Færsluflokkur: Bloggar

In Memoriam



Aðgát skal höfð í nærveru sálar

Hafði ekki hugsað mér að skrifa um dóminn í máli foreldra mannsins sem lést í hörmulegu umferðarslysi á gatnamótum Drottningarbrautar og Þórunnarstrætis hér á Akureyri fyrir nokkrum árum enda finnst mér fréttin tala sínu máli. Þó verð ég að gera það. Skrif sumra sem fréttablogga um þessa frétt eru svo dapurleg að ekki er hægt annað en bera fram þá ósk að lokað verði á þennan möguleika.

Finnst það mjög sorglegt að sumir hér noti tækifærið til að vega að foreldrunum með ómerkilegum skrifum. Þetta er mál sem snertir viðkvæma strengi og betra er að fólk hugsi aðeins áður en skrifað er eitthvað sem betur væri sleppt. Finnst það ómerkilegt þegar að fólk notar nafnleynd til að vega að öðru fólki með þessum hætti og er eiginlega hissa að ekki sé klippt á þá tengingu, enda er þetta mál viðkvæmt.

Flestir hér á Akureyri vita hversu alvarlegt þetta slys var og hversu margir eiga um sárt að binda vegna þess og því finnst mér eðlilegt að velta því fyrir mér hvaða tilgangi skrif sumra um þetta mál þjóni. Eitt er að hugsa ómerkilega hluti um dapurlegt mál en annað er að segja þá. Finnst þetta þessu bloggsamfélagi ekki til sóma.

mbl.is Greiði bætur vegna banaslyss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimkoma í norðlenskri kvöldsól

Ég var að koma heim eftir góða helgi í Reykjavík. Vissulega er alltaf gott að fara til Reykjavíkur, en miklu skemmtilegra er þó auðvitað að koma heim. Veðrið var notalegt og gott í fluginu á heimleiðinni - falleg kvöldsól blasti við yfir Akureyri þegar að flogið var yfir bænum. Sumardagurinn fyrsti er á fimmtudaginn og vonandi er sumarið sannarlega komið eftir risjótta tíð á þessum vetri, þó við höfum reyndar verið mun heppnari með veturinn en þeir fyrir sunnan.

Bílslys og myndbirtingar

Það er dapurlegt að heyra af enn einu bílslysinu, nú á Eyrarbakkavegi. Það sem mér finnst jafnan einna sorglegast við fréttir af svo dapurlegum slysum er að sjá sjálfan vettvang slyssins í fjölmiðlum; myndir af bílflökum og aðrar þær sorglegu aðstæður sem þar jafnan birtast. Strax núna hefur birst slík mynd hér á Netmogganum. Finnst þetta með því sorglegra.

Myndbirtingar af vettvangi umferðarslyss þjónar mjög litlum tilgangi, hef aldrei talið það skipta miklu máli að sýna bílflökin. Kannski er það ábending til annarra að svona geti farið í umferðinni, en fyrir þá sem tengjast þeim sem slasast eða láta lífið í umferðarslysi er þetta særandi myndræn umgjörð um mikinn harmleik.

Veit ekki hvort það er einhver algild regla hjá fjölmiðlum í þessum efnum. Sumir fjölmiðlar eru þó meira áberandi í þessu en aðrir eflaust. Hef séð hjá þeim sumum að þeir birta aðeins staðsetningu slyssins á korti. Það er ágætis nálgun á það finnst mér.

Finnst þetta algjör óþarfi, enda getur aðkoma að svona slysum verið virkilega sjokkerandi og vandséð hvaða erindi þær fréttamyndir eigi í fjölmiðla.

mbl.is Alvarlegt umferðarslys
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svipmynd af kjarnakonunni Ólöfu Pétursdóttur

Horfði í kvöld á minningarþátt um kjarnakonuna Ólöfu Pétursdóttur, dómara, í Sjálfstæðu fólki hjá Jóni Ársæli. Brugðið var upp heilsteyptri svipmynd af því hvernig hún lifði með þeim örlögum að lamast frá hálsi í slysi fyrir einu og hálfu ári. Hafði Jón Ársæll unnið lengi að gerð þáttarins og ákveðið var að sýna þáttinn með leyfi fjölskyldu Ólafar, en hún lést fyrir tæpum mánuði.

Þessi þáttur var mikil upplifun. Það er mikið áfall að þurfa að berjast fyrir því einu að geta hreyft höfuðið og þurfa að byggja líf sitt upp frá grunni. Fannst mér aðdáunarvert af hve miklu æðruleysi Ólöf tók örlögum sínum í skugga mikillar lömunar. Hugprýðin sem einkenndi allt fas hennar við þessa aðstæður ætti að verða lærdómur fyrir alla sem sjá þáttinn.

Í veikindum Ólafar sást persónulegur styrkleiki hennar mjög vel. Það eru þung örlög að vera dæmd til vistar í hjólastól og þurfa að læra að lifa lífinu með öðrum hætti og vita að hver andardráttur getur verið erfiður - hver áskorun verður svo mikil í þeim aðstæðum.

Það er langt síðan að einn þáttur hefur snert mig meira. Viðhorf Ólafar og persónulegur styrkur í erfiðum veikindum er aðdáunarverður. Vil þakka Jóni Ársæli fyrir að færa okkur þessa fallegu svipmynd af kjarnakonu og hetju, sem lést langt fyrir aldur fram.

Blessuð sé minning Ólafar.


Ólafur Ragnarsson látinn

Ólafur Ragnarsson Ólafur Ragnarsson, bókaútgefandi, er látinn, langt um aldur fram. Það eru aðeins nokkrar vikur síðan að ég las síðustu bókina hans með síðustu óbirtu samtölunum við Halldór Kiljan Laxness. Þrátt fyrir erfið veikindi náði Ólafur að klára bókina sem var vandaður lokahluti á löngu samstarfi þeirra og skrifum Ólafs um skáldið. Bókin bar vitni vönduðu handbragði Ólafs.

Ólafur stóð sig mjög vel sem útgefandi verka Nóbelsskáldsins undir lok ævi hans. Keypti ég Laxness-bækurnar þegar að þær voru endurútgefnar af Vöku Helgafell - það var mikil upplifun að lesa bækurnar en sumar hafði ég aldrei lesið og það var mjög notalegt að eignast safnið. Mér fannst fyrst og fremst mikill metnaður einkenna allt starf Vöku Helgafells og Ólafur var einn af þessum bókaútgefendum sem lögðu sig allan fram í það sem hann gerði og verk þess báru þess merki.

Sem einn af fyrstu fréttamönnum Ríkissjónvarpsins gerði Ólafur marga skemmtilega þætti og tók eftirminnileg viðtöl. Er í fersku minni einkum viðtalið við Roger Moore, sem þá lék dýrlinginn Simon Templar og síðar njósnarann James Bond, sem ég á einhversstaðar á myndbandi og finnst alltaf svo skemmtilegt. Þættir hans um Íslendingaslóðir í Kanada á miðjum áttunda áratugnum eru sérlega eftirminnilegir en þar var farið um íslendingabyggðirnar og talað við fólk og rifjuð upp saga vesturferðanna með mjög eftirminnilegum hætti. Sá þessa þætti þegar að þeir voru endursýndir í upphafi tíunda áratugarins og fannst þeir alveg frábærir.

Það er vonandi að Sjónvarpið heiðri minningu Ólafs, sem eins fyrsta fréttamanns síns, með því að endursýna eitthvað efni sem hann gerði eða taki saman í einhvern pakka skemmtileg viðtöl eða umfjöllun um verk hans hjá stofnuninni. Enda eru þar mörg merkileg viðtöl og eftirminnilegir þættir sem væri gaman að sjá allavega eitthvað brot af. Sérlega væri gaman að sjá þættina hans Ólafs um Íslendingabyggðir vestra að nýju.

Sem bókahöfundur var Ólafur vandvirkur. Ævisaga hans um dr. Gunnar Thoroddsen, fyrrum forsætisráðherra og borgarstjóra, er virkilega vel gerð og skemmtileg lestrar. Uppbygging hennar er sérlega góð og flakkað á milli tíma með Gunnari, sem var á hápunkti ferils síns sem forsætisráðherra er hún var skrifuð. Bækur Ólafs um Halldór Laxness eru auðvitað meistaraverk.

Ég vil votta fjölskyldu Ólafs innilega samúð mína.

Hetjur samfélagsins

Fátt reynir meira á styrk hverrar manneskju en að þurfa að berjast við grimm örlög og þurfa vegna veikinda sinna að vera vistuð á heilbrigðisstofnunum. Lífsbaráttan er sú sem er hverri manneskju mikilvægust og þá reynir á úr hverju fólk er gert. Sjálfur hef ég á ævi minni hitt fjölda fólks sem hefur lagt í erfiða veikindabaráttu og með aðdáunarverðum hætti sýnt úr hverju það er gert. Styrkst við hverja raun.

Ólöf Pétursdóttir er dæmi um hetju af þessu tagi. Það er dapurlegt að lesa um örlög hennar, en í þeim veikindum hefur styrkleiki hennar sést svo vel. Það eru þung örlög að vera dæmd til vistar í hjólastól og þurfa að læra að lifa lífinu með öðrum hætti og vita að hver andardráttur getur verið erfiður og hver áskorun verður svo mikil í þeim aðstæðum.

Sjálfur hef ég kynnst fólki sem hefur lent í veikindum af þessu tagi og aðdáunarvert að sjá hvernig það hefur endurbyggt sig og verið fyrirmynd annarra sem vita að lífið er ekki einn dans á rósum. Hugur minn er hjá öllum þeim sem þurfa að berjast við veikindi af þessu tagi. Þetta eru mestu hetjurnar.

Ég vil votta fjölskyldu Ólafar Pétursdóttur innilega samúð mína. Þar fer sannkölluð íslensk kjarnakona, langt um aldur fram.


mbl.is Ólöf Pétursdóttir látin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innilegar samúðarkveðjur

Minningarkross Ég vil votta fjölskyldu og vinum mannsins sem lést í umferðarslysinu á Kringlumýrarbraut í kvöld innilega samúð mína. Það er alltaf sorglegt að heyra af því þegar að ungt og efnilegt fólk lætur lífið í umferðarslysi. Ekkert er dapurlegra en slíkar sorgarfregnir.

Það hafa alltof margir látið lífið í umferðinni á síðustu árum. Þjóðarvakning varð í þessum efnum hið sorglega ár 2006 í umferðinni hérlendis. Vonandi mun áfram verða rætt um þau mál og leitað leiða til að reyna að koma í veg fyrir dapurleg slys.

Umferðarslys og myndbirtingar

Það er skelfilegt að heyra af þessu umferðarslysi í Hafnarfirði. Það er alltaf sama sjokkið að lesa svona fréttir. Vonandi munu allir ná sér að fullu eftir þetta slys.

Það er gott að ekki sé birt mynd af vettvangi með þessari frétt. Ætla að vona að Netmogginn fari að hætta þessum viðkvæmu myndbirtingum sem oftar en ekki eru sem þungt högg fyrir aðstandendur, en þess eru dæmi að fólk hafi séð í gegnum slíkar myndbirtingar að ættingjar þeirra hafi lent í slysinu sem fjallað er um.

Hef skrifað nokkuð um þetta og fundist það mikilvægt. Mér finnst eitt að birta mynd af slysstaðnum ef til eru fyrir slysið eða þá að gera eins og sést með þessari frétt, þar sem mynd er birt sem getur sýnt lögregluljós og verið almenns eðlis en sýnir ekki aðstæður í nærmynd.

mbl.is Alvarlegt umferðarslys í Hafnarfirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Átakanlegur þáttur - ákall eftir upplýsingum

Foreldrar Kristins VeigarsÞað var átakanlegt að horfa á fréttaskýringarþáttinn Kompás á Stöð 2 í kvöld, en þar var fjallað um lát Kristins Veigars Sigurðssonar, fjögurra ára drengs í Reykjanesbæ, sem keyrt var á í nóvemberlok. Þetta er mjög dapurlegt mál og það tók á að hlusta á frásögn foreldra drengsins, sem hafa gengið í gegnum svo margt og þurfa að horfast í augu við að málið er ekki upplýst enn.

Eðlilega kalla þau eftir upplýsingum og aðstoð við að upplýsa málið. Það eru tímamót að íslenskur þáttur sé sýndur með pólskum texta. En það er eðlilegt í ljósi þess að sá sem grunaður er í málinu er pólskur og nánasta samfélag hans í Reykjanesbæ er pólskt. Það þarf að ná til þessa fólks og vonandi mun takast að leiða fram óyggjandi sönnunargögn sem svara spurningunni um það hver hafi keyrt á drenginn og verið svo kaldrifjaður að stinga af frá vettvangi.

Þetta mál verður sem mara yfir samfélaginu í Reykjanesbæ, einkum fjölskyldu drengsins, meðan að ekki hefur verið svarað lykilspurningum málsins. Þetta er mikill fjölskylduharmleikur og þessi saga er sorgleg. Það var ágætt að fá þessa upprifjun á málinu og heyra í foreldrunum, sem sjálf kölluðu eftir þessar umfjöllun og að umræðan um málið yrði opinberuð með þeirra hætti. Það er eðlilegt og rétt, þó frásögnin taki á.

Ég vil enn og aftur votta fjölskyldu Kristins Veigars innilega samúð mína. Ég vona að þetta mál verði upplýst og klárað með þeim eina hætti sem fær er svo nánustu ættingjar geti horft til framtíðar. Það er skelfilegt ef það gerist ekki.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband