Sögupistill - stjórnarmyndun Gunnars 1980

Gunnar Thoroddsen

Í ítarlegum sögupistli á vef SUS sem birtist í dag fjalla ég um sögulega stjórnarmyndun dr. Gunnars Thoroddsens, varaformanns Sjálfstæðisflokksins, árið 1980, eina hina eftirminnilegustu í lýðveldissögunni. Markaði hún hápunkt valdaátaka tveggja af öflugustu leiðtogum Sjálfstæðisflokksins í langri sögu hans, þeirra Gunnars og Geirs Hallgrímssonar. Stjórnarmynduninni var stýrt af varaformanninum Gunnari í trássi við allar helstu stofnanir flokksins.

Saga Sjálfstæðisflokksins verður aldrei rituð nema að nafn Gunnars verði þar ofarlega á blaði. Hann var einn af litríkustu og svipmestu pólitísku höfðingjum íslenskrar stjórnmálasögu. Gunnar starfaði innan flokksins af krafti allt frá unglingsárum til dauðadags, lengst af í forystusveit hans og með mikil völd. Örlögin höguðu því þó þannig að á gamals aldri klauf hann sig frá vilja æðstu forystu Sjálfstæðisflokksins og hélt á brott við sögulegustu stjórnarmyndun í sögu landsins.

Farið er yfir allan aðdragandann og ennfremur yfir litríkan stjórnmálaferil Gunnars, en pólitík hans var samofin pólitískri sögu Sjálfstæðisflokksins í yfir 50 ár og hann lagði ævistarf sitt í það að efla Sjálfstæðisflokkinn. Endalok ferilsins voru vissulega söguleg með einum mesta hvelli íslenskrar stjórnmálasögu.


Hálslón verður að veruleika

Hálslón

Það eru tíðindamiklir dagar fyrir austan núna undir lok þessarar viku. Hálslón er orðið að veruleika - það er tekið að myndast. Nú ætti flestum að vera orðið ljóst að fátt getur breytt því að virkjun við Kárahnjúka fari af stað innan árs. Veruleikinn í þessu máli ætti allavega að vera öllum orðinn ljós núna. Hálslón nálgast núorðið stærð Elliðavatns. Stöð 2 greindi frá því í kvöld að 1,2 ferkílómetrar lands væru þegar komnir á kaf í lónið. Þetta er því mjög einfalt mál fyrir alla sem líta raunsætt á málið. Það verður ekki aftur snúið.

Það var kostulegt að sjá suma einstaklinga koma í fjölmiðla og reyna að telja öllum andstæðingum virkjunarinnar trú um að hægt væri að hætta við. Það var mótmælt á þeirri stundu sem Jökla var að líða undir lok og lónið tók að myndast. Það sem merkilegast er að sumt fólk viti ekki að allar ákvarðanir þessa máls voru teknar fyrir nokkrum árum. Það voru þrír stjórnmálaflokkar á Alþingi sem samþykktu þetta mál, þingmenn innan beggja stjórnarflokkanna og stærsta stjórnarandstöðuflokksins.

Um er að ræða löglegt ferli og framkvæmd sem mikill meirihluti þingmanna löggjafarþingsins samþykkti. Merkilegast er að sjá flótta Samfylkingarinnar frá þessu máli. Aðeins tveir þingmenn Samfylkingarinnar greiddu atkvæði gegn virkjuninni á Alþingi árið 2002, 12 þeirra greiddu atkvæði með virkjuninni en þrír þeirra voru fjarstaddir. Það var öll andstaðan við málið. Það er því mjög erfitt fyrir Samfylkinguna að fara í felulitina. Ofan á allt annað studdi Ingibjörg Sólrún Gísladóttir virkjunina í borgarstjórn á lokadögum sínum sem borgarstjóri í janúar 2003.

Ómar Ragnarsson er fyrir austan og berst lokabaráttunni fyrir því að aftur verði snúið. Flestir sem líta raunsætt á málið úr fjarlægðinni sem okkur býðst horfandi á sjónvarps- og tölvuskerminn við að sjá fréttir að austan sjá hvert stefnir. Ómar er að berjast fyrir sínum hugsjónum. Það er stórundarlegt að hann skyldi ekki berjast fyrir sínum skoðunum allt frá upphafi en reyndi sem fréttamaður að vera hlutlaus til fjölda ára. Þetta á eftir að verða viss blettur á hans hlið þegar að frá líður tel ég, enda á hver sá sem hefur skoðun að láta hana í ljósi.

En fyrir austan er ekki aftur snúið. Það blasir við öllum sem líta á málið og gera sér grein fyrir því að það sem er þar að gerast núna er vegna ákvarðana fyrir nokkrum árum. Þær hafa löngu verið teknar og ættu ekki að koma neinum hugsandi einstaklingi að óvörum.

mbl.is Hálslón myndast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rudolph Giuliani á Íslandi

Rudolph Giuliani

Var að enda við að horfa á gott viðtal félaga míns, Guðfinns Sigurvinssonar, við Rudolph Giuliani, fyrrum borgarstjóra í New York í kvöldfréttum Sjónvarpsins. Giuliani er nú staddur á landinu í boði forseta Íslands. Hann var í dag meðal ræðumanna á ráðstefnu í tilefni af 100 ára afmæli Símans, sem bar heitið Leiðtogar til framtíðar. Giuliani var borgarstjóri í New York á árunum 1994-2002. Hann var umdeildur sem borgarstjóri en öðlaðist heimshylli á örlagatímum á þriðjudeginum 11. september 2001 þegar að hryðjuverkamenn felldu tvíburaturnana með því að ræna farþegaflugvélum í innanlandsflugi.

Það var eiginlega ævintýralegt að fylgjast með Giuliani þessa septemberdaga fyrir fimm árum. Hann tók forystuna og frumkvæðið í málefnum borgarinnar með röggsemi. Hann gerði allt rétt og steig ekki feilspor á örlagatímum. Það var aðdáunarvert að fylgjast með honum þessa daga þegar að bandaríska þjóðarsálin skalf og íbúar í New York urðu fyrir mesta áfalli sinnar löngu borgarsögu. Það er varla undrunarefni að Giuliani sé nú nefndur sem forsetaefni í Repúblikanaflokknum árið 2008 þegar að George W. Bush lætur af forsetaembættinu eftir átta ára forsetaferil. Ég tel að hann yrði mjög gott forsetaefni fyrir repúblikana.

Það er gleðiefni að Giuliani útilokaði ekki forsetaframboð 2008 í viðtalinu við Guffa. Ég held að hann ætti að skella sér í framboð. Hann yrði flottur eftirmaður Bush í Hvíta húsinu. Rudolph Giuliani ritaði fyrir nokkrum árum bókina Leadership, virkilega vel skrifuð og vönduð bók. Ég hvet alla til að lesa þessa bók, sem það hafa ekki gert nú þegar.

mbl.is Giuliani útilokar ekki forsetaframboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jospin ekki í framboð - Royal forsetaefni?

Lionel Jospin

Flest bendir til þess að Segolene Royal verði forsetaefni sósíalistaflokksins í Frakklandi, en forsetakjör fer fram í Frakklandi að vori. Í gær tilkynnti Lionel Jospin, fyrrum forsætisráðherra Frakklands, sem var forsetaefni sósíalista 1995 og 2002 að hann myndi ekki gefa kost á sér. Jospin tapaði naumlega fyrir Jacques Chirac í kosningunum 1995 en náði ekki í seinni umferðina árið 2002. Jospin var forsætisráðherra Frakklands 1997-2002 og deildi því völdum með keppinaut sínum í kosningunum 1995 í um fimm ár. Það var erfið valdasambúð. Jospin hætti í stjórnmálum eftir afhroðið árið 2002. Velt hafði verið því fyrir sér síðustu mánuði hvort hann færi aftur fram nú.

Draumadís vinstrimanna fyrir kosningar er hin 53 ára gamla Segolene Royal. Fyrir aðeins nokkrum árum hefði það þótt draumórar að halda að Royal hlyti nær afgerandi sess sem kandidat sósíalista til framboðs en svo hefur nú farið. Hún hefur ekki enn lýst yfir framboði en er með langsterkustu stöðuna þrátt fyrir það. Valdamikill armur flokksins vill hana ekki í framboð og hefur reynt allt sem þeir geta til að draga niður vinsældir hennar, en án árangurs. Ef marka má skoðanakannanir nú er hún einnig draumadís Frakka sem telja sig sjá ferskan vindblæ breytinga og uppstokkunar í Royal, og nýtur hún mikilla vinsælda meðal landsmanna.

Margir virðast vilja kvenforseta í Frakklandi og margir vinstrimenn telja hana einu von flokksins til sigurs og áhrifa að vori. Eiginmaður Royal er áhrifamaður í frönskum stjórnmálum, Francois Hollande, formaður Sósíalista, og hefur jafnvel heyrst að hann hafi áhuga á forsetaembættinu ennfremur. Margir vinstrimenn í andstæðingahópi Royal höfðu nefnt nafn Jospin sem þess eina sem gæti komið í veg fyrir sigur hennar í forvali sósíalista um útnefninguna í forsetakjörið sem fer fram á næstu dögum. Jospin sá að hann gæti aldrei unnið útnefningu og þaðan af síður kosningarnar. Frambjóðandi hans arms verður því Dominique Strauss-Kahn, fyrrum fjármálaráðherra, og hefur hann tilkynnt um framboð.

Segelene Royal og Nicolas Sarkozy

Flest bendir því til að Segolene Royal fái útnefningu sósíalistaflokksins og eigi góðan séns í forsetaembættið. Telja flestir að andstæðingur hennar þar verði Nicolas Sarkozy, innanríkisráðherra Frakklands, sem stendur langsterkast að vígi hægrimannanna í frönskum stjórnmálum. Ef marka má kannanir er Royal eini sósíalistinn sem geti farið í alvöru slag við Sarkozy. Það stefnir altént í spennandi kosningar að vori, bæði um þing og forseta í Frakklandi. Hægrimenn líta kvíðnir sérstaklega til þingkosninganna og óttast að það sama gerist og árið 1997 þegar að þeir misstu yfirráð yfir þinginu, reyndar mjög óvænt þá.

Sérstaklega virðist kosningabaráttan um forsetaembættið og það hver verði húsbóndi í Elysée-höll ætla að verða spennandi og mjög óvægin. Enn hefur Jacques Chirac ekki lýst því yfir hvað hann ætli að gera en flestir telja að hann muni hætta eftir tólf ára forsetaferil. Barátta um kandidata vinstri- og hægriblokkanna verður hörð. Hvorki Sarkozy og Royal eru óumdeild innan sinna raða en eru þeir kandidatar sem landsmenn vilja helst í slaginn.

Framundan eru áhugaverðir tímar í frönskum stjórnmálum. Sumir tala um Sarko-Sego tíma framundan í franskri pólitík. Það skal ósagt látið - en það verður mjög áhugavert að sjá hverjir muni berjast að lokum um hið valdamikla forsetaembætti í Frakklandi, áhrifaembætti í alþjóðastjórnmálum.

mbl.is Jospin sækist ekki eftir forsetaembættinu í Frakklandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

9 í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðaustri

Samfylking

9 einstaklingar gefa kost á sér í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi. Framboðsfrestur rann út á miðvikudag. Mun prófkjörið verða í póstkosningaformi.  Munu atkvæðaseðlar verða sendir út um miðjan október og mun síðasti skiladagur atkvæðaseðlanna miðast við 1. nóvember. Talið verður á Akureyri laugardaginn 4. nóvember, nákvæmlega ári eftir að prófkjör Samfylkingarinnar á Akureyri fór fram fyrir bæjarstjórnarkosningarnar á þessu ári. Fjórir gefa kost á sér í fyrsta sætið: Benedikt Sigurðarson, aðjúnkt við Háskólann á Akureyri, Kristján L. Möller, alþingismaður, Ragnheiður Jónsdóttir, lögfræðingur, og Örlygur Hnefill Jónsson, lögmaður.

Kristján og Benedikt gefa bara kost á sér í fyrsta sætið en þau Ragnheiður og Örlygur Hnefill gefa kost á sér í 1. - 3. sætið. Það má því gera ráð fyrir hörkuspennandi kosningu um leiðtogastólinn. Athygli vekur að enginn Austfirðingur gefur kost á sér í fyrsta sætið og þetta verður því slagur Norðlendinganna í kjördæmastarfinu um forystuna. Í annað sætið gefa hinsvegar kost á sér Einar Már Sigurðarson, alþingismaður, og Lára Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri. Einar Már er eini Austfirðingurinn því í kjöri um fyrstu tvö sætin. Það má því telja líklegt að Austfirðingar standi allir vörð um stöðu hans. Það má þó telja ljóst að staða Láru er gríðarlega sterk.

Í þriðja sætið gefa kost á sér þau Jónína Rós Guðmundsdóttir, framhaldsskólakennari, Kristján Ægir Vilhjálmsson, nemi, og Sveinn Arnarson, lögfræðinemi. Jónína Rós er frá Egilsstöðum og því eini fulltrúi Austfirðinga í þriðja sætið. Það eru því bara tveir Austfirðingar í kjöri í prófkjörinu, sem hljóta að teljast mikil tíðindi, miðað við að Samfylkingin er næststærsti stjórnmálaflokkur landsins. Það að ekki vilji fleiri Austfirðingar fara fram eru tíðindi.

Önnur tíðindi eru að tveir ungliðar á Akureyri berjist um þriðja sætið. Þar er um að ræða tvo fyrrum formenn ungliða kratanna á Akureyri, sem greinilega eru í baráttuhug gegn hvor öðrum. Sveinn er reyndar Hafnfirðingur að uppruna og búið á Akureyri í aðeins ár en Kristján Ægir hefur þrátt fyrir ungan aldur starfað lengur að þeim málum hér en Sveinn. Þeirra slagur er allavega mjög merkilegur að mínu mati.

Kosningin verður bundin um þrjú efstu sætin, svo að það verður spennandi kapphlaup. Mér sýnist í fljótu bragði þetta verða spurning um hvort að Einar Már heldur velli og nær sínu sæti eða missir sína stöðu. Það yrðu svo sannarlega stórtíðindi ef enginn austfirskur samfylkingarmaður næði bindandi kosningu í eitt af þrem efstu sætum á lista flokksins.


Halldór sigrar Smára í æsispennandi kosningu

Halldor Halldórsson

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ, sigraði Smára Geirsson, bæjarfulltrúa í Fjarðabyggð, mjög naumlega í kjöri um formennsku Sambands íslenskra sveitarfélaga á landsþingi þess hér á Akureyri í morgun. Tekur Halldór við formennskunni af Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni, borgarstjóra, sem hefur gegnt formennskunni samfleytt í sextán ár.

Halldór hlaut 68 atkvæði en Smári hlaut 64 atkvæði. Naumara gat það varla orðið semsagt. Það er alveg greinilegt að gríðarlega sterk staða Sjálfstæðisflokksins í sveitarstjórnum um allt land hefur skipt sköpum í þessari kosningu. Þetta er reyndar í fyrsta skipti sem kosið er um formennskuna en uppstillingarnefnd hefur alltaf lagt fram tillögu sem hefur verið samþykkt.

Innilega til hamingju Halldór með formennskuna.


mbl.is Halldór Halldórsson kjörinn formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hemmi Gunn í toppformi

Hemmi Gunn

Hemmi Gunn var svo sannarlega í toppformi í gærkvöldi þegar að hann fór af stað með nýja þáttinn sinn, Í sjöunda himni, sem er sendur út beint á NASA. Hemmi var ókrýndur konungur íslenskra skemmtiþátta í áraraðir og hélt úti vinsælasta sjónvarpsþætti íslenskrar sjónvarpssögu, Á tali með Hemma Gunn, í rúman áratug. Allan þann tíma var hann vinsælasti spjall- og skemmtiþátturinn í íslensku sjónvarpi og sló sífellt áhorfsmet.

Þátturinn í gær var líflegur og hress. Góðir gestir og skemmtilegt andrúmsloft. Flott að sjá Magna og Dilönu taka þarna lagið saman. Björgvin Halldórsson var í aðalviðtali þáttarins og sýnt var smábrot af tónleikum hans með Sinfó um síðustu helgi. Hafa verið sannkallaðir dúndurtónleikar. Eins og það getur best orðið í íslensku sjónvarpi. Svo var mjög gaman að sjá þrjá söngvara ólíks tímabils syngja saman syrpu, þá Magna, Björgvin og sjálfan meistarann Ragga Bjarna, söngvara allra kynslóða.

Kapphlaup stjórnmálaleiðtoganna var þó alveg frábært. Steingrímur J. sigraði og Geir tókst að verða á undan ISG. Jón Sigurðsson var alveg ótrúlega skammt frá því að láta sjálfan Guðjón Arnar slá sér við en hann náði að bjarga sér undan því. Í framhaldinu urðu Steingrímur og Guðjón að flytja mínútuávörp. Það var ekki umhverfisvernd eða kvótakerfið sem urðu umræðuefnin, heldur ást og daður. Fyndið og skemmtilegt.

En já, Hemmi fer vel af stað. Notalegt og gott fimmtudagskvöld, efast ekki um að þau verði öll svona undir forystu Hemma Gunn, sem enn og aftur sannar að hann er besti gleðigjafinn í íslensku sjónvarpi. Allavega, fyrsti þátturinn var hrein snilld og gaman að horfa á hann. Meira af svona, takk!


Ljósin slökkt í kvöldrökkrinu í Reykjavík

Kvöldrökkur í Reykjavík

Heillandi að sjá myndirnar af kvöldrökkrinu í Reykjavík nú í kvöld, þegar að öll ljós voru slökkt. Þetta var góð hugmynd og mjög skemmtilegt að sjá borgina í slíku myrkri. Mjög óvenjuleg en tignarleg sjón. Það var ekkert um svona kvöldrökkur hér á Akureyri í takt við það sem var í Reykjavík, en þetta var gert út á Dalvík, að því er mér skilst, og á nokkrum stöðum fleirum. Mér skilst reyndar að stjörnuljóminn hafi ekki notið sín, en samt sem áður var þetta stórmerkileg kvöldstund og virkilega áhugavert að sjá þetta gerast í tíufréttunum í kvöld.

The Sopranos aftur á skjáinn

The Sopranos

Mögnuð stund í Sjónvarpinu í kvöld! Soprano-fjölskyldan aftur komin á skjáinn, eftir alltof langt hlé. Alveg hreint magnað. Ég er svo sannarlega sáttur. Hafa verið uppáhaldsþættirnir mínir um árabil. Sannkölluð snilld í sögu bandarískra sjónvarpsþátta. Klassaleikur og flott handrit - ekki hægt að hafa það betra. Það verða topp fimmtudagskvöld fyrir framan Sjónvarpið í vetur. Þetta verða þrususögulok sem verða hjá þessari fjölskyldu, enda líður nú svo sannarlega að sögulokum bráðlega. En já, svo sannarlega algjör eðall þessir þættir.

Dögg Pálsdóttir í framboð í Reykjavík

Dögg Pálsdóttir

Það vekur mikla athygli að Dögg Pálsdóttir, hæstaréttarlögmaður og aðjúnkt við Háskólann í Reykjavík, hafi ákveðið að gefa kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Hefur hún tilkynnt um að hún sækist eftir fjórða sætinu í prófkjörinu. Dögg varð héraðsdómslögmaður árið 1982 og hæstaréttarlögmaður árið 1994. Dögg var um skeið skrifstofustjóri í heilbrigðisráðuneytinu en hefur rekið eigin lögmannsstofu DP-lögmenn sem eru til húsa í Hverfisgötu í Reykjavík. Hún hefur verið aðjúnkt við Háskólann í Reykjavík nú um nokkurra ára skeið. Dögg hefur starfað innan Hvatar, félags sjálfstæðiskvenna í Reykjavík og var þar varaformaður um skeið.

Það hefur verið umræðuefni að undanförnu hvort að fram myndu ekki koma öflugar konur til framboðs. Það eru stór og mikil tíðindi að Dögg hafi ákveðið framboð og bjóði sig fram í prófkjörinu sem verður meðal sjálfstæðismanna í Reykjavík undir lok næsta mánaðar. Það verður fróðlegt að sjá hvaða konur gefi að auki kost á sér til framboðs, en það er mikill fengur fyrir sjálfstæðismenn í Reykjavík að Dögg gefi kost á sér, að mínu mati.


mbl.is Dögg Pálsdóttir sækist eftir 4. sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árni Johnsen í leiðtogaframboð í Suðurkjördæmi

Árni Johnsen

Árni Johnsen, fyrrum alþingismaður, lýsti yfir leiðtogaframboði í væntanlegu prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi í beinni útsendingu í Kastljósi Sjónvarpsins í kvöld. Það eru nú fimm ár liðin síðan að Árni varð að segja af sér þingmennsku fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðurlandskjördæmi hinu gamla vegna hneykslismáls, en hann tók út hluti í nafni byggingarnefndar Þjóðleikhússins sem hann veitti formennsku á þeim tíma. Þetta var eftirminnilegt mál og það vekur því verulega athygli að Árni haldi í leiðtogaframboð svo skömmu eftir þetta mál sem skók þjóðmálaumræðuna svo mjög.

Rúm þrjú ár eru liðin frá því að Árni var dæmdur í tveggja ára fangelsi, fyrra árið óskilorðsbundið. Hann sat af sér sinn tíma og tók út sína refsingu. Nokkrar vikur eru hinsvegar síðan að hann hlaut uppreist æru og því í raun gefið leyfi til að gefa kost á sér að nýju. Heiftin meðal landsmanna í garð Árna Johnsen vegna afbrota hans eru enn til staðar, einkum í ljósi þess að hann hefur enga iðrun sýnt. Það verður fróðlegt að sjá hvaða dóm hann hlýtur meðal flokksmanna í Suðurkjördæmi við þessu leiðtogaframboði sínu.

Mér finnst það allavega verða mjög til vansa fyrir Sjálfstæðisflokkinn á landsvísu myndi Árni Johnsen leiða lista af hálfu flokksins eða verða ofarlega á lista. En þetta er nú mál flokksmanna í Suðurkjördæmi. Það verður fróðlegt að sjá hver þeirra dómur verður í prófkjörinu, sem væntanlega verður í nóvembermánuði.

mbl.is Árni Johnsen stefnir á prófkjör Sjálfstæðisflokksins í suðurkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

John Prescott mun hætta innan árs

Pauline og John Prescott

Gamla kempan, John Prescott, aðstoðarforsætisráðherra Bretlands og varaleiðtogi Verkamannaflokksins, tilkynnti í ræðu sinni á flokksþinginu í Manchester í dag að hann myndi hætta sem varaleiðtogi flokksins á sama tíma og Tony Blair hættir í stjórnmálum. Með þessu er ljóst að Prescott fer ekki fram í næstu þingkosningum og mun víkja úr forystu breskra stjórnmála á sama tíma og forystuskipti verða innan árs. Þetta er því síðasta flokksþing Prescott í forystusveit Verkamannaflokksins, rétt eins og er hjá Tony Blair. Það blasa því mikil þáttaskil við Verkamannaflokknum og munu bæði forystusæti flokksins því losna á sama tíma.

Það kemur fáum á óvart að Prescott hafi í hyggju að hætta. Hann hefur átt erfitt sl. ár og það hefur einkennst af hneykslismálum og innri erfiðleikum í hjónabandi hans. Erfiðasta hneykslið sem skók stjórnmálaferil hans og innviði flokksins var þegar að upp komst rétt fyrir sveitarstjórnarkosningar í Bretlandi í vor að hann hefði átt í ástarsambandi við ritara sinn á árunum 2002-2004. Um tíma héldu stjórnmálaspekúlantar í Bretlandi að hinn gamalreyndi og harðskeytti sjóarajaxl frá Hull myndi segja af sér vegna málsins. Svo fór þó ekki. Staða hans veiktist þó gríðarlega eftir kosningarnar, enda svipti Blair hann veigamiklum sess sínum sem ráðherra stjórnsýslu- og sveitarstjórnarmála.

John Prescott, sem er fæddur árið 1938, hefur verið þingmaður Verkamannaflokksins frá 1970 og lengi virkur í innsta kjarna flokksins. Hann varð varaleiðtogi Verkamannaflokksins árið 1994, er Blair var kjörinn leiðtogi og hefur frá kosningasigrinum fyrir tæpum áratug verið aðstoðarforsætisráðherra. Nú er hann aðstoðarforsætisráðherra án ráðuneytis, hann er því eiginlega bara orðin táknræn toppfígúra í forystu Verkamannaflokksins og er þar sem hann er vegna þess að hann þarf að hafa sitt hlutverk. Mikil og harðskeytt umræða hófst eftir ráðherrahrókeringarnar í vor hvort að Prescott væri hyglað sérstaklega til að hafa hann góðan, enda hefur hann lengi skipt miklu fyrir Tony Blair.

John Prescott hefur löngum verið þekktur sem harðjaxl og óvæginn í pólitískum verkum. Einkalíf hans hefur lengi verið honum fjötur um fót. Þó að lengi hefði verið í gangi orðrómur um að hann hafi haldið framhjá konu sinni áttu fáir Bretar von á því sem gerðist í vor og hann stóð þá tæpar en nokkru sinni. Í ræðunni í dag bað Prescott flokkinn og félaga sína í forystu hans afsökunar á framferði sínu. Þótti ræðan einlæg miðað við hver það var sem flutti hana. Prescott hefur haft á sér yfirbragð þess að vera hrjúfur og harkalegur og það hefur ekki verið hlutskipti hans að vera hinn mildi stjórnmálamaður.

Búast má við spennandi átökum um það hver verði varaleiðtogi Verkamannaflokksins og ekki síðri slagur en um sjálft leiðtogaembættið og eru margir ráðherra stjórnar Tony Blairs þegar teknir að máta sig við stólinn. John Prescott hefur verið einn litríkasti stjórnmálamaður Bretlands í áratugi. Það verður fróðlegt að sjá hver muni taka sess hans að ári og verða t.d. forystumaður í verkalýðsarmi flokksins, er hann hættir á þingi í næstu kosningum eftir fjögurra áratuga þingsetu.

mbl.is John Prescott segist láta af embætti sínu innan árs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Halldór og Smári takast á um formennsku

Halldór HalldórssonSmári Geirsson

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ, og Smári Geirsson, bæjarfulltrúi í Fjarðabyggð, takast nú á um formennsku í Sambandi íslenskra sveitarfélaga á landsþingi þess sem haldið er þessa dagana hér á Akureyri. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri í Reykjavík, sem verið hefur formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga allt frá árinu 1990 lætur af formennsku á þinginu á morgun. Það hefur öllum verið ljóst allt frá sigri Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórnarkosningunum í vor sem leiddi til þess að Vilhjálmur varð borgarstjóri að með því losnaði formennskan og baráttan um hana gæti orðið allnokkuð hörð.

Báðir þykja þeir Halldór og Smári standa vel að vígi. Báðir eiga þeir að baki langan sveitarstjórnarferil. Halldór hefur verið bæjarstjóri á Ísafirði frá árinu 1998 og bæjarfulltrúi þar lengst af þess tíma og leiddi Sjálfstæðisflokkinn til glæsilegs varnarsigurs í sveitarfélaginu í vor. Smári var í áraraðir leiðtogi Alþýðubandalagsins í Neskaupstað og var bæjarfulltrúi þar 1982-1998, eða þar til að sveitarfélagið sameinaðist ásamt Eskifirði og Reyðarfirði í Fjarðabyggð og var þar forseti bæjarstjórnar og formaður bæjarráðs allt þar til í vor. Hann leiddi Fjarðalistann, sameiginlegt vinstraframboð 1998 og 2002 en tók baráttusætið þar í vor og komst inn naumlega við lok talningar.

Það vekur mikla athygli að Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri hér á Akureyri, gefur ekki kost á sér og segir meira en mörg orð um á hvað hann stefnir á næstu mánuðum. Kosning um formennskuna mun fara fram fyrir hádegi á morgun og má búast við tvísýnni kosningu milli þeirra Halldórs og Smára. Það verður fróðlegt að sjá hver mun leiða Samband íslenskra sveitarfélaga næstu fjögur árin og taka við af Vilhjálmi borgarstjóra. Það mun verða mikið plottað á hátíðarkvöldverðinum í kvöld, spái ég.


Farið yfir ævi Vilmundar

Vilmundur Gylfason

Síðustu dagana hef ég verið að lesa ævisögu Vilmundar Gylfasonar, fyrrum dómsmálaráðherra, sem ber heitið Löglegt en siðlaust og var skráð af vini hans, Jóni Ormi Halldórssyni. Þetta er mjög merkileg saga svo sannarlega en Vilmundur var einn af litríkustu stjórnmálaleiðtogum sinnar kynslóðar. Bókin var skráð tveim árum eftir andlát Vilmundar, en hann lést sumarið 1983. Það verður seint sagt að stjórnmálamaðurinn Vilmundur og ég höfum aðhyllst sömu hugsjónir í stjórnmálum. Hann var mjög harður krati og barðist fyrir jafnaðarstefnu sinni, stundum með mjög áberandi hætti, en hann var alla tíð stjórnmálamaður skoðana og þótti mjög beittur í sinni pólitík.

Bókin er vissulega mikill minnisvarði um Vilmund. Hann kom sem stormsveipur í íslenska pólitík á áttunda áratugnum. Hann var hinsvegar alinn upp í stjórnmálum. Faðir hans, Gylfi Þ. Gíslason, var lengi formaður Alþýðuflokksins og gegndi embætti menntamálaráðherra samfellt í 15 ár, fyrir viðreisnartímann og á meðan hann stóð og þótti einn svipmesti stjórnmálamaður 20. aldarinnar. Afi hans, Vilmundur Jónsson, landlæknir, var maður skoðana og stjórnmálabaráttu og sjálfur sagði Vilmundur oft að hann væri eins og hann hvað baráttuandann snerti. Pólitík var því í lífi Vilmundar alla tíð og hann fór ósjálfrátt í þá baráttu sem faðir hans hafði helgað sig áður.

Samhliða lestri bókarinnar rifjaði ég upp þáttinn Einu sinni var, sem var sýndur á Stöð 2 í febrúar 2005, en þar fór Eva María Jónsdóttir yfir skammlífa sögu Bandalags jafnaðarmanna. Flokkurinn var stofnaður af Vilmundi haustið 1982 og átti fjóra þingmenn á Alþingi kjörtímabilið 1983-1987. Tilkoma flokksins varð að veruleika eftir að Vilmundur sneri baki við Alþýðuflokknum, þar sem hann hafði verið eiginlega verið fæddur og uppalinn til stjórnmálaþátttöku í. Vilmundur var kjörinn á þing fyrir Alþýðuflokkinn í þingkosningunum 1978 (er A-flokkarnir unnu mjög sögulegan sigur) og sat sem dóms- kirkjumála- og menntamálaráðherra í skammlífri minnihlutastjórn Alþýðuflokksins 1979-1980.

Vilmundur hafði gefið kost á sér sem varaformaður flokksins á flokksþingi hans 1980 og 1982, en í bæði skiptin beðið lægri hlut fyrir Magnúsi H. Magnússyni. Ennfremur höfðu verið innbyrðis deilur um störf Vilmundar sem ritstjóra Alþýðublaðsins sumarið 1981. Flokknum var spáð góðu gengi í skoðanakönnunum og stefndi framan af í góðan sigur hans. Það breyttist þegar líða tók á árið 1983 og að kvöldi kjördags kom í ljós að flokkurinn hafði ekki unnið þann sigur sem að var stefnt. Niðurstaðan varð fjórir þingmenn. Vilmundur tók úrslitunum sem miklum ósigri fyrir sig og pólitískar hugsjónir sínar og ekki síður baráttumál. Hann svipti sig lífi í júnímánuði 1983.

Í þættinum er eiginlega mun frekar sögð saga Stefáns Benediktssonar, arkitekts og fyrrum alþingismanns BJ. Hann fer þar yfir sögu flokksins, vandræði hans og erfiðleika við lok sögu hans. Stefán tók mikinn þátt í uppbyggingu flokksins með Vilmundi og eiginkonu hans, Valgerði Bjarnadóttur (dóttur Bjarna Benediktssonar), og fleiri stuðningsmönnum. Stefán skipaði þriðja sætið á lista flokksins í Reykjavík. Flokkurinn hlaut eins og fyrr segir fjóra þingmenn kjörna: tvo í Reykjavík og einn á Reykjanesi og Norðurlandi eystra. Við andlát Vilmundar tók Stefán sæti á þingi sem varamaður hans.

Var áhugavert að heyra lýsingar hans á stöðu mála og því sem tók við eftir andlát Vilmundar. Flokkurinn, sem byggður hafði verið utan um persónu Vilmundar og stefnumál hans, varð forystulaus og allt logaði í deilum þegar kom að því að hluti flokksins sameinaðist á ný Alþýðuflokknum. Eitt það merkilegasta sem kom fram í þættinum var að sjóðir flokksins væru frystir í Landsbankanum og enginn gæti gert tilkall til þeirra. Það er reyndar merkilegt að sjóðirnir, sem byggjast af skattfé sem flokkurinn fékk vegna stöðu sinnar á þingi, gangi ekki aftur til ríkisins. Það væri eðlilegast að peningarnir færu þangað.

Með þessum þætti og mun frekar lestri bókarinnar kynntist ég betur Vilmundi Gylfasyni sem stjórnmálamanni. Ég hafði reyndar lesið bókina áður, en það er verulega langt síðan. Segja má að saga BJ sé átakasaga umfram allt, saga flokks sem stóð og féll með stofnanda sínum og dó í raun með honum. Ég hvet eiginlega alla stjórnmálaáhugamenn til að lesa pólitíska ævisögu Vilmundar, Löglegt en siðlaust. Það er nokkuð merkileg lesning og lýsir honum sem stjórnmálamanni langbest. Það má fullyrða að íslenskir kratar hafi misst mikið þegar að Vilmundur hvarf af sjónarsviðinu.

Tímamót fyrir austan

Fylling Hálslóns

Það eru svo sannarlega tímamót fyrir austan, við Kárahnjúka, nú á þessum morgni. Hjáveitugöngum Kárahnjúkastíflu hefur nú verið lokað og Hálslón er tekið að myndast. Það var tilkomumikil sjón að sjá þetta gerast í beinni í morgun. Þessi atburður er eitt af lokaskrefunum í því sem framundan er á næstu vikum og mánuðum og mun svo ljúka með því að Kárahnjúkavirkjun verður endanlega veruleiki.

Eins og fram hefur komið vel í tali þeirra sem vinna fyrir austan má búast við að vatnsborðið hækki fljótt nú þegar í dag þar sem gljúfrið sjálft er mjög þröngt næst stíflunni. Vatnsborðið mun ná helmingi af endanlegri hæð svo nú á þessum vetri sem framundan er. Vatnið verður svo komið upp að stíflubrún næsta sumar er rennslið mun aukast til muna með sólbráð og sumarleysingunum sem munu um leið marka lok myndunar lónsins til fulls.

En þetta er sögulegur dagur fyrir austan hvað varðar Kárahnjúkavirkjun og við öllum blasir að virkjunin er nú endanlega orðinn veruleiki. Þeir sem helst verða varir við breyttar aðstæður verða íbúar í Jökuldal, en Jökla, sem er aurugasta fljót landsins, verður við þetta aðeins að meinlítilli bergvatnsá, með verulega minna rennsli.

mbl.is Hjáveitugöngum Kárahnjúkastíflu lokað, Hálslón að myndast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Clinton stelur senunni í Manchester

Bill Clinton

Ég sé á skrifum á breskum fréttavefum og mbl.is að Bill Clinton, fyrrum forseti Bandaríkjanna, var algjör senuþjófur dagsins á flokksþingi Verkamannaflokksins í Manchester í dag. Hann flutti stormandi ræðu þar og lofaði bæði verk Tony Blair og Gordon Brown af krafti. Hann talaði af miklum móð um vináttu sína og Tony Blair. Það var sannkölluð vinarkveðja. Í raun er þetta lokakveðja Clintons til Blairs sem stjórnmálamanns, meðan að sá síðarnefndi er enn við völd. Clinton virðist hafa tekið skýra afstöðu með Brown í væntanlegu leiðtogakjöri Verkamannaflokksins og fór vart leynt með að breskir jafnaðarmenn ættu að styðja Brown.

Það er greinilegt að þetta flokksþing Verkamannaflokksins hefur verið þing sátta og samstöðu að mestu. Það þurftu flokksmenn á að halda eftir standandi rifrildi og hjaðningavíg í þessum mánuði. Merkustu tíðindi vikunnar voru þó hvorki ræða Clintons né tilfinningarík kveðjustund Blairs í gær. Það var ræða Browns. Þar lýsti hann yfir með afgerandi hætti að hann hyggst halda áfram af krafti utanríkisstefnu þeirri sem Blair hefur stundað síðustu árin. Með því er væntanlega stefnt að jafn öflugum samskiptum við ríkisstjórn George W. Bush og Blair-stjórnin hefur gert frá valdatöku Bush árið 2001, en fáir hafa verið nánari bandamenn Bush á hans valdaferli en einmitt Tony Blair.

Það eru reyndar spennandi tímar framundan í breskum stjórnmálum. Breskir fjölmiðlar velta fáu meira fyrir sér en hvenær að Blair hættir. Það er aðalmál umræðunnar og verður það sem eftir verður vistar Blairs í Downingstræti 10. Þegar eru menn farnir að máta sig við stólinn og ræður síðustu daga hafa snúist mikið um að vekja á sér athygli. Greinilegt er að allir telja orðið harðan slag framundan um völdin. Þar mun Blair-armurinn reyna að finna alvöru keppinaut fyrir Gordon Brown. Það efast fáir orðið um að alvöru átök munu fara fram. Sjálfur mun Brown telja alvöru átök aðeins styrkja sig. Stuðningur Clintons við Brown varð allavega afgerandi í Manchester.

En senuþjófur flokksþings kratanna í Manchester var þó enginn breskur krati heldur suðurríkjamaðurinn með níu lífin, sjálfur Bill Clinton. Hann ætti svo að hafa næg öflug og góð ráð fyrir Tony Blair um það hvernig hægt sé að halda sér í stjórnmálaumræðunni eftir að hann missir völdin. Fáir eru enda aktífari í umræðunni sem fyrrum þjóðarleiðtogar en einmitt fyrrnefndur Bill Clinton.

mbl.is Clinton hvetur Verkamannaflokkinn til að taka breytingum opnum örmum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölgar í leiðtogaslag Samfylkingarinnar í NA

Örlygur Hnefill Jónsson

Það stefnir í fjörugan leiðtogaslag hjá Samfylkingunni hér í Norðausturkjördæmi. Nú hefur Örlygur Hnefill Jónsson, héraðsdómslögmaður og varaþingmaður flokksins í kjördæminu, tilkynnt um framboð sitt í 1.-3. sæti framboðslista flokksins og fer því í leiðtogaslaginn við þá Benedikt Sigurðarson, aðjúnkt við Háskólann á Akureyri, og Kristján L. Möller, alþingismann. Það hefur lengi verið ljóst að leiðtogaslagur Kristjáns og Benedikts yrði óvæginn og spennandi. Benedikt hefur þegar hafið harðan prófkjörsslag við Kristján og auglýst mikið og nýlega opnað heimasíðu. Það er alveg ljóst að leiðtogaslagur þremenninganna gæti orðið það jafn að erfitt yrði að spá um úrslit mála.

Örlygur Hnefill hefur lengi verið í stjórnmálum, en hann hefur verið varaþingmaður Samfylkingarinnar hér á þessu svæði allt frá árinu 1999. Hann sigraði í flokkshólfi Alþýðubandalagsins innan Samfylkingarinnar í prófkjörinu í Norðurlandskjördæmi eystra árið 1999. Það varð reyndar sögulegt prófkjör, en Sigbjörn Gunnarsson sigraði prófkjörið en var síðar neyddur til að víkja á brott. Svanfríður Jónasdóttir, sem nú er bæjarstjóri í Dalvíkurbyggð, var í þriðja sæti og öðru sæti Alþýðuflokkshólfsins og leiddi listann í kosningunum með Örlyg Hnefil í öðru sætinu. Úrslit kosninganna þóttu vonbrigði fyrir Samfylkinguna sem fengu mun minna fylgi en VG á svæðinu.

Í aðdraganda kosninganna 2003 gaf Örlygur Hnefill kost á sér í forystusveit Samfylkingarinnar í kjördæminu. Hann varð í þriðja sætinu í prófkjörinu, á eftir alþingismönnunum Kristjáni L. Möller og Einari Má Sigurðarsyni. Fjórða varð Lára Stefánsdóttir, hér á Akureyri. Svo fór að vegna þrýstings var ákveðið að bæta kynjastaðal framboðslistans og var Lára færð því uppfyrir Örlyg Hnefil á listanum með valdi á kjördæmisþingi Samfylkingarinnar í aðdraganda kosninganna þar sem listann varð endanlega samþykktur. Örlygur Hnefill var aldrei sáttur við niðurstöðuna en tók þó fjórða sætið og hefur verið annar varaþingmaður flokksins í kjördæminu á þessu kjörtímabili.

Örlygur Hnefill setti fram þær kröfur á kjördæmisþingi Samfylkingarinnar að Skjólbrekku fyrr í mánuðinum að úrslit prófkjörs yrðu látin standa. Svo fór þó að kjördæmisþingið samþykkti að tryggt verður að í einu af þrem efstu sætunum verður kona, sama hvernig niðurstaða prófkjörsins verður. Það er öllum ljóst að þessi niðurstaða hagnast best Láru Stefánsdóttur, varaþingmanni, sem þykir langsterkasti kvenframbjóðandinn í prófkjörinu, enn sem komið er allavega. Framboðsfrestur í prófkjörið er hinsvegar að renna út og mér skilst að dagurinn í dag sé síðasti dagurinn sem hægt sé að gefa kost á sér og því ljóst væntanlega fyrir helgina hversu margir muni verða í kjöri.

Það er ljóst að leiðtogaefnin þrjú koma öll af þessu svæði kjördæmisins, annaðhvort úr Eyjafirðinum og nærsveitum eða austan úr Þingeyjarsýslu. Það gæti því orðið naumt á munum og spennandi kosning. Það er ljóst að Benedikt ætlar sér stóra hluti og heldur ófeiminn í slaginn við Kristján. Þó er jafnframt ljóst að Kristján og Örlygur eiga sér mun lengri og öflugri sögu í flokkskjarnanum en Benedikt. En það er hætt við að barist verði af hörku og svo gæti t.d. farið að Austfirðingar fengju engan fulltrúa í öruggt sæti í svona hörðum Norðanmannaslag.

Þess má að lokum til gamans geta að stjúpmóðir Örlygs Hnefils var Svava Jakobsdóttir, rithöfundur og fyrrum alþingismaður Alþýðubandalagsins. Svava lést árið 2004. Meðal systkina hennar eru t.d. Jökull Jakobsson og Þór veðurfræðingur Jakobsson. Faðir Örlygs Hnefils, Jón Hnefill Aðalsteinsson, var lengi prófessor við guðfræðideild Háskóla Íslands og var um tíma sóknarprestur á Eskifirði. Hann er af hinni frægu Vaðbrekkufjölskyldu. Jón Hnefill þótti litríkur prestur fyrir austan og margar sögur hef ég heyrt af honum en hann skírði t.d. tvö elstu systkini mín.

mbl.is Örlygur Hnefill býður sig fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Línur skýrast hjá sjálfstæðismönnum í kraganum

Ármann Kr. Ólafsson

Það stefnir í prófkjör hjá sjálfstæðismönnum í kraganum, Suðvesturkjördæmi, laugardaginn 18. nóvember nk. Stjórn kjördæmisráðs hefur samþykkt tillögu um það fyrir kjördæmisþingið þann 4. október nk. Frambjóðendur eru byrjaðir að senda út frá sér framboðstilkynningar. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, hefur gefið kost á sér í fyrsta sætið. Í þessari viku hafa Bjarni Benediktsson, alþingismaður, tilkynnt um framboð í annað sætið, Ragnheiður Elín Árnadóttir, aðstoðarmaður forsætisráðherra, í fjórða sætið og Bryndís Haraldsdóttir, varaþingmaður, í það fjórða til fimmta. Beðið er eftir ákvörðun Sigríðar Önnu Þórðardóttur, fyrrum ráðherra og þingflokksformanns.

Í dag tilkynnti Ármann Kr. Ólafsson, forseti bæjarstjórnar Kópavogs og fyrrum aðstoðarmaður Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, um framboð sitt í þriðja sætið. Ármann Kr. hefur verið lengi í stjórnmálum. Hann hefur verið bæjarfulltrúi í Kópavogi allt frá árinu 1998. Hann byrjaði reyndar í pólitík hér fyrir norðan, enda ættaður héðan. Ármann var lengi öflugur í starfi Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna hérna á Akureyri, og flokksstarfinu almennt. Sjálfur kynntist ég Ármanni fyrst árið 1995, þegar að hann var kosningastjóri flokksins hérna í Norðurlandskjördæmi eystra. Hann vann rosalega vel í þeirri baráttu, sem var full af lífi og krafti undir hans stjórn.

Það eru margir sem enn liggja undir feldi í kraganum og eru að velta fyrir sér sinni stöðu og hvort fara eigi í prófkjörið. Það er því alveg hægt að fullyrða að þetta verði áhugavert prófkjör og verður fróðlegt að sjá hvernig listinn verði að lokum. Þegar má fullyrða að Þorgerður Katrín muni leiða lista flokksins í kjördæminu, enda virðist staða hennar mjög sterk. Þorgerður Katrín yrði með því aðeins önnur konan til að leiða framboðslista af hálfu flokksins í þingkosningum, en Arnbjörg Sveinsdóttir leiddi listann í Austurlandskjördæmi árið 1999.


mbl.is Ármann Kr. Ólafsson býður sig fram í Suðvesturkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Farið á mikilli hraðferð yfir merka sögu

Sjónvarpið

Á laugardag eru 40 ár liðin frá fyrsta útsendingardegi Ríkissjónvarpsins. Því mun verða fagnað um helgina með veglegri afmælisútsendingu. Allan þennan mánuð höfum við hinsvegar fengið tækifæri til að líta á merka sögu Sjónvarpsins þessi 40 ár. Sýndir hafa verið þættir með merkum klippum, t.d. verið rakin saga tónlistar, leikrita, gamanefnis, fræðsluefnis og svona mætti lengi telja. Allir hafa þessir þættir verið virkilega áhugaverðir og ég hef passað mig á því að reyna að sjá þá alla.

Hinsvegar hefur gallinn verið sá að þessir þættir hafa verið dreifðir út um allt í kvölddagskránni og þeir eru alveg skelfilega stuttir. Það er farið yfir merk atriði á hundavaði á 10 mínútum. Sumt sem er merkilegra en annað verður stutt klippa í stórum haug merks efnis. Þetta er frekar snautlegt og undarlegt að Ríkissjónvarpið geti ekki haft veglegri samantekt um allt það góða sjónvarpsefni sem það á í sínum fórum eftir þessa löngu sögu sem að baki er.

Til dæmis fannst mér þetta sérstaklega snautlegt þegar að farið var yfir merkilegt fræðslu- og menningarefni að þar var klippt hratt á milli, ólíku efni blandað saman og farið yfir þetta með alveg ótrúlegum hraða. Í nokkrum þáttum var svo farið yfir klippur úr gömlum áramótaskaupum. Það var virkilega áhugavert en sama gerðist með það og í þessu. Reyndar var farið betur yfir sögu skaupanna en sjálfs menningarefnisins. Reyndar verður aldrei sagt að Sjónvarpið hafi staðið sig vel í menningarefninu.

Hefði Sjónvarpið viljað minnast sögu sinnar með almennilegum hætti hefði þar verið allt árið lagt undir og farið skilmerkilega og ítarlega yfir þessa merku sögu. Þessi vinnubrögð að demba í okkur tíu mínútna hraðklipptu efni er frekar dapurt og ber hvorki vitni fágun né virðingu fyrir því merka sögulega efni í sjónvarpssögu landsins sem það óneitanlega er.

Spennandi leiðtogaslagur í Suðurkjördæmi

Lúðvík, Björgvin og Jón

Það stefnir í spennandi leiðtogaslag í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, sem fram fer laugardaginn 4. nóvember nk. Margrét Frímannsdóttir, sem hefur leitt lista á Suðurlandi í tvo áratugi, hefur tilkynnt að hún sé að hætta í stjórnmálum og aðrir þingmenn flokksins í kjördæminu hafa áhuga á leiðtogasæti hennar. Þeir Lúðvík Bergvinsson, Björgvin G. Sigurðsson og Jón Gunnarsson stefna allir á forystu framboðslistans og bendir flest til þess að fleiri fari ekki fram í leiðtogasætið en þeir. Allir hafa þeir sterka stöðu á sínum heimaslóðum í stjórnmálum og því má búast við spennandi og jöfnu prófkjöri um forystusessinn.

Bendir flest til þess að Margrét Frímannsdóttir muni styðja Björgvin G. Sigurðsson í leiðtogastólinn, enda kemur hann frá sama svæði og hún í stjórnmálum. Margrét hefur alla tíð stutt Björgvin G. til verka og hann varð varaþingmaður flokksins í kjördæminu árið 1999 og svo þingmaður í prófkjörinu 2002. Hann hefur verið öflugur forystumaður flokksins á þessu svæði og lykilmaður í pólitíska starfinu þar með Margréti. Á móti kemur að Lúðvík Bergvinsson telst lykilmaður í armi formanns flokksins og studdi Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hann til varaformennsku flokksins á landsfundi vorið 2005. Sterkasta svæði Jóns í stjórnmálum teljast svo auðvitað Suðurnesin.

Sigríður Jóhannesdóttir

Nú hefur Sigríður Jóhannesdóttir, fyrrum alþingismaður, tilkynnt að hún gefi kost á sér í 2. - 3. sætið. Sigríður hefur verið lengi í stjórnmálum og var lengi forystumaður innan Alþýðubandalagsins í gamla Reykjaneskjördæmi. Hún varð alþingismaður við afsögn Ólafs Ragnars Grímssonar af þingi árið 1996, er hann var kjörinn forseti Íslands. Hún hafði verið varaþingmaður Ólafs Ragnars allt frá árinu 1991. Sigríður náði ágætum árangri í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjaneskjördæmi árið 1999 en féll hinsvegar í prófkjöri flokksins í hinu nýju Suðurkjördæmi árið 2002. Flestir telja að þar hafi innkoma Jóns Gunnarssonar haft mest að segja, enda þau bæði frá sama svæði.

Auk þeirra virðist bæjarstjórnarflokkur Samfylkingarinnar í Árborg nær allur kominn í prófkjörið eftir að flokkurinn missti völdin í sveitarfélaginu. Ragnheiður Hergeirsdóttir stefnir á 2. - 3. sætið og Gylfi Þorkelsson á 4. - 6. sætið. Auk þeirra eru t.d. Guðrún Erlingsdóttir, fyrrum bæjarfulltrúi í Vestmannaeyjum, og Önundur Björnsson, sóknarprestur og varaþingmaður flokksins í kjördæminu, komin í framboð. Von er á fleirum væntanlega, en mörg nöfn hafa að auki verið í umræðunni.

Það stefnir því í spennandi prófkjör þarna og allnokkrar sviptingar. Mesta spennan verður auðvitað um það hverjum tekst að ná leiðtogastólnum. Hætt er enda við að þeir sem verða undir í þeim slag geti fallið niður listann, enda sterkt fólk úr sveitastjórnum og af öðrum vettvangi sem takast á um sætið fyrir neðan leiðtogastólinn.

mbl.is Býður sig fram í 2.- 3. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband