Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Talsmaður neytenda í þingframboð

Gísli Tryggvason

Nú hefur Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, tilkynnt um framboð sitt í annað sæti á lista Framsóknarflokksins í kraganum. Það verður væntanlega nokkur slagur um það sæti, en listinn verður kjörinn á tvöföldu kjördæmisþingi flokksins, eins og í öllum kjördæmum nema Norðvesturkjördæmi. Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra, virðist óumdeild sem leiðtogi listans. Páll Magnússon, bæjarritari í Kópavogi, skipaði annað sætið í síðustu kosningum en ætlar ekki í framboð nú, enda orðinn embættismaður í Kópavogi og ætlar að helga sig því.

Ég er handviss um að Gísli Tryggvason er heiðursmaður, eins og hann á ættir til. Hann er vel ættaður inn í Framsókn. Faðir hans, Tryggvi Gíslason, var skólameistari MA í áratugi og föðurbróðir hans, Ingvar Gíslason, var þingmaður Framsóknarflokksins hér á Norðurlandi um árabil og menntamálaráðherra í ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens 1980-1983. Það er nú svo að ég skil ekki algjörlega til fulls þennan titil talsmaður neytenda.

Er þetta talsmaður minn og þinn, lesandi góður, á neytendamarkaði? Botna ekki í þessu fimbulfambi. Er þetta ekki bara enn ein staðan sem er sett fram til að dekka framsóknarmenn hjá hinu opinbera. Kannski harkalegt mat, en hvað með það. En getur talsmaður neytenda farið í þingframboð og verið talsmaður á meðan? Þegar að stórt er spurt verður oft skelfilega fátt um svör.

mbl.is Gísli Tryggvason í framboð fyrir Framsóknarflokkinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ágúst Ólafur stefnir á fjórða sætið

Ágúst Ólafur

Á sama klukkutímanum og ég skrifaði hér og undraðist að Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, hefði ekki enn tilkynnt framboð sendi hann frá sér tilkynningu um framboð í fjórða sætið í prófkjöri flokksins í Reykjavík þann 11. nóvember nk. Með því tekur hann slaginn við Mörð Árnason, Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, Helga Hjörvar, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, Valgerði Bjarnadóttur og Guðrúnu Ögmundsdóttur.

Það verður mikill hörkuslagur um þetta sæti greinilega og verður spennandi að sjá hver hreppir það og hvernig næstu menn raðast. Þetta verður greinilega spennuþrungið prófkjör sem áhugavert verður að fylgjast með.

mbl.is Ágúst Ólafur stefnir á fjórða sætið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilkynning Marðar - beðið eftir Stefáni og Ágústi

Mörður

Nú styttist í að framboðsfrestur renni út í prófkjör Samfylkingarinnar í Reykjavík, sem fram fer þann 11. nóvember nk. Nú hefur Mörður Árnason, alþingismaður, tilkynnt um framboð sitt í 4. - 6. sætið. Það er varla undrunarefni að þingmaður er hefur setið eitt tímabil vilji vera lengur, en Merði hafði mistekist naumlega bæði í kosningunum 1995 og 1999 að komast á þing. Það verður fróðlegt að sjá honum að muni ganga. Mikill fjöldi hefur gefið sig upp og orðinn þröngt setinn bekkurinn um 4.-6. sætið. Sú fyrsta til að gefa sig upp var Steinunn Valdís Óskarsdóttir, borgarfulltrúi, og margir bæst svo við. Nýlega tilkynnti þó Gylfi Arnbjörnsson að hann hefði hætt við.

Stefán Jón Hafstein Ágúst Ólafur

Beðið er eftir ákvörðun Stefáns Jóns Hafsteins, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar í Reykjavík, og Ágústs Ólafs Ágústssonar, varaformanns Samfylkingarinnar, um framboð. Mikla athygli vekur að varaformaðurinn Ágúst Ólafur hafi ekki enn gefið upp á hvaða sæti hann stefnir í væntanlegu prófkjöri, en það er öllum ljóst að fylgismenn Ingibjargar Sólrúnar flykkjast um sætin neðan við fjórða og fáir líta svo á að þeir eigi að bakka frá fyrir varaformanninn. Staða hans virðist vera mjög viðkvæm á þessu stigi.

Talað hefur verið um væntanlegt þingframboð Stefáns Jóns allt frá prófkjöri Samfylkingarinnar í febrúar. Þar missti Stefán Jón leiðtogastöðu sína hjá flokknum í borgarmálunum og hefur síðan horft í aðrar áttir, og það mjög skiljanlega. Þegar er Steinunn Valdís, sem var borgarstjóri síðustu misseri R-listans við völd, komin í þingframboð og vill halda í landsmálin, enda ekki áhugavert fyrir hana að vera í minnihlutaflokki undir forystu Dags B. Eggertssonar. Sama virðist vera með Stefán Jón. Talið er ansi líklegt að hann fari fram og tilkynni það í dag eða á morgun.

mbl.is Mörður sækist eftir 4.-6. sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ályktun stjórnar SUS um RÚV-frumvarp

RÚV

Við í stjórn SUS sendum í dag frá okkur þessa góðu ályktun, þar sem við lýsum sárum vonbrigðum okkar með að menntamálaráðherra og ríkisstjórnin undir forystu Sjálfstæðisflokksins standi nú að frumvarpi sem ætlað er að efla rekstur Ríkisútvarpsins og styrkja stöðu þess á fjölmiðlamarkaði.

"Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna lýsir sárum vonbrigðum sínum með að menntamálaráðherra og ríkisstjórnin undir forystu Sjálfstæðisflokksins standi nú að frumvarpi sem ætlað er að efla rekstur Ríkisútvarpsins og styrkja stöðu þess á fjölmiðlamarkaði. Það stangast á við grundvallarhugmyndir sjálfstæðisstefnunnar að ríkisvaldið standi í samkeppni við einkaaðila, hvort sem það er á sviði fjölmiðlunar eða öðrum sviðum atvinnulífs.

Það er sorgleg staðreynd að engin skref hafa verið stigin í frjálsræðisátt í málefnum ríkisfjölmiðlunar frá því að þáverandi menntamálaráðherra, Ragnhildur Helgadóttir, fékk samþykkt á Alþingi frumvarp sem afnam einkaleyfi ríkisins á útvarps- og sjónvarpsrekstri. Síðan þá eru liðnir rúmlega tveir áratugir.

Varðandi menningarlegt hlutverk Ríkisútvarpsins, ítrekar SUS fyrri afstöðu sína þess efnis að ríkisstyrkt menning kæfir frumkvæði og sköpunargleði einstaklinga. Þegar stjórnmálamenn deila fé úr sameiginlegum sjóðum til sérhagsmunahópa er slík úthlutun jafnan eftir geðþótta fremur en hæfileikum listamanna og eftirspurn. Með því eru stjórnmálamenn í raun að þröngva upp á borgarana sínum eigin smekk á því hvað skuli vera menning. Hin raunverulega menning þokar þannig fyrir ríkismenningunni.

Þær fyrirætlanir menntamálaráðherra að auka skilvirkni í starfsemi Ríkisútvarpsins með hinu nýja frumvarpi eru góðra gjalda verðar. Ríkisrekstur á fjölmiðlamarkaði er hins vegar tímaskekkja og því hefði verið eðlilegt og skynsamlegt af menntamálaráðherra að draga ríkisvaldið alfarið út úr þeim rekstri, leggja stofnunina niður og selja eignir hennar."


Ég vil auk ályktunarinnar benda á sögupistil minn um Ragnhildi Helgadóttur, fyrrum menntamálaráðherra, sem birtist á vef SUS fyrr í þessum mánuði, en eins og fyrr segir lagði hún fram þá lykilbreytingu fyrir tveim áratugum að einkaaðilum skyldi leyft að reka ljósvakamiðla.


10 í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í kraganum

Sjálfstæðisflokkurinn

Framboðsfrestur vegna prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi er nú runninn út. 10 gefa kost á sér í prófkjörinu sem fram á að fara laugardaginn 11. nóvember nk.

Í framboði verða:
Ármann Kr. Ólafsson, forseti bæjarstjórnar Kópavogs,
Árni Þór Helgason, arkitekt,
Bjarni Benediktsson, alþingismaður,
Bryndís Haraldsdóttir, varaþingmaður,
Jón Gunnarsson, framkvæmdastjóri,
Ragnheiður Elín Árnadóttir, aðstoðarmaður forsætisráðherra,
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, bæjarstjóri í Mosfellsbæ,
Sigurrós Þorgrímsdóttir, alþingismaður,
Steinunn Guðnadóttir, íþróttakennari,
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra

Heldur verður það nú að teljast líklegt að kjörnefnd muni bæta við frambjóðendum, með tilliti til prófkjörsreglna Sjálfstæðisflokksins, en henni er það heimilt standi fjöldi frambjóðenda ekki undir væntingum kjörnefndar.


Ungir sjálfstæðismenn í NA standa sig vel

Sjálfstæðisflokkurinn

Það er mikið gleðiefni að ungir sjálfstæðismenn eru öflugir og vinna vel saman í Norðausturkjördæmi. Höfum við stofnað kjördæmasamtök og hafið góða samvinnu okkar á milli. Það sem ég er stoltastur af úr formannstíð minni í Verði var að standa að stofnun kjördæmasamtakanna og hefja samstarf milli kjördæmahlutanna, t.d. okkar norðanmanna við Austfirðingana, en lítið samstarf var fram að því í Norðausturkjördæmi milli ungliðanna. Það hefur svo sannarlega breyst.

Um helgina á kjördæmisþingi flokksins í Mývatnssveit komum við saman og unnum að séráliti okkar á stjórnmálaályktun þingsins. Er hún send út í nafni félaganna allra. Hvet alla lesendur til að lesa það og kynna sér skoðanir okkar ungliðanna.


mbl.is Ungir sjálfstæðismenn í NA-kjördæmi telja að ríkið þurfi að taka nýtingu auðlinda fastari tökum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ályktun kjördæmisþings í Norðausturkjördæmi

Sjálfstæðisflokkurinn

Kjördæmisþing okkar sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi var haldið um síðustu helgi að Skjólbrekku í Mývatnssveit. Þar var góð samstaða um flest mál, bæði stjórnmálaályktun og þá ákvörðun að boða til prófkjörs í næsta mánuði. Þetta var gott kjördæmisþing og höldum við samstillt og öflug í næstu verkefni. Bendi hérmeð á stjórnmálaályktun kjördæmisþingsins.

mbl.is Sjálfstæðismenn í NA-kjördæmi fagna árangri ríkisstjórnarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Juan Peron jarðaður í Buenos Aires

Juan Peron

Eflaust kippast einhverjir lesendur upp við þessa fyrirsögn. Það eru jú 32 ár síðan að Juan Peron, þáv. forseti Argentínu, lést. Það er nú samt svo að Peron var jarðaður skammt utan við höfuðborgina Buenos Aires í gær. Fáir eru umdeildari og hafa verið í sögu Argentínu en Peron-hjónin, Evita og Juan. Juan Peron hefur verið jarðaður oftar en tvisvar frá því að hann lést þann 1. júlí 1974. Landið var í kaos þegar að hann dó. Hann hafði gert eiginkonu sína, Isabel Peron, að varaforseta við valdatöku sína (að nýju) árið 1973. Það var því hún sem tók við af honum. Hún var algjörlega óreyndur stjórnmálamaður og réð ekki við neitt. Henni var steypt af stóli árið 1976.

Margar bækur hafa verið skrifaðar um valdaferil Juan Peron. Hann var umdeildur leiðtogi, sem skipti þjóðinni í fylkingar með og á móti sér. Hann hefur þó sennilega verið umdeildastur árin eftir að hann dó og ekkja hans missti völdin í valdaráni. Margoft hafa verið gerðar tilraunir til að svívirða bæði lík hans og Evitu, konu hans. Hann missti völdin svo fljótt (í fyrra sinnið) eftir lát hennar að hann gat ekki verndað lík hennar, svo að illa fór. Eins fór fyrir honum, en einu sinni var gerð tilraun til að svívirða lík hans svo illa að mótmælendur reyndu að kveikja í því. Evita var goðsagnapersóna í lifanda lífi, um hana hafa verið gerður söngleikur og þekkt lög sem allir kannast við.

Eftir að Evita dó missti Peron völdin og hann varð aldrei eins vinsæll eftir lát hennar. Vandræði hafa verið með líkamsleifar Peron-hjónanna, enda eru enn starfandi fylkingar sem eru mjög andvíg því að virða minningu hjónanna. Það eru því auðvitað nokkur tíðindi að eftir 32 ár sé Peron jarðaður að nýju. Það varð reyndar lítil viðhöfn við þessa athöfn, enda voru óeirðir slíkar að forsetinn, Nestor Kirschner, gat ekki verið viðstaddur, sem segir sína sögu mjög vel um stöðu mála.

Umfjöllun um jarðsetningu Perons

Breytingar á nefndum bæjarins

Hermann Jón og Kristján Þór

Eins og flestir bæjarbúar vita var það eitt fyrsta verkefni nýs meirihluta Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í bæjarstjórn Akureyrar kjörtímabilið 2006-2010 að stokka upp í nefndakerfi bæjarins. Með því var nefndum fækkað og nokkrum þeirra skeytt saman. Jafnréttis- og fjölskyldunefnd og áfengis- og vímuvarnarnefnd átti að skeyta saman í fjölskylduráð og menningarmálanefnd vera lögð niður. Verksvið menningarmálanefndar átti að færa undir önnur verkefni tengd atvinnumálum og fleiru og ný nefnd að hljóta nafnið Akureyrarstofa. Þetta voru að mörgu leyti athyglisverðar breytingar sem voru kynntar í vor.

Nú á haustdögum áttu breytingarnar að taka gildi og nú hafa lokatillögur bæjarstjórnarmeirihlutans verið samþykktar. Lengra mun verða gengið en fyrst átti að gera. Ætlað er að endurvekja embætti bæjarritara og skipa hann ásamt fjármálastjóra og starfsmannastjóra í framkvæmdastjórn bæjarins í kjölfar þess að störf sviðsstjóra verða lögð niður. Bæjarritari verður í fullu starfi í framkvæmdastjórn en fjármálastjóra og starfsmannastjóra gert kleift að verja meiri tíma til framkvæmdastjórnar með því að ráða sér aðstoðarfólk. Auk nefndabreytinga er ákveðið að áætlað fjölskylduráð hljóti annað heiti og verði nefnt samfélags- og mannréttindaráð.

Ég er einn þeirra sem er svolítið efins um þessar breytingar. Ég sé ekki þörfina á að sameina þessar nefndir og þaðan af síður að leggja niður menningarmálanefnd í þeirri mynd sem hún hefur verið. Hún hefur verið að vinna mjög gott verk og mér finnst það nokkuð ankanalegt að breyta henni með þeim hætti sem blasir við. Ég tók að hluta þátt í störfum jafnréttis- og fjölskyldunefndar á liðnu kjörtímabili og komst að því að sú nefnd tók á mörgum mikilvægum þáttum og vann gott verk. Það var sérstaklega ánægjulegt að vinna með Katrínu jafnréttisfulltrúa bæjarins í jafnréttismálunum en hún hefur þar unnið gott verk.

Margir hafa spurt sig að því seinustu vikur hver sé þörfin á því að færa jafnréttismálin inn í aðra flokka og t.d. skeyta saman áfengis- og vímuvarnarmálum við það. Ég verð að viðurkenna að ég tel þetta umhugsunarverða ákvörðun. Í raun má segja að öll verkefni nýja ráðsins heyri undir ólík svið. Að mínu mati hefði verið réttast að efla þær nefndir sem fyrir væru með því að láta þær starfa áfram með sama hætti. Mest undrast ég örlög menningarmálanefndarinnar, enda tel ég að hún eigi að vera áfram undir sömu formerkjum.

En það verður fróðlegt að sjá hvernig gengur eftir að breytingarnar taka formlega gildi. Fyrst og fremst finnst mér heitið samfélags- og mannréttindaráð afleitt og fannst þó fjölskylduráð skömminni skárra.


Gylfi Arnbjörnsson hættir við þingframboð

Gylfi Arnbjörnsson

Það eru allnokkur tíðindi að Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands, hafi ákveðið að draga til baka framboð sitt í væntanlegu prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík þann 11. nóvember nk. Gylfi sendi síðdegis út yfirlýsingu þar sem hann fór yfir ákvörðun sína og ástæður þess að hann hætti við þingframboðið.

Umræður höfðu verið um hvort það færi saman að framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands færi í framboð og greinilegt af þessu að hann telur svo ekki vera. Þetta kristallaðist best í umræðunni um lækkun matarskatts en þá skrifaði Sigurður Kári Kristjánsson, alþingismaður, góða grein um þessi mál sem bar nafnið "Tvö andlit Gylfa".

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband