Færsluflokkur: Dægurmál

Bestu kveðjur til Björns

Björn Bjarnason Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, gekkst undir brjóstholsaðgerð í morgun. Hann hefur dvalið á sjúkrahúsi frá því á mánudag, en annað lunga hans féll saman. Björn dvaldist á sjúkrahúsi í hálfan mánuð fyrr á þessu ári er hann gekkst undir svipuð veikindi, en hann var þá skorinn upp ennfremur.

Ég vil senda Birni mínar bestu kveðjur og óska honum góðs bata.

mbl.is Björn Bjarnason á sjúkrahúsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jæja... þá vitum við það

Larry Birkhead Um fátt hefur verið meira rætt undanfarnar vikur vestanhafs en það hver hafi verið faðir dóttur Önnu Nicole Smith. Nú er ljóst eftir DNA-rannsókn að faðirinn er ljósmyndarinn Larry Birkhead, sem hefur barist fyrir rétti sínum mánuðum saman og sagst vera faðirinn. Það hefur reyndar verið með ólíkindum að fylgjast með þessu máli úr fjarska. Það hefur gnæft yfir flest annað í Bandaríkjunum, meira að segja forsetakosningarnar 2008, einkum eftir að Anna Nicole dó.

Með þessari niðurstöðu mun Larry Birkhead eflaust fá fullt forræði yfir Dannielynn Smith. Með því öðlast hann full völd í víðfrægu erfðamáli milli Önnu Nicole og fjölskyldu olíuauðjöfursins J. Howard Marshall, sem Anna Nicole Smith giftist árið 1994, en málinu lauk aldrei meðan að Anna Nicole lifði. Stelpan er einkaerfingi hinnar frægu fyrirsætu og leikkonu. Jafnframt er ljóst að Birkhead ríkir yfir dánarbúi hinnar frægu stjörnu, enda er stelpan litla aðeins hálfs árs gömul og mun ekki hljóta völd yfir sínum málum fyrr en eftir rúm sautján ár. Það verður fróðlegt að sjá hvernig hann nýtir völd sín í málinu.

Dramatík virðist því ætla að halda áfram á fullum krafti í kringum Önnu Nicole Smith þó að hún hafi nú sjálf hinsvegar yfirgefið hið jarðneska líf. Hún lifði og dó í kastljósi fjölmiðla. Ekki er við því að búast að þessi niðurstaða og dauði hennar bindi í raun enda á umfjöllunina. Ég hef stöku sinnum dottið inn í þáttinn Entertainment Tonight á Sirkus, rétt fyrir kvöldfréttir á Stöð 2. Það er alveg kostulegur þáttur. Það hvernig þetta mál hefur verið velt upp fram og til baka hefur vissuega verið með nokkrum ólíkindum alveg. Þetta virðist vera endalaus vella og umfjöllunarefni.

Að mínu mati er saga Önnu Nicole Smith hrein sorgarsaga - saga hennar er táknmynd þess að ríkidæmi og frægð þarf ekki að tákna gleði og hamingju. Það getur verið hrein hefnd að festast í þessu lífi. Hún er skólabókardæmi eflaust um það að fjölmiðlar geta fylgt fólki út yfir gröf og dauða. En já, ég vona að þessu máli sé nú hreinlega lokið. Þetta er orðið ágætt, er reyndar fyrir löngu orðið einum of. Það er vonandi að fjölmiðlar geti nú leyft þessari konu hreinlega að hvíla í friði.

mbl.is Birkhead er faðir Dannielynn Smith
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Litlaust stjörnuhjal

Það er stundum svolítið spes að fylgjast með umræðunni um líf stjarnanna í glysheimum. Áhugi pressunnar á lífi þeirra virðist æði oft ótakmarkaður. Gott dæmi um fórnarlömb glamúrsins sem verða margtuggnar eru Britney Spears og Anna Nicole Smith. Sú síðarnefnda dó í kastljósi fjölmiðlanna og fylgst var með örlögum líkamsleifa hennar meira að segja í fjölmiðlum. Því fjölmiðlakastljósi er reyndar merkilegt nokk enn ekki lokið, þó saga stjörnunnar sem slíkrar sé orðin öll.

Díana, prinsessa af Wales, lifði í kastljósi fjölmiðlanna í mjög langan tíma. Kaldhæðni örlaganna voru líka þau að hún dó í myndavélablossa í París. Það var tragísk saga í meira lagi. Rými stjarnanna er oft ekki mikið. Líf þeirra hlýtur æði oft að vera litlaust og leiðinlegt. Einkalíf stjarnanna verður almannaeign merkilegt nokk. Það er ekki langt síðan að íslenskur tónlistarmaður varð heimsfrægur á einni nóttu. Glys frægðarinnar sligaði einkalífið hans eins og frægt varð. Frægðin varð dýrkeypt.

Ég veit ekki hvað mér kemur svosem við með hverjum Britney Spears er þá stundina og hverjir sofa hjá henni. En það virðist samt vera okkur mikilvægt. Veit ekki af hverju. Þessi glamúr og glysheimur er að verða ansi þreyttur finnst mér.

mbl.is Britney á föstu með rúmlega tveggja metra körfuboltamanni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESSO heyrir sögunni til - lækkar bensínið?

ESSO Það eru mikil tímamót fólgin í því að ESSO heyri sögunni til í íslensku samfélagi. Olíufélagið ESSO hefur verið áberandi hluti hérlendis í sex áratugi, allt frá árinu 1946 og verið eitt helstu olíufélaganna með Olís og Skeljungi. Nýtt nafn hlýtur að kalla á nýja ímynd og kannski vilja nýlegir eigendur nýtt upphaf.

Eitt sinn voru olíufélögin mikil tákn í pólitík. ESSO var olíufyrirtæki framsóknarmanna og mjög sterkt sérstaklega í sveitabyggðunum og framsóknarbæjunum, t.d. hér á Akureyri og víðar um landið. Skeljungur var olíufyrirtæki sjálfstæðismanna eins og flestir vita og svo var ESSO tákn vinstrimannanna en Héðinn Valdimarsson var lengi ein helsta driffjöður Olíuverslunar Íslands, Olís.

Talað er um að fyrirtækið muni taka yfirheitið Naust, en það hefur þó ekki enn verið staðfest. Með nafnabreytingunni sparar Olíufélagið fimmtíu milljónir króna árlega, enda þurfti félagið að greiða fyrir afnot af nafninu. Það vonandi lækkar bensínverðið, en einhvernveginn hallast ég þó að því að svo verði nú ekki.

mbl.is Esso-merkið kostar fimmtíu milljónir á ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prófessor biður Íslendinga afsökunar

Jæja, þá hefur bandaríski stjórnmálafræðiprófessorinn við Princeton-háskóla í New Jersey beðið íslensku þjóðina afsökunar á umdeildum ummælum sínum sem mikið voru í fréttum í gær. Ég held að þau hafi stuðað ansi marga, maður fann það bara á viðbrögðunum á bloggsíðum og í umræðunni. Einhverjir aðrir litu á þetta sem grín, græskulaust gaman og blaður í bláinn jafnvel.

Ég skrifaði um þetta mál hér í gær og sagði mína skoðun á lykiládeilunni sem hann var í raun að beina að, hvort Bandaríkin ættu að ráðast á Íran, og fjallaði aðeins um það í og með. En orðaval hans má vel vera að hafi verið húmor en þau féllu ekki í kramið hér á Íslandi tel ég. Það hvernig hlutnirnir eru orðaðir ræður oft úrslitum um það hvernig þau verða dæmd.

En viðbrögðin hafa greinilega ekki látið standa á sér til prófessorsins. Greinilegt er að þar hafa Íslendingar verið mjög áberandi við að láta skoðun sína í ljósi, og það með líflegum hætti.


mbl.is Biður þjóðina afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kvikmyndapælingar á páskadegi

Walk the Line Það var alveg yndislegt að horfa áðan á stórmyndina Walk the Line á Stöð 2. Þar er listilega sögð lífssaga söngvarans Johnny Cash, sem varð einn besti söngvarinn í tónlistarsögu Bandaríkjanna á 20. öld. Svo sannarlega mjög sterk mynd, vel leikin og sögð með miklum krafti, enda rekur hún ævi Cash allt frá bernskuárum en fókuserar að mestu á upphaf frægðarferils hans, umfram allt þau tíu ár sem liðu frá fyrstu kynnum Johnny og June og þar til þau giftust loks árið 1968.

Joaquin Phoenix verður hinn goðsagnakenndi sveitasöngvari með glans og túlkar hann með bravúr og syngur meira að segja lögin hans með fítonskrafti. Reese Witherspoon brillerar með túlkun sinni á June, sem er hiklaust hennar besta leikframmistaða á ferlinum. Reese sýndi á sér nýja hlið í leik í myndinni og hlaut óskarinn fyrir túlkun sína. Þau eru sterkt par í myndinni og hún er sannkölluð upplifun fyrir kvikmyndaáhugafólk og þá sem meta mikils tónlist Cash. Flott mynd.

Eftir hádegið í dag horfði ég hinsvegar á Ben-Hur. Það var orðið alltof langt síðan að ég hef sett hana í tækið. Þetta er löng og vönduð mynd, sem þarf að horfa á í rólegheitum og njóta til fulls. Það er ekki ofsögum sagt að Ben-Hur sé ein sterkasta kvikmynd sögunnar, en hún hlaut ellefu óskarsverðlaun og hefur alla tíð verið á stalli ef svo má segja. Það er með klassamynd á borð við þessa að maður áttar sig alltaf á einhverju nýja við hvert áhorf. Þessi mynd er enn risastór, þó hún sé að verða hálfrar aldar gömul. Sannkallaður eðall!

Horfði svo á kvikmyndina Arthur með Dudley Moore, Lizu Minnelli og Sir John Gielgud. Ólík mynd, en samt alveg yndisleg. Þetta er auðvitað mjög öflug gamanmynd, en þar er sögð sagan af auðjöfrinum og glaumgosanum Arthur Bach sem lendir í þeirri vondu aðstöðu að þurfa að velja á milli ástarinnar og peninganna. Moore átti túlkun ferilsins í hlutverki Arthurs og hlaut sína einu tilnefningu til óskarsverðlaunanna fyrir. Shakespeare-leikarinn fágaði Gielgud fékk óskarinn fyrir að leika þjóninn kaldhæðna Hobson og sló eftirminnilega í gegn. Það er kaldhæðið að hans er nú frekar minnst fyrir þessa rullu en stóru sviðsverkin sín.

Síðast en ekki síst horfði ég á mynd sem mér hefur nú alltaf verið nokkuð kær; Foul Play með Goldie Hawn, Chevy Chase og Dudley Moore. Foul Play er alltaf viðeigandi vilji maður hlæja og hafa gaman af lífinu. Þar er sögð saga Gloriu sem lendir í ótrúlegum aðstæðum fyrir mikla tilviljun og endar með morðingja á eftir sér um San Francisco. Þessi víðfræga gamanmynd er að mörgu leyti stæling á mörgum bestu töktum meistara Alfred Hitchcock með flottum dassa af húmor. Lag Barry Manilow í myndinni sló í gegn og sama má sama um leik aðalleikaranna þó sennilega hafi Dudley Moore verið senuþjófur myndarinnar. Ein besta mynd ferils Goldie Hawn.

Í tónlistarspilaranum hér er að finna þrjú lög með Johnny Cash; Ring of fire, On the Evening Train og We´ll Meet Again. Fyrstnefnda lagið er eitt af vinsælustu lögum ferils hans en hin eru af hinum eftirminnilegu plötum undir lok ferilsins með síðustu hljóðritununum, árin 2002 og 2003. On the Evening Train er yndislegt lag, fallegur texti og túlkunin er næm. We´ll Meet Again er þekktast í túlkun Veru Lynn frá stríðsárunum og hljómaði t.d. í kvikmyndinni Dr. Strangelove. Að lokum er þar einn frægasti dúett Johnny og June; Jackson, algjört klassalag. Þarna er frægasta útgáfa þess, úr tónleikunum frægu úr Folsom-fangelsinu.

Í spilaranum er ennfremur að finna hið eftirminnilega lag Arthur´s Theme með Christopher Cross úr kvikmyndinni Arthur frá 1981. Það hlaut óskarinn sem besta kvikmyndalagið á sínum tíma og telst með bestu kvikmyndalögum undir lok 20. aldarinnar, víðfrægt lag eftir Burt Bacharach. Alltaf jafn gott.

Gleðilega páska

Páskar Ég vil óska lesendum vefsins gleðilegrar páskahátíðar, og vona að þeir hafi haft það notalegt í dag og eins yfir helgina alla.

Þetta hefur verið alveg virkilega góður dagur hjá mér. Það fylgir dögum á borð við þennan að fara í messu, borða góðan mat og njóta þess besta með fínni afslöppun.

Það var ágætt að líta í páskaeggið sitt. Það kemur misjafnlega góð speki úr þeim, en að þessu sinni sást þar málshátturinn; Ekki er allt gull sem glóir.

Horfði á þrjár magnaðar kvikmyndir eftir hádegið og framundir kvöldfréttatíma og horfði á fína sjónvarpsdagskrá í kvöld. Þeir stóðu sig betur í þeim pakkanum á Stöð 2 að mínu mati.

En í heildina mjög góður dagur. Vona að þið hafið öll haft það gott og rólegt í dag. Efast þó um það að allir hafi verið rólegir ef marka má sum kommentin í umræðunni um Ingibjörgu Sólrúnu hér neðar.

Kaupþing vill ekki hryðjuverkamenn í viðskipti

Kaupþing Það kallar fram kómísk viðbrögð að lesa fréttina um Selfyssinginn sem var spurður af starfsmanni Kaupþings hvort að hann tengdist einhverjum hryðjuverkasamtökum eða það væri einhver í fjölskyldunni hans sem væri viðriðinn slík samtök. Átti ekki alveg von á að íslenskir bankar spyrðu svona á árinu 2007.

Er þetta merki um nútímann í bankaviðskiptum? Eru íslenskir bankar orðnir svo alþjóðlegir að þeir double check-a hvort að viðskiptavinir þeirra séu nokkuð svo alþjóðlegir að þeir séu orðnir hryðjuverkamenn meðfram daglegu lífi hér heima á Fróni? Þetta er að vissu marki skondið en líka svo kostulega fyndið að einhverju leyti. Ég þurfti eiginlega að lesa þessa frétt tvisvar til að trúa því.

Hefði hlegið meira hefði þetta birst 1. apríl, en hann er nú nýlega liðinn, svo að ekki gat það passað. En kómískt er þetta óneitanlega. Er þetta kannski forboði um að maður fái svona spurningu þegar að maður fær sér tryggingu, jafnvel lífstryggingu. "Heyrðu ertu nokkur í hryðjuverkum?" Svona er víst Ísland í dag.

mbl.is „Ertu hryðjuverkamaður?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sorgleg endalok á föstudaginn langa

Flak skemmtiferðarskipsinsÞað var frekar dapurlegt að heyra þá frétt fyrsta í morgunfréttum Ríkisútvarpsins að morgni föstudagsins langa að skemmtiferðarskip hafi sokkið á Eyjahafi og að franskra feðgina um borð sé saknað. Nær allir farþegarnir, 1600 talsins, voru fluttir í land en feðginin voru eftir og urðu örlög þeirra ljós um seinan.

Það er vissulega afrek að tekist hafi að bjarga svo mörgum farþegum farsællega en það að ekki hafi allir komist lífs varpað auðvitað skugga á björgunarafrekið. Það mætti þó kannski segja að mesta afrekið sé vissulega að ekki skyldu fleiri láta lífið þar. Það er hægt að líta misjafnlega á hvernig til tókst við björgunina.

Eftir tíu daga, 15. apríl nk, verða 95 ár liðin frá því að farþegaskipið Titanic fórst. Það var skipið sem aldrei átti að geta sokkið. Það sökk þó í jómfrúarferðinni sinni. Örlög skipsins hafa verið efniviður i margar bækur og frásagnir, sérstaklega í tveim ólíkum en óviðjafnanlegum kvikmyndum frá ólíkum tímaskeiðum. Um daginn horfði ég á gömlu myndina, frá árinu 1953.

Öllu frægari er þó kvikmyndin risavaxna frá árinu 1997. Hún var tæknivætt meistaraverk, stór og öflug, eins og skipið sem er sögusviðið nær alla myndina, frá glæsilegri brottförinni í Southampton til endalokanna miklu sem er færð í glæsilegan en þó svo sorglegan búning. Það atriði kemur sterklega til greina sem sorglegasta og um leið svipmesta augnablik kvikmyndasögunnar.

Titanic varð stærsta kvikmynd 20. aldarinnar, tilnefnd til 14 óskarsverðlauna og hlaut 11, hið mesta í sögu Óskarsverðlaunanna. Lykillag myndarinnar er hér í spilaranum, eitt stórbrotnasta kvikmyndalag sögunnar að mínu mati. Þetta er mynd sem er hollt að sjá reglulega. Kannski maður líti á nokkur brot af henni á eftir.


mbl.is Tveggja farþega af sokknu farþegaskipi saknað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjokkerandi uppgötvun

Hilary Swank í Boys don´t Cry Hún er ansi sjokkerandi sagan af 14 ára stúlkunni í Washington-fylki í Bandaríkjunum sem komst að því að 17 ára kærastinn hennar var í raun þrítug kona. Mikið er fjallað um þetta í bandarískum fjölmiðlum í dag og miklar vangaveltur eru um þetta á bloggsíðum vestanhafs. Mun hafa komist um hina þrítugu Lorelei Corpuz vegna þess að lögreglan athugaði hvort bíllinn sem hún ók á væri stolinn. Upp komst um ógreiddar sektir fyrir umferðarlagabrot og uppruni eigandans leiddi hið sanna í ljós.

Þetta mál minnir mjög á hina sjokkerandi sögu af Teena Brandon, sem lifði sem maður undir nafninu Brandon Teena og átti kærustur og taldi sjálfum sér og öðrum trú um að líf hans/hennar væri líf karlmanns. Teenu var nauðgað og síðar myrt í desember 1993 þegar að upp komst um bakgrunn karaktersins, enda var samkynhneigð ekki viðurkennd í Nebraska, þar sem þessir atburðir áttu sér stað og olli þessi uppljóstrun sviptingum í smábæ á borð við þetta. Sakamálið sem fylgdi í kjölfarið varð mjög mjög áberandi í Bandaríkjunum og um allan heim og þótti mjög sorglegt.

Þessi ógleymanlega saga, sem var í senn bæði sorgleg og ógleymanleg, var sögð í kvikmyndinni Boys Don´t Cry árið 1999. Í myndinni átti leikkonan Hilary Swank stjörnuleik í hlutverki Teenu/Brandons og hlaut óskarsverðlaunin fyrir stórfenglega túlkun sína. Þessi frammistaða Swank er einn eftirminnilegasti leiksigur i sögu bandarískra kvikmynda síðustu áratugina. Það er svo sannarlega upplifun að sjá þá mynd, þó vissulega sé hún ekkert skemmtiefni.

Datt helst þetta mál í hug þegar að ég heyrði, enda er vissulega með ólíkindum að fólk geti villt á sér heimildir svo lengi og jafnvel reynt að þykjast vera af öðru kyni og vera jafnvel í samböndum af þessu tagi. En þetta er svo sannarlega frétt sem vekur athygli, það þarf ekki að kvarta yfir því.

mbl.is Kærastinn var í raun þrítug kona
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband