Klámið dýrkeypt fyrir ríkisstarfsmanninn

tölvunotandiHún er ansi skondin þessi saga sem Netmogginn gróf einhversstaðar upp af japanska ríkisstarfsmanninum sem eyddi óhóflegum tíma í netklámið í boði skattborgara á kontórnum. Var dýrkeyptur áhugi fyrir aumingja manninn, enda lækkaður í tign og launum fyrir að vilja kynna sér þessar síður.

Þessi tala í fyrirsögninni er þó ansi áhugaverð, svo ekki sé nú fastar að orði. Maðurinn fer 780 þúsund sinnum inn á síðurnar á vel innan við ári. Hann hefur heldur betur lagt tímann sinn í að skanna þessar síður á meðan að hann var að erindrekast fyrir ríkið. Ekki er mikið talað svosem um hvað fólk geri í tölvunni sinni, en þetta er ansi ríflegt áhugamál verður að segjast.

Á meðan að einhverjir vorkenna aumingja japanska ríkiskontórmanninum er gott að hrósa aðeins nettmogganum fyrir að vera naskur að finna svona fréttapunkta og gera úr því skemmtilegar umfjallanir.

mbl.is Horfði 780 þúsund sinnum á klám í vinnunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Boris kjörinn borgarstjóri - bresk hægrisveifla

Boris JohnsonBoris Johnson, þingmaður breska Íhaldsflokksins, hefur verið kjörinn borgarstjóri í London og tekist það sem fáir reiknuðu með að væri hægt; að sparka Rauða Ken Livingstone af valdastóli eftir tvö kjörtímabil við völd. Þetta er sætasti kosningasigur breskra íhaldsmanna frá því að John Major vann bresku þingkosningarnar árið 1992, þvert á allar skoðanakannanir, og boðar þáttaskil í breskum stjórnmálum eftir ellefu ára eyðimerkurgöngu Íhaldsflokksins.

Sigur Boris var mjög afgerandi miðað við kosningaspár og glæsilegt að sjá hversu traust þetta er. Úrslitin eru háðuglegur endapunktur á litríkum stjórnmálaferli verkalýðskempunnar Rauða Ken, sem talinn var ósigrandi af öllum fyrir ekki löngu síðan og talinn öruggur um auðvelt endurkjör. Boris var ekki spáð góðu þegar að hann fór í slaginn og talið að hann fengi útreið - Boris rúllar hinsvegar Rauða Ken upp með glæsilegum hætti. Þessi kosningasigur á eftir að verða örlagaríkur, enda eru augljóslega nýjir tímar framundan í breskum stjórnmálum.

Stórsigur Íhaldsflokksins á landsvísu er svo afgerandi að ekki verður neitað að vindar breytinganna eru í loftinu. Verkamannaflokkurinn tapaði vel á fjórða hundrað sveitarstjórnarfulltrúum í þessum kosningum og varð minni en Frjálslyndi Demókrataflokkurinn í heildarfylgi talið. Um er að ræða, eins og fyrr sagði í dag hér á vefnum, mesta afhroð Verkamannaflokksins frá því snemma á sjöunda áratugnum. Úrslitin eru pólitísk martröð fyrir Gordon Brown og veikir stöðu hans til muna. Tapið í London eitt og sér er sögulegt og því verður ekki neitað lengur að mjög fjarar undan Verkamannaflokknum. Kannanir voru eitt en þetta er annað.

Rauði Ken fer eflaust beiskur frá þessu vandræðalega tapi í borgarstjórakosningunum. Efast ekki um að hann mun kenna Gordon Brown um að vera sparkað úr borgarstjóraslagnum með svo auðmýkjandi hætti. Staða Gordon Brown er ekki hótinu betri en sú sem blasti við John Major vorið 1995 og greinilegt að hann er dæmdur til að missa völdin fyrr en síðar. Vonandi verður það í kosningum, en það væri vissulega dramatískt ef hann yrði gerður upp innan eigin raða fyrr en síðar. Auðmýkjandi endalok eru ekki síður í kortunum fyrir Gordon Brown en Rauða Ken.

Mikil örvænting er meðal kratanna á þessum svarta degi þeirra. Þetta eru viss þáttaskil og greinilegt að framundan er fyrir fjölmarga að róa pólitískan lífróður og augljóst að þrýstingurinn á Gordon Brown að taka sig á, ella finna fyrir hitanum hjá þeim þingmönnum kratanna sem tæpast standa. Þetta er sama andrúmsloft og einkenndi Íhaldsflokkinn undir lok langrar valdatíðar, þegar að valdaþreytan var að sliga allt og leiðtoginn missti fótanna.

Fylgissveiflan til Íhaldsflokksins er svo mikil og afgerandi að helst minnir á einmitt stöðuna á miðjum tíunda áratugnum. Þá varð leiðtogi Verkamannaflokksins, ungur og sjarmerandi maður, táknmynd breytinganna og varð fulltrúi nýrra tíma gegn mönnum valdsins árum saman. Hið sama er að gerast núna - David Cameron hefur hið sama nú að bjóða.

Táknrænt verður ef Gordon Brown fær annan eins skell og John Major forðum daga í næstu þingkosningum. Þessi staða er klárlega í kortunum á þessum sæta sigurdegi breskra hægrimanna.

mbl.is Borgarstjóraskipti í Lundúnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rauða Ken sparkað - Boris á sigurbraut í London

Boris og Ken Flest bendir til þess að Boris Johnson, þingmaður breska Íhaldsflokksins, verði kjörinn borgarstjóri í London í kvöld og velti þar með úr sessi Rauða Ken Livingstone, sem hefur verið borgarstjóri frá árinu 2000. Boris hefur yfirhöndina í talningunni og veðbankar eru orðnir svo vissir um sigur hans að þeir eru hættir að taka við veðmálum um að hann sigri í kosningunum.

Virðist sigurinn vera mun meira afgerandi en síðustu kannanir fyrir kjördag í gær gáfu til kynna, en þar virtist vera sem að þeir væru nær jafnir. Enn ber þó að taka tillit til hvað þeir kjósendur gera sem velja frambjóðanda tvö á kjörseðli en þau atkvæði eru tekin inn í heildarmyndina þegar að talið hefur verið hvaða frambjóðandi fékk flest atkvæði í sjálfu kjörinu. Hinsvegar eru fulltrúar allra flokka farnir að gera ráð fyrir að Boris verði borgarstjóri og sérstaklega er örvænting kratanna mikil í dag.

Fáir áttu von á því þegar að Boris gaf kost á sér sem borgarstjóraefni Íhaldsflokksins að hann yrði kjörinn borgarstjóri. Fyrir rúmu ári töldu flestir það vera formsatriði að Rauði Ken færi fram aftur og hlyti endurkjör, næsta auðveldlega eins og í kosningunum 2000 og 2004. Ekki var gert ráð fyrir að Íhaldsflokkurinn gæti gert sterkt tilkall til borgarstjórastólsins og margir töldu Boris vera flautuþyril og galgopa sem aldrei gæti fellt verkalýðskempuna Rauða Ken. Á nokkrum mánuðum hefur Boris breyst í sterkan frambjóðanda sem hefur tæklað Rauða Ken með mikilli snilld, sett hann út af sporinu og getað veitt honum verðuga keppni um hnossið.

Er Rauði Ken var kjörinn borgarstjóri í London árið 2000 fór hann fram sem pólitískur utangarðsmaður engum háður og barðist við flokksvaldið í Verkamannaflokknum. Tony Blair lagðist gegn því að hann yrði borgarstjóraefni flokksins og Frank Dobson, heilbrigðisráðherra fyrstu Blair-áranna, varð flokksframbjóðandinn. Rauði Ken fór fram sem óháður, sló við Dobson og barðist við Steve Norris um borgarstjórastöðuna og hafði betur. Þeir tókust aftur á árið 2004 og aftur hafði Rauði Ken betur. Átökin við Blair og félaga leiddu til þess að þeir ráku Rauða Ken úr flokknum en tóku hann síðar í sátt sem frambjóðanda flokksins árið 2004.

Átta árum síðar var baráttumóðurinn farinn úr Rauða Ken - hann var orðinn kerfiskall að mati kjósenda og þeir sáu ekki sama baráttukraftinn og styrkleikann og áður. Og nú er hann að falla af valdastóli sínum sem borgarstjóri í Lundúnaborg eftir sumpart stórmerkilegan stjórnmálaferil. Mikil tíðindi felast í falli hans. Úrslitin eru eitt mesta áfall Verkamannaflokksins í ellefu ára valdatíð sinni og er mikið kjaftshögg framan í Gordon Brown í skelfilegustu kosningum flokksins í yfir fjóra áratugi. Brown virðist heillum horfinn og er sennilega að gufa upp pólitískt í sömu mund og Rauði Ken.

Hin miklu stórtíðindi sem verða með kjöri Boris í borgarstjórastólinn boða þáttaskil í breskum stjórnmálum. Íhaldsflokkurinn drottnar yfir og hafa nú augljóslega yfirhöndina í aðdraganda næstu þingkosninga. Þessi afgerandi sigur í byggðakosningunum marka David Cameron sem væntanlegan forsætisráðherra í næstu kosningum, rétt eins og Tony Blair hlaut þann sess eftir afhroð íhaldsmanna árið 1995 og John Major tók að riða endanlega til falls.

mbl.is Útlit fyrir sigur Íhaldsflokks í Lundúnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sögulegt afhroð - martröð fyrir Gordon Brown

Gordon BrownVerkamannaflokkurinn virðist dæmdur til að tapa næstu þingkosningum í Bretlandi eftir sögulegt afhroð í byggðakosningunum í gær, fyrstu kosningunum í leiðtogatíð Gordon Brown. Breskir kratar hafa tapað yfir 200 fulltrúum á landsvísu og hafa orðið fyrir álíka afhroði og Íhaldsflokkurinn í byggðakosningunum 1995, sem voru hinn augljósi aðdragandi endaloka valdaferils Íhaldsflokksins tveim árum síðar er Sir John Major tapaði stórt.

Hvergi í þessum kosningaúrslitum er vonarglætu að sjá fyrir Gordon Brown, sem hefur aðeins setið við völd í innan við ár. Hann þarf brátt að ákveða hvort boðað verði til þingkosninga á þessum tímapunkti eftir ár eða beðið með þær til loka fimm ára kjörtímabilsins vorið 2010. Jafnan hefur það þótt nokkuð veikleikamerki að bíða til loka fimm ára kjörtímabils með kosningar. Tony Blair gerði það aldrei á sínum valdaferli en John Major tók þá ákvörðun í báðum sínum kosningum sem flokksleiðtogi, 1992 og 1997, í þeim fyrri náði hann sigri á öllum könnunum en var sparkað í þeim næstu.

Í dag er ellefu ára valdaafmæli Verkamannaflokksins. Engum sem upplifði sögulegan kosningasigur árið 1997 hefði órað fyrir að Brown yrði svo vonlaus í hlutverki sínu sem eftirmaður Tony Blair, en hann hefur ekki séð til sólar síðan að hann heyktist á að boða til kosninga síðasta haust. Hann daðraði við þann möguleika vikum saman og fór í gegnum flokksþing án þess að svara spurningum og vangaveltum. Frá því að hann rann á svellinu hefur hann misst frumkvæðið og myndugleika sem stjórnmálamaður og virðist algjör klaufi. Brown var mjög sterkur sem fjármálaráðherra og þótti traustur og afgerandi í hlutverki sínu. Hann hefur hinsvegar þótt leiðinlegur og litlaus sem þjóðarleiðtogi.

Stóri vandi Verkamannaflokksins virðist vera valdaþreyta og óánægja kjósenda með Gordon Brown. Greinilegt er á könnunum að breskir kjósendur treysta honum ekki til að leiða þjóðina í gegnum efnahagsþrengingar og erfiðleika. Vinsældir Browns hafa hrunið á nokkrum vikum og á sér aðeins fordæmi í snöggu hruni Neville Chamberlain í lok fjórða áratugarins, er hann klúðraði sínum málum í aðdraganda síðari heimsstyrjaldarinnar. Aðeins er ár síðan að hann þótti eini maðurinn sem gæti tekið við af Blair með sóma og hann fékk ekki einu sinni mótframboð í leiðtogakjörinu.

Mesti áfellisdómur kjósenda yfir Brown fellst í því að þeir hafa algjörlega misst allt traust á forystu hans í efnahagsmálum. Hann var fjármálaráðherra Bretlands í áratug og þótti þar táknmynd stöðugleikans og valdsins. Var þar hinn trausti sem hægt var að treysta að gæti tekið á málum fumlaust og af ábyrgð. Honum hefur ekki gengið vel í efnahagsmálum í forsætisráðherratíð sinni og hefur misst þetta fræga orðspor sitt. Hann hefur hikað og þykir ekki með á stöðuna og virðist ekki fúnkera vel sem leiðtogi í mótlæti og þegar þarf að taka af skarið snöggt og ákveðið.

Eins og staðan er nú er Gordon Brown dæmdur til að tapa forsætisráðherraembættinu fyrr en síðar, annaðhvort í innri uppreisn innan Verkamannaflokksins, sem er í raun þegar komin af stað og á eflaust eftir að verða öflugri haldi mótlætið áfram, eða í næstu kosningum. Fálmurskennd vinnubrögð hafa einkennt forystu hans. Lítill agi hefur verið yfir stjórn Verkamannaflokksins, ráðherrar eru í sóló og þingmenn eru byrjaðir að láta til sín taka. Innan við ári eftir að Brown tók við er hann því kominn í sömu stöðu og Tony Blair var eftir tæpan áratug við völd.

Stóra spurningin nú er hvað muni gerast í London. Ef Ken Livingstone sigrar í borgarstjórakjörinu í London mun það verða mikilvægur sigur í þessu mikla afhroði. En tölurnar og staðan í þessum kosningum gefur það mjög til kynna að Rauði Ken hafi fengið sparkið á verkalýðsdaginn og Boris Johnson sé að verða borgarstjóri. Enn þarf að bíða tíu klukkutíma eftir þeim úrslitum. Tap Rauða Kens yrði um leið hið mikla auðmýkjandi tap fyrir Gordon Brown. Að tapa í London yrði verstu tíðindin í þessu afhroði.

Lífseigasta kjaftasagan í þinghúsinu í Westminster er að Brown verði sparkað með uppreisn innan frá eins og Margaret Thatcher ef borgarstjóraembættið í London tapast og hann taki sig ekki á. En er það ekki orðið of seint? Stutt er í þingkosningar. Kratarnir veðjuðu á reyndan mann með valinu á Gordon þegar að Tony Blair hætti. Ekki er auðvelt að losa sig við hann í þessu sögulega afhroði, rétt eins og íhaldsmenn sátu uppi með John Major um miðjan tíunda áratuginn.

Hið sama gildir um Brown nú og Major áður, eins og orðað var í frægu spakmæli "He looks weak, but he is much weaker really".


mbl.is Verkamannaflokkurinn tapaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rammgirt fangavist - lífið utan vítisholunnar

Elizabeth F og Josef Fritzl Eftir því sem fjallað er meira um aðstæður í hryllingshúsinu í Amstetten í Austurríki verður málið í senn ógeðslegra og sjúkara. Varnarkerfið í vítisholuna, til að halda konunni og börnunum frá umheiminum, með fjölmörgum læstum hurðum og raflás minnir aðeins á víggirt fangelsi og einangrunin sem því hefur fylgt hlýtur að hafa drepið alla lífslöngun. Grimmdin á bakvið verknaðinn verður sífellt kuldalegri eftir því sem meira kemur í ljós.

Heyrði í gær lýsingar í fjölmiðlum af fyrstu bílferðinni sem strákarnir tveir í kjallaranum, annar um tvítugt en hinn fimm ára að mig minnir, fóru í. Þeir hoppuðu og skríktu alla leiðina frá heimilinu til sjúkrahússins, höfðu aldrei í bíl komið og voru að sjá umheiminn í fyrsta skipti, fyrir utan að þeir höfðu séð slitrur í sjónvarpi. Var svolítið sérstök lýsing á hversdagslegum aðstæðum, en fyrir þessi börn tekur við andleg uppbygging og að kynnast lífi sem við teljum sjálfsagt.

Finnst merkilegast við þetta mál að heyra ástæður þess að maðurinn kom svona fram við sitt eigið hold og blóð. Einna ógeðslegast finnst mér að maðurinn hafi farið í heimsreisur með eiginkonu sinni á meðan að dóttirin og börn hírðust í þessari vítisholu árum saman, notið lífsins á meðan að hann svipti eigin börn lífinu.

Tek eftir því að Ríkissjónvarpið hefur beinar útsendingar og fréttaumfjöllun frá Amstetten. Hefur verið fínasta umfjöllun sem þeir hafa komið með. Var áhugaverðast að sjá viðtöl við íbúa þarna og heyra meira um málið, frá þeirra sjónarhorni en ekki bara frásögn fjölmiðlanna.

mbl.is Sá mann fara í jarðhýsið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sorglegur óhugnaður

Dapurlegra er en orð fá lýst að lesa fréttir á borð við þessa að norsk kona hafi eignast þrjú börn með föður sínum. Sifjaspjöll eru einn alvarlegasti glæpur sem til er. Þetta er algjör óhugnaður, algjörlega sorglegt. Því miður er þetta ekki ný saga sem sögð er með þessu norska máli og því austurríska, sem er reyndar með því allra ógeðfelldasta sem sögur fara af, sérstaklega nú í seinni tíð.

Auðvitað eru það ekkert annað en hreinlega villidýr sem gera börnunum sínum þetta - ógeðslegir menn, hreinir djöflar í mannsmynd. Austurríska málið er sérstaklega dapurlegt þegar að litið er á allar aðstæður og hvernig konu var haldið sem fanga í kynferðislegri misnotkun. Í norska málinu er þetta óhugnaður sem er eiginlega óþægilega nærri okkur og hlýtur að vekja alla til umhugsunar.

Sorglegasta spurningin sem vaknar við að heyra af svona málum er auðvitað hversu margar konur hafi upplifað svona óhugnað. Hversu margar sögur hafa legið í þagnargildi og aldrei orðið opinberar, vegna þess að konurnar eru hræddar við að tjá sig.


mbl.is Norsk kona eignaðist þrjú börn með föður sínum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylkingin tapar fylgi - ríkisstjórnin dalar

Ingibjörg Sólrún og Geir H. Haarde Nýjasta könnun Gallups hlýtur að vera mikið áhyggjuefni fyrir Samfylkinguna. Flokkurinn missir sjö prósentustig milli mánaða og er nú kominn undir kjörfylgið. Fylgi vinstri grænna eykst og eru þeir nú komnir yfir 20% - aðeins munar fimm prósentustigum á fylgi vinstriflokkanna. Hinir stjórnarandstöðuflokkarnir bæta óverulega við sig og Sjálfstæðisflokkurinn heldur sínu.

Apríl var erfiður mánuður fyrir Samfylkinguna. Deilt var einkum á ráðherra flokksins í utanríkis-, umhverfis- og samgöngumálum auk þess sem sótt var að velferðaráherslum flokksins. Samfylkingin hefur verið minnt æ ofan í æ á skoðanir sínar á eftirlaunalögunum í aðdraganda síðustu þingkosninga þar sem fram kom að flokkurinn myndi beita sér af krafti fyrir breytingum. Er svo komið að margir kjósendur Samfylkingarinnar eru óánægðir með flokkinn.

Þó að Sjálfstæðisflokkurinn haldi velli fylgislega séð í nýjustu könnun Gallups vekur mikla athygli að persónulegt fylgi Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, minnkar um þrjátíu prósentustig frá síðustu sambærilegri könnun fyrir nokkrum mánuðum. Fylgi Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, utanríkisráðherra, dregst einnig umtalsvert saman. Jóhanna Sigurðardóttir er enn vinsælasti ráðherrann, en missir tíu prósentustig frá síðustu könnunum. Óvinsælasti ráðherrann, Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, mælist aðeins með átta prósentustiga stuðning þjóðarinnar.

Stóru tíðindin eru þó þau að hveitibrauðsdögum hinnar voldugu ríkisstjórnar, sem hefur 43 sæti á þjóðþinginu, er sannarlega lokið. Hún mældist með yfir 80% stuðning í upphafi en hefur nú fallið niður í 58%. Hefur fylgi stjórnarinnar minnkað umtalsvert á frekar skömmum tíma. Ekki virðist þó Sjálfstæðisflokkurinn tapa á niðursveiflu ríkisstjórnarinnar, heldur virðist Samfylkingin ein taka það fylgistap á sig og virðist nú stefna í svipaðar mælingar og í aðdraganda síðustu þingkosninga þegar að vinstriflokkarnir mældust á pari og VG bætti mjög við sig.

Samfylkingin var að segja má í draumastöðu eftir síðustu kosningar, með öll spil á hendi þrátt fyrir fylgistap í kosningum og komst loksins í ríkisstjórn eftir langa eyðimerkurgöngu. Greinilegt er þó að kjósendur fella áfellisdóm yfir verkum Samfylkingarinnar. Hið mikla fylgistap síðustu vikna var fyrirsjáanlegt og hafa merki þess sést í Fréttablaðskönnunum að undanförnu.

Hef fundið það vel að Samfylkingarfólk hefur ekki verið ánægt með verk síns fólks í ríkisstjórn. Það hefur vel komið fram í bloggskrifum og vangaveltum manna á meðal í samfélaginu. Kannanir nú staðfesta þá umtalsverðu niðursveiflu og eðlilegt að spurt sé hvort að flokkurinn endurvinni sér traust þeirra sem hafa snúið við honum baki.

mbl.is Fylgi við Samfylkingu og ríkisstjórn minnkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenski geimfarinn hættir störfum

Bjarni TryggvasonÍslenski geimfarinn Bjarni Tryggvason hefur hætt störfum. Hefur alltaf fundist mikið til hans koma og held að flestum Íslendingum hafi fundist það í senn áhugavert og skemmtilegt að eiga geimfara. Honum hefur verið sýndur sómi hér víða og ég man vel eftir því er hann kom hingað fyrir áratug í boði Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, skömmu eftir eitt geimafrekið.

Hann er ættaður úr Svarfaðardal. Faðir hans var Svarfdælingur og á Dalvík var talað um Bjarna af virðingu og áhuga fyrir því sem hann var að gera. Hann kom til Dalvíkur í Íslandsförinni fyrir áratug. Var áhugavert að fá hann í heimsókn og kynnast honum, en hann hafði aðallega verið í umfjöllun fjölmiðla hér heima og sum blöðin höfðu átt viðtöl við hann. Þó að hann hefði mjög skamman tíma búið hér heima eignuðum við Íslendingar okkur hann að sjálfsögðu og þau afrek sem hann hafði komið að.

Kom mér þó mest á óvart þegar að Bjarni kom til landsins að hann talaði ekki íslensku. Skildi kannski eitt og eitt orð, en hann talaði á ensku þegar að hann var hérlendis. Fannst það svolítið áfall að íslenski geimfarinn margfrægi talaði ekki íslensku. Ekki hafði greinilega verið lögð rækt við það að hann héldi í ræturnar með því að viðhalda íslenskukunnáttunni. Þó að hann talaði ekki íslensku held ég samt að við höfum verið stolt af honum og við megum svosem vera það. Hann hefur gert margt gott.

Veit ekki hvort að Bjarni var sæmdur fálkaorðunni af Ólafi Ragnari í Íslandsför hans. Sennilega. Ef ekki á að heiðra verk hans. Fálkaorðan hefur verið afhent af minna tilefni en því sem hann hefur afrekað.


mbl.is Bjarni sest í helgan stein
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband