Dapurleg örlög

Ekki er hægt annað en vorkenna Ragnari Hermannssyni, sem er fastur í helvíti á jörðu, vegna áhættunnar á að smygla eiturlyfjum, fastur í viðjum vímunnar. Aðstæður í þessu fangelsi eru þess eðlis að lífsbaráttan verður erfið. Verjast þarf nauðgunartilraunum og árásum meðfanga. Lýsingar Íslendings sem dvaldi þar fyrir nokkrum árum gefur til kynna að Ragnar muni varla lifa af vistina og hann verði í raun algjört flak tóri hann svo lengi.

Mikilvægt er að reyna að koma á framsalssamningi svo Ragnar geti í það minnsta komið heim og tekið út sína refsingu eða horft fram á eins eðlilegt líf og mögulegt má vera, miðað við alvarleika brotsins. En þetta er mikil sorgarsaga og vonandi að einhver mannsæmandi lausn finnist.


mbl.is „Ég á eftir að deyja hérna"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innistæðulaus loforð - gagnsæi Ögmundar

Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, er ekki beinlínis trúverðugur þegar hann lofar nýjum landsspítala rétt áður en ráðist verður í gríðarlegan niðurskurð, sem hlýtur að bitna á velferðarkerfinu, sama hvað stjórnarflokkarnir sögðu annars í kosningabaráttunni. Ég er hræddur um að þessi orð Ögmundar gleymist fljótt þegar farið verður í niðurskurðinn. Þetta heitir að lofa fólki einhverju sem lítil sem engin innistæða er í raun fyrir. Í raun svolítið lúalegt, en hvað með það.

Ögmundur situr í ríkisstjórn sem situr á mikilvægum upplýsingum um stöðu þjóðarinnar og vill ekki kynna það fyrir þjóðinni. Þau vinnubrögð eru ekki síður lúaleg. Furðulegt alveg fyrir vinstri græna að vera nú í því hlutverki sem þeir gagnrýndu mest Geir Haarde og Árna Mathiesen fyrir í vetur, að tala ekki nóg við þjóðina. Honum hlýtur að líða einkennilega í því ljósi, vera í hitanum sem fylgir því að sitja á upplýsingum sem í raun eiga að vera opinberar staðreyndir fyrir alla þjóðina.

6. janúar sl. ritaði Ögmundur þennan pistil á heimasíðu sína:

"Jónas Fr. Jónsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, segir okkur í fréttum Sjónvarps í kvöld að almenningi séu ekki ætlaðar upplýsingar úr skýrslum endurskoðunarfyrirtækja um bankabraskið. Fjármálaeftirlitið væri nú búið að fá slíkar skýrslur í hendur og ætlaði að skoða þær "faglega".

Jónas Fr. Jónsson ætlar með öðrum orðum ekkert að gefa upp um það hvort hvort endurskoðunarfyrirtækin sem rannsökuðu Kaupþing og Landsbankann í aðdraganda hrunsins telji að lög hafi verið brotin eður ei.

Til álita komi hins vegar að birta almenningi úrdrátt úr skýrslunum síðar. Það er að segja - kannski. Bíðum við. Almenningur á að borga en fær ekki að vita neitt um svindlið og svínaríið. Var ekki verið að tala um gagnsæi?

Auðvitað á að birta þetta allt saman strax og það á netinu. Eru yfirvöld að egna þjóðina til uppreisnar?"


Hvar er sá sem skrifaði þetta núna. Er hann ekki enn sömu skoðunar að birta eigi allt á netinu? Djöfuls hræsni!


mbl.is Vill af stað með nýjan spítala
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afrek læknisvísindanna

Fréttin af konunni með nýja andlitið er litla stórfrétt dagsins að mínu mati. Mikið afrek og eitt af undrum læknisvísindanna. Ég sá umfjöllun í sjónvarpsþætti um þessa konu fyrir nokkrum árum, þá algjörlega afmynduð og var þá að vonast eftir kraftaverki og hún gæti átt sér eitthvað líf með nýtt andlit. Svolítið sérstakt að sjá konu með nýtt andlit. Fannst reyndar undarlegast af öllu að konan hefur fyrirgefið manninum sínum, sem afmyndaði hana, og ætlar að bíða eftir honum þegar hann kemur úr fangelsi. Mikill er máttur fyrirgefningarinnar, segir maður bara.

Fyrir og eftir aðgerðina

mbl.is Fékk 80% af andliti annarrar konu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lágkúruleg framkoma hjá LÍN - hriplek skjaldborg

Ekki er hægt annað en blöskra ómannúðleg og lágkúruleg vinnubrögð LÍN. Þar er Intrum sigað á fólkið miskunnarlaust. Æ betur sést hversu léleg skjaldborgin fyrir einstaklinga og heimilin í landinu, sem ríkisstjórnin lofaði, er. Hún heldur ekki vatni og er að mestu leyti orðin tóm. Ljóst er að ekki verður gengið mikið lengra til hjálpar fólki í vanda, svo vitnað sé í heilaga Jóhönnu.

Saga Ægis Sævarssonar er ein af mörgum dapurlegum sögum. Persónulega brá mér mest að hlusta á Berglindi Jóhannesdóttur í kvöldfréttum Sjónvarps. Þvílík sorgarsaga. Hún fær ekki greiðsluaðlögun því hún hefur verið dagmamma! Á hvaða leið er þetta samfélag með úrræðum Jóhönnu og Steingríms?

Er þetta fólk ekki í sambandi? Kannski er það í fríi eða utan þjónustusvæðis eins og félagsmálaráðherrann. Ég held að þeim líði mjög illa sem treystu þessu liði fyrir atkvæðinu sínu fyrir tíu dögum. Sofandagangur þeirra er algjör.

Jóhanna var ekki beint traustvekjandi þegar hún svaraði í dag að fjölmiðlar hefðu ekki kynnt almenningi nógu vel úrræðin í stöðunni. Á hún þar við greiðsluaðlögunina? Er ekki rétt að spyrja hana út í sögu Berglindar?

mbl.is Hundeltur af LÍN
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Manchester United tekur Arsenal auðveldlega

Manchester United átti ekki í erfiðleikum með að sigra Arsenal í kvöld og fær farmiðann til Rómar og getur varið titilinn. Glæsilegt alveg. Kom mér eiginlega á óvart hvað þetta var auðveldur sigur á heimavelli Arsenal, sem átti mikið undir því að sigra. Wenger hafði verið með stórar yfirlýsingar fyrir leikinn, en þetta var burst eins og þau gerast almennt allra best.

Er ansi vongóður um að United sigri annað árið í röð. Þeir eiga alveg að geta ráðið við Chelsea eða Barcelona. Þetta verður bara skemmtilegt í Róm 27. maí. :)

mbl.is Man Utd. í úrslitaleikinn eftir 3:1 sigur á Arsenal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylkingin múrar sig inni í Evrópumálunum

Eftir því sem hefur liðið á daginn hefur orðið æ augljósara að Samfylkingin hefur múrað sig inni með Evrópumálin með samkomulaginu við vinstri græna um að láta þingið kjósa um aðildarviðræður. Borin von er að stjórnarandstaðan muni skera ríkisstjórnina, sem nær ekki samkomulagi í þessu lykilmáli Samfylkingarinnar í kosningabaráttunni, niður úr snörunni og hjálpa henni að koma því í ferli. Framsóknarflokkurinn hefur sérstaklega lagt lykkju á leið sína og snuprað Samfylkinguna, sem slær á möguleikann á sob-bandalagi um Evrópumálin.

Eðlilega situr Sjálfstæðisflokkurinn hjá eins og staða málsins er. Fjarstæða er að Samfylkingin fái einhliða umboð þingsins, með VG haltan og hlekkjaðan á hliðarlínunni, til að fara til Brussel og semja í aðildarviðræðum. Þar sem varla hefur heyrst nein málefnaleg umræða um Evrópumálin í Samfylkingunni um bæði kosti og galla aðildar er það hrein fjarstæða að einhliða trúboðar aðildarinnar fari í nafni þingsins og semji.

Mér finnst það dæmi um veikburða ríkisstjórn sem getur ekki komið sér saman um Evrópumálin á hvorn veginn sem það er, setja þau á dagskrá eður ei, og þurfi á stjórnarandstöðunni að halda til að koma málum á rekspöl. Slík stjórn getur varla verið á vetur setjandi.

mbl.is Gæti orðið stutt kjörtímabil
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljósið í myrkrinu

Eftir allar neikvæðu fréttirnar af stöðu þjóðarinnar á þessum vordögum er hálfgert ljós í myrkri að heyra að 200 milljarðar muni skila sér við sölu dótturfélaga Kaupþings og lokun útibúa. Mjög jákvætt er ef tekst að bjarga einhverjum fjármunum úr rústum gömlu bankanna til að borga upp í þá hít sem eftir stendur, sem verður erfitt verkefni fyrir íslensku þjóðina að vinna úr samhliða niðurskurði hjá ríkissjóði.

Vonandi er að við fáum fleiri svona góðar fréttir. Nógu þungt er yfir fólkinu í landinu samhliða stöðu atvinnulífsins og einstaklinga auk yfirvofandi niðurskurðar hjá ríkissjóði. Svona góð frétt hlýtur að vera jákvæð fyrir okkur öll og létta lundina í þeirri erfiðu stöðu sem blasir við.

mbl.is 200 milljarðar skila sér heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samið um að vera sammála að vera ósammála

Samkomulag stjórnarflokkanna í Evrópumálum felst í að vera sammála um að vera ósammála. VG ætlar að kyngja stoltinu, setjast þögul til hliðar og láta sob-þingmeirihlutann keyra í gegn aðildarviðræður í Evrópusambandið en halda enn í vonina um að ráða einhverju. Í kosningabaráttunni var mikið talað um að Steingrímur J. Sigfússon væri staðfastur hugsjónamaður sem myndi aldrei beygja sig í grundvallarmálum og myndi standa vörð um áherslur flokksins í Evrópumálum. Þetta er allt gleymt og grafið. Hann lætur Samfylkinguna teyma sig í Evrópurúntinn.

Þetta samkomulag felst um aðildarviðræður. Þá kemst á hreint hvað við fáum og hvað ekki. Kannski er ekki afleitt að taka slaginn og fara yfir þetta í eitt skipti fyrir öll, útkljá málið. Ég vorkenni samt vinstri grænum, sem tóku alla kosningabaráttuna í harða baráttu gegn ESB og vildi sýna sjálfstæði sitt. Þeir hafa selt það fyrir völdin strax eftir kosningar. Við munum heyra eitthvað minna á næstunni af blaðrinu um að Steingrímur J. sé einlægur hugsjónamaður.

sob-meirihlutinn hefur sitt fram í Evrópumálum, enda greinilegt að vg hefur það yfir höfði sér að Samfylkingin stingi þá í bakið eins og Sjálfstæðisflokkinn til að reyna að sjá grasið hinumegin við ána, sem er meira freistandi.

mbl.is ESB-málið til Alþingis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veruleikafirring Gylfa

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, kom skelfilega út úr Kastljósinu í kvöld. Þvílíkur afleikur. Hann er í vonlausri stöðu að verja aðgerðarleysi Jóhönnu og Steingríms. Það er eins og Gylfi geti ekki sett sig í spor fólksins í landinu sem er komið að fótum fram við að standa undir skuldum sínum og er að gefast upp og hætta að borga reikningana, eða hreinlega bara hætt að sjá fram úr hlutunum. Þetta fólk vantar hjálp og aðstoð til að sjá fram úr vandanum.

Ég tel að Gylfi sé sumpart í vondri stöðu, hann hefur enga stöðu og áhrif til að gera eitthvað, annað en verja klúðrið og sofandaganginn á vaktinni. Þvílík örlög fyrir einn fræðimann, sem endaði sem aum strengjabrúða í höndum flugfreyju og jarðfræðings.

mbl.is Furða sig á ummælum ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Magnús gjaldþrota - hörð lending auðmanna

Magnús á góðri stundu með forsetahjónunum
Ég undrast ekki að Magnús Þorsteinsson hafi fengið skellinn mikla í Héraðsdómi Norðurlands eystra hér í dag. Lögheimilaflutningarnir og tilraunin til að bjarga sér frá skuldadögunum var ekki sannfærandi og eðlilegt að auðmaðurinn sé tekinn til gjaldþrotaskipta. Þessi harkalegu endalok ættu ekki að koma honum að óvörum.

Mér finnst felast í þessari niðurstöðu að auðmenn geti vænst erfiðra tíma þegar þeir fara fyrir dóm og bú þeirra verða gerð upp síðar meir. Þeir hafa ekki í mörg skjól að venda nú þeir menn sem áður voru fastagestir í kokteil á Bessastöðum.

mbl.is Fallist á gjaldþrotakröfu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Munurinn á milli bresks leiðtoga og formanns

Gordon Brown og Harriet Harman
Eitt fer jafnan óendanlega mikið í taugarnar á mér í umfjöllun um bresk stjórnmál - sú staðreynd að sumir íslenskir fjölmiðlar þekkja ekki muninn á leiðtoga og formanni. Furðulegt er að sjá sjóaða fjölmiðla nefna Gordon Brown formann breska Verkamannaflokksins og Harriet Harman sem varaformann. Eins og allir ættu að vita er titillinn leader, það er leiðtogi.

Í breskum stjórnmálaflokkum er enda tvennt ólíkt að vera formaður eða leiðtogi. Leiðtogi er sá sem er andlit flokksins og leiðir hann út á við, er auðvitað forsætisráðherra sé flokkurinn í ríkisstjórn og er talsmaður hans út á við og inn á við. Formaðurinn er hinsvegar sá sem stjórnar innra starfinu og heldur í þræði þess sem gerist þar mun frekar en leiðtoginn.

Í Bretlandi er því staða mála gjörólík því sem við venjumst hérna heima. Því kannski skiljanlegt að sumir ruglist á þessu en það er samt sem áður vandræðalegt. Reyndar eru bresk stjórnmál ólíkt meira völundarhús og meira kerfisbákn en þau íslensku og skiljanlegt að þar sé málum skipt öðruvísi niður en í smáu landi og kerfi á við okkar.

Hvað varðar það að Harman neiti að hafa plottað gegn Gordon Brown er það auðvitað bara rugl. Eðlilegt að þar sé plottað á fullu bakvið tjöldin. Þeir stæðu betur ef Brown hefði verið sparkað í haust. Hann hefur ekki náð að snúa vörn í sókn. Tilraun hans til að upphefja sig á íslenska bankahruninu var dæmd til mistakast.

Allt bendir til að David Cameron verði forsætisráðherra bráðlega og Brown kafsigli kratana og endi í svipaðri stöðu og íhaldsmenn árið 1997.

mbl.is Harman: Vill ekki formannsembættið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðalaus ríkisstjórn á vaktinni meðan allt hrynur

Afskaplega sorglegt er að fylgjast með hinni ráðalausu ríkisstjórn sem er á vaktinni á meðan einstaklingar og atvinnulífið stefna í þrot. Lausnirnar eru mjög fátæklegar og framtíðarsýnin engin. Jóhanna Sigurðardóttir hótaði í kvöldfréttum þeim sem hætta að greiða af lánunum að þeir fengju ekki greiðsluaðlögun. Ekki veit ég hver á að taka það að sér að fá út hver hættir að borga viljandi eða óviljandi. Þarna birtist jafnaðarmennskan holdi klædd hjá heilagri Jóhönnu. Sofandagangurinn og veruleikafirringin er algjör.

Jóhanna og viðskiptaráðherrann hennar, Gylfi Magnússon, hafa gleymt einni staðreynd í öllu frasaflóðinu sínu. Staðan er sú hjá fjölmörgu fólki að skuldir þeirra eru meiri en eignir og greiðslugetan til að "þjónusta" lánin er einfaldlega ekki til staðar. Fólk er víða einfaldlega strandað og kallar eftir aðstoð. Væri þetta fólk í jarðskjálftarústum væri örugglega verið að reyna bjarga því. Nú er ekkert gert.

Ég skynja að fjölmargir sem treystu vinstriflokkunum séu að átta sig á að vanmáttur þeirra til að taka á vandanum er algjör. Þar er ekkert nema hótanir til almennings og ráðaleysið hefur tekið öll völd. Nú er farið að hóta almenningi með innheimtulögfræðingum. Ætli það sé ekki viðeigandi að rifja upp fleyg orð; Guð blessi Ísland.


mbl.is Öllum starfsmönnum sagt upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstristjórnin felur feigðina í sér

Mér finnst mikill feigðarblær yfir þeirri vinstristjórn sem verið er að brasa við að koma á koppinn. Eftir vikulangar viðræður þarf að taka viku til viðbótar að minnsta kosti til að mynda stjórnina. Greinilegt er að mikið gengur á bakvið tjöldin. Hefði allt verið slétt og fellt hefði þetta tekið skamman tíma og verið búið að tilkynna um niðurstöðu og jafnvel ný stjórn tekin við eftir kosningar. Vandræðagangurinn er algjör, sérstaklega þegar reynt er að telja fólki trú um að allt sé í lagi.

Miðað við að vinstriflokkarnir fóru fram í bandalagi er þetta langa vinnuferli við myndun stjórnarinnar talsverð tíðindi og í raun eðlilegt að velta fyrir sér hversu traustar undirstöðurnar eru. Ég sé að sumir reyna að segja að þetta sé ekki óeðlilega langur tími og nefna stjórnarmyndanir síðustu tvo áratugi í sömu andrá. Munurinn er þó sá að nú gengu flokkar bundnir til kosninga, festu sig saman og eiginlega útilokuðu aðra frá því að ganga inn í það samstarf. Þeir fóru fram sem blokk.

Þessi vandræðagangur felur í sig mikil innri mein ríkisstjórnar á vaktinni. Hún er ekki sterk á svellinu. Allar líkur eru á að hún gefist upp fyrr en síðar og kosið verði mjög fljótlega.

mbl.is Ný ríkisstjórn um næstu helgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ósýnileg listsköpun

Sara Watson og ósýnilegi bíllinn
Breski listneminn Sara Watson er orðin heimsfræg fyrir listsköpun sína; að gera bíl ósýnilegan. Ekki hægt að segja annað en henni hafi tekist vel til. Ja, allt er nú hægt að gera.

mbl.is Ósýnilegur Skodi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver mun gefa eftir í Evrópumálunum?

Mér finnst það gott dæmi um veruleikafirringu stjórnarflokkanna að þeir hafi varið heilli viku í að reyna að semja um Evrópumálin þegar einstaklingar og atvinnulífið kalla eftir aðgerðum til lausnar vandanum í samfélaginu. Reiptogið um Evrópumálið virðist ætla að taka sinn tíma ef marka má þær sögusagnir að gefa eigi þessu viku til tíu daga í viðbót.

Eftir ummæli Olli Rehn í vikunni um að Ísland fái engar undanþágur frá sjávarútvegsstefnunni og enga sérmeðferð er þó vandséð hvaða haldreipi sé í að eyða tímanum í Evrópublaðrið. Samfylkingin hefur þó Evrópumálin sem hálfgerð trúarbrögð á dagskrá sinni og virðist algjörlega blind fyrir þeirri vegferð, þó ekki hafi þeir útlistað nein samningsmarkmið.

Ég get ekki séð að hægt sé að bíða með alvöru aðgerðir til lausnar vandanum í íslensku samfélagi. Ekki örlar þó á neinu plani vinstriflokkanna í þeim efnum. Viku eftir vinstrisigurinn er ráðaleysið algjört og eiginlega ekki fjarri lagi að hugleiða hvort sé ekki stjórnarkreppa í landinu.

En væntanlega verður eitthvað barið saman varðandi Evrópumálin þó ljóst sé orðið að ekkert sé til Brussel að sækja eftir að Olli Rehn sló Samfylkinguna utan undir og gekk endanlega frá spunanum um að hægt sé að semja sig inn í hvað sem er.

Hver mun að lokum gefa eftir? Er hægt að finna sameiginlegan flöt og brúa sjónarmið VG og Samfylkingar? Er ekki himinn og haf þar á milli?


mbl.is Stjórnarsáttmáli í smíðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þolinmæðin gagnvart ríkisstjórninni á þrotum

Ég er ekki undrandi á því að þolinmæði fólksins í landinu gagnvart ríkisstjórninni sé að taka enda. Eftir að hafa hummað af sér í þrjá mánuði, þar af kosningabaráttuna alla, að koma með tillögur til lausnar á vandanum í samfélaginu fer að verða komið nóg. Stjórnarflokkarnir hafa nú dúllað sér saman í heila viku að semja um málefnin, það smotterí sem gleymdist í janúarlok þegar plottað var um kosningabandalag og aðgerðir til að koma vinstriflokkunum saman.

Flokkarnir töluðu sig frá hvor öðrum í kosningabaráttunni og voru aldrei heilsteypt kosningabandalag, mun frekar valdabandalag. Svör félagsmálaráðherrans í moggafréttinni eru frekar vandræðaleg. Eðlilega er fólki nóg boðið eftir þriggja mánaða frasablaður um ekki neitt. Spurt er um forystu, það sé bógur í stjórnvöldum til að taka ákvarðanir og hafa málefnin í fyrirrúmi í stað plottsins.

Nú þarf að fara að stjórna þessu landi. Það þarf að taka ákvarðanir. Fólk sættir sig ekki við dúllulega fundi í viku til tíu daga í viðbót á meðan samfélagið fuðrar upp.


mbl.is Margir íhuga greiðsluverkfall
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstristjórnin mynduð á leynifundum án ISG

Ég er ekki undrandi á þeirri uppljóstrun að vinstristjórnin hafi verið mynduð á leynifundum heima hjá Lúðvík Bergvinssyni í janúar á meðan Ingibjörg Sólrún var veik á spítala í Stokkhólmi og reynt var að telja sjálfstæðismönnum trú um að samstarfið væri enn heilsteypt. Árásin á þinghúsið, spuninn mikli, og bifreið Geirs Haarde verður mun heilsteyptari þegar þessi brot raðast saman. Augljóst er að samstarfinu var í raun lokið í jólaleyfi þingmanna og Össur Skarphéðinsson hafi í raun myndað stjórnina á meðan Ingibjörg Sólrún var fárveik og enginn gat tekið völdin af honum.

Augljóst er að krafa Samfylkingarinnar um forsætisráðuneytið á fundum heima hjá Geir Haarde eftir þessa fundi dagana áður og þegar ISG var komin heim var hreinn skrípaleikur. Samfylkingin hafði bundið enda á samstarfið en vildi ekki slíta því og setti því fram algjörlega óraunhæfa kröfu til að Sjálfstæðisflokkurinn færi út og það á þeim forsendum að þeir væru að verja forsætið á meðan augljóst var að Samfylkingin hafði flúið samstarfið og þorði ekki að taka óvinsælar ákvarðanir.

Þegar þessi púsl raðast saman verður enn hjákátlegri sú ákvörðun Björgvins G. Sigurðssonar að segja af sér. Hann vissi að stjórnin væri fallin og tók pópúlíska ákvörðun um að fara þegar örlög stjórnarinnar voru ráðin. Hann var aðeins að bjarga sér mjög ódýrt úr mjög erfiðri aðstöðu, því að vera viðskiptaráðherrann sem svaf á vaktinni og var ekki hafður með í ráðum, var vantreyst fyrir því að taka lykilákvarðanir þegar mest á reyndi.

Þetta var allt leikrit hið mesta. Sett upp af Samfylkingunni undir stjórn Össurar, sem í raun stýrði Samfylkingunni í nokkra mánuði á meðan Ingibjörg Sólrún var fjarri vegna veikinda og í raun alls ófær um að sinna sínum störfum. Össur er guðfaðir þessarar ríkisstjórnar og hann er í raun sá sem felldi stjórnina sem var í raun óstarfhæf mjög lengi, vegna þess að ráðherrar hennar þorðu varla að taka neinar ákvarðanir og taka af skarið.

Fyndnast af öllu er að í raun er stjórnarkreppa í landinu nú. Vinstriflokkarnir, sem þó fóru saman sem bandalag í kosningunum, ná sér ekki saman um málefnin og sitja nú dögum saman meðan samfélagið brennur, fyrirtæki og einstaklingar fara á hausinn, og ekki er tekið á málum og leyndarhjúpur yfir öllu. Gegnsæið hjá þessum stjórnvöldum er ekkert. Dýrmætum tíma er varið í að berja saman ósamstæðan hóp.

Hvað hefur breyst síðan í janúar? Fyrir utan það að ný andlit eru á stjórnarbekkjum. Ráðaleysið er algjört. Flóttinn frá ákvarðanatöku blasir við öllum. En ég fagna því í og með að sagnfræði janúarmánaðar er að afhjúpast. Valdataflið þar er að verða augljósara. Sérstaklega er mikilvægt að það komi fram, sem flestum grunaði, að Samfylkingin hafði myndað nýja stjórn, um ekki neitt nema völd, áður en hin féll endanlega.

Hvar eru málefnin? Er ekki fyrst núna verið að semja um þau? Hvað var samið um í janúar? Fyrir utan kannski að taka við völdum og skipta um áhöfn í Seðlabankanum? Hvað hefur breyst til hins betra síðan í janúar? Er búið að taka á vandanum í samfélaginu? Svari hver fyrir sig á meðan setið er í Norræna húsinu og loksins samið um einhver málefni í hálfgerðri stjórnarkreppu.


mbl.is Hlé á viðræðum í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slóðin rakin - stund sannleikans að renna upp

Gott er að yfirvöld standi vaktina og reki slóð auðmannanna í skattaskjólin. Fólkið í landinu sættir sig ekki við neitt annað en sannleikurinn verði opinberaður, hversu ógeðfelldur sem hann annars verður varðandi vinnubrögðin. Flest liggur orðið nokkuð ljóst fyrir og augljóst að margt mjög vafasamt var gert, sérstaklega þegar leið að hruni bankakerfisins hérna heima. Þessa sögu þarf að segja og opinbera alla þætti. Þessi stund sannleikans virðist nú í augsýn.

Auðmennirnir eru annað hvort flúnir frá skerinu eða á síðasta hring blekkingarleiksins. Ég sá í vikunni að Jóhannes í Bónus var að reyna að fá þjóðina til að vorkenna Jóni Ásgeiri og var enn í að reyna að mála Davíð Oddsson sem einhvern skratta í þessari hringekju blekkingarleiksins. Allir hafa séð í gegnum þessa þvælu.

mbl.is Rannsaka félög í skattaskjólum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrottaskapur og lexían mikla

Frásögnin af árás Heiðmerkurhrottanna á 15 ára stelpuna í Kastljósi í gærkvöldi var ógeðfelld og sláandi. Þetta líkist helst aðförum handrukkarahrotta. Er það kannski svo að þessar ólögráða stelpur sem létu höggin dynja í hópárásinni á stelpuna séu handrukkarar og lifi fyrir ofbeldisverk og árásir sem þessa.

Varla er að sjá að þetta sé þeirra fyrsta alvarlega árás og ofbeldið virðist ekki hafa haft meiri áhrif á þær en svo að þær heimtuðu 150.000 krónur frá þeirri sem þær börðu eins og harðfisk. Þvílík ógeð. Mikilvægt er hinsvegar að tekið verði á þessu máli og reynt að tryggja að þær læri sína lexíu.

Ofbeldi leysir engan vanda, aðeins skapar vanda í þessu samfélagi. Nýjar fréttir af ofbeldi ólögráða ungmenna, hreinn hrottaskapur og grimmd, innan skóla eða utan hlýtur að fá okkur til að hugleiða um á hvaða leið við erum.


mbl.is Hafa játað að hafa haft sig mest í frammi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandræðaleg byrjun hjá Borgarahreyfingunni

Ekki er byrjunin beint góð hjá Borgarahreyfingunni, sem ætlaði að bæta siðferðið og vera ný rödd í pólitísku starfi. Á fyrstu dögunum eru þau farin að eyða mestu púðrinu í að slá skjaldborg um og verja Þráinn Bertelsson, þingmann í liði þeirra, sem ætlar að taka við heiðurslaunum listamanna samhliða þinglaununum. Sumir benda á annað siðleysi til að verja siðleysið þeirra.

Mér finnst reyndar ótrúlegt að Þráinn bjóði þessu siðprúða fólki upp á þessi vinnubrögð og etji þau út í siðleysið með sér. Með því rýrir hann ekki aðeins sig og sín verk heldur og dregur fólk, sem örugglega vildi gera vel og stofna nýja hreyfingu með nýju siðferði, upp úr siðleysinu.

Ég man ekki eftir því að ný hreyfing falli í pyttinn á skemmri tíma og sé farin að verja eitt siðleysi með því að benda á annað. Aumkunnarvert.

mbl.is Lýsa áhyggjum af foringjastjórnmálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband