Minningarorð um Susie Rut á miðopnu Moggans

Susie Rut Það hefur ekki gerst fyrr svo ég muni eftir að látinnar manneskju sé minnst af öðrum en ritstjórum Morgunblaðsins á miðopnu. Það gerðist þó í dag þegar að Susie Rut Einarsdóttir var jarðsungin. Hún var kvödd af foreldrum sínum á miðopnu blaðsins með hugheilum orðum. Andlát hennar bar að með vofveiflegum hætti og hefur það verið í kastljósi fjölmiðla undanfarna daga.

Minningarorð Einars S. Hálfdánarsonar, föður hennar, eru hugheil og einlæg. Allir sem þau lesa verða djúpt snortnir. Skrifin hafa vakið mikla athygli í dag. Þar eru enda beitt orð um fíkniefnavandann, sem fer því miður sífellt vaxandi í samfélagi okkar. Það þarf hugrekki og kraft til að skrifa svo góða grein, sem tekur á erfiðu máli á sorgarstund hjá fjölskyldu. Ég dáist að þeim krafti og styrk á raunastundu.

Ég vil votta fjölskyldu Susie Rutar innilega samúð mína.

Sáttasemjarinn Tony Blair hættir þingmennsku

Tony Blair Það er nú ljóst að Tony Blair, fráfarandi forsætisráðherra Bretlands, mun verða skipaður sérlegur sáttasemjari í málum Mið-Austurlanda á morgun og segir af sér þingmennsku í kjölfarið eftir að hafa látið af embætti forsætisráðherra á fundi með drottningu í Buckingham-höll eftir hádegið á morgun. Um leið og þeim fundi lýkur mun hann sem óbreyttur þingmaður fljúga til Sedgefield og tilkynna afsögn sína af þingi á fundi með flokksfólki á svæðinu. Tony Blair hefur setið á breska þinginu í nafni Sedgefield í 24 ár, eða allt frá árinu 1983.

Á þessari stundu mun forsætisráðherrann fráfarandi vera að ljúka við flutninga sína frá Downingstræti á nýtt heimili sitt í Connaught Square í London. Þar voru haldnir fundir síðdegis og undir kvöld þar sem unnið var, bakvið tjöldin, að skipulagi morgundagsins, svo lítið bæri á og Blair sat fundi með lykilmönnum til að undirbúa pólitísk endalok sín. BBC hefur flétt hulunni af þessari strategíu allri í kvöld. Blair mun sitja fyrirspurnartíma forsætisráðherra í þingsal í Westminster í hádeginu á morgun og svara spurningum samkvæmt venju. Þar flytur hann sína síðustu þingræðu og fer þaðan beint til drottningar til að biðjast lausnar.

Fundurinn í Sedgefield var svo fastsettur síðdegis eftir að staðfesting á boði um sáttasemjarahlutverkið barst. Það er öllum ljóst að fundur er ekki boðaður í Sedgefield síðdegis daginn sem Blair lætur af völdum nema af einni ástæðu og það augljósri. Ákvörðun liggur fyrir um vistaskipti hans og öllum er ljóst að Tony Blair verður ekki óbreyttur þingmaður með þessu hlutverki.
Það hefur verið vitað nær alla tíð að Tony Blair myndi hætta í stjórnmálum um leið og hann léti af forsætisráðherraembættinu. Sjálfur hefur hann þó gefið í skyn og gerði það í Sedgefield 10. maí sl. er hann tilkynnti um endalokin í Downingstræti að hann yrði mögulega áfram þingmaður.

Það verður því ekki mikið um frí hjá Tony Blair þó að stjórnmálaferli hans ljúki síðdegis á morgun. Ekki vantar verkefnin fyrir sáttasemjara í Mið-Austurlöndum. Allt tal um frí fyrir nýjan sáttasemjara er enda ekki á dagskrá og væntanlega mun Blair halda strax til verka á nýjum vettvangi. Það verður fróðlegt fyrir þá sem hafa fylgst með breskum stjórnmálum alla pólitíska tíð Tony Blair og vanist honum sem þingmanni og forystumanni í flokki og ríkisstjórn að sjá hann sem diplómatsefni á öðrum vettvangi. En á meðan á því stendur reynir á Brown að halda sæti Blairs í Sedgefield, þar sem verða aukakosningar fljótlega.

Bresk stjórnmál fá væntanlega á sig annan blæ með brotthvarfi Tony Blair sem hefur verið risi á þeim vettvangi í raun allt frá leiðtogakjörinu sumarið 1994, enda þá strax ljóst að hann yrði nær örugglega forsætisráðherra. Ferill hans í Downingstræti 10 var litríkur, en engu að síður var hann sterkur leiðtogi lengst af, hann vildi hafa full völd og naut þeirra mjög lengi vissulega. Hann hefði aldrei unað sér sem óbreyttur þingmaður í liði Gordon Brown og tekur því nýtt tækifæri fegins hendi.

Eflaust mun skipan Blairs í verkefnin í Mið-Austurlöndum verða umdeild með sama hætti og öll hans verk á undanförnum árum. En nú verða vistaskipti og nú reynir á Blair á nýjum vettvangi, fjarri öllum skarkala þess sem gerist í London. Nýtt hlutverk Tony Blair mun verða í miðpunkti allra fjölmiðla, þeim blóma sem hann hefur notið sín alla tíð best í. Fyrir Tony Blair verða vistaskiptin því ekki mikil. Enn mun hann skipta máli... þökk sé George W. Bush, auðvitað.

Bloggsíðu lokað - ánægja á Moggablogginu?

Það hefur mikið verið rætt og ritað um lokun bloggsíðu Emils Ólafssonar hér í morgun. Sitt sýnist eflaust hverjum. Mér sýnist vera almenn gleði víðast hvar hér í bloggkerfinu. Það voru ansi margir hér á svæðinu búnir að fá nóg af skrifum þessa manns og það var mjög áberandi farið yfir öll mörk. Það er greinilegt að forsvarsmenn Morgunblaðsins á netinu voru þeirrar skoðunar og þeir gripu inn í. Með þessu eru þeir að senda skýr skilaboð til þeirra sem skrifa. Það er standard á þessu bloggkerfi og fari menn yfir þau mörk sem sett eru er þeim vísað á dyr.

Það er skiljanlegt að þeir hjá blog.is, sem hafa lagt mikla vinnu í þetta vinsælasta bloggkerfi landsins og unnið vel sitt verk vilji halda utan um þennan vettvang og tryggja að hann sé ekki lagður í rúst með mjög áberandi hætti. Þetta verklag í morgun sýnir það og sannar. Þetta vefkerfi er í eigu einkaaðila og þeir leggja mat á þann vettvang sem þeir vilja halda úti og hverjir noti hann. Hér er í raun allt galopið og hver sem er getur farið að skrifa. Það fylgir þó öllu slíku frelsi ábyrgð eins og við höfum séð í þessu máli.

Ég er ánægður með það hvernig haldið er á málum hér og lýsi enn og aftur yfir ánægju minni á stjórnun þeirra sem halda utan um þetta bloggsamfélag. Þetta kerfi á að vera þekkt fyrir eitthvað allt annað en dónaskap og óþarfa skítkast. Það sést vel af ákvörðunum yfirstjórnar þessa bloggkerfis.

Tony Blair verður sáttasemjari í Mið-austurlöndum

Tony Blair Það er aðeins sólarhringur þar til að Tony Blair gengur á fund Elísabetar II, drottningar, í Buckingham-höll og lætur af einu valdamesta embætti heims. Það er nú orðið ljóst hvað tekur við hjá þessum umdeilda stjórnmálamanni er þriggja áratuga stjórnmálaferli hans lýkur. Hann verður eins og flestir áttu von á sáttasemjari kvartettsins fræga í Mið-Austurlöndum. Ekki veitir af samningamönnum í vargöldinni þar, sem virðist aðeins magnast með hverjum deginum sem líður.

Það mátti öllum vera ljóst að George W. Bush væri það mjög mikilvægt að halda Tony Blair áfram á landakorti alþjóðastjórnmála, þó að stjórnmálaferli hans í Bretlandi væri lokið. Blair er einn nánasti bandamaður Bush á undanförnum árum og þeir hafa fylgst að í gegnum margar ákvarðanir. Þegar að George W. Bush varð forseti Bandaríkjanna í janúar 2001 var mjög um það deilt hvort að þeir gætu unnið saman, enda höfðu Blair og Clinton verið pólitískir sálufélagar. Það leikur enginn vafi á því að það sama má í raun segja um Bush og Blair.

Það hefur lengi verið velt fyrir sér hvað yrði um Blair að loknum valdaferlinum. Tony Blair er auðvitað á besta aldri. Hann er aðeins 54 ára gamall og er meira að segja tveim árum yngri en Gordon Brown, verðandi forsætisráðherra Bretlands, svo að hann á mörg góð ár eftir enn. Margir hafa hugleitt hvort framtíð Blair myndi liggja í að verða forseti ESB-blokkarinnar eða taka jafnvel við af Barroso sem forseti framkvæmdastjórnarinnar. Margir veltu því fyrir sér hvort hann færi í Alþjóðabankann ennfremur, þó að það sé reyndar fastsett að Bandaríkjamaður er á þeim pósti og því breytir ekki einu sinni George W. Bush.

Tony Blair hefur á stjórnmálaferli sínum alltaf fylgst vel með ástandinu í Mið-Austurlöndum og þekkir stöðuna þar mjög vel, sennilega er hann einn færasti stjórnmálamaðurinn í þeim bransa sem er á landakorti stjórnmálanna. Svo að það liggur beinast við að þar muni hann helga starfskröftunum, nú þegar að hann losnar loks úr valdalimbóinu við Gordon Brown, erjum við vinstrisinnuðustu þingmenn Verkamannaflokksins og miðvikudagsstaglið við David Cameron. Þar getur hann skipt sköpum og helgað sig merkum verkum.

Hann þekkir auðvitað vel til lykilmanna stjórnmálanna á svæðinu. Shimon Peres, verðandi forseti Ísraels, er náinn vinur Blairs, hann hefur margoft rætt við Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, og hefur ræktað gott samband við Mahmoud Abbas, forseta Palestínu. Þannig að hann hefur ræktað tengsl á löngum valdaferli, tengsl sem skipta máli í svo erfiðu máli. Það er alltaf heppilegra að veraldarvanur stjórnmálamaður með öll tengsl í lagi taki við svo flóknu verkefni. Þannig að Tony Blair er þar þrátt fyrir allt á heimavelli.

mbl.is Blair lýsir áhuga á að vinna að friði í Miðausturlöndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Moggabloggið lokar á Emil Ólafsson

Ég tek eftir því að Moggabloggið hefur lokað á aðgang Emils Ólafssonar hér. Þar stendur nú aðeins að síðu hans hafi verið lokað vegna ítrekaðra brota á skilmálum blog.is. Það kemur mér ekki að óvörum svo sannarlega. Það sást vel í gær að það var að draga mjög til tíðinda í samskiptum Moggabloggsins og þessa Emils. Síðan hans lokaði og sagt var fyrst að það hefði verið að hans frumkvæði. Síðar var opnaði hún þó aftur fyrir dagslok, rétt eins og ekkert hefði í skorist.

Þetta mál opnar margar spurningar um moggabloggið. Það er gott að Mogginn svarar þeim sjálfur með því að sýna að þar er tekið af skarið ef vandamál verða. Ég kvarta ekki yfir því. Ég sá reyndar í gærkvöldi viðtal við þennan Emil í Íslandi í dag. Þar var hann að reyna að svara af hverju hann var á aðgangi í Háskólanum á sínum tíma. Aðgangurinn var falsaður og margt fleira vakti athygli í orðalaginu. Það verður seint sagt að þarna hafi leyndarhjúpurinn minnkað á málum viðkomandi.

Það hefur verið sviptingasamt í bloggsamfélaginu eftir skrif Elíasar Halldórs og eftirleikurinn hefur ekki farið framhjá neinum sem lítur í gegnum bloggkerfið. Þetta hefur verið leiðinlegur tími og sérstaklega ömurlegt með að fylgjast fyrir okkur sem bloggum þarna. Þetta fór yfir öll mörk um helgina og greinilegt að Moggabloggið sjálft tekur af skarið nú endanlega.

Það er í sjálfu sér auðvitað mjög ánægjulegt og ekkert meira um það að segja.


Boðar Gordon Brown fljótlega til kosninga?

Gordon Brown Það yrði mjög klókt hjá Gordon Brown, leiðtoga Verkamannaflokksins og verðandi forsætisráðherra Bretlands, að efna til kosninga í Bretlandi fyrr en síðar. Það hlýtur að vera nýjum forsætisráðherra ofarlega í huga að reyna að sækjast eftir eigin umboði til valda. Það kemur ekki að óvörum að þessi orðrómur hefur kviknað strax eftir að Brown tók við leiðtogahlutverki flokksins af Tony Blair og bíður eftir forsætisráðherratigninni. Það er fyrirsjáanlegt bragð fjölmiðla til að spinna atburðarás.

David Cameron, leiðtogi Íhaldsflokksins, var reyndar skotfljótur og taktískur við að hugsa þennan leik til enda og gaf út sérstaka yfirlýsingu svo til um leið og Sky og BBC hófu fréttaflutning um þennan orðróm um kosningar fljótlega til að fagna sérstaklega því að Brown hugsaði um að sækjast eftir eigin umboði og benti á að Gordon Brown yrði forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi Verkamannaflokksins án þess að hljóta eitt einasta atkvæði, hafa fengið embættin því sem næst á silfurfati í raun, þrátt fyrir áralanga plottvinnu vissulega á bakvið tjöldin. Með því sló hann vopnin úr höndum Brown, hafi hann þ.e.a.s. lekið þessu sem er ekki víst reyndar.

Það eru aðeins tvö ár frá síðustu þingkosningum í Bretlandi. Í aðdraganda kosninganna 2005 hét Tony Blair því að gegna embætti forsætisráðherra út þriðja kjörtímabilið, sem hann var kjörinn til að gegna leiðtogahlutverki í. Hann gat ekki staðið við þau orð vegna innri ólgu innan Verkamannaflokksins og allt að því uppreisn Brown-manna og lykilaðila tengdum þeim gegn honum á bakvið tjöldin. Flauelsbylting var í raun gerð gegn Blair í september 2006 og hann gaf upp tímaramma endalokanna sér mjög á móti skapi. Stór þáttur þessa var auðvitað veikur þingmeirihluti en Blair missti ægivald sitt um leið og kosningaúrslitin lágu fyrir í maí 2005. Þau þýddu að tími hans sem hins sterka væri í raun lokið. Það fór enda svo.

Það er reyndar að mínu mati nokkur fjarstæða að telja Gordon Brown með öllu umboðslausan stjórnmálamann er hann tekur við forsætisráðherraembættinu af Tony Blair. Segja má að Gordon Brown hafi verið sigurvegari kosninganna vorið 2005 merkilegt nokk, en ekki Tony Blair, eins og í hinum tveim kosningasigrum flokksins. Blair leiddi vissulega flokkinn áfram til valda í hið sögufræga þriðja kjörtímabil en hann var ekki sá sem varð aðalstjarnan í raun, eins merkilegt og það hljómar. Það var Brown sem halaði inn sigur flokksins og var meginpunktur kosningabaráttu flokksins. Hann fylgdi Blair eftir hvert fótmál og var sá sem mesta athyglin snerist um.

Segja má að Gordon Brown hafi verið eins og skugginn á eftir forsætisráðherranum alla baráttuna og á hann var baráttan markaðssett. Blair var fastur í neikvæðri umræðu, einkum var hann þakinn nöprum skuggum Íraksstríðsins, og beinlínis orðinn óvinsæll og því notuðu menn niðurstöður kannana og drógu Brown fram og tefldu meginpunkta baráttuna á honum. Þetta var merkileg þróun í ljósi þess hvernig Blair var alla tíð fram að því aðalsegull flokksins á kjósendur. Nú varð hann hinsvegar eins og aðskotahlutur. Flokkurinn vissi varla hvernig ætti að auglýsa hann upp og beindu því miðpunktinum að mestu annað og fengu Brown fram í sviðsljósið með Blair.

Eitt merkilegasta slagorð kosningabaráttunnar 2005 í huga gárunganna varð enda; Vote Blair – Get Brown. Svo fór að lokum. Blair gat ekki setið til enda vegna óvinsælda sinna og veikrar stöðu á öllum vígstöðvum. Svo fór að kjósendur fengu Brown. En þrátt fyrir það tekur Gordon við embættinu í krafti kosningasigurs sem verður alla tíð tengdur Tony Blair með einum hætti eða öðrum. Það gæti þó orðið tvíeggjað sverð að boða til kosninga, svo skömmu eftir vond úrslit í byggðakosningum, þó kannanir sýni einhverja bylgju með Brown sem skiljanlegt er með Blair á útleið.

Það verður fróðlegt að sjá hvað Skotinn gerir. Gordon Brown hefur alla tíð reynt að sjá fyrir marga leiki í einu í refskák stjórnmálanna. Þar er hann snillingur. Hann mun eflaust ekki ana að neinu, þó það kitli hann eflaust að leita eftir umboði og reyna með því að snúa hlutunum æ meir sér í hag. Á meðan reynir Davíð Cameron að fella skoska golíatinn. Þetta verða spennandi tímar sem taka við með brotthvarfi Blair og allra augu verða á því hvenær þingkosningar verða í raun. Þar liggur stóra spurningamerkið í upphafi forsætisráðherraferils Gordons Brown.

Ready to serve - skemmtileg klippa

mbl.is Cameron hvetur Brown til að boða til kosninga strax
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hasta la vista Tony!

Schwarzenegger og Blair Það hefði eflaust einhverjum þótt það óraunverulegt þegar að Tony Blair tók við völdum í Downingstræti 10 í maíbyrjun 1997 að síðasti opinberi gestur hans þar yrði Arnold Schwarzenegger, hinn heimsþekkti kvikmyndaleikari sem síðar varð vinsæll stjórnmálamaður sem ríkisstjóri gullna ríkisins Kaliforníu. En sú verður nú raunin. Blair hefur síðasta embættisdag sinn, á morgun, miðvikudag, með því að taka á móti repúblikananum Schwarzenegger og ræða við hann.

Arnold Schwarzenegger hefur á stjórnmálaferli sínum verið ötull talsmaður umhverfismála og látið þann málaflokk mjög til sín taka. Hann mun fara til London til að sitja umhverfisráðstefnu. Hann sóttist eftir fundi með Tony Blair, sem verið hefur einn nánasti bandamaður George W. Bush, forseta Bandaríkjanna og forystumanns flokks ríkisstjórans, eflaust til að ræða um loftslagsmál og umhverfið almennt. Með því verður hann síðasti opinberi gesturinn sem heimsækir Tony Blair og það aðeins sex klukkutímum áður en forsætisráðherrann heldur til drottningar til að biðjast lausnar. Með öðrum orðum, þetta verður eitt síðasta embættisverk hans í Downingstræti.

Þetta er auðvitað vissulega kaldhæðni. Það væri nú vonandi að Schwarzenegger rifjaði upp frægan kvikmyndafrasa sinn úr myndinni Terminator 2: Judgment Day, Hasta La Vista Baby, er hann kveður forsætisráðherrann fráfarandi í lok heimsóknarinnar.

mbl.is Schwarzenegger síðasti gestur Blairs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sex ára dreng bjargað frá drukknun á Akureyri

Synt á Akureyri Það er víst óhætt að segja að tæpt hafi staðið með sex ára strák í sundlauginni hér á Akureyri sem var nærri drukknaður. Fyrir snarræði viðstaddra tókst að afstýra því að illa færi. Það var mikil mildi að þarna voru sjúkraliði og starfsmenn frá slökkviliðinu, fólk sem kunni til verka og gat tekið á stöðunni fljótt og vel.

Ég fór í sund á fimmta tímanum og hef því verið nýfarinn þegar að þetta hefur gerst. Það var virkilega gott veður á Akureyri í dag, yndislegur sumardagur eins og þeir gerast bestir um hásumar. Það voru því margir sem fóru í sund og nutu þessa góða dags. Það er orðið langt síðan að tilfelli af þessu tagi hefur gerst í sundlauginni hér og er nöturlegt að verða vitni að svona slysi.

Það er mikilvægt að þeir foreldrar sem fara með börnin sín í sund fylgist vel með þeim. Annars getur svona gerst hratt og verður erfitt við að eiga. Þar skipta fyrstu viðbrögð öllu máli og það er gott að vita hversu vel gekk þarna, en þar munaði svo sannarlega litlu að verulega illa færi.

mbl.is Sex ára dreng bjargað frá drukknun í Sundlaug Akureyrar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bílslys við húsið hjá mér

Það er orðið mjög langt síðan að mér hefur brugðið eins mikið og þegar að ég kom heim í Þórunnarstrætið á sjötta tímanum. Ég sá í fjarska hér ofar í götunni að fyrir utan húsið mitt voru lögreglubílar og sjúkrabíll. Þegar að nær kom sá ég að árekstur hefði orðið beint fyrir framan húsið og tveir bílar mjög illa klesstir þar. Glerbrot og lakkflísar á götunni auðvitað og fólk um allt, svo að ég gerði mér ekki fyrst grein fyrir hvort meiðsl hefðu orðið á fólki.

Til allrar guðs lukku fór þetta ótrúlega vel, miðað við aðstæður, og engin alvarleg slys á fólki sem voru í bílunum, ökumaður í öðrum bílnum var reyndar í miklu losti og hlaut vont högg en slapp ótrúlega vel. Beltin skiptu máli í þessu, eins og öðrum tilfellum slíkum. Þannig að það róaðist yfir mér. Ég man ekki eftir því að árekstur hafi verið hér á þessum bletti Þórunnarstrætisins síðan að ég flutti hingað fyrir nokkrum árum. Hinsvegar er auðvitað mikil umferð um götuna allan sólarhringinn, enda er þetta ein af lykilgötum bæjarins.

En já, það er allt gott sem endar vel, en það er alltaf óþægilegt að sjá svona bílakost fyrir utan heimilið sitt. Það er alveg á hreinu.

Banaslys á Kárahnjúkum

Minningarkrossinn í Kirkjugarði AkureyrarÞað er sorglegt að heyra fréttir af banaslysi við Kárahnjúka. Þetta er sennilega það fimmta á framkvæmdaskeiðinu. Það er auðvitað svo að við tæknilega erfitt og tröllvaxið verkefni geta orðið slys en þetta er samt sem áður orðinn mikill fórnarkostnaður sem hefur orðið. Það er alltaf sorglegt þegar að það verða slys og fólk lætur lífið við vinnu sína, sama hvort það er á Kárahnjúkum eða til sjós og lands.

Það er erfitt um að segja hvað gerir það að verkum að þessi slys verða. Það verður að kanna vel aðbúnað þarna og ennfremur auðvitað hvort að öll öryggisatriði séu í lagi. Mér finnst það vissulega of mikið að fimm einstaklingar láti lífið við verk af þessu tagi. Það finnst öllum. Það er alltaf dapurlegt þegar að einstaklingur deyr við vinnu sína, sama hvert verkið er.


mbl.is Lést á leið í sjúkraflugið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björgvin og Raggi syngja loks saman dúett

Björgvin og Raggi Björgvin Halldórsson og Ragnar Bjarnason eru með fremstu söngvurum íslenskrar tónlistarsögu og eru fulltrúar tveggja kynslóða í bransanum. Þrátt fyrir samofna sögu árum saman í tónlistinni hafa þeir þó aldrei sungið saman lag opinberlega, hvorki á sviði eða á plötu, sem er með ólíkindum eiginlega. Það breytist nú þegar að þeir syngja saman á nýjustu Íslandslagaplötunni.

Það er viðeigandi að þeir syngi saman undurfagurt lag Ragga sjálfs við glæsilegt ljóð Steins Steinarrs, Barn. Lagið var samið í upphafi áttunda áratugarins og er eitt besta lagið sem Raggi hefur sungið á löngum tónlistarferli. Ég verð að viðurkenna að ég áttaði mig ekki á því fyrr en ég sá þessa frétt að þeirra leiðir hefðu aldrei legið saman í dúett með neinu tagi fyrr en núna, eiginlega seint og um síðir.

Þetta eru svo áberandi fulltrúar íslenskrar tónlistar fyrr og nú að það er með ólíkindum að svo seint komi að því að þeir taki lagið saman. Það er jafnan svo mikið um dúetta og allskyns útgáfur að það er mjög spes að aldrei hafi nokkrum manni dottið í hug að láta þá syngja saman. Það verður áhugavert að heyra lagið Barn í þessari útsetningu.


Viðbót - kl. 19:30
Nýrri útgáfa lagsins Barn í flutningi Ragnars Bjarnasonar, frá árinu 2004, er í spilaranum hér á síðunni minni.

mbl.is Björgvin Halldórsson og Ragnar Bjarnason syngja saman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Melódramatísk kveðjustund í Westminster

Tony Blair Tony Blair, fráfarandi forsætisráðherra Bretlands, mun síðdegis kveðja formlega þingmenn flokksins á fundi í þinghúsinu í Westminster, en hann lætur af völdum eftir tvo sólarhringa. Það hlýtur að svífa melódramatískt andrúmsloft yfir þeirri kveðjustund. Ég hallast þó að því að flestir þingmennirnir séu dauðfegnir að vera að losna við Blair úr pólitísku myndinni sinni eftir langa bið og eins hann að losna við samskipti við óþægustu þingmennina sem hafa í raun verið óþægur ljár í þúfu hans allt frá leiðtogakjörinu sumarið 1994.

Blair hefur allt kjörtímabilið verið nær í gíslingu sumra óbreyttra þingmanna Verkamannaflokksins, sérstaklega þeirra sem lengst hafa verið til vinstri, og þeir hafa storkað honum mjög í ljósi veikari þingmeirihluta. Það varð þegar ljóst á kosninganótt í maí 2005 að veikur þingmeirihluti þýddi minna svigrúm Blairs við völd. Það myndi aðeins verða spurning um hvenær en ekki hvort mál hans myndu frjósa í meðförum þingsins og hann gæti ekki notað járnviljann einan til að keyra mál í gegn. Veikur meirihluti gerði ægivald hans að engu og hann hefur aldrei verið þekktur fyrir að vera sterkur samningamaður við þennan arm flokksins.

Í ítarlegum pistli eftir þingkosningarnar í Bretlandi í maí 2005 sagði ég orðrétt: "Það blasir því í senn bæði annað pólitískt landslag og nýr pólitískur veruleiki við Tony Blair á afmælisdeginum, eftir að hann hefur tryggt sér þriðja kjörtímabilið við stjórnvölinn. Búast má við því að hann þurfi nú mun frekar að semja við óánægjuöflin í flokknum og það verði því bæði erfiðara fyrir hann að ná í gegn málum sínum gegnum þingið og að stjórnarandstaðan eigi auðveldara með að höggva í hann og veita honum pólitíska áverka í ljósi naumari meirihluta." "Blair hefur því veikst til muna og verður vart úr þessu hinn sterki leiðtogi sem keyrir mál í gegn og þarf ekki að láta óánægjuöfl innan flokksins ráða stefnumótun sinni. Nú þegar meirihlutinn er aðeins um 70 sæti breytist því staðan að þessu leyti." Þetta voru orð að sönnu.

Þetta þriðja og síðasta kjörtímabil Tony Blair varð honum erfitt, ég tel eiginlega rétt að segja erfiðara en ég spáði eiginlega um í pistlinum í maímánuði 2005. Það var reyndar virkilega gaman að grafa upp þennan pistil og lesa það sem ég skrifaði daginn eftir kosningarnar. Það hefur margt komið á daginn eftir það og þetta var skemmtileg samantekt um þennan veruleika sem Blair vaknaði við með úrslitunum og því sem á eftir fylgdi. Sennilega var ósigurinn í þinginu í nóvember 2005 honum erfiðastur og ég skrifaði pistil um þau mál á þeim tíma. Ég var reyndar ekki sannspár þá um hvenær að hann myndi hætta, þó að hann hafi í raun klárast sem sterkur leiðtogi með því tapi.

Tony Blair á sér merkilega pólitíska sögu að baki. Hann hefur alla tíð verið að mínu mati leiðtoginn með hugsunarhátt ljónsins. Hann hefur lagt í vana sinn að gefast ekki upp og berjast meðan hann getur staðið í lappirnar. Hann gerði hlutina eftir sínum hætti en ekki annarra. Það er honum sennilega tilhlökkun að losna úr því hlutskipti að vera þjónn þeirra sem hafa hatað hann, órólegu deildarinnar. Hann kveður þá sennilega með súrsætu gleðibrosi í dag.

Vangaveltur um ástæður lokunar bloggvefs Emils

Það hefur mikið verið rætt og ritað í morgun um lokun moggabloggssíðu Emils Ólafssonar. Það er sagt að hann hafi lokað sjálfur og margt annað bent á svosem. Ég trúi því nú pent að hann hafi tekið það upp hjá sjálfum sér að loka. Skrif hans síðustu dagana voru ekki beint þessleg að hann ætlaði að fara að draga sig í hlé og bloggast undir leyninafni. Hann skrifaði frekar nöturlega til Áslaugar og Ellýjar sem urðu um tíma ofar en hann á vinsældalista og þau skrif gáfu ekki beint til kynna að hann ætlaði sér að draga sig út úr samfélaginu.

Hvað með það. Ætla ekki að velta mér meira upp úr þessu máli. Það er hinsvegar mitt mat að fólk sem á greinilega við vandamál að stríða eigi ekki að auglýsa sig á vinsælasta fréttavef landsins. Það féllu mörg heit orð frá þessum bloggara, orð sem gleymast ekki og voru fyrir neðan allt eðlilegt. Þau voru til skammar fyrir þetta bloggkerfi, ég fer ekki ofan af því. En vonandi geta menn sett sér eðlileg siðleg mörk hérna varðandi bloggskrif, sumt á heima á virtu bloggkerfi og annað ekki.

Ég held að allir séu sammála um það. Það er eðlilegt að hver og einn hafi svigrúm til skrifta með sínu tagi, en öllu frelsi í tjáningu verða að fylgja eðlileg mörk.

Tekið á vandamáli á Moggablogginu

Ég sé að stjórnendur hér á Moggablogginu hafa tekið á því vandamáli sem hér hefur verið síðustu dagana í tilfelli einnar bloggsíðu hér, því sama bloggi og ég vék að vegna ógeðfelldra ummæla um kvenréttindi. Það er ánægjulegt að stjórnendur vilja halda standard á skrifunum hér og taka fyrir þá sem brjóta þann ramma sem á að vera utan um þetta bloggkerfi. Það skiptir máli í krísustandi að stjórnendur þori að taka af skarið og taka út þá sem eru gagngert að skemma bloggsamfélagið hér eða lækka standard þess.

Nýtt upphaf fyrir vinstriflokk á krossgötum

Gordon Brown og Harriet HarmanNý forysta hefur tekið við völdum í breska Verkamannaflokknum. Það verður þó seint sagt um Gordon Brown og Harriet Harman að þau séu ferskustu andlitin í breskum stjórnmálum, en kjör þeirra markar þrátt fyrir það algjöra uppstokkun í forystusveit flokks sem hefur verið við völd í áratug og þarf svo sannarlega að stokka sig rækilega upp til að eygja möguleika á að halda völdum fjórða kjörtímabilið í röð, eftir ýmis vandamál og skandala sem hefur fylgt honum á vegferð síðustu ára.

Þrátt fyrir það leikur auðvitað enginn vafi á því að það eru þáttaskil sem fylgja brotthvarfi Tony Blair og John Prescott úr forystusveit breskra stjórnmála. Þeir hafa báðir helgað sig pólitísku starfi áratugum saman og verið lykilmenn valdaskeiðs flokksins og leiddu hann til valda, vissulega með hjálp annarra. Þeir voru ólíkt teymi í forystu en höfðu sinn hvorn kjarnann sem máli skipti til að halda jafnvægi innan flokksins. Engu að síður má segja með sanni að þeir hafi báðir verið búnir að upplifa sitt besta pólitískt fyrir löngu og verið orðnir mjög þreyttir. Hneykslismál hafa fylgt lengi Prescott og Blair er orðinn mæddur eftir hæðótta gleðiferð valdanna.

Nafn Tony Blair mun verða áberandi í breskri sögu, þó að hann hafi verið umdeildur stóran hluta valdaferilsins. Líkt og Margaret Thatcher afrekaði hann að ríkja í rúman áratug, sigra í þrennum þingkosningum og hafa níu líf kattarins, en missa þó fótanna illa þegar að þeim sleppti. Blair mun ennfremur fá þann sess að hafa verið sigursælasti leiðtogi flokksins. John Prescott var lykilmaður úr verkalýðskjarnanum í Hull og vann sig ötullega áfram í eyðimerkurtíðinni nöpru í leiðtogatíð Neil Kinnock og síðar í undirbúningi gullaldaráranna eftir tapið auðmýkjandi 1992 við hlið John Smith, Tony Blair og Gordon Brown. Þegar að Smith dó komst Prescott til forystu.

Gordon Brown hefur beðið lengi eftir tækifærinu til að leiða flokkinn sinn. Nú þegar að Blair hverfur af sviðinu reynir á hann og hvernig honum gangi. Hann tekur við veiku búi, þrátt fyrir að hann taki við starfhæfum þingmeirihluta og rótgrónum valdaflokki. Hann horfir fram á að Tony Blair hefur skilið eftir sig svo sviðna pólitíska jörð eftir tíu ára valdaferil að varla stendur steinn yfir steini. Hann tekur í arf óvinsælar ákvarðanir, vonsvikna þjóð, skaðleg hneykslismál og klofinn flokk sem hefur mjög lengi horft í fylkingamyndum til framtíðar. Enn eru þeir til sem telja að Brown geti ekki unnið kosningar - hann sé ekki sterkur leiðtogi. Nú reynir á hvað hann getur gert.

Gordon Brown er vissulega vandi á höndum þegar að hann flytur í Downingstræti 10 á miðvikudag og losnar loksins við Tony Blair úr pólitísku lífi sínu, eftir að hafa beðið árum saman eftir að ná að byggja sig upp til valda án hans. Hann mun eflaust velja nýtt fólk til áhrifa og stokka hlutina upp með mjög áberandi hætti. Ég held að það sé óhætt að búa sig undir gjörbreytta ríkisstjórn Verkamannaflokksins síðar í vikunni þar sem mörg traustustu Blair-nöfnin fjúka til hliðar eða hafa hætt og þeir sem helst hafa fylkt Skotanum fá umbun erfiðisins, sæti við skör meistara síns. Það er viðbúið að Verkamannaflokkurinn fari aftur í ræturnar sínar, horfi meira til vinstri og stokki sig upp til að eygja von á að vinna í næstu kosningum. Þar er stærsta verkefni Browns.

Harriet Harman vann varaleiðtogastöðuna mörgum að óvörum. Hún er sjóaður pólitíkus sem hefur bæði upplifað gullna og dimma daga pólitískt. Hún var í fyrsta ráðuneyti Tony Blair vorið 1997 en var látin gossa ári síðar, féll í ónáð og var sparkað út í horn eins og hverju öðru rusli sem ekki þóknaðist forsætisráðherranum. Hún beið þó af sér vondu tímana en hefur síðan verið algjör hliðarkarakter í raun að margra mati. Framboð hennar í varaleiðtogastöðuna vakti athygli í ljósi alls sem á undan er gengið. Það að henni tækist að sigra Alan Johnson vekur mikla athygli og það mátti sjá undrunarsvip á flestum á staðnum. Naumur var þó sigurinn og Johnson átti erfitt með að brosa í gegnum tárin. Pólitísk upprisa kjarnakonunnar Harman eru mikil tíðindi svo sannarlega.

Gordon Brown og Harriet Harman virka sterkt tvíeyki sem vegur hvort annað upp. Hann hefur skosku ræturnar og hefur sterkt umboð úr þeim kjörnum sem eru mikilvægir þar og víðar um lönd. Hún er þingmaður á Londonsvæðinu og er frá suðurhluta landsins. Þau falla því vel saman og virka sterk blanda, þó að bæði hafi verið á pólitísku landakorti um langt skeið og komi varla mjög að óvörum sem stjórnmálamenn í framlínu. En kannski geta þau skilað árangri saman. Það er greinilegt að Brown lagði drögin að því að Harman yrði við hlið hans og öðrum fremur getur Harriet Harman þakkað Skotanum tækifærið. En ætlar Brown henni öflugt ráðuneyti og veigamikinn sess eða bara að vera verkamaður innra starfsins bakvið tjöldin. Það ræðst á miðvikudag.

Það eru spennandi tímar í breskum stjórnmálum. Þrátt fyrir að Gordon Brown hafi brosað breitt og notið sín í botn í Manchester um helgina hlýtur hann samt að vera hugsi yfir því að hann varð leiðtogi flokksins án kosningar. Það hafði enginn afl til að leggja í hann og enginn gat látið reyna á stöðu sína gegn honum. Blokkirnar sömdu einfaldlega frið til að eygja von á að halda völdunum í næstu kosningum. Það er vissulega merkilegt að Gordon Brown verður forsætisráðherra á fundi hennar hátignar drottningar á miðvikudag án þess að hafa hlotið kjör flokksmanna sem flokksleiðtogi né þjóðarinnar sem forsætisráðherra, þó vissulega hafi hann verið lykilspilari í kosningasigrinum 2005.

Gordon Brown hefur loksins fengið það sem hann vildi. Gangan að völdunum varð auðveld er á reyndi. Blair-armurinn lagði niður skottið og sætti sig við ægivald hins snjalla plottmeistara pólitískrar refskákar. Nú sitja helstu andstæðingar hans á valdaferli Tony Blair innan Verkamannaflokksins við fótskör hins nýja húsbónda og bíða eftir því að sjá hver örlög þeirra verða. Brown fékk krýninguna sem hann vildi. Sir John Major varð þrátt fyrir allt þó forsætisráðherra árið 1990 eftir flokkskjör um leiðtogastöðuna, hann varð að leggja tvo keppinauta á vegferð sinni til að taka við af Margaret Thatcher, þótt honum tækist aldrei að leiða bresk stjórnmál án hjálpardekkja.

Brown gengur rauða dregilinn að Downingstræti 10 eins og konungur á leið í krýninguna sína. Engin keppni né átök þurfti til, þó að pústað hafi bakvið tjöldin oftar en tölu verði á komandi á síðustu fjórum árum. En nú reynir á hann, ella verður að honum sótt. Hann veit sem er að tap eftir tvö ár gengur frá ferli hans. Hann mun reyna allt til að halda völdum. Að mörgu leyti minnir hann marga, þar á meðal mig, á Francis Urquhart í frægum sjónvarpsþáttum í túlkun Sir Ian Richardson. Ekki er hann allavega síðri plottari. En mun allt plottið skila árangri er á hólminn kemur?

Það verður fróðlegt að sjá hvað tekur við þegar að Tony Blair keyrir út í hið pólitíska sólarlag frá drottningunni á miðvikudag og Gordon Brown losnar við þann sem hélt honum á hliðarlínunni lengur en hann vildi. En mun skuggi Blair fylgja áfram? Verður hann sem vofa á alþjóðavettvangi í nýju hlutverki prómóteraður af Bush-stjórninni? Það verður fróðlegt að fylgjast með forsætisráðherratíð Gordon Brown og öllu því sem gerist í aðdraganda þingkosninganna þegar að Davíð Cameron reynir að fella hinn skoska golíat.


Munurinn á milli bresks leiðtoga og formanns

Gordon Brown og Tony Blair Stærsta frétt dagsins eru leiðtogaskiptin í breska Verkamannaflokknum. Mikið hefur um það verið fjallað í fjölmiðlum, ekki síður hérna heima. Eitt fer þó óendanlega mikið í taugarnar á mér yfir umfjöllun um þessi leiðtogaskipti og reyndar suma hina fyrri á þeim vettvangi. Það er að sumir íslenskir fjölmiðlar þekkja ekki muninn á leiðtoga og formanni.

Það var t.d. athyglisvert að sjá í kvöldfréttum Stöðvar 2 og sumum netfréttamiðlum að Gordon Brown var æ ofan í æ nefndur formaður breska Verkamannaflokksins. Eins og allir vita er titillinn leader, það er leiðtogi. Í breskum stjórnmálaflokkum er enda tvennt ólíkt að vera formaður eða leiðtogi. Leiðtogi er sá sem er andlit flokksins og leiðir hann út á við, er auðvitað forsætisráðherra sé flokkurinn í stjórn og er talsmaður hans út á við og inn á við. Formaðurinn er sá sem stjórnar innra starfinu og heldur í þræði þess sem gerist þar mun frekar en leiðtoginn.

Til dæmis var Hazel Blears formaður Verkamannaflokksins. Hazel tapaði illa í varaleiðtogakjöri kratanna í dag og varð í sjötta sæti. Brown tilkynnti reyndar í ræðu sinni í dag að hér eftir myndi varaleiðtoginn gegna þessum skyldum. Í raun er því verið að festa varaleiðtogann í þeim sessi að sinna því sem sinna þarf inn á við. Ekki er þetta ósvipað hérna heima en jafnan er varaformönnum falin leiðsögn innra starfsins þó þeir séu misduglegir við það oftast nær.

Í Bretlandi er því staða mála gjörólík því sem við venjumst hérna heima. Það er því kannski skiljanlegt að fjölmiðlar ruglist á þessu en það er samt sem áður vandræðalegt. Reyndar eru bresk stjórnmál ólíkt meira völundarhús og meira kerfisbákn en þau íslensku og skiljanlegt að þar sé málum skipt öðruvísi niður en í smáu landi og kerfi á við okkar.

Átök í skjóli nætur

Það er fjarri því að verða stórfréttir núorðið að heyra eða sjá umfjöllun um fjöldaátök eða að hinn og þessi hafi annað hvort verið barinn í klessu eða stunginn í skjóli nætur, eða jafnvel hreinlega verið drepinn. Það er ekki langt frá því að fréttir voru um tilfelli í miðbæ Reykjavíkur þar sem maður var t.d. barinn og rændur eftir að hafa verið lokkaður inn í húsasund. Datt þetta einhvernveginn allt í hug þegar að ég las þessa frétt um fjöldaátök í austurbæ Reykjavíkur, þar sem vafi lék á hvort einn viðstaddra hefði verið stunginn eður ei.

Við erum svosem ekkert sérstök með fréttir af þessum óhugnaði. Eflaust er þetta um allan heim í mismiklu mæli og varla er þetta eitthvað einsdæmi hér. En þetta er samt að aukast sífellt hérna heima. Róleg hverfi geta orðið vígvöllur um helgar og jafnvel er fólk ekki orðið óhult við að fara út að skemmta sér að helgarnóttu, það hafa dæmin sannað. Sumir hafa verið barðir svo illa í miðbæ Reykjavíkur um nótt að þeir hafa annaðhvort dáið eða bera merki þess alla tíð eftir það. Þetta er ömurlegt ástand.

Ég hugsa oft um það hvernig samfélagið okkar sé. Það er auðvitað alltaf best að trúa á hið besta í hverjum og einum en einhvernveginn efast maður um það allt saman þegar að fréttir af þessu tagi hrannast yfir morguninn eftir helgarkvöld eða jafnvel á virkum degi. Þetta er eiginlega orðið ástand sem vekur orðið of mikla athygli til að maður hugsi ekki um það.

Eða er þetta kannski orðið svo algengt ástand að maður er hættur að kippa sér upp við það. Erfitt um að segja. Hvað mig varðar finnst mér þetta ástand sem er ekki hægt að horfa framhjá. Þetta fær mann til að hugsa um hvert við stefnum og hvernig samfélagið sé. Það er mjög einfalt mál.

mbl.is Óþekkt áhald notað í fjöldaátökum í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lifir samband Vilhjálms og Kate af sér storminn?

William og Kate Það var mjög áhugavert að sjá á Skjá einum í gærkvöldi nýtt bandarískt viðtal við bræðurna Vilhjálm og Harry, sem tekið var í minningu þess að áratugur er liðinn frá því að móðir þeirra, Díana, prinsessa af Wales, lést í bílslysi, í kastljósi fjölmiðlanna í heimsborginni fögru París. Mér finnst eiginlega með ólíkindum að það sé orðinn áratugur síðan að Díana dó. Það var svipleg endalok á miklum fjölmiðlahasar á eftir Díönu. Hún dó, rétt eins og hún lifði, í myndavélablossa. Kaldhæðnin verður ekki sorglegri en það tel ég í raun og veru.

Vilhjálmur og Harry voru í erfiðum sporum fyrir áratug. Ekki aðeins þurftu þeir að kveðja móður sína án þess að geta í raun kvatt hana í sjálfu sér áður en hún dó, heldur þurftu þeir að syrgja í kastljósi fjölmiðla. Þar var enginn friður í raun. Dauði Díönu varð svo mikill fjölmiðlahasar í sjálfu sér að sorg í einrúmi, sem flestir telja sjálfsagðan og eðlilegan hlut eftir að nákominn ættingi deyr í skelfilegu slysi, varð ekki valkostur. Þeir náðu þó að bera þessar þungu byrðar aðdáunarlega vel og sérstaklega var Vilhjálmur sterkur þetta sumar. Hann hefur þó þurft að lifa síðan í sama fjölmiðlahasarnum og mamma hans var partur af allt til hinstu stundar.

Það var alltaf viðbúið að fjölmiðlar myndu fylgja Vilhjálmi eftir hvern spöl ævinnar allt frá því að hann yrði átján ára gamall og sérstakt samkomulag Karls, föður hans, við fjölmiðla eftir móðurmissinn rynni út. Það reyndist raunin sérstaklega þegar að hann varð ástfanginn af Kate Middleton og sóttist eftir sambandi við hana og ræktaði það. Það varð kaldhæðnislegt hversu fjölmiðlar hundeltu Kate hvert spor daglega lífsins eftir að sambandið varð opinbert. Kaldhæðnislega var flótti hennar undan ágengnum ljósmyndurum og fréttamönnum áberandi líkt því sem Díana þurfti að lifa við í tilhugalífinu með Karli prins.

Díana kvödd Að því kom að sambandið bognaði og þau gáfust upp. Það var vissulega skiljanlegt. Það er ekki öllum gefið að brosa sig í gegnum þennan ömurlega fylgifisk frægðar og eða þess hlutverks sem fylgir ævihlutverki Vilhjálms. Hann er ekki aðeins prins með skyldur. Hann er framtíðarþjóðhöfðingi Englands og mun fyrr en síðar takast á hendur skyldur þjóðhöfðingjans.

Hvort að það gerist við fráfall ömmu hans eða föður er ómögulegt um að segja í raun á þessari stundu, en það er greinilegt á skoðanakönnunum þó að Bretar hafa alla tíð viljað að hann tæki við af Elísabetu II. Það var ennfremur ósk móður hans sem gerði upp við alla kergjuna í garð Karls í ógleymanlegu viðtali tveim árum áður en hún dó.

Það var mjög ánægjulegt að sjá frétt um það að Vilhjálmur og Kate ætla að reyna aftur. Vonandi tekst þeim að rækta líf í þessum myndavélablossum sem hlýtur að vera þungbær fylgifiskur þess lífs sem fylgir væntanlegum krónprinsi Englands. Það er líf sem enginn getur flúið sama hversu þungt það getur orðið.

Að mínu mati hefur Vilhjálmur eflst við hverja raun. Hann er lifandi eftirmynd Díönu og virðist hafa erft stillingu hennar og tignarlegan þokka, sem faðir hans hefur aldrei haft til að bera. Hann á eftir að verða glæsilegur kóngur, fyrr en síðar.

mbl.is Vilhjálmur og Kate saman á ný?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gordon Brown tekur við af Blair sem flokksleiðtogi

Gordon BrownGordon Brown, verðandi forsætisráðherra Bretlands, hefur tekið formlega við leiðtogahlutverkinu í Verkamannaflokknum af Tony Blair, fráfarandi forsætisráðherra, eftir þrettán ára napra bið á hliðarlínunni eftir fullum völdum og áhrifum. Gordon Brown var á sínum tíma í huga margra hinn eini sanni arftaki læriföður síns, skotans John Smith, er hann varð bráðkvaddur fyrir þrettán árum en þá ákvað hann að leyfa Tony Blair að fá tækifærið gegn samkomulagi um að hann tæki síðar við.

Seint og um síðir, og eftir fræg svik og stingandi kulda í samskiptum þeirra, er nú komið að valdaskiptunum, sem allir hafa í raun beðið eftir frá kjöri Blairs. Það varpar reyndar miklum skugga á þennan sögulega dag fyrir Verkamannaflokkinn er sigursælasti leiðtogi hans kveður flokksforystuna og býr sig undir að flytja úr Downingstræti að leki út upplýsingar um að hann hafi viljað sparka Brown úr fjármálaráðuneytinu, þar sem hann hefur ríkt á ellefta ár, í aðdraganda þingkosninganna 2005, er samskipti þeirra voru við frostmark. Brosin á andlitum Blairs og Browns virkuðu þó sönn áðan.

Gordon Brown er í þessum skrifuðum orðum að lýsa framtíðarsýn sinni fyrir bresku þjóðina og flokkinn sem hann hefur loks fengið tækifærið til að leiða í ræðu í Manchester, þetta er löng ræða og vægast sagt vel undirbúin. Gordon er búinn að bíða lengi og var orðinn úrkula vonar um tíma, taldi að sótt yrði að sér úr herbúðum forsætisráðherrans fráfarandi. Að lokum fór svo ekki, það var ekki lagt í átök og sundrungu í aðdraganda brotthvarfs Blairs. Eflaust réði þar miklu sífellt versnandi staða Verkamannaflokksins í skoðanakönnunum og tilkoma nýs og sigurstranglegs leiðtoga í Íhaldsflokknum, sem virðist vera að rísa úr öskustónni eftir afhroðið mikla 1997 og töpin skaðlegu 2001 og 2005. Brown var sá eini sem blasti við og átök við hann hefðu getað skaðað kjarna flokksins svo mjög að næstu kosningar væru fyrirfram tapaðar.

Það má búast við miklum breytingum í breskum stjórnmálum á næstu dögum. Endalok stjórnmálaferils Tony Blair, sem hefur ríkt sem risi í pólitísku landslagi Bretlands frá kosningasigrinum sögulega 1997, boðar þáttaskil fyrir flokk og þjóð. Þrátt fyrir að vera flokksfélagar og um margt samherjar í verkum áranna tíu eru þetta tveir gjörólíkir menn. Verklag þeirra og kraftur er ólíkur og það verða miklar breytingar fyrir bæði flokkinn og þjóðina að fylgjast með þessum valdaskiptum. Búast má við að Brown muni sem forsætisráðherra stokka stjórnina upp mjög róttækt, valdamiklum ráðherrum Blair-tímans, sem ekki þegar hafa yfirgefið sviðið, verður sparkað og þeir sem trúastir hafa verið Skotanum fá tækifæri sem þeir fengu aldrei áður.

Gordon Brown mun sækjast eftir því sem flestir hafa talið ómögulegt um nokkuð skeið, að tryggja fjórða kjörtímabil Verkamannaflokksins við völd í Downingstræti og leika eftir sögulegan árangur Íhaldsflokksins sem ríkti í fjögur tímabil, í átján ár, 1979-1997. Gordon Brown er þó allt annar stjórnmálamaður en Sir John Major var. Major var uppfylling þegar að Thatcher missti fótanna og um margt málamiðlun ólíkra hópa. Það er Gordon Brown ekki. Sem forsætisráðherra mun hann njóta þess að hafa gert flokkinn að sínum stig af stigi og haft óskorað traust til að taka við, þó ekki allir dýrki hann út af lífinu. En það reynir nú á Skotann þegar að hann sækist eftir umboði.

Eftir áratugavist sem maður skuggans á bakvið John Smith og Tony Blair er Gordon Brown nú orðinn einn valdamesti maður heims og leiðir nú bresk stjórnmál. Það er verkefni sem hann hefur þjálfað sig fyrir allt frá því að hann var undir leiðsögn Smiths forðum daga. Nú reynir á hvort að hann hefur það sem hann þarf. Beið hann of lengi eftir völdunum. Það er spurning sem allir spyrja sig að. Svarið ætti að fást fljótlega í forsætisráðherratíð hans og öllum er ljóst að kosningarnar 2009 eða 2010 verða spennandi átök um völd og pólitíska framtíð risanna Brown og Cameron. Aðeins annar brosir þær kosningar af sér.


mbl.is Gordon Brown orðinn flokksleiðtogi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Harriet Harman sigrar - naumur sigur á Johnson

Harriet HarmanHarriet Harman, dómsmálaráðherra Bretlands, hefur verið kjörin varaleiðtogi breska Verkamannaflokksins. Hún sigraði Alan Johnson, menntamálaráðherra, naumlega en aðeins munaði tæpu prósenti á milli þeirra. Harman hlaut 50,3% en Johnson hlaut 49,6%. Sex sóttust eftir stöðunni, sem John Prescott hefur gegnt í þrettán ár. Var tilkynnt um valið með útsláttarfyrirkomulagi. Fyrst datt út Hazel Blears, því næst Peter Hain, Hilary Benn og Jon Cruddas, sem mörgum að óvörum varð í þriðja sætinu. Eftir stóðu því í lokahrinu Harman og Johnson.

Harriet Harman er sextándi varaleiðtoginn í 107 ára sögu Verkamannaflokksins og önnur konan sem gegnir því embætti. Margaret Beckett, sem nú er utanríkisráðherra Bretlands, fyrst kvenna, var kjörin varaleiðtogi Verkamannaflokksins árið 1992 er John Smith varð leiðtogi Verkamannaflokksins. Beckett varð leiðtogi flokksins þegar að John Smith varð bráðkvaddur 12. maí 1994, en andlát hans úr hjartaslagi varð gríðarlegt áfall fyrir flokkinn í þeirri stöðu sem hann var þá í, en talið var þá öruggt að Smith yrði forsætisráðherra. Beckett tapaði í leiðtogakjöri fyrir Tony Blair í júlí 1994 og hætti sem varaleiðtogi.

Harriet Harman hefur lengi verið áberandi bakvið tjöldin og bjuggust fáir við því fyrir nokkrum árum að hún ætti eftir að komast til æðstu metorða innan Verkamannaflokksins við hlið Gordon Brown í forsætisráðherratíð hans, er þrettán ára bið eftir leiðtogaembættinu lýkur. Það hefur blasað við að helstu stuðningsmenn Browns hafa talað máli Harmans og eiginlega má segja að sá stuðningur hafi skipt sköpum fyrir hana, altént í þessari tæpu stöðu.

Það er reyndar auðvitað það skemmtilegasta við kosningar innan Verkamannaflokksins að því er skipt í þrennt í hlutföllum, atkvæði þingmanna, óbreyttra flokksmanna og þeirra sem koma úr verkalýðshreyfingunni. Johnson, sem er gamall verkalýðsleiðtogi, hafði verkalýðsarminn með sér og þingflokkinn en Harman hafði óbreytta flokksmenn með sér greinilega og það skipti úrslitum, enda munurinn innan við prósent.

Harriet Harman mun eflaust fá öflugt ráðuneyti í ríkisstjórn Gordons Brown sem tekur við völdum síðdegis á miðvikudag eftir að Brown hefur þegið stjórnarmyndunarumboð úr hendi Elísabetar II drottningar í kjölfar afsagnar Tony Blair. Það blasir líka við að Harriet Harman verði valdamikill forystumaður, valdameiri en mörgum óraði fyrir þegar að hún féll í ónáð hjá Tony Blair á fyrsta tímabili flokksins við völd.


mbl.is Harriet Harman kosin aðstoðarflokksleiðtogi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband