Færsluflokkur: Bloggar

Halldór sigrar Smára í æsispennandi kosningu

Halldor Halldórsson

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ, sigraði Smára Geirsson, bæjarfulltrúa í Fjarðabyggð, mjög naumlega í kjöri um formennsku Sambands íslenskra sveitarfélaga á landsþingi þess hér á Akureyri í morgun. Tekur Halldór við formennskunni af Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni, borgarstjóra, sem hefur gegnt formennskunni samfleytt í sextán ár.

Halldór hlaut 68 atkvæði en Smári hlaut 64 atkvæði. Naumara gat það varla orðið semsagt. Það er alveg greinilegt að gríðarlega sterk staða Sjálfstæðisflokksins í sveitarstjórnum um allt land hefur skipt sköpum í þessari kosningu. Þetta er reyndar í fyrsta skipti sem kosið er um formennskuna en uppstillingarnefnd hefur alltaf lagt fram tillögu sem hefur verið samþykkt.

Innilega til hamingju Halldór með formennskuna.


mbl.is Halldór Halldórsson kjörinn formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samkomulag kynnt

Jón Sigurðsson og Geir H. Haarde

Var að horfa á blaðamannafundinn í Þjóðmenningarhúsinu með Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Jóni Sigurðssyni, viðskiptaráðherra, þar sem að þeir kynntu samkomulag milli Bandaríkjanna og Íslands um varnir landsins. Fátt svosem sem þar kom fram er ekki hafði komið fram áður. Heimildir fréttamanna síðustu daga voru réttar að öllu leyti. Varnirnar eru tryggðar með þeim hætti að Bandaríkin skuldbinda sig til að sjá um að verja Ísland gegn vá með hreyfanlegum herstyrk. Varnir á Íslandi heyra sögunni til og við tekur uppstokkun á hinu gamla varnarsvæði, sem verður eign Íslands um mánaðarmótin þegar að síðustu ummerki herstyrks Bandaríkjanna heyra sögunni til.

Gert er ráð fyrir að forsætisráðherra og Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, undirriti bráðlega samning ytra við yfirvöld þar sem byggir á þessum grunni sem kynntur var í dag. Við blasir að Íslandi muni taka að sér að greiða fyrir niðurrif mannvirkja og hreinsun á svæðum sem tilheyrðu Bandaríkjahernum áður og taki við forræði þeirra að öllu leyti. Fara á yfir öll umhverfismál á svæðinu og færa svæðið allt til þess horfs sem viðunandi er. Við blasir að það verði mikið verkefni og mun verða stofnað félag til að halda utan um öll umsvif þar og færa allt til eðlilegs horfs í þeim efnum.

Að mörgu leyti er þetta eins og við var að búast, að sumu leyti eru þarna þættir sem vekja athygli. Heilt yfir er mikilvægt að óvissunni hafi verið eytt. Aðeins eru nú örfáir dagar þar til að Bandaríkjamenn halda á brott og það var orðið gríðarlega mikilvægt að öll atriði málsins væru almenningi ljós, enda um að ræða mikil söguleg þáttaskil, eins og forsætisráðherra sagði á blaðamannafundinum.

mbl.is Bandaríkin munu verja Ísland gegn vá með hreyfanlegum herstyrk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugsað til Washington

Þinghúsið

Hugurinn leitaði ósjálfrátt til Washington þegar að ég leit á vef Sivjar Friðleifsdóttur, heilbrigðisráðherra, og sá þar myndir hennar frá Georgetown. Það eru núna nákvæmlega tvö ár síðan að ég hélt ásamt þeim sem ég var með í utanríkismálanefnd SUS á sínum tíma til Washington. Það var alveg yndisleg ferð og virkilega skemmtileg. Við skoðuðum alla sögustaðina og fundum borgarstemmninguna. Þetta er í fyrsta skipti í borgarferð sem ég hef varla viljað fara heim. Stemmningin var alveg nákvæmlega eins og ég vildi helst. Mér leið hreinlega eins og ég hefði aldrei verið annarsstaðar. Merkileg tilfinning og svona líka virkilega notaleg.

Borgin er táknmynd fyrir stjórnmálasögu Bandaríkjanna og sögu heimsins. Þar hafa örlög heimsins jafnan ráðist, þar situr valdamesti maður heims á valdastóli og stjórnar öflugasta ríki samtímans. Það jafnast fátt á við að fara til Bandaríkjanna, og fyrir stjórnmálaáhugamann var auðvitað einstakt tækifæri að fara þangað innan við fjórum vikum fyrir forsetakosningar í landinu, en þegar að við fórum í októberbyrjun 2004 snerist allt um forsetakosningarnar milli Bush og Kerry. Ég hafði lengi viljað fara til Washington, segja má að ég sem þyki vera frekar mikill áhugamaður um stjórnmál og söguna hafi lengi beðið færis á að heimsækja þessa borg borganna.

Ég skrifaði ítarlegan pistil um ferðina og fór þar yfir allt sem mér þótti mikilvægast að fara yfir. Mér fannst alveg draumur að fara í Georgetown. Ég tók eitt mesta flipp í bókakaupum í Barnes and Noble þar. Keypti ég þar ítarlega yfirlitsbók um forsetaembætti Bandaríkjanna og umfjöllun um forseta landsins, ævisögu Dennis Hastert, umdeilda bók Kitty Kelley um Bush fjölskylduna, The American Evita, bók sem fjallar um Hillary Clinton með allt öðrum hætti en ævisagan hennar, og síðast en ekki síst ævisögu Lou Gannon um Ronald Reagan. Þetta var paradís á jörðu að fara þarna og ég held að þau sem voru með mér hafi haldið að ég tæki flog áður en yfir lyki. :)

Best af öllu fannst mér að fara út að borða þarna og ég nýtti þau færi vel ásamt hópnum. Þetta var alveg yndisleg ferð og þeir sem vilja lesa meira um hana lesi endilega pistilinn minn um ferðina. Það er farið yfir nær allt sem gerðist úti í ferðinni þar. Ég er búinn að ákveða að ég ætla að fara næsta vor eða sumar út og vera þá lengur en þessa örfáu daga en voru farnir út í október 2004. Það verður yndisleg ferð, ég held að ég geti alveg sagt það hreint út.


Bjarni Ben sækist eftir öðru sætinu

Bjarni Ben

Bjarni Benediktsson, alþingismaður, hefur ákveðið að gefa kost á sér í annað sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í kraganum. Það fer því ekki svo að hann taki slaginn við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra, eins og margir höfðu velt fyrir sér. Má því telja nær öruggt að Þorgerður Katrín verði ein í kjöri um fyrsta sætið og fái góða kosningu í það. Kjördæmisþing sjálfstæðismanna í kraganum verður 4. október nk. í Valhöll. Verður spennandi að sjá hvort það verði prófkjör eða uppstilling þarna. Altént er ljóst að ekki verður harður slagur um fyrsta sætið.

Nú eru nýir frambjóðendur farnir að tilkynna sig í kraganum. Í gær gaf Ragnheiður Elín Árnadóttir, aðstoðarmaður Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, allt frá því að hann varð fjármálaráðherra árið 1998, kost á sér í fjórða sæti framboðslistans. Enn er beðið eftir ákvörðun Sigríðar Önnu Þórðardóttur, fyrrum umhverfisráðherra og þingflokksformanns, sem setið hefur á þingi frá árinu 1991, Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, bæjarstjóra í Mosfellsbæ, Ármanns Kr. Ólafssonar, forseta bæjarstjórnar í Kópavogi, Sigurrósar Þorgrímsdóttur, alþingismanns og Jóns Gunnarssonar, formanns fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Kópavogi.

Búast má við spennandi framvindu mála í framboðsmálum sjálfstæðismanna í kraganum. Framundan er enda fjölgun þingsæta í kraganum, þar sem þingsætin verða 12 en ekki 11, enda færist þingsæti úr Norðvesturkjördæmi yfir í kragann. Á góðum degi gætu sjálfstæðismenn því hlotið 6 þingsæti í kjördæminu. Það er því eftir miklu að slægjast, enda aðeins þrír þingmenn eftir af þeim fimm sem Sjálfstæðisflokkurinn hlaut kjörna í alþingiskosningunum 2003.

mbl.is Sækist eftir öðru sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðir þættir um sögu Varnarliðsins

Varnarliðið

Var að enda við að horfa á fyrri hluta vandaðrar umfjöllunar Ingólfs Bjarna Sigfússonar um sögu Varnarliðsins hér á Íslandi. Í næstu viku er komið að endalokum varnarviðbúnaðar Bandaríkjanna á Íslandi, 55 árum eftir gildistöku tvíhliða varnarsamnings landanna. Það eru mörg áhugaverð viðtöl í þessum þætti og farið yfir söguna með merkilegum hætti. Virkilega gott sjónvarpsefni, enda sjaldan réttara að fara yfir þessa sögu en einmitt núna, þegar að þetta líður allt undir lok. Þetta er löng og merk saga og fyrir sagnfræðiáhugamann eins og mig er þetta virkilega áhugavert. Varnir Íslands og varnarviðbúnaður þess er mikilvægt mál og við stöndum á krossgötum óneitanlega nú.

Á þriðjudag á að kynna fyrir landsmönnum samkomulag Íslands og Bandaríkjanna um tilhögun mála eftir 1. október þegar að Varnarliðið líður undir lok. Á því leikur enginn vafi að heimsmyndin hefur breyst mikið á þeirri rúmlega hálfu öld sem bandarískt herlið hefur verið hérlendis. Hinsvegar er ógnin um hryðjuverk eða önnur voðaverk enn fyrir hendi og Keflavík er mikilvæg enn í dag vegna staðsetningar sinnar fyrir t.d. Bandaríkin. Íslendingar hafa í gegnum tíðina verið traustir bandamenn Bandaríkjamanna og oft lagt þeim lið í þeim málum sem þeir hafa veitt forystu á alþjóðavettvangi. Það hefur því verið sláandi að sjá ómerkilega framkomu Bandaríkjanna síðustu mánuði.

Í þessum þáttum verður greinilega farið yfir alla sögupunktana og þarna eru viðtöl við menn sem hafa verið miðpunktar í sögu Varnarliðsins í þessari 55 ára sögu. En nú er henni lokið og verður fróðlegt að sjá hvað tekur við um mánaðarmótin. Við sjáum kortlagningu þessara nýju tíma á þriðjudag á blaðamannafundinum þar sem samkomulag um tilhögun mála. Þegar að ég fór inn á þetta svæði í sumar var það eins og yfirgefinn bær í villta vestrinu. Dauðabragurinn á svæðinu kom vel fram í nýjustu myndunum sem sýndar voru í þættinum.


NFS heyrir sögunni til

NFS

NFS heyrir sögunni til og mun hætta útsendingum kl. 20:00 í kvöld. Stefnt er að uppsögnum 20-30 starfsmanna. Fréttir verða áfram sagðar í sjónvarpi að morgni, í hádegi, síðdegis og að kvöldi á Stöð 2 undir merkjum fréttastofu NFS, þó samnefnd stöð hafi verið lögð niður. Þetta eru stór tíðindi og boðar endalok fréttastöðvarinnar sem hefur sent út frá 18. nóvember 2005. Sá orðrómur hefur verið afgerandi á netinu og í spjalli milli manna síðustu dagana að þetta yrði raunin og svo hefur nú farið. Hinsvegar mun vefhluti 365-miðla, visir.is, verða efldur til mikilla muna.

Allt frá fyrsta degi hefur verið áhugaverð dagskrárgerð á NFS og í raun ekkert til sparað, mikið verið af beinum útsendingum og tekið á öllum helstu álitaefnum þjóðmálaumræðunnar í umfjöllun. Vandi stöðvarinnar var þó allt frá upphafi einn - og hann nokkuð stór, að flestra mati. Áhorf og auglýsingatekjur brugðust, það sem átti að vera eldsneyti stöðvarinnar inn í framtíðina gaf sig fljótt og hefur skuldahali stöðvarinnar því sífellt aukist eftir því sem liðið hefur á þetta fyrsta útsendingarár NFS.

Mörgum þótti hugmyndin djörf er hún var kynnt fyrst sumarið 2005 og ekki voru allir á eitt sáttir. Einn þeirra sem ekki var sáttur við hugmyndina var Páll Magnússon, þáv. fréttastjóri Stöðvar 2. Hann tók ákvörðun um að yfirgefa frekar skútu 365 en halda í verkefnið og munu átök hafa orðið á æðstu stöðum þegar að Páll sagði við yfirmenn 365 að þessi hugmynd myndi aldrei ganga og yrði myllusteinn um háls fyrirtækisins. Við svo búið sagði Páll upp og sótti um lausa útvarpsstjórastöðu hjá Ríkisútvarpinu í kjölfarið.

Í viðtali í sumar við tímaritið Mannlíf sagði Páll að þessi hugmynd um NFS hefði verið glapræði og ástæða þess að hann ákvað að vera ekki áfram hjá 365. Það er greinilegt að varnaðarorð Páls Magnússonar, útvarpsstjóra, sumarið 2005 vegna stofnunar fréttastöðvar 365 í sjónvarpi hafa að öllu leyti gengið eftir. Það hlýtur að hlakka í keppinautum NFS þegar að við blasir að stöðin hafi runnið sitt skeið og hverfi úr fjölmiðlalitrófinu.

"Kæri Jón" segir upp Róberti

Nú hefur Róberti Marshall verið sagt upp störfum á NFS eftir að hafa sent opið bréf sitt til "Kæra Jóns" í vikunni. Það kemur varla á óvart úr því sem komið var. Í þessari frægu grein sagði Róbert einmitt að Jón Ásgeir Jóhannesson réði öllu á annað borð sem þar gerðist - örlög fréttastöðvarinnar væru alfarið hans mál. Þessi skrif urðu allavega Róbert örlagarík. Allt tal gegn hugtakinu Baugsmiðlar urðu að hjómi einu í kjölfarið. En stóra spurningin hlýtur að vera hversu mörgum verði sagt upp á NFS í heildina og hversu miklar breytingarnar verða á NFS-stöðinni í þessari uppstokkun. Það skyldi þó ekki vera að NFS yrði aðalfrétt dagsins á fréttastöðinni NFS?

mbl.is Róberti Marshall sagt upp hjá NFS; segist sáttur við sína framgöngu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slagur hjá Samfylkingunni í Norðvestri

Norðvestrið

Það stefnir heldur betur í hasar og fjör hjá Samfylkingarmönnum í Norðvestri. Þar verður prófkjör síðustu helgina í október. Jóhann Ársælsson, alþingismaður 1991-1995 og frá 1999, hefur tilkynnt rétt eins og þær Margrét Frímannsdóttir og Rannveig Guðmundsdóttir að hann ætli ekki fram að vori. Leiðtogastóllinn er því laus og það stefnir í að fjölmennt verði í slagnum um forystusessinn. Þetta er reyndar mjög opin staða fyrir Samfylkinguna þarna, enda á flokkurinn aðeins einn þingmann að auki Jóhanns. Flokkurinn varð fyrir verulegu áfalli í Norðvesturkjördæmi í kosningunum 2003 og hlaut aðeins tvo þingmenn, en hafði í skoðanakönnunum verið spáð lengi vel 3-4 þingsætum.

Jóhann og Anna Kristín Gunnarsdóttir voru kjörin á þing en Gísli S. Einarsson, sem verið hafði þingmaður Alþýðuflokksins fyrst í stað og síðar Samfylkingarinnar, féll í kosningunum sitjandi í þriðja sætinu. Gísli skipti svo um fylkingar á kjörtímabilinu, varð bæjarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins á Akranesi í kosningunum í vor og varð bæjarstjóri á Skaganum, sínum gamalgróna heimabæ, í júní í samstarfi Sjálfstæðismanna og Frjálslyndra. Samhliða þessu sagði hann sig úr flokknum og baðst lausnar sem varaþingmaður með formlegum hætti. Það leikur enginn vafi á því að þessi atburðarás var skaðleg fyrir Samfylkinguna í Norðvestri.

Nú liggur fyrir að sex vilja leiða framboðslistann í kjördæminu. Þar fer auðvitað fremst í flokki þingmaðurinn Anna Kristín og auk hennar þau Sigurður Pétursson, Guðbjartur Hannesson, Sveinn Kristinsson, Bryndís Friðgeirsdóttir og Karl V. Matthíasson (sem lýsti yfir framboði í dag). Það vekur athygli að presturinn Karl stígi aftur inn í stjórnmálin. Hann tók sæti Sighvats Björgvinssonar á Alþingi er Sighvatur varð framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands árið 2001. Honum bauðst að skipa fjórða sæti framboðslistans árið 2003 í uppstillingu en afþakkaði það og hætti í pólitík.

Eftir því sem mér skilst er hvergi nærri sjálfgefið að Anna Kristín fái leiðtogasessinn, enda hefur hún þótt gríðarlega litlaus og lítt áberandi á þingi. Fjöldi nýrra frambjóðenda til forystu staðfestir vel þá staðreynd að hún hafi ekki afgerandi stöðu nema þá á heimaslóðum í Skagafirði, en hún er greinilega þeirra kandidat til forystunnar. En já, það eru sex í leiðtogakjöri hið minnsta og því ljóst að verði beittur slagur um forystusess þarna. Það verður fróðlegt að sjá hverjum Samfylkingarfólk í kjördæminu felur leiðtogastólinn við brotthvarf Jóhanns Ársælssonar.

mbl.is Karl V. Matthíasson gefur kost á sér í Norðvesturkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Takk fyrir kveðjurnar - mynd með sögu

Vil þakka kærlega öllum þeim sem hafa lært að rata hingað og hafa sent mér góðar kveðjur síðustu dagana með þennan blessaða vef minn. Það er svolítið merkilegt að breyta svona til eftir öll þessi ár á sama stað. En mér líkar breytingin. Það var einu sinni sagt um mig að ég væri skelfilega íhaldssamur, jæja ætli ég sé ekki bara skemmtilega íhaldssamur.

Vonandi passar þessi banner-mynd efst vel inn í stemmninguna. Akureyri er það heillin. Gat ekki hugsað mér annað en að hafa einhverja mynd sem minnir á Akureyri. Þarna er það Strandgatan í allri sinni dýrð - yndisleg gata með góða sögu. Þessi mynd hefur sína sögu að segja í mínu lífi og við hæfi að hafa hana þarna efst. Finnst þetta flott mynd, hún er tekin líka á mörkum sumars og vetrar.

En já, Stefán Jónasson, langafi minn, og Gíslína Friðriksdóttir, langamma, bjuggu í Strandgötunni öll sín búskaparár og þarna á myndinni sést því æskuheimili ömmu minnar. Þetta hús á því sína sögu í mínu lífi og við hæfi að Strandgatan sé í aðalhlutverki á vefnum að allavega einhverju leyti. Þar hef ég átt mörg spor og margar minningar þaðan. Getur svo vel verið að ég hafi fleiri myndir frá Akureyri þarna í vetur.

Langafi rak útgerð við Strandgötuna til fjölda ára og þar var mikill rekstur í gangi í áratugi. Það minnir verulega fátt á þá tíð núna. Myndin sýnir reyndar hversu vel tókst til með að laga umhverfi götunnar fyrir um áratug og steingarðurinn er virkilega vel gerður - ásýnd götunnar er virkilega glæsileg. Það fer vel á því að hafa þessa fallegu mynd úr hjarta bæjarins á vefnum.

En já, enn og aftur þakkir fyrir að fylgja mér hingað yfir. Við eigum vonandi skemmtilegan vetur í pólitískum pælingum í vetur. Ætla þó að vona að þetta verði ekki bara beinhörð pólitík. Veriði allavega ófeimin að hafa samband við mig.


Síðasta þyrlan farin af varnarsvæðinu



Það var söguleg stund í morgun á Keflavíkurflugvelli þegar að síðasta þyrlan á vegum Varnarliðsins fór burt. Þessi sögulegi tími bandaríska hersins hérlendis er að líða hratt undir lok þessar vikurnar. Þar hefur fækkað hratt síðustu mánuðina. Hálft ár er liðið frá einhliða ákvörðun Bandaríkjamanna um vistaskipti. Þar var illa komið fram af hálfu Bandaríkjamanna og leiðinleg endalok á löngu samstarfi. Mér finnst reyndar Bandaríkjamenn hafa komið fram með býsna ómerkilegum hætti í öllu ferlinu síðustu mánuðina og sérstaklega hvað varðar ratsjármálin. Þetta er ekki vinarhugur sem kemur fram í okkar garð allavega að þeirra hálfu.

Lengi hafði ég átt mér þann draum að fara inn á varnarsvæðið og komst því miður aldrei þangað meðan að allt var í blóma síns tíma. Tækifærið gafst loksins í júní þegar að við fjöldi SUS-ara vorum á Suðurnesjum og fengum passa inn á svæðið og leiðsögn undir forystu starfsmanns Íslenskra aðalverktaka. Það var mjög merkileg stund. Þá þegar var þetta eins og eyðibýli í villta vestrinu forðum daga. Ekki sála á ferli - aðeins sálræn þögn og tómarými allsstaðar. Húsin líflaus og engin stemmning. Það var meira að segja búið að loka veitingastaðnum sem við ætluðum á þarna á svæðinu.

Dauðinn var svo sannarlega uppmálaður þarna um allt. Merkileg stund. Þetta svæði var miklu umfangsmeira en mér hafði eiginlega allt að því órað fyrir. Þarna er mikið landrými og mikil tækifæri framundan sé rétt haldið á öllum málum. Það leiðir hugann að því að við fáum litlar sem engar fréttir af samningaviðræðum um framtíð mála. Herinn er svo gott sem farinn og enn vitum við sáralítið sem ekki neitt hreinlega um stöðuna eftir 1. október, þegar að teknísk endalok alls sem heitir Varnarliðið verður hér á landi. Spurningum þarf að svara finnst mér, þögnin er orðin glymjandi alvarleg.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur reyndar sagt í fjölmiðlum í dag að svara sé að vænta og samkomulags um framtíðarstöðu mála. Það er ekki seinna vænna segi ég og við öll sennilega á þeim degi þegar að síðasti táknræni máttur Varnarliðsins yfirgefur landið og í raun tíma þess lýkur. Það er ekkert þar eftir nema tóm hús og grafarþögn. Spurningum verður að svara. Ætla að vona að bráðlega fáum við að vita eitthvað meira en það hversu mikið spurningaflóðið vex dag frá degi.

mbl.is Síðasta þyrlan fór í morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband