1. apríl - dagur gamans og gráglettni

1. aprílÞað voru eflaust margir sem hlupu 1. apríl í dag - létu gabba sig og göbbuðu svo aðra líka. Þetta er gamall og glettinn siður að gera vel grín hvort að öðru. Ég ákvað að hlífa lesendum mínum alveg við aprílgabbi þetta árið. Þau voru fjölbreytt og skemmtileg aprílgöbbin í ár fannst mér. Ég var þó vel á verði og lét mér ekkert bregða þótt ég heyrði margt sem var of gott eða vont til að vera satt. Þannig að ég hljóp nú ekki 1. apríl að þessu sinni.

Það er ágætt að vera vel vakandi á svona degi. Enda eru mörg aprílgöbbin ansi frumleg, sum fara yfir mörkin í frumleika og verða einum of ýkt. Öðrum tekst þetta skrambi vel. Það var t.d. of gott til að vera satt að hér á mbl.is væri hægt að hlaða niður kvikmyndum og horfa á. Fannst þetta of merkur viðburður til að hann væri kynntur þann 1. apríl af öllum dögum. Þó að vefdeild Netmoggans geri margt gott var þetta einum of. Sorrí Óli og aðrir góðir félagar á vefdeildinni, en ykkur tókst ekki að gabba mig. :)

Fannst fyndið að heyra af aprílgabbinu um fyrstu ferð Grímseyjarferjunnar Sæfara, sem merkilegt nokk átti að vera ókeypis fyrir þá sem vildu fara með skömmum fyrirvara. Þó að Kristján Möller, samgönguráðherra, sé þingmaður okkar var þetta ekki beint trúverðugt, auk þess er dallurinn blessaður ekki til enn. Gabb Útvarpsins var skondið en fyrirsjáanlegt, en það var einum of ótrúlegt að neðanjarðarbyrgi hefði fundist í Öskjuhlíðinni og það kynnt á þessum degi. Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, stóð sig vel í gabbinu, en hann var stjarna 1. apríl í fyrra í gabbi Stöðvar 2.

Auk þess var ekki beint trúverðugt að Bob Dylan væri kominn til að halda tónleika þann 1. apríl af öllum dögum. I-Phone gabb Stöðvar 2 í kvöld var aðallega fyndið þó. Verst var þó að einkaflug forsætis- og utanríkisráðherra var ekki aprílgabb. Fleira mætti eflaust nefna og farið vel yfir þetta að mestu í frétt Netmoggans hér neðst í færslunni.

Hversu margir ætli hafi annars hlaupið apríl yfir þessum og fleirum göbbum? Stór spurning, það er já eins gott að vera vel á verði á þessum degi.

mbl.is Varstu gabbaður í dag?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband