Ólafur Ragnarsson látinn

Ólafur Ragnarsson Ólafur Ragnarsson, bókaútgefandi, er látinn, langt um aldur fram. Það eru aðeins nokkrar vikur síðan að ég las síðustu bókina hans með síðustu óbirtu samtölunum við Halldór Kiljan Laxness. Þrátt fyrir erfið veikindi náði Ólafur að klára bókina sem var vandaður lokahluti á löngu samstarfi þeirra og skrifum Ólafs um skáldið. Bókin bar vitni vönduðu handbragði Ólafs.

Ólafur stóð sig mjög vel sem útgefandi verka Nóbelsskáldsins undir lok ævi hans. Keypti ég Laxness-bækurnar þegar að þær voru endurútgefnar af Vöku Helgafell - það var mikil upplifun að lesa bækurnar en sumar hafði ég aldrei lesið og það var mjög notalegt að eignast safnið. Mér fannst fyrst og fremst mikill metnaður einkenna allt starf Vöku Helgafells og Ólafur var einn af þessum bókaútgefendum sem lögðu sig allan fram í það sem hann gerði og verk þess báru þess merki.

Sem einn af fyrstu fréttamönnum Ríkissjónvarpsins gerði Ólafur marga skemmtilega þætti og tók eftirminnileg viðtöl. Er í fersku minni einkum viðtalið við Roger Moore, sem þá lék dýrlinginn Simon Templar og síðar njósnarann James Bond, sem ég á einhversstaðar á myndbandi og finnst alltaf svo skemmtilegt. Þættir hans um Íslendingaslóðir í Kanada á miðjum áttunda áratugnum eru sérlega eftirminnilegir en þar var farið um íslendingabyggðirnar og talað við fólk og rifjuð upp saga vesturferðanna með mjög eftirminnilegum hætti. Sá þessa þætti þegar að þeir voru endursýndir í upphafi tíunda áratugarins og fannst þeir alveg frábærir.

Það er vonandi að Sjónvarpið heiðri minningu Ólafs, sem eins fyrsta fréttamanns síns, með því að endursýna eitthvað efni sem hann gerði eða taki saman í einhvern pakka skemmtileg viðtöl eða umfjöllun um verk hans hjá stofnuninni. Enda eru þar mörg merkileg viðtöl og eftirminnilegir þættir sem væri gaman að sjá allavega eitthvað brot af. Sérlega væri gaman að sjá þættina hans Ólafs um Íslendingabyggðir vestra að nýju.

Sem bókahöfundur var Ólafur vandvirkur. Ævisaga hans um dr. Gunnar Thoroddsen, fyrrum forsætisráðherra og borgarstjóra, er virkilega vel gerð og skemmtileg lestrar. Uppbygging hennar er sérlega góð og flakkað á milli tíma með Gunnari, sem var á hápunkti ferils síns sem forsætisráðherra er hún var skrifuð. Bækur Ólafs um Halldór Laxness eru auðvitað meistaraverk.

Ég vil votta fjölskyldu Ólafs innilega samúð mína.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þakka þér fyrir að minnast þessa manns svona fallega. Ólafur komst snemma og fyrirhafnarlaust á ferli sínum í hóp þeirra góðu fréttamanna sem öllum fannst að þeir ættu einhvern hlut í.

Það  er sárt að sjá á bak Ólafi Ragnarssyni en jafnframt ljúft að minnast hans.

Árni Gunnarsson, 28.3.2008 kl. 16:58

2 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Þarna fór drengur góður/blessuð sé minning hans/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 28.3.2008 kl. 17:36

3 identicon

Tek undir með þér að RUV geri þátt eða sýni eitthvað með Ólafi.Ég votta aðstandendum Ólafs samúð mína.

Halldór Jóhannsson (IP-tala skráð) 28.3.2008 kl. 22:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband