Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um pólitísku stöðuna í Þýskalandi í kjölfar þingkosninganna þar. Óhætt er að segja að pattstaða sé komin upp því að hvorugri valdablokkinni tókst að ná hreinum meirihluta. Stefnir því í stjórnarkreppu, nema þá að stóra samsteypa (grosse koalition) komi til sögunnar. Velti ég fyrir mér stöðunni og fer yfir úrslitin og önnur merkileg atriði sem rétt er að fjalla um. Óhætt er að segja að úrslit kosninganna feli í sér mestu óvissustöðu í þýskum stjórnmálum í marga áratugi. Þrátt fyrir gott gengi í skoðanakönnunum undanfarnar vikur og mánuði mistókst hægrimönnum undir forystu dr. Angelu Merkel leiðtoga CDU (kristilegra demókrata) að vinna þann mikla kosningasigur sem talinn var í sjónmáli. Hinsvegar hefur Merkel engu að síður mjög góða stöðu og fær væntanlega umboð til að mynda stjórn. Hún leiðir nú stærsta flokkinn í þýska þinginu, þann flokk sem flest atkvæði hlaut í kosningunum í dag. Gerhard Schröder kanslari, er þó ekki í þeim hugleiðingum að bakka sjálfviljugur frá sæti sínu og verður fróðlegt að sjá hvað taki við á næstu dögum.

- í öðru lagi fjalla ég um John G. Roberts sem hefur verið skipaður forseti hæstaréttar Bandaríkjanna. Hefur hann komið fyrir dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings og svarað spurningum. Blasir við að hann verði staðfestur í embættið fyrir lok mánaðarins. Fjalla ég um Roberts og málefni tengd skipan hans. Það er til marks um sterka stöðu Roberts að demókratar hafa ekki lagt fram vafa vegna kosningarinnar, sem fara á fram 28. september nk. Enginn þorir að draga feril hans í efa. Það er alveg ljóst að Bush hefur tekist ætlunarverkið með tilnefningunni, að finna íhaldsmann til að tilnefna en mann með mjög góðan bakgrunn og er ekki með beinagrind í skápnum, eins og sagt er. Það er enda ljóst að Roberts mun verða staðfestur af þinginu vel fyrir mánaðarmót. Það er ljóst að með skipun Roberts í forsetastól hæstaréttar hefur Bush forseti markað sér sess í sögunni.

- í þriðja lagi fjalla ég um umsókn okkar í Öryggisráð SÞ og atburðarás vegna þess máls seinustu daga. Forsætisráðherra hefur lýst formlega yfir framboðinu með ræðu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Andstaða við málið hefur magnast upp seinustu mánuðina innan stjórnarflokkanna. Eins og sést hefur á viðbrögðum þingmanna stjórnarflokkanna eftir yfirlýsingu forsætisráðherra, meira að segja þingmanna hans eigin flokks er engin samstaða um málið. Það er enda farið af sporinu - möguleikar okkar á sætinu minnka sífellt og málið er að mjög litlu leyti heillandi. Ég get ekki annað en ítrekað andstöðu mína við málið og ber fram þá ósk að Sjálfstæðisflokkurinn muni beita sér í þá átt að horft verði í aðrar áttir og hætt verði við þessa umsókn.


Kristján Eldjárn forseti
1916-1982


Kristján Eldjárn forseti

Lengi hef ég haft mikinn áhuga á að fræðast um söguna og sögulega punkta úr ævi merkra Íslendinga. Í síðustu viku veiktist ég og þurfti að vera heima vegna þess. Endurnýjaði ég kynni mín af ævisögum Gylfa Gröndal um fyrstu forsetana þrjá - stórfenglegar bækur. Sérstaklega hefur mér alltaf þótt gaman að lesa bókina um Svarfdælinginn Kristján Eldjárn og forsetaferil hans, þar sem vitnað er í dagbókarskrif hans. Las ég bókina aftur - fyrsta af þessum þremur að þessu sinni. Kristján hefur alltaf að mínu mati verið einn fremsti forseti þjóðarinnar - sannkallaður heiðursmaður sem var sameiningartákn í embættinu. Kristján fæddist að Tjörn í Svarfaðardal þann 6. desember 1916. Hann nam fornleifafræði við Kaupmannahafnarháskóla 1936-1939 og var skipaður þjóðminjavörður 1947. Hann var kjörinn forseti Íslands í forsetakosningunum 1968. Sat hann á forsetastóli í þrjú kjörtímabil, 12 ár, eða allt til ársins 1980. Hann lést á sjúkrahúsi í Cleveland í Ohio í Bandaríkjunum þann 14. september 1982.

Kristján vann afgerandi kosningasigur í forsetakjörinu 1968. Hann var forseti fólksins, honum auðnaðist alla tíð að tryggja samstöðu landsmanna um verk sín og naut virðingar allra landsmanna. Kristján var forseti á miklum umbrotatímum hérlendis, bæði í þjóðmálum og á vettvangi stjórnmála. Kristján var mjög kraftmikill ræðumaður og rómaður fyrir innihaldsríkar og tilkomumiklar ræður sínar. Hef ég kynnt mér ítarlega ævi hans og starfsferil og skrifaði langa ritgerð um hann í skóla eitt sinn. Þegar ég kynnti mér verk hans og ævi þótti mér helst standa upp úr hversu farsællega hann vann öll sín verk. Hann var öflugur þjóðarleiðtogi og ávann sér virðingu fólks með alþýðlegri og tignarlegri framkomu, jafnt hér heima sem á erlendum vettvangi. Hann var sannkallað sameiningartákn landsmanna - eitthvað sem við höfum svo sannarlega saknað frá því að Vigdís Finnbogadóttir hætti sem forseti.

Bók Gylfa um Kristján er stórfengleg lýsing á þessum merka manni. Merkilegast af öllu við að kynna mér hann og verk hans í gegnum þessa bók var það að honum var alla tíð illa við Bessastaði og var alltaf stressaður vegna ræðuskrifa sinna - var aldrei sáttur við neinar ræður sínar. Hann var hinsvegar talinn þá og enn í dag besti ræðumaður sinnar kynslóðar að Gunnari Thoroddsen frátöldum. Hann er eini af þeim þrem forsetum landsins sem látnir eru sem hvílir ekki að Bessastöðum, heldur hvílir hann í Fossvogskirkjugarði í Reykjavík. Fékk ég ævisögu Kristjáns í jólagjöf um jólin 1991 - eflaust er það mjög til marks um karakter minn og áhugamál. Meðan að skólafélagar mínir fengu bók á borð við Tár, bros og takkaskór, las ég svona eðalbækur. Tel ég mig hafa grætt mikið á því og hafa áhugasvið mín ekki breyst í áranna rás.

Hvet ég alla til að lesa þessar góðu bækur og kynna sér vel og ævi og forsetatíð forsetanna þriggja - sérstaklega mæli ég með bókinni um Kristján, sveitastrákinn að norðan sem varð forseti Íslands og öflugur þjóðhöfðingi landsins.

Saga dagsins
1851 Dagblaðið New York Times kom út í fyrsta skipti - umdeilt blað vegna fréttamennsku sinnar.
1961 Dag Hammarskjöld framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, ferst í flugslysi í Rhodesíu, 56 ára að aldri. Hann hlaut friðarverðlaun Nóbels eftir andlát sitt, í virðingarskyni við umfangsmikið framlag hans til friðar í heiminum, en hann var á leið til Kenýa til að taka þátt í friðarviðræðum þegar hann lést. Aldrei hefur komið fyllilega í ljós hvort flugvél Hammarskjolds fórst vegna slyss eða var grandað.
1968 Portúgalska knattspyrnuliðið Benfica keppti við boltalið Vals á Laugardalsvellinum í Reykjavík. Áhorfendur voru 18.243, en það var vallarmet á vellinum allt til 18. ágúst 2004 þegar Ísland sigraði Ítali. Leiknum lauk með markalausu jafntefli en meðal leikmanna Benfica var hinn víðfrægi Eusebio.
1970 Tónlistarmaðurinn Jimi Hendrix, lést í London, 27 ára gamall. Hann var einn fremsti gítarleikari 20. aldarinnar - rokkgoðsögn í lifanda lífi, sem ávann sér sess í sögu tónlistarinnar á örstuttum ferli.
1997 Viðskiptajöfurinn Ted Turner sem átti til dæmis CNN, gaf Sameinuðu þjóðunum 1 billjón dala.

Snjallyrðið
Það er svo margt að una við,
að elska, þrá og gleðjast við,
jafnt orð, sem þögn og lit sem lag,
jafnt langa nótt, sem bjartan dag.
Mér fátt er kærra öðru eitt
ég elska lífið djúpt og heitt,
því allt, sem maður óskar, næst
og allir draumar geta ræzt.

Ég byggi hlátraheima
í húmi langrar nætur.
Af svefni upp í söngvahug
með sól ég rís á fætur.
Og augun geisla af gleði
sem grær í mínu hjarta.
En syrti að ég syng mig inn
í sólskinsveröld bjarta.
Kristján frá Djúpalæk skáld (1916-1994) (Dans gleðinnar)

Fallegt ljóð Akureyrarskáldsins Kristjáns frá Djúpalæk - tært og sætt í gegn.


Engin fyrirsögn

Punktar dagsins
Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, ávarpaði aðfararnótt föstudags allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York, sem fundar nú þessa dagana. Í ræðu sinni lýsti forsætisráðherra því yfir formlega að Ísland yrði nú í fyrsta skipti í framboði til sætis í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, tímabilið 2009-2010. Kom yfirlýsing Halldórs mjög á óvart, enda hafði almennt verið talið að ákvörðun í málinu myndi bíða fram yfir ráðherraskipti í utanríkisráðuneytinu eftir tíu daga. Davíð Oddsson utanríkisráðherra, sem lætur af ráðherraembætti þann 27. september nk. hafði lýst því yfir í vikunni að hann væri hlynntur því að hætta við framboðið en teldi rétt að eftirmaður hans á ráðherrastóli, Geir H. Haarde, myndi taka ákvörðunina er hann tæki til starfa í utanríkisráðuneytinu. Svo virðist vera sem að Halldór hafi ekki talið rétt að bíða þess og tekið af skarið fyrr. Er að mínu mati mjög óeðlilegt að Halldór lýsi þessu yfir og láti málið og endanlegt ákvörðunarvald ekki vera í höndum utanríkisráðherra, þar sem það á að vera. Þykja mér vinnubrögð forsætisráðherrans langt í frá til sóma og ekki til sæmdar forsætisráðherranum að koma fram með þessum hætti. Hef ég annars aldrei hikað við að tjá andstöðu mína við þessa umsókn í öryggisráðið og hefur andstaða mín sífellt aukist eftir því sem ég hef kynnt mér málið betur. Er þetta að mínu mati ein þvæla í gegn.

Eins og sést hefur er nauðsynlegt, ef heyja á baráttu um sætið af einhverri alvöru, að eyða í það stórpeningum án þess að nokkuð sé um það öruggt að Ísland muni vinna sætið. Er að mínu mati rétt að staldra aðeins við og hugsa málið betur. Á það ber að minnast að meirihluti þeirra mála sem tekinn er fyrir af Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna eru málefni sem Íslendingar hafa hingað til lítið sem ekkert beitt sér í. Þykir mér skorta allverulega á að sýnt sé með skýrum hætti fram á hvaða ávinningur hlýst af setu í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Kostnaðurinn er það mikill að fá þarf betur fram hver ávinningurinn sé, eigi að halda áfram á þessari braut. Ef forsætisráðherra ætlar að halda áfram á sömu braut er rétt að velta því fyrir sér hvað gerist í málinu innan Sjálfstæðisflokksins og af hálfu verðandi formanns flokksins og væntanlegs utanríkisráðherra. Sólómennska forsætisráðherra við þetta steindauða mál vekur mikla furðu, en rétt er á það að benda að um er að ræða gæluverkefni hans til nokkurs tíma. Að framansögðu er rétt að ítreka mat mitt að Ísland eigi að hætta við umsókn sína um sæti í öryggisráðinu. Rétt er að forgangsraða betur í málaflokknum og beina sjónum okkar í aðrar áttir.

Eins og sést hefur á viðbrögðum þingmanna stjórnarflokkanna eftir yfirlýsingu forsætisráðherra, meira að segja þingmanna hans eigin flokks er engin samstaða um málið. Það er enda farið af sporinu - möguleikar okkar á sætinu minnka sífellt og málið er að mjög litlu leyti heillandi. Kosningabaráttunni fylgir geypilegur kostnaður við baráttuna og ekki síður þegar og ef sætinu er náð (sem sífellt minni líkur eru á að komi til vegna minnkandi möguleika okkar á sætinu). Ég get ekki annað en tjáð andstöðu mína við málið og ber fram þá ósk að Sjálfstæðisflokkurinn muni beita sér í þá átt að horft verði í aðrar áttir og hætt verði við þessa umsókn með formlegum hætti. En það er viðbúið að brátt dragi að úrslitastund og fróðlegt að sjá hver endirinn verður, í ljósi andstöðu við málið innan beggja stjórnarflokkanna.

Þorgerður Katrín í karlmannsgerviIngibjörg Sólrún í karlmannsgervi

Óhætt er að segja að ný auglýsingaherferð Verslunarmannafélags Reykjavíkur hafi hitt í mark. Um er að ræða herferð undir yfirskriftinni: Ekki láta útlitið blekkja þig! Auglýsingarnar varpa ljósi á um hvað launamunur kynjanna snýst í raun og veru. Þær tala í raun enda sínu máli. Í auglýsingunum sjáum við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Gísla Martein Baldursson og Egil Helgason í nýju ljósi - öðrum kynjahlutverkum. Gísli Marteinn birtist sem glæsileg ljóska, Ingibjörg Sólrún sem reffilegur embættismaður, Þorgerður Katrín sem verkamannstýpa og Egill sem miðaldra kona, þó frekar stórgerð. Þetta eru snilldarlega gerðar auglýsingar. Þeim tekst bæði að vekja á sér athygli vegna þess hversu frumlegar og góðar þær eru. Umfram allt vekja þær þó athygli á því þarfa umræðuefni sem launamunur kynjanna. Eins og vitað er, er launamunur kynjanna óeðlilegur og leitt að á okkar tímum sé hann enn til staðar. Hann verður að hverfa, færa verður stöðu mála til nútímans. Kynbundinn launamunur er óeðlilegur. Þessar auglýsingar eru mjög góðar og hefja nauðsynlega umræðu á nýtt plan og vekur athygli á þörfu málefni með kraftmiklum og lifandi hætti. VR á mikið hrós fyrir þetta framtak að mínu mati. Síðast en ekki síst er svo mjög skemmtilegt að sjá fyrirsæturnar í nýju ljósi - í senn bæði fyndnu og sem vekur til umhugsunar.

John G. Roberts

Yfirheyrslum yfir John G. Roberts tilnefndum forseta hæstaréttar Bandaríkjanna, lauk í dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings á fimmtudag. Lauk þá ítarlegu spurningaferli í garð Roberts og flutti hann að því loknu lokaorð til nefndarmanna. Í kjölfarið komu fyrir nefndina fulltrúar ýmissa þrýstihópa og samtaka sem vilja tjá sig um skipan hans í forsetastól hæstaréttar, og eru bæði andvígir honum og meðmæltir. Brátt styttist svo í formlega atkvæðagreiðslu um hann. Er gert ráð fyrir atkvæðagreiðslu eigi síðar en 28. september. Rétturinn kemur saman að loknu réttarhléi þann 3. október og því alveg ljóst að Roberts verður tekinn við starfinu fyrir þann tíma. Er nú helst efasemdir um það hversu margir demókratar muni kjósa Roberts í kosningunni. Það er til marks um sterka stöðu Roberts að demókratar hafa ekki lagt fram vafa vegna kosningarinnar og ekki reynt að tefja undirbúning þess að hún fari fram eigi síðar en 28. september. Það segir ansi margt um stöðu mála. Enginn þorir að draga feril hans í efa og nær allir ljúka lofsorði á störf hans. Það er alveg ljóst að Bush hefur tekist ætlunarverkið með tilnefningunni, að finna íhaldsmann til að tilnefna en mann með mjög góðan bakgrunn og er ekki með beinagrind í skápnum, eins og sagt er. Það er enda ljóst að Roberts mun verða staðfestur af þinginu vel fyrir mánaðarmót.

George W. Bush forseti

George W. Bush forseti Bandaríkjanna, ávarpaði bandarísku þjóðina að kvöldi fimmtudags frá miðborg New Orleans í Louisiana. Miklar skemmdir urðu í borginni í kjölfar fellibylsins Katrínar og mikil eyðilegging blasir þar við. Mjög hefur verið deilt á vinnubrögð í kjölfar fellibylsins og deilt hefur verið harkalega sérstaklega á forsetann. Meirihluti Bandaríkjamanna telur skv. skoðanakönnunum að forsetinn hafi ekki staðið sig í málinu og óvinsældir hans hafa aukist mjög. Í ávarpinu talaði Bush til landsmanna og útskýrði málið og fór yfir það. Viðurkenndi hann þar að öll stig stjórnkerfisins hefðu brugðist eftir hamfarirnar. Fram kom í máli forsetans að vandinn sem fylgt hefði í kjölfar fellibylsins hefði reynst yfirþyrmandi fyrir þunglamalegt kerfi almannavarna landsins sem þyrfti stórlega að bæta. Hann tók fram að ábyrgðin á mistökunum væri að lokum sín, enda væri hann forseti landsins. Jafnframt tók hann fram að það væri hans að finna lausnina á vandanum. Í ávarpinu tók forsetinn af öll tvímæli um það að borgin skyldi endurreist. Mjög góður rómur var gerður að ræðu forsetans og virðist sem honum hafi tekist í senn bæði að laga almenningsálitið og ná forystu í málinu að nýju eftir vandræðin.

Kosningaveggspjöld í Þýskalandi

Þingkosningar munu fara fram í Þýskalandi á morgun. Kosningabaráttan hefur náð hámarki og barist er af krafti um atkvæði almennings. Allar skoðanakannanir benda til nokkuð öruggs sigurs hægriblokkarinnar í kosningunum. Fari svo mun dr. Angela Merkel leiðtogi CDU (Kristilegra demókrata) verða fyrsta konan sem sest á stól kanslara Þýskalands. Í ítarlegum pistli á vef Heimdallar í gær fór ég yfir þýsku þingkosningarnar og málefni kosningabaráttunnar sem nú er að ljúka. Það ræðst á sunnudagskvöldið hvort að "stúlkan hans Kohls" eins og hin fimmtuga austurþýska járngella íhaldsmanna er almennt kölluð nái völdum og komist í sögubækurnar eða hvort að Schröder tekst að næla sér í þriðja kjörtímabilið, þvert á allar kosningaspár. Ég hef lengi haft áhuga á þýskri pólitík og fylgist því vel með allt þar til að úrslitin koma í ljós. Þýsk stjórnmál eru enda skemmtilega heillandi.

Saga gærdagsins
1908 General Motors-bílafyrirtækið formlega stofnað - er hið stærsta sinnar tegundar í heiminum.
1936 Franska hafrannsóknaskipið Pourquoi paz? strandaði í miklu fárviðri við Straumfjörð á Mýrum. 38 manns fórust í slysinu, þeirra á meðal vísindamaðurinn Jean Charcot. Aðeins einn komst lífs af.
1942 Kvikmyndin Citizen Kane var frumsýnd í Gamla bíói - almennt talin ein besta mynd aldarinnar.
1963 Lyndon B. Johnson varaforseti Bandaríkjanna, kom í opinbera heimsókn til Íslands og var vel fagnað. Rúmum tveimur mánuðum eftir heimsókn sína hingað til Íslands, varð Johnson 36. forseti Bandaríkjanna. Hann tók við embætti í kjölfar morðsins á John F. Kennedy forseta, í Dallas í Texas.
1977 Óperusöngkonan Maria Callas deyr í París, 53 ára gömul - ein af bestu söngkonum aldarinnar.

Saga dagsins
1717 Gos hófst í Kverkfjöllum við norðanverðan Vatnajökul - mikið hlaup varð í Jökulsá á Fjöllum.
1980 Anastasio Somoza Debayle fyrrum forseti Nicaragua, myrtur í Asunción í Paraguay. Debayle
var seinasti þjóðarleiðtogi landsins úr hinni alræmdu Somoza-fjölskyldu sem ríkti í landinu 1936-1979.
Í kjölfar þess að Debayle missti völd sín flúði hann í útlegð til Bandaríkjanna. Debayle var myrtur
af útsendurum Sandinista-stjórnarinnar í Nicaragua, sem tók við völdum eftir fall Somoza-veldisins.
1984 Brian Mulroney tók við embætti forsætisráðherra í Kanada - hann sat á valdastóli allt til 1993.
1992 Landsbanki Íslands tók yfir allar eignir Sambands íslenskra samvinnufélaga, upp í gríðarlegar skuldir Sambandsins til bankans. Í kjölfarið mátti heita að starfsemi SÍS, sem verið hafði stórveldi í íslensku þjóðlífi megnið af 20. öldinni, lyki. SÍS er þó enn til og starfar að litlu leyti hér á Akureyri.
2001 José Carreras hélt tónleika í Laugardalshöll - söng ásamt Diddú fyrir fullu húsi og var vel fagnað.

Snjallyrðið
Tíminn er eins og vatnið,
og vatnið er kalt og djúpt
eins og vitund mín sjálfs.

Og tíminn er eins og mynd,
sem er máluð af vatninu
og mér til hálfs.

Og tíminn og vatnið
renna veglaust til þurrðar
inn í vitund mín sjálfs.
Steinn Steinarr skáld (1908-1958) (Tíminn og vatnið)

Eitt af bestu ljóðum Steins. Hefur lengi verið í miklu uppáhaldi hjá mér - táknrænt og öflugt ljóð.


Engin fyrirsögn

Halldór Ásgrímsson á
forsætisráðherrastóli í eitt ár


Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra

Í dag er ár liðið frá því að Halldór Ásgrímsson formaður Framsóknarflokksins, tók við embætti forsætisráðherra af Davíð Oddssyni formanni Sjálfstæðisflokksins. Davíð hafði þá setið á forsætisráðherrastóli samfellt í rúm þrettán ár. Samhliða þessu tók Davíð við embætti utanríkisráðherra af Halldóri, sem þá hafði verið á þeim stóli í tæpan áratug. Ljóst var á þessum degi fyrir ári að Halldór hefði mikla reynslu til að takast á hendur þetta mikla verkefni að verða verkstjóri í ríkisstjórn Íslands. Hann er starfsaldursforseti Alþingis og hefur setið á þingi í þrjá áratugi. Halldór hefur setið rúman hálfan annan áratug á ráðherrastóli, í ár sem forsætisráðherra, rúm 9 ár sem utanríkisráðherra og 8 ár sem sjávarútvegsráðherra. Það var til marks um traust persónulegt samstarf Davíðs og Halldórs að þeir skiptust á embættum í stjórn flokkanna, sem setið hefur í áratug, án átaka eða togstreitu um valdastóla. Eftirsjá var af Davíð úr forystusæti ríkisstjórnarinnar, enda er hann mun öflugri stjórnmálamaður en Halldór. Mörgum sjálfstæðismönnum þótti enda mjög súrt í broti að miklu minni flokkur tæki við forsæti í ríkisstjórn landsins. Það hefði farið best á því auðvitað að formaður Sjálfstæðisflokksins hefði leitt stjórnina, enda forystumaður mun stærri stjórnmálaflokks, með miklu öflugra umboð kjósenda.

En nú þegar að Halldór hefur setið sem forsætisráðherra í ár er ekki úr vegi að líta yfir farinn veg. Hvernig hefur þetta fyrsta ár Halldórs í embættinu verið? Mörgum dettur eflaust í hug orðin vandræðagangur og erfiðleikar. Óhætt er að fullyrða að Halldór hafi haldið allt öðruvísi á málum í embætti og í formennsku flokksins en Steingrímur Hermannsson, forveri hans á formannsstóli, gerði meðan hann gegndi síðast á sama tíma bæði formennsku í Framsóknarflokknum og forsætisráðherraembættinu, 1988-1991. Steingrímur hefur enda gagnrýnt Halldór mjög. Halldór fetar aðrar leiðir og ekki er laust við að gæti þar áhrifa frá Blair og vinnubrögðum hans í almennri umræðu. Í pólitík sinni undanfarin ár hefur hann safnað að sér liði fyrrum fréttamanna sem aðstoðarmanna og almennatengslaráðgjöfum innan flokksins og í ráðuneytinu. Almennt séð er einsdæmi hér á landi að forsætisráðherra hafi á sínum snærum á að skipa fjölda fyrrum fréttamanna í opinberu hlutverki sem málsvara flokksins og ráðuneytisins, bæði í fjölmiðlum og á opinberum vettvangi. Með þessa menn innanborðs tekst Halldóri oft að spinna umræðuna og túlka með öðrum hætti og beina henni í aðra farvegi. Er upp koma stór mál eru sendir af örkinni spunameistararnir þrír, þeir eru virkir í netskrifum innan flokksins og eru málsvarar Halldórs víða. Spuninn teygir sig því víða.

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra

Ef marka hefur mátt skoðanakannanir hefur ekki blásið byrlega fyrir Halldór. Fylgi flokksins og persónulegt fylgi hans sem forsætisráðherra hefur verið lítið. Framsóknarflokkurinn hefur náð sögulegu lágmarki í skoðanakönnunum í forsætisráðherratíð Halldórs. Flokkurinn og Halldór sjálfur hafa því mjög lítið grætt á því að hafa hlotið forsætið í ríkisstjórn stjórnarflokkanna. Hart var sótt að Halldóri á fyrri hluta ársins vegna ýmissa mála. Eins og flestir vita er þekkja til mælinga á persónufylgi forsætisráðherra landsins í gegnum árin hefur Halldór hlotið óvenjuslæma útreið í könnunum. Altént höfum við ekki séð slíkar tölur mjög lengi og t.d. hafði Davíð Oddsson sem forsætisráðherra sterka stöðu í embætti og mikinn stuðning í skoðanakönnunum, en var vissulega umdeildur. En staða Halldórs er mun veikari. Vissulega verður að taka tillit til þess að Halldór er formaður smáflokks skv. skoðanakönnunum og því hægt að búast við að formenn slíkra flokka njóti minna fylgis en forystumenn stærstu flokka landsins í embættinu. Er greinilegt að Halldór hefur brugðist við þessum könnunum og dapri stöðu í mælingum meðal landsmanna með markvissum hætti, annað er að minnsta kosti ekki hægt að sjá hjá spunasérfræðingunum hans. Þeir hafa sótt fram fyrir hönd Halldórs og staðið vörð um stöðu hans á opinberum vettvangi.

Athygli vakti fyrr á árinu er spunameistarar hans tilkynntu að Halldór myndi feta í fótspor forsætisráðherra Bretlands og halda blaðamannafundi reglulega til að ræða málin við fjölmiðlamenn. Fátt hefur komið út úr því. Reyndar sagði Halldór á frægum blaðamannafundi í júní vegna umræðunnar um tengsl hans við Skinney-Þinganes vegna sölunnar á Búnaðarbankanum að það væri fyrsti reglulegi blaðamannafundurinn hans. Síðan hefur mjög lítið gerst. Innan Framsóknarflokksins hefur ástandið verið eldimt, það hefur blasað við enda hefur hitnað mjög yfir yfirborði flokksins. Svo virðist sem að Halldór Ásgrímsson hafi aldrei verið veikari í sessi í forystu flokksins, en einmitt eftir að hann tók við embætti forsætisráðherra fyrir ári. Flest virðist hafa gengið honum í óhag. Komu viss grunnátök í flokknum vel fram á flokksþingi Framsóknarflokksins í mars. Þar var ekki bara tekist á í lokuðum herbergjum um stefnuna og stöðu mála, heldur fyrir opnum tjöldum. Sérstaklega átti þetta við um Evrópumálin. Þar var tekist á með mjög ákveðnum hætti. Hefur verið merkilegt að sjá forystumenn flokksins takast á um málið og tjá ólíka sýn til ESB. Að lokum fór svo á flokksþinginu að ESB-stefna flokksins sem átti að vera mjög afgerandi varð mjög útvötnuð og sagði nær ekkert nýtt. Voru það mikil vonbrigði fyrir stuðningsmenn aðildar innan flokksins.

Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson

Við lok flokksþingsins var Halldór endurkjörinn formaður flokksins. Hlaut hann rúm 80% atkvæða, um 16% minna fylgi en síðast. Segir það eflaust margt um stöðu Halldórs að hann hlýtur lakari kosningu í embætti flokksformanns eftir að hann tók við embætti forsætisráðherra, en sem utanríkisráðherra, er hann var meira erlendis og fjarri innra starfinu beint. Þetta þótti mjög athyglisverð niðurstaða. Ekki var um að ræða átakaþing hjá flokknum hvað varðar kosningar forystumanna, þeir voru endurkjörnir með yfirgnæfandi hætti, en hlutu þó veikara umboð en síðast. Við blasir að ástandið í Framsóknarflokknum er eldfimt. Raunveruleg átök um völd og áhrif munu væntanlega verða á næsta flokksþingi, sem haldið verður á kosningaári, á árinu 2007. Hinn brothætti Framsóknarflokkur á því væntanlega erfiða tíma framundan hvað varðar þessi mál. Átökin þar virðast rétt að hefjast. Fyrir liggur að átakalínurnar eru víða og flokkurinn horfir brothættur fram á veginn til þess uppgjörs sem verður fyrir lok kjörtímabilsins um stefnu og áherslur flokksins.

Svo verður fróðlegt að sjá hvort samstarf flokkanna breytist, nú er Davíð Oddsson hættir þátttöku í stjórnmálum. Framsóknarflokkurinn og Halldór eru allavega á vissum þáttaskilum, nú þegar hann hefur setið í forsæti ríkisstjórnar Íslands í nákvæmlega ár. Verður fróðlegt að fylgjast með stjórnmálaferli Halldórs á næstu árum og fylgjast þá einkum með því hvort hann muni leiða flokkinn framyfir næstu þingkosningar, eða víkja af pólitíska sviðinu á kjörtímabilinu eins og Davíð Oddsson.

Saga dagsins
1959 Nikita Khrushchev verður fyrsti leiðtogi Sovétríkjanna er kemur í heimsókn til Bandaríkjanna.
1964 Breska æsifréttadagblaðið The Sun kemur út fyrsta sinni - markaði þáttaskil í fréttamennsku.
1972 Ásgeir Ásgeirsson fyrrv. forseti Íslands, lést, 78 ára að aldri. Ásgeir var til fjölda ára einn af helstu stjórnmálamönnum landsins, áður en hann varð forseti landsins. Hann sat sem þingmaður í þrjá áratugi og var forsætisráðherra 1932-1934. Ásgeir var ennfremur forseti sameinaðs Alþingis og bankastjóri Útvegsbankans. Hann var forseti Íslands 1952-1968 og naut mikillar hylli landsmanna á löngum forsetaferli sínum. Eiginkona Ásgeirs, Dóra Þórhallsdóttir, lést úr hvítblæði í september 1964.
1973 Gústaf Adolf VI Svíakonungur, lést í Stokkhólmi, níræður að aldri - var konungur Svía frá 1950.
2004 Davíð Oddsson lætur af embætti forsætisráðherra í ríkisstjórn Íslands - hann hafði þá setið í embætti forsætisráðherra frá 30. apríl 1991, eða í 4886 daga, lengur en nokkur annar Íslendingur. Davíð tilkynnti í september 2005 um að hann myndi hætta þátttöku í stjórnmálum. Hann mun láta af formennsku í Sjálfstæðisflokknum í október og hættir sem utanríkisráðherra nú í septembermánuði.

Snjallyrðið
Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt,
sem dropi breytir veig heillar skálar.
Þel getur snúist við atorð eitt.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Svo oft leyndist strengur í brjósti sem brast,
við biturt andsvar, gefið án saka.
Hve iðrar margt líf eitt augnakast,
sem aldrei verður tekið til baka.
Einar Benediktsson skáld (1864-1940) (Einræður Starkaðar)

Fallegt ljóð hjá meistara Einari - segir allt sem segja þarf. Mikil speki í þessu.


Engin fyrirsögn

Punktar dagsins
Hús Sameinuðu þjóðanna í New York

Eins og flestum er kunnugt hefur Ísland ákveðið að sækjast eftir sæti í Öryggisráðinu árið 2009 og hefur hafið kosningabaráttu til að hljóta þar sæti. Alls eiga 15 ríki sæti í Öryggisráðinu, þar af eru fimm með fast sæti. Kosið er um hin 10 sætin á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Ísland mun keppa um laust sæti í ráðinu við Tyrkland og Austurríki. Hefur þetta leitt til umræðu um hvort að draga eigi umsóknina til baka eður ei. Er ljóst að ekki hefur verið samstaða innan Sjálfstæðisflokksins um málið og þessa aðildarumsókn í heild sinni. Athygli vakti í janúarmánuði er Einar Oddur Kristjánsson alþingismaður og varaformaður fjárlaganefndar Alþingis, tjáði eindregna andstöðu sína við aðildarumsóknina. Sagði hann þá kostnað við hana geta farið yfir einn milljarð króna þegar allt væri talið með. Tilkynnti þá skoðun sína að Davíð Oddsson utanríkisráðherra, ætti að draga umsóknina til baka. Hef ég alla tíð verið mjög andsnúinn þessari umsókn, eins og ég hef margoft ítrekað í skrifum mínum. Við hjá SUS höfum margoft ályktað ennfremur gegn umsókninni. Skrifaði ég ítarlegan pistil um málið þann 7. febrúar sl. og fór þá yfir umræðuna vikurnar á undan. Í pistlinum bar ég fram þá ósk að Davíð myndi beita sér í þá átt að hætta við þessa umsókn með formlegum hætti.

29. apríl sl. flutti Davíð skýrslu sína um utanríkismál. Þar tjáði hann þá skoðun sína að áleitnar spurningar hefðu komið upp í hans huga varðandi kostnað við framboð Íslands til öryggisráðsins. Síðan þá og eins eftir ummæli þingmanna Sjálfstæðisflokksins hafa miklar efasemdir verið uppi um þetta mál. Nú er framundan allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna og verða íslensk stjórnvöld að taka endanlega ákvörðun í málinu, hvort þeir fara út í kosningabaráttu af þessu tagi, fyrir þingbyrjun 3. október nk. Í dag tilkynnti Davíð að hann myndi ekki taka þá ákvörðun áður en hann léti af embætti utanríkisráðherra þann 27. september nk. Það kemur því í hlut Geirs H. Haarde fjármálaráðherra, sem tekur við embætti af Davíð að taka hina endanlegu ákvörðun um framhald málsins. Verður fróðlegt að sjá hvaða afstöðu hann muni taka til málsins að lokum. Finnst mér það rétt hjá Davíð að færa valdið í hendur eftirmanns síns. Davíð er að fara að hætta störfum í stjórnmálum og kveður ráðuneytið brátt og því hið eina rétta að Geir taki ákvörðunina. Eins og fyrr segir hef ég alla tíð verið mjög andvígur því að Ísland myndi sækja um þessa aðild, enda um að ræða mjög kostnaðarsama kosningabaráttu sem taki bæði langan tíma og alls óvíst sé um árangur.

Eins og sést hefur er nauðsynlegt, ef heyja á baráttu um sætið af einhverri alvöru, að eyða í það stórpeningum án þess að nokkuð sé um það öruggt að Ísland muni vinna sætið. Er að mínu mati rétt að staldra aðeins við og hugsa málið betur. Á það ber að minnast að meirihluti þeirra mála sem tekinn er fyrir af Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna eru málefni sem Íslendingar hafa hingað til lítið sem ekkert beitt sér í. Þykir mér skorta allverulega á að sýnt sé með skýrum hætti fram á hvaða ávinningur hlýst af setu í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Kostnaðurinn er það mikill að fá þarf betur fram hver ávinningurinn sé, eigi að halda áfram á þessari braut. Ef forsætisráðherra ætlar að halda áfram á sömu braut er rétt að velta því fyrir sér hvað gerist í málinu innan Sjálfstæðisflokksins og af hálfu verðandi formanns flokksins og væntanlegs utanríkisráðherra. Að framansögðu er rétt að ítreka mat mitt að Ísland eigi að hætta við umsókn sína um sæti í öryggisráðinu. Rétt er að forgangsraða betur í málaflokknum og beina sjónum okkar í aðrar áttir.

Ég get ekki annað en tjáð andstöðu mína við málið og ber fram þá ósk að Geir muni beita sér í þá átt að horft verði í aðrar áttir og hætt verði við þessa umsókn með formlegum hætti. En það er viðbúið að brátt dragi að úrslitastund og fróðlegt að sjá hver endirinn verður.

Gerhard SchröderAngela Merkel

Þjóðverjar ganga að kjörborðinu á sunnudag. Munurinn milli vinstri- og hægriblokkarinnar hefur aukist að nýju seinustu daga. Stefnir nú allt í frekar afgerandi sigur hægriaflanna og það að Angela Merkel verði kanslari, fyrst þýskra kvenna. Gerhard Schröder kanslara, hafði tekist eftir sjónvarpseinvígi milli hans og Merkel í seinustu viku að auka fylgi jafnaðarmanna en nú hefur munurinn aukist aftur. Skv. nýjustu könnunum gætu hægriflokkarnir myndað starfhæfa ríkisstjórn undir forsæti Merkel. Að því stefnir hún. Schröder hefur lagt nótt við dag til að breyta stöðunni en líkur hans minnka sífellt eftir því sem nær dregur. Svo gæti þó farið að hægriflokkarnir nái ekki starfhæfum meirihluta, sem myndi leiða til hinnar svonefndu stóru samsteypu (grosse koalition) sem er samstjórn hægriflokkanna og jafnaðarmanna. Hefur slík stjórn ekki verið mynduð síðan á miðjum sjöunda áratug 20. aldarinnar, og sat sú stjórn árin 1966-1969. Það yrðu því óneitanlega þáttaskil ef hún kæmi til nú. Hvernig sem fer virðist allt stefna í að Merkel taki við og ákveði framhaldið. Er öllum ljóst að Schröder yrði vart í stjórn undir forsæti hennar og er því spurning hvernig flokkur hans færi út úr slíku samstarfi. Reyndar er Schröder ekki leiðtogi flokksins, heldur aðeins kanslaraefni hans. Hvernig sem fer stefnir í líflegan lokasprett og spennandi kosningakvöld þegar úrslitin koma endanlega í ljós.

John G. Roberts

Seinustu dagana hefur John G. Roberts tilnefndur forseti hæstaréttar Bandaríkjanna, setið fyrir svörum hjá dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings. Þar hefur hann fengið fjölda spurninga um lagaleg álitaefni og málefni tengd persónu hans. Er óhætt að fullyrða að farið hafi verið yfir ólík málefni, allt frá smáatriðum sem hann hefur ritað um persónuleg viðhorf og lagaleg álitaefni til háfræðilegra málefna tengdum stórmálum sem fyrir hæstarétt hafa farið á undanförnum áratugum. Hef ég fylgst smávægilega með spurningaferlinu og séð brot af því á vef CNN. Er óhætt að segja að þetta séu ítarlegar yfirheyrslur og fátt sem framhjá fer í því öllu saman. Sérstaklega hafa fulltrúar demókrata í nefndinni saumað að Roberts og viljað heyra meira um skoðanir hans á fjölda málefna. Hefur Roberts komið mjög á óvart að flestra mati í þessum yfirheyrslum með því að virka með á alla hluti og vel reiðubúinn að eiga við þaulreynda þingmennina. Er enginn vafi á því að hann verður staðfestur sem forseti réttarins innan skamms tíma. Reyndar lýkur yfirheyrslunum formlega á morgun og þá tekur við bein kosning fyrir öldungadeildinni. Þar verður Roberts að hljóta rúmlega 50 atkvæði til að verða staðfestur. Er algjörlega ljóst að hann fær þann stuðning og gott betur. Ekki er búist við mikilli andstöðu er á hólminn kemur.

Easy Rider

Í gærkvöldi horfði ég á kvikmyndina Easy Rider, sígilda og næstum sagnfræðilega gullaldarheimild um hippaheimspeki sjöunda áratugarins. Í myndinni er sögð saga af blómabörnunum Billy og Wyatt sem leggja upp í ferð til að skoða gervalla Ameríku. Á leiðinni kynnast þeir fjölmörgum skrýtnum landanum, m.a. er George Hanson, lögfróður drykkjurútur, sem ákveður að slást í för með þeim félögum. Hiklaust ein af mest stefnumótandi myndum sjöunda áratugarins og jafnvel kvikmyndasögunnar, enda eru eftirlíkingarnar af henni orðnar óteljandi. Kostaði smáaura en halaði inn milljónum dollara og varð ein af vinsælustu kvikmyndum sjöunda áratugarins og hefur unnið sér merkan sess í kvikmyndasögunni. Dennis Hopper og Peter Fonda fara á kostum í hlutverkum ferðafélaganna og óskarsverðlaunaleikarinn Jack Nicholson er ógleymanlegur í hlutverki George Hanson. Það hlutverk færði honum frægð og frama og frelsaði hann undan samstarfi hans við B-myndaleikstjórann Roger Corman, en B-myndirnar voru ódýrar fljótheitamyndir sem gerðar voru til að fylla upp í þegar A-myndir voru sýndar með annarri mynd. Heldur afar vel sínum upphaflega sjarma og er enn í dag meistaraleg úttekt á þessum róstursama áratug þegar blómabörnin voru uppá sitt besta. Ætti að vera flestum ágæt upprifjun eða upplifun.

Brynjólfur Sveinsson

Á hverjum degi meðhöndlum við flestöll þúsund króna seðil. Eins og flestir vita prýðir þann seðil mynd af Brynjólfi Sveinsson biskup að Skálholti. Brynjólfur á sér mjög merka sögu, svo vægt sé til orða tekið. Í dag opnaði hr. Karl Sigurbjörnsson biskup, ítarlegan vef um Brynjólf og sögu hans. Hvet ég alla lesendur vefsins til að líta á hann og kynna sér betur þennan merka mann og lesa umfjöllunina sem þar er að finna. Er hún bæði góð og fróðleg.

Saga dagsins
1950 Flugvélin Geysir brotlenti á Bárðarbungu á Vatnajökli - 6 manna áhöfn komst lífs af í slysinu.
1982 Dr. Kristján Eldjárn fyrrv. forseti Íslands, deyr á sjúkrahúsi í Bandaríkjunum, 65 ára að aldri, eftir að hafa gengist undir hjartaaðgerð í Ohio. Kristján þótti táknmynd alþýðleika og virðugleika á forsetastóli, en hann gegndi forsetaembættinu með mjög farsælum hætti í tólf ár, árin 1968-1980.
1982 Grace Kelly furstaynja af Mónakó, deyr af völdum heilablóðfalls í kjölfar bílslyss, 52 ára að aldri. Grace var ein frægasta leikkonan í Hollywood á sjötta áratug 20. aldarinnar og lék í nokkrum heimsfrægum kvikmyndum og hlaut óskarsverðlaun fyrir leik sinn í kvikmyndinni The Country Girl árið 1955. Grace hætti kvikmyndaleik og vék af braut lífsins í Hollywood, er hún giftist Rainier III fursta af Mónakó, árið 1956. Rainier sat áfram á valdastóli eftir lát konu sinnar. Hann lést í aprílmánuði 2005.
1996 Vestfjarðagöngin, milli Önundarfjarðar, Súgandafjarðar og Ísafjarðar vígð - þau eru 9 km. löng.
2003 Sænskir kjósendur höfnuðu aðild landsins að myntbandalagi Evrópu, í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Snjallyrðið
Ljúfasta stundin
er löngu horfin
og liðið að hausti.
Skjálfa viðir,
en skipið fúnar
skorðað í nausti.

Og sorgin læðist
í svörtum slæðum
um sölnuð engi.
Blöðin hrynja
í bleikum skógum
á brostna strengi.

Löng er nóttin
og nístingsköld
við niðandi ósa.
Hjartað stinga
hélaðir þyrnar
heilagra rósa.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Haustkveðja)

Ein af perlum Davíðs frá Fagraskógi - fallegt og táknrænt ljóð.


Engin fyrirsögn

Punktar dagsins
Eyjafjörður

Heitasta málið í umræðunni hér í Eyjafirði þessa dagana eru sameiningarmálin. Eftir tæpan mánuð, þann 8. október nk. verður kosið um sameiningu níu sveitarfélaga hér í Eyjafirði. Mikið er rætt um þessi mál hér og hefur maður orðið mjög var við það að fólk telur vanta meiri umræðu um kosti og galla sameiningar og beina kynningu á málinu. Í gærkvöldi héldum við sjálfstæðismenn á Akureyri fund um sameiningarmálin í Kaupangi. Var ég fundarstjóri á fundinum og flutti Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarfulltrúi og formaður sameiningarnefndar sveitarfélaganna níu, framsögu um málið. Fór hún þar yfir málið frá mörgum hliðum og kynnti stöðu mála frá sjónarhóli nefndarinnar sem hún hefur stýrt. Að lokinni framsögu Sigrúnar Bjarkar voru miklar umræður um málið, margar spurningar og líflegt spjall. Er greinilegt að fólk hefur áhuga á málinu og vill heyra meira um meginpunkta þess, sem eðlilegt er. Bráðlega fara svo af stað kynningarfundir á málinu. Hefjast þeir 19. september nk. á Siglufirði og lýkur kynningarferlinu með stórum fundi hér á Akureyri þann 4. október nk. Gefst þar kjósendum tækifæri á að spyrja um málið frá öllum hliðum og fara yfir stöðuna. 3. október nk. verður svo haldinn kynningarfundur um málið á Dalvík og verður gestur þess fundar Árni Magnússon félagsmálaráðherra, og fyrrum sveitarstjórnarmaður í Hveragerði.

Það er nauðsynlegt að fram fari krefjandi og opinská umræða um kosti og galla þessara mála. Á því eru að mínu mati bæði miklir kostir en ennfremur gallar eins og ávallt þegar um stórmál er að ræða. Hinsvegar hef ég alltaf verið jákvæður fyrir sameiningu hér við fjörðinn. Það er okkur öllum til heilla að efla fjörðinn sem eina heild og vinna saman að þeim verkefnum sem skipta eiga okkur máli á komandi árum. Sameinuð erum við auðvitað mun sterkari en sundruð. En taka verður gallana inn í myndina. Einnig má deila um það hvort þessi kosning fari fram á heppilegum tíma. Persónulega var ég andvígur því að hafa kosninguna svona seint á árinu. Það eru kosningar til sveitarstjórna framundan eftir rúma 9 mánuði og það er óþægilegt fyrir allt skipulag þeirra að vera að flækjast með þessa kosningu á undan sér framundir árslok jafnvel, ef ferlið fer í aðra umferð - sem óhjákvæmilegt verður að mínu mati. Ég er eftir að hafa velt málinu mikið fyrir mér eindreginn stuðningsmaður þess að sameining fari fram. Ýmis hagræðing fer fram samhliða sameiningunni og ennfremur verður svæðið ein og styrk heild umfram allt. Það er mjög mikilvægt að styrkja meginlínurnar með því að sameina kraftana og vinna vel saman.

Hinsvegar tek ég undir með mörgum andstæðingum sameiningar að það er rangt af yfirvöldum að framkvæma svona kosningu víða á sama tímapunkti. Það á að vera innri ákvörðun sveitarfélaga hvort að þau vilji sameinast eða taka upp nánari samvinnu í stórum málum. Gott dæmi er sameiningar hér í firðinum á undanförnum árum. Þær hafa komið fram vegna þess að sveitarfélögin hafa viljað vinna saman. Árið 1993 var kosið um allt land um tillögur þáverandi félagsmálaráðherra um sameiningu sveitarfélaga. Kosið var um að sameina allan Eyjafjörð í eitt sveitarfélag. Þessi tillaga var felld með miklum mun allsstaðar nema á Akureyri. Þá var svo róttæk tillaga ekki tímabær. Á seinasta áratug hafa sameiningar orðið milli sveitarfélaga á svæðinu. Dalvík, Árskógsströnd og Svarfaðardalur sameinuðust í Dalvíkurbyggð árið 1998, árið 2002 sameinuðust Skriðuhreppur, Hörgárdalshreppur og Glæsibæjarhreppur í Hörgárbyggð og í fyrra sameinuðust Akureyrarbær og Hríseyjarhreppur. Ljóst er að þróunin stefnir í þá átt að fjörðurinn verði að lokum eitt sveitarfélag, en það gæti gerst í lengri skrefum en þau sem stíga á með kosningunni 8. október.

En fyrst og fremst verður þetta ekki fengið fram með valdboði, heldur því að sveitarfélögin vilji stíga skrefið. Það er grunnpunktur að mínu mati. En kynningarferlið heldur áfram - við fylgjumst spennt með því, erum hér öll áhugasöm um að heyra meira um málið og kynningu á kostum og göllum sameiningar sveitarfélaga hér við Eyjafjörð.

Bessi Bjarnason (1930-2005)

Bessi Bjarnason leikari, er látinn, 75 ára að aldri. Með honum er fallinn í valinn einn besti leikari Íslendinga á 20. öld. Hann setti sterkan svip á íslenskt leikhúslíf og var áberandi í auglýsingum, sjónvarpsmyndum og kvikmyndum á löngum leikferli og var heiðursfélagi í Félagi leikara. Bessi fæddist í Reykjavík 5. september 1930. Hann lauk prófi frá Leiklistarskóla Þjóðleikhússins 1952 og hóf störf við leikhúsið það ár. Bessi var fastráðinn við Þjóðleikhúsið allan sinn leikferil, árin 1952-1990, en hann lét þar af störfum árið 2000. Fyrsta hlutverk hans í leikhúsinu var er hann var nemi og tók þátt í opnunarsýningu Þjóðleikhússins, Íslandsklukkunni, árið 1950. Lék hann í rúmlega tvö hundruð hlutverkum á glæsilegum ferli við Þjóðleikhúsið. Hann þótti jafnvígur á alvöru sem gráglettið gaman og fór á kostum í gamanleikritum, söngleikjum og alvarlegum leikritum og fjölmörgum barnaleikritum. Hann er ódauðlegur fyrir túlkun sína á Mikka ref í Dýrunum í Hálsaskógi. Á ég það leikverk á spólu - sannkallaður fjársjóður. Ennfremur þykir mér ógleymanleg túlkun hans í fjölda sjónvarpsleikrita og kvikmynda. Sem sviðsleikara verður hans væntanlega helst minnst fyrir Skugga-Svein, Húsvörðinn, Andorra, Lukkuriddarann, Gæja og píur, Kabarett, Pilt og stúlku, Bílaverkstæði Badda; svo aðeins nokkur séu nefnd. Undir lok ferilsins fór hann á kostum í fjölda hlutverka í gamanverkum.

Ógleymanleg er túlkun hans á Guðjóni Ísdal í Manni í mislitum sokkum, árið 1997. Eitt af hans seinustu verkum á sviði var Fjögur hjörtu. Hann lék þar ásamt félögum sínum Rúrik Haraldssyni, Árna Tryggvasyni og Gunnari Eyjólfssyni. Var þetta síðasta sviðsverk Rúriks, sem lést árið 2003. Gleymi ég aldrei skemmtilegri kvöldstund hér á Akureyri sumarið 1998 er þeir félagar komu norður með sýninguna. Ógleymanleg kvöldstund með sönnum snillingum. Ennfremur má minnast á fyrstu sjónvarpsauglýsinguna, sem fór í loftið er Sjónvarpið hóf útsendingar árið 1966. Þar fór Bessi Bjarnason á kostum við að auglýsa Kórónajakkaföt, sem þóttu hið flottasta þá. Sú auglýsing er alveg stórfengleg. Bar ég alltaf mikla virðingu fyrir Bessa sem leikara, hann var í mínum huga hinn eini sanni gamanleikari. Hitti alltaf í mark með túlkun sinni og setti mark sitt á þau verk sem hann tók þátt í. Man ég vel eftir því þegar að ég hitti Bessa í verslun í Reykjavík, aðeins sjö ára gamall. Þá þótti mér sem ég hefði hitt guðlega veru. Bessi var enda Mikki refur í mínum augum - og eflaust flestra af minni og eldri kynslóðum. Eftirlifandi eiginkona Bessa Bjarnasonar er Margrét Guðmundsdóttir leikkona. Þau giftust eftir að þau léku saman í hinum stórfenglega gamanleik Á sama tíma að ári, á áttunda áratugnum.

Við leiðarlok er Bessi Bjarnason kvaddur með söknuði. Hann var í senn ógleymanlegur leikari og sá besti á sviði gamanleiks á seinnihluta tuttugustu aldarinnar. Sannkallaður meistari sem túlkaði stórbrotna karaktera með óviðjafnanlegum hætti.

Jens Stoltenberg

Það fór eins og flesta grunaði. Hægristjórnin í Noregi féll í þingkosningunum í gær. Var mjótt á munum en þó meiri munur en helstu spekingar höfðu spáð fyrir kjördag. Þáttaskil verða því í norskum stjórnmálum. Rauðgræna bandalagið hefur hafið formlegar stjórnarmyndunarviðræður - en það hafði ákveðið fyrir kosningar að starfa saman fengi það meirihluta á þingi. Öllum er þó ljóst að bandalagið mun starfa saman og Jens Stoltenberg leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins, verður forsætisráðherra Noregs, öðru sinni. Hann var forsætisráðherra Noregs árin 2000-2001. Þó að Stoltenberg geti verið glaður með að komast til valda aftur er sigurinn óneitanlega nokkuð súrsætur. Jafnaðarmenn fá tæp 33%, sem eru önnur lökustu kosningaúrslit flokksins frá því á öðrum áratug. Sögulegu lágmarki flokksins var náð með þingkosningunum árið 2001, þegar fylgið fór undir 25%, sem þótti skelfilegur árangur. Skal það engan undra, enda hefur Jafnaðarmannaflokkurinn verið í forystu norskra stjórnmála meginpart seinustu aldar. Með þessum úrslitum lýkur forsætisráðherraferli prestsins og hægrimannsins Kjell Magne Bondevik. Stjórn hans sat nær óslitið í átta ár. Verður merkilegt að fylgjast með norskum stjórnmálum nú við valdaskiptin.

Á Glerártorgi

Fimm ár eru nú liðin frá því að verslunarmiðstöðin Glerártorg opnaði hér á Akureyri. Mikil og öflug fyrirtæki eru þar í verslunarrekstri og mikill fjöldi leggur þangað leið sína á hverjum degi. Það hefur svo sannarlega sýnt sig og sannað að bygging verslunarmiðstöðarinnar var gott skref. Segja má að miðpunktur verslunar í bænum hafi fært sig þangað. Nú eru komnar fram metnaðarfullar hugmyndir um að stækka verslunarmiðstöðina að Glerártorgi um helming. Með endalokum Skinnaiðnaðar gefst tækifæri á að stækka Glerártorg. Nú hefur Smáratorg sem á verslunarmiðstöðina gert tilboð í hús Skinnaiðnaðar. Eigendur hússins er Akureyrarbær auk lífeyrissjóða og Landsbankans. Nú verður spennandi að sjá hvað gerist. Óneitanlega verður enn líflegra yfir svæðinu og verslun þar verði stækkunin að veruleika. Blasir það við öllum að sóknarfæri eru til að stækka verslunarmiðstöðina og efla hana.

Góð plata félaganna á Baggalút

Fastur liður í vefrúntinum á hverjum degi er hinn óborganlegi vefur félaganna á Baggalút. Stórskemmtilegur og flottur vefur með góðu gríni. Allavega hentar hann vel mínum húmor. Nýlega gáfu þeir félagar út plötuna Pabbi þarf að vinna... sem er með flottum lögum og góðum húmor, eins og þeirra er von og vísa. Keypti mér plötuna um daginn, enda hafði ég heyrt nokkur lög hljóma í útvarpinu, t.d. titillagið sem sungið er af Rúnari Júlíussyni. Hvet alla til að fá sér plötuna og skemmta sér vel yfir henni. Pottþétt skemmtun.

Saga dagsins
1948 Margaret Chase Smith var kjörin fyrst kvenna á bandaríska þingið - Margaret varð fyrsta konan í sögu landsins sem kjörin var bæði í fulltrúadeild og öldungadeild bandaríska þingsins í þingsögunni.
1981 Borgarfjarðarbrúin var vígð - með henni styttist leiðin milli Akraness og Borgarness umtalsvert.
1982 Málaferli hefjast gegn foreldrum barns sem sökuð eru um að hafa myrt barn sitt, en þau sögðu að hafi verið drepið af villidýri - umdeilt mál sem gerð var kvikmynd um. Foreldrarnir unnu í málinu.
1993 Yitzhak Rabin forsætisráðherra Ísraels og Yasser Arafat leiðtogi Palestínuaraba, skrifa undir samning um frið í Mið-austurlöndum. Samningurinn var virtur að mestu í upphafi og friður komst á, en friðarferlið fór út af sporinu eftir morðið á Rabin árið 1995 og ríkisstjórnarskipti í Ísrael árið eftir.
2001 Iain Duncan Smith, lítt þekktur þingmaður Íhaldsflokksins, kjörinn leiðtogi flokksins - Duncan Smith var umdeildur innan flokksins meðan hann leiddi hann og var felldur af leiðtogastóli árið 2003.

Snjallyrðið
We'll meet again,
Don't know where,
Don't know when,
But I know
We'll meet again
Some sunny day.

Keep smiling through
Just like you
Always do
Till the blue skies
Drive the dark clouds
Far away.
Ross Parker tónlistarmaður (We'll Meet Again)

Allir þeir sem hafa séð myndina Dr. Strangelove þekkja lagið og ljóðið. Undurfallegt og sætt ljóð - með sannri tilfinningu.


Engin fyrirsögn

Punktar dagsins
Varðskip

Tilkynnt var um skiptingu Símapeninganna í síðustu viku. Ríkið fékk tæpa 67 milljarða fyrir Símann og framundan eru næg verkefni sem blasa við sem andvirði þeirra fer í. Ánægjulegast er að stór skerfur andvirðisins fer í að greiða niður skuldir ríkisins. Ennfremur fagna ég því mjög að Landhelgisgæslan fái vænan hluta: í nýja björgunarþyrlu og varðskip. Eru það þörf og góð verkefni. Ennfremur er ánægjulegt að Sundabraut komi loks til sögunnar. Hinsvegar deila menn um ágæti hátæknisjúkrahússins ef menn ætla að fara að færa flugvöllinn jafnvel burt úr borginni. Vonandi heldur hann sér á höfuðborgarsvæðinu. Það eru miklir hagsmunir fólgnir í því að skipan máli verði með þeim hætti. Það er allavega ekki vænlegt skref að ætla að byggja upp hátæknisjúkrahús og ætla svo jafnvel að færa völlinn til Keflavíkur. Er mikilvægt að menn íhugi vel mikilvægi flugvallar á höfuðborgarsvæðinu, eins og ég hef svo margoft tekið fram. En aftur að varðskipunum. Í síðustu viku kom varðskipið Ægir til landsins frá Póllandi eftir gagngerar endurbætur. Eins og allir vita var tilboði pólskrar skipasmíðastöðvar tekið í endurbætur á Ægi og Tý. Eins og allir vita sem fylgjast hafa með skrifum mínum á þessu ári var ég einn þeirra sem harmaði mjög þá ákvörðun.

Við sjálfstæðismenn á Akureyri vorum allavega verulega ósátt við það að tilboði Slippstöðvarinnar hér á Akureyri í verkið var ekki tekið og sendum við í Verði ályktun frá okkur um málið. Óhætt er að fullyrða að þessi ákvörðun hafi orðið okkur Akureyringum mjög mikil vonbrigði, svo ekki sé nú meira sagt. Vakti mikla furðu og undrun að ekki hafi verið samið við Slippstöðina, hér á Akureyri, um breytingar og endurbætur á varðskipunum. Tilboð pólverjanna hljóðaði upp á 275 milljónir og var 13 milljónum króna lægra en tilboðið frá Slippstöðinni. Við blasti enda að munurinn á tilboðunum væri það lítill að hann myndi ekki einu sinni ná að dekka þann kostnað sem fylgdi því að flytja verkið úr landi. Þótti mér með ólíkindum að hlusta á rökstuðning Ríkiskaupa í málinu á þeim tímapunkti, en ég hef í engu skipt um skoðun. Að mínu mati var með ólíkindum að ekki hafi verið reynt að efla íslenskan skipa- og málmiðnað með þeim hætti sem best hentar, þegar svo stórt verkefni var um að ræða. Vakti þessi ákvörðun margar spurningar í stöðunni á þeim tímapunkti og ekki síður nú. Sú sem helst stendur eftir er þessi: hvað olli því að Ríkiskaup tók þann kostinn að horfa að öllu leyti framhjá kostnaði við flutning skipanna, uppihaldi starfsmanna og tengda þætti sem óhjákvæmilega fylgir?

Var ekki rétt að staldra aðeins við og taka þann þátt betur inn í dæmið áður en svo stór ákvörðun er tekin. Er rétt að minna á að fyrir nokkrum árum voru sömu varðskip send í endurnýjun til Póllands. Í það skiptið varð viðgerðin á Tý um 60% dýrari en kostnaðaráætlun gerði ráð fyrir. Hvað varðar Ægi fór kostnaðaráætlun þá 90% yfir það sem stefnt var að. Búast hefði mátt við að sú lexía hefði orðið stjórnvöldum og Ríkiskaupum dýrkeypt og mótað afstöðu til málsins fyrr á árinu. Sú varð ekki raunin. Eins og heyrst hefur í fréttum er staða Slippstöðvarinnar frekar slæm og horfir þunglega, en vonandi ná menn höndum saman um að laga það sem að er. Var ekki til að bæta stöðuna að horfa á þetta stóra og mikla verkefni fara héðan frá Akureyri út til Póllands. En ég endurtek mikilvægi þess að Símapeningarnir fari í mikilvæg verkefni og tek fram mikla ánægju mína með það að gert sé ráð fyrir nýju varðskipi og nýrri björgunarþyrlu.

John G. Roberts með fjölskyldu sinni

Eins og kom fram hér á vefnum í síðustu viku hefur George W. Bush forseti Bandaríkjanna, tilnefnt John G. Roberts sem forseta hæstaréttar Bandaríkjanna, í stað William H. Rehnquist sem lést fyrir rúmri viku. Í sumar hafði Bush tilnefnt Roberts sem dómara við réttinn í stað Söndru Day O'Connor. Sú skipan hefur verið dregin aftur og mun Bush fljótlega tilnefna annað dómaraefni en Sandra mun gegna embætti þar til eftirmaður hefur verið staðfestur í þinginu. Í dag kom Roberts fyrir dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings og með því hefst staðfestingarferli vegna skipunar hans í forsetastólinn. Er þetta í fyrsta skipti í ellefu ár sem slíkt ferli hefst fyrir þinginu. Roberts þykir vera óumdeildur og er ekki búist við miklum og bitrum átökum vegna skipunar hans. Er það eflaust vegna þess að hann verður ekki svokallað swing vote eins og áður stefndi í, hefði hann tekið við af Söndru. Enginn í þinginu hefur þorað að draga feril hans, hið minnsta jafnvel, í efa og ljúka allir lofsorði á störf hans. Búast má við að hann fái á sig margar krefjandi spurningar og sótt verði að honum með því. En hinsvegar minnka sífellt líkurnar á hvassyrtu staðfestingarferli. Eru flestir spekingarnir vestanhafs farnir að spá því að Roberts muni fljúga með hraði inn í forsetastól réttarins og mæti lítilli mótspyrnu er á hólminn komi.

Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra

Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra, hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér í varaformannskjöri og styður Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra. Ennfremur hefur Bjarni Benediktsson lýst yfir stuðningi við Þorgerði Katrínu. Var yfirlýsing Árna merkileg í ljósi þess að hann er leiðtogi síns kjördæmis og hefur setið mun lengur á þingi en Þorgerður Katrín og ennfremur verið lengur í ríkisstjórn en hún. Leggur Árni greinilega ekki í slag við Þorgerði Katrínu um varaformennskuna. Það er vissulega mjög merkilegt að Árni styðji Þorgerði Katrínu til varaformennsku á þeirri forsendu einni að hún sé kona. Árni nefndi enda engin önnur atriði sem ástæðu fyrir því að hann styður Þorgerði Katrínu. Mér virðist það vera svo að Árni sé annaðhvort orðinn lítillátur maður með aldrinum eða hefur misst pólitíska frumkvæðið í kjördæminu til Þorgerðar Katrínar með atburðum seinustu daga. Mér er það allavega stórlega til efs að hann muni leiða lista flokksins í kjördæminu verði Þorgerður Katrín varaformaður og fari aftur fram í kraganum. Það getur varla svo verið komið að fólk verði forystumenn flokka sinna eingöngu vegna kynferðis síns – allavega undrast ég það ef svo er. Það hlýtur að vera svo að annað ráði en kynjasjónarmið, þó það sé auðvitað gott og blessað að konur hafi metnað fyrir sér. Fyrri verk og pólitísk forysta hljóta að vera ráðandi þáttur.

Jens Stoltenberg og Kjell Magne Bondevik

Þingkosningar eru í Noregi í dag. Skv. skoðanakönnunum í Noregi stefnir allt í spennandi kosningar og erfitt að spá hvort að vinstri- eða hægriarmurinn komist til valda að þeim loknum. Þó spá flestir spekingar að vinstristjórn komist til valda í landinu eftir kosningarnar, undir forsæti Jens Stoltenberg leiðtoga Jafnaðarmannaflokksins. Fari svo mun óhjákvæmilega hægristjórn Kjell Magne Bondevik forsætisráðherra, falla. Stjórnin hefur setið nær óslitið frá árinu 1997. Stoltenberg var reyndar forsætisráðherra í rúmt ár, 2000-2001, en tapaði seinustu þingkosningum árið 2001. Seinustu vikurnar hefur reyndar munurinn milli vinstri- og hægriblokkarinnar minnkað nokkuð. Skyndilega er orðinn fræðilegur möguleiki á því að Bondevik haldi völdum. Líkurnar á því minnka vissulega í ljósi þess að Carl I. Hagen og Framfaraflokkurinn vilja helst breyta til. Stjórnin hefur minnihluta á þinginu og þarf algjörlega að stóla sig á Hagen og flokk hans. Hætti hann stuðningi við stjórnina árið 2000 sem leiddi til falls hennar fram að kosningunum sem hægriflokkarnir unnu og mynduð var á ný stjórn í takt við fyrri hægristjórn. Búast má við spennandi kjördegi og talningu atkvæða. Bondevik hefur að flestra mati tekist að bæta verulega við sig og náð vopnum sínum. En nú er spurt: tekst honum að snúa stöðunni við? Það verður fróðlegt að fylgjast með því.

Jóna Lísa ásamt sóknarbörnum

Séra Jóna Lísa kvaddi sóknarbörn hér á Akureyri í gær með messu í Akureyrarkirkju. Var það notaleg og góð stund. Fjöldi fólks mætti í kirkju til að kveðja Jónu Lísu. Hún lætur af embætti á fimmtudag og heldur til annarra starfa. Eftir messuna var kaffi og veitingar í boði í Safnaðarheimilinu, fjöldi fólks þáði það boð. Sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson tekur svo við störfum í kirkjunni fyrir vikulok og ásamt honum Sólveig Halla Kristjánsdóttir guðfræðingur, sem tekur við nýju starfi æskulýðsprests. Með því þjóna þrír prestar við kirkjuna í stað tveggja áður. Svavar Alfreð heldur auðvitað áfram sínum störfum sem aðalprestur við kirkjuna. Séra Jónu Lísu eru færðar góðar kveðjur við starfslokin, er hún heldur nú til útlanda í ný verkefni. Nýjum presti er óskað góðs í sínum störfum fyrir sóknarbörn í Akureyrarprestakalli.

Saga dagsins
1974 Haile Selassie keisara Eþíópíu, steypt af stóli í valdaráni hersins. Keisaradæmið aflagt með því.
1977 Steve Biko, sem leiddi baráttu blökkumanna gegn valdhöfum í Suður-Afríku, deyr í varðhaldi.
1997 Skotar samþykkja með yfirgnæfandi hætti í þjóðaratkvæðagreiðslu að koma upp heimastjórn í Edinborg - Donald Dewar verður fyrsti forystumaður heimastjórnar - Dewar lést snögglega árið 2000.
2001 George W. Bush forseti Bandaríkjanna, lýsir yfir stríði gegn hryðjuverkum, eftir árásir á BNA.
2003 Sveitasöngvarinn Johnny Cash, ein helsta goðsögnin í sveitatónlistinni, deyr, 71 árs að aldri.

Snjallyrðið
When I think of angels
I think of you.
And your flaming red hair
and the things that you do.

I heard you had left
no it couldn't be true.
When I think of angels
I think of you.

Gods speed to you angel
wherever you go.
Although you have left
I want you to know;

My heart's full of sorrow
I won't let it show.
I'll see you again
when it's my time to go.
Kristján Kristjánsson (KK) tónlistarmaður (When I Think of Angels)

Gríðarlega fallegt ljóð eftir KK. Engin orð fá lýst þessu - þetta talar sínu máli. Sannkölluð snilld.


Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um tvö fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um brotthvarf Davíðs Oddssonar úr íslenskum stjórnmálum. Davíð hefur jafnan verið talinn maður óvæntra tíðinda í íslenskum stjórnmálum. Hann kom flestum á óvart á miðvikudag með því að tilkynna að hann tæki við embætti seðlabankastjóra og myndi víkja úr ríkisstjórn og af þingi fyrir lok mánaðarins og léti af formennsku í Sjálfstæðisflokknum á landsfundi í næsta mánuði. Fer ég yfir mat mitt á þessari ákvörðun Davíðs. Davíð er einstakur stjórnmálamaður, einn öflugasti stjórnmálamaður í stjórnmálasögu landsins, það er ekki flóknara. En hann tekur þessa ákvörðun sjálfur og við í flokknum virðum hana og kveðjum hann með nokkrum söknuði en við höfum fjölda fólks sem tekur við verkunum og forystu flokksins. En ég neita því ekki að ég sé eftir Davíð úr stjórnmálum. Í pistlinum lýsi ég yfir stuðningi við Geir H. Haarde sem næsta formann Sjálfstæðisflokksins. Fer vel á því að hann verði eftirmaður Davíðs á formannsstóli.

- í öðru lagi fjalla ég um væntanlegan varaformannsslag í Sjálfstæðisflokknum. Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, hafa lýst yfir framboði sínu. Lýsi ég yfir stuðningi mínum við Kristján Þór í pistlinum. Eins og flestir ættu að vita höfum við Kristján Þór verið samherjar í pólitík hér í Eyjafirði til fjölda ára og ég styð hann því auðvitað heilshugar til þessa embættis. Annars tel ég flokknum hollt að fram fari hressileg átök um varaformennskuna, sem nú er laus í kjölfar tíðinda vikunnar, en að landsfundi loknum muni flokksmenn svo auðvitað sameinast að baki kjörinni forystu. Við brotthvarf Davíðs Oddssonar er mikilvægt að við stöndum saman vörð um arfleifð stjórnmálaferils hans og sjálfstæðisstefnuna, grunnstefnu okkar hægrimanna sem styðjum flokkinn, sem okkur er öllum svo kær.


Fjórum árum eftir 9/11

World Trade Center

Í dag, 11. september, er þess minnst að fjögur ár eru liðin frá hryðjuverkaárásunum grimmdarlegu á New York og Washington sem kostuðu um þrjú þúsund manns lífið, árás sem er hiklaust með eftirminnilegustu augnablikum mannkynssögunnar. Víst er að fólk mun aldrei gleyma svipmyndunum af World Trade Center í rjúkandi rúst og svo hinni táknrænu sjón er tvíburaturnarnir hrundu til jarðar. Þetta eru svipmyndir sem eru greyptar í minni allra þeirra sem upplifðu þessar hörmungar á sinn hátt um allan heim. Allir þeir sem muna þennan dag muna glögglega hvar þeir voru staddir þegar þeir heyrðu fréttirnar af árásinni, á svipaðan hátt og fyrri kynslóðir minnast föstudagsins 22. nóvember 1963 þegar John Fitzgerald Kennedy forseti Bandaríkjanna, féll fyrir morðingjahendi í Dallas í Texas.

Á þessum fjórum árum hefur mannlífið í Bandaríkjunum verið að taka á sig sömu mynd og áður en andrúmsloftið verður aldrei samt eftir það mikla rothögg sem þessi árás var fyrir allt vestrænt samfélag og Bandaríkjamenn. Ætlun hryðjuverkamannanna var að sundra þjóðarsál Bandaríkjanna og vega að henni. Árásirnar þjöppuðu hinsvegar landsmönnum saman og efldi þjóðerniskennd þeirra. Þjóðerniskennd hefur sennilega aldrei verið meiri en nú í landinu, og hetjanna sem létust í árásinni verður minnst um allan heim í dag. Árásirnar reyndu mikið á ríkisstjórn George W. Bush forseta Bandaríkjanna, og hann persónulega. Þær settu gríðarmikið mark á fyrra kjörtímabil hans og stefnu ríkisstjórnarinnar og öll áhersluatriði í valdatíð hans.

Árásin á New York og Washington, 11. september 2001, var ekki bara aðför að Bandaríkjunum heldur vestrænu samfélagi almennt. Með þeim hætti var þeim voðaverkum svarað og stuðningur mikill um allan heim við þær aðgerðir sem fylgdu í kjölfar þessa sorgardags þegar hryðjuverkasamtök réðust á ógeðfelldan hátt að vestrænum háttum. Enginn vafi er á því að þessi atburður hefur breytt algjörlega gangi heimsmála og leitt til atburða sem kannski sér ekki fyrir endann á. Atburðir 11. september 2001 og eftirmáli, urðu áminning til allrar heimsbyggðarinnar um grimmd og ennfremur þess efnis að hryðjuverk á vestrænt samfélag verða ekki liðin. Þeim er svarað af fullri hörku.

Saga dagsins
1944 Fyrstu hermenn Bandamanna komast inn í Þýskaland. Veldi nasista hrundi svo loks í apríl 1945.
1964 Frú Dóra Þórhallsdóttir forsetafrú, lést úr hvítblæði, 71 árs að aldri. Hún var fædd 23. febrúar 1893. Dóra var systir Tryggva Þórhallssonar forsætisráðherra. Hún giftist Ásgeiri Ásgeirssyni árið 1917. Hann var forsætisráðherra 1932-1934 og var kjörinn forseti Íslands árið 1952. Frú Dóra, sem var forsetafrú í tólf ár, vakti athygli fyrir glæsileika sinn og tignarlega framkomu hvar sem hún fór. Ásgeir sat á forsetastóli áfram eftir andlát Dóru, en lét af embætti árið 1968. Ásgeir lést í september 1972.
1973 Salvador Allende forseta Chile, steypt af stóli í blóðugri uppreisn hersins. Hann lést í átökum
í forsetahöllinni. Augusto Pinochet hershöfðingi, varð leiðtogi Chile og ríkti hann allt til ársins 1990.
2001 Hryðjuverkaárás í Bandaríkjunum - hryðjuverkamenn ráðast á New York og Washington með því að ræna farþegaflugvélum og fljúga þeim á valin skotmörk. Tveim flugvélum var flogið á World Trade Center og einni á Pentagon. Tvíburaturnarnir (WTC) hrundu til jarðar og Pentagon varð mjög illa úti.
2003 Anna Lindh utanríkisráðherra Svíþjóðar, deyr á sjúkrahúsi af völdum sára sem hún hlaut er vitfirringur réðst að henni með hnífi í NK-verslunarmiðstöðinni í miðborg Stokkhólms, daginn áður.

Snjallyrðið
Æ, ljúfast var að vaka ástin mín
vetrarnætur dimmar við brjóstin þín
þegar kalt er í veðri og vindurinn hvín
þá vekur fölur máninn börnin sín.

Hversu ljúft var að hlæja og gera grín
grafa sig undir þitt hvíta lín
og opna þitt heita hjartaskrín
hverfa loks þangað sem ástin skín.

Í húminu svala ég ligg og læt mig dreyma
leyfi sorginni að vaka í mínu hjarta
og sakna hlýju þinna handa.

Og fyrri tíðar myndir í myrkrinu svarta
magnast hverju sinni er ég anda.
Ég er orðinn of gamall til að gleyma.
Bubbi Morthens tónlistarmaður (Sonnetta)


Engin fyrirsögn

Punktar dagsins
Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóriÞorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra

Í gær tilkynntu Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri hér á Akureyri, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, formlega um framboð sín til embættis varaformanns Sjálfstæðisflokksins. Það stefnir því í spennandi kosningu um varaformannsstólinn. Auk þeirra blasir við að Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra og verðandi fjármálaráðherra, sækist eftir varaformennsku, en hann er leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi. Hann og Þorgerður Katrín koma bæði úr Hafnarfirði og sama kjördæmi. Það er því alveg ljóst að fari Árni fram er þetta óneitanlega liður í valdabaráttu í kraganum. Það hafa allir séð stjörnu Þorgerðar Katrínar rísa nokkuð hratt í kjördæminu á síðustu árum. Hún kom flestum á óvart með því að verða fjórða í prófkjöri í Reykjaneskjördæmi árið 1999. Í sama prófkjöri sigraði Árni og varð leiðtogi kjördæmisins. Listinn hélt sér hvað varðaði fjögur efstu sætin í kosningunum 2003, eftir kjördæmabreytinguna og sami hópur leiddi listann í hinu nýja Suðvesturkjördæmi. Það fór ekki framhjá neinum að Þorgerður Katrín vildi þá prófkjör og ætlaði sér að sækja fram og komast ofar á lista. Hún hlaut svo að kosningunum loknum embætti menntamálaráðherra og hefur verið áberandi í stjórnmálum á þessu kjörtímabili.

En Þorgerður Katrín hefur ekki verið eina rísandi stjarnan úr kraganum, sem hefur skyggt á leiðtogann Árna úr Hafnarfirðinum að undanförnu. Þar hefur einnig komið til leiks hinn 35 ára gamli Bjarni Benediktsson sem var í fimmta sæti listans í kosningunum 2003 og kom nýr á þing mörgum að óvörum, en hann hafði fram að því lítið tekið þátt í starfi flokksins. Hann kemur af Engeyjarætt eins og fleiri mætir menn. Faðir hans er Benedikt Sveinsson hæstaréttarlögmaður, sem um tíma var stjórnarformaður Eimskips. Afabróðir Bjarna var Dr. Bjarni Benediktsson, einn farsælasti leiðtogi Sjálfstæðisflokksins á 20. öld og formaður flokksins í níu ár, 1961-1970. Frændur Bjarna eru t.d. Halldór Blöndal forseti Alþingis, og Björn Bjarnason dómsmálaráðherra. Bjarni hefur á þessu kjörtímabili komið mjög sterkur til leiks. Hann tók við formennsku í allsherjarnefnd árið 2003 af Þorgerði Katrínu er hún varð menntamálaráðherra. Þar hefur hann verið mjög áberandi og kom t.d. mjög vel fram í hinu umdeilda fjölmiðlamáli í fyrra. Vakti hann mikla athygli fyrir glæsilega frammistöðu í fjölmiðlum og hefur síðan verið sífellt oftar nefndur sem leiðtogaefni flokksins á komandi árum. Nú er mjög rætt um það hvort hann gefi kost á sér til varaformennskunnar og hafi áhuga á frekari frama, rétt eins og Þorgerður Katrín. Því unir vart Árni.

Eins og ég lýsti yfir í gær mun ég styðja Kristján Þór í þessu varaformannskjöri. Hef ég þekkt hann til fjölda ára og unnið með honum í fjölda verkefna innan flokksins. Vil ég að reyndur maður með þekkingu á fjölbreyttum sviðum taki við varaformennskunni. Í mínum huga er Kristján Þór slíkur maður. Hann er fæddur og uppalinn í sjávarplássi, þekkir því tilveruna og hefur starfað að sjávarútvegi og komið nálægt sveitarstjórnarpólitík. Reynsla hans er mikil. Eins og hann lýsti yfir í gær vill hann taka að sér þetta verkefni. Hann hefur langan feril að baki sem talar sínu máli. Varaformennskan er laus og enginn á hefðarrétt á henni. Að mínu mati á Kristján Þór fullt erindi í forystusveit Sjálfstæðisflokksins. Hann hefur verið þekktur fyrir pólitíska forystu, er fljótur að taka ákvarðanir, er metnaðarfullur fyrir hönd síns sveitarfélags og sinnir þeim verkefnum sem hann tekur að sér með metnað að leiðarljósi. Á ferli sínum í sveitarstjórnarpólitík hefur Kristján Þór öðlast mjög mikilvæga reynslu að mörgum þáttum mannlífsins. Er ég á þeirri skoðun að þekking hans á þessum málefnum eigi fullt erindi í forystusveitina og hann sé réttur maður í þetta embætti. Því er hárrétt hjá honum að gefa kost á sér til þessa verkefnis sem varaformennskan er.

Séra Jóna Lísa Þorsteinsdóttir

Fimmtudaginn 15. september nk. mun séra Jóna Lísa Þorsteinsdóttir sóknarprestur í Akureyrarkirkju, láta formlega af störfum sem prestur okkar í Akureyrarprestakalli. Á sunnudaginn mun hún kveðja sóknarbörn sín með kveðjumessu í Akureyrarkirkju. Jóna Lísa hefur gegnt prestsstörfum hér á Akureyri frá vorinu 1999 en var áður fræðslufulltrúi kirkjunnar á Norðurlandi. Á þeim sex árum sem hún hefur unnið hér í forystu safnaðarstarfsins hefur hún sýnt það og sannað, að mínu mati allavega og eflaust margra fleiri, að hún er bæði einlæg og trú sínum verkum. Jóna Lísa hefur leitt af miklum krafti námskeið þar sem fólk fær aðstoð við að vinna sig frá sorg og áföllum. Ennfremur hefur hún verið drifkraftur í Samhygð, sem eru samtök um sorg og sorgarviðbrögð. Allir þeir sem kynna sér verk hennar í þeim málefnum og almennt varðandi samskipti við fólk vita að Jóna Lísa er ákveðin en um leið traust og hefur starfað með miklum sóma að þeim verkum sem skipta máli. Bók hennar, Mig mun ekkert bresta, er að mínu mati biblía þeirra sem þurfa að horfast í augu við sorg, en þá bók skrifaði hún eftir sviplegt lát manns hennar, Vignis Friðþjófssonar. Það er bók sem er öllum lexía að lesa. Einnig hefur hún ritað margt almennt um mörg málefni og haldið fjölda fyrirlestra.

Valnefnd sóknarnefndar Akureyrarprestakalls ákvað á fundi sínum í síðasta mánuði að mæla með sr. Óskari Hafsteini Óskarssyni sóknarpresti í Ólafsvík, í stöðu sóknarprests við Akureyrarkirkju. Mun hann taka við prestsembætti í kirkjunni af sr. Jónu Lísu í næstu viku er hún hættir störfum. Sama dag mun Sólveig Halla Kristjánsdóttir guðfræðingur, taka formlega við nýju embætti prests með áherslu á barna- og unglingastarf. Með þessu verða þrír prestar starfandi við Akureyrarkirkju, en þar starfar fyrir sr. Svavar Alfreð Jónsson, sem verið hefur prestur hér frá því að sr. Þórhallur Höskuldsson lést með sviplegum hætti fyrir áratug. Mikil þáttaskil fylgja brotthvarfi Jónu Lísu úr starfinu úr sókninni. Hún hefur verið áberandi í starfinu sem þar hefur verið og mikill og öflugur leiðtogi þess með Svavari Alfreð. Segja má með sanni ennfremur að störf hennar sem prests hér hafi markað þónokkur þáttaskil. Hún var fyrsta konan sem var starfandi sóknarprestur í Akureyrarkirkju og reyndar hér á staðnum almennt í langri sögu kirkju á Akureyri. Fjöldi góðra presta hafa leitt safnaðarstarfið hér og er hún svo sannarlega ekki síður litrík en forverar hennar. Þáttaskil verða nú hjá Jónu Lísu en hún hefur í hyggju að breyta til og dvelja á Spáni í vetur við ýmis verkefni.

Hvet ég öll sóknarbörn í Akureyrarprestakalli til að fara í kirkju á sunnudaginn í kveðjumessuna. Þar mun kór Akureyrarkirkju og stúlknakór kirkjunnar syngja undir stjórn Björns Steinars Sólbergssonar og Eyþórs Inga Jónssonar. Eftir messu verður svo boðið upp á kaffiveitingar í Safnaðarheimilinu. Vil ég nota tækifærið og þakka Jónu Lísu góð störf í þágu okkar hér í sókninni og jafnframt óska nýjum presti velfarnaðar í störfum sínum hér á Akureyri á næstu árum.

Angela Merkel

Rúm vika er í þýsku þingkosningarnar. Spenna virðist nú komin í kosningabaráttuna. Dregið hefur saman milli vinstri- og hægriblokkarinnar eftir sjónvarpseinvígið á sunnudag þar sem Angela Merkel og Gerhard Schröder tókust á um málefni kosningabaráttunnar og verk vinstristjórnarinnar seinustu sjö árin. Hefur fylgi Jafnaðarmannaflokksins aukist eilítið og ef úrslit kosninganna verða með þeim hætti sem nú sýnir geta hægriflokkarnir ekki myndað meirihlutastjórn. Því kæmi til stóra samsteypa (grosse koalition) sem er samstjórn hægriflokkanna og jafnaðarmanna. Hefur slík stjórn ekki verið mynduð síðan á miðjum sjöunda áratug 20. aldarinnar, og sat sú stjórn árin 1966-1969. Það yrðu því óneitanlega þáttaskil ef hún kæmi til nú. Yrði slík stjórn mynduð eftir þeim tölum sem kannanir sýna núna yrði Merkel kanslari engu að síður. Schröder kanslari, þarf meira fylgi til að haldast inni í leiknum og að bæta við sig um sex til sjö prósentustigum á lokasprettinum. Þannig að hann er enn fjarri því takmarki sínu að halda starfinu þriðja kjörtímabilið í röð. En það er ekki lengur eins fjarlægur möguleiki og var fyrir nokkrum vikum. Það getur vissulega allt gerst. Það stefnir því allt í spennandi kosningabaráttu á lokavikunni sem framundan er. Átakapólarnir eru allavega vel ljósir en svo gæti farið að þeir þyrftu að starfa saman eftir kosningarnar.

Viktor Yushchenko og Yulia Tymoshenko

Fyrir nokkrum mánuðum var barist af hörku í Úkraínu um völdin. Spennandi forsetakosningar höfðu farið fram og eftir þær var forsætisráðherrann Viktor Yanukovych, frambjóðandi ráðandi afla, úrskurðaður sigurvegari. Það sætti mótframbjóðandinn Viktor Yushchenko sem var forsætisráðherra landsins á árunum 1999-2001, sig ekki við og mótmælti harðlega ásamt stuðningsmönnum sínum á torginu í höfuðborginni Kænugarði. Endinn þekkja allir. Kosningarnar voru endurteknar og Yushchenko var kjörinn forseti með miklum yfirburðum. Einn helsti stuðningsmaður hans í þeim miklu átökum var hin baráttuglaða Yulia Tymoshenko. Í kjölfar valdatöku Yushchenko varð Yulia forsætisráðherra landsins. Þau voru mjög öflug saman í baráttunni fyrir sigri Yushchenko og Yuliu var launaður stuðningurinn með afgerandi hætti. En nú er friðurinn milli þeirra búinn. Í gær rak forsetinn ríkisstjórnina til að reyna að binda endi á deilur innan hennar. Þar hafa Yulia og Petro Porochjenko fyrrum formaður þjóðaröryggisráðs Úkraínu, deilt af krafti og mikil valdabarátta verið bak við tjöldin. Nú talar Yulia með þeim hætti að sælan milli hennar og forsetans sé á enda. Blasir við að hún fari fram á eigin vegum í þingkosningunum í mars á næsta ári. Ef svo verður mun staða forsetans veikjast verulega og mikil óvissa skapast í úkraínskum stjórnmálum.

Fáskrúðsfjarðargöng

Í dag var stór stund í sögu Austfjarða. Þá voru formlega tekin í notkun göngin milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar. Er um mikla samgöngubót að ræða, en vegurinn um Vattarnesskriðurnar er svo sannarlega barn síns tíma. Með þessum þáttaskilum opnast ennfremur möguleikinn á sameiningu sveitarfélaga, en kosið verður um sameiningu t.d. Fjarðabyggðar og Austurbyggðar eftir tæpan mánuð. Ennfremur verður þetta ennfremur eitt atvinnusvæði. Álver Alcoa verður til eftir um tvö ár og því er ljóst að möguleikarnir eru miklir á þessu svæði, samhliða bæði nýjum atvinnutækifærum og ekki síður þessum góða samgöngukosti sem opnar ný og spennandi tengsl milli byggðanna fyrir austan. Hef ég oft farið austur á þessu ári og notið þess að kynna mér enn betur mannlífið þar og kynnast fólki á svæðinu. Það hefur verið mjög ánægjulegt, en ég er svosem ekki ókunnur Austfjörðunum, verandi ættaður frá Eskifirði að hluta og með góð tengsl í Fjarðabyggð. Vil ég nota tækifærið og óska Austfirðingum innilega til hamingju með þessi göng. Hef ég alla tíð verið mjög hlynntur þeim og er því einn af þeim sem fagna mjög með heimamönnum. Þetta er sannkallaður gleðidagur!

Davíð Oddsson

Eins og allir vita er Davíð að hætta í stjórnmálum og ætlar sér að fara í Seðlabankann fyrir vetrarbyrjun. Það eru mikil þáttaskil samhliða því, eins og sést hefur á skrifum mínum seinustu daga. Gat ekki annað en ort eina stutta og rólega vísu um það að hann færi í bankann.

Solla og Dabbi fallast faðma í
seðlabankahúsinu fagra
sitja brátt fundi saman í
musteri peninga dýrra

Saga dagsins
1208 Víðinesbardagi var háður í Hjaltadal í Skagafirði - í honum féllu 12 manns, t.d. Kolbeinn ungi.
1877 Þingeyrarkirkja vígð - kirkjan var talin eitt veglegasta hús sem reist var á Íslandi á sínum tíma.
1926 Sjónvarpsstöðin NBC, The National Broadcasting Corporation, var formlega stofnuð í New York.
1976 Mao Zedong formaður, leiðtogi kommúnistastjórnarinnar í Kína, deyr í Peking, 82 ára að aldri.
2001 Ahmed Shah Massoud leiðtogi Norðurbandalagsins, myrtur í Afganistan, var þá 48 ára að aldri.

Snjallyrðið
Ástin vill þér vera nær
augun mild og tær
ástin syngur rökkursöng
kvöldin köld og löng;
þú sem ert mér fjær.

Þrái aðeins eina þig
nóttin dimm kyssir mig,
rúmið kalt engin þú
ég og mín veika trú;
þú sem ert mér fjær.

Finn ekki leiðina heim
er orðinn einn af þeim
tilheyri rótlausri hjörð
með engar rætur í jörð.

Borgin með sín svörtu tjöld
vokir yfir gríma köld
tjörnin frosin tunglið grátt
tíminn býður enga sátt;
þú sem ert mér fjær.
Bubbi Morthens tónlistarmaður (Þú sem ert mér fjær)


Engin fyrirsögn

Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri,
í varaformannsframboð


Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri

Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri og leiðtogi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, hefur ákveðið að gefa kost á sér til varaformennsku í Sjálfstæðisflokknum. Fyrr í dag gaf Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, kost á sér í varaformanninn og stefnir því í kosningu milli þeirra á landsfundi flokksins sem verður í Reykjavík dagana 13. - 16. október nk. Búast má alveg við fleiri framboðum. Kristján Þór hélt blaðamannafund á Hamarskotsklöppum við styttu Helga magra og Þórunnar hyrnu á Akureyri á þriðja tímanum í dag þar sem hann tilkynnti formlega um framboð sitt. Eiginkona Kristjáns Þórs er Guðbjörg Ringsted og eiga þau fjögur börn. Hann fæddist á Dalvík árið 1957 og var nokkurn tíma kennari við grunnskólann og stýrimannaskólann á staðnum. Kristján Þór Júlíusson hefur verið lengi í stjórnmálum. Hann varð bæjarstjóri á Dalvík, aðeins 29 ára að aldri, árið 1986 og sat þar að hálfu meirihluta Sjálfstæðisflokksins og vinstrimanna. Sjálfstæðisflokkurinn á Dalvík varð aldrei sterkari og öflugri en á þeim tíma sem hann var bæjarstjóri að hálfu flokksins og aldrei hefur Dalvík verið öflugri en á þeim tíma. Árið 1994 yfirgáfu Kristján Þór og fjölskylda hans Dalvík og hann tók við bæjarstjórastarfi á Ísafirði, sem hann gegndi til ársins 1997.

Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna 1998 sneri Kristján Þór aftur með fjölskyldu sína á heimaslóðir. Var ákveðið að hann yrði bæjarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins á Akureyri í þeim kosningum og leiddi hann framboðslista okkar. Var sótt fram af krafti. Slagorð kosninganna varð: Kraftur í stað kyrrstöðu! Var það jákvæð, skemmtileg og ánægjuleg kosningabarátta. Deyfð og stöðnun höfðu einkennt Akureyri á kjörtímabilinu sem þá var að ljúka og slagorðið og krafturinn í framboðinu hittu svo sannarlega í mark. Sjálfstæðisflokkurinn vann sögulegan sigur í kosningunum, hlaut tæp 43% og fimm bæjarfulltrúa kjörna af ellefu sem sæti eiga í bæjarstjórn. 9. júní 1998 tók Kristján Þór við embætti bæjarstjóra hér á Akureyri og hefur gegnt því starfi síðan og leitt okkur sjálfstæðismenn með farsælum árangri. Í síðustu kosningum árið 2002 hélt flokkurinn þeim sess aðrar kosningarnar í röð að vera stærsti flokkurinn. Er það vissulega sögulegur árangur í þessu fræga vígi Framsóknarflokksins sem til fjölda ára var stærsti flokkurinn hér. Á þessum tveim kjörtímabilum okkar hefur staða Akureyrar styrkst til mikilla muna: íbúum hefur fjölgað og ýmsar glæsilegar verklegar framkvæmdir hafa einkennt uppbygginguna sem við sjálfstæðismenn höfum leitt í bænum.

Mun ég að sjálfsögðu kjósa Kristján Þór til varaformennsku í Sjálfstæðisflokknum. Hef ég þekkt Kristján Þór Júlíusson í um tvo áratugi. Kynntist ég honum fyrst er ég flutti til Dalvíkur um miðjan níunda áratuginn héðan frá Akureyri. Síðan hef ég metið Kristján Þór mjög mikils. Hann varð farsæll stjórnmálamaður skömmu síðar, varð ungur bæjarstjóri og sannaði styrk sinn í því starfi og stýrði Dalvíkurbæ með miklum krafti og hefur endurtekið leikinn bæði á Ísafirði og hér á Akureyri sem pólitískur leiðtogi okkar sjálfstæðismanna. Faðir Kristjáns Þórs, Júlíus Kristjánsson, hefur verið góðvinur minn ennfremur til fjölda ára og met ég mjög mikils tengsl mín við fjölskyldu hans. Það er sjálfsagt mál að Kristján Þór reyni á stöðu sína og hvernig hann standi á þessum tímapunkti innan flokksins. Stóll varaformanns flokksins er laus í kjölfar þess að Davíð Oddsson tilkynnti í gær að hann myndi láta af formennsku á landsfundi flokksins í október. Nú er framundan spennandi varaformannskjör sem verður athyglisvert að fylgjast með.

Punktar dagsins
Davíð Oddsson

Eins og allir vita hefur Davíð Oddsson utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, nú tilkynnt brotthvarf sitt úr íslenskum stjórnmálum. Mikil þáttaskil fylgja því að Davíð víki af þingi og úr ríkisstjórn fyrir lok þessa mánaðar. Jafnframt er ljóst af ákvörðun hans að sækjast ekki eftir endurkjöri á formannsstól Sjálfstæðisflokksins að miklar breytingar verða á forystu flokksins og ásýnd hans. Mörgum kom á óvart að Davíð skyldi víkja úr stjórnmálum á þessum tímapunkti til að taka við embætti seðlabankastjóra. En það þarf engan að undra að Davíð vilji breyta til og stefna á ný verkefni. Hann hefur verið í forystusveit íslenskra stjórnmála í tæp 25 ár, sem leiðtogi borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, borgarstjóri í Reykjavík, formaður Sjálfstæðisflokksins, forsætisráðherra og að lokum utanríkisráðherra. Eins og ég fór yfir í gær er stjórnmálaferill hans glæsilegur og mun hans verða minnst fyrir sína kraftmiklu pólitísku forystu, bæði fyrir Sjálfstæðisflokkinn og þjóðina, í forsæti flokks og ríkisstjórnar. Davíð kynnti þessi þáttaskil með sínum hætti á blaðamannafundinum í Valhöll í gær. Hann talaði af krafti og kom glæsilega fyrir, eins og hans er von og vísa. En miklar breytingar fylgja brotthvarfi hans, það blasir við.

Í gær birtist pistill minn um þessi stórtíðindi á vefritinu íhald.is. Þakka ég þeim sem skrifuðu mér vegna þeirra skrifa. Taldi ég rétt að skrifa eilítið um þann merka stjórnmálaferil sem Davíð hefur átt og það framlag sem hann hefur unnið í þágu flokksins okkar. Við sem erum í Sjálfstæðisflokknum munum aldrei geta þakkað honum nægilega fyrir sína góðu forystu. En ég vona að þessi pistill hafi verið jafneinlæglegur og hann átti að vera í garð þessa mikla forystumanns okkar. Það var merkilegt að sjá í gær viðbrögð formanna stjórnarandstöðuflokkanna við þessum pólitísku stórtíðindum. Öll lofuðu þau mjög pólitískt starf hans og karakterinn Davíð Oddsson. Er það engin furða, enda væri sá stjórnmálamaður eða stjórnmálaspekingur í mikilli afneitun ef hann viðurkenndi ekki styrk Davíðs sem stjórnmálamanns og merk verk hans á þeim vettvangi. Sérstaklega var áhugavert að heyra í formanni Samfylkingarinnar, sem þrátt fyrir orrahríðir við Davíð, talaði mjög glæsilega um verk hans og forystu. Enda er varla annað hægt. Hann er einfaldlega það öflugur hluti af stjórnmálasögu landsins seinustu áratugina að það blasir við öllum sem fylgjast með útlínum og meginpunktum stjórnmálanna, bæði í nútímanum og eins áður fyrr, sögulega hornsteina stjórnmálasögu okkar.

En það er vissulega líf eftir Davíð Oddsson, þó öll söknum við hans mjög úr forystunni. Nú er það verkefni okkar sem eftir stöndum að halda uppi merki hans í stjórnmálum og standa vörð um pólitísku verkefnin sem framundan eru og eins þau miklu verk sem hann hefur leitt til þessa. Pólitísk verkefni taka aldrei enda, alltaf eru áskoranir framundan á veginum - verk að vinna. Vissulega verður eilítið öðruvísi að starfa innan Sjálfstæðisflokksins í pólitísku starfi eftir að formannsferli Davíðs Oddssonar lýkur. En flokkurinn hefur haldið velli í tæpa átta áratugi og leitt íslensk stjórnmál sem stærsti flokkur landsins. Þannig var það áður en Davíð Oddsson kemur til sögunnar og þannig verður það nú þegar að hann fer úr forystusveitinni eftir sín góðu verk. Sjálfstæðisstefnan sem grunnpunktur flokksins sameinar okkur og á grunni hennar sækjum við fram á komandi árum, í tveim mikilvægum kosningum. En það er alltaf sjónarsviptir af sterkum mönnum - eftirsjá þegar að litríkir menn sem sett hafa svip á samtíð sína taka þá ákvörðun að hætta störfum að stjórnmálum og takast á hendur önnur verkefni. Það á svo sannarlega við um þann öfluga stjórnmálamann sem Davíð Oddsson er.

Geir H. Haarde fjármálaráðherra

Geir H. Haarde fjármálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, hefur ákveðið að gefa kost á sér til formennsku í Sjálfstæðisflokknum á landsfundi flokksins í október. Hann tilkynnti þetta í Valhöll í gær í kjölfar þess að Davíð Oddsson formaður Sjálfstæðisflokksins, tilkynnti að hann sæktist ekki eftir endurkjöri. Það kemur engum á óvart að Geir hafi áhuga á formennsku í flokknum við þessi þáttaskil. Hann er mjög reyndur stjórnmálamaður. Geir hefur setið á þingi frá árinu 1987 og hefur aðeins Halldór Blöndal forseti Alþingis, setið lengur í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Geir hefur verið varaformaður flokksins í sex ár, en hann var kjörinn varaformaður með yfirburðum á landsfundi flokksins í aðdraganda þingkosninganna árið 1999, og hefur verið fjármálaráðherra, lengur en nokkur annar í íslenskri stjórnmálasögu, frá 16. apríl 1998, eða í rúm sjö ár. Það er því mjög eðlilegt að hann sækist nú eftir því að leiða flokkinn og verða eftirmaður Davíðs Oddssonar. Styð ég hann heilshugar í því verkefni. Hefur Geir unnið mjög ötullega að flokksstarfinu úti á landi í varaformannstíð sinni. Hann hefur sótt fundi á vettvangi kjördæmanna og hann hefur nokkrum sinnum verið gestur okkar hér ásamt eiginkonu sinni, Ingu Jónu Þórðardóttur, í sumarferðum okkar.

Fyrir mánaðarmót verður Geir utanríkisráðherra og tekur við nýjum verkefnum eftir farsælan feril í fjármálaráðuneytinu. Verður merkilegt að fylgjast með honum í nýju hlutverki í íslenskum stjórnmálum. Það er enginn vafi á því í mínum huga að Geir verður einn í kjöri á landsfundinum eftir mánuð og mun hljóta glæsilega kosningu sem eftirmaður Davíðs á formannsstóli. Það verða engin átök um formennskuna og við munum öll sameinast að baki Geir og styðja hann heilshugar í þeim verkefnum sem blasa við honum og flokknum okkar á komandi árum. Framundan eru tvær mjög spennandi kosningar og áhugavert verður að vinna fyrir flokkinn í þeim átökum sem fylgja kosningunum, og undir forystu Geirs sem væntanlegs formanns okkar. Það hefur verið gæfa Sjálfstæðisflokksins seinustu árin að fylgja formanni sínum heilshugar í því sem gera þarf og þeim verkefnum sem framundan eru á veginum. Ég vil óska Geir góðs í því sem við tekur eftir að hann tekur við formennsku flokksins og vona að honum muni ganga vel í því stóra verkefni sem bíður hans er hann tekur við forystunni af farsælasta foringja okkar sjálfstæðismanna, Davíð Oddssyni.

Jarðarför William H. Rehnquist

William Rehnquist forseti hæstaréttar Bandaríkjanna, var jarðsunginn í Washington í gær. Hann lést að kvöldi laugardags eftir erfiða baráttu við krabbamein, áttræður að aldri. Hann hafði setið í hæstarétti Bandaríkjanna í 33 ár, frá árinu 1972, og verið forseti réttarins í tæpa tvo áratugi, frá árinu 1986. Jarðarförin þótti mjög látlaus. Hafði Rehnquist sjálfur afþakkað viðhafnarjarðarför (state funeral) sem hann átti rétt á sem forseti hæstaréttar. Aðeins forsetar landsins og réttarins hafa rétt á slíku. Fór athöfnin fram í St. Matthew's kapellu í Washington. Fluttu James Rehnquist (sonur hins látna), George W. Bush forseti Bandaríkjanna, Sandra Day O'Connor hæstaréttardómari (sem var náin vinkona Rehnquist og ennfremur skólafélagi hans og síðar vinnufélagi í réttinum í 24 ár), og Antonin Scalia hæstaréttardómari, ræður við athöfnina og minntust hans. Fyrir athöfnina hafði kista Rehnquist legið á viðhafnarbörum í viðhafnarsal hæstaréttar í rúman sólarhring. Einn líkmanna við útförina var John G. Roberts sem skipaður hefur verið eftirmaður Rehnquists á forsetastól hæstaréttar, en hann hafði verið aðstoðarmaður hans í réttinum um tíma á níunda áratugnum. Eftir útförina var kista Rehnquists flutt í Arlington-kirkjugarð þar sem greftrun fór fram.

Helgi magri og Þórunn hyrna

Skóladeild Akureyrarbæjar hefur nú auglýst eftir tilboðum í rekstur nýja leikskólans hér á Brekkunni, sem hlotið hefur heitið Hólmasól. Leikskólinn, sem er við Helgamagrastræti, er nefndur eftir Þorbjörgu hólmasól, sem var fyrsta barnið sem talið er að fæðst hafi í Eyjafirði, en hún var dóttir landnámshjónanna Helga magra og Þórunnar hyrnu. Stendur skólinn einmitt við götur sem heitir í höfuðið á þeim Helgamagrastræti og Þórunnarstræti. Er gleðiefni að rekstur leikskólans sé boðinn út og annað rekstrarform komi í leikskólamálum. Er ánægjulegt að fylgjast með framkvæmdum á byggingasvæðinu, en leikskólinn rís nú mjög hratt og tekur sífellt á sig mynd. Verður hann tilbúinn á fyrrihluta næsta árs.

Saga dagsins
1779 Bjarni Pálsson landlæknir, lést, sextugur að aldri. Bjarni var landlæknir allt frá 1760 til æviloka.
1891 Ölfusárbrú vígð - var fyrsta hengibrú landsmanna og ein mesta verklega framkvæmd landsins.
1943 Bandamenn ná formlega völdum á Ítalíu - veldi Benito Mussolini hafði hrunið þá fyrr um árið.
1975 Dagblaðið "frjálst, óháð dagblað" kom út í fyrsta skipti - blaðið sameinaðist Vísi í DV árið 1981.
1987 50 króna mynt kom til sögunnar - samhliða því var formlega hætt útgáfu 50 krónu seðils.

Snjallyrðið
Þú ert eins og vindurinn og kælir mig niður,
þú ert eins og sumarið hiti og friður,
þú ert eins og vorið björt og fríð,
í skugga þínum ég brosi og bíð.

Þú ert eins og vatnið kitlandi svalt,
þú ert eins og stálið blikandi kalt,
þú ert eins og silkið svo undurmjúkt,
sál mín af ást til þín er sjúk.

Þú bara ert
- og það nægir mér.

Þú ilmar sem hafið þungt og sætt,
ilmar eins og barnið sem er nýfætt,
þú ilmar sem öspin eftir rigninganótt
hjarta mitt slær taktfast og rótt.

Þú ert eins og moldin frjó og góð,
þú ert full af lífi og eldmóð,
þú ert eins og barnið og spyrð um allt,
í skugga þínum er alltaf svalt.

Þú ert eins og tunglið og togar í mig,
þú ert eins og eldur og ég elska þig,
þú ert spör á orðið sem ég þrái að heyra,
ég bragðaði á þér og ég vil meira.
Bubbi Morthens tónlistarmaður (Þú ert)

Mikið innilega er þetta fallegt ljóð hjá meistara Bubba. Sætt og ljúft í gegn - eitt af glæsilegum ljóðum við falleg lög Bubba á nýju plötunum hans.


Engin fyrirsögn

Davíð Oddsson hættir formennsku
í Sjálfstæðisflokknum


Davíð Oddsson

Davíð Oddsson utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, tilkynnti á blaðamannafundi í Valhöll í dag að hann myndi ekki gefa kost á sér til endurkjörs sem formaður flokksins á landsfundi hans sem haldinn verður dagana 13. - 16. október nk. Ákvörðun Davíðs markar mikil þáttaskil. Hann hefur verið formaður Sjálfstæðisflokksins frá 10. mars 1991 er hann felldi Þorstein Pálsson þáverandi formann flokksins, í spennandi kosningu á landsfundi. Með því mörkuðust önnur þáttaskil í lífi Davíðs Oddssonar, en hann hafði verið borgarstjóri í Reykjavík samfellt í 9 ár, 1982-1991, er hann varð forystumaður flokksins í landsmálunum og sat í borgarstjórn árin 1974-1994. Davíð varð forsætisráðherra eftir kosningasigur flokksins árið 1991 og leiddi stjórn með Alþýðuflokki til ársins 1995 og með Framsóknarflokknum til ársins 2004. Leiddi hann því ríkisstjórn Íslands samfellt 1991-2004, eða í 13 ár, lengur en nokkur annar Íslendingur í stjórnmálasögu landsins. Hann hefur svo verið utanríkisráðherra frá 15. september 2004. Á þrettán ára forsætisráðherraferli hans urðu miklar breytingar á íslensku samfélagi. Þessar breytingar hafa leitt til aukins frelsis handa viðskiptalífinu og almenningi, hagsældar, lækkunar skatta, og bættra lífskjara langt umfram það sem gerst hefur í nálægum löndum.

Á blaðamannafundinum í Valhöll tilkynnti Davíð að hann myndi taka við embætti seðlabankastjóra og verður formaður bankastjórnar þann 20. október nk., en eins og Davíð benti á er það afmælisdagur eiginkonu hans, Ástríðar Thorarensen. Davíð Oddsson mun víkja úr ríkisstjórn og láta af þingmennsku fyrir Reykvíkinga þann 27. september nk. Þann dag er boðaður ríkisráðsfundur á Bessastöðum. Þar mun Geir H. Haarde varaformaður Sjálfstæðisflokksins, taka við embætti utanríkisráðherra af Davíð. Árni M. Mathiesen tekur við embætti fjármálaráðherra af Geir og eftirmaður Árna á stóli sjávarútvegsráðherra verður Einar Kristinn Guðfinnsson þingflokksformaður. Við þessar miklu breytingar verður Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður. Við sæti Davíðs Oddssonar á þingi tekur Ásta Möller formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna, sem sat á þingi árin 1999-2003 og hefur verið fyrsti varamaður flokksins í RN síðan. Eru þetta mjög umfangsmiklar breytingar sem eiga sér stað með brotthvarfi Davíðs á forystu flokksins og lykilmannskap hans. Stóll formanns þingflokksins losnar við þessa uppstokkun. Flest bendir til þess að Arnbjörg Sveinsdóttir taki við formennsku í þingflokknum, enda varaformaður nú. Ákvörðun um það verður tekin í næstu viku.

George W. Bush og Davíð Oddsson

Sjálfstæðisflokkurinn hefur í rúm 70 ár verið í fararbroddi íslenskra stjórnmála. Það hefur verið gæfa hans að valist hafa til forystustarfa hæfir og frambærilegir menn. Margir ákváðu að styðja flokkinn á árum áður vegna forystuhæfileika t.d. Ólafs Thors og Dr. Bjarna Benediktssonar, og flokkurinn varð stórveldi í íslenskum stjórnmálum vegna forystu þeirra í flokknum. Þessir menn voru þekktir fyrir yfirburðaleiðtogahæfileika, mælsku sína og víðsýni í íslenskri pólitík. Nú, þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur samfellt setið í ríkisstjórn í 14 ár er von að spurt sé - hver er lykillinn að velgengni Sjálfstæðisflokksins í landsmálapólitík? Svarið er í mínum huga einfalt. Davíð Oddsson hefur með miklum leiðtogahæfileikum tryggt að flokkurinn er í forystu íslenskra stjórnmála. Hann hefur allt frá sigri sínum í borgarstjórnarkosningunum 1982 verið einn af helstu forystumönnum flokksins og verið í fararbroddi innan hans. Hann leiddi flokkinn til glæsilegra kosningasigra og forystu í landsmálum í upphafi tíunda áratugarins og hefur verið risi í íslenskum stjórnmálum síðan og leitt íslensk stjórnmál. Tíundi áratugurinn var tími Davíðs og sögubækur framtíðarinnar munu staðfesta það. Hann leiddi miklar breytingar á íslensku samfélagi og markaði sér spor í íslenska stjórnmálasögu sem aldrei munu gleymast.

Ef einhver stjórnmálamaður á seinustu áratugum hefur haft sjötta skilningarvitið í pólitík er það Davíð. Hann hefur með mælsku sinni, hressilegum skoðunum og forystuhæfileikum sínum tryggt forystu flokksins í landsmálunum. Undir hans leiðsögn hefur Sjálfstæðisflokkurinn aldrei verið sterkari. Staða Sjálfstæðisflokksins nú er mjög athyglisverð, pólitískt séð, enda er einsdæmi að einn flokkur stjórni landinu í jafnlangan tíma með setu í ríkisstjórn með sama leiðtoganum við stjórnvölinn. Davíð hefur verið þekktur fyrir að vera áberandi. Hann hefur óhikað tjáð skoðanir sínar og verið óhræddur við að tala tæpitungulaust. Það hefur í senn verið hans helsti styrkleiki og helsta gæfumerki Sjálfstæðisflokksins að hafa átt svo glæsilegan og áberandi leiðtoga - sannkallan skipstjóra sem segir til verka og hefur notið virðingar innan flokks og utan vegna starfa sinna. Styrkleiki hans sannaðist einna helst að mínu mati á síðasta ári þegar að hann veiktist snögglega. Hann kom hnarreistur frá þeirri glímu og sýndi enn og aftur styrkleika sinn og kraft sem stjórnmálamanns. Hann kom fram í skemmtiþætti Gísla Marteins Baldurssonar og sagði sjúkrasöguna með sínum hætti: glæddi alvarlega sögu léttum undirtóni.

Davíð Oddsson

Á síðasta ári var sótt mjög harkalega að Davíð í fjölmiðlamálinu, sem stóð stóran hluta ársins og reyndi mjög á hann. Davíð stóð af sér árásir stjórnarandstöðunnar sem studdar voru af forseta Íslands sem breytti eðli embættis forseta Íslands til að reyna að þóknast forystumönnum stjórnarandstöðunnar og vissum forystumönnum stórfyrirtækjum, svo með ólíkindum var á að horfa. Eðli forsetaembættisins verður sennilega aldrei samt og er reyndar með ólíkindum að Davíð og þeir sem næst honum stóðu í stjórnarsamstarfinu hafi staðið af sér þá atlögu sem fjölmiðlar og forystumenn forsetaembættis og stjórnarandstöðu reyndu að kasta á þá til að reyna að fella stjórn landsins. Hún stóð allt af sér og hélt velli. Forystumenn samstarfsins störfuðu saman áfram af krafti þó hart væri að þeim sótt úr mörgum áttum. Degi eftir að ríkisstjórnin hafði ákveðið að fella fjölmiðlalög úr gildi veiktist Davíð snögglega. Kom persónulegur styrkur Davíðs og fjölskyldu hans vel fram í þessum veikindum hans. Vegna þessara veikinda var pólitísk staða Davíðs að margra mati í óvissu. Hann sló á þá óvissu eins og honum einum var lagið með glæsilegri fjölmiðlaframkomu á heimili sínu um miðjan ágúst og tilkynnti að hann tæki við embætti utanríkisráðherra í ríkisstjórn ef honum entust kraftar til eftir veikindin.

Davíð er án vafa maður allra ára í stjórnmálum. Hann er sá stjórnmálamaður sem bæði hefur verið elskaður og hataður, umdeildur og stendur í fararbroddi í stjórnmálum á Íslandi seinustu áratugi. Þrátt fyrir nokkra harkalega mótvindi og það að honum hafi oft verið sótt og hann veikst mjög illa undir lok stjórnmálaferilsins stendur hann enn sem risi yfir íslenskum stjórnmálum í lok verksins á sviði stjórnmálanna, sterkur og öflugur. Ég gekk í Sjálfstæðisflokkinn sumarið 1993. Síðan hafa liðið tólf ár. Löngu fyrir þann tíma hafði ég þó mótað mér pólitískan áhuga og hreifst af sjálfstæðisstefnunni. Við ákvörðunina um að ganga í flokkinn hafði líka sitt að segja hver leiddi flokkinn. Ég hreifst af forystu Davíðs Oddssonar - hreifst af krafti hans sem stjórnmálamanns og ekki síður styrkleika hans við forystu Sjálfstæðisflokksins. Ég hef í gegnum störf mín þar kynnst svo Davíð sjálfum og ekki síður kynnst í návígi hversu góður og farsæll leiðtogi hann hefur verið. Það er algjörlega óhætt að fullyrða að ég hafi borið mikla virðingu fyrir honum. Forysta hans hefur enda verið okkur mjög heilladrjúg og farsæl.

Davíð Oddsson

Í dag, 7. september 2005, á þeim degi sem fyrir liggur að Davíð Oddsson hættir í stjórnmálum og lætur af forystu Sjálfstæðisflokksins eftir farsælan feril, hefur hann verið formaður flokksins í 5.295 daga. Aðeins Ólafur Thors hefur verið formaður flokksins lengur. Við sem störfum í Sjálfstæðisflokknum getum litið um öxl yfir fjórtán ára formannsferil Davíðs Oddssonar og þrettán ár hans í forsæti ríkisstjórnar Íslands með stolti. Hann hafði jákvæð áhrif á íslenskt samfélag og leiddi okkur öll rétta leið. Umgjörð atvinnulífsins er nú betri en áður, starfsskilyrði þess hagstæðari, skattar almennings og fyrirtækja lægri og svigrúm til athafna meira en áður. Tekist hefur að treysta forsendur velferðarkerfisins með öflugu atvinnulífi á grundvelli stöðugleika í efnahagsmálum. Þetta vannst undir forystu Davíðs Oddssonar.

Ég fer ekki leynt með það að ég vonaði allt til enda að Davíð Oddsson myndi gefa kost á sér áfram. Davíð er einstakur stjórnmálamaður, einn öflugasti stjórnmálamaður í stjórnmálasögu landsins, það er ekki flóknara. En hann tekur þessa ákvörðun sjálfur og við í flokknum virðum hana og kveðjum hann með nokkrum söknuði en við höfum fjölda fólks sem tekur við verkunum og forystu flokksins. En ég neita því ekki að ég sé eftir Davíð úr stjórnmálum. Við þessi miklu þáttaskil í Sjálfstæðisflokknum vil ég fyrir mitt leyti þakka Davíð fyrir verk hans í þágu okkar og flokksins okkar. Hann getur farið af stjórnmálasviðinu hnarreistur - hans ævistarf í stjórnmálum er glæsilegt. Ég óska honum góðs gengis á nýjum vettvangi.

Davíð hættir í stjórnmálum - pistill SFS á íhald.is



Snjallyrðið
Ég elska þig, stormur, sem geisar um grund
og gleðiþyt vekur í blaðstyrkum lund,
en gráfeysknu kvistina bugar og brýtur
og bjarkirnar treystir um leið og þú þýtur.

Þú skefur burt fannir af foldu og hól,
þú feykir burt skýjum frá ylbjartri sól,
og neistann upp blæs þú og bálar upp loga
og bryddir með glitskrúði úthöf og loga.

Þú þenur út seglin og byrðingin ber
og birtandi, andhreinn um jörðina fer;
þú loftilla, dáðlausa lognmollu hrekur
og lífsanda starfandi hvarvetna vekur.

Og þegar þú sigrandi um foldina fer,
þá finn ég að þrótturinn eflist í mér.
ég elska þig, kraftur, sem öldurnar reisir,
ég elska þig máttur, sem þokuna leysir.
Hannes Hafstein ráðherra (1861-1922) (Stormur)


Engin fyrirsögn

Punktar dagsins
Angela Merkel og Gerhard Schröder

Þingkosningar munu fara fram í Þýskalandi eftir tæpar tvær vikur. Kosningabaráttan hefur náð hámarki og barist er af krafti um atkvæði almennings. Allar skoðanakannanir benda til öruggs sigurs hægriblokkarinnar í kosningunum. Fari svo mun dr. Angela Merkel leiðtogi CDU (Kristilegra demókrata) verða fyrsta konan sem sest á stól kanslara Þýskalands, og leysa af hólmi Gerhard Schröder kanslara, sem setið hefur á valdastóli frá árinu 1998 og leitt ríkisstjórn sósíalista og græningja. Í kosningunum 2002 tókst kanslaranum naumlega að halda völdum á lokaspretti kosningabaráttunnar, eftir að hafa verið undir í skoðanakönnunum nær alla baráttuna. Vonast hann til að endurtaka leikinn nú, en staðan er enn erfiðari fyrir hann nú en þá. Stefnir því í það að hann missi völdin núna, ef ekkert breytist. Hægrimenn eru greinilega staðráðnir í því að endurtaka ekki nú sömu mistökin á lokasprettinum 2002 er þeir leyfðu hinum fjölmiðlavæna kanslara að stela sviðsljósinu. Angela hefur skipt um útlit, er komin í fagrar dragtir og hefur fengið sér glæsilega hárgreiðslu og talar af enn meiri fítonskrafti en nokkru sinni áður. Greinilegt er að Schröder getur ekki einvörðungu treyst á persónuþokkann og kosningabrosin og reynir því að snúa út úr málefnalegum punktum andstæðinganna með ýmsum hætti.

Á sunnudagskvöldið mættust Merkel og Schröder í kappræðum að bandarískum hætti í beinni útsendingu á sjónvarpsstöðinni RTL. Þar var farið yfir kosningabaráttuna og átakapunkta hennar. Þau voru bæði í hörkuformi og skiptust á skotum sín á milli. Fyrirfram hafði verið álitið að Merkel myndi standa mun verr að vígi, enda almennt talin hafa nokkuð harða ásýnd og vera mun fjarlægari í framkomu í sjónvarpi en kanslarinn. Fyrir þrem árum þegar að Schröder mætti Edmund Stoiber þáverandi kanslaraefni hægrimanna, var mikið rætt um aldursmuninn milli þeirra, enda var hinn gráhærði Stoiber (maður reynslunnar) mun eldri ásýndum en kanslarinn dökkhærði með þaulæfða kosningabrosið. Þá var mikið reyndar talað um hvort kanslarinn litaði á sér hárið til að halda sér unglegum sem leiddi til málshöfðunar kanslarans í garð slúðurblaðs. Stoiber tapaði naumlega kosningunum reyndar, en væntanlega má skrifa það á það að hann var eldri en Schröder og mörgum fannst hann orðinn einum of gamall, eins hlægilegt og það er að segja um mann sem hefur mikla reynslu til að bera. Merkel kom eitilhörð til leiks á sunnudagskvöldið, staðráðin í að sanna sig og taka frumkvæðið í kappræðunum og reka af sér slyðruorðið um að hún væri lakari í kappræðum en kanslarinn. Hún sýndi kanslaranum þá hörku sem þurfti.

Angela kom kraftmikil til leiks og sannaði kraft sinn. Það greinilega fékk á kanslarann hversu vel undirbúin hún var og vel inni í málunum. Hún svaraði öllu sem hann sagði með krafti og endurtók lykilorðin: atvinnuleysið hefur minnkað í valdatíð þinni - hagvöxturinn hefur dalað - Þýskaland hefur liðið fyrir vinstriáherslur, og klikkti út með því að horfa í áttina til kanslarans og segja: Það hefur ekkert staðist af því sem þú hefur lofað. Kanslarinn átti sína spretti og var mjög öflugur á köflum. Mörgum fannst þó fyndið að sjá hvernig Merkel stóð álengdar meðan kanslarinn talaði og leit til hans augum í takt við kennslukonuna sem horfir ábúðarfull á nemandann. Henni tókst það sem margir höfðu talið að hún myndi flaska á, að ná frumkvæði og halda dampi gegn fjölmiðlastjörnunni Schröder. Mörgum fannst merkilegt að fylgjast með lokaorðum Merkel í kappræðunum. Var greinilegt að hún hafði sótt í smiðju Ronald Reagan fyrrum forseta Bandaríkjanna, og lokaorðum sem hann flutti í kappræðum við Jimmy Carter fyrir forsetakosningarnar 1980. Spurði Merkel líkt og Reagan fyrir 25 árum hvort kjósendur væru vel stæðir eftir valdatíð vinstrimanna og hvort þeir væru sáttir við stjórnvöld. Var hún einbeitt í tali og kom mörgum á óvart með frammistöðu sinni.

Angela Merkel sem eins og fyrr segir verður væntanlega næsti kanslari Þýskalands græðir aðallega á tvennu: óvinsældum kanslarans (sem hefur ekki tekist að efna fögru loforðin frá kosningunum 1998) og frjálslegt yfirbragð. Margir sjá þýsku útgáfuna af Margaret Thatcher í henni og að hún verði leiðtogi hægrimanna í Evrópu með sama hætti og Thatcher náði sinni stöðu fyrir tæpum þrem áratugum. Merkel er töffari í þýskri pólitík og þykir í flestu andstæða hins íhaldssama Edmund Stoiber. Angela komst til áhrifa innan CDU á valdatíma Helmut Kohl, sem var kanslari Þýskalands samfellt í 16 ár, og þykir almennt vera pólitísk fósturdóttir hans. Hún er fimmtug, tvífráskilin, nýlega gift í þriðja skiptið og barnlaus og því langt í frá lík t.d. Stoiber sem þótti vera ímynd hins heilbrigða fjölskyldulífs sem hinn harðgifti fjölskyldufaðir. Schröder og Merkel eiga það sameiginlegt að hafa gifst oftar en einu sinni og vera allskrautlegar týpur sem hika ekki við að taka vinnuna framyfir einkalífið - vera miklir vinnuhestar. Það ræðst bráðlega hvort að "stúlkan hans Kohls" eins og Angela er almennt kölluð nái völdum og komist í sögubækurnar eða hvort að Schröder tekst að næla sér í þriðja kjörtímabilið, þvert á kosningaspár.

Guðmundur Árni Stefánsson

Guðmundur Árni Stefánsson sendiherra, lét af þingmennsku í síðustu viku. Hann sat á þingi í tólf ár, fyrir Alþýðuflokkinn og Samfylkinguna. Guðmundur Árni hafði við afsögn sína af þingi þann merka sess að vera seinasti formaður Alþýðuflokksins, sem enn er til á pappírunum en rann inn í Samfylkinguna árið 2000. Í ítarlegu viðtali við Árna Þórarinsson í Morgunblaðinu sl. sunnudag fór Guðmundur Árni yfir stjórnmálaferil sinn og mikilvæga punkta sem hann nefnir er hann gerir upp árin tólf á þingi. Fannst mér merkilegt að lesa þetta viðtal. Í því segir hann hreint út að kosningabarátta Samfylkingarinnar 2003 hafi verið misheppnuð, þrátt fyrir fylgisaukningu, og að leiðtogatvíeyki flokksins í kosningunum, þau Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Össur Skarphéðinsson hafi klikkað í forystu sinni í kosningunum. Hann sakar þau hreinlega um reynsluleysi í viðtalinu. Kemur greinilega fram að Guðmundur Árni vildi stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar eftir kosningar og segir að reynsluleysi leiðtogatvíeykisins með því að ætla að hlaupa til Framsóknar eftir kosningar og bjóða þeim strax forsæti í mögulegri stjórn flokkanna hafi eyðilagt möguleika flokksins á stjórnarsetu. Er ekki hægt að taka orð hans í viðtalinu öðruvísi en sem harkalega gagnrýni á þau sem leiddu flokkinn fyrir og eftir kosningarnar 2003.

Það er greinileg eftirsjá hjá Guðmundi Árna er hann hættir í stjórnmálum. Hann ítrekar að hann hafi verið í stjórnmálum til að hafa áhrif og hafi ekki áhuga á starfi í stjórnarandstöðu endalaust og vilji því reyna á nýjar lendur. Hann hefur misst áhugann og pólitíska kraftinn og skiptir um starfsvettvang vegna þess. Eins og allir vita var Guðmundur Árni lengi vel ein skærasta stjarna íslenskra jafnaðarmanna og framan af talinn einn helsti vonarpeningur þeirra. Hann varð bæjarstjóri í Hafnarfirði eftir kosningasigur krata árið 1986 og varð það áfram eftir kosningarnar 1990 er flokkurinn vann hreinan meirihluta. Hann lét af bæjarstjórastarfi árið 1993 er hann tók sæti á Alþingi er Jón Sigurðsson varð seðlabankastjóri. Samhliða því tók hann við embætti heilbrigðisráðherra. Við afsögn Jóhönnu Sigurðardóttur árið 1994 varð hann félagsmálaráðherra. Í kjölfar hneykslismála neyddist hann til að segja af sér ráðherrastólnum í nóvember 1994. Í viðtalinu víkur Guðmundur Árni að því máli og segir að innan Alþýðuflokksins hafi menn barist gegn sér á þeim tíma og hann hafi ekki getað treyst á lykilmenn sem veittust harkalega að honum þegar á reyndi. Er greinilegt að í hans huga er sú rimma geymd en ekki gleymd.

En það sem mér finnst athyglisverðast við viðtalið við Guðmund Árna er að hann ræðst bæði að ISG og Össuri. Það er greinilegt að mjög djúpstæðar deilur hafa verið milli þessara þriggja innan Samfylkingarinnar og grunnt á því góða. Það sást t.d. mjög vel í eftirlaunamálinu er þáverandi formenn stjórnarandstöðuflokkanna stóðu að samkomulagi sem þeir hrökkluðust frá með skottið á milli lappanna vegna innri ágreinings. Össur lét ISG stjórna sér í þeim hasar, Steingrímur J. flúði á fjöll og Guðjón Arnar fór í frí til Kanarí. Sigurjón Þórðarson greiddi svo atkvæði gegn frumvarpi sem hann var sjálfur flutningsmaður að, eins og margir muna. Menn eru enn að reyna að átta sig á þeim merkilega viðsnúningi goðans. Guðmundur Árni stóð við sitt sem Samfylkingin hafði samþykkt í sínum þingflokki, en aðrir hrökkluðust þar frá. En þetta er áhugavert viðtal - uppgjör manns sem til fjölda ára var áberandi í íslenskum stjórnmálum. Maður sem sennilega upplifði á ferlinum bæði hátind og botn pólitískrar þátttöku, pólitíska sæta sigra og beiska pólitíska ósigra. Í raun hef ég alltaf borið virðingu fyrir Guðmundi Árna og metið hann einna mest þeirra krata sem eftir eru úr gamla Alþýðuflokknum og reyndu fyrir sér í Samfylkingunni, með misjöfnum árangri.

Bendi ég lesendum vefsins á að líta á bók hans, Hreinar línur, sem er að finna á vef hans. Í þeirri bók fer hann yfir pólitískan feril sinn fram að afsögninni árið 1994 og fer vel yfir átökin sem fylgdu afsögninni. Þessi bók er ágætislesning fyrir alla pólitíska áhugamenn að mínu mati. En það var mjög áhugavert að lesa Moggaviðtalið við Guðmund Árna, nú er hann skiptir um starfsvettvang og gerir upp fyrri pólitísk málefni áður en hann flýgur til Stokkhólms í ný verkefni í utanríkisþjónustunni.

Sjálfstæðisflokkurinn

Í gærkvöldi var aðalfundur fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna á Akureyri haldinn í Kaupangi, höfuðstöðvum flokksins hér á Akureyri. Fundurinn var mjög fjölmennur og var ánægjulegt að hitta flokksfélaga sem komu þar saman og eiga þar gott spjall um málin. Fundarstjóri á fundinum var Björn Jósef Arnviðarson sýslumaður og fyrrum bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri. Fundarritari var Anna Fr. Blöndal fyrrum formaður kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Norðurlandskjördæmi eystra. Í upphafi fundar flutti Björn Magnússon formaður, skýrslu stjórnar fulltrúaráðsins. Að því loknu kynnti Eygló Birgisdóttir gjaldkeri stjórnarinnar, reikninga fulltrúaráðsins, með ítarlegum hætti. Að því loknu var komið að kosningu til stjórnar. Björn Magnússon var sjálfkjörinn til formennsku í fulltrúaráðinu. Hefur hann leitt fulltrúaráðið frá árinu 2000 og mun því leiða fulltrúaráðið á kosningavetrinum sem framundan er.

Fjögur framboð bárust svo til setu í aðalstjórn fulltrúaráðsins, en kosið er um tvö sæti, utan formanns sem kjörinn er sérstaklega. Kjör í stjórn fulltrúaráðsins hlutu Anna Fr. Blöndal og Eygló Birgisdóttir. Ásamt þeim og Birni sitja í stjórn fulltrúaráðs formenn sjálfstæðisfélaganna á Akureyri. Þau eru auk undirritaðs sem er formaður Varðar, Þorvaldur Ingvarsson formaður Sjálfstæðisfélags Akureyrar, Helga Ingólfsdóttir formaður Varnar, og Gísli Aðalsteinsson formaður Sleipnis. Varamenn voru kjörnir Anna Þóra Baldursdóttir, Gísli Jónsson og Jóhanna H. Ragnarsdóttir. Jafnframt var kjörin kjörnefnd vegna sveitarstjórnarkosninganna sem framundan eru og kosið í kjördæmisráð af hálfu fulltrúaráðsins, en kjördæmisþing verður í Mývatnssveit laugardaginn 24. september nk. Að fundi loknum var boðið upp á veitingar og eins og venjulega skipulagði Helga okkar Ingólfsdóttir það af sinni stöku snilld.

Kenneth Clarke

Eins og allir vita er leiðtogakjör framundan í breska Íhaldsflokknum. Verður það væntanlega í nóvember sem kjörið fer fram og mun Michael Howard þá formlega hætta sem leiðtogi eftir að hafa setið á þeim stóli í tvö ár. Þegar hafa Kenneth Clarke fyrrum fjármálaráðherra Bretlands, Malcolm Rifkind fyrrum utanríkisráðherra Bretlands, David Davis, Liam Fox og David Cameron gefið kost á sér í leiðtogahlutverkið. Stefnir því allt í harðan og spennandi slag um leiðtogastöðuna. Í gær var birt skoðanakönnun BBC um fylgi leiðtogaefnanna meðal landsmanna. Þar hefur Ken Clarke algjöra yfirburði yfir aðra kandidata. Segjast 40% Breta vilja að Clarke taki við leiðtogahlutverkinu. Aðeins 10% nefna David Davis og 4% nefna Malcolm Rifkind. Það er greinilegt að ráði landsmenn verði Clarke leiðtogi á þessum tímapunkti. Stefnir í harðan slag um leiðtogastöðuna og verður spennandi að fylgjast með þeim átökum. En því er ekki að neita að staða Clarke er gríðarlega sterk, hann er maður sem hefur reynsluna og kraftinn sem þarf til að leiða. Menn staldra hinsvegar við aldur hans, en hann er 65 ára gamall. Svo er og hefur lengi verið deilt um afstöðu hans til Evrópumálanna. En framundan er leiðtogakjör í Íhaldsflokknum þar sem kúrsinn í stefnu og leiðtogasveit verður mörkuð.

Greifinn

Á sunnudagskvöldið fór ég ásamt góðum félögum út að borða. Eins og svo oft áður varð veitingastaðurinn Greifinn fyrir valinu. Að mínu mati jafnast enginn veitingastaður hér í bæ á við Greifann. Flottur matur, góð þjónusta, þægilegt andrúmsloft - hvað er hægt að hafa þetta betra? Alltaf ánægjulegt að fara þangað og fá sér góðan mat. Geri það reglulega. Svo jafnast auðvitað ekkert á við pizzurnar frá Greifanum. Dettur ekki í hug að panta pizzur annarsstaðar - svo góðar eru þær. Fyrsta flokks staður og matur. Allir sem koma til Akureyrar verða að fara þangað og við sem hér búum höfum gott af því að hvíla potta og pönnur eitt og eitt kvöld og fá okkur að borða þar. :)

Saga dagsins
1943 Íslandsklukkan eftir Halldór Laxness, kom út - hún varð ein vinsælasta bók landsins á 20. öld.
1948 Júlíana Hollandsdrottning, tekur við embætti - hún var drottning til 1980. Júlíana lést 2004.
1972 Allir gíslarnir 9 sem haldið hafði verið föngnum á Ólympíuleikunum í Þýskalandi, létust - reynt var að frelsa gíslana úr haldi mannræningjanna (palestínskra hermdarverkamanna) en það mistókst.
1997 Díana prinsessa af Wales, var jarðsungin í Westminster Abbey-dómkirkjunni í London. Milljónir manna um allan heim fylgdust með afhöfninni, sem þótti mjög tilfinningamikil og hjartnæm. Díana var síðar um daginn jarðsett á eyju á miðri landareign fjölskyldu sinnar, Althorp, í Northampton-skíri.
1998 Japanski kvikmyndaleikstjórinn Akira Kurosawa lést í Tokyo í Japan - hann var 88 ára að aldri.

Snjallyrðið
Tíminn flýgur áfram og hann teymir mig á eftir sér
og ekki fæ ég miklu ráðið um það hvert hann fer.
En ég vona bara að hann hugsi svolítið hlýlega til mín
og leiði mig á endanum aftur til þín.

Ég gaf þér forðum keðju úr gulli um hálsinn þinn,
svo gleymdir þú mér ekki í dagsins amstri nokkurt sinn.
Í augunum þínum svörtu horfði ég á sjálfan mig um hríð
og ég vonaði að ég fengi bara að vera þar alla tíð.

Það er margt sem angrar en ekki er það þó biðin,
því ég sé það fyrst á rykinu, hve langur tími er liðinn.
Og ég skrifa þar eitthvað með fingrinum sem skiptir öllu máli.
Því að nóttin mín er dimm og ein og dagurinn á báli.

Já, og andlitið þitt málað. Hve ég man það alltaf skýrt,
augnlínur og bleikar varir, brosið svo hýrt.
Jú ég veit vel, að ókeypis er allt það sem er best,
En svo þarf ég að greiða dýru verði það sem er verst.

Ég sakna þín í birtingu að hafa þig ekki við hlið mér
og ég sakna þín á daginn þegar sólin brosir við mér.
Og ég sakna þín á kvöldin þegar dimman dettur á.
En ég sakna þín mest á nóttunni er svipirnir fara á stjá.

Svo lít ég upp og sé við erum saman þarna tvær
stjörnur á blárri festingunni sem færast nær og nær.
Ég man þig þegar augu mín eru opin, hverja stund.
En þegar ég nú legg þau aftur, fer ég á þinn fund.
Magnús Þór Jónsson (Megas) skáld (Tvær stjörnur)


Engin fyrirsögn

John G. Roberts skipaður forseti hæstaréttar

John Roberts og George W. Bush

George W. Bush forseti Bandaríkjanna, tilkynnti í Hvíta húsinu í morgun að hann hefði skipað John G. Roberts sem forseta hæstaréttar Bandaríkjanna í stað William H. Rehnquist sem lést á laugardag. Rehnquist hafði verið í hæstarétti frá árinu 1972 og verið forseti hans í 19 ár, eða frá árinu 1986. Ef Roberts verður staðfestur af þinginu verður hann 17. forseti hæstaréttar Bandaríkjanna. Fyrr í sumar skipaði Bush forseti, Roberts sem dómara við hæstarétt Bandaríkjanna í stað Söndru Day O'Connor sem setið hafði í réttinum allt frá árinu 1981. Nú hefur sú tilnefning verið dregin til baka og mun forsetinn brátt tilkynna annað dómaraefni sem kemur í stað Söndru. Með þessu er tryggt að allir níu dómarar réttarins verði við störf er hann kemur saman að loknu sumarleyfi í október. Það er auðvitað að því gefnu að öldungadeildin muni staðfesta skipan Roberts sem forseta. Sandra Day O'Connor mun gegna störfum sínum þar til eftirmaður hennar hefur tekið sæti í réttinum. Eru allar líkur á því að staðfestingarferli vegna þessara tveggja lausu sæta í réttinum fari fyrir þingið á sama tíma. Mun Roberts koma fyrir þingnefnd fyrir vikulok og svara þar spurningum um lögfræðileg álitaefni og tengd málefni. Nefndin mun í kjölfarið kjósa um tilnefninguna og fer málið svo fyrir öldungadeildina í heild sinni. Hljóti Roberts meirihluta atkvæða (fleiri en 50 atkvæði) er hann réttkjörinn til setu.

Bendir allt til þess að Roberts muni hljóta fljótvirka afgreiðslu og verði tekinn við starfinu fyrir mánaðarlok. Val forsetans á honum sem forseta réttarins kemur engum á óvart. Það var ljóst að hann hafði traust forsetans til setu í réttinum og hann var fyrsta dómaraefni hans. Enginn vafi lék á því að hann var sá sem Bush treysti best fyrir embættinu. Rætt var um það eftir lát Rehnquist að möguleiki væri á því að Bush forseti myndi skipa einn af núverandi dómurum við réttinn til forsetasetu en flestir töldu það ólíklegt, enda myndi Bush vilja skipa forseta beint til setu í réttinn fyrst tækifærið gafst við andlát William Rehnquist. Að mati sérfræðinga vestanhafs þótti ljóst að best færi á því að Roberts yrði skipaður í embættið, enda hefði hann hlotið góða kynningu frá því tilkynnt var um skipun hans í réttinn í júlí og verið kynntur ennfremur fyrir þingmönnum og þeim áhrifamönnum sem munu leiða staðfestingarferlið og sitja í öldungadeildinni sem greiða mun að lokum atkvæði um skipun hans. Telja flestir hinsvegar að nú muni Bush forseti skipa konu í stað Söndru og viðhalda með því kynjahlutfallinu sem verið hefur í réttinum, en eins og flestir vita er þar aðeins ein önnur kona fyrir - Ruth Bader Ginsburg sem skipuð var af Clinton árið 1993.

John Roberts og George W. Bush

John G. Roberts er fæddur 27. janúar 1955 í Buffalo í New York-fylki. Eiginkona hans er Jane Sullivan Roberts og eiga þau tvö börn, Josephine og Jack. Roberts útskrifaðist frá Harvard árið 1979 og átti glæsilegan námsferil að baki þar. Hann var um tíma aðstoðarmaður forvera síns á forsetastóli hæstaréttar, William H. Rehnquist. Er hann enda almennt talinn lærisveinn hans. Roberts starfaði um tíma í bandaríska dómsmálaráðuneytinu og Hvíta húsinu en hefur verið dómari við áfrýjunardómstólinn í Washington frá 2003. Ferill hans er glæsilegur og hann kemur víða nærri og verður seint hægt að finna að fræðimannsferli hans og starfsferli sem dómara og lagasérfræðings. Það er hægt að slá því föstu að hann muni viðhalda þeim hægristimpli sem var á réttinum í forsetatíð Rehnquist. Búast má við einhverjum átökum í staðfestingarferlinu, en við blasir að hann muni samt sem áður hljóta afgerandi staðfestingu þingsins. Segja má að viðbrögðin við tilnefningu Roberts í forsetaembætti hæstaréttar hafi verið mjög flokkaskipt, rétt eins og var í júlí. Repúblikanar fögnuðu mjög tilnefningu hans og hrósuðu forsetanum fyrir valið. Demókratar voru sumir jákvæðir en flestir þeirra frekar neikvæðir og sögðu harðvítugt staðfestingarferli framundan. Roberts þykir vera íhaldssamur og því hætt við einhverjum átökum í staðfestingarferlinu.

Þetta hefur oft gerst en ekki alltaf tekist. Besta dæmið um misheppnaðar skipanir í réttinn var þegar að Lewis Powell tilkynnti um starfslok sín sumarið 1987. Reagan forseti tilnefndi Robert Bork til embættisins en öldungadeildin hafnaði honum, 58-42. Þá tilnefndi Reagan í staðinn Douglas H. Ginsburg en hann varð að draga sig til baka vegna orðróms um dópneyslu hans fyrr á árum. Þá var í þriðju tilraun tilnefndur Anthony Kennedy og tók hann loks við embætti, nokkru eftir formleg starfslok Powell. Hvað varðar Roberts nú má búast við mikilli hörku frá báðum hliðum ef út í átök fer. Frjálslyndir telja hann ekki viðeigandi forsetaefni, hann hafi að þeirra mati lagst gegn mál- og trúfrelsi og gæti þrengt lagaramma þess sem dómari. Þá segir hópur, sem berst fyrir frjálsum fóstureyðingum, að Roberts hafi skrifað lögfræðiálit árið 1990 þar sem færð voru rök fyrir því að hæstiréttur ætti að breyta afstöðu sinni til fóstureyðinga. Frægt er málið, Roe v. Wade árið 1973, þar sem réttur kvenna til fóstureyðinga var staðfestur. Nýir dómarar gætu snúið þeim tímamótadómi og hert lagarammann. Þó hefur Roberts ekki sagst telja rétt að gera það. En nú tekur við merkilegt ferli málsins. Staðfestingarferlið mun verða gegnumskrifuð pólitík. Alveg einfalt!

Hæstiréttur Bandaríkjanna

Eins og fyrr segir blasa fleiri breytingar við. Skipa þarf eftirmann Söndru Day O'Connor í réttinum, nú er Roberts hefur verið skipaður í stað Rehnquist. Er mest rætt um að í stað Söndru komi til greina þær konur sem mest voru í umræðunni í sumar er hún baðst lausnar. Þá var mikið rætt um að alríkisdómararnir Priscilla Owen, Edith Jones og Edith Clement yrðu fyrir valinu. Flestir telja að Edith Clement standi vel að vígi, en fullyrt var í júlí að Clement hefði orðið fyrir valinu, en það var svo auðvitað dregið til baka. Það blasir svo við að aldursforseti réttarins, John Paul Stevens, sem er 85 ára, hætti brátt í réttinum. Hann hefur verið dómari frá 1975 (í forsetatíð Fords). Er hann nú í raun starfandi forseti réttarins, enda sá sem lengst hefur setið. Bush forseti, skipaði fljótt nýjan forseta, enda vildi hann ekki að Stevens, sem þykir frekar liberal, stjórni ákvörðunum réttarins eða leiði vinnuferli hans. Því hefur hann nú afstýrt með skipun Roberts. Það er ljóst að með skipun John G. Roberts í forsetastól hæstaréttar Bandaríkjanna hefur Bush forseti markað sér sess í sögunni, enda er nýskipaður forseti aðeins fimmtugur og gæti setið í marga áratugi og mun hann leiða réttinn í stórum og vandasömum málum á komandi árum.

Saga dagsins
1942 Þýskar sprengjuflugvélar gerðu loftárás á Seyðisfjörð - nokkrar skemmdir urðu á húsum þar.
1972 Varðskip beitti togvíraklippum á breskan togara í fyrsta skipti - það varð mjög árangursríkt.
1979 Mountbatten lávarður, jarðsunginn í Westminster Abbey í London - lést í sprengjuárás IRA.
1987 Háskólinn á Akureyri var settur formlega í fyrsta skipti við hátíðlega athöfn í Akureyrarkirkju.
1997 Móðir Teresa handhafi friðarverðlauna Nóbels, sem eyddi ævi sinni í að sinna hinum þurfandi, einkum sjúkum og fátækum, deyr í Kalkútta á Indlandi. Móðir Teresa var 87 ára gömul er hún lést.

Snjallyrðið
Sjá, dagar koma, ár og aldir líða,
og enginn stöðvar tímans þunga nið.
Í djúpi andans duldir kraftar bíða. -
Hin dýpsta speki boðar líf og frið.
Í þúsund ár bjó þjóð við nyrstu voga.
Mót þrautum sínum gekk hún, djörf og sterk,
í hennar kirkjum helgar stjörnur loga,
og hennar líf er eilíft kraftaverk.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Sjá dagar koma)


Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um William H. Rehnquist forseta hæstaréttar Bandaríkjanna, sem lést í gær áttræður að aldri. Hann átti að baki merkilegan feril í réttinum, hafði setið þar í rúma þrjá áratugi og verið forseti hans í tæpa tvo áratugi. Hans verður minnst fyrir að hafa stýrt réttinum af krafti og hversu öflugur baráttumaður hann var fyrir þeim hugsjónum og grunngildum sem hann mat mest. George W. Bush forseti Bandaríkjanna, minntist Rehnquist í dag í ræðu í Hvíta húsinu. Við sama tækifæri lýsti hann því yfir að hann myndi skipa eftirmann Rehnquists mjög fljótlega. Verður merkilegt að fylgjast með þeim breytingum sem verða á hæstarétti Bandaríkjanna við dómaraskiptin, en tvær dómarastöður eru lausar við réttinn nú. Það er eins og kunnugt er jafnan talin ein helsta arfleifð forseta Bandaríkjanna á hverjum tíma hverja hann tilnefnir til setu í hæstarétti landsins. Með vali sínu getur Bush forseti því sett mark sitt á stefnu réttarins og samfélagið á hverjum tíma ennfremur í fjölda ára.

- í öðru lagi fjalla ég um málefni Ríkisútvarpsins. Páll Magnússon útvarpsstjóri, tók til starfa í vikunni og tjáði sig afdráttarlaust um mikilvægar breytingar á RÚV strax á fyrsta starfsdegi. Frumvarp menntamálaráðherra um stofnunina hefur tekið þeim breytingum að nú er gert ráð fyrir að RÚV verði gert að einkahlutafélagi en ekki sameignarfélagi eins og áður var stefnt að. Það gerist í kjölfar þess að ESA, eftirlitsstofnun EFTA, gerði athugasemdir þess efnis að fyrri áætlanir myndu flokkist undir ríkisstyrki sem brjóti í bága við reglur á evrópska efnahagssvæðinu. Það er alveg ljóst að það stefnir í spennandi umræðu um fjölmiðla í þinginu í vetur.

- í þriðja lagi fjalla ég um borgarmálin, en það stefnir í spennandi leiðtogaeinvígi í stærstu flokkunum. Ánægjulegt er að sjá hversu Sjálfstæðisflokkurinn hefur góða stöðu í þeim skoðanakönnunum sem birst hafa eftir dauða R-listans. Það sannast þar að Sjálfstæðisflokkurinn getur náð meirihluta í borginni og mjög hagstæðum úrslitum sem leiða muni til breytinga í borginni – jákvæðra breytinga og uppstokkunar á fjölda lykilmála sem hafa dankast alltof lengi.

Engin fyrirsögn

William H. Rehnquist
1924-2005


William Rehnquist (1924-2005)

William H. Rehnquist forseti hæstaréttar Bandaríkjanna, lést á heimili sínu í Washington í gærkvöldi, áttræður að aldri. Hann hafði setið í hæstarétti frá árinu 1972 er hann var skipaður í réttinn af Richard Nixon þáv. forseta Bandaríkjanna. Ronald Reagan þáv. forseti Bandaríkjanna, skipaði hann forseta réttarins árið 1986 og gegndi Rehnquist því embætti allt til dauðadags. Óhætt er að segja að hann hafi sett mikið mark á hæstarétt Bandaríkjanna í þau 33 ár sem hann sat í réttinum og þá tvo áratugi sem hann leiddi réttinn. Hann sat í réttinum í forsetatíð sjö forseta Bandaríkjanna. Rehnquist hafði barist við skjaldkirtilskrabbamein í tæpt ár. Greindist hann með sjúkdóminn seinnihluta októbermánaðar 2004 og urðu veikindi hans til þess að umræða um skipan hæstaréttardómara varð áberandi á lokaspretti kosningabaráttu í forsetakosningunum 2004. Rehnquist neitaði þrátt fyrir veikindin að láta af embætti og var staðráðinn í að sinna vinnu sinni allt til loka. Allt fram að sumarleyfi réttarins í júlí mætti hann daglega til vinnu á skrifstofu sinni og vann sinn eðlilega vinnutíma, þrátt fyrir alvarleg veikindi og meðferðir við sjúkdómnum samhliða því. Hann sýndi styrk sinn og ákveðni í að sinna störfum sínum mjög vel er hann mætti við embættistöku George W. Bush forseta Bandaríkjanna, hinn 20. janúar sl. og las honum embættiseiðinn, þrátt fyrir að læknar höfðu ráðlagt honum annað.

William Rehnquist fæddist í Shorewood, úthverfi Milwaukee-borgar í Wisconsin-fylki hinn 1. október 1924, sonur millistéttarhjóna. Að loknu skyldunámi hélt Rehnquist í Kenyon-háskóla þar sem hann var í eitt ár. Að því loknu skráði hann sig í flugher Bandaríkjanna. Hann þjónaði í flughernum í seinni heimsstyrjöldinni árin 1943-1946. Að stríðinu loknu hóf hann nám í Stanford-háskóla og nam stjórnmálafræði. Árið 1950 hóf hann nám í Harvard-háskóla þar sem hann tók kúrsa í stjórnskipunarfræðum. Að því loknu hélt hann í lagadeild Stanford-háskóla og nam lögfræði. Hann útskrifaðist með fyrstu einkunn frá skólanum. Aðra einkunn það árið hlaut þrítug námsmær frá Texas að nafni Sandra Day O'Connor. Um tíma meðan á náminu stóð áttu þau í ástarsambandi og hélst vinátta þeirra allt til loka. Í 24 ár unnu þau saman í hæstarétti Bandaríkjanna, en Sandra sem tilnefnd var í réttinn af Reagan forseta árið 1981, baðst lausnar frá embætti sínu hinn 1. júlí sl. Eftir nám sitt var Rehnquist aðstoðarmaður Robert H. Jackson hæstaréttardómara, 1952-1953. Rehnquist starfaði sjálfstætt sem lögfræðingur árin 1953-1969. Það ár varð hann einn af lagalegum ráðgjöfum Nixons forseta og varð svo aðstoðardómsmálaráðherra Bandaríkjanna. Í október 1971 skipaði Nixon hann til setu í réttinum og hann tók við embættinu hinn 7. janúar 1972.

William Rehnquist (1924-2005)

Það er óhætt að fullyrða að Rehnquist hafi átt merkilegan feril í embætti, þau 33 ár sem hann sat í hæstarétti Bandaríkjanna. Hann var ásamt Byron White andvígur úrskurði meirihluta hæstaréttar árið 1973 í hinu sögufræga máli Roe vs. Wade, þar sem réttur kvenna til fóstureyðinga var staðfestur. Rehnquist var mjög áberandi talsmaður íhaldssamra sjónarmiða sem dómari og var í fjölda ára leiðtogi þess hóps í réttinum. Hann leiddi tvö umfangsmikil mál sem voru í fjölmiðlum af miklum krafti undir lok embættisferils hans. Hið fyrra var ákæruréttarhöld yfir Bill Clinton forseta Bandaríkjanna, árið 1999. Rehnquist var þar í sögufrægu hlutverki við að leiða réttarhöld fyrir þinginu í máli gegn sitjandi forseta. Var það aðeins í annað skiptið í sögu landsins sem það gerðist. Hið fyrra skiptið var þegar að Salmon P. Chase leiddi sem forseti hæstaréttar, réttarhöld yfir Andrew Jackson forseta, árið 1868. Sem forseti hæstaréttar var Rehnquist í forsæti réttarhaldanna sem fram fóru eins og segir í stjórnarskránni um meðferð slíkra mála í sal öldungadeildarinnar. Var þetta sögufrægt mál og öll heimsbyggðin fylgdist í beinni útsendingu með réttarhöldunum yfir Clinton forseta. Líkt og Jackson var Clinton sýknaður af ákæruatriðunum en um var að ræða eitt mesta hitamál bandarískra stjórnmála á 20. öld og þáttur Rehnquists í réttarhöldunum mjög áberandi.

Seinna málið er svo auðvitað umfjöllun réttarins í deilumálunum sem vöknuðu vegna forsetakosninganna 2000. Deildu Al Gore og George W. Bush um úrslitin í Flórída-fylki í 36 daga vegna þess hversu naumt var á milli þeirra. Munaði aðeins nokkur hundruð atkvæðum að lokum. Það naumt varð að úrslit fengust ekki strax og handtelja þurfti atkvæði í nokkrum sýslum fylkisins. Leiddi það til dómsmála til að fá fleiri atkvæði endurtalin. Gore fékk örlítið fleiri atkvæði á landsvísu í forsetakosningunum en tapaði hinsvegar í kjörmannasamkundunni. Að lokum fór svo að hæstiréttur staðfesti sigur forsetans í fylkinu og Gore viðurkenndi því ósigur sinn eftir lagaflækjurnar þar sem úrslitin réðust í raun í dómsalnum í Washington. Umfjöllun réttarins í því markaði söguleg þáttaskil. Dómur réttarins um að ógilda ekki fyrri niðurstöðu um ógildingu endurtalningar í Flórída tryggðu sigur George W. Bush í kosningunum. Rehnquist var forseti réttarins í 19 ár. Aðeins tveir sátu lengur á forsetastóli en hann, þeir Melville Weston Fuller og John Marshall. Það segir sig sjálft að þegar einstaklingar leiða starf jafnmikilvægrar stofnunar og hæstaréttar Bandaríkjanna jafnlengi og um er að ræða hafa þeir gríðarleg áhrif á allt starf og stefnumótun innanborðs. Varð Rehnquist fyrsti hæstaréttardómarinn í 52 ár sem lést í embætti, en Fred M. Vinson lést árið 1953.

Hæstiréttur Bandaríkjanna

Hæstiréttur Bandaríkjanna er stjórnlagadómstóll og því dæmir hann fyrst og fremst í málum sem rísa vegna ágreinings um stjórnarskrá Bandaríkjanna. Dómarar við réttinn eru ekki bundnir neinum aldursmörkum og eru því skipaðir til dauðadags, nema þeir biðjist lausnar frá setu þar eða gerast sekir um brot á lögum og verða vegna þess að láta störfum. Gott dæmi um þetta er að Rehnquist sat í réttinum í 33 ár. Sá sem lengst hefur nú setið í réttinum, John Paul Stevens, sem er 85 ára, tók þar sæti árið 1975. Aðeins einn þeirra er yngri en sextugur, Clarence Thomas, sem er fæddur árið 1948. Ekki hafði losnað sæti í réttinum í áratug, eða frá árinu 1994 er Bill Clinton tilnefndi Stephen Breyer, er Sandra Day O'Connor tilkynnti um starfslok sín í júlí. Í þeim mánuði tilkynnti Bush forseti að hann hefði tilnefnt John G. Roberts í stað Söndru. Staðfestingarferlið vegna skipunar hans hefst formlega á þriðjudag. Eins og fyrr segir var Rehnquist lengi forystumaður íhaldssama hluta réttarins. Ásamt honum í þeim hluta voru Clarence Thomas, Antonin Scalia og Anthony Kennedy. Sandra Day O'Connor var svo þarna mitt inn á milli, var svokallað swing vote, en kaus þó oftast með þeim sem áður eru nefndir. Frægasta dæmi þess er auðvitað dómurinn vegna forsetakosninganna 2000, sem fyrr er nefndur.

Það verður nú verkefni George W. Bush forseta, að tilnefna eftirmann hins litríka William Rehnquist sem forseta hæstaréttar Bandaríkjanna. Það verður vandasamt verkefni að mínu mati. Verður merkilegt að sjá hvort hann velji einn af þeim sjö dómurum sem eftir eru í réttinum eða leitar út fyrir hann, eins og gerðist t.d. í vali á forvera Rehnquist á forsetastóli, Warren G. Burger, sem var forseti hæstaréttar á árunum 1969-1986 og setti mjög afgerandi mark sitt á réttinn rétt eins og eftirmaðurinn. Með vali sínu á Roberts og nú á nýjum forseta réttarins getur Bush forseti markað arfleifð sína með markvissum hætti. Það hefur ekki gerst í 33 ár að tveir dómarar hafi verið tilnefndir samhliða og staðfestingarferli í tvennu lagi fari fyrir þingið, sem staðfesta verður val forsetans. Það er jafnan talin ein helsta arfleifð forseta Bandaríkjanna á hverjum tíma hverja hann tilnefnir til setu í hæstarétti Bandaríkjanna. Með vali sínu getur forsetinn sett mark sitt á stefnu réttarins og samfélagið á hverjum tíma ennfremur. Verður dómaraefni forsetans að hljóta staðfestingu meirihluta öldungadeildar Bandaríkjaþings og því er forsetinn auðvitað ekki einráður um það hverjir veljast þar til setu.

William Rehnquist (1924-2005)

En það er alveg ljóst að mikið verkefni bíður þess sem tekur við forsetastarfinu í réttinum af Rehnquist. Ekki aðeins sat hann lengi í embættinu og hafði mótað störf hans í huga svo margra, heldur var hann áhrifamikill talsmaður grunngilda að margra mati. Það verður fróðlegt að sjá hvern Bush forseti muni velja til að taka við leiðtogahlutverki þessa áhrifamikla dómstóls, sem stendur óneitanlega á nokkrum krossgötum samhliða forsetaskiptum og mannabreytingum í dómarasveitinni.

Saga dagsins
1969 Björgvin Halldórsson kjörinn poppstjarna Íslands - Björgvin varð einn helsti söngvari landsins.
1973 Bókstafurinn z var felldur úr opinberu máli, til dæmis úr embættisgögnum og kennslubókum.
1985 Flak skipsins Titanic sem fórst árið 1912, er kvikmyndað af dr. Robert Ballard, í fyrsta skipti.
1997 Kofi Annan framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, kom til landsins til viðræðna við íslenska ráðamenn - Annan hlaut friðarverðlaun Nóbels fyrir umfangsmikil störf sín að friðarmálum árið 2001.
1998 Háskólinn í Reykjavík formlega stofnaður og settur í fyrsta skipti - hét áður Viðskiptaháskólinn í Reykjavík. Með nýjum háskólalögum Björns Bjarnasonar ári áður hafði tilvera skólans verið tryggð.

Snjallyrðið
Langt inn í gljúfrin lýsir dagsins sól,
þar lauga daggir stalla mosagræna
og þarna fá þau friðland sitt og skjól
hin fáu blóm, sem engum tekst að ræna.

Á bylgjum stormsins berast þangað fræ
frá brjóstum hinnar ljósu sumarnætur.
Í fylgsni þeirra festir aldrei snæ,
því funi jarðar vermir djúpar rætur.

Og þarna angar enn hið hvíta blóm,
og um það lykur þverhnípt hamraborgin,
þó böðlar jarðar búist fjallaskóm,
og bændur flytji grös á sölutorgin.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Langt inn í gljúfrin)


Engin fyrirsögn

Punktar dagsins
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra

Páll Magnússon útvarpsstjóri, hefur komið sér vel fyrir á skrifstofu sinni í Efstaleitinu, en hann tók við starfinu í gær af Markúsi Erni Antonssyni sendiherra. Hann var ekkert að hika á fyrsta starfsdegi sínum og tjáði sig óhikað um það að breytingar verði að eiga sér stað á Ríkisútvarpinu. Í gærmorgun var hann gestur í merkilegu viðtali á Morgunvaktinni hjá Bergljótu Baldursdóttur. Í viðtalinu sagðist hann í raun spyrja sig að því hvort að það gæti verið að of lítill hluti af tekjum Ríkisútvarpsins skili sér til áhorfenda og hlustenda. Sagðist Páll ennfremur vilja að með nýjum lögum um Ríkisútvarpið verði hægt að stýra stofnuninni með skilvirkari hætti en áður. Hann sagðist engin vilyrði hafa fengið frá menntamálaráðherra um að rétta fjárhag stofnunarinnar en að margt í nýju lagaumhverfi, sem fyrir lægi í nýju frumvarpi menntamálaráðherra, myndi gera það að verkum að grunnur hennar breyttist og fersk sýn kæmi á stöðu mála. Fer Páll enn betur yfir afstöðu sína til breytinga í viðtali við Morgunblaðið í dag. Líst mér vel á skoðanir Páls og tel skipan hans í embættið marka þáttaskil hvað varðar ásýnd Ríkisútvarpsins. Það blasir við að stofnunin er að fara í gegnum mikið breytingaskeið samhliða útvarpsstjóraskiptunum. Eins og vel hefur komið fram í skrifum mínum að undanförnu tel ég Pál vera réttan mann á réttum stað.

Ef marka má kvöldfréttir Ríkisútvarpsins í kvöld eru enn fleiri breytingar framundan á Ríkisútvarpinu. Blasir nú við að frumvarp menntamálaráðherra til breytinga á RÚV verði breytt enn meir á næstu vikum, áður en Alþingi kemur saman að nýju eftir mánuð. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, kynnti breytingatillögur á frumvarpi sínu á ríkisstjórnarfundi í morgun. Ef marka má kvöldfréttir RÚV eru uppi hugmyndir nú um að Ríkisútvarpinu verði breytt í einkahlutafélag. Það gerist í kjölfar þess að ESA, eftirlitsstofnun EFTA, mun hafa gert athugasemdir við að stofnuninni yrði breytt í sameignarfélag, það rekstrarform sem fyrir lá í upphaflegu frumvarpi ráðherrans. Eins og öllum er kunnugt þótti okkur í Sambandi ungra sjálfstæðismanna upprunalegt frumvarp vera slæm tíðindi og boða fátt gott, nema þá auðvitað endalok útvarpsráðs og ráðningar millistjórnenda hjá stofnuninni. Ennfremur urðu nokkur átök um frumvarpið fyrir þinglok í vor og frumvarpið endaði í umræðum í menntamálanefnd á síðustu dögum þingsins. Loks var ákveðið að salta það fram á haustið og taka það þá til umræðu samhliða væntanlegu frumvarpi um fjölmiðla í kjölfar skýrslu nefndar ráðherra um fjölmiðlaumhverfið. Eins og allir vita er það framhaldsferli á umdeildu fjölmiðlafrumvarpi sem forseti Íslands synjaði um staðfestingu sína sumarið 2004.

Við þinglok í sumar hafði meirihluti menntamálanefndar lagt til að ýmsar breytingar yrðu gerðar á frumvarpinu um RÚV. Var þar aðallega um að ræða breytingar á réttindamálum starfsmanna Ríkisútvarpsins og ákvæði um hlutverk hennar. Bæði þótti mjög óljóst í fyrra frumvarpi. Fagna ég því mjög að menn leggji fram breytingar á stöðu mála og fram komi marktækar breytingar sem laga helstu gallana á fyrra frumvarpi. Ef marka má fréttir mun frumvarpið verða lagt fram er þing kemur saman í næsta mánuði. Er jákvætt (það hlaut eiginlega að koma að því) að ESA (sem hefur verið að athuga málefni RÚV), sem hefur úrskurðað að afnotagjöldin margfrægu (og umdeildu) flokkist undir ólöglega ríkisstyrki, segi álit sitt á sameignarfélagsforminu og framundan séu þessar breytingar á frumvarpinu. ESA telur að sameignarfélagsformið flokkist undir ríkisstyrki sem brjóti í bága við reglur á evrópska efnahagssvæðinu. Sameignarfélag um Ríkisútvarpið myndi því flokkast undir ríkisstyrki í ljósi þess að ríkið beri ótakmarkað ábyrgð. Það feli t.d. í sér að ríkið yrði að taka á sig skellinn ef Ríkisútvarpið færi á hausinn einhverra hluta vegna. Því verða þessar breytingar að eiga sér stað. Eins og við blasir gilda allt aðrar reglur um ábyrgð af hálfu ríkisins ef um einkahlutafélag yrði að ræða.

Er þetta jákvæð breyting sem framundan er samhliða þessum breytingum. Verður fróðlegt að fylgjast með umræðunni um breytingarnar á Ríkisútvarpinu í þinginu í vetur þegar málið verður þar rætt. Stjórnarandstaðan fann fyrri frumvarpsdrögum allt til foráttu og verður vissulega athyglisvert að heyra mat hennar á þessum breytingum þegar þær verða lagðar fram. En vissulega má búast við skoðanaágreiningi á stöðu og hlutverki RÚV samhliða nýju frumvarpi menntamálaráðherra er það fer fyrir þingið. Það sem er svo merkilegast núna að sjá er hvort frumvarpið um RÚV og nýtt fjölmiðlafrumvarp verði lagt fram algjörlega saman eða rætt að einhverju leyti aðskilið. Ef marka má fréttir í dag er frumvarp um fjölmiðla í samræmi við skýrslu fjölmiðlanefndarinnar ekki enn til en væntanlega verður stefnt að því að það verði þó rætt fyrir áramótin. Það er því algjörlega ljóst að spennandi umræða er framundan um málefni fjölmiðla í þingsölum á þingvetrinum.

Gamlar myndir

Á morgun er ár liðið frá sviplegu andláti Péturs Wigelund Kristjánssonar söngvara. Óhætt er að fullyrða að Pétur hafi á löngum ferli sínum í tónlistinni helgað sig henni algjörlega. Hann var án nokkurs vafa tónlistarmaður af guðs náð. Pétur var rokkari eins og þeir gerast bestir og engum Íslendingi auðnaðist betur að syngja t.d. smellinn ódauðlega Wild Thing. Hann var aðeins 14 ára gamall þegar hann byrjaði í hljómsveitinni Pops sem bassaleikari. Síðar varð Pétur helsti forystumaður í fjölda hljómsveita, nægir þar að nefna Paradís, Pelíkan, Náttúru, Svanfríði og Start. Hann átti mikinn fjölda ógleymanlegra smellna. Seinustu árin hafði Pétur helgað sig útgáfu tónlistar og sölu á vandaðri tónlist, fór hann um landið með tónlistarmarkað sinn og seldi góða tónlist. Var Pétur hafsjór af fróðleik um tónlist og margir sem leituðu til hans og keyptu af honum tónlist. Kynntist ég Pétri í gegnum tónlistina, fór jafnan á tónlistarmarkaði hans og keypti af honum tónlist og mat alltaf mikils gríðarlega þekkingu hans á tónlist. Mörgum sinnum áttum við innihaldsríkt spjall um sameiginlegt áhugamál: tónlist frá mörgum ólíkum hliðum. Hef ég alla tíð haft mikinn áhuga á góðri tónlist og var því hreint óviðjafnanlegt að leita til hans og versla af honum góða geisladiska.

Alla setti hljóða þegar fregnaðist af veikindum Péturs og síðar af ótímabæru andláti hans. Það var eflaust eins með mig og alla aðra sem eitthvað höfðu kynnst Pétri og rætt við hann að það var óraunverulegt að þessi kraftmikli og áberandi maður í íslensku tónlistarlífi á seinustu áratugum væri farinn með svo snöggum hætti. Er Pétur lést var hann rétt hálfnaður við að taka upp plötu með lögum Kim Larsen með íslenskuðum textum Kristjáns Hreinssonar. Það var sorglegt að hann náði ekki að klára plötuna með þeim hætti sem hann hafði stefnt að. Er hann lést stóðu aðeins eftir æfingaútgáfur laganna en það átti eftir að vinna útgáfurnar betur og taka þær með nákvæmari hætti. Ættingjar og vinir Péturs ákváðu að gefa út plötuna með þeim hætti sem eftir stóð er hann kvaddi þennan heim og fengu nokkra vini hans í lið með sér til að syngja nokkur lög í minningu hans. Ég keypti mér í vikunni plötuna sem hlotið hefur heitið Gamlar myndir. Á hljómdisknum eru 15 lög. Er merkilegt að hlusta á þennan disk. Mikil sál er í lögunum og það er vissulega mjög sérstakt að hlusta á lögin, vitandi það að þetta var það síðasta sem Pétur söng í hljóðveri. Best eru að mínu mati lögin: Gamlar myndir (Papirsklip - sem hefur lengi verið eitt af mínum uppáhaldslögum), Blómabörn, Augun himinblá og Nú er nóttin.

Hef ég lengi verið mikill unnandi tónlistar Kim Larsen og því er þessi hljómdiskur algjör perla í mínum augum - og eyrum :). Þetta er allavega ekta góð tónlist fyrir mig. Hef spilað diskinn fram og til baka - þetta er sannkölluð snilld. Ennfremur er hann verðugur minnisvarði um þann merka tónlistarmann sem Pétur W. Kristjánsson var. Það er við hæfi að minnast þessa góða tónlistarmanns með því að fá sér plötuna og koma sér í gott skap við ljúfa tóna meistara Kim Larsen, færða í undurfagran búning af Pétri. Blessuð sé minning þessa merka tónlistarmanns.

Kjell Magne Bondevik

Þingkosningar verða í Noregi þann 12. september nk. Skv. skoðanakönnunum í Noregi stefnir nú allt í að vinstristjórn komist til valda í landinu eftir kosningarnar, undir forsæti Jens Stoltenberg leiðtoga Jafnaðarmannaflokksins. Það horfir því frekar þunglega í augnablikinu fyrir Kjell Magne Bondevik forsætisráðherra, og hægristjórn hans, sem setið hefur nær óslitið frá árinu 1997. Stoltenberg var reyndar forsætisráðherra í rúmt ár, 2000-2001, en tapaði seinustu þingkosningum árið 2001. Seinustu vikurnar hefur reyndar munurinn milli vinstri- og hægriblokkarinnar minnkað nokkuð. Skyndilega er orðinn fræðilegur möguleiki á því að Bondevik haldi völdum. Líkurnar á því minnka vissulega í ljósi þess að Carl I. Hagen og Framfaraflokkurinn vilja helst breyta til. Stjórnin hefur minnihluta á þinginu og þarf algjörlega að stóla sig á Hagen og flokk hans. Hætti hann stuðningi við stjórnina árið 2000 sem leiddi til falls hennar fram að kosningunum sem hægriflokkarnir unnu og mynduð var á ný stjórn í takt við fyrri hægristjórn. Búast má við spennandi lokaspretti í kosningunum. Átakapunktar eru á þá leið hvort Bondevik tekst það sem engum taldi að mögulegt væri fyrir nokkrum vikum: að stöðva sigurgöngu Stoltenberg. Bondevik hefur að flestra mati tekist að bæta verulega við sig og náð vopnum sínum. En nú er spurt: tekst honum að snúa stöðunni við? Það verður fróðlegt að fylgjast með því.

Leikfélag Akureyrar

Fyrir tæpri viku kynnti Magnús Geir Þórðarson leikhússtjóri, vetrardagskrána hjá Leikfélagi Akureyrar. Stefnir í glæsilegt leikár í vetur að mínu mati - mjög metnaðarfullt að öllu leyti. Fjöldi góðra verkefna verða á fjölunum og áhugaverðar kvöldstundir eru því svo sannarlega framundan í vetur í gamla góða leikhúsinu okkar. Í fyrra var magnað leikár alveg, um það eru að ég tel allir sammála. Með markvissu og góðu vali á uppsetningum á síðasta leikári tókst að bæta rekstrarstöðu LA verulega. Var um að ræða besta leikár félagsins í heil 17 ár. Í fyrsta skipti í nokkurn tíma var afgangur af rekstrinum. Með ráðningu Magnúsar Geirs í stöðu leikhússtjóra var stefnt að öflugu starfi og því að tryggja undirstöður leikhússins og sækja fram. Það hefur svo sannarlega tekist. Hátt í 17.000 manns sáu sýningar LA á síðasta leikári og var enginn vafi á því að söngleikurinn Óliver var aðalaðdráttaraflið síðasta vetur - komust færri að en vildu að lokum á þá frábæru sýningu. Í vetur eru framundan sýningar á borð við: Fullkomið brúðkaup, Litlu hryllingsbúðina og Maríubjöllu. Um verður einnig að ræða gestasýningar á borð við: Belgíska Kongó, Edith Piaf og Ævintýrið um Augastein. Það er enginn vafi á því að ég ætla að fá mér áskriftarkort og fylgjast vel með þessum góðu verkum í vetur. Þetta er of mikil freisting fyrir menningarpostula á borð við mig. :)

Reykjavíkurflugvöllur

Eins og vel hefur sést seinustu daga og ég fjallaði um í gær hér á vefnum hafa viss vatnaskil átt sér stað í umræðunni um Reykjavíkurflugvöll. Sérstaklega verður þess vart í stjórnmálaumræðunni í borginni. Eins og allir sáu í Íslandi í dag á þriðjudagskvöldið hefur Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson leiðtogi borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, algjörlega umpólast í umræðunni um völlinn. Egill Helgason fjölmiðlamaður, lýsir þessu vel að mínu mati á vef sínum í dag. Þar segir hann: "Merkilegastur er þó viðsnúningur Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar sem hefur algjörlega snúist hugur eins og Sál forðum á veginum til Damaskus. Vilhjálmur hefur alla tíð séð mikil tormerki á að flugvöllurinn fari, en vill nú helst losna við mannvirkið strax á næsta kjörtímabili. Hann hefur tekið forystu í málinu, er orðinn róttækari en allir aðrir. Þetta er að sönnu nokkuð óvænt." Tek ég undir þessi orð, get ekki annað en verið sammála Agli, aldrei þessu vant. Hef ég jafnan verið ófeiminn við að tjá mig um málefni flugvallar á höfuðborgarsvæðinu. Í dag birtist ítarlegur pistill minn á vefritinu íhald.is þar sem ég tek þessi mál í ljósi umræðunnar á undanförnum dögum og vikum. Bendi lesendum á að líta á þau skrif.

Saga dagsins
1625 Gos hófst í Kötlu í Mýrdalsjökli með miklu vatnsflóði - Katla hefur ekki gosið allt frá árinu 1918.
1666 Bruninn mikli í London - mikill eldur kviknar í London sem verður að stórbáli sem barist er við í þrjá sólarhringa. Eyðilagði um 10.000 byggingar, t.d. St. Páls dómkirkju, 16 manns fórust í eldinum.
1945 Seinni heimsstyrjöldinni lýkur formlega er Japanar undirrita yfirlýsingu um algjöra uppgjöf sína.
1967 Brúin yfir Jökulsá á Breiðamerkursandi vígð formlega - var önnur lengsta hengibrú á landinu, 110 metra löng. Með því komust Öræfingar loksins í fullkomið akvegasamband við aðra landshluta.
1973 J.R.R. Tolkien höfundur hinnar heimsfrægu Hringadróttinssögu, deyr í London, 81 árs að aldri.

Snjallyrðið
Vertu hjá mér, Dísa, meðan kvöldsins klukkur hringja
og kaldir stormar næða um skóg og eyðisand;
þá skal ég okkur bæði yfir djúpið dökka syngja
heim í dalinn, þar sem ég ætla að byggja og nema land.

Þó landið okkar, Dísa, sé vetrarörmum vafið,
þá veit ég, að þú hræðist það ekki að fylgja mér,
því senn mun vorið koma að sunnan, yfir hafið.
Ég sé það speglast, Dísa, í augunum á þér.

Og sólin bræðir fönnina af fjöllum og af engjum,
og fuglarnir - þeir syngja, og loftin verða blá,
og jörðin verður harpa með hundrað þúsund strengjum,
sem heilladísir vorsins í sólskininu slá.

Þá hlæja hvítir fossar, þá hljóma strengir allir;
þá hlýnar allt og brosir; þá fagna menn og dýr;
þá leiðast ungir vinir um vorsins skógarhallir;
þá verður nóttin dagur, - og lífið eitt ævintýr.

Og meðan blómin anga og sorgir okkar sofa
er sælt að vera fátækur, elsku Dísa mín,
og byggja sér í lyngholti lítinn dalakofa
við lindina, sem minnir á bláu augun þín.

Ég elska þig; ég elska þig og dalinn, Dísa
og dalurinn og fjöllin og blómin elska þig.
í Norðri brenna stjörnur, sem veginn okkur vísa,
og vorið kemur bráðum ... Dísa, kysstu mig
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Dalakofinn)

Sannkölluð perla í íslenskri ljóðlist - aðeins eitt orð er til yfir þetta ljóð. Þetta er snilld. Tært og fallegt ljóð - með því besta eftir meistara Davíð.


Engin fyrirsögn

Punktar dagsins
Díana, prinsessa af Wales (1961-1997)

Átta ár eru í dag liðin frá því að Díana prinsessa af Wales, fórst í hörmulegu bílslysi í París. Mikið hefur verið rætt og ritað um ævi og örlög Díönu prinsessu, bæði fyrir og eftir sviplegt andlát hennar. Óhætt er að fullyrða að hún hafi verið ein mest áberandi kona 20. aldarinnar og sett svip sinn á samtíð sína með mjög miklum hætti. Eins og frægt var sagt í blöðum er hún lést var hún mest myndaða kona sögunnar. Hún var sannkölluð fjölmiðlastjarna sem skreytti bresku konungsfjölskylduna og var áberandi bæði fyrir og eftir að hún giftist inn í fjölskylduna. Hún heillaði allan almenning um leið og hún var kynnt fyrst fyrir fjölmiðlum fyrir 24 árum og var athyglisvert mótvægi við Karl Bretaprins, sem hún giftist hinn 29. júlí 1981. Sögulega séð verður hennar sennilega helst minnst fyrir að hafa gifst Karli, ríkiserfingja Bretlands, og að vera móðir væntanlegs konungs Bretlands, Vilhjálms Bretaprins. Brúðkaup Díönu og Karls í St. Paul's dómkirkjunni í London í júlí 1981 var á þeim tíma kallað brúðkaup aldarinnar. Hjónaband þeirra virtist í upphafi ætla að styrkja konungdæmið í Bretlandi og verða hamingjusamt. Eignuðust þau synina William og Harry á fyrri hluta níunda áratugarins. Brestir komu þó fljótt í hjónabandið og þau skildu að borði og sæng í desember 1992, 11 árum eftir giftinguna.

Lögskilnaður þeirra varð svo að veruleika í ágúst 1996 og hélt Díana titli sínum sem hin konunglega hátign. Díana prinsessa gerði grein fyrir sinni hlið fallandi hjónabands síns í frægri bók árið 1992. Á þeim tíma var ekki gefið upp að hún væri heimildarmaður bókarinnar en Andrew Morton ljóstraði loks formlega upp um það eftir lát hennar. Þó varð öllum ljóst að Díana sjálf hefði veitt viðtöl vegna bókarinnar og hún hafði leyft nánustu vinum sínum að tjá sig um hjónaband hennar og árin ellefu í hjónabandinu við Karl. Í bókinni kom fyrst fram opinberlega að Díana hefði verið haldin átröskunarsjúkdómnum búlimíu og strítt jafnframt við sjálfmorðshugsanir á tímabili. Á síðasta ári voru fyrst birtar opinberlega hljóðupptökur af samtölum Díönu við Andrew Morton ævisöguhöfund hennar, en samtölin voru hljóðrituð 1991, ári fyrir útgáfu bókarinnar. Árið 1995 tjáði hún sig svo opinberlega í fyrsta skipti um hjónabandið í viðtali í þættinum Panorama og lét ekkert eftir liggja í frásögnum. Bæði bókin og sjónvarpsviðtalið sýndi ævintýraprinsessuna í nýju ljósi. Á bakvið brosin og gleðina sem á yfirborðinu voru sýnileg í fjölmiðlum var eymd og sársauki. Þetta kom vel fram seinustu æviár hennar. Í raun má segja að uppljóstrun þessara þátta hafi sýnt Díönu í öðru ljósi og haft áhrif á það hvernig sagan metur hana.

Allir sem upplifðu sunnudaginn 31. ágúst 1997 muna eftir því hversu mjög andlát hennar kom á óvart. Segja má að flesta hafi sett hljóða við fregnina um dauða hennar. Fráfall hennar snerti marga. Það er sennilega best að segja sem svo að andlát hennar hafi sett mark sitt á almenning allan. Um London var blómahafið ótrúlegt, fólk kom með blóm í miðborg London við heimili hennar í Kensington-höll og við Buckingham-höll til minningar um hana, og sorgin var ólýsanleg. Vikan sem leið frá sviplegu fráfalli hennar til jarðarfararinnar var ólýsanlegur tími sorgar og hluttekningar almennra borgara í garð konu sem fallið hafði frá - konu sem flest þeirra höfðu aldrei talað við en töldu sig þekkja af kynnum sínum af henni í fjölmiðlum og í fjarlægð meðan hún var eiginkona ríkisarfa Bretlands og móðir væntanlegs konungs Bretlands. Persónulega hef ég alltaf borið mikla virðingu fyrir Díönu prinsessu. Það mun sennilega líða á löngu áður en ein manneskja mun hafa jafnmikil áhrif á jafnmarga og hún gerði, bæði í lifanda lífi og eftir dauða sinn. Þeim sem vilja kynna sér ævi Díönu bendi ég á bók Andrew Morton um hana frá árinu 1992 og minningabók Anthony Holden um hana, sem kom út árið 1998.

Kenneth Clarke

Leiðtogakjör er framundan í breska Íhaldsflokknum. Reglum vegna kjörsins hefur nú verið breytt. Nú er það þingflokkur Íhaldsflokksins og áhrifamenn innan flokksins sem velja leiðtogann. Þannig var það allt til ársins 2001 er Iain Duncan Smith var kjörinn leiðtogi af öllum flokksmönnum í póstkosningu. Reglunum hafði verið breytt árið áður og var þeim ætlað að breyta ásýnd flokksins. Er Duncan Smith var steypt af stóli innan flokksins fyrir tveim árum varð Michael Howard sjálfkjörinn sem eftirmaður hans á leiðtogastóli. Hann boðaði brotthvarf sitt af leiðtogastóli eftir að Íhaldsflokknum mistókst að vinna þingkosningarnar fyrr á þessu ári og afla flokknum fleiri en 300 þingsæti. Stefnir allt í mikil átök um val á eftirmanni hans. Í gær lýsti Kenneth Clarke fyrrum fjármálaráðherra Bretlands, yfir framboði sínu til leiðtogastöðunnar. Er þetta í þriðja skiptið sem hann fer fram, en hann tapaði í leiðtogakjöri árin 1997 og 2001. Hefur hann lengi verið umdeildur innan flokksins vegna skoðana hans á Evrópumálunum. Ennfremur hefur Malcolm Rifkind fyrrum utanríkisráðherra Bretlands, tilkynnt um framboð sitt. Er hann almennt talinn í vinstriarmi flokksins. Er öruggt að David Davis muni gefa kost á sér, en hann er framarlega í núverandi skuggaráðuneyti flokksins. Jafnframt bendir flest til þess að Liam Fox og David Cameron munu ennfremur gefa kost á sér. Framundan er því án nokkurs vafa mjög spennandi kjör í Íhaldsflokknum á nýjum leiðtoga flokksins.

Árni Þór Sigurðsson

Óhætt er að segja að Árni Þór Sigurðsson leiðtogi VG í borgarstjórn og fyrrum forseti borgarstjórnar, hafi komið mörgum á óvart í gær með því að bjóða sig fram í annað sætið á framboðslista VG fyrir væntanlegar borgarstjórnarkosningar. Hann ætlar greinilega að leggja allt undir og leggur áherslu á að VG sækist hið minnsta eftir tveim borgarfulltrúum og leggur sig að veði, hann fari þá út ef flokkurinn nær ekki þeim fjölda í borgarstjórn sem hann hefur nú innan R-listans, semsagt tveim. Nær öruggt er að Svandís Svavarsdóttir fari fram í fyrsta sætið. Svandís er vel ættuð pólitískt. Faðir hennar er Svavar Gestsson sendiherra og fyrrum ráðherra og formaður Alþýðubandalagsins. Hún er móðir Odds Ástráðssonar formanns ungra vinstri grænna. Hún er núverandi formaður VG í borginni. Engum þarf að blandast hugur um það hversu sterk hún er innan flokkskjarnans. Svo er staða Bjarkar Vilhelmsdóttur borgarfulltrúa, með öllu óljós eftir að hún varð undir á frægum félagsfundi VG um daginn. Katrín Jakobsdóttir ætlar væntanlega ekki að fara fram í borgarmálunum. Væntanlega stefnir hún á þingframboð árið 2007. Nú hefur Árni Þór minnt á sig og opnað heimasíðu á netinu. Byrjar hann með krafti með skondnum pistli um vefskrif Össurar.

Eyðileggingin í New Orleans

Fellibylurinn Katrín gekk yfir Louisiana, Mississippi og Alabama í byrjun vikunnar og olli gríðarlegu tjóni og eyðileggingu. Talið er að Katrín sé umfangsmesti fellibylur og ofsaveður sem yfir Bandaríkin hafi gengið í manna minnum. Glundroði ríkir í New Orleans og er óttast um að mörg hundruð manns, jafnvel þúsundir, hafi farist í flóðum eftir hamfarir Katrínar. Flætt hefur um meginpart borgarinnar og eyðileggingin er gríðarleg. George W. Bush forseti Bandaríkjanna, flýtti lokum sumarfrís síns í Crawford í Texas og hélt til Louisiana og flaug yfir hamfarasvæðin. Tjáði hann sig um málið að því loknu og lofaði yfirvöldum á svæðinu allri mögulegri aðstoð sem til þyrfti. Sagði forsetinn að náttúruhamfarirnar séu með því versta sem yfir Bandaríkin hafi dunið í manna minnum. Ljóst er að uppbyggingarstarf muni taka mörg ár, jafnvel áratugi. Ljóst er að Katrín hefur valdið mun meira eigna- og fjártjóni en aðrar náttúruhamfarir síðustu árin. Hugur allra er þessa dagana hjá íbúum suðurríkja Bandaríkjanna sem orðið hefur fyrir eignatjóni og misst aðstandendur sína í hamförunum.

Markús Örn Antonsson

Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri, lætur af störfum í dag. Við blasir að nokkur þáttaskil eru framundan hjá RÚV samhliða útvarpsstjóraskiptum. Það hefur komið vel fram í fjölmiðlum eftir að tilkynnt var um skipan Páls Magnússonar í þetta embætti að hann hefur um margt ólíkar skoðanir á hlutverki RÚV og stefnu þess en forverinn. Hvaða skoðanir sem menn hafa svosem á verkum Markúsar Arnar má fullyrða að hann hafi sett mikið mark á Ríkisútvarpið. Hefur hann enda starfað með hléum hjá RÚV allt frá árinu 1966. Hann var einn af fyrstu fréttamönnum Sjónvarpsins og starfaði þar allt til þess að hann varð stjórnmálamaður. Eftir störf að stjórnmálum og setu í útvarpsráði var hann skipaður útvarpsstjóri árið 1985. Hann var borgarstjóri í Reykjavík í þrjú ár, 1991-1994, og varð svo aftur útvarpsstjóri árið 1997. Hefur RÚV breyst mjög á starfstíma hans og við blasa enn meiri breytingar á fjölmiðlalandslaginu. Á þessum tímamótum hjá RÚV samhliða því að Markús Örn hættir og heldur til starfa í utanríkisþjónustunni blasir nýtt starfsumhverfi og aðstæður í harðnandi samkeppni á fjölmiðlamarkaði við eftirmanni hans.

Saga dagsins
1919 Jóhann Sigurjónsson skáld og rithöfundur, deyr í Kaupmannahöfn. Hann var þá 39 ára að aldri.
1980 Silfursjóður fannst við Miðhús á Fljótsdalshéraði - hefur verið deilt um aldur silfursins síðan þá.
1980 Verkalýðssamtökin Samstaða voru stofnuð í Póllandi - leiddi uppreisn gegn stjórn kommúnista.
1994 Írski lýðveldisherinn lýsir yfir fullu vopnahléi, eftir rúmlega 25 ára baráttu með sprengjuárásum.
1997 Díana prinsessa af Wales, deyr, í bílslysi í París. Díana prinsessa var 36 ára gömul er hún lést.

Snjallyrðið
Fyrir löngu, löngu bjó
ljúflingsmey í steini,
hjúfraði og hörpu sló
svo hljómurinn barst út að sjó
til eyrna ungum sveini;
eitthvert töfraafl hann dró
yfir skriður, holt og mó
að Ljúflingasteini.
En þó varð hörpuhljómurinn
að heitu, sáru veini;

Opna steininn ei ég má
aldrei færð þú mig að sjá
en hug minn áttu og hjartans þrá
heillavinurinn eini.
Margur er þeim að meini,
sem búa í steini.

Sveinninn hlýddi hljóður á
og hugsaði margt í leyni.
Í steininum heyrði hann hjarta slá
og utan um hann örmum brá,
kyssti hann og kreisti hold frá beini.
Margt er þeim að meini
sem eiga það, sem þeir elska mest,
inni í steini.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Margt er þeim að meini)

Þakka þeim sem hafa sent komment á ljóðin sem ég hef birt á vefnum. Það er ánægjulegt að fleiri hafa haft gaman af þessum ljóðum en ég.


Engin fyrirsögn

Punktar dagsins
Gísli Marteinn Baldursson

Gísli Marteinn Baldursson varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, tilkynnti á fjölmennum fundi með stuðningsmönnum sínum í Iðnó á sunnudag um framboð sitt í leiðtogasæti á framboðslista flokksins fyrir borgarstjórnarkosningar 27. maí nk. Það er því ljóst að kosið verður milli manna hvað varðar efsta sætið, en Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarfulltrúi, sem verið hefur leiðtogi borgarstjórnarflokksins frá árinu 2003, sækist eftir umboði flokksmanna til áframhaldandi forystu og því að leiða framboðslistann. Báðir eru Vilhjálmur og Gísli Marteinn mætir menn sem hafa unnið fyrir flokkinn af heilindum og hafa metnað til að vinna vel fyrir kjósendur. Það er auðvitað bara eðlilegt að ungir menn á borð við Gísla Martein sem hafa áhuga á stjórnmálum hafi ambisjónir fyrir sig og vilji vinna fyrir flokk sinn og kjósendur. Það er svo flokksmanna að velja á milli manna, velja þann sem leiðir flokkinn í kosningunum. Það er ekkert að því að menn hafi val í þeim efnum. Það er einfaldlega bara merki um lýðræði og opin vinnubrögð innan Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík að valkostir séu uppi í stöðunni og það mun svo verða almennra flokksmanna að taka svo af skarið og velja þann sem leiðir flokkinn í kosningunum - til sigurs! Lykilatriði er að sjálfstæðismenn velji sér þann leiðtoga sem leitt getur flokkinn á sigurbraut.

Alveg ljóst er að Gísli Marteinn hefur á að skipa fjölmennum hópi stuðningsmanna sem samanstendur af flokksbundnum sjálfstæðismönnum og eins af þeim sem vilja breytingar í borgarmálum og hafa ekki valið sér það hlutskipti að ganga í flokk. Kristallast þetta vel í skoðanakönnun Fréttablaðsins sem birt er í dag. Þar kemur fram að flestir Reykvíkingar vilja Gísla Martein sem næsta borgarstjóra. Tæpur fjórðungur þeirra sem tóku afstöðu valdi hann. Næstur kemur Stefán Jón Hafstein, svo Vilhjálmur Þ. og loks kemur Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri. Nýtur Gísli Marteinn fylgis um 24%, Stefán Jón hefur um 20%, Vilhjálmur Þ. um 18% og Steinunn Valdís hefur rétt rúm 10%. Athygli vakti að Gísli Marteinn og Stefán Jón voru saman í báðum dægurmálaspjallþáttunum í gærkvöldi og fóru yfir leiðtogaslaginn sem framundan er innan bæði Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Greinilegt er að vinstrimenn óttast mjög leiðtogaframboð Gísla Marteins. Skýrt dæmi um þetta eru skrif Össurar Skarphéðinssonar leiðtoga Samfylkingarinnar í RN og fyrrum formanns flokksins, í bloggfærslu sinni í gær. Það er greinilegt að menn óttast á þeim vængnum Gísla Martein og ef marka má þessa skoðanakönnun Fréttablaðsins er það varla óeðlilegt. Hann nýtur mikils fylgis.

Ég fór í Iðnó á sunnudaginn og var viðstaddur það þegar að Gísli Marteinn lýsti yfir framboði sínu, áður en ég hélt með síðdegisvél heim eftir góða helgi fyrir sunnan. Þar var jákvæð og góð stemmning. Gísli Marteinn lætur reyna á sína stöðu sem er mjög jákvætt. Nú eru örlög hans og annarra frambjóðenda sett í hendur almennra flokksmanna. Persónulega líkar mér vel við Gísla Martein og ákvörðun hans um að gefa kost á sér. Það er eðlilegt að hann láti reyna á hvar hann standi meðal flokksmanna. Það sem mér líkar best við hann er jákvæðni og málefnalegheit. Hann er jákvæður í framsetningu málefnapunkta sinna og kemur fram með góðum hætti. Þannig verður kosningabarátta sjálfstæðismanna að verða í næstu kosningum. Það sem mestu skiptir nú fyrir Sjálfstæðisflokkinn er að þar sé unnið saman að því markmiði að vinna borgina. Áður velja flokksmenn forystuna - talsmenn framboðsins í kosningunum. Þar verður kosið milli manna. Að því loknu verða menn að einhenda sér í það verkefni að vinna saman og tryggja að vinstriöflunum verði komið frá. Það sem hefur verið akkilesarhæll sjálfstæðismanna í borgarmálunum undanfarin ár er sundurlyndi. Nú eru menn samhentir, vonandi, í því markmiði að snúa bökum saman. Kosningarnar á næsta ári er lykilpunkturinn - það eru átökin sem mestu skipta.

Nú skiptir mestu að sjálfstæðismenn í Reykjavík velji þann sem leiða á flokkinn til sigurs. Að mínu mati tel ég rétt að flokkurinn velji ungt fólk til forystu og komi fram með ferska ásýnd og öfluga liðsheild undir forystu yngri kynslóðarinnar í flokknum. Sögulega séð hefur það alltaf reynst best í borgarmálunum. Það blasir við ef sagan er skoðuð allt frá upphafi. Það er enginn vafi á því í mínum huga að þannig eigi það að vera núna. En sjálfstæðismenn verða að vinna saman að sigrinum til að geta náð honum. Það er alveg ljóst. Framundan er spennandi prófkjörs- og kosningabarátta næstu mánuðina í borgarmálunum í Reykjavík.

Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins

Samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins á fylgi flokkanna í borgarmálunum sem kynnt var í gær nýtur Sjálfstæðisflokkurinn nú langmests fylgis allra framboða sem verða í kjöri í næstu borgarstjórnarkosningum. Sjálfstæðismenn fengju hreinan meirihluta í borginni, eða níu borgarfulltrúa kjörna, ef marka má könnunina. Greinilegt er að endalok R-listans hafa leitt til vatnaskila í borgarmálunum. Nú skiptist fylgið sem eyrnamerkt var R-listanum upp og eftir stendur gjörbreytt pólitískt landslag í borginni í sveitarstjórnarpólitík. Það allavega blasir við þegar litið er á þessa skoðanakönnun, sem vissulega er bara vísbending en segir þó óneitanlega ansi margt. Sjálfstæðismenn hafa unnið vel á kjörtímabilinu og hafa nú hafið fundarferð um borgina. Öflugt forskot Sjálfstæðisflokksins nú kristallar það að kjósendur vilja breytingar - betri borg! Samkvæmt könnuninni fengi Samfylkingin 29,7%, eða fimm borgarfulltrúa. VG hlyti einn borgarfulltrúa kjörinn, en hvorki Framsóknarflokkurinn né Frjálslyndi flokkurinn næðu manni inn í borgarstjórn. Tæp 5% segjast styðja Framsóknarflokkinn en aðeins rúm 2% segjast styðja Frjálslynda. Það er því greinilegt að Samfylkingin fær fleiri borgarfulltrúa kjörna en þeir hefðu fengið í R-listanum en missa völdin.

Mörg sóknarfæri sjást í stöðunni fyrir Sjálfstæðisflokkinn þegar litið er á þessa skoðanakönnun og pólitísku stöðuna almennt í borginni. Fyrst og fremst segir þessi könnun það að Sjálfstæðisflokkurinn á mjög góða möguleika á að vinna kosningarnar og það vinna þær með mjög öflugum hætti. Dauði R-listans segir margt um stöðu mála, en endalok þessa hræðslubandalags breytir stöðunni hvað varðar meirihlutann sem nú ríkir og greinilegt að hann á erfitt með að halda saman fram til kosninga og auðvitað með það að halda meirihlutafylginu í sundruðum framboðum. Hljóti Sjálfstæðisflokkurinn ekki hreinan meirihluta er vandséð að R-listaflokkarnir vinni áfram saman, heldur keppist þeir þá við að reyna að komast í meirihluta með Sjálfstæðisflokknum. Það stefnir allavega í mjög spennandi kosningar og uppstokkun innan flestra flokkanna hvað varðar frambjóðendur og uppröðun á framboðslista. Reyndar blasir við slagur í Samfylkingunni hvað varðar leiðtogastólinn en Stefán Jón Hafstein sem leiðir Samfylkinguna innan R-listans hefur lýst yfir framboði í leiðtogastól flokksins í kosningabaráttunni og ljóst að hann mun a.m.k. keppa við Steinunni Valdísi Óskarsdóttur borgarstjóra, um þann stól. Andar greinilega mjög köldu þar á milli.

Svo er auðvitað óljóst hvað gerist með Össur Skarphéðinsson leiðtoga Samfylkingarinnar í RN og fyrrum formann flokksins. Hann hefur komið með krafti inn í borgarmálaumræðuna og verið mjög áberandi þar. Hann hikaði ekki við að gagnrýna borgarstjórann á föstudag er hún sagði við leiðtogaframboði Stefáns Jóns að hann hefði lengi gengið með borgarstjórann í maganum. Össur tók sig til að kvöldi föstudagsins og ritaði merkilega bloggfærslu sem birtist aðfararnótt laugardagsins. Þar sagði hann að orð Steinunnar Valdísar hefðu verið ósmekkleg. Skrif Össurar vöktu verðskuldaða athygli. Eins og fyrr segir virðist ótti borgarstjórans skiljanlegur, enda nýtur hún mun minna fylgis en Stefán Jón. Tel ég að ég verði sannspár er á hólminn kemur, en ég spáði því að þau tvö sem mestu myndu tapa með dauða R-listans yrðu borgarstjórinn og forseti borgarstjórnar. Sá síðarnefndi var reyndar ansi fyndinn í gær þegar hann kom í fjölmiðla eins og hinn veruleikafirrti vegna lítils fylgis Framsóknar í borginni og sagði framsóknarmenn oft hafa séð það svartara. Fátt varð þó um svör þegar spurt var um hvenær það hefði verið. Það mætti segja mér að það sé farið að fara um Alfreð innan um þjónana sína í glæsihýsi OR að Bæjarhálsi sem væntanlega verður langlífasti minnisvarði hins steindauða R-lista. Það eru flestir farnir að flýja hann.

Snæfellsjökull

Um síðustu helgi var ég fyrir sunnan og átti mjög góðar stundir þar. Var áhugavert að fara um borgina, hitta góða vini og eiga notalegt spjall um stjórnmál og margt fleira. Að morgni laugardags fór ég ásamt góðvini mínum, Gunnari Ragnari Jónssyni, í sumarferð Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík. Var ferðinni heitið á Snæfellsnesið. Var góður hópur fólks með í för. Sérstaklega hafði ég gaman af að spjalla við það eldra fólk sem var með í för og fara yfir ýmis ólík mál. Fararstjórar í ferðinni voru t.d. borgarfulltrúarnir Guðlaugur Þór Þórðarson og Kjartan Magnússon. Vorum við í þeirri rútu sem Kjartan var fararstjóri í. Var ánægjulegt að heyra lýsingar Kjartans á svæðinu en hann kynnti það sem fyrir augu bar á leiðinni með miklum glæsibrag. Var þetta mjög góður dagur og gleðilegt að fara þennan hring um Snæfellsnesið. Það er visst ævintýri að kynna sér þetta svæði og virða fyrir sér náttúrufegurðina þar. Að Arnarstapa var grillað og skemmt sér vel og spjallað um margt og mikið.

Fórum við svo að Gestastofu að Hellnum, þar sem er mjög athyglisvert og gott minjasafn. Þar kynnti Guðbjörg Gunnarsdóttir þjóðgarðsvörður, okkur safnið og sögu svæðisins. Skoðuðum við svo safnið og var það mjög ánægjulegt, enda margt þar sem vekur áhuga sögufróðra. Að þessu loknu keyrðum við fyrir nesið og sérstaklega var ánægjulegt að keyra um byggðirnar þar, Ólafsvík, Hellissand og Grundarfjörð. Að því loknu var keyrt aftur til Reykjavíkur. Hef ég nokkrum sinnum áður farið um Snæfellsnesið. Eru reyndar fjögur ár síðan ég fór hringinn um nesið síðast en ég fór þá í leiðinni í heimsókn til ættingja minna í Stykkishólmi, en þar bjuggu tveir bræður mömmu og frændi minn, Árni Helgason, ennfremur, en hann og mamma eru systkinabörn. Hafði ég mjög gaman af þessari ferð og ég er ekki fjarri því að ég hafi hugleitt margt á þessari ferð, enda er Snæfellsnesið einstaklega fallegt og þar er mikil náttúrufegurð og vettvangur kyngimagnaðra atburða. Reyndar gerir Laxness því skondin skil í Kristnihaldinu og sr. Árni Þórarinsson lýsir fólkinu á svæðinu kostulega í ævisögu sinni.

Gunnar Ragnar og Stefán Fr. Stef.

Við komuna til Reykjavíkur héldum við Gunni í það að hafa fataskipti fyrir afmælishátíð SUS sem haldin var að laugardagskvöldinu í Þjóðleikhúskjallaranum. Fórum við þangað saman og áttum við félagarnir mjög góða stund. Þar voru fluttar margar góðar ræður og farið var yfir sögulega punkta í merkri sögu SUS í 75 ár. Átti ég þar gott spjall við marga mæta félaga. Sérstaklega var gaman að heyra ræðu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra, og Vilhjálms Egilssonar ráðuneytisstjóra og fyrrum alþingismanns og formanns SUS. Óhætt er að segja að Gústaf Níelsson útvarpsmaður á Útvarpi Sögu, sem var viðstaddur afmælishátíðina og var um tíma í stjórn SUS, hafi sett svip á þessa afmælishátíð en hann ávarpaði afmælishátíðina og kom með marga skemmtilega sögulega punkta. Áttum við gott spjall en við sátum við sama borð á kvöldverðinum. Gústaf er þekktur fyrir það að tjá skoðanir sínar óhikað og var ánægjulegt að ræða málin við hann. Þetta var góð og ánægjuleg helgi.

Cherie Booth Blair

Cherie Blair forsætisráðherrafrú Bretlands, er þessa dagana stödd hér á landi. Ávarpaði hún í gærmorgun heimsfund menningarráðherra úr röðum kvenna sem haldinn er í tilefni af 75 ára afmæli Vigdísar Finnbogadóttur fyrrum forseta Íslands, sem fyrst kvenna í heiminum var kjörin forseti heimalands síns með lýðræðislegum hætti árið 1980. Kynnti Cherie þar skýrslu World Economic Forum (Women's Empowerment: Measuring the Global Gender Gap). Er Cherie kynnti skýrsluna kom fram þar að Ísland væri í öðru sæti hvað varðaði hlut kvenna í stjórnmálaákvörðunum. Erum við í þeim efnum aðeins á eftir Svíþjóð. Getum við vel við unað við þá staðreynd mála. Aðeins er ár síðan að Cherie kom síðast til landsins. Í ágústlok í fyrra kom hún til landsins og ávarpaði ráðstefnuna Konur, völd og lögin. Jafnframt kom hún til Akureyrar í þeirri heimsókn til landsins og opnaði listsýninguna Ferð að yfirborði jarðar, á verkum hinnar bresku Boyle-fjölskyldu, á Akureyrarvöku. Kemur hún aftur til Akureyrar í þessari Íslandsför sinni. Þó að ég og Cherie deilum ekki sömu pólitísku hugsjónum hef ég alltaf borið virðingu fyrir henni sem persónu. Leikur enginn vafi á því að hún á mikinn þátt í því hversu farsæll stjórnmálamaður eiginmaður hennar, Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, er. Að kvöldi síðastliðins sunnudags ræddi Eyrún Magnúsdóttir við Cherie í Kastljósinu. Bendi ég lesendum vefsins á að líta á það viðtal.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra

Í áratug hefur Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, haft heimasíðu á netinu. Allan þann tíma hefur hann tjáð þar af miklum krafti skoðanir sínar og skrifað um pólitík og fleiri þætti þjóðmálaumræðunnar, birt þar dagbók og ennfremur allar ræður og greinar sínar. Var Björn brautryðjandi í vefskrifum íslenskra stjórnmálamanna á netinu og er fyrirmynd margra í netvinnslu og í því að skrifa á vefnum. Á vefnum er hægt að fylgjast með verkum og skrifum Björns allan feril hans sem ráðherra, þingmanns og borgarfulltrúa. Eru þeir ekki margir íslensku stjórnmálamennirnir sem hafa á að skipa vef með skrifum í heilan áratug þar sem efnið er óbreytt og sígilt. Sama er hægt að segja um í því tilfelli að hann hefur skrifað allan tímann af krafti. Vefur hans er safn öflugra og vandaðra skrifa um málefni samtímans á hverjum tíma. Nú hefur Björn breytt eilítið forsíðu heimasíðu sinnar og breytt aðeins umfjölluninni og skrifar nú dagbókarfærslur í bloggformi og tekur fyrir málefnin þar með öðrum hætti auk pistlaskrifa sinna vikulega. Ég óska Birni til hamingju með þessa breytingu á vefnum. Það er nú sem ávallt fyrr ánægjulegt að fylgjast með skrifum hans.

Saga gærdagsins
1862 Akureyri fékk kaupstaðarréttindi - þá bjuggu þar 286, en nú búa í bænum rúm 16.000 manns.
1948 Baldur Möller 34 ára lögfræðingur, varð skákmeistari Norðurlandanna, fyrstur allra Íslendinga.
1966 Hljómsveitin The Beatles, hélt seinustu tónleika sína, í San Francisco. Hljómsveitin hætti 1970.
1982 Sænska óskarsverðlaunaleikkonan Ingrid Bergman lést úr krabbameini í London, 67 ára að aldri. Ingrid Bergman var ein frægasta leikkona 20. aldarinnar og hlaut óskarsverðlaun alls þrisvar sinnum.
2000 Fyrsta sólarhringsverslun 10-11 opnuð, flestar verslanir 10-11 eru nú opnar allan sólarhringinn.

Saga dagsins
1720 Jón Vídalín biskup, lést á leið norður í Kaldadal - staðurinn hefur síðan heitið Biskupsbrekka.
1779 Hið íslenska lærdómsfélag var stofnað í Kaupmannahöfn - það var loks lagt niður árið 1796.
1935 Íslenska ríkið eignaðist Geysi í Haukadal - svæðið hafði þá verið í eigu útlendinga í rúm 10 ár.
1967 Borgarskálabruninn - vöruskemmur Eimskips við Borgartún brunnu, en í skemmunum voru þá þúsundir tonna af vörum. Um var að ræða mesta eignartjón í eldsvoða hérlendis, fram að þeim tíma.
1967 Thurgood Marshall verður hæstaréttardómari í Bandaríkjunum - fyrstur allra þeldökkra manna.

Snjallyrðið
Ég skrifa þér með blýant, því blek er ekki til,
og blaðið það er krypplað, og ljósið er að deyja.
En þegar þú færð bréfið, þá veistu hvað ég vil,
og veist að ég er heima, og í náttkjól meira að segja.

Ég svík þig ekki vinur og sendi þetta bréf
til að sýna þér að ég er hvorki hrædd við þig né gleymin.
Til að segja, til að segja, til að segja að ég sef,
undir súðinni að norðan, ég er svo voðalega feimin.

Í guðsbænum þú verður að ganga ósköp hljótt,
og gæta vel að öllu, hvort nokkur fer um veginn.
Læðstu inn um hliðið þegar líða fer á nótt,
og læðstu upp að húsinu eldhúsdyramegin.

Beint á móti uppgöngunni eru mínar dyr,
elsku vinur hægt, hægt, svo stiginn ekki braki.
Og þó þú hafir aldrei, aldrei farið þetta fyrr,
þá finn ég að þú kemur, og hlusta bíð og vaki.

Gættu að því að strjúka ekki stafnum þínum við,
og stígðu létt til jarðar og mundu hvað ég segi.
Það iðka sjálfsagt margir þennan ævintýrasið,
sem aldrei geta hist þegar birta fer að degi.

Opnaðu svo hurðina hún er ekki læst,
hægt elsku vinur það er sofið bak við þilið.
Í myrkrinu, í myrkri geta margir draumar ræst,
og mér finnst við líka eiga það skilið.

Ég veit að þú ert góður og gætir vel að þér,
og gengur hægt um dyrnar, farðu helst úr skónum.
Þá er engin hætta, þú mátt trúa mér,
þei, þei, húsið er fullt af gömlum ljónum.

Það grunar engan neitt svona í allra fyrsta sinn,
og engum nema þér skal ég gefa blíðu mína.
Og þó að ég sé feimin, þá veistu vilja minn,
og veist að ég er heima, þín elsku hjartans Stína.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Bréfið hennar Stínu)

Get ekki annað en birt þetta fallega ljóð, það á minningar í huga mínum og mér finnst lag Heimis Sindrasonar við ljóð meistara Davíðs undurfagurt. Enginn hefur sungið það betur að mínu mati en Herdís Ármannsdóttir úr Eyjafirðinum á plötunni Skref fyrir skref sem kom út árið 2001. Undurfagurt og tært. Þetta ljóð á stað í hjartanu á mér, það er alltaf einlægt og eitthvað svo sætt í gegn. Það er rétt eins og öll ljóð Davíðs Stefánssonar með einlægri tilfinningu sem skilar sér til þess sem þau lesa.


Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi um sameiningarmálin, en kosið verður um sameiningu níu sveitarfélaga hér við Eyjafjörð eftir sex vikur. Nú hefur samstarfsnefnd sveitarfélaganna vegna kosningarinnar kynnt niðurstöður fjögurra vinnuhópa sinna. Koma þar fram mjög athyglisverðar tillögur. Fer ég yfir helstu niðurstöður þeirra og bendi lesendum á að kynna sér þær vel. Er framundan öflug umræða um kosti og galla sameiningar og það sem skiptir máli í þessari kosningu. Það er nauðsynlegt að fram fari krefjandi og opinská umræða um kosti og galla málsins. Á málinu eru að mínu mati bæði miklir kostir en ennfremur gallar eins og ávallt þegar um stórmál er að ræða. Hinsvegar hef ég alltaf verið jákvæður fyrir sameiningu hér við fjörðinn. Það er okkur öllum til heilla að efla fjörðinn sem eina heild og vinna saman að þeim verkefnum sem skipta eiga okkur máli á komandi árum. Sameinuð erum við auðvitað mun sterkari en sundruð. En taka verður gallana inn í myndina.

- í öðru lagi fjalla ég um þýsku þingkosningarnar sem verða eftir þrjár vikur. Eigast þar við sömu valdablokkir og jafnan áður. Ljóst er að mikil vatnaskil þurfa að eiga sér stað næstu þrjár vikurnar í þýskum stjórnmálum eigi Angelu Merkel að mistakast ætlunarverkið; að fella Schröder af valdastóli. Nú skilja rúm 10% að íhaldsmenn og krata í slagnum. Sigur Merkel er í sjónmáli. Hún talar af krafti, segir að án nýrrar stefnu og forystu sé framundan glundroði á atvinnumarkaði, gjaldþrot og uppsagnir, algjört skuldafen og jafnvel gjaldþrot ríkiskassans. Hefur hún þegar valið lykilhóp sinn með í stjórn muni flokkurinn vinna kosningarnar. Hún græðir hiklaust á beittum tóni og skýrum valkosti með mannskapi og stefnu. Hún talar það mál sem Þjóðverjar skilja. Þeir finna dapra stöðu og svikin loforð vinstristjórnarinnar á eigin stöðu. Það er því rökréttast fyrir hægrimenn að nota staðreyndir efnahagslífsins og atvinnumálin sem sinn kosningagrunn.

- í þriðja lagi fjalla ég um sumarfundi þingflokka stjórnarflokkanna í vikunni þar sem fjárlagavinnan var rædd. Fór þingflokkur okkar sjálfstæðismanna yfir mörg málefni á fundi sínum (sem haldinn var á Ísafirði) eins og ávallt þegar fjárlögin eru annars vegar og gengu eins og framsóknarmenn frá útgangspunktum frumvarpsins. Eins og venjulega er fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar aðalmál þingsins hina fyrstu daga. Strax í upphafi þingvetrar kynnir fjármálaráðherra fjárlögin, sem er eins og ávallt ítarlegt og mikið plagg að vöxtum. Er umræða um þau ávallt umfangsmikil og langdregnar, enda um margt að ræða er kemur að þessum efnum.


Pólitíska ræman
Gandhi

Á sunnudögum í sumar hef ég fjallað um kvikmyndir sem fjalla um stjórnmál með einum eða öðrum hætti. Er nú komið að þeirri síðustu sem ég nefni að sinni. Ein besta kvikmyndin sem fjallar um pólitík, lífsins baráttu fyrir bæði í senn mannlegri tilveru og hugsjónum er óskarsverðlaunamyndin Gandhi. Sannkallaður kvikmyndarisi sem greinir frá lífi og starfi Mahatma Gandhi og stjórnmálaþróuninni á Indlandi fyrir og eftir sjálfstæðisyfirlýsinguna 1948. Rakinn er ferill þessarar frelsishetju Indverja allt frá því að hann byrjar stjórnmálaþáttöku sína, fátækur lögfræðingur í Afríku, og allt þar til að hann verður alþjóðleg friðarhetja fyrir mannúðarskoðanir sínar og friðsamar mótmælaaðferðir allt þar til fullnaðarsigur vinnst. Ben Kingsley fer á kostum í hlutverki frelsishetjunnar og er ótrúlega líkur fyrirmyndinni og er einstaklega heillandi í persónusköpun sinni, hann fékk enda óskarsverðlaunin fyrir sannkallaðan leiksigur sinn, hann hefur aldrei leikið betur á ferli sínum.

Kvikmyndin hreppti alls níu óskarsverðlaun, þ.á.m. sem besta kvikmyndin og einnig fyrir einstaklega góða óskarsverðlaunaleikstjórn breska leikstjórans Richards Attenborough, fyrir hið stórkostlega handrit sem vakti mikla athygli, fyrir einstaklega vandaða búninga og stórkostlega myndatöku. Þetta er íburðarmikil og einstaklega vönduð kvikmyndaframleiðsla með mörgum mjög stórbrotnum hópsenum sem veita mikla og heillandi innsýn í merkilega tíma í lífi indversku þjóðarinnar, en líka smærri, ljóðrænni myndir sem gefa ekki síst dýrmæta og fágæta innsýn í líf hins stórmerkilega indverska kennimanns sem féll fyrir morðingjahendi 30. janúar 1948, skömmu áður en draumur hans um sjálfstætt Indland rættist loks. Stórbrotin mynd, verðið endilega að sjá hana ef þið hafið ekki gert það nú þegar.

Saga dagsins
1818 Landsbókasafn Íslands stofnað - Jón Árnason varð fyrsti landsbókavörðurinn. Landsbókasafnið og Háskólabókasafnið voru sameinuð í Þjóðarbókhlöðu Íslands við opnun hennar 1. desember 1994.
1910 Vígslubiskupar vígðir fyrsta sinni: Valdimar Briem að Skálholti og Geir Sæmundsson að Hólum.
1963 Dr. Martin Luther King flutti eftirminnilega ræðu á fjölmennum mótmælafundi í Washington.
1974 Ríkisstjórn undir forsæti Geirs Hallgrímssonar tók við völdum - stjórn Geirs sat í rúm fjögur ár.
1986 Bylgjan hóf útsendingar - varð fyrsta einkarekna útvarpsstöðin í kjölfar loka einokunar ríkisins.

Snjallyrðið
Ég vil fara... fara eitthvað
langt, langt í burt,
svo enginn geti að mér sótt,
enginn til mín spurt,
engin frétt, engin saga
eyrum mínum náð.
Ég vil aldrei troða akur,
sem aðrir hafa sáð.

Ég vil fara... fara þangað
sem ég þekki engan mann,
og engin ólög ráða,
og enginn boðorð kann -
hvíla á mjúkum mosa
við hið milda stjörnuljós,
með eilífðina eina
fyrir unnustu og vin.

Ég vil þangað, sem ég heyri
minn eigin andardrátt,
og allt er undrum vafið
og ævintýrablátt
og ég get innsta eðli mitt
eitt til vegar spurt.
Ég vil fara, fara eitthvað
langt, langt í burt.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Ég vil fara)


Engin fyrirsögn

Punktar dagsins
Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson

Eins og sést hefur á veðurfarinu undanfarna daga er farið að hausta að - óvenjusnemma vissulega en það er öllum ljóst að sumarið tekur brátt enda. Stjórnmálastarfið er víðast allt að hefjast eftir heitt sumar og ánægjuleg ferðalög víða um landið, nú eða jafnvel heiminn. Rúmur mánuður er í að þingið komi saman. Mörg mál verða þar til umræðu og við blasir að hiti verði í stjórnmálastarfi almennt vegna væntanlegra sveitarstjórnarkosninga undir lok maímánaðar á næsta ári. Þingflokkar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks funduðu í gær um málefni fjárlaga. Hittust sjálfstæðismenn á Ísafirði en framsóknarmenn funduðu í borginni. Má búast við niðurstöðu fundar sjálfstæðismanna í dag, sem hafa undanfarna daga verið fyrir vestan og farið yfir fjöldamörg mál. Þarf yfir mörg málefni að fara eins og ávallt þegar fjárlögin eru annars vegar og jafnan er gengið frá útgangspunktum frumvarpsins á þessum sumarfundum. Eins og venjulega er fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar aðalmál þingsins hina fyrstu daga. Strax í upphafi þingvetrar kynnir fjármálaráðherra fjárlögin, sem er eins og ávallt ítarlegt og mikið plagg að vöxtum. Er umræða um þau ávallt umfangsmikil og langdregnar, enda um margt að ræða er kemur að þessum efnum.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum síðasta sólarhringinn bendir flest til þess að ekki verði gert ráð fyrir breytingum á virðisaukaskatti í vinnu við fjárlögin. Ekki virðist enn vera farið að ræða breytingar á virðisaukaskattskerfinu. Eins og allir vita hafa umfangsmiklar skattalækkanir verið ákveðnar og munu þær koma til framkvæmda stig af stigi á kjörtímabilinu, eins og flokkarnir lofuðu í síðustu þingkosningum. Í stjórnarsáttmálanum er talað um að endurskoða eigi matarskattinn (virðisaukaskatt á matvæli) en hann er nú 14% og hugmyndir hafa verið eins og kunnugt er verið um að lækka hann niður í 7%. Ekkert slíkt mun vera á döfinni nú ef marka má fréttir. Fyrirfram ákveðnar og lögfestar tekjuskattslækkanir standa auðvitað en virðisaukaskattsbreytingarnar muni því bíða betri tíma. Eins og fram kom í fréttum í gær er gengi krónunnar hátt; víða skortur á vinnuafli, laun hækka og kaupmáttur jafnframt, aldrei hefur jafnmikið verið flutt inn af neysluvöru og á fyrri helmingi þessa árs. Allt veldur þetta þenslu og flestir efnahagssérfræðingar landsins hafa í fjölmiðlum opinberað ótta sinn við verðbólguskot á næsta ári og jafnvel hraða og mikla lækkun á genginu. Því sé ekki rétt að huga að breytingum á kerfinu nú.

Tek ég undir raddir þeirra sem svo tala. Fyrirfram ákveðnar skattalækkanir sem gera ráð fyrir 4% lækkun tekjuskatts einstaklinga, afnám eignarskatts á einstaklinga og fyrirtæki og hækkun barnabóta um 2,4 milljarða króna eru gleðilegur áfangi sem lengi verður í minnum hafður. Þetta var sögulegur áfangi sem við öll munum njóta ríkulega á næstu árum. Heildaráhrif þessara aðgerða á afkomu ríkissjóðs eru metin til rúmlega 22 milljarða króna að teknu tilliti til veltuáhrifa sem einkum falla til á árunum 2006 og 2007. Um var að ræða mikið fagnaðarefni fyrir okkur ungt sjálfstæðisfólk sem höfum barist seinustu ár fyrir lækkun skatta. Voru með þessu frumvarpi stigin í senn bæði ánægjuleg og gagnleg skref til hagsbóta fyrir landsmenn, einkum hinn vinnandi mann. Rétt er að staldra við að svo stöddu - en það blasir þó við að breytingar á virðisaukaskattskerfinu er verkefni sem kemur brátt til framkvæmda. Það er verkefni sem huga þarf að fyrir lok kjörtímabilsins og vinna að með krafti.

Alfreð Þorsteinsson og Anna Kristinsdóttir

Eins og allir vita er R-listinn dauður. Í gærkvöldi skrifuðu framsóknarmenn undir dánarvottorð R-listans með því að lýsa yfir sérframboði sínu í Reykjavík fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar á flokksfundi sínum. Undanfarna daga hafa sögulega tengdir menn R-listanum minnst hins látna (R-listans) og farið yfir það sem eftir hann standi. Frekar er það rytjulegur samtíningur og fátt sem eftir stendur nema orðin vesen og vandræði. Blasir við að framsóknarmenn stefni að prófkjöri til að velja lista sinn. Á fundinum í gærkvöldi lýsti Alfreð Þorsteinsson forseti borgarstjórnar og leiðtogi Framsóknarflokksins innan R-listasamstarfsins, allt frá árinu 2002, yfir framboði til fyrsta sætis á framboðslista flokksins fyrir kosningarnar næsta vor. Hann hefur verið ötull talsmaður R-listans og reyndi allt til að tryggja áframhaldandi framboð hans að þessu sinni, án nokkurs árangurs. Alfreð er sennilega síðasti stórlax borgarmálapólitíkur gamla hluta framsóknarmanna í borginni. Hann varð borgarfulltrúi flokksins á áttunda áratugnum, dró sig svo í hlé og kom aftur inn við stofnun R-listans árið 1994 og hefur verið borgarfulltrúi listans allan valdaferil hans. Það hafa margir deilt á störf hans undanfarin þrenn kjörtímabil, en hann hefur setið eins og allir vita í öndvegi í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur í nafni stjórnmálaflokkanna sem að R-listanum standa.

Nú stefnir allt í að Alfreð fái mótframboð til leiðtogastöðunnar. Eins og fram kom í fréttum í gær skora nú margir framsóknarmenn á Önnu Kristinsdóttur um að gefa kost á sér til þess sætis. Anna er dóttir Kristins Finnbogasonar, sem var einn helsti fjármálastjórnandi flokksins til fjölda ára og bankaráðsmaður flokksins í Landsbankanum allt til dauðadags árið 1991. Anna varð borgarfulltrúi R-listans árið 2002 og leysti þá af hólmi Sigrúnu Magnúsdóttur sem leitt hafði framsóknarmenn allt frá árinu 1982. Þá varð Alfreð leiðtogi framsóknarmanna. Þó munaði aðeins um 20 atkvæðum að Alfreð hefði orðið undir og tapað fyrir nýliðanum Önnu. Nú stefnir í harðan slag um leiðtogastöðuna. Margir eiga harma að hefna í garð Alfreðs og hyggja á leiðtogaskipti og skapa flokknum nýja ásýnd. Alfreð hikaði ekki um daginn í viðtali og sagði bara þeim sem væri á móti sér að leggja í sig, án þess að hika. Flest stefnir í að svo fari. Ennfremur er rætt um aðra kandidata og nöfn Björns Inga Hrafnssonar og Marsibilar Sæmundardóttur heyrast nefnd. Bæði eru þau af yngri kynslóðinni. Alfreð er af mörgum talinn tákn liðinna tíma. Hann ætlar þó ekki að fara sjálfviljugur og stefnir því í átök milli fylkinga sem lengi hafa barist innan borgarmálahóps flokksins um völdin.

Styttan af Helga magra og Þórunni hyrnu

Framkvæmdir eru fyrir löngu komnar á fullt við byggingu nýs leikskóla hér í hverfinu. Er hann hér ofar í götunni á lóðinni milli Þórunnarstrætis og Helgamagrastrætis, þar sem gamli gæsluvöllurinn var. Hefur verið ánægjulegt að fylgjast með framkvæmdununum, en byggingin tekur á sig mynd með hverjum deginum og gengur mjög vel að byggja leikskólann. Margar minningar tengjast þessu svæði en ég var á gæsluvellinum sem var þarna á svæðinu í ein þrjú ár, eða á meðan fjölskyldan átti heima hér ofar í götunni, að Þórunnarstræti 118. Það var gaman þar að vera og ég kynntist mörgum góðum félögum fyrstu árin mín þar. Það er ánægjulegt (og hið eina rétta) að leikskóli fyrir þetta öfluga og góða hverfi rísi á þessum stað. Og nú hefur leikskólinn loks fengið nafn. Á fundi skólanefndar Akureyrar í vikunni var samþykkt tillaga frá Brynhildi Þórarinsdóttur þess efnis að leikskólinn við Helgamagrastræti fái nafnið Hólmasól. Er leikskólinn nefndur í höfuðið á Þorbjörgu hólmasól, sem var fyrsta barnið sem fæddist í Eyjafirði eftir því sem Landnáma segir frá. Þorbjörg hólmasól var dóttir Helga magra og Þórunnar hyrnu. Leikskólinn stendur auðvitað við götur sem nefndar eru eftir þeim og styttan fræga af landnámshjónunum er hér á klöppunum hér fyrir neðan. Lýsi ég yfir mikilli ánægju minni með þetta nafn - það er glæsilegt og mjög viðeigandi.

Bílar í miðbænum

Frá og með deginum í dag verður stýring á nýtingu á bílastæðum hér í miðbænum á Akureyri með bifreiðastæðaklukkum í stað stöðumæla. Þegar lagt verður í bílastæðin í miðbænum er skylt að hafa bifreiðastæðaklukku á mælaborðinu sem sýnir hvenær bílnum var lagt í stæðið. Með þessum þáttaskilum heyra stöðumælar að öllu leyti sögunni til hér á Akureyri - en starfsmenn bæjarins unnu í gær við að taka þá niður. Mun heimiluð tímalengd á gjaldfrjálsa stöðu bíls í klukkustæði verða mismunandi eftir svæðum, allt frá 15 mínútum upp í eina eða tveir klukkustundir. Auk þess verður fjöldi fastleigustæða aukinn verulega. Klukkurnar eru vandaðar að allri gerð. Þær eru einskonar umslag með klukkuskífu innan í. Ofan á "umslaginu" stendur skífan út úr því til að hægt sé að stilla hana. Í "glugga" á "umslaginu" sjást tölurnar á skífunni. Mikilvægt er að klukkan sé stillt á þann tíma sem bílnum er lagt í stæðið. Á bakhlið klukkunnar er kort af miðbænum sem sýnir hvar klukkustæðin eru og þá tímalengd sem heimilt er að leggja þar án gjalds og auk þess leiðbeiningar um notkun klukkunnar. Stöðuverðir munu eftir sem áður hafa eftirlit með því að bílum sé ekki lagt lengur en heimilt er í viðkomandi bílastæði. Þetta er jákvætt og gott skref sem stigið er með þessu - öll fögnum við því að stöðumælarnir fari.

Akureyrarvaka

Um helgina mun menningarlífið á Akureyri blómstra - eins og ávallt er menningarhátíð bæjarins, Akureyrarvaka, haldin þessa seinustu helgi ágústmánaðar. Hún hefst formlega í Lystigarðinum í kvöld með ávarpi Þóru Ákadóttur forseta bæjarstjórnar. Veitt verða verðlaun fyrir fallegustu garðana, Lystigarðurinn verður upplýstur og fjölbreytt dagskrá víðsvegar um garðinn. Sönghópurinn Hymnodia mun flytja lög við ljóð Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi. Það er jafnan notaleg og rómantísk stemmning í garðinum þetta kvöld í sumarrökkrinu. Á morgun verður svo menningardagskrá um bæinn allan og skemmtileg stemmning í miðbænum. Til dæmis verður nýbygging Brekkuskóla vígð á morgun við hátíðlega athöfn. Hvet ég alla til að kynna sér vel dagskrá Akureyrarvöku. Akureyrarvakan er frábært framtak sem komið er til að vera - óviðjafnanlegur óður til menningar í bænum. Því miður þarf ég að vera fjarri þessa helgi, í fyrsta sinn frá upphafi hennar. Mín bíður skemmtileg helgi hinsvegar á höfuðborgarsvæðinu. Vona ég að aðrir Akureyringar njóti menningar og skemmtilegrar hátíðar um helgina.

Snjallyrðið
Ef ég sé fjöll í fjarlægð blána,
þá finn ég alltaf sömu þrána.
Á ljóðsins vængjum á loft ég fer,
og leita og skyggnist eftir þér.

Ég heyrði í svefni söng þinn hljóma.
Ég sá þig reika milli blóma.
Í bjarmadýrð þú birtist mér,
með brúðarkrans á höfði þér.

Þá lést þú sól á lönd mín skína
og lyftir undir vængi mína.
Svo hvarfst þú bak við fjarlæg fjöll
sem feykti blærinn hvítri mjöll.

En síðan reyni ég söngva þína
að seiða í hörpustrengi mína.
Í hljómum þeim á hjartað skjól
og heima bak við mána og sól.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Brúður söngvarans)


Engin fyrirsögn

Punktar dagsins
Loftmynd af Eyjafirði

Kosið verður um sameiningu níu sveitarfélaga hér í Eyjafirði eftir tæpa tvo mánuði, laugardaginn 8. október nk. Er utankjörfundarkosning þegar hafin. Er umræða um sameininguna og málefni tengd henni að hefjast nú af krafti og má búast við spennandi rökræðum um kosti og galla sameiningar. Reyndar hefur að undanförnu blandast í þá umræðu málefni hitaveitu í Ólafsfirði. Seinustu mánuði hefur samstarfsnefnd sveitarfélaganna, sem í sitja tveir fulltrúar hvers sveitarfélags, unnið að gerð málefnaskrár sem kynnt verður íbúum Eyjafjarðarsvæðisins í aðdraganda kosninganna. Komið var á fót vinnuhópum til að vinna skýrslu um framtíðina innan nýs sveitarfélags, yrði sameining samþykkt. Vinnuhóparnir voru fjórir talsins: stjórnsýsluhópur, skólahópur, fjölskylduhópur og skipulagshópur. Hóparnir skiluðu tillögum sínum í júlí og síðan hefur stýrihópur unnið eftir vinnudrögum og mótað málefnaskrá sem nú hefur verið kynnt opinberlega á heimasíðu samstarfsnefndarinnar um sameiningu í Eyjafirði. Er stefnt að kynningarfundum í september í öllum sveitarfélögunum níu og ennfremur gefinn út ítarlegur kynningarbæklingur um málið. Hef ég kynnt mér vel tillögur vinnuhópanna í þeim fjórum málaflokkum sem lagt var upp með. Er það að mörgu leyti mjög athyglisverð lesning.

Í tillögum stjórnsýsluhópsins er lagt til að sveitarstjórn í nýju sveitarfélagi verði skipuð 15 bæjarfulltrúum. Það er leyfilegur hámarksfjöldi fyrir sveitarfélag af þessari stærð. Lagt er til að stjórnsýslan grundvallist á þremur fagsviðum; stjórnsýslu- og fjármálasviði, skóla- og félagssviði ásamt tækni- og umhverfissviði. Lagt er til að nefndir og ráð sveitarfélagsins verði skipaðar fimm aðal- og varamönnum. Lagt er til að umfangsmestu nefndirnar skuli aðeins skipaðar aðalmönnum í sveitarstjórn og er hér átt við bæjarráð sem jafnframt er framkvæmdaráð, stjórn fasteigna sveitarfélagsins, umhverfisráð, skólanefnd, stjórnsýslunefnd og félagsmálaráð. Formenn allra fastanefnda verða aðalmenn í sveitarstjórn. Leggur nefndin til að ný bæjarstjórn og nefndir starfi eins og bæjarkerfið hér á Akureyri, þannig að nefndir hafi heimild til fullnaðarákvörðunar. Ennfremur munu verða starfandi í sveitarfélaginu hverfanefndir undir titlinum samráðsnefndir í gömlu sveitarfélögunum. Uppi eru tvær hugmyndir um samráðsnefndir. Sú fyrri að á fyrsta kjörtímabili verði eldri sveitarstjórnir í hlutverki samstarfsnefnda. Sú seinni gerir ráð fyrir fimm manna samráðsnefndum sem kjörnar eru á almennum íbúafundi. Þær nefndir verði ópólitískar og án tengsla við stjórnmálaflokka eða framboð.

Vinnuhópur um skólamál er sammála um að leggja til að allir grunnskólar á Eyjafjarðarsvæðinu verði reknir áfram, verði sveitarfélögin sameinuð í haust. Hópurinn bendir þó á að ekki sé hægt að binda hendur sveitarstjórna í þessum efnum. Þetta er merkileg yfirlýsing. Er ég sammála því að til staðar verði að vera skólar í öllum þéttbýlisstöðunum en svo verður að ráðast með hina minni að mínu mati. Eins og við þekkjum hvað varðar Húsabakkaskóla í Svarfaðardal er erfitt að lofa hvort hægt sé að reka alla skóla óbreytta eftir sameiningu. Það verður auðvitað að ráðast af hagkvæmni og skynsömum forsendum umfram allt. Eins og allir þekkja af deilunum í Dalvíkurbyggð vegna Húsabakkaskóla er þetta og verður ávallt viðkvæmt mál. En í skólamálakaflanum er farið ítarlega yfir allan grunn skólamála hér í firðinum og hvet ég fólk til að lesa hann. Í fjölskyldumálakaflanum er farið ítarlega yfir málaflokkinn og kynntar þar margar spennandi tillögur. Að lokum er það svo skipulagshópurinn þar sem spennandi stefna í skipulagsmálum er kynnt. Hvet ég lesendur til að lesa skýrslur vinnuhópanna og taka svo afstöðu til málanna eftir að kynna sér stöðuna og rökræða svo um kosti og galla hugmyndanna.

Skýrsla stjórnsýsluhóps
Skýrsla skólahóps
Skýrsla fjölskylduhóps
Skýrsla skipulagshóps

George W. Bush forseti

George W. Bush forseti Bandaríkjanna, er enn í sumarfríi á búgarði sínum að Crawford í Texas og hefur verið þar nærri allan mánuðinn. Bandarísku spjallþáttastjórnendurnir þreytast ekki á að koma með brandara um fimm vikna langt sumarleyfi hans. Þrátt fyrir að hann slappi af og hafi það rólegt á heimaslóðum hefur hann ekki getað komist hjá því að taka eftir þeim sem hafa fylgt honum nær alla leiðina í fríið. Ein helsta fréttin í bandarískum fjölmiðlum seinustu vikurnar hefur nefnilega verið miðaldra húsmóðir í tjaldferðalagi í Crawford. Þeir sem ekki þekkja til aðstæðna undra sig sjálfsagt á því hvernig svo megi vera. Jú, ferðalagið er engin skemmtiferð og húsmóðirin er ekki að tjalda sér til ánægju. Cindy Sheehan tæplega fimmtug kona tjaldaði til að heimta þess að fá að hitta Bush og spyrja hann um málefni bandaríska hersins í Írak. Sonur hennar féll í átökunum þar í fyrra og hún heimtar þess að fá að hitta hann augliti til auglitis og hann svari spurningunni hversvegna sonur hennar var sendur þangað til að deyja. Bush hefur neitað að hitta hana, hefur reyndar hitt hana einu sinni og rætt við hana um mál. Stephen Hadley þjóðaröryggisráðgjafi, hefur farið og rætt við Cindy en hún haggast ekki og vill hitta Bush.

Þetta er heitasta málið vestanhafs. Þó að Cindy hafi orðið að yfirgefa Crawford um helgina vegna veikinda móður sinnar heldur mótmælastaðan áfram í Texas, Bush og samstarfsmönnum hans til nokkurrar gremju. Um er nefnilega að ræða stigvaxandi mál í fjölmiðlunum. Og ekki batnar það að umfangi. Fríið fer reyndar að verða búið og hætt við að þetta fjari út. Bush er reyndar staddur nú í Idaho í stuttu leyfi til ríkisstjórans þar. Hann tjáði sig þar um málið í gær. Sagðist hann skilja afstöðu Cindy og vilja hennar til að ræða þessi mál. Hinsvegar neitaði hann því að hún væri dæmigerður fulltrúi þeirra sem hefðu misst börn sín í Írak. Hún væri í baráttu á eigin vegum en ekki hóps sem slíks. Fleiri notuðu tækifærið. Ein þekktasta þjóðlagasöngkona heims, baráttukonan heimsfræga gegn Víetnamsstríðinu, sjálf Joan Baez, fór til Texas á sunnudag og söng fyrir mótmælendur og hvatti þá áfram. Það að Bush tjái sig um málið í Idaho segir margt. Eflaust er hann orðinn dauðleiður á þeim sem eltu hann í fríið og reynir að tjá þá gremju með vægum hætti. Hinsvegar er auðvitað óneitanlega skondið að miðaldra kona í tjaldi fyrir utan búgarð forseta Bandaríkjanna sé aðalfréttaefnið vestanhafs.

Dr. Angela Merkel

Í gær fjallaði ég ítarlega um þýsku þingkosningarnar sem framundan eru. Eins og vel kom fram í þeim skrifum er kosningabaráttan hörð og spennandi þrátt fyrir að allar fylgistölur segi pólitískum áhugamönnum að spennan um úrslit þeirra sé ekki til staðar. Reyndar hefur nú forskot hægriblokkarinnar aukist og í dag munar fimmtán prósentustigum á CDU og SPD. Það er því engin furða að harka sé uppi og kanslarinn reyni allt sem hann getur til að halda sér inni í slagnum. Nú hefur reyndar skotið upp merkilegt deilumál í kosningaslagnum. Reyndar snýst það hvorki um stefnu eða persónur kanslaraefnanna. Deilt er um hið sígilda dægurlag Rolling Stones, Angie, sem allir þekkja fram og til baka. CDU hefur notað lagið sem kosningaþema á fjöldafundum og spilað þegar að kanslaraefnið Dr. Angela Merkel er kynnt. Við þetta er rokkbandið ekki sátt og þaðan af síður söngvari sveitarinnar, eilífðarpoppgoðið Mick Jagger. CDU neitar að taka lagið úr umferð og bíður því heim hættunni á kæru vegna notkunar lagsins með þessum hætti. En þetta er óneitanlega skondið mál burtséð frá stöðu baráttunnar. Reyndar þarf eins og fyrr segir mjög mikil vatnaskil að eiga sér stað til að koma í veg fyrir að Angie hinna kristilegu demókrata verði fyrsti kvenkyns kanslari Þjóðverja.

George Peppard og Audrey Hepburn í Breakfast at Tiffany's

Þokkagyðjan Audrey Hepburn var ein glæsilegasta leikkona 20. aldarinnar. Glæsileiki hennar kom vel fram í fjölda ógleymanlegra kvikmynda. Að mínu mati er hennar besta mynd hin óviðjafnanlega Breakfast at Tiffany's frá árinu 1961. Þar er rakin saga lífsnautnakonunnar Holly Golightly sem lifir lífinu svo sannarlega hátt í borg borganna, New York. Þegar rithöfundurinn Paul Varjak flyst í sama íbúðarhúsið og Holly laðast hún að honum. En þegar Paul tekur að kynnast hinni svokölluðu gleðidrottningu kemst hann að því að saga hennar er fjarri því himnasæla heldur hefur hún átt við mikla erfiðleika að stríða í lífinu og á sér talsverða fortíð. Þessi mynd er enn í dag ein besta heimild um þann tíðaranda sem hún lýsir. Audrey var í toppformi í þessari mynd, var aldrei betri og glæsilegri en í þessu hlutverki. Hún er mjög heillandi í túlkun sinni og nær að túlka gleði og sorgir Hollyar með bravúr. George Peppard á einnig glæsilegan leik í hlutverki Pauls. Buddy Ebsen var aldrei betri en í hinni lágstemmdu túlkun sinni á Doc Golightly, og með innkomu hans komumst við að leyndarmálum Hollyar. Rúsínan í pylsuendanum í myndinni er besta kvikmyndalag 20. aldarinnar, hið undurfagra Moon River eftir Henry Mancini sem sló í gegn á sínum tíma. Þessi kvikmynd er sígilt meistaraverk og er alltaf sannur gleðigjafi - hana verða allir sannir kvikmyndaunnendur að sjá.

ISG og Össur í kosningaslagnum

Að lokum er ekki hægt að sleppa því að fjalla um það að nú hefur Ingibjörg Sólrún birt reikninga sína vegna formannskjörsins í Samfylkingunni fyrr á þessu ári. Ingibjörg Sólrún greiddi tvöfalt meira fyrir kosningabaráttu sína en mótframbjóðandi hennar og forveri á formannsstóli, Össur Skarphéðinsson. Kosningabarátta ISG kostaði tæpar 5,3 milljónir króna, framlögin voru svipað há. Eftir stóðu í bókhaldinu 70.000 krónur í plús. Merkilegast af öllu er að ekkert framlaganna er hærra en 499.000 kr. Það er ekki hægt annað en að hlæja að þessum hámarksupphæðum á vegum Samfylkingarinnar, enda er nákvæmlega engin trygging fyrir því að fólk borgi ekki oftar en einu sinni slíka upphæð. Þessi vinnubrögð þeirra eru efni í marga brandara. Hver man ekki eftir siðareglunum frægu nú eða opna bókhaldinu? Bæði virðist hafa horfið eins og dögg fyrir sólu. Skrifaði ég pistil á vef Heimdallar um þau mál, sem ég bendi lesendum á.

Saga dagsins
1903 Ríkið keypti jarðirnar Hallormsstað í S-Múlasýslu og Vaglir í S-Þingeyjarsýslu, til skógarfriðunar og skógargræðslu. Þar eru nú ræktarlegustu skógar á landinu: Hallormsstaðaskógur og Vaglaskógur.
1906 Símskeytasamband við útlönd hefst með formlegum hætti - fyrsti sæsíminn var um 534 sjómílur.
1968 Norræna húsið í Reykjavík vígt við hátíðlega athöfn - arkitekt hússins var Finninn Alvar Aalto.
2001 Helgi Símonarson frá Þverá í Svarfaðardal, lést, 105 ára að aldri - Helgi varð elstur allra manna.
2004 Bill Clinton fyrrum forseti Bandaríkjanna, kom til Íslands ásamt eiginkonu sinni Hillary Rodham Clinton. Var þetta fyrsta heimsókn núverandi eða fyrrum þjóðarleiðtoga Bandaríkjanna í átján ár, en Ronald Reagan kom á leiðtogafund stórveldanna í Reykjavík í október 1986. Fóru Clinton-hjónin víða: t.d. í heimsókn á heimili Davíðs Oddssonar forsætisráðherra, héldu að Lögbergi að Þingvöllum og fóru í miðborg Reykjavíkur að styttu Jóns forseta. Frægt varð að Clinton fékk sér pylsu á Bæjarins bestu. Clinton, sem þekktur er fyrir alþýðleika, lét ráðleggingar lífvarða sinna lönd og leið er hann fór í verslanir, heilsaði upp á fólk í miðbænum og tók t.d. í hendur fjöldamargra og heilsaði börnum.

Snjallyrðið
Langt inn í skóginn leitar hindin særð
og leynist þar, sem enginn hjörtur býr,
en yfir hana færist fró og værð.
Svo fjarar lífið út.

Ó, kviku dýr,
reikið þið hægt, er rökkva tekur að
og rjúfið ekki heilög skógarvé,
því lítil hind, sem fann sér felustað
vill fá að deyja ein á bak við tré.
Um blóð, sem fyrr var bæði ungt og heitt,
mun bleikur mosinn engum segja neitt.

En þú, sem veist og þekkir allra mein,
og þú, sem gefur öllum lausan taum,
lát fölnað laufið falla af hverri grein
og fela þennan hvíta skógardraum.

Er fuglar hefja flug og morgunsöng
og fagna því, að ljómar dagur nýr,
þá koma öll hin ungu, þyrstu dýr
að uppsprettunnar silfurtæru lind -

- öll, nema þessi eina, hvíta hind.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Skógarhindin)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband