3.4.2008 | 00:46
Breskt jafntefli í háspennuleik í London
Gaman að sjá leik Arsenal og Liverpool í kvöld, þó jafntefli væri niðurstaðan. Þetta var háspennuleikur af bestu sort. Eftir að Arsenal sló út Evrópumeistara AC Milan á heimavelli fyrir tæpum mánuði var ég viss um að þeir myndu komast langt en þeir verða að taka Liverpool til þess að eygja von á Evróputitlinum. Það gæti vel tekist.
Fannst bæði lið vera að standa sig vel í kvöld, en þó Arsenal sýnu betri, eiginlega klaufar að klára þetta ekki í kvöld. Það getur þó allt gerst í leiknum eftir viku, enda bæði lið hungruð í að komast lengra. Man Utd eru í góðum málum eftir sigur gegn Roma í gær, en aftur á móti var stórmerkilegt að sjá Chelsea lúta í gras fyrir tyrkneska liðinu Fenerbahce. Það er mikil spenna framundan í Evrópuslagnum.
Það verður háspenna í næstu viku hjá sönnum knattspyrnuspekingum - sérlega spennandi að sjá hvort að Liverpool og Arsenal taki þetta, þar sem ég tel að Man Utd séu í góðum málum fyrir framhaldið.
![]() |
Arsenal og Liverpool skildu jöfn, 1:1 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 00:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.4.2008 | 00:10
Snillingurinn Morricone og meistaraverkin hans
Morricone hefur samið fagra tóna sem hafa prýtt stórmyndir í yfir hálfa öld. Hann hóf feril sinn með því að semja hina ódauðlegu tónlist í Spagettívestrum Sergio Leone. Allir þeir sem horft hafa á Cinema Paradiso (uppáhaldsmyndin mín), The Untouchables, A Fistful of Dollars, The Good, The Bad & The Ugly, The Mission, Love Affair, My Name is Nobody, Unforgiven, Malena, Bugsy, In the Line of Fire og Frantic (svo aðeins örfá dæmi eru nefnd) muna eftir ógleymanlegri tónlist þessa mikla meistara, sem setti órjúfanlegan svip sinn á þær.
Spagettívestratónlistin er einstök að öllu leyti og ekki hægt að bera hana saman við neitt. Mikil snilld sem eru alveg í sérflokki. Utan þeirra verka standa fjögur verk eftir sem það besta sem hann hefur gert: það eru Gabriel´s Oboe úr The Mission, The Death Theme úr The Untouchables, Harvest úr Days of Heaven og síðast en ekki síst Love Theme úr Cinema Paradiso (sem er að mínu mati fallegasta kvikmyndastef seinustu aldar). Öll snerta þau hjarta sannra kvikmyndaunnenda - svo falleg eru þau.
Þrátt fyrir óumdeilda snilld sína hefur meistari Morricone aldrei hlotið óskarinn fyrir kvikmyndatónlist sína, þrátt fyrir ótalmargar tilnefningar. Hann hlaut hinsvegar heiðursóskarinn í Los Angeles í febrúar 2007 - var það síðbúinn og löngu verðskuldaður virðingarvottur við æviframlag þessa mikla meistara til kvikmyndamenningarinnar.
Morricone hefur alltaf kunnað þá list að semja tónlist sem hittir í hjartastað. Eitt fallegasta kvikmyndatónverk hans, Heaven úr Days of Heaven, er í tónlistarspilaranum auk hins frábæra lags Cavallina a Cavallo sem hann samdi sérstaklega fyrir Ciccolinu, og hún söng svo eftirminnilega, og stefsins í The Untouchables.
Morricone er sannkallaður meistari kvikmyndatónlistarinnar. Hann er maður tilfinninga í tónlist kvikmyndanna og um leið djarfur í sköpun sinni. Þakka innilega Sjónvarpinu fyrir að færa okkur kvikmyndaáhugafólki þessa fögru kvikmyndatóna.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 00:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.4.2008 | 13:57
Rífleg bensínlækkun - spilað með neytendur?
En það má líka velta því fyrir sér hvort að þessi bensínlækkun sé ein leiðin til að spila með neytendur. Olíufélögin eru reyndar með þessu að bjóða upp á eldsneyti nær því verði sem það væri ef eldsneytisskatturinn væri ekki í myndinni. Það eru skilaboð fólgin í því, en þeir eru um leið að senda boltann til stjórnvalda. Vilja greinilega að þyngsli málsins séu ekki hjá þeim.
Það er vissulega umdeilt að bílstjórar grípi til mótmæla í þessari stöðu. En það eru skilaboð sem urðu að vera opinber og í sjálfu sér finnst mér það eðlilegt. Þegar að fólki ofbýður verður að grípa til sinna ráða, þetta er eitt þeirra mála sem snerta neytendur í landinu sem mest. Það þýðir ekki að þegja yfir því. Greinilegt er að olíufélögin finna fyrir hitanum í málinu og bregðast við með þessum hætti. Nú er spurt um hvað stjórnvöld muni gera.
![]() |
Örtröð á bensínstöðvum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.4.2008 | 00:04
Björn Ingi ráðinn ritstjóri Markaðarins
Eins og flestum er kunnugt er Steingrímur Sævarr Ólafsson, góðvinur Björns Inga, fréttastjóri Stöðvar 2, en þeir unnu hlið við hlið í forsætisráðuneytinu í forsætisráðherratíð Halldórs Ásgrímssonar; Steingrímur sem upplýsingafulltrúi hans en Björn Ingi var aðstoðarmaður Halldórs. Það kemur því varla að óvörum að Björn Ingi fari til verka hjá fréttastofu Stöðvar 2 og muni stjórna viðskiptaumfjöllun Stöðvarinnar og auk þess verði yfirmaður Markaðarins.
Björn Ingi var mjög mikið í að fjalla um viðskiptamál í REI-málinu, viðskiptatækifæri og möguleika í þeim geira og því kannski varla undrunarefni að hann fari í viðskiptaumfjöllun Fréttablaðsins og Stöðvar 2.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
1.4.2008 | 22:39
1. apríl - dagur gamans og gráglettni

Það er ágætt að vera vel vakandi á svona degi. Enda eru mörg aprílgöbbin ansi frumleg, sum fara yfir mörkin í frumleika og verða einum of ýkt. Öðrum tekst þetta skrambi vel. Það var t.d. of gott til að vera satt að hér á mbl.is væri hægt að hlaða niður kvikmyndum og horfa á. Fannst þetta of merkur viðburður til að hann væri kynntur þann 1. apríl af öllum dögum. Þó að vefdeild Netmoggans geri margt gott var þetta einum of. Sorrí Óli og aðrir góðir félagar á vefdeildinni, en ykkur tókst ekki að gabba mig. :)
Fannst fyndið að heyra af aprílgabbinu um fyrstu ferð Grímseyjarferjunnar Sæfara, sem merkilegt nokk átti að vera ókeypis fyrir þá sem vildu fara með skömmum fyrirvara. Þó að Kristján Möller, samgönguráðherra, sé þingmaður okkar var þetta ekki beint trúverðugt, auk þess er dallurinn blessaður ekki til enn. Gabb Útvarpsins var skondið en fyrirsjáanlegt, en það var einum of ótrúlegt að neðanjarðarbyrgi hefði fundist í Öskjuhlíðinni og það kynnt á þessum degi. Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, stóð sig vel í gabbinu, en hann var stjarna 1. apríl í fyrra í gabbi Stöðvar 2.
Auk þess var ekki beint trúverðugt að Bob Dylan væri kominn til að halda tónleika þann 1. apríl af öllum dögum. I-Phone gabb Stöðvar 2 í kvöld var aðallega fyndið þó. Verst var þó að einkaflug forsætis- og utanríkisráðherra var ekki aprílgabb. Fleira mætti eflaust nefna og farið vel yfir þetta að mestu í frétt Netmoggans hér neðst í færslunni.
Hversu margir ætli hafi annars hlaupið apríl yfir þessum og fleirum göbbum? Stór spurning, það er já eins gott að vera vel á verði á þessum degi.
![]() |
Varstu gabbaður í dag? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.4.2008 | 18:07
Kröftug mótmæli atvinnubílstjóra á Akureyri

Eins og ég sagði hér fyrr í dag eru bílstjórar hér á Akureyri að senda mjög sterk skilaboð, þeir fylgja félögum sínum fyrir sunnan. Finnst þetta flott hjá bílstjórunum. Það er kominn tími til að almenningur í þessu landi tjái sig hreint út um eldsneytisverðið og sendi skýr skilaboð til stjórnvalda. Það er flestöllum algjörlega nóg boðið.
![]() |
Bílstjórar mótmæla á Akureyri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.4.2008 | 16:30
Atvinnubílstjórar flauta - sterk skilaboð

Sé að samgöngu- og fjármálaráðherra hafa verið að bjóða bílstjórum í kaffispjall. Ef marka má það sem gerst hefur síðustu dagana eru þeir ekki að fiska eftir kaffi og kruðerí heldur að tekið verði af skarið og gert eitthvað.
Það má vera að eitthvað eigi að tala um hlutina en þessi mótmæli eru mjög samhent og sterk, virðast vera skilaboð um að í stað kaffispjalls taki stjórnvöld af skarið.
![]() |
Margra kílómetra bílaröð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.4.2008 | 11:07
Æðsta markmiðið að setja Ísland á hausinn
Allir vita að viðskiptaheimurinn er algjörlega vægðarlaus og fátt heilagt í þeim bransa. Samt er svolítið sérstakt að sjá einhvern gorta sig beinlínis af því að ætla að setja Ísland á hausinn með því að veikja krónuna og undirstöður íslensks viðskiptalífs og leggja svo til atlögu við veikburða efnahagslíf. Þetta hljómar sem óraunveruleikasaga en ummælin eru mjög raunveruleg.
Ekki vantar að bissness-mönnum nútímans er fátt heilagt og myndu jafnvel selja ömmu sína ef þeir högnuðust á því. Það er svolítið spes að til sé fólk sem er svo umhugað um að leggja allt í rúst hér, bara til að þóknast eigin hagsmunum og gorta sig af því. Það væri leitt ef þessum mönnum tækist ætlunarverk sitt, en þarna er komin ágætis skýring á því hversu bissnessinn er kaldur.
![]() |
Vildi gera Ísland gjaldþrota |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |