Bæjarstjóraskipti á Akureyri

þríeykið
Þriðji bæjarstjórinn hefur nú tekið við embætti á Akureyri á kjörtímabilinu. Í hrókeringum dagsins felast tímamót fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Akureyri sem hefur nú afsalað sér bæjarstjórastólnum eftir að hafa haft embættið samfellt í heil ellefu ár, allt frá því Kristján Þór Júlíusson var kjörinn bæjarstjóri 9. júní 1998. Í því felast miklar áskoranir fyrir flokkinn á kosningavetri engu að síður.

Ég spáði því í pistli strax og samið var milli flokkanna í júní 2006 um að Samfylkingin fengi síðasta árið að bæjarstjórarnir yrðu þrír og sú spá rættist. Margt hefur hinsvegar breyst hér frá kosningunum 2006 og eðlilega mörgum farið að iða í skinninu að hefja kosningabaráttu, innan flokka og almennt, með haustinu.

Hermann Jón Tómasson er ekki öfundsverður af verkefninu framundan, erfiðar ákvarðanir og niðurskurður blasir við. Þetta síðasta ár fyrir kosningar verður honum mun erfiðara, í ljósi efnahagshrunsins, en hann vonaðist eftir sumarið 2006 þegar hann handsalaði þennan díl við Kristján Þór Júlíusson.

Stærstu tíðindin við bæjarstjóraskiptin eru þó tvenn: Sigrún Björk Jakobsdóttir, fyrrverandi bæjarstjóri, tekur ekki aðeins við formennsku í bæjarráði heldur verður líka forseti bæjarstjórnar og Kristján Þór Júlíusson gefur eftir þann stól en vill samt sem áður ekki gefa upp um hvort hann fari fram að vori.

Sigrún Björk treystir enn stöðu sína með því að taka forsetastólinn með formennsku bæjarráðs, þó þess séu fá dæmi að einn einstaklingur gegni tveimur svo krefjandi hlutverkum hjá sveitarfélögum. Þetta getur bæði talist styrkleikamerki fyrir hana en um leið veikleikamerki fyrir flokkinn, að ábyrgð sé ekki dreift nægilega milli bæjarfulltrúa.

Ég sagði í gamni við félaga minn fyrir nokkrum mánuðum að breytingarnar við bæjarstjóraskiptin væru harla litlar; einna helst að tvær manneskjur skiptu á skrifstofum í Ráðhúsi Akureyrarbæjar. Hallast að því. En engu að síður verður áhugavert að sjá hvernig nýjum bæjarstjóra gangi að fóta sig. Hann fær vindinn í fangið svo sannarlega.

Það tók Sigrúnu Björk rúmt ár að festa sig í sessi sem bæjarstjóra - hún náði fyrst alvöru valdastöðu og styrk eftir fjórtán til sextán mánuði í embættinu. Síðan hefur henni gengið vel og í raun fest sig í sessi sem leiðtoga flokksins, sem kemur vel í ljós með því að hún tekur báðar lykilstöður flokksins nú.

Sigrún Björk er annars í merkilegri stöðu. Hún verður að gefa bæjarstjórastól eftir ári fyrir kosningar, í samkomulagi sem annar aðili skrifaði undir, og sækja hann svo aftur í kosningum. Hún mun mæta einbeitt til leiks í vetur í baráttu við Hermann, enda ætlar að næla aftur í lyklana sem hún afhenti í dag.

En kannski verður það einmitt blessun fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Akureyri að fara í kosningar án bæjarstjórastólsins - gæti markað nýtt upphaf og sömu strauma og gerðu Sjálfstæðisflokkinn að sigurvegara kosninganna 1998. Sjáum til hvort Sigrún Björk takist að leiða það verkefni úr þessari stöðu.

mbl.is Akureyri komi sem best út úr öldudalnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband