Ronaldo fer frá Man Utd

Ekki þarf að undra að portúgalski knattspyrnumaðurinn Ronaldo fari frá Manchester United til Real Madrid. Hann hefur sýnt áhuga á tilfærslu þangað mjög lengi og sótti það mjög fast fyrir ári. Þá kæfði gamli jaxlinn Sir Alex Ferguson þær tilraunir í fæðingu við litla hrifningu Ronaldo. Nú fær hann að fara.

Væntanlega mun ungstirnið Macheda fá meiri tækifæri í liðinu og stólað á aðra menn í stað stóru stjörnunnar. Maðiur kemur alltaf í manns stað. Þó verður mikil eftirsjá fyrir stuðningsmenn Man Utd af Ronaldo.

mbl.is United hefur tekið tilboði frá Real Madrid í Ronaldo
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er vinstristjórnin búin að missa Evu Joly?

Mér finnst það frekar vandræðalegt fyrir vinstristjórnina að Eva Joly sé allt að því búin að flýja frá verkefninu sem henni var falið af þeim fyrir nokkrum mánuðum. Ekki er hægt að kenna öðrum um, enda vinstrimenn verið við völd í landinu síðan í febrúar og með full völd. Var ráðning hennar allan tímann ein sýndarmennska?

Af hverju er svona komið eftir öll fögru orðin um mikilvægi þess að Eva Joly stýri rannsókninni og hafi til þess allt sem þurfi? Er staðan kannski sú að Samfylkingin vill ekkert heiðarlega rannsókn eftir allt saman?

mbl.is Eva Joly íhugar að hætta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver verður mótleikur sjálfstæðismanna í Kópavogi?

Ekki þarf að vera mjög spámannlega vaxinn til að átta sig á því að Framsókn mun gera kröfu um bæjarstjóraskipti í Kópavogi í kjölfar skýrslu Deloitte. Einn bæjarfulltrúi þeirra mun ekki taka ábyrgð á þessu máli með stuðningi við Gunnar Birgisson, bæjarstjóra í Kópavogi. Stóra spurningin er því hver mótleikur Sjálfstæðisflokksins verði.

Staða Gunnars veiktist frekar styrktist í viðtalinu í Kastljósi í gærkvöldi. Þar rakst hvað á annars horn og afskaplega erfitt að trúa því að viðskiptin við Frjálsa miðlun sé siðleg og eðlileg. Þetta mál lítur skelfilega út og er pólitískt óverjandi fyrir hvaða flokk sem er, helst af öllum þann sem viðkomandi maður leiðir.

Hvað gera aðrir bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins? Munu þeir allir lýsa yfir stuðningi við Gunnar eða taka til sinna ráða riði meirihlutasamstarfið til falls? Ég á bágt með að trúa því að forystumenn Sjálfstæðisflokksins, bæði í Kraga og Kópavogi, muni láta einn mann dæma hann til minnihlutavistar í Kópavogi.

Heiðarlegast væri að Gunnar viki til hliðar, enda erfitt að sjá hvernig hann geti staðið málið af sér og setið lengur sem bæjarstjóri. Augljóst er að ekki er lengur meirihluti fyrir setu hans á valdastóli ef Framsókn setur fram afarkostina.

Nú reynir á hvort hægt sé að ljúka þessu máli með sóma eða láta það enda í allsherjar tragedíu fyrir alla sjálfstæðismenn í Kópavogi.

mbl.is Ræða næstu skref í Kópavogi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hví eru tillögurnar ekki kynntar strax sem heild?

Mér finnst það alveg forkastanleg vinnubrögð hjá þessari ríkisstjórn að ekki sé tilkynnt um niðurskurðaraðgerðir og skattahækkanir saman í einum pakka strax í stað þess að láta slumpa á einn og einn lið, annað hvort í yfirlýsingum eða augljósum lekum til að kanna viðbrögðin. Hvers vegna er ekki drifið bara í að segja hver staðan sé og hverjar aðgerðirnar eru - hver heildarpakkinn sé?

Í Fréttablaðinu í morgun er reyndar hulunni svipt af því að aðeins félagsmálaráðuneytið hafi klárað niðurskurðinn meðan hin ráðuneytin sum hver draga lappirnar og tafir eru á verklaginu. Voru annars ekki margir vinstrimenn sem óttuðust einmitt að Árni Páll Árnason yrði niðurskurðarráðherra velferðarmála í stað þess að vera ráðherra velferðarmála? Hann er örugglega ákveðnari til verka en Jóhanna var.

En burtséð frá því er óeðlilegt að þetta sé ekki komið fram, lekið út nokkrum liðum og svo beðið. Þetta er verklagið sem við erum að kynnast hjá þessari vinstristjórn.

mbl.is Lækka á hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bæjarstjóraskipti á Akureyri

þríeykið
Þriðji bæjarstjórinn hefur nú tekið við embætti á Akureyri á kjörtímabilinu. Í hrókeringum dagsins felast tímamót fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Akureyri sem hefur nú afsalað sér bæjarstjórastólnum eftir að hafa haft embættið samfellt í heil ellefu ár, allt frá því Kristján Þór Júlíusson var kjörinn bæjarstjóri 9. júní 1998. Í því felast miklar áskoranir fyrir flokkinn á kosningavetri engu að síður.

Ég spáði því í pistli strax og samið var milli flokkanna í júní 2006 um að Samfylkingin fengi síðasta árið að bæjarstjórarnir yrðu þrír og sú spá rættist. Margt hefur hinsvegar breyst hér frá kosningunum 2006 og eðlilega mörgum farið að iða í skinninu að hefja kosningabaráttu, innan flokka og almennt, með haustinu.

Hermann Jón Tómasson er ekki öfundsverður af verkefninu framundan, erfiðar ákvarðanir og niðurskurður blasir við. Þetta síðasta ár fyrir kosningar verður honum mun erfiðara, í ljósi efnahagshrunsins, en hann vonaðist eftir sumarið 2006 þegar hann handsalaði þennan díl við Kristján Þór Júlíusson.

Stærstu tíðindin við bæjarstjóraskiptin eru þó tvenn: Sigrún Björk Jakobsdóttir, fyrrverandi bæjarstjóri, tekur ekki aðeins við formennsku í bæjarráði heldur verður líka forseti bæjarstjórnar og Kristján Þór Júlíusson gefur eftir þann stól en vill samt sem áður ekki gefa upp um hvort hann fari fram að vori.

Sigrún Björk treystir enn stöðu sína með því að taka forsetastólinn með formennsku bæjarráðs, þó þess séu fá dæmi að einn einstaklingur gegni tveimur svo krefjandi hlutverkum hjá sveitarfélögum. Þetta getur bæði talist styrkleikamerki fyrir hana en um leið veikleikamerki fyrir flokkinn, að ábyrgð sé ekki dreift nægilega milli bæjarfulltrúa.

Ég sagði í gamni við félaga minn fyrir nokkrum mánuðum að breytingarnar við bæjarstjóraskiptin væru harla litlar; einna helst að tvær manneskjur skiptu á skrifstofum í Ráðhúsi Akureyrarbæjar. Hallast að því. En engu að síður verður áhugavert að sjá hvernig nýjum bæjarstjóra gangi að fóta sig. Hann fær vindinn í fangið svo sannarlega.

Það tók Sigrúnu Björk rúmt ár að festa sig í sessi sem bæjarstjóra - hún náði fyrst alvöru valdastöðu og styrk eftir fjórtán til sextán mánuði í embættinu. Síðan hefur henni gengið vel og í raun fest sig í sessi sem leiðtoga flokksins, sem kemur vel í ljós með því að hún tekur báðar lykilstöður flokksins nú.

Sigrún Björk er annars í merkilegri stöðu. Hún verður að gefa bæjarstjórastól eftir ári fyrir kosningar, í samkomulagi sem annar aðili skrifaði undir, og sækja hann svo aftur í kosningum. Hún mun mæta einbeitt til leiks í vetur í baráttu við Hermann, enda ætlar að næla aftur í lyklana sem hún afhenti í dag.

En kannski verður það einmitt blessun fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Akureyri að fara í kosningar án bæjarstjórastólsins - gæti markað nýtt upphaf og sömu strauma og gerðu Sjálfstæðisflokkinn að sigurvegara kosninganna 1998. Sjáum til hvort Sigrún Björk takist að leiða það verkefni úr þessari stöðu.

mbl.is Akureyri komi sem best út úr öldudalnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfellisdómur yfir Gunnari - afsögn eina leiðin

Greinargerð Deloitte um viðskipti Frjálsar miðlunar við Kópavogsbæ er algjör áfellisdómur yfir Gunnari Birgissyni, bæjarstjóra í Kópavogi, og vekur spurningar um lögbrot. Get ekki séð hvernig aðrir geti tekið ábyrgð á þessu verklagi eða varið það. Þessi úrskurður er afgerandi.

Gunnar á nú að víkja til hliðar og hugsa þar um hagsmuni Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi og Kópavogsbæjar. Ekki er valkostur að mínu mati að bjóða fólki upp á ástand af þessu tagi og efasemdir um heiðarleika þeirra sem eru við völd.


mbl.is Hugsanleg brot á lögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfskaparvíti Steingríms - hræsni vinstri grænna

Á mettíma er Steingrímur J. Sigfússon orðinn meiri pólitískur vindhani en Össur Skarphéðinsson og Ólafur Ragnar Grímsson. Afrek það. Hálfgerð tragedía að fylgjast með honum éta upp allt sem hann hefur sagt síðustu mánuði og virða að vettugi pólitíska siðferðið sem hann hefur verið svo ötull talsmaður fyrir. Innistæðan fyrir siðferðinu og gegnsæinu er frekar lítil þegar á reynir.

Steingrímur J. er orðinn annar maður en hann var fyrir nokkrum mánuðum. Halldór rissar þetta flott í Mogganum í dag með Dr. Jekyll og Mr. Hyde. Ekki fjarri lagi. Hann hljómar orðið eins og gísl sem les upp skrifaðan texta af blaði algjörlega án tilfinninga og er hálf afsakandi við að verja það sem hann gerir og kennir öðrum um. Hálf vandræðalegt. Er þetta breytingin sem kosin var í vor?

Þetta er hálfgerð froða. Er ekki í vafa um að margir eru frekar vonsviknir, einkum þeir sem treystu honum fyrir atkvæðinu í vor. Ein mesta hræsnin er reyndar afhjúpuð með því að leggjast gegn því að Icesave-díll BarnalánsSvavars fari í þjóðaratkvæði. Var þetta ekki flokkurinn sem vildi meira beinna lýðræði og virkja þjóðaratkvæðið?


mbl.is Valtur meirihluti í Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Opið hús á Fríkirkjuvegi - hver á Thorshúsið?

Mér finnst nú merkilegast af öllu að opið hús hafi verið á Frírkjuvegi 11 þegar hústökufólkið fór inn í húsið. Er það virkilega svo að eigandi hússins hafi það ólæst svo allir geti farið þangað inn? Hver er með lyklavöld að húsinu? Er það annars innbrot þegar hurðir eru ólæstar? Er enginn að fylgjast með þessu fornfræga og glæsilega húsi?

Önnur áleitin spurning er hver eigi í raun Fríkirkjuveg 11. Björgólfur Thor hefur ekki sést í íslensku þjóðlífi um allnokkuð skeið, ekki síðan hann var í Kompásþættinum sáluga eftir bankahrunið. Hann hefur ekki verið í kastljósinu síðan eða leitast eftir því að leita á sér bera, nema þegar hann var í Cannes.

Ég er ekki einn af þeim sem hef viljað gera Fríkirkjuveg 11 annars að skotspón í deilunum nú. Thor Jensen var einn af mestu brautryðjendum í íslensku atvinnulífi og satt best að segja á minning hans betra skilið en blandast í útrásarkjaftæðið sem tengja má afkomendum hans og tengdu liði í kringum það.

En þetta er annars dagur hinna stóru yfirlýsinga. Þjóðin er skiljanlega búin að fá nóg af Icesave-ruglinu og ætlar ekki að sætta sig við afleitan samning þeirra stjórnmálamanna sem hafa snúist hring í kringum sjálfan sig á mettíma.


mbl.is Ruddust inn í Fríkirkjuveg 11
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hreinn viðbjóður

Mér finnst það hreinn viðbjóður að taílenskt dagblað hafi birt myndir af líki leikarans David Carradine. Mér finnst það algjört siðleysi að fjölmiðlar birti slíkar myndir. Er ekki hægt annað en vorkenna ættingjum og aðstandendum á þeim tímapunkti sem "fjölmiðlun" nær þessum sorglega lágpunkti. Það á að vera heiðarleg skylda fjölmiðla að vanhelga ekki minningu látinna eða reyna að standa vörð um virðingu þeirra sem látnir eru.

Það er skoðun mín að þessi myndbirting komi umræðu um fjölmiðla á lágan stall og í raun er ekki hægt annað en fordæma þessa myndbirtingu. Það á að vera skylda fjölmiðla að koma fram með heiðarlegum hætti og ekki gera neitt það sem augljóslega misbýður þeim sem eru í sárum eftir sorglegt andlát ættingja eða vinar.

mbl.is Fjölskylda Carradine í uppnámi vegna ljósmynda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óendurgoldin evrópsk ást - Júrósnobb Obama

Barack Obama hefur verið gríðarlega vinsæll í Þýskalandi og Frakklandi - nú er að kólna í þeim glæðum. Síðasta sumar gerði hann sér sérstaka ferð þangað til að tala um mikilvægi þess að styrkja samskipti Bandaríkjanna og Evrópu. Evrópska pressan hefur því verið hálf kuldaleg í garð forsetans að nú þegar hann hefur tekið við embætti skuli hann ekki einblína meira á að bæta samskiptin við stjórnvöld í Berlín og París. Hann afþakkar kvöldverðarboð forseta Frakklands og ískuldi var á blaðamannafundi forsetans og þýska kanslarans.

Hann er sakaður um Júrósnobb í pressunni þar. Margt hefur breyst á skömmum tíma. Síðasta sumar var Obama í miklu uppáhaldi í þessum löndum. Hann fór til Berlínar og flutti ræðu við Sigursúluna. Var hylltur eins og þjóðhetja. Þótti traustur að hafa fetað í fótspor Kennedys, Reagans og Clintons með því að fara til Berlínar og flytja þar sumpart sögulega ræðu. Hann fór líka til Frakklands en vildi ekki flytja ræðu þar eða koma sérstaklega fram, minnugur þess að það var John Kerry skeinuhætt að tala frönsku reiprennandi í baráttunni 2004.

George W. Bush var mjög óvinsæll í Evrópu. Evrópubúar bjuggust því við því að eitthvað myndi breytast með nýjum húsbónda í Hvíta húsinu. Skiljanlega eru Þjóðverjar og Frakkar vonsviknir með að lítið hefur breyst og Júrósnobb einkenni bandaríska forsetann, þann sama og þeir hylltu fyrir ári.

Vandræðalegast af öllu er að Obama tók með sér smakkara á stefnumótið, sem Obama vildi heldur fara á en þiggja kvöldverðarboð í Elysée-höll sem hefur ergt mjög marga. Ef það er eitthvað sem Frakkar þola ekki er það þegar maturinn þeirra er véfengdur.

mbl.is Obama var með smakkara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðin dæmd í skuldafangelsi - svik við kjósendur



Niðurstaðan í Icesave-málinu er skelfileg. Þetta er fullnaðarsigur Breta, enda fagna þeir mjög. Við höfum verið kúguð og dæmd í algjört skuldafangelsi. Þetta er hið mikla afrek vinstriaflanna við völd og samninganefndarinnar sem leidd var af stjórnmálamanninum forna Svavari Gestssyni. Hver trúir því núna sem Steingrímur J. sagði forðum að niðurstaðan í Icesave yrði ásættanleg fyrir okkur? Eru þessir okurvextir ásættanlegir kannski?

Stóra niðurstaðan er að VG hefur sveiflast til og frá á mettíma. Þeir hafa svikið kjósendur sína og brugðist þeim sem treystu þeim. Þetta eru algjör svik við kjósendur. Margir hljóta að vera vonsviknir núna þegar vinstriöflin hafa skuldbundið núlifandi kynslóðir og framtíðarkynslóðir og dæmt þær í skuldafangelsi.

Ætli það sé ekki enn meiri ástæða núna heldur en fyrir nokkrum mánuðum að biðja Guð að blessa Ísland? Ill eru örlög Íslands að hafa kosið þetta fólk til að kúga þjóðina til að borga skuldir óreiðumanna.

Horfið á klippuna þarna uppi. Laug ekki Steingrímur J. að þinginu fyrir nokkrum dögum?

mbl.is Mjög mikilvægur áfangi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lélegur samningur á Sikileyjarvöxtum

Ég trúi því varla enn að vinstristjórnin hafi samið svo herfilega af sér í Icesave-málinu og sætt sig við dílinn sem fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins kom heim með. Ekki er nóg með að íslenska þjóðin sé kúguð til samninga, sérstaklega lélegra samninga af ríkisstjórn sem vill hafa Brusselvaldið gott, heldur er samið um okurvexti ofan á þetta - hálfgerða Sikileyjarvexti. Þetta er dýr aðgöngumiði fyrir Samfylkinguna í Evrópusambandið.

Þetta er vondur díll - annað hvort hljóta þeir að vera veruleikafirrtir sem semja svona og um þessa vexti eða hreinlega hótað til samninga, skrifað undir með byssuhlaupið á gagnauga. Þetta minnir á dílinn sem Don Vito Corleone kom með í Guðföðurnum, samningur sem ekki er hægt að hafna - sem þýðir einhliða sigur og algjöra kúgun þess sem skrifar undir. Með hótunum er kannski hægt að ná fram öllu einhliða, eins og reyndin er nú.

Þessi ríkisstjórn hefur samið af sér. Það er ófyrirgefanlegt hvernig hún hefur klárað þetta mál. Hafi þetta fólk skömm fyrir.


mbl.is Frystingu eigna aflétt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hnífstunguárás í Hafnarstræti

Hnífstunguárásin í Hafnarstræti á björtum degi eru vond tíðindi fyrir okkur Akureyringa. Við erum ekki vön svona fréttum og því er það auðvitað visst áfall, sérstaklega að þetta gerist í hjarta bæjarins. Nýr veruleiki í bæjarlífinu verður óneitanlega með svona alvarlegri árás.

Fyrir mestu er að þetta mál sé upplýst. En það opnar auðvitað spurningar um hvort alvarleg undirheimavandamál, lífshættulegar árásir og grimmt ofbeldi verði meira áberandi hluti af bæjarlífinu hér.

mbl.is Tveir handteknir á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Drungalegur dauðdagi í Bangkok

Eftir því sem meira er vitað um dauðdaga David Carradine í Bangkok verður þetta drungalegra og óhuggulegra. Þetta virðist ekki vera einfalt sjálfsvíg og líklegt að þetta hafi verið dramatískt í meira lagi. Eiginlega eins og atriði í kvikmynd.



En David Carradine var flottur leikari. Ég sagði í gær að Kill Bill væri það sem hefði verið í mestu uppáhaldi hjá mér af verkum hans. Ekki svo vitlaust að rifja upp aðra flotta senu með David og Umu Thurman úr Kill Bill.


mbl.is Grunur leikur á að kynlífsathöfn hafi dregið Carradine til dauða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstristjórnin þjónar duttlungum Evrópuvaldsins

Ekki kemur það að óvörum að vinstristjórn leidd af Samfylkingunni hafi samið Íslendinga í skuldafangelsi til að þjóna duttlungum Evrópuvaldsins í Brussel. Þetta eru afarkostir og mjög umdeildur samningur á forsendum Íslendinga. Greinilega er verið að reyna að hafa alla góða og passa upp á að dyrnar til Brussel séu nú örugglega opnar.

Þetta er ekta eftirgangsemi við það vald sem Samfylkingin dáir hvað mest. Þarna er verið að hugsa um hag einhverra aðra en Íslendinga fyrst og fremst.

mbl.is Hækkar um 37 milljarða árlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flint sparkar í Brown - líður að endalokunum

gbrown
Á sömu stundu og Gordon Brown taldi sig hafa tekist ætlunarverkið; klára uppstokkunina á ríkisstjórninni, og var að ávarpa fjölmiðlamenn á blaðamannafundi í Downingstræti til að sýna fram á að hann væri enn við völd missti hann Caroline Flint fyrir borð. Afsögn hennar eru mikil tíðindi, enda varði hún Brown síðast í gærkvöldi, skömmu áður en James Purnell gekk úr stjórninni. Hún er náin vinkona Hazel Blears og Jacqui Smith sem báðar sögðu skilið við stjórnina í þessari viku.

Afsagnarbréf Caroline Flint er mjög harðorðað og vægðarlaust; mikil árás að forsætisráðherranum. Þar er hann sakaður um að vera karlremba, koma illa fram við konur í ríkisstjórninni og vera ókurteis og ódannaður. Þetta er gríðarlega harkaleg árás að Brown. Bréfið er mikil árás á Gordon Brown og gengið er miklu lengra en James Purnell gerði í gærkvöldi. Þetta er uppgjör konu við forsætisráðherra og flokksleiðtoga sem greinilega leit á konurnar sem aukvisa.

Merkilegast af öllu er þó að Glenys Kinnock er gerð að ráðherra Evrópumála á sama augnabliki og Caroline Flint gengur á dyr. Glenys er eiginkona Neil Kinnock, fyrrverandi leiðtoga Verkamannaflokksins, og var næstum orðin húsfreyja í Downingstræti árið 1992 þegar Kinnock mistókst naumlega að verða forsætisráðherra Bretlands. Eftir að Kinnock hætti í pólitík og sem kommissar hjá ESB í Brussel varð Glenys sjálf þátttakandi í Evrópupólitíkinni.

Brotthvarf Caroline Flint eru stórtíðindi. Ekki aðeins er hún mikið framtíðarefni og stendur einna fremst kvennanna í fremstu víglínu Verkamannaflokksins heldur er hún mjög beitt og öflug. Afsagnarbréfið er harkalegasta opinberlega gagnrýni á Brown og starfshætti hans úr fremstu víglínu Verkamannaflokksins. Ég held að dagar Browns á valdastóli séu brátt taldir. Væntanlega mun það ráðast á sunnudagskvöldið hvernig fer.

En það er nær útilokað að forsætisráðherra og flokksleiðtogi geti þolað svo margar afsagnir og opinberar árásir úr fremstu víglínu eigin flokks. Þetta er orðið mjög blóðugt og suddalegt, of mikið til að hægt sé að líta fram hjá því.

mbl.is Gordon Brown ætlar ekki að víkja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brown reynir að halda völdum með uppstokkun

Af veikum mætti hefur Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, tekist að klára uppstokkun í ríkisstjórn sinni. Þetta er síðasta tilraun Browns til að sýna að hann sé enn við völd og hafi pólitískt kapítal til að taka ákvarðanir og hrókera mönnum til á pólitíska taflborðinu að eigin hætti, en ekki annarra. Þessi ráðherrauppstokkun er samt mjög veikburða, enda hafa fáir komið beinlínis fram til að styrkja forsætisráðherrann í sessi. Sumir bíða færis, annað hvort með hníf í hendi eða byssu. Loft er lævi blandið í Downingstræti.

Stóru tíðindin eru þau að Alan Johnson fær innanríkisráðuneytið, eitt valdamesta embætti breskra stjórnmála við brotthvarf Jacqui Smith. Johnson er með öll tromp á hendi núna. Hann gæti klárað Brown endanlega og tryggt sér forsætið og leiðtogastöðuna ef hann vildi. Ákvörðun hans um að þiggja embættið gefur til kynna að hann ætli að bíða einhverja daga og taka af skarið með þessi mál á eigin forsendum en ekki annarra. Johnson er nú valdamesti maðurinn í atburðarásinni og ætlar sér að tefla fumlaust en ábyrgt.

Alistair Darling heldur fjármálaráðuneytinu. Brown er það veikur í sessi að hann þorir ekki að færa Darling til, af ótta við að Darling stingi hann í bakið. Við þær forsendur yrði Darling að Geoffrey Howe fyrir Gordon Brown. Howe var trausti bandamaður Margaret Thatcher þar til í nóvember 1990 og varði hana í öllum innri og ytri rimmum. Þegar hann sneri við henni baki var öllu lokið og hann tók hana af lífi pólitískt, gerði hana viðkvæma. Darling hefur næg vopn til að klára Brown, sem þorir ekki að færa hann til.

Brotthvarf John Hutton, varnarmálaráðherra, veikir forsætisráðherrann svo enn í sessi, enda augljóst að hann er ekki að hætta einvörðungu vegna hagsmuna fjölskyldunnar. Hutton hættir þó í stjórnmálum til að tryggja að hann líti ekki út sem banamaður forsætisráðherrans. Erfitt samt. Brown slær á þær raddir sem töldu að hann gæti ekki farið í uppstokkun. Hún er samt eins veikburða og við var að búast.

Gordon Brown er í pólitísku tómarúmi og vandséð hvernig hann geti þraukað í heilt ár við þessar aðstæður. Þrauki hann samt helgina af og vond kosningaúrslit í byggða- og Evrópukosningum gæti hann haldist við völd eitthvað fram á sumarið. Nú í þessu sá ég að Verkamannaflokkurinn hefur tapað völdum í Staffordshire. Þar hafa þeir verið við völd samfellt allt frá árinu 1981.

Þetta er táknrænt. Verkamannaflokkurinn hefur nú tapað öllum völdum á sveitarstjórnarstiginu og munu væntanlega missa Lancashire og Derbyshire, síðustu vígin sín. Tap þar væru hin nöpru endalok fyrir Verkamannaflokkinn hvenær svo sem þeir missa völdin í Downingstræti.

Húsbóndinn þar hefur kannski völd í húsinu en hann hefur misst allt vald til að drottna. Þessi uppstokkun breytir engu um að hann fjarar út á valdastóli sínum. Eina spurningin nú er hvort hann nær að snúa vörn í sókn og leiði þá kratana í algjöra slátrun í næstu kosningum.


mbl.is Hutton hættir sem varnarmálaráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Purnell sparkar Brown fram af hengifluginu

Gordon Brown
Gordon Brown riðar til falls af valdastóli eftir dramatíska afsögn krataungstirnisins James Purnell í kvöld. Afsögnin markar þáttaskil í breskum stjórnmálum í tvennum skilningi; forsætisráðherrann er hvattur til að segja af sér af ungum lykilmanni frá Blair-tímanum og talað er hreint út um að hann sé vandamálið opinberlega í fyrsta skipti. Fram að þessu hefur þetta verið pískrað í bakherbergjum og í tveggja manna tali innan Verkamannaflokksins og svo auðvitað í pressunni. Nú er þetta opinbert.

Flest bendir til að fall Browns verði vægðarlaust og blóðugt. Ungstirnin sem unnu svo náið með Tony Blair eru að stíga fram og taka af skarið eftir allt hikið og bakstungarnar bak við tjöldin. Þessu er einfaldlega lokið. Gordon Brown er stórlega skaddaður eftir atburðarás síðustu tveggja sólarhringa. Þrjár afsagnir í fremstu víglínu er einfaldlega of mikið fyrir forsætisráðherra sem hefur í ofanálag misst tök á stöðunni. Hann hefur misst stuðning flokkskjarnans og almennings.

Erfitt að segja hvað gerist á morgun. Fleiri afsagnir gætu verið framundan. Þessi afsögn er samt mjög stór tíðindi. Hinn 39 ára gamli Purnell hefur verið í innsta kjarna flokksstarfsins í tvo áratugi og var fóstraður af Blair og í hópnum sem tryggði sigurinn árið 1997. Hann kom svo á þing undir leiðsögn Blairs árið 2001 og varð ráðherraefni á augabragði. Hann er samviska Blair-hópsins og er eflaust að gera þetta undir leiðsögn Blairs sem nú vill fullnaðarhefndir gegn Brown.

Þetta er samt miklu miklu stærra. Verkamannaflokkurinn er stjórnlaus og á enga möguleika á að byggja sig upp, hvað þá vinna kosningar undir skaddaðri forystu Skotans í Downingstræti. Hann mun ekki fara standandi úr Downingstræti. Næstu dagar verða blóðugir. Nú tekur við formleg krafa um afsögn, studd af 75-100 þingmönnum og væntanlega formlegt vantraust dugi það ekki til.

Ég held að brotthvarf Thatchers, sem var tekin af lífi pólitískt 1990, verði sem barnaleikur miðað við sláturtíðina sem er hafin innan Verkamannaflokksins. Kaldhæðnislegast af öllu er að svona aftökur hafa ekki farið þar fram áður í sviðsljósinu, mun frekar bakvið tjöldin. Þessi afsögn opnar tjöldin og sýnir okkur grimmdina og blóðbaðið sem er í augsýn.

Brown vill ekki fara með heill og hag flokksins í huga. Hann er að hugsa um sjálfan sig og arfleifð sína. Eðlilega kannski. Hann var þrettán ár í skugga Tony Blair og fékk loksins tækifærið mikla fyrir tveimur árum. Hann hefur misst allt úr höndunum smátt og smátt og nú virðist pólitísk aftaka blasa við klækjarefnum skoska.

Mun hann taka lokabaráttuna eða segja af sér sjálfviljugur á næstu dögum. Býst við hinu fyrrnefnda. Þetta verður blóðugt. Sá sem rís úr þeim hörmungum þarf að taka í fanginn flokk sem er búinn að naga sig inn að kjarna, er skaddaður og sár; klofinn í herðar niður.

Næstu kosningar eru þegar tapaðar en væntanlega er spurt hvort Verkamannaflokkurinn getur risið aftur úr rústunum og átt sér viðreisnar von síðasta árið fyrir kosningar og byggt sig upp í aðdraganda stjórnarandstöðuvistar, hreinnar eyðimerkurgöngu.

Verkalýðskempan Alan Johnson virðist sá eini sem gæti leitt það erfiða starf sem forsætisráðherra fyrir kosningatapið, þó það verði vanþakklátt verkefni og hann muni tapa að vori. En mun hann taka frumkvæðið nú? Eða nær annar því?

Eftir dramatíska afsögn Purnells er ljóst að sá sem stígur fram úr hópi reyndu þingmannanna og tekur Brown endanlega af lífi pólitískt verður næsti húsbóndi í Downingstræti. Verður það Johnson eða rís einhver annar úr rústunum?

mbl.is Enn einn ráðherrann segir af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

David Carradine sviptir sig lífi í Bangkok

David Carradine, sem svipti sig lífi í Bangkok, var litríkur karakter og mjög traustur leikari. Gaf allt í leikframmistöðuna, var sannur töffari líka.



Mér fannst hann alltaf bestur í Kill Bill tvennunni - þetta var endurkoman hans í fremstu víglínu í leikbransanum.

Kallinn var flottur í þessari rullu. Þetta atriði með Umu Thurman er t.d. tær snilld.

mbl.is David Carradine látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju er ekki talað hreint út um lögbrotið?

Mér finnst það furðulegt að það sé ekki sagt hreint út hvert lögbrotið sem útibússtjórinn í Landsbankanum er grunaður um. Er betra að það séu kjaftasögur um það? Eðlilega spyr fólk spurninga og vill fá svör hreint út. Þetta er alvarlegt mál og betra að það sé ljóst hvað var gert í stað þess að það sé gefin út fréttatilkynning með hálfkveðnum vísum.


mbl.is Grunur um lögbrot útibússtjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband