Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Svafa Grönfeldt hættir og flytur til Bandaríkjanna

Fregnir herma að Svafa Grönfeldt, sem hefur ákveðið að hætta sem rektor Háskólans í Reykjavík, hafi í hyggju að flytja til Bandaríkjanna til að sinna viðskiptalegum verkefnum. Eftirmaður Svöfu, sem hefur verið rektor HR í þrjú ár, er ráðinn fljótt og vel, væntanlega talinn sjálfkjörinn til verkefnisins. Engin óvissa skapast því um forystu skólans, sem er gott á þessum tímum.

Í umróti efnahagshrunsins hefur Svafa orðið umdeild og tekist á um verk hennar. Hverju sem því líður verður varla deilt um að Svafa hefur verið mikill leiðtogi í sínum verkum og verið mikill dugnaðarforkur. Óska henni góðs í nýjum verkefnum.

mbl.is Rektorsskipti í HR
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðist á Silvio Berlusconi í Mílanó

Árásin á Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, er til marks um hversu umdeildur hann hefur alla tíð verið í alþjóðlegum stjórnmálum. Berlusconi, sem hefur þrisvar orðið forsætisráðherra á einum og hálfum áratug og setið lengst við völd í pólitískri sundrungu á Ítalíu eftir síðari heimsstyrjöld, hefur ætíð starfað með þeim hætti að það kallar á aðdáun eða hatur, ekkert millibil á því.

Þó forsætisráðherrann sé umdeildur og hann hafi vakið athygli fyrir skrautlegt einkalíf og glanslega tjáningu um menn og málefni er þessi árás á hann þó ekki til sóma. Þeir sem beita ofbeldi, stjórna gjarnan með ofbeldi. Þeir sem skreyta sig með friðarskoðunum hljóta því sérstaklega að vera ósátt með þessi vinnubrögð.

Þó deila megi um Silvio Berlusconi og verk hans er þetta árás af því tagi að hún er engum til sóma.

mbl.is Sló Berlusconi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siðferðisleg skylda útrásarvíkinganna

Mér finnst Bjarni Ármannsson sýna gott fordæmi með því að rjúfa þögnina: endurgreiða Glitni, bæði nú og þegar hann greiddi hluta af frægum starfslokasamningi sínum. Með því viðurkennir Bjarni ábyrgð sína, fyrstur hinna margfrægu útrásarvíkinga, og þátttöku í sukkinu sem hefur sett landið á hausinn. Þetta kalla ég að taka ábyrgð á fallinu og allavega sýna lit, eitthvað annað en blaður út í bláinn. Framkoma hans er óverjandi og mun fylgja honum eftir, þó þessi ákvörðun ein og sér hafi fært honum einhvern frið frá mestu umræðunni.

Útrásarvíkingarnir hafa verið á flótta eftir bankahrunið. Sumir hafa farið í upphafin viðtöl í sjónvarpi og reynt að snúa okkur enn einn hring í blekkingarhringekju sinni með misgóðum árangri, þeir hafi ekki vitað að þetta hafi verið svona skelfilega slæm staða og hafi reynt sitt besta. Aðrir hafa ritað blaðagreinar til að telja öllum trú um að þeir hafi nú ekki verið svo slæmir og hafi bara verið að sinna sínum störfum. Eftir stendur þó sú staðreynd að þessir menn komu þjóðinni á hausinn. Niðurlæging hennar er algjör.

Aðalmálið nú er þó ekki orðagjálfur eða pínlegar afsakanir heldur það að auðmennirnir sem fengu digra starfslokasamninga og settu þjóðina á kaldan klakann í orðsins fyllstu merkingu borgi til baka og leggi lið. Það er siðferðisleg skylda þessara manna. Bjarni hefur átt góðan leik en fjarri því er að hann sé laus úr þessu máli. Vörn hans var vandræðaleg þrátt fyrir þessi útspil.

Eftir alla samningana og sukkið er komið nóg og tími til kominn að þessir menn svari fyrir ævintýralega framgöngu sína, sem hefur skaðað þjóðina í heild sinni.

mbl.is Bjarni endurgreiðir Glitni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðin vill eiga síðasta orðið um Icesave

Ég er ekki undrandi á því að stór hluti þjóðarinnar sé andvíg því að stjórnmálamenn eigi síðasta orðið í Icesave-málinu, allra síst veikburða ríkisstjórn með vart starfhæfan þingmeirihluta í málinu. Umboð stjórnmálamanna til að klára málið er vægast sagt veikt - þjóðin vill fá að tjá sig um málið, taka af skarið í þessari risavöxnu skuldbindingu fyrir komandi kynslóðir Íslendinga.

Skilaboðin eru skýr. Forseti Íslands á erfitt verkefni fyrir höndum - hann verður að taka afstöðu til þess hvort þjóðin eigi að eiga síðasta orðið eða stjórnmálamenn. Sú afstaða ætti því varla að vera svo erfið þegar hann horfir til eigin orða í fjölmiðlamálinu árið 2004. Þá talaði hann skýrt til þjóðarinnar í yfirlýsingu frá Bessastöðum.

Hann hlýtur að vera sjálfum sér samkvæmur og horfa til eigin orða á þeim umbrotatímum þegar hann virkjaði sjálfur 26. greinina. Hann mótaði þá leikreglur sem hann getur ekki gleymt í þessu máli, þegar rúmlega 30.000 Íslendingar hafa krafist þjóðaratkvæðis um Icesave.

Augljóst er að gjá er milli þings og þjóðar í þessu risavaxna máli. Valkostir forsetans virðast einfaldir: vísa málinu til þjóðarinnar eða segja af sér embætti sé hann maður orða sinna, standi við eigin leikreglur frá árinu 2004.

Hann er algjörlega ómarktækur og gerir forsetaembættið ómerkilegt og óþarft á sinni forsetavakt ætli hann að reyna að skjóta sér undan eigin orðum frá árinu 2004.

mbl.is Meirihluti vill kjósa um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þráinn bjargar vinstristjórninni frá falli

Vinstristjórnin hefði lognast út af í gær hefði Þráinn Bertelsson ekki lagt henni lið. Örlög Icesave-málsins ráðast því á afstöðu Þráins þegar ljóst er að nokkrir þingmenn vinstri grænna hafa risið upp og kosið eftir sannfæringu sinni en ekki flokksaga af svipuðu tagi og í ESB-kosningunni í júlí og fyrri Icesave-kosningunni í ágúst.

Í raun má velta fyrir sér hversu sterkt umboð ríkisstjórnin hefur í Icesave-málinu eftir niðurstöðu gærdagsins þegar haldreipi hennar er óháður þingmaður framboðs sem lagðist gegn Icesave í kosningabaráttunni síðasta vor. Lífstrengur vinstristjórnarinnar er ekki sterkur þegar treysta þarf á minnihlutaþingmenn.

En þetta hefur svosem verið vitað mál mánuðum saman. Vinstristjórnin samdi um Icesave í júní án þess að hafa þingmeirihluta og hefur aldrei haft sterkt umboð í þinginu til verka. Atkvæðagreiðslur um málið þar sýna veikleikamerkin á verkstjórninni í málinu.

mbl.is Engin lokadagsetning í Icesave-málinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ögmundur og Lilja fara gegn flokksaganum

Niðurstaðan í atkvæðagreiðslu var að mestu fyrirsjáanleg. Ögmundur Jónasson og Lilja Mósesdóttir eiga þó heiður skilið fyrir að þora að fara gegn flokksaganum og þrýstingi frá Samfylkingunni í þessari kosningu.

Þau styrkjast pólitískt með því að standa í lappirnar meðan margir flokksfélagar þeirra þora því ekki. Þau fóru allavega ekki á hlýðninámskeiðið með Atla Gíslasyni, sem var sendur í frí til að þurfa ekki að kjósa um Icesave.

Lágkúrulegt.

mbl.is Meirihluti samþykkti Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsetinn stingur af frá Icesave

Samningur stjórnar og stjórnarandstöðu um málsmeðferð Icesave mun vonandi leiða til þess að svör fáist við áleitnum spurningum um málið. Flótti Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, til Ohio, svo hann þurfi ekki að taka við málinu er augljóst merki þess að hann getur ekki horfst í augu við þjóðina, sem hefur krafist þess að fá að eiga lokaorðið um Icesave.

Augljós þjóðarvilji er fyrir því að stjórnmálamenn eigi ekki síðasta orðið í þessu máli. Þessi forseti sagði forðum að gjá væri milli þings og þjóðar. Hún er sannarlega til staðar í þessu umdeilda máli, mun frekar en í því máli sem hann talaði um. Þessi forseti er óttalega lítill karl ef hann er ekki samkvæmur sjálfum sér og tekur sömu afstöðu og fyrir fimm árum.

En sennilega er hann flúinn, stingur af frá Icesave - til þess að þurfa ekki að standa við fyrri yfirlýsingar um gjána margfrægu. Kannski er málið einmitt það að forsetinn er fallinn í gjána sjálfur.

mbl.is Ágreiningurinn leystur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var Atli Gíslason sendur á hlýðninámskeið?

Fregnir af fjarveru Atla Gíslason af þingi í miðri Icesave-þingumræðu er vandræðaleg viðbót fyrir vinstri græna, flokkinn sem ætlaði að vera svo gegnsær og traustur í ríkisstjórn en er orðin táknmynd pukurs og leynimakks í vinnubrögðum. 

Engu er líkara en Atli hafi verið sendur á hlýðninámskeið - svona til að hann færi nú ekki að gera einhverja vitleysu. Kannski er það líka eina leiðin til að greyið verði ráðherra eða fái einhverja bitlinga, en hann hefur hingað til setið hjá í þeim efnum.

Raunalegt fyrir alla hlutaðeigandi. Lítur út eins og karlgreyið hafi verið tekinn úr umferð meðan Icesave er rætt, er á viðkvæmum tímapunkti í þinginu.

mbl.is Atli í leyfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stöð 2 slær af Kryddsíldina og fréttaannálinn

Ég heyrði það í dag að fréttastofa Stöðvar 2 hefði ákveðið að slá af Kryddsíldina, áramótaþáttinn með formönnum stjórnmálaflokkanna, og fréttaannálinn, á gamlársdegi, að þessu sinni. Kryddsíldin var vettvangur mikilla láta fyrir tæpu ári þegar mótmælendur, sem ansi margir nefndu skríl, réðust á Hótel Borg til að reyna að klippa á þáttinn og komast inn í salinn til formannanna.

Sigmundur Ernir, sem þá var svo áhyggjufullur stjórnandi yfir borðhaldi með síld og bjór, varð á árinu þingmaður Samfylkingarinnar, eins og flestir muna og fjarri góðu gamni, en hann var stjórnandi þáttarins í fjöldamörg ár.

Þó kryddsíldin hafi verið umdeild fyrir ári hefur hún þó verið fastur liður í áramótauppgjörinu - flestir horfðu á þáttinn. Ekkert áramótauppgjör verður því á Hótel Borg á þessum gamlársdegi af hálfu Stöðvar 2.

Væntanlega er þetta bara sparnaður hjá illa stöddu fyrirtæki. Undarlegt er þó að fréttastofa hafi ekki meiri metnað en svo að slá bæði af áramótaþátt sinn og fréttannál á áramótum.

Ekki mikill metnaður á þeim bænum.


Sukkuð vinnubrögð - þarfar uppljóstranir

Þeir á WikiLeaks eiga hrós skilið fyrir að hafa birt mikilvæg gögn sem varpa ljósi á aðdraganda bankahrunsins og veruleikann sem hefur verið í gangi í íslensku viðskiptalífi. Lánabók Kaupþings, nú AraJóns, var plagg sem gott var að fá fram í dagsljósið og opna umræðuna um siðlaus vinnubrögð í bankakerfinu og sukkað andrúmsloft í kringum eigendurna.

SMS-skilaboðin á milli Þorsteins Ingasonar og Finns Ingólfssonar, fyrrum ráðherra og seðlabankastjóra, eru merkilegt innlegg í umræðuna - gefa til kynna skjalafals á æðstu stöðum í Kaupþingi. Kannski ekki mesta uppljóstrun síðustu vikna, hvorki innan eða utan þessa vefs, en ágætis innsýn í vinnubrögðin bakvið tjöldin.

Efa ekki að brátt munu mikilvæg skjöl fara að leka. Öll bíðum við svo eftir rannsóknarskýrslu Alþingis þar sem vonandi verður tappað af ólgunni og óánægjunni meðal landsmanna. Allir bíða eftir skýrslunni og vona að hún verði ekta uppgjör. Upphaf á nýjum tímum.

Án uppgjörs á fortíðinni verður erfitt að horfa til framtíðar og hugsa um nýja tíma í samfélaginu.

mbl.is SMS skilaboð til Finns birt á Wikileaks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband