Færsluflokkur: Bloggar

Nafnlausum athugasemdum eytt

Ég vil taka það fram að nafnlausar athugasemdir eru ekki leyfðar á þessum vef. Þeim athugasemdum sem innihalda ekki nafn þeirra sem skrifa verður eytt. Þetta hefur verið nær algild regla hér frá upphafi en ekki verið framfylgt af krafti hér fyrr en nú. Ég tel ekki við hæfi að hér séu nafnlausar athugasemdir og mun héðan í frá eyða öllum slíkum.

Viðtal og mætur bloggvinur

Var að koma úr viðtali hjá Birni Þorlákssyni áðan, en hann vildi ræða við mig um bloggskrifin mín. Notalegt og gott spjall að mínu mati. Það er alltaf svosem um nóg að tala. Veit ekkert hvernig að þeir ætla að nota þetta, en þeir sjá bæði bæjarstöðinni sem og Stöð 2 fyrir fréttum. Það er búið að vera sviptingasamt rok hér á Akureyri og það var eiginlega hressandi að rabba við Björn í ferskum vindgusti niðrí Grundargötu áðan.

En að öðru; alltaf fjölgar í góðum hópi bloggvina. Nú er vinkona mín, Ólöf Nordal, verðandi alþingismaður Sjálfstæðisflokksins hér í Norðausturkjördæmi, farin að blogga hér í vefsamfélaginu okkar og er auðvitað í hópi bloggvina, meira að segja í eðaldeildinni þar. Hvet alla til að líta í heimsókn á vefinn hennar.

Föðurtún

Kaldur dagur. Dauðsfall í fjölskyldunni. Enn fækkar þeim sem eftir standa. Ekki mörg orð hægt að segja. Leita til Davíðs frá Fagraskógi til að segja það sem er í huga mér.

En er ég kom sem barn til byggða heim,
þá barst mér það til eyrna fyrr en varði,
að horfinn væri úr hópnum einn af þeim,
sem hjartað þráði mest í föðurgarði.
Og alltaf falla fleiri mér kærir í þann val,
og fram hjá streyma ár, og dagar hverfa,
og gömlum bæjum fækkar fram í dal,
en fremstu nafir holskeflunnar sverfa.

Ef finn ég anga föðurtúnin græn,
þá fagnar vori hjartans dýpsti strengur.
En það skal vera þökk mín öll og bæn,
og þó ég deyi, skal hann óma lengur.
Þá birtist mér í heiðri himinlind
öll horfin fegurð, er ég man og sakna.
Er geisladýrðin gyllir fjöll og tind,
skal gleði mín í fólksins hjörtum vakna.

Því get ég kvatt mín gömlu föðurtún
án geigs og trega, þegar yfir lýkur,
að hugur leitar hærra fjallsins brún,
og heitur blærinn vanga mína strýkur.
Í lofti blika ljóssins helgu vé
og lýsa mér og vinum mínum öllum.
Um himindjúpin horfi ég og sé,
að hillir uppi land með hvítum fjöllum.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Föðurtún)

Helgi frændi Seljan farinn að blogga

Ég sé að Helgi frændi minn Seljan er farinn að blogga hérna á Moggablogginu. Fagna því. Hann er góður penni og með skemmtilegar skoðanir, svo að það er líflegt og gott að fá hann hingað. Það hefur reyndar sífellt fjölgað hérna í samfélaginu okkar síðustu vikurnar og bætist sífellt við hérna. Hef verið hérna í þrjá mánuði, sem hafa verið líflegir mánuðir svo sannarlega. Gott mál, vonandi bætist Stefán Pálsson í hópinn fyrr en síðar. :)

Fríblöð ekki móðins í Danmörku?

Nyhedsavisen

Merkilegt að sjá þessa Moggafrétt um fríblöðin í kóngsins Köben. Virðast ekki falla í kramið þessi fríblöð, enda nokkuð pappírsflóð vissulega sem fylgir þrem fríblöðum. Ekki beint móðins þessar vikurnar. Ég verð að viðurkenna að mér finnst ágætt að fá Fréttablaðið hér heima í lúguna og lesa, en pappírsflóðið sem fylgir er vissulega nokkuð mikið. Flestum þykir það fínn fórnarkostnaður að þurfa að henda meiru í ruslið en ég skil Danina nokkuð vel miðað við stöðu mála. Það verður gaman að sjá hvernig þessi tilraun íslenskra bissness-manna með Nyhedsavisen mun ganga er á hólminn kemur.

mbl.is Mikill fjöldi Kaupmannahafnarbúa vill ekki fá fríblöð í sín hús
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málefnaþing SUS um helgina

SUS

Málefnaþing SUS verður haldið nú um helgina í Reykjanesbæ. Stefnir í hörkufjör og mikla skemmtun. Yfirskrift þingsins að þessu sinni er: Umhverfið er okkar. Munum við ungir sjálfstæðismenn því líta til umhverfismála, ræða þau í okkar hópi og tjá skoðanir okkar á málaflokknum. Ennfremur verður ráðstefna um umhverfismál á þinginu og öflug umræða um þau.

Hefst þingið með ráðstefnu um umhverfismál síðdegis. Fyrstur flytur ávarp Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. Að því loknu flytja ræður þeir Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, Guðlaugur Þór Þórðarson, formaður umhverfisnefndar Alþingis og Andri Snær Magnason, rithöfundur. Í pallborði sitja þau Friðrik, Guðlaugur Þór, Andri Snær, Illugi Gunnarsson, hagfræðingur, og Unnur Brá Konráðsdóttir, sveitarstjóri.

Þetta verður lífleg og góð helgi í Reykjanesbæ. Það verður ánægjulegt að hitta góða félaga og samherja allsstaðar að um landið og eiga góða helgi saman. Þingin hjá okkur í SUS eru alltaf frábær. :)

Ágúst Ólafur stefnir á fjórða sætið

Ágúst Ólafur

Á sama klukkutímanum og ég skrifaði hér og undraðist að Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, hefði ekki enn tilkynnt framboð sendi hann frá sér tilkynningu um framboð í fjórða sætið í prófkjöri flokksins í Reykjavík þann 11. nóvember nk. Með því tekur hann slaginn við Mörð Árnason, Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, Helga Hjörvar, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, Valgerði Bjarnadóttur og Guðrúnu Ögmundsdóttur.

Það verður mikill hörkuslagur um þetta sæti greinilega og verður spennandi að sjá hver hreppir það og hvernig næstu menn raðast. Þetta verður greinilega spennuþrungið prófkjör sem áhugavert verður að fylgjast með.

mbl.is Ágúst Ólafur stefnir á fjórða sætið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Friðarsúla Yoko Ono í Viðey

Yoko og John

John Lennon setti að mínu mati eftirminnilegast mark á tónlistarsögu 20. aldarinnar. Nú um þessar mundir eru 26 ár frá því að hann var myrtur í New York og hann hefði orðið 66 ára, hefði hann lifað, í þessum mánuði. Lennon og hljómsveit hans, The Beatles, slógu í gegn og unnu sér frægð fyrir ógleymanlega tónlist í upphafi sjöunda áratugarins. Framlag Bítlanna og Lennon varð til þess að breyta gangi sögu tónlistarinnar - ekkert varð samt eftir að þeir komu til sögunnar í tónlistinni. Bítlarnir liðu undir lok árið 1970. Seinustu ár ævi sinnar gaf Lennon út tónlist einn síns liðs á sólóferli eða með eiginkonu sinni, Yoko Ono. Hún hefur staðið vörð um minningu hans.

Nú stendur til að reisa friðarsúlu í minningu Lennons og undir merkjum Imagine, sem ber ennfremur heiti eins þekktasta lags Lennons á sólóferli hans, í Viðey. Um er að ræða ljóssúlu sem myndi standa upp í mikla hæð. Unnið er að lokaútfærslum verksins. Mér finnst það viðeigandi að heiðra minningu Lennons og tel hið besta mál að þetta verði hér á Íslandi. Lega landsins gerir það að verkum að það er mitt á milli austurs og vesturs og greinilega er Ísland valið til að birtunni stafi héðan um allan heiminn, enda miðja vegu milli risaveldanna. Greinilegt er að þessi friðarsúla er hjartans mál Yoko Ono nú, enda liggur hún mikla áherslu á verkið.

Hef ég lengi verið mikill unnandi tónlistar Lennons, sérstaklega áranna með Bítlunum og seinni hluta sólóferilsins. Eitt þekktasta lag Lennons er fyrrnefnt Imagine. Er það ekki annars uppáhaldslag okkar flestra. Tær snilld - best að birta ljóðið hérmeð.

Imagine there's no Heaven
It's easy if you try
No hell below us
Above us only sky
Imagine all the people
Living for today

Imagine there's no countries
It isn't hard to do
Nothing to kill or die for
And no religion too
Imagine all the people
Living life in peace

You may say that I'm a dreamer
But I'm not the only one
I hope someday you'll join us
And the world will be as one

Imagine no possessions
I wonder if you can
No need for greed or hunger
A brotherhood of man
Imagine all the people
Sharing all the world

You may say that I'm a dreamer
But I'm not the only one
I hope someday you'll join us
And the world will live as one


mbl.is Gerð friðarsúlu erfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bæjarmál og Framsókn

Jóhannes G. Bjarnason

Í skrifum hér fyrir rúmri viku var fjallað um stöðu Framsóknarflokksins á Akureyri og Jóhannesar G. Bjarnasonar, leiðtoga og bæjarfulltrúa flokksins. Í þeim skrifum, sem ég hef nú eytt út, var fjallað um leyfi Jóhannesar frá störfum í bæjarstjórn Akureyrar. Í samhengi við það fjallaði ég um stöðu flokksins að loknum kosningunum í vor. Eins og ég hef síðar komist að bað Jóhannes G. Bjarnason um leyfi frá pólitískum störfum af persónulegum ástæðum, ástæðum sem ég hafði ekki vitneskju um á þeim tíma sem skrif mín komu fram. Um var að ræða pólitískar pælingar, sem áttu ekki erindi í þá umræðu. 

Ég vil nota tækifærið og óska Jóhannesi G. Bjarnasyni og fjölskyldu hans alls góðs á þeim erfiðu tímum sem við þeim blasir. Jafnframt vonast ég eftir að hann komi tvíefldur aftur til verka í stjórnmál að því loknu, enda hef ég alla tíð talið Jóa mikinn sómamann og hafa unnið gott verk, bæði í stjórnmálum og á öðrum vettvangi.

Björn Bjarnason í 2. sætið

Björn Bjarnason

Það stefnir í spennandi prófkjör hjá sjálfstæðismönnum í Reykjavík. Ég tel mjög mikilvægt að Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, verði leiðtogi flokksins í öðru kjördæminu og verði því í 2. sæti í þessu prófkjöri. Ég hef alla tíð borið mikla virðingu fyrir yfirgripsmikilli þekkingu Björns á utanríkis- og varnarmálum og segja má með sanni að hann sé sá þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem mest þekkir þann málaflokk. Það er mikilvægt að hans framlag verði áfram til staðar í forystusveit flokksins í Reykjavík.

Björn hefur verið fyrirmynd fyrir mig og fleiri í vefmálum. Hann byrjaði með heimasíðu fyrstur íslenskra stjórnmálamanna og hefur haldið henni úti með mikilli elju og vinnusemi allan þann tíma. Hann hefur þar tjáð af miklum krafti skoðanir sínar og skrifað um pólitík og fleiri þætti þjóðmálaumræðunnar, birt þar dagbók og ennfremur allar ræður og greinar sínar. Var Björn brautryðjandi í vefskrifum stjórnmálamanna á netinu og er fyrirmynd margra í netvinnslu og í því að skrifa á vefnum.

Framlag Björns í stjórnmálum og þá einkum forysta hans í netmálum hefur skipt mjög miklu máli. Ég tel eins og fyrr segir mikilvægt að hann fái kjör í annað sæti framboðslistans í Reykjavík og styð hann til þess. Hann mun um helgina opna kosningaskrifstofu sína og hefja baráttuna. Ég hef aldrei farið leynt með stuðning minn við hann og ég t.d. er honum eilíflega þakklátur fyrir að hafa á vef sínum tengil á heimasíðu mína. Það mun ég alla tíð meta mjög mikils og önnur tengsl.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband