Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hörð barátta framundan hjá Halldóri

Halldór Ásgrímsson

Það blasir við að hörð kosningabarátta mun verða um embætti framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar. Íslensk stjórnvöld hafa tilnefnt Halldór Ásgrímsson, fyrrum utanríkis- og forsætisráðherra, til starfans af okkar hálfu. Fyrirséð er að hörð barátta verði milli hans og Jan-Erik Enestam, umhverfisráðherra Finnlands, um embættið, en hann hefur verið ráðherra um árabil og var t.d. varnarmálaráðherra á árunum 1999-2003. Það er ljóst að ekki getur Enestam og Finnarnir einvörðungu bent á reynslu hans úr þeirri átt, enda hefur Halldór mun lengri ráðherraferil að baki og verið mjög áberandi í norrænni pólitík.

Það ræðst á Norðurlandaráðsþingi í næstu viku hvor fær hnossið. Halldór hefur þegar fengið mikilvægan stuðning Norðmanna til embættisins og ekki er óvarlegt að ætla að hann hafi stuðning Dana, enda er miðjuflokkurinn Venstre, systurflokkur Framsóknarflokksins, þar við völd. Spurning er hvernig Svíar líti á stöðu mála. Það verður því að teljast að staða Halldórs er góð í þessum efnum og gæti það hjálpað honum að miðjumenn standa sterkt á Norðurlöndum um þessar mundir. Altént mun stuðningur Norðmanna við hann fara langt með að tryggja honum embættið.

Fari svo að Halldór Ásgrímsson verði framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar mun hann verða staðsettur í Kaupmannahöfn og flytja því þangað. Það verður fróðlegt að sjá hvernig fer í þessum efnum. Víðtæk reynsla og þekking Halldórs Ásgrímssonar úr stjórnmálum mun skipta máli, auk þess að aldrei hefur Íslendingur gegnt embættinu.


Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík hafið

Sjálfstæðisflokkurinn

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík hófst á hádegi. Kosið verður bæði í dag og á morgun, en í dag verður kjörstaður aðeins í Valhöll. Það stefnir í spennandi kosningu og verður fróðlegt að sjá fyrstu tölur, en þær munu liggja fyrir nákvæmlega kl. 18:00 er kjörstaðir loka. Þá mun Þórunn Guðmundsdóttir, formaður kjörnefndar, lesa fyrstu tölur og munu tölur liggja svo fyrir á hálftímafresti allt þar til að yfir lýkur og úrslitin verða formlega ljós. Það er jafnan gaman að fylgjast með svona talningu en mikil spenna og stemmning var yfir prófkjörum Sjálfstæðisflokksins, bæði vegna þingkosninga haustið 2002 og borgarstjórnarkosninga í nóvember í fyrra.

Í kjöri í prófkjörinu eru: Ásta Möller, Birgir Ármannsson, Björn Bjarnason, Dögg Pálsdóttir, Geir H. Haarde, Grazyna M. Okuniewska, Guðfinna S. Bjarnadóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Illugi Gunnarsson, Jóhann Páll Símonarson, Kolbrún Baldursdóttir, Marvin Ívarsson, Pétur H. Blöndal, Sigríður Andersen, Sigurður Kári Kristjánsson, Steinn Kárason, Vilborg G. Hansen, Vernharð Guðnason og Þorbergur Aðalsteinsson. 19 eru því í kjöri. Í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í nóvember 2002 vegna þingkosninga þá voru 17 í kjöri, en t.d. voru 24 í prófkjöri flokksins vegna borgarstjórnarkosninganna í fyrra. Kjósendur geta valið 10 úr þessum 19 manna hópi.

Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, sækist einn eftir fyrsta sætinu og því ekki spenna um það, enda hefur formaðurinn ekki háð kosningabaráttu. Fyrirfram er mesta spennan milli Björns Bjarnasonar og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um annað sætið, sem er leiðtogastóll í öðru Reykjavíkurkjördæmanna. Auk þeirra er Pétur Blöndal í kjöri um það sæti, en flestir telja þó slaginn standa milli fyrrnefndra. Tekist er á af krafti ennfremur um þriðja sætið, en þar eru í kjöri Ásta, Birgir, Guðfinna, Illugi og Pétur. Um fjórða sætið takast svo þau Dögg og Sigurður Kári. Fyrirfram má telja mestu spennuna um þessi sæti.

Annars er nær ómögulegt að spá um hvernig staðan verður í dagslok á morgun. Fyrirfram má þó telja þingmennina sjö standa vel að vígi en þó er öllum ljóst að nýliðar geta komist í hóp þingmannanna. Vonandi fer það svo að góðir nýliðar komast ofarlega í bland við reynslumikla þingmenn. Þarna er öflugt og gott fólk í kjöri og erfitt val fyrir margan flokksmanninn þegar að hann heldur til að kjósa í dag og á morgun.

Vonandi munu góðir listar myndast með þessu prófkjöri og Sjálfstæðisflokkurinn styrkjast til muna í borginni í kosningunum. Nú hefur flokkurinn níu þingmenn í kjördæmunum tveim í Reykjavík, en á ekki að sætta sig við neitt minna en 10-11 að vori. Vonandi verða sóknarfæri til þess með góðum framboðslistum.


mbl.is Prófkjör Sjálfstæðismanna í Reykjavík fer vel af stað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lieberman á sigurbraut í Connecticut

Joe Lieberman

Flest bendir nú til þess að öldungadeildarþingmaðurinn Joe Lieberman muni hljóta öruggt endurkjör í Connecticut í þingkosningunum sem fram fara eftir tólf daga. Hefur hann haft forskot nær alla kosningabaráttuna og hefur það aukist nú hina síðustu daga. Lieberman hefur verið öldungadeildarþingmaður fylkisins allt frá árinu 1989 og nær allan þann tíma alveg óumdeildur sem slíkur og hlotið endurkjör í tveim kosningum, árin 1994 og 2000. Jákvæð afstaða Lieberman til Íraksstríðsins og stuðningur hans við ákvarðanir Bush-stjórnarinnar fyrir og eftir stríðið leiddi til víðtækrar óánægju með störf hans meðal íbúa í fylkinu og staða hans varð ótrygg.

Svo fór að lítt kunnur viðskiptamaður að nafni Ned Lamont ákvað að gefa kost á sér gegn honum. Framan af þótti hann ekki eiga séns gegn hinum víðreynda og vinsæla Lieberman sem var einn af forystumönnum flokksins á landsvísu. Á nokkrum mánuðum breyttist staðan. Svo fór að Lamont tókst að fella Lieberman í forkosningunum og ná útnefningu flokksins í þessu örugga vígi hans. Flestir töldu eftir tapið að Lieberman myndi lamast sem stjórnmálamaður. Allar stjörnur demókrata sem studdu hann snerust yfir til Lamont og flokksmaskínan sem malaði gegn Lamont varð að vinna fyrir hann. Lieberman hélt ótrauður sínu striki og boðaði óháð framboð á eigin vegum.

Lamont hefur aldrei náð alvöru forskoti á Lieberman síðan og nú stefnir í að hann tapi sjálfum kosningunum, þó formlegur flokksframbjóðandi demókrata sé. Tap Lieberman voru mikil tíðindi, enda var hann einn af helstu forystumönnum flokksins á landsvísu. Hann var útnefndur af Al Gore sem varaforsetaefni hans í forsetakosningunum 2000. Með því komst hann á spjöld sögunnar, enda fyrsti gyðingurinn í forystu forsetaframboðs annars af stóru flokkunum. Kosningabaráttan var jöfn og æsispennandi. Að lokum fór það svo að Gore og Lieberman urðu að gefast upp. Þar munaði aðeins hársbreidd að Lieberman yrði fyrsti gyðingurinn á varaforsetastól landsins.

Það verður gríðarlegt áfall fyrir Demókrataflokkinn og Ned Lamont ef flokkurinn tapar í Connecticut. Fátt virðist hafa gengið Lamont í hag í átökunum sjálfum, handan forkosninganna meðal flokksmanna. Hann hefur ekki komist út úr talinu um Íraksstríðið og varð bensínlaus á miðri leið, þrátt fyrir áfangasigurinn. Honum hefur mistekist að fókusera sig á aðra málaflokka og öðlast tiltrú kjósenda sem breiður stjórnmálamaður ólíkra hópa. Því fer sem fer væntanlega. Lieberman mun vinna.


Þjóðskjalasafnið birtir öll gögn um símhleranir

Þjóðskjalasafnið

Nú hefur Þjóðskjalasafn Íslands birt öll gögn um símhleranir stjórnvalda á heimasíðu sinni. Þetta eru vissulega nokkur tíðindi. Tel ég þetta hið eina rétta í málinu. Það verður að afhjúpa öll gögn frá þessum tíma og opna málið upp á gátt. Með þessu er úrskurður menntamálaráðherra vegna stjórnsýsluákæru Kjartans Ólafssonar, fyrrum ritstjóra og alþingismanns, að fullu uppfylltur og öll gögn liggja að fullu fyrir.

mbl.is Þjóðskjalasafnið birtir öll gögn um símhleranir á vefsíðu sinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pétri Árna bætt í prófkjörsslaginn í kraganum

Sjálfstæðisflokkurinn

Framboðsfrestur vegna prófkjörs í Suðvesturkjördæmi rann út 18. október sl. 10 einstaklingar gáfu kost á sér, 6 konur og 4 karlmenn. Nú hefur kjörnefnd ákveðið að bæta Pétri Árna Jónssyni, formanni Baldurs, f.u.s. á Seltjarnarnesi og fyrrum stjórnarmanni í SUS, við hóp frambjóðendanna tíu og rétta þar með við kynjaslagsíðuna sem augljós var. Þau sem taka þátt verða því: Ármann Kr. Ólafsson, Árni Þór Helgason, Bjarni Benediktsson, Bryndís Haraldsdóttir, Jón Gunnarsson, Pétur Árni Jónsson, Ragnheiður Elín Árnadóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Sigurrós Þorgrímsdóttir, Steinunn Guðnadóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Það stefnir í áhugavert prófkjör í kraganum. Þorgerður Katrín og Bjarni Ben eru þó nær óumdeild í fyrsta og annað sæti framboðslistans. Bæði hafa þau mikinn og afgerandi stuðning um allt kjördæmið, enda eru þau hin einu sem sækjast eftir endurkjöri af þeim alþingismönnum sem flokkurinn hlaut kjörinn í kraganum í kosningunum 2003. Auk þeirra er Sigurrós á þingi, en hún tók sæti við afsögn Gunnars Birgissonar, bæjarstjóra í Kópavogi. Um þriðja sætið takast Ragnheiður Ríkharðs og Ármann Kr. og hörkubarátta er svo framundan um fjórða sætið. Það verður því tekist á um neðri sætin af nokkurri hörku.

Tveir ungliðar eru í kjörinu; Bryndís og Pétur Árni. Þekki þau bæði mjög vel, enda sátum við öll saman í stjórn SUS árin 2003-2005. Þau hafa verið formenn f.u.s. í Mosó og á Nesinu. Ég hef mjög lengi metið Bryndísi mikils í ungliðastarfinu, enda er hún kraftmikil og öflug. Við höfum átt góða vináttu og unnið saman í ungliðadæminu. Leitaði hún til mín með stuðningskveðju til að birta á heimasíðu sinni og var það sjálfgefið af minni hálfu. Ég vona svo sannarlega að henni muni ganga vel og vil endilega leggja henni lið í þennan prófkjörsslag.


Lagt til að Karl verði bæjarritari

Karl Guðmundsson

Bæjarráð Akureyrar samþykkti á fundi sínum í morgun að leggja til við bæjarstjórn að Karl Guðmundsson, sviðsstjóri félagssviðs, yrði ráðinn í embætti bæjarritara. Þær breytingar verða bráðlega hjá Akureyrarkaupstað að embætti sviðsstjóra verða lögð niður og embætti bæjarritara stofnað að nýju, en það var lagt niður skömmu eftir valdatöku Sjálfstæðisflokks og Akureyrarlista (vinstriflokkaframboð) árið 1998.

Það vekur vissulega athygli að ráðið er í starf bæjarritara án auglýsingar. Það verður þó vissulega ekki sagt að Karl sé reynslulaus. Hann var bæjarritari hjá Dalvíkurbæ, sveitarstjóri í Hveragerði, framkvæmdastjóri Sjúkrahúss og heilsugæslustöðvar Suðurnesja, framkvæmdastjóri Hraðfrystihúss Ólafsfjarðar og fjármálastjóri FMN og Samskip Norge. Hann varð sviðsstjóri félagsmálasviðs Akureyrarbæjar árið 1999. 

Þrátt fyrir að Karl Guðmundsson sé mjög reyndur og hæfileikaríkur maður finnst mér óeðlilegt að staðan sé ekki auglýst. Það á að vera grunnkrafa í þessum efnum að staðan sé auglýst. Það er altént mín skoðun.

Uppstokkun Stjórnarráðsins

Geir H. Haarde

Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur nú lýst því yfir formlega að tímabært sé að endurskipuleggja Stjórnarráð Íslands eftir næstu alþingiskosningar, að vori, og sækist eftir því að mynda samstöðu milli forystumanna allra flokka um slíkar meginbreytingar. Lög um Stjórnarráð Íslands hafa verið nær alveg óbreytt frá árinu 1970.

Gleðiefni er að Geir láti þessi ummæli falli og ljái máls á alvöru breytingum á ráðuneytaskipan og öðrum hlutum sem þeim fylgja, enda opna þau á nauðsynlega uppstokkun, sem lengi hafa verið ræddar en lítið gerst í þeim efnum.

Í ítarlegum pistli mínum sem birtist á vef SUS í gær fjallaði ég um þessi mál og bendi á þau skrif hér með. Fer ég þar yfir stöðuna og jafnframt þær tillögur sem mest hefur verið um rætt sem vænlegar til breytinga á ráðuneytaskipan.

Framboðsfrestur liðinn - hugleiðingar mínar

falkinn1

Framboðsfrestur í prófkjör Sjálfstæðisflokksins hér í Norðausturkjördæmi rann út nú síðdegis. Síðast þegar að ég vissi höfðu níu einstaklingar gefið kost á sér. Kjörnefnd mun, eftir því sem mér skilst, ekki hittast fyrr en á laugardag til að staðfesta endanlega öll framboð og ganga frá öllum málum tengdum þessu prófkjöri, enda er kjörnefndarfólk dreift um allt kjördæmið. Prófkjör mun verða haldið laugardaginn 25. nóvember, eftir sléttan mánuð og mun talning fara fram á Akureyri sunnudaginn 26. nóvember. Það mun væntanlega verða mjög spennandi talning og áhugaverðar línur sem að verða að henni lokinni.

Ég tilkynnti hér á vefnum 15. október sl. að ég hefði ekki áhuga á að gefa kost á mér í prófkjöri flokksins í Norðausturkjördæmi. Það er langt síðan að ég tók þá ákvörðun. Ég hugleiddi málið með mér í sumar og komst að því að ég ætti að horfa í aðrar áttir. Það er mjög dýrt að fara í svona slag, að ég tel í prófkjöri með þeim hætti sem útlistað er í prófkjörsreglum okkar, með almennilegum hætti svo vel eigi að vera og kostar gríðarlegan tíma, bæði til ferðalaga og annarra hluta. Þetta er að mjög mörgu leyti nokkuð harður heimur og þarf gríðarlegan áhuga og kraft til að halda í allar hliðar þess heims.

Á þessum tímapunkti finn ég ekki þörfina og áhugann til slíks framboðs og tel því óraunhæft að halda í þetta. Auk þess finnst mér mun vænna um þann heim sem ég hef byggt mér hérna með því að vanrækja hann og tel mig mun betur kominn sem beittan stjórnmálaskýranda inn í eigin flokk og í aðrar áttir. Það á betur við mig. Ég fór í prófkjör fyrr á þessu ári og bauð mig fram sem valkost hér. Þær hugmyndir og hugleiðingar sem ég bauð þá fram hittu ekki í mark. Það sem ég bauð upp á var valkostur af því tagi sem persóna mín hefur einkennst af. Þannig að ég tel framboð nú ekki vænlegan kost og var fljótur að afskrifa það.

En það er mín ákvörðun. Ég hef nú frelsi til að greina stöðu mála innan eigin flokks og annarsstaðar með öðrum hætti og það er valkostur sem ég hef valið sjálfum mér og tek fagnandi. Heimsmynd mín er með þessum hætti og ég ætla mér að nota hana af miklum krafti. Þar á hugur minn heima þessa stundina. Ég geri meira gagn með því að standa utan beinnar stjórnmálaþátttöku og stunda pólitík frá mínum eigin grunni, en ekki annarra.

Flott prófkjörsbarátta sjálfstæðiskvenna í Rvk

Guðfinna Ásta Möller Sigga Andersen Dögg Pálsdóttir

Það er ánægjulegt að fylgjast með prófkjörsátökunum sem eru í gangi um allt land úr hæfilegri fjarlægð. Það er notalegt að geta sagt það sem manni finnst af krafti. Hef fylgst mjög með prófkjörsslag sjálfstæðismanna í Reykjavík. Þar eru kjördagar á föstudag og laugardag, úrslitastundin nálgast því óðfluga. Í prófkjörinu í nóvember 2002 var mikið talað um að sjálfstæðiskonur hafi fengið skell. Það er ekki óeðlileg ályktun á málum, enda komust aðeins Sólveig Pétursdóttir og Ásta Möller inn á topp tíu listann og í kosningunum um vorið komst aðeins Sólveig inn á þing, þó vissulega hafi Ásta komist svo á þing að nýju við brotthvarf Davíðs Oddssonar haustið 2005.

Mér finnst prófkjörsbarátta sjálfstæðiskvenna að þessu sinni hafa verið litrík og fersk. Það eru viss tímamót að Sólveig Pétursdóttir er að hætta, hún er ekki í prófkjörinu og það eru því vissulega sóknarfæri fyrir nýjar konur að sækja fram og Ásta Möller fer sem sitjandi þingmaður fram til forystu. Allar konurnar sem fara fram núna eru frambærilegar og öflugar, hver á sinn hátt. Mér finnst prófkjörsbarátta þeirra og krafturinn sem sést í henni mjög fínn. Sérstaklega eru þær allar á réttri leið í vefmálum, en eins og allir alvöru stjórnmálaáhugamenn vita er vefsíða essential lykilatriði í svona kosningaslag, vilji frambjóðandi yfir höfuð ná að koma boðskap á framfæri.

Sérstaklega finnst mér mikill ferskleiki yfir prófkjörsbaráttu Sigríðar Á. Andersen og Guðfinnu S. Bjarnadóttur, sem eru báðar með prófkjörsskrifstofu í gamla Landssímahúsinu við Austurvöll. Sigga hefur verið litrík og fersk með flotta litatóna í baráttunni og hressandi kraft sem skilar sér alla leið til þess sem með fylgist. Það er altént mitt mat. Hennar barátta er björt og hress, slær flotta lykiltóna sem skipta máli. Guðfinna fer fram að hætti menntakonunnar sem sækist eftir áhrifum á vettvangi stjórnmála, kemur með reynslu og sóknarfæri sem valkost fyrir flokkinn sinn. Hún er líka með tóna valfrelsi og skapandi umhverfis í baráttunni, tóna sem láta vel í eyrum okkar allra.

Ásta Möller býður reynslu fyrir kjósendur. Hún er sitjandi þingmaður, með mikla þekkingu á stöðu mála og virðist vera með góðan stuðning lykilfólks, t.d. er Ragnhildur Helgadóttir, annar kvenráðherra landsmanna og þekkt forystukona innan Sjálfstæðisflokksins um árabil, stuðningskona hennar og talar hennar máli af krafti. Það er styrkleiki fyrir Ástu að hafa Ragnhildi í sínum röðum, enda Ragnhildur virt forystukona frá fyrri tíð. Ekki finnst mér hafa komið nægilega vel fram hverja Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis, styðji til forystu af hálfu kvennaarmsins. Sólveig hefur verið forystukona á listanum frá tímum Ragnhildar - hennar afstaða skiptir máli.

Dögg Pálsdóttir hefur verið með flottan vef og hressileg í prófkjörsslagnum. Dagbókin hennar er vel uppfærð á vefnum og hún veit vel hvaða áherslur eru réttar. Það voru margir hissa þegar að hún gaf kost á sér, enda er hún virtur lögfræðingur og þekkt fyrir verk sín á því sviði. Nú vill hún verða stjórnmálamaður í fremstu röð innan Sjálfstæðisflokksins og það verður fróðlegt að sjá hvort henni tekst að byggja sig upp með þeim krafti sem til þess þarf.

Altént stefnir í spennandi helgi. Það verður sérstaklega spennandi að sjá hvernig þessum konum muni ganga og með því verður fylgst þegar að tölurnar taka að berast síðdegis á laugardag. Ég vona að þeim gangi vel, enda eru þetta allt kjarnakonur sem verðskulda gott gengi í prófkjöri og verður fengur að í þingkosningum að vori fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Spenna í bandarísku þingkosningunum

Kosningar í USA

Það stefnir í mjög spennandi þingkosningar í Bandaríkjunum eftir hálfan mánuð. Staða repúblikana virðist vera mjög erfið og við blasa töpuð staða í fulltrúadeildinni og jafnt standi jafnvel í öldungadeildinni. Skoðanakannanir sem birtust um helgina lofa ekki góðu fyrir repúblikana altént og stefnir í erfiðan lokasprett, með þeim erfiðari fyrir flokksmenn til fjölda ára í kosningabaráttu vestan hafs. Í ljósi alls þessa kemur ekki að óvörum að George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, boði til blaðamannafundar í Hvíta húsinu í dag til að fara yfir stöðu mála og svara spurningum fjölmiðlamanna um þau málefni sem hæst bera nú.

Það verður seint sagt að Bush forseti hafi haldið marga blaðamannafundi á tæplega sex ára forsetaferli sínum. Það hefur verið sjaldgæfur viðburður og jafnan þótt boða mikilvægi þess að forsetinn léti meira á sér bera til þess að efla flokk sinn með einum eða öðrum hætti. Það er öllum ljóst að Bush hefur látið mikið á sjá sem stjórnmálamaður. Það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt. Hann getur ekki haldið í aðrar kosningar og er því á lokaspretti sem stjórnmálamaður að mestu leyti. Það er oft hlutverk forseta í Bandaríkjunum í svona stöðu; hefur unnið tvær forsetakosningar og er með lamaða stöðu í almenningsálitinu eða þingið á móti sér.

Ósjálfrátt hallar undan fæti í svona stöðu. Þess vegna er æ mikilvægara fyrir forsetann að ná að halda inngripi inn í þingsalina, flokkur hans haldi þinginu. Ef marka má kannanir er staðan skelfileg sé litið á fulltrúadeildina og fátt virðist geta komið í veg fyrir valdaskipti þar nema hreint kraftaverk. Foley-málið hefur verið lamandi fyrir repúblikana ofan á margt annað og veikt stoðir þeirra sem máttu ekki við áfalli, trúaða hægrimenn sem þola ekki beint siðferðisbresti á borð það sem kom fram í því máli. Öldungadeildin virðist standa í járnum eins og nú horfir. Ef Bush missir völd í þingdeildunum syrtir verulega í álinn með stöðu hans lokasprett valdaferilsins.

Það eru því nokkrir örlagatímar í bandarískum stjórnmálum þessa dagana. Kosningabaráttan er að líða undir lok og þar kemur mæling á stöðunni núna. Það skiptir máli í forsetakosningunum 2008 þegar að eftirmaður George W. Bush verður kjörinn. Sum átök kosninganna nú eru meira í fréttum en annað. Það verður mest horft væntanlega til Connecticut, þar sem að Joe Lieberman heyr baráttu ferilsins sem óháður við manninn sem felldi hann í forkosningu meðal demókrata í fylkinu í ágúst, Ned Lamont. Allar kannanir benda til sigurs Lieberman. Arnold Schwarzenegger og Hillary Rodham Clinton þurfa svo væntanlega ekki mikið að hafa fyrir endurkjöri.

Þetta verða kosningar sem fylgst verður með. Nú ræðst hvort Bush snýr vörn í sókn eður ei. Nái hann því ekki verða næstu tvö árin, endaspretturinn á stormasömum stjórnmálaferli, frekar vandræðalegar og erfiðar fyrir þennan sextuga harðjaxl frá Texas, sem heldur heim innan skamms en á þó nokkur mikilvæg misseri enn eftir sem húsbóndi í Pennsylvaníu-stræti 1600.


mbl.is Bush boðar til blaðamannafundar í Hvíta húsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband