Towers frá árinu 2003 er traust lagasmíð. Yndislegt lag, með dökkum og sorglegum undirtón en yndislega fallegt samt sem áður. Nær að fanga tóninn í myndinni, sálarflækjur og innri baráttu Gollums, sem er margklofinn og andlega bugaður.
Ekki má svo gleyma túlkun Emiliönu á Simon og Garfunkel-smellinum Sounds of Silence úr sýningunni frábæru Stone Free á árinu 1996. Ógleymanleg sýning fyrir alla þá sem hana sáu. Yndisleg og sætt.
![]() |
Emilíana fær góða dóma í NYT |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt s.d. kl. 02:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
31.3.2009 | 02:02
Margeir teflir traust - reisir við fallið veldi
Margeir hefur á undanförnum árum sannað seiglu sína og útsjónarsemi í viðskiptum og kemur nú fram sem maðurinn sem rífur Spron upp úr því feni sem vissir menn komu því með því að vera djarfir og spiluðu rangt. Margeir var þekktur fyrir að vera ekki djarfastur skákmanna en spila traust.
Nú þegar útrásarjólasveinarnir hafa spilað öllu sínu í strand, mennirnir sem þóttu svo djarfir og risu sem hálfguð í augum sumra, kemur Margeir fram á sviðið. Honum hefur tekist að spila sína skák til sigurs á meðan hinir djörfu enduðu úti í skurði.
![]() |
MP banki eignast SPRON |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.3.2009 | 17:26
Aumt væl úr horni frjálslyndra
Í miðri þessari varnarbaráttu fyrir tilvist Frjálslynda flokksins er örlítið sérstakt að hlusta á Guðjón Arnar Kristjánsson, akkeri og þungavigtarmann Frjálslynda flokksins alla tíð, koma með aumt væl úr horninu sem flokkurinn hefur alla tíð verið í. Hið auma væl snýst um að fólk fari þaðan með mútum yfir í Sjálfstæðisflokkinn. Þetta er í besta falli ótrúverðugt en mun frekar aumingjalegt blaður manns sem á engar aðrar skýringar.
Væntanlega vísar hann þar til Gunnars Örlygssonar og Jóns Magnússonar, þingmanna sem flúðu úr flokkaerjum í Frjálslynda flokknum yfir í annan flokk, sterkan flokk sem þeir töldu nær skoðunum sínum og vera betra vinnuumhverfi fyrir sig pólitískt. Þeir náðu hvorugur markmiðum sínum í prófkjörum en taka fullan þátt í flokksstarfinu, sátu báðir landsfund um helgina í Laugardalshöll.
Guðjón Arnar ætti að fara að líta í eigin barm og leita að skýringum í sukkuðu umhverfi þar að ástæðum þess að flokkurinn hans er að deyja.
![]() |
Ná fólki frá okkur með mútum eða öðru |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.3.2009 | 14:57
Örlagarík mistök óreyndrar framsóknarforystu
Framsóknarflokkurinn kom mjög sterkur af flokksþingi sínu í janúar. Með nýjum formanni hafði hann öll tækifæri til að ná oddastöðu í íslenskum stjórnmálum, halda henni eftir næstu þingkosningar og endurbyggja sig aftur sem sterkt afl, eftir afhroðið í þingkosningunum 2007, þar sem fimm þingsæti fóru fyrir borð og flokkurinn þurrkaðist út í Reykjavík og varð fyrir miklu áfalli í nær öllum kjördæmum nema rótgrónustu lykilsvæðum í sögu sinni.
Sigmundi Davíð hefur ekki tekist að halda um taumana eftir að minnihlutastjórnin tók við og er í mjög vondri stöðu. Hann tók þann kostinn að spila öllu undir, gaf kost á sér í Reykjavík í stað þess að fara í öruggt þingsæti í Suðurkjördæmi. Áhættan verður flokknum dýrkeypt gangi hún ekki upp. Fátt bendir til þess að sætið í Reykjavík sé öruggt. Fjarri því. Þar verður barist upp á allt og flokkurinn verður í krísu gangi það ekki upp.
Þessi stjórnarstuðningur tryggði að Framsókn fékk kosningarnar sínar. Hinsvegar misstu þeir taflið annars úr höndunum. Hafa lent úti í horni og oddastaðan virðist skammverm pólitísk sæla. Varnarbarátta bíður Framsóknar enn og aftur, rétt eins og 2007. Fátt bendir til þess nú að þeir nái vopnum sínum og eflist mikið frá því sem var síðast. Þeir eru ekki öfundsverðir af því að hafa klúðrað sínum málum svo svakalega.
![]() |
Þolinmæði framsóknarmanna þrotin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.3.2009 | 01:20
Kynslóðaskipti í Sjálfstæðisflokknum

Ég var að koma heim til Akureyrar eftir yndislega helgi í Reykjavík á fjölmennasta landsfundi í sögu Sjálfstæðisflokksins, öflugum og góðum landsfundi. Kynslóðaskipti urðu í forystu flokksins á þessum fundi. Nýjir tímar hefjast með því að valdaskeiði þeirrar kynslóðar sem náði undirtökum í Sjálfstæðisflokknum með formannskjöri Þorsteins Pálssonar sem eftirmanns Geirs Hallgrímssonar árið 1983 lýkur. Eftirmenn hans, Davíð Oddsson og Geir H. Haarde, hafa verið ólíkir forystumenn að mörgu leyti en allir eru þeir sömu kynslóðar.
Sjálfstæðisflokkurinn treysti ungu fólki fyrir forystunni þegar Geir Hallgrímsson hætti formennsku og sama gerist aftur nú. Þorsteinn var vel innan við fertugt þegar hann varð einn valdamesti stjórnmálamaður landsins og varð forsætisráðherra á fertugsafmæli sínu árið 1987. Davíð Oddsson varð 34 ára gamall borgarstjóri í Reykjavík og forsætisráðherra rétt rúmlega fertugur. Hann hætti í pólitík eftir að hafa verið forsætisráðherra í hálfan annan áratug fyrir sextugt. Þessar staðreyndir sýna vel að ungu fólki er treyst í flokknum.
Þáttaskil verða nú, ekki aðeins í landsmálum heldur og í sveitarstjórnarmálum. Forystumenn flokksins í borg og landsmálum eru fulltrúar nýrra tíma. Augljóst er að miklar breytingar verða á þingliði Sjálfstæðisflokksins í vor og nú hefur flokksforystan í Valhöll verið yngd verulega upp.
Í þessum þáttaskilum felast mikil tækifæri og ég efast ekki um að flokkurinn mun breytast mikið með því að ný kynslóð taki þar við völdum, kynslóð með nýjar áherslur og sýn á framtíðina, trausta framtíðarsýn. Mikilvægt er að uppstokkun verði í pólitíkinni og nýtt fólk taki við forystunni.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur lengi talað um mikilvægi þess að frelsinu fylgi ábyrgð, áður en bankahrunið skall á. Nú er það hans að leiða stefnumótun til framtíðar í flokknum og stokka hann markvisst upp. Sú vinna hófst af miklum krafti á þessum landsfundi.
Nú er það forystumanna flokksins um allt land að leiða nýtt upphaf í flokksstarfinu. Bjarni og Þorgerður Katrín eru flott tvíeyki í forystunni og njóta trausts flokksmanna og hafa traust umboð eftir þennan fjölmenna og góða fund.
Ég vil þakka öllum þeim sem ég ræddi við og átti skemmtilegar stundir með á landsfundi fyrir spjallið og vináttuna. Þetta var frábær helgi í góðra vina hópi.
![]() |
Nýrri kynslóð treyst til verks |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 03:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
29.3.2009 | 16:29
Bjarni Benediktsson kjörinn formaður
Bjarni Benediktsson hefur nú verið kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundi hér í Laugardalshöll. Ég vil óska honum innilega til hamingju með glæsilega kosningu. Formannsslagur Bjarna og Kristjáns Þórs var góður fyrir flokkinn, tel ég. Hann gerði landsfundinn enn meira spennandi en ella og tryggði lífleg en snörp málefnaleg átök.
Þetta er styrkleikamerki fyrir Sjálfstæðisflokkinn að öllu leyti og við fylkjum okkur nú að baki forystunni, sem hefur enn traustara og öflugra umboð en ella. Kristján Þór stóð sig vel í sinni kosningabaráttu og getur verið stoltur af sínum árangri, þó ekki hafi sigur náðst. Ræða hans áðan var mjög traust og honum til mikils sóma.
Bjarni er tákn nýrra tíma í stjórnmálum. Hann verður næstyngsti flokksleiðtoginn í komandi kosningum, skýr valkostur þeirra sem vilja uppstokkun í pólitíkinni.
Þetta verður snörp og spennandi barátta næstu vikurnar - Sjálfstæðisflokkurinn heldur sterkari til þeirrar baráttu en ella eftir svo líflegan landsfund.
![]() |
Bjarni kjörinn formaður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.3.2009 | 03:48
Góður landsfundur - þrumuræða Davíðs
Spennandi lokadagur fundarins er framundan. Kosið verður milli góðra valkosta í formannskjörinu. Þeir fluttu báðir góðar ræður og komu sínum áherslum vel til skila. Flokksmenn hafa þó skýra og ólíka valkosti í kjörinu. Framtíðin verður mótuð með kjöri nýs formanns.
![]() |
Víkingar með Samfylkingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 03:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
26.3.2009 | 11:03
Beðist afsökunar á lágkúrulegri fréttamennsku
Þetta er eitthvað sem á ekki að sjást til fréttamanns á virtasta dagblaði landsins, eigi það og hún að halda einhverjum snefil af trúverðugleika. Því er afsökunarbeiðnin til Geirs í rökréttu framhaldi af umræðunni.
![]() |
Afsökunarbeiðni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.3.2009 | 10:20
Opin skýrsla hjá Evrópunefndinni
Mér finnst samt mjög ólíklegt að hörð Evrópustefna verði fyrir valinu. Þetta verður væntanlega mjög traust skýrsla gegn aðild, þó ekki verði í sjálfu sér útilokað. Ég les þannig í spilin að þetta verði lífleg skoðanaskipti en niðurstaðan verði að fara ekki í þann Evrópukúrs sem leit út fyrir að yrði ofan á meðan samstarfið við Samfylkinguna stóð enn.
Bæði formannsefnin í flokknum hafa tekið eindregna andstöðu gegn ESB-aðild og frekar lokað þeim glugga frekar en hitt, eftir að hafa horft jákvætt til Evrópuumræðunnar í upphafi meðan fyrra stjórnarsamstarf var við lýði. Ég tel að flokksmenn láti hjartað ráða för og kjósi gegn hörðum Evrópukúrs. Það er engin stemmning í flokknum fyrir þeirri keyrslu.
![]() |
Evran komi í stað krónunnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.3.2009 | 01:12
Léleg fréttamennska - hundur í blaðamanni
Mér finnst það léleg fréttamennska á fréttavef Morgunblaðsins þegar því er blandað saman í eina frétt að fyrrverandi forsætisráðherra kveðji þingið eftir 22 ára störf og að hjálparhundur komi þar til starfa fyrir sjóndapran þingmann. Fyrirsögnin og framsetningin kemur upp um tjáningu fréttamannsins og vinnubrögðin. Þetta er ekki merkilegt og í raun til skammar á stærsta fréttavef landsins sem á að vera hafinn upp yfir svona vitleysu.
Ég hef eiginlega alltaf staðið í þeirri trú að fréttamenn eigi að segja fréttir en ekki tjá skoðanir sínar í skrifum eða framsetningu. Þegar farið er á svig við það skaddast orðspor þess fjölmiðils sem um ræðir eða dregið er í efa hvernig staðið er að málum. Ekki er við hæfi að láta pólitískar skoðanir fara inn í þá tjáningu. Fréttamenn eiga að segja fréttir án skoðana sinna. Enda er það ekki fréttamennska þegar skoðanir koma í gegnum skrifin.
Ég veit vel að Geir Hilmar Haarde er umdeildur eftir umbrotatíma í íslensku samfélagi síðustu mánuðina. Geir er grandvar og heiðarlegur maður, mjög vandaður og traustur. Enginn hefur dregið það í efa, þó vissulega séu skiptar skoðanir um pólitíkina sem hann stendur fyrir. Mér finnst það til skammar þegar svona er staðið að málum í fréttaskrifum, enda sést langar leiðir er þetta er lituð framsetning og mjög rætin.
Mér finnst nokkur hundur í þeim blaðamanni sem setur þetta fram.
![]() |
Geir kveður og X heilsar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.3.2009 | 20:02
Pólitískar ofsóknir gegn Vigdísi í ASÍ
Framkoma Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ, við Vigdísi Hauksdóttur, þegar hann neitaði henni um launalaust leyfi vegna framboðs hennar, er lágkúruleg í alla staði. Þetta eru pólitískar ofsóknir af grófu tagi. Fjöldi vinstrisinnaðra starfsmanna ASÍ hafa farið í þingframboð og ekki hefur verið hróflað við þeim. Svo virðist vera sem það sé allt í lagi fyrir fólk á kontórnum hjá ASÍ að fara í framboð fyrir Samfylkinguna, en þeir eigi ekki séns hafi þeir flokksskírteini í öðrum flokkum upp á vasann og vilji pólitískan metnað þar.
Aumt yfirklór Gylfa í dag er ekki trúverðugt. Varla er hægt að afsaka ákvörðunina um að láta Vigdísi velja milli framboðs og starfsins síns á forsendum þess að leiðtogasæti Framsóknarflokksins í Reykjavík suður sé öruggt þingsæti. Jónína Bjartmarz, fyrrverandi umhverfisráðherra, var síðast í þessu leiðtogasæti og tókst ekki að komast á þing þó sitjandi ráðherra væri. Framsókn getur ekki gengið að neinu vísu í Reykjavík, þó þeir séu í borgarstjórnarmeirihluta. Framboð þar er alltaf áhætta.
Ekki er hægt að útskýra þessa niðurstöðu öðruvísi en sem það sé óeðlilegt fyrir starfsmenn ASÍ að hafa áhuga á framboði fyrir aðra flokka en Samfylkinguna. Þetta feilskot Gylfa færir okkur nýja sýn á hið margfræga lýðræði í Samfylkingunni. Hræsnin er mikil í því lýðræði.
![]() |
Leit á þátttöku sem uppsögn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.3.2009 | 16:00
Geir kveður
Vissulega eru það tímamót í íslenskum stjórnmálum þegar Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, kveður starfsvettvang sinn á Alþingi síðustu 22 árin og víkur af hinu pólitíska sviði. Geir hefur verið mjög áberandi í pólitískri þátttöku sinni síðustu þrjá áratugina, fyrst sem formaður SUS og síðar sem alþingismaður og forystumaður innan Sjálfstæðisflokksins, auk þess að vera ráðherra samfellt í rúman áratug.
Sjálfstæðisflokkurinn stendur á pólitískum krossgötum nú þegar Geir Haarde kveður pólitíska forystu og Alþingi Íslendinga, sem hefur verið vinnustaður hans og vettvangur í rúmlega tvo áratugi. Hvað svo sem segja má um Geir Hilmar Haarde og forystuhæfileika hans er varla hægt að deila um að hans stjórnmálaferill er bæði viðburðaríkur og glæsilegur.
Geir hefur verið mikill áhrifamaður í íslenskum stjórnmálum á löngum stjórnmálaferli og verið lykilþátttakandi í bæði farsælum og umdeildum verkum í forystusveit ákvarðanatöku í eldlínunni. Endalok ferilsins voru erfið fyrir hann og fjölskylduna, en ég vona að hann muni ná að sigrast á því meini sem hann berst við.
Fróðlegt verður að sjá hver pólitísk arfleifð Geirs Hilmars Haarde verði í sögubókum framtíðarinnar. Að mörgu leyti mun hún ráðast af niðurstöðu rannsóknarnefndar um bankahrunið og því hvernig gert verður upp við hina örlagamiklu tíma í vetur þegar samfélagið tók á sig höggið mikla.
Allra augu hljóta nú að beinast að því hvað taki við hjá Geir, sem stendur á krossgötum rétt eins og flokkurinn sem hann hefur staðið í fylkingarbrjósti fyrir. Ég óska honum allra heilla.
![]() |
Geir kvaddi á Alþingi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.3.2009 | 11:34
Sofið á verðinum í Icesave-málinu
Í fréttum undanfarna daga hefur verið vitnað í ummæli ráðamanna í aðdraganda hrunsins. Þar er sagt að ekkert hefði verið hægt að gera. Á hálfu ári hefði margt verið hægt að gera - það er aldrei til góðs að sofa á verðinum þegar þörf er á að fólk standi sig.
![]() |
Gátu sparað 444 milljónir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.3.2009 | 02:29
Er Obama að missa tökin á ástandinu?
Ég hef sjaldan eða aldrei séð Obama forseta eins vandræðalegan og þegar Ed Henry, fréttamaður CNN, spurði hann hreint út á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í kvöld af hverju hann hefði beðið í nokkra daga með að fordæma bónusgreiðslurnar margfrægu í AIG. Svarið var: "It took us a couple of days because I like to think about what I'm talking about before I speak". Þvílíkt klúður.
Obama virðist vera að missa tökin á eigin flokki vegna efnahagstillagnanna. Gagnrýnin eykst þar dag frá degi. Kent Conrad var ekki að spara stóru orðin í gagnrýni sinni í dag. Þingleiðtogar demókrata eru að færa sig upp á skaftið í sínu hlutverki í þinginu og sýna æ meira sjálfstæði í garð forsetans.
Annars vakti mesta athygli við blaðamannafundinn að Obama sleppti að nota teleprompter, sem hafa orðið einkennismerki hans, enda fylgja þeir honum hvert sem hann fer. Hann virðist hafa fengið nóg af gríninu um að hann sé forseti telepromptera og notaði í staðinn í kvöld stóran skjá í salnum til að hjálpa sér við tjáninguna. Þvílíkt og annað eins.
Þegar líða tók á blaðamannafundinn sást þegar Rahm Emanuel, starfsmannastjóri Hvíta hússins, og Valerie Jarrett, ráðgjafi forsetans, létu Blackberry-síma ganga á milli sín til að slá inn texta á skjáinn fyrir forsetann. Það gerist margt bakvið tjöldin hjá þessum forseta.
Varla furða að Bill Bennett sagði eftir blaðamannafundinn að Obama hefði helst viljað fara að sofa eftir spurningu Ed Henry sem hitti hann illa fyrir. Mér sýnist að ástarsambandi fjölmiðla við Obama sé formlega lokið.
![]() |
Obama hringdi út í geim |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.3.2009 | 18:09
Jóhanna víkur sér undan ábyrgð á hruninu
Ekki er hægt að skjóta sér undan því þó viðkomandi sé heilög Jóhanna sjálf.
![]() |
Sögðu eitt - gerðu allt annað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.3.2009 | 14:31
Aukið umfang saksóknara - nauðsynlegt skref
Koma Evu Joly til landsins og boðskapur hennar var gott innlegg í þessa vinnu. Mikilvægt er að íslensk stjórnvöld og embættismenn geti treyst á góða ráðgjöf frá henni og fleirum sérfræðingum, auk þess sem starfsmönnum við embættið fjölgi í takt við aukið umfang. Þetta eru nauðsynleg skref á þeirri vegferð sem við erum á til að klára þetta mál með trúverðugum hætti.
Þetta mál hvílir sem mara yfir þjóðinni og það verður að vinnast fumlaust og af ábyrgð.
![]() |
Saksóknari fær 16 fastráðna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.3.2009 | 13:48
Hreinn embættismaður eða ævintýramaður?
Á amx.is í dag er góð umfjöllun um þetta. Þar segir orðrétt: "Ummæli embættismannsins fóru sem ferskur blær um smáfuglana sem fögnuðu því að nú væri kominn fram hreinn embættismaður sem gæti hafist handa við að uppræta flókin viðskiptanet útrásarvíkinganna og varpa ljósi á það sem þar gerðist. Vona smáfuglarnir að embættismaðurinn beini fyrst sjónum sínum að stærsta gjaldþroti Íslandssögunnar sem með ævintýralegum hætti tókst að fá að láni um þúsund milljarða króna. Mörgum spurningum þarf hinn aldni embættismaður að leita svara við.
Hverjir voru það sem færðu slíkt fé út úr Glitni til eigin félaga að stjórnendum bankans varð svo mikið um að haldnir voru næturfundir með ráðamönnum? Hver var stærsti og áhrifamesti hluthafi Glitnis þegar bankinn fór á hausinn? Hver hafði barist árum saman um yfirráð í Glitni? Hver notaði fé Glitnis og annarra íslenskra banka til að fjármagna eina mestu skuldsettu útrás í Evrópu? Hverjir notuðu íslenskt lánsfé til að kaupa einkaþotur og snekkjur fyrir milljarða króna? Hverjir skulduðu á tímabili hátt í þúsund milljarða á Íslandi?
Hverjir fengu bankann sinn til að beina fjárfestingum af flestum sviðum bankans í eigið fyrirtæki? Hverjir áttu fjölmiðlaveldi sem notað var til að fylgja skuldaævintýrinu eftir af mikilli hörku? Hverjir létu fjölmiðla sína ofsækja stjórnmálamenn sem stóðu í vegi fyrir skuldavextinum? Hverjir hafa kostað íslenskan almenning mest í sögu landsins? Hverjir voru þessir ævintýramenn sem settu bankana á hliðina? Hverjir voru ævintýramennirnir sem stóðu að baki stærsta gjaldþroti Íslandssögunnar sem kostað var af íslensku bönkunum?"
Góðar spurningar. Svipað fór í gegnum huga minn þegar ég las þetta viðtal við embættismanninn Hrein sem eins og hreinn stormsveipur gerði upp við mann og annan.
![]() |
Lentu í höndunum á ævintýramönnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |