Breytingar á nefndum bæjarins

Hermann Jón og Kristján Þór

Eins og flestir bæjarbúar vita var það eitt fyrsta verkefni nýs meirihluta Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í bæjarstjórn Akureyrar kjörtímabilið 2006-2010 að stokka upp í nefndakerfi bæjarins. Með því var nefndum fækkað og nokkrum þeirra skeytt saman. Jafnréttis- og fjölskyldunefnd og áfengis- og vímuvarnarnefnd átti að skeyta saman í fjölskylduráð og menningarmálanefnd vera lögð niður. Verksvið menningarmálanefndar átti að færa undir önnur verkefni tengd atvinnumálum og fleiru og ný nefnd að hljóta nafnið Akureyrarstofa. Þetta voru að mörgu leyti athyglisverðar breytingar sem voru kynntar í vor.

Nú á haustdögum áttu breytingarnar að taka gildi og nú hafa lokatillögur bæjarstjórnarmeirihlutans verið samþykktar. Lengra mun verða gengið en fyrst átti að gera. Ætlað er að endurvekja embætti bæjarritara og skipa hann ásamt fjármálastjóra og starfsmannastjóra í framkvæmdastjórn bæjarins í kjölfar þess að störf sviðsstjóra verða lögð niður. Bæjarritari verður í fullu starfi í framkvæmdastjórn en fjármálastjóra og starfsmannastjóra gert kleift að verja meiri tíma til framkvæmdastjórnar með því að ráða sér aðstoðarfólk. Auk nefndabreytinga er ákveðið að áætlað fjölskylduráð hljóti annað heiti og verði nefnt samfélags- og mannréttindaráð.

Ég er einn þeirra sem er svolítið efins um þessar breytingar. Ég sé ekki þörfina á að sameina þessar nefndir og þaðan af síður að leggja niður menningarmálanefnd í þeirri mynd sem hún hefur verið. Hún hefur verið að vinna mjög gott verk og mér finnst það nokkuð ankanalegt að breyta henni með þeim hætti sem blasir við. Ég tók að hluta þátt í störfum jafnréttis- og fjölskyldunefndar á liðnu kjörtímabili og komst að því að sú nefnd tók á mörgum mikilvægum þáttum og vann gott verk. Það var sérstaklega ánægjulegt að vinna með Katrínu jafnréttisfulltrúa bæjarins í jafnréttismálunum en hún hefur þar unnið gott verk.

Margir hafa spurt sig að því seinustu vikur hver sé þörfin á því að færa jafnréttismálin inn í aðra flokka og t.d. skeyta saman áfengis- og vímuvarnarmálum við það. Ég verð að viðurkenna að ég tel þetta umhugsunarverða ákvörðun. Í raun má segja að öll verkefni nýja ráðsins heyri undir ólík svið. Að mínu mati hefði verið réttast að efla þær nefndir sem fyrir væru með því að láta þær starfa áfram með sama hætti. Mest undrast ég örlög menningarmálanefndarinnar, enda tel ég að hún eigi að vera áfram undir sömu formerkjum.

En það verður fróðlegt að sjá hvernig gengur eftir að breytingarnar taka formlega gildi. Fyrst og fremst finnst mér heitið samfélags- og mannréttindaráð afleitt og fannst þó fjölskylduráð skömminni skárra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband