Færsluflokkur: Bloggar
10.3.2008 | 19:59
Drengurinn látinn
Ég vil votta fjölskyldu og vinum hins látna innilega samúð mína.
31.12.2007 | 18:03
Áramótakveðja
Ég vil sérstaklega þakka öllum þeim sem ég kynnst í gegnum þennan bloggvef minn. Hef ekki tölu á fjölda bloggfærslna ársins 2007, en ég hef haft mjög gaman af þessum skrifum og ennfremur þeim kommentum sem ég hef fengið og góðum viðbrögðum úr mörgum áttum, bæði þeirra sem ég þekki og eins þeirra sem hafa lesið og ég kynnst eftir það.
Kærar þakkir fyrir allt hið góða. Hafið það gott á nýju ári - vonandi verður það okkur öllum gjöfult og gott!
bestu nýárskveðjur frá Akureyri
Stefán Friðrik Stefánsson
Nú árið er liðið í aldanna skaut
og aldrei það kemur til baka,
nú gengin er sérhver þess gleði og þraut,
það gjörvallt er runnið á eilífðar braut,
en minning þess víst skal þó vaka.
En hvers er að minnast? Og hvað er það þá,
sem helst skal í minningu geyma?
Nú allt er á fljúgandi ferð liðið hjá,
það flestallt er horfið í gleymskunnar sjá.
En miskunnsemd Guðs má ei gleyma.
Hún birtist á vori sem vermandi sól,
sem vöxtur í sumarsins blíðum,
í næðingum haustsins sem skjöldur og skjól,
sem skínandi himinn og gleðirík jól
í vetrarins helkuldahríðum.
Hún birtist og reynist sem blessunarlind
á blíðunnar sólfagra degi,
hún birtist sem lækning við böli og synd,
hún birtist þó skærast sem frelsarans mynd,
er lýsir oss lífsins á vegi.
Nú Guði sé lof fyrir gleðilegt ár
og góðar og frjósamar tíðir,
og Guði sé lof, því að grædd urðu sár,
og Guði sé lof, því að dögg urðu tár.
Allt breyttist í blessun um síðir.
Ó, gef þú oss, Drottinn, enn gleðilegt ár
og góðar og blessaðar tíðir.
Gef himneska dögg gegnum harmanna tár,
gef himneskan frið fyrir lausnarans sár
og eilífan unað um síðir.
Valdimar Briem
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
24.12.2007 | 16:44
Jólakveðja
Ég færi lesendum vefsins, og vinum nær og fjær, innilegar óskir mínar um gleðilega og kærleiksríka jólahátíð. Hafið það öll sem best yfir hátíðirnar.
jólakveðjur frá Akureyri
Stefán Friðrik Stefánsson
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.12.2007 | 10:16
Kærar þakkir!
Afmælisdagurinn var í senn mjög notalegur og rólegur. Það er orðið mjög langt síðan að ég sætti mig við að eiga afmæli örfáum klukkstundum fyrir jólahátíðina, í miðri lokahrinu jólastressins, en það hefur vanist vel með árunum.
Það var notalegt að finna fyrir hlýjum kveðjum og því að svo margir skyldu muna eftir deginum. Kærar þakkir!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
11.12.2007 | 18:04
Sorgardagur í Keflavík - sterk sönnunargögn
Þetta hefur verið sorgardagur í Keflavík. Litli drengurinn sem lést þar í sorglegu slysi í lok síðasta mánaðar var jarðsunginn í dag. Ég vil votta fjölskyldu hans innilega samúð mína.
Nú hefur verið staðfest að trefjar úr fötum drengsins voru á bíl mannsins sem hefur verið í gæsluvarðhaldi grunaður um að keyra á hann. Það eru sannarlega sterk sönnunargögn. Samt neitar viðkomandi maður enn sök. Vonandi mun málið leysast fljótlega. Nú hafa allavega vaknað spurningar sem verður að fá svör við. Hver keyrði bílnum þennan örlagaríka dag?
Þetta mál er allt einn harmleikur. Það hlýtur að vera skelfileg lífsreynsla að ganga í gegnum fyrir svo lítið samfélag. Samt finnst mér eiginlega enn sorglegra að heyra af því að Pólverjar almennt í bænum hafi orðið fyrir aðkasti. Fólk á að vita betur að það á ekki að kenna láta þennan harmleik bitna á öllum innflytjendum frá sama landi og hinn grunaði.
Þræðir á bíl úr fötum drengs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.12.2007 | 15:14
Athugasemdir
Ég vil leyfa heiðarleg skoðanaskipti hér, en að sama skapi geta þeir sem vilja vera með persónulegt skítkast og almenn leiðindi verið á öðrum vettvangi en hér. Þeir sem geta ekki viðhaft málefnalegheit og almenna kurteisi í athugasemdum hér er vísað út í hafsauga með það sama. Hika ekki við að loka á þá sem brjóta þær fáu og sjálfsögðu reglur sem ég hef sett um athugasemdir.
11.7.2007 | 20:50
In Memoriam
Og því var allt svo hljótt við helför þína
sem hefði klökkur gígjustrengur brostið.
Og enn ég veit margt hjarta harmi lostið
sem hugsar til þín alla daga sína.
En meðan árin þreyta hjörtu hinna
sem horfðu eftir þér í sárum trega
þá blómgast enn og blómgast ævinlega
þitt bjarta vor í hugum vina þinna.
Tómas Guðmundsson skáld (1901-1983) (Hið bjarta vor)
26.6.2007 | 23:05
Minningarorð um Susie Rut á miðopnu Moggans
Minningarorð Einars S. Hálfdánarsonar, föður hennar, eru hugheil og einlæg. Allir sem þau lesa verða djúpt snortnir. Skrifin hafa vakið mikla athygli í dag. Þar eru enda beitt orð um fíkniefnavandann, sem fer því miður sífellt vaxandi í samfélagi okkar. Það þarf hugrekki og kraft til að skrifa svo góða grein, sem tekur á erfiðu máli á sorgarstund hjá fjölskyldu. Ég dáist að þeim krafti og styrk á raunastundu.
Ég vil votta fjölskyldu Susie Rutar innilega samúð mína.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
26.5.2007 | 13:03
Viðbót í tónlistarspilarann
Ég hef bætt inn lögum í tónlistarspilarann minn hér. Þetta eru sem fyrr lög úr öllum áttum. Nokkur kvikmyndalög hafa bæst inn. Þar eru nokkur James Bond-lög, allt frá Goldfinger til nýjasta lagsins, You Know My Name með Chris Cornell úr Casino Royale. Ennfremur hef ég t.d. sett inn tvö lög eftir móðurbróður minn, Þorvald Friðriksson frá Eskifirði, Heimkomuna og Kveðjustundina, sem eru bæði sungin af frænda mínum, Ellert Borgari Þorvaldssyni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.3.2007 | 13:38
Sr. Pétur Þórarinsson látinn
Sr. Pétur hefur verið sóknarprestur á Laufási frá árinu 1991, frá biskupskjöri sr. Bolla Gústafssonar á Hólum. Hann hefur síðasta áratuginn verið prófastur á sínu svæði, en varð að hætta sem prófastur fyrir nokkrum mánuðum vegna veikinda. Nær allan prestsferil sinn að Laufási hefur Pétur barist við erfið veikindi. Hann missti báða fætur sína vegna sykursýki um miðjan síðasta áratug og barðist við að halda störfum sínum áfram með aðdáunarverðum hætti við mjög erfiðar aðstæður.
Án aðstoðar Ingu, eiginkonu Péturs, hefði honum verið erfitt að halda áfram, en hún var allt til hinstu stundar honum mikil stoð í verkum sínum. Samhugur íbúa hér með Pétri og fjölskyldu hans í veikindastríðinu hefur alla tíð verið mikill. Eftir þann þunga dóm að missa báða fæturna voru haldnir styrktartónleikar fyrir fjölskylduna, fleiri en einir tónleikar, í Glerárkirkju. Voru það ógleymanlegir tónleikar okkur sem þangað fóru.
Ég vil votta Ingu og fjölskyldunni mínar innilegustu samúðarkveðjur við fráfall Péturs.
Fallegasta ljóð Péturs og það sem mun halda nafni hans hæst á lofti er Í bljúgri bæn;
Í bljúgri bæn og þökk til þín,
sem þekkir mig og verkin mín.
Ég leita þín, Guð leiddu mig
og lýstu mér um ævistig.
Ég reika oft á rangri leið,
sú rétta virðist aldrei greið.
Ég geri margt, sem miður fer,
og man svo sjaldan eftir þér.
Sú ein er bæn í brjósti mér,
ég betur kunni þjóna þér,
því veit mér feta veginn þinn,
að verðir þú æ Drottinn minn.
Pétur Þórarinsson
1951-2007
Fjallað er nánar um æviferil Péturs í ítarlegum skrifum á vef Þjóðkirkjunnar í dag.
Pétur veitti síðasta fjölmiðlaviðtal sitt í haust er hann ræddi við Björn Þorláksson - þar sagði hann veikindasöguna í Kompásþætti. Bendi fólki á að horfa á viðtalið við Pétur. Það lætur engan ósnortinn.
Blessuð sé minning höfðingjans Péturs í Laufási.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)