Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
25.10.2006 | 13:10
Syrtir í álinn fyrir Verkamannaflokkinn

Ný skoðanakönnun breska dagblaðsins The Guardian sýnir forskot Íhaldsflokksins á Verkamannaflokkinn nú hið mesta í tvo áratugi. Íhaldsflokkurinn mælist með 39%, Verkamannaflokkurinn er með 29% og frjálslyndir hafa 22%. Þetta er mjög merkileg niðurstaða og sýnir vel þann vanda sem nú blasir við Verkamannaflokknum eftir áratug við völd undir forystu Tony Blair, forsætisráðherra, sem þegar hefur tilkynnt að hann láti af embætti fyrir flokksþing næsta haust. Í maí hefur Verkamannaflokkurinn leitt ríkisstjórn samfellt í nákvæmlega tíu ár og má búast við þáttaskilum fyrir flokkinn að því loknu þegar að formleg leiðtogaskipti verða.
Það hafa orðið straumhvörf í breskum stjórnmálum. Það hefur sést mjög vel seinustu vikurnar. Gullnu dagar Tony Blair og Verkamannaflokksins eru löngu liðnir - það hefur syrt í álinn. Staða mála er mjög augljós þessa dagana. Það hefur sést vel allt þetta ár að staða forsætisráðherrans og flokksins hefur veikst gríðarlega. Kjósendur vilja uppstokkun - nýja sýn og breytta tíma við stjórn landsins. Það sér fulltrúa þessara nýju tíma í David Cameron, leiðtoga Íhaldsflokksins. Cameron hefur eflt flokkinn gríðarlega á því tæpa ári sem hann hefur leitt íhaldsmenn. Meginstefnubreytingar hafa orðið, skipt var um merki flokksins og ásýnd. Nýir tímar eru komnir þar.
Enn stefnir flest í að Gordon Brown, fjármálaráðherra, verði eftirmaður Tony Blair sem forsætisráðherra og leiðtogi Verkamannaflokksins á næsta ári. Þó verður einhver samkeppni um það. Við hefur blasað lengi að stór hluti Blair-armsins vill ekki færa honum leiðtogahlutverkið á silfurfati, vissir um að hann geti ekki sigrað næstu þingkosningar. Það sem hefur breyst er að landsmenn telja það líka að stóru leyti. Cameron er enda vinsælli nú en bæði Blair og Brown. Það hefðu eitt sinn þótt tíðindi, en ekki lengur að mörgu leyti. Brown er í huga margra maður sömu tíma og kynslóðar og Tony Blair.
Það verður því fróðlegt að sjá hvað framtíð næstu mánaða ber í skauti sér, þegar að formlega líður að lokum langs valdaferils Tony Blair. Þá fyrst verður vissara hvernig vindar blása í þingkosningunum árið 2009. Nú þegar má altént finna vinda breytinga blása um bresk stjórnmál. Þessi könnun og margar hinar fyrri staðfesta það mjög vel að straumhvörf hafa orðið.
25.10.2006 | 00:31
Formleg tilnefning Halldórs Ásgrímssonar

Fram kom í kvöldfréttum ljósvakamiðlanna það sem ég sagði hér fyrr í dag að Halldór Ásgrímsson, fyrrum forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, muni verða tilnefndur af Íslands hálfu sem framkvæmdastjóraefni í Norrænu ráðherranefndinni. Í fyrrnefndum skrifum mínum fór ég yfir víðtæka stjórnmálareynslu Halldórs, sem var ráðherra samfellt í tæpa tvo áratugi, flokksleiðtogi í rúman áratug og þingmaður í þrjá áratugi, áhrifamaður í íslenskum stjórnmálum.
Það er mjög eðlilegt að íslensk stjórnvöld tilnefni fyrrum forsætisráðherra til þessa embættis og ég vona að Halldór fái hnossið eftir langan stjórnmálaferil sinn og víðtæka reynslu á mörgum sviðum. Það verður styrkleiki fyrir okkur að fá Íslending til starfans.
![]() |
Lagt til að Halldór Ásgrímsson verði næsti framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.10.2006 | 11:44
Halldór tilnefndur í norræna toppstöðu

Flest bendir nú til þess að Halldór Ásgrímsson, fyrrum forsætisráðherra, verði tilnefndur af Íslands hálfu í embætti framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar. Mikið hefur verið hugleitt eftir að Halldór hætti þátttöku í stjórnmálum eftir rúmlega þriggja áratuga feril sinn hvað hann myndi takast á hendur og virðist svarið við því vera að koma í ljós. Það hefur aldrei gerst áður að Íslendingur gegni þessu embætti og virðist stefna í átök milli Íslendinga og Finna um hnossið. Halldór, sem var forsætisráðherra í tvö ár, utanríkisráðherra í rúm níu ár (lengur en nokkur annar íslenskur stjórnmálamaður), og að auki sjávarútvegs- og dómsmálaráðherra, hlýtur að teljast hafa sterka stöðu í þessum efnum.
Halldór Ásgrímsson var það lengi í stjórnmálum að víða ná þræðir hans í samskiptum við forystumenn norrænna stjórnmála. Það bendir nú allt til þess að Jónína Bjartmarz, samstarfsráðherra Norðurlanda hafi í hyggju að tilnefna Halldór til þessa embættis og hann verði valkostur okkar. Fyrir liggur nú þegar að íslensk stjórnvöld vilji fá sinn fulltrúa í embættið og má telja Halldór með mjög sterka stöðu í þeim efnum eftir langan pólitískan feril. Virðist grunnvinna þessa alls vera komin nokkuð langt á leið, en fyrirhugað er að valið fari fram eigi síðar en á Norðurlandaráðsþingi innan skamms.
Það verður fróðlegt að fylgjast með þessu og hvort að Halldór Ásgrímsson verði framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar. Fari svo yrði hann sem slíkur staðsettur í Kaupmannahöfn og þyrfti því að huga að búferlaflutningum yfir hafið í borgina við sundin.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.10.2006 | 00:44
Umræður frambjóðenda í Reykjavík



Það stefnir í spennandi lokasprett í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins. Örfáir dagar til stefnu og flestir flokksmenn bíða spenntir eftir úrslitunum, hvernig listar flokksins verði skipaðir í borgarkjördæmunum í kosningunum að vori. Í kvöld ræddu þeir frambjóðendur sem bjóða sig fram í annað sæti framboðslistans, til forystu í öðru kjördæmi borgarinnar, stöðu mála og prófkjörsbaráttuna almennt í viðtali í Íslandi í dag á Stöð 2. Það var fróðlegt að sjá Björn Bjarnason, Guðlaug Þór Þórðarson og Pétur H. Blöndal í þessu viðtali.
Ég hef margoft sagt það hér að ég vona að Björn Bjarnason fái umboð til forystuverka. Hann á að baki langan feril í stjórnmálum og farsæl verk á mörgum sviðum sem vert er að minnast í vali á borð við þetta. Ég hef lengi þekkt Björn Bjarnason og metið hann mikils. Það er hið eina rétta að hann fái góða kosningu í leiðtogasæti eftir öll sín góðu verk fyrir Sjálfstæðisflokkinn í áranna rás. Allir eru þessir frambjóðendur þingmenn sem hafa unnið lengi fyrir flokkinn og njóta stuðnings flokksmanna fyrir þau verk til þingstarfa áfram og eiga það skilið.
Mestu skiptir þó reynsla og þekking Björns til forystu. Ég vona að hann fái gott umboð í þessu prófkjöri og tek í sjálfu sér undir það sem Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði í Valhöll á laugardag um pólitísk verk Björns Bjarnasonar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.10.2006 | 13:17
200 dagar til alþingiskosninga
Í dag eru 200 dagar í alþingiskosningar, en þær fara fram laugardaginn 12. maí nk. Spennan er orðin mikil vegna kosninganna. Prófkjör stjórnmálaflokkanna eru að hefjast af krafti. Hið fyrsta er nú um helgina, en þá munu sjálfstæðismenn í Reykjavík velja frambjóðendur sína á listana tvo í borginni. Eftir það tekur svo hvert prófkjörið við af öðrum. 11. nóvember verður hörkufínn prófkjörsdagur, en þann dag verða fjögur mjög stór prófkjör hjá Sjálfstæðisflokki og Samfylkingunni.
Mánuður er nú í prófkjör Sjálfstæðisflokksins hér í Norðausturkjördæmi. Framboðsfrestur rennur út á miðvikudaginn og verður fróðlegt að sjá hvort og þá hverjir muni bætast í hóp þeirra níu sem tilkynnt hafa um framboð sín. Það stefnir í spennandi prófkjör, en þrír gefa kost á sér í leiðtogastólinn og má búast við líflegum átökum um forystusessinn, nú þegar að Halldór Blöndal hættir í stjórnmálum eftir langt og farsælt verk á þeim vettvangi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.10.2006 | 09:03
Spenna í prófkjöri SF í borginni

Það stefnir í mjög spennandi prófkjör hjá Samfylkingunni í Reykjavík þann 11. nóvember nk. Þar verða 15 í kjöri, þar af hafa tíu þeirra tekið sæti á þingi, meðal þeirra eru þau 8 sem sitja nú á þingi fyrir Samfylkinguna í Reykjavík. Allir þingmenn flokksins þar gefa því kost á sér til endurkjörs. Flest þeirra sem við bætast í prófkjörið nú er því fólk sem er þekkt fyrir störf sín að stjórnmálum. Auk þessu eru nokkrir nýliðar í slagnum. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, er ein í kjöri um fyrsta sætið. Um annað sætið, hinn leiðtogastólinn, takast þau Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson. Samstaða virðist að mestu um að þau þrjú verði í efstu sætunum.
Það verður spennandi að sjá hvort þeirra verði í öðru sætinu. Þau leiddu lista flokksins í borginni í kosningunum 2003. Þá var Össur í fyrsta sætinu, enda formaður flokksins, og Jóhanna í öðru, en hún sigraði Bryndísi Hlöðversdóttur í slag um annað sætið. Jóhanna hefur verið á þingi í nærri þrjá áratugi, frá árinu 1978, því með mikla reynslu að baki og er nú starfsaldursforseti þingsins. Jóhanna sigraði í prófkjöri Samfylkingarinnar árið 1999 og verið drjúg í prófkjörum. Össur hefur verið á þingi í 15 ár og var formaður Samfylkingarinnar 2000-2005 og er nú þingflokksformaður. Það blasir við að það þeirra sem verður undir tekur þá annað sætið á lista leiddum af Ingibjörgu Sólrúnu.
Um fjórða sætið verður barist af krafti. Þar eru sjö í baráttunni, þau Ágúst Ólafur Ágústsson, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Helgi Hjörvar, Mörður Árnason, Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Valgerður Bjarnadóttir. Þarna getur allt gerst. Hver örlög þeirra verða sem undir verða verður fróðlegt að sjá. Aftur fram á pólitíska sjónarsviðið eru svo komnir þingmennirnir fyrrverandi Ellert B. Schram og Þórhildur Þorleifsdóttir. Ellert var þingmaður Sjálfstæðisflokksins 1971-1979 og 1983-1987 en Þórhildur fyrir Kvennalistann 1987-1991. Ellert fór síðast í prófkjör árið 1982 en Þórhildur hefur það aldrei gert. Fylgst verður mjög vel með hvernig þeim gengur.
Það vekur athygli að Stefán Jón Hafstein, borgarfulltrúi og leiðtogi Samfylkingarinnar innan R-listans 2002-2006, gefur ekki kost á sér í prófkjörinu og hyggst því greinilega sinna borgarmálunum áfram. Sennilega hefur hann litið svo á að slagurinn væri orðinn of þröngur og erfitt að ná að komast ofarlega á lista, nógu ofarlega svo hann gæti unað við. Það verður fróðlegt hvað hann gerir í pólitíkinni í kjölfar þessa.
Þetta verður altént spennandi prófkjör og fróðlegt að sjá hvernig raðast upp. Meginhluti þessa fólks er allt mjög sterkt pólitískt og hefur gegnt pólitískum trúnaðarstörfum svo að það verður fróðlegt að sjá útkomuna.
![]() |
Fimmtán bjóða sig fram í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.10.2006 | 00:29
Öflugur fundur í Valhöll

Ég las í flugvélinni milli Reykjavíkur og Akureyrar í kvöld ítarlega forsíðufrétt Morgunblaðsins um fund Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, og Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra, sem haldinn var í Valhöll í gær. Því miður gat ég ekki setið fundinn, þó ekki væri ég langt staddur frá Reykjavík, en ég var á málefnaþingi SUS í Reykjanesbæ um helgina. Það er mikilvægt að þessir tveir forystumenn innan flokksins, kjördæmaleiðtogar í Reykjavík, fundi saman og sérstaklega mikilvægt að þar sé rætt um öryggismál Íslands, stöðu mála á þessum tímapunkti.
Það er gleðiefni að sjá hversu vel forsætisráðherra talar um pólitísk verk Björns Bjarnasonar hin síðustu ár. Tek ég undir ummæli Geirs í þessum efnum. Björn er einn traustasti og besti ráðherra sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur átt í sögu sinni. Yfirburðaþekking hans á utanríkis- og varnarmálum hefur skipt miklu máli og gleðiefni að formaður flokksins og forsætisráðherra fari svo vel yfir verk Björns almennt með þessum hætti.
Þetta virðist hafa verið velheppnaður og öflugur fundur í Valhöll og leitt að geta ekki setið hann. Það var fróðlegt að lesa frétt Moggans um þetta í sunnudagsblaðinu.
![]() |
Geir segir aðför að Birni Bjarnasyni sérlega ógeðfellda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.10.2006 | 21:59
Notaleg og góð helgi í Reykjanesbæ
Þinghaldi lauk síðdegis. Áður en ég hélt heim með kvöldflugi til Akureyrar leit ég við á kosningaskrifstofu Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra, í Skúlagötu og átti gott spjall við Björn um fjölda mála, en mikið er um að vera í stjórnmálum og prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík verður um næstu helgi. Var ánægjulegt að ræða við Björn og Óskar Friðriksson, sem þar var staddur, en hann hefur alla tíð verið Sjálfstæðisflokknum mikilvægur í innra starfinu.
Vil þakka öllum þeim sem voru á þinginu fyrir góða helgi og mikla skemmtun. Var virkilega gaman og við sem fórum höfðum gagn og ánægju af vinnu helgarinnar, stefnumótun og samhentri vinnu sem þar fór fram. Kosningabarátta ungra sjálfstæðismanna er hafin af krafti. Bendi hérmeð á umfjöllun um stjórnmálaályktun málefnaþingsins.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.10.2006 | 12:30
Svavar, Stasi og Jón Baldvin

Það er vandræðalegt fyrir Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrum utanríkisráðherra, að nú hafi komist upp að hann hafi viljað rannsaka fortíð Svavars Gestssonar, samráðherra hans í ríkisstjórn 1988-1991, með tilliti til þess hvort hann hefði starfað fyrir austurþýsku leyniþjónustuna Stasi á námsárum sínum í Þýskalandi. Mun sú athugun hafa farið fram meðan að báðir voru ráðherrar á fyrrnefndu tímabili. Það hefur margt komið fram í þessari viku. Greinaskrif Þórs Whitehead hafa afhjúpað ýmislegt. Þar vísar hann á að Jón Baldvin hafi falið Róbert Trausta Árnasyni, fyrrum sendiherra, þetta verk og hefur Róbert Trausti fjallað nú seinustu dagana um það.
Takast nú Jón Baldvin og Róbert Trausti á í fjölmiðlum um málið af hörku. Eins og Svavar Gestsson sjálfur hefur bent á er erfitt fyrir hann að taka afstöðu með öðrum þeirra, enda vitað mál að annar þeirra greinir rangt frá. Er þetta mál hið vandræðalegasta fyrir Jón Baldvin eftir þær uppljóstranir hans að skrifstofusími hans hafi verið hleraður. Er merkilegast af öllu að mun þessi athugun eiga að hafa farið fram í umboði Jóns Baldvins og Steingríms Hermannssonar, þáv. forsætisráðherra. Athygli vekur að Steingrímur hefur ekki viljað tjá sig um þetta mál. Ef rétt reynist er um að ræða mikinn álitshnekki yfir viðkomandi ráðherrum.
Í Kastljósi í gærkvöldi var rætt við Margréti Frímannsdóttur, síðasta formann Alþýðubandalagsins, um þessi mál. Virtist hún hella sér yfir Jón Baldvin og hafði fá góð orð um hans framgöngu að segja. Er greinilegt að vinstrimenn eru ekki lengur sameinaðir í því að standa með Jóni Baldvin í öllum þessum málum. Róttækasti hluti Samfylkingarinnar er hættur að verja hann og hans frásögn. Er enda alveg ljóst að þar hefur hann orðið margsaga og þetta mál er allt hið versta fyrir Jón Baldvin, sem var þegar í erfiðri stöðu að mörgu leyti. Merkilegast var að heyra í Svavari Gestssyni sjálfum sem greinilega gefur sér ekki að Jón Baldvin segi rétt frá.
Þetta er allt hið merkilegasta mál.
19.10.2006 | 15:46
Sleggjan reiðir til höggs

Það kemur fáum að óvörum að Kristinn H. Gunnarsson, alþingismaður, a.k.a. Sleggjan, tilkynni nú um leiðtogaframboð í Norðvesturkjördæmi. Það stefnir í mjög spennandi uppgjör milli Magnúsar Stefánssonar, félagsmálaráðherra, og Kristins um leiðtogastól Framsóknarflokksins í kjördæminu. Fram fer póstkosning allra flokksmanna á svæðinu. Það var mikið áfall fyrir Magnús og stjórn kjördæmisráðsins að ekki skyldi fást í gegn tillaga stjórnar um að velja frambjóðendur í efstu sæti á tvöföldu kjördæmisþingi. Hörð átök urðu milli stuðningsmanna Magnúsar og Kristins og átakakosningu um tillögu stjórnarinnar lauk með sigri liðsmanna Sleggjunnar.
Greinilegt er að Kristinn H. og hans stuðningsfólk vann merkilegan sigur á því kjördæmisþingi. Þeirra leið verður farin og við tekur póstkosning þar sem allir flokksmenn hafa jöfn áhrif. Með því verður ekki tryggður neinn fléttulisti vissra svæða og jafnt kynjahlutfall í efstu sæti eins og varð í aðdraganda þingkosninganna 2003. Engum hefur dulist samskiptaleysi þingmannanna tveggja í kjördæminu og milli þeirra hefur allt að því ríkt kalt stríð. Það hefur verið metið svo að Magnús Stefánsson hafi svo verið gerður að félagsmálaráðherra við brotthvarf Halldórs Ásgrímssonar úr stjórnmálum gagngert til að treysta stöðu hans í kjördæminu í pólitískum átökum við Kristinn.
Auk þeirra tveggja hefur Herdís Sæmundardóttir tilkynnt um framboð sitt í 1. sætið, en hún nefnir hið annað með í þeim efnum. Enginn vafi leikur á því að sá sem hagnast mest á póstkosningunni verður væntanlega Kristinn H. En hvort að þetta form á kosningu tryggir það mjög stöðu Kristins að hann verði leiðtogi Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi í kosningunum að vori verður að ráðast. Altént má fullyrða að félagsmálaráðherrann verði að berjast fimlega og af krafti til að halda sínu. Þetta verður mjög beitt og hressileg prófkjörsbarátta sem þarna verður háð.
Fyrst og fremst vekur mikla athygli gríðarlega hörð, allt að því óvægin, barátta fylkinga framsóknarmanna í kjördæminu og greinilegt að samstaðan þar er lítil sem engin og kristallast mjög vel í að stjórn kjördæmisráðs varð algjörlega undir með sína afstöðu til þess hvernig velja skuli efstu frambjóðendur.
![]() |
Sækist eftir fyrsta sæti Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |