Færsluflokkur: Dægurmál

Brandari Keiths stuðar og vekur athygli

Keith Richards Keith Richards hefur lifað hátt í gegnum lífið. Hann hefur líka verið ófeiminn að stuða allhressilega. Saga hans um að hann hafi sniffað öskuna af föður sínum hefur í senn vakið heimsathygli og stuðað mjög. Hann hefur nú dregið í land í gegnum blaðafulltrúa og sagt að þetta hafi aðeins verið grín. Það verður víst seint fengið í ljós hvort sé um að ræða.

Karakter Keiths er eins og flestir vita fyrirmynd leikarans Johnny Depp við persónusköpun sjóræningjans sífulla Jack Sparrow í kvikmyndabálknum Pirates of the Caribbean. Hann verður seint sagður hafa verið fyrirmynd hóflegs lífsstíls og hreinlegs lifnaðar. Keith er og verður alla tíð þekktur sem hinn útlifaði snillingur í Rolling Stones. Kannski misskilinn snillingur, hver veit.

Hvort sem hann sniffaði pabba gamla eður ei mun umtalið vart minnka við þá sögusögn og varla verða svosem meira krassandi við það. Hann hefur fyrir löngu náð þeim hápunkti sem því fylgir að ná hápunktinum í ólifnaði og tónlistarsköpun.

mbl.is Tók föður sinn í nefið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ágústa Eva fellir leiktjöld Silvíu Nætur

Silvía NóttÆvintýrið um Silvíu Nótt tók á sig nýjan og athyglisverðan vinkil á sunnudagskvöldið þegar að Ágústa Eva Erlendsdóttir, skapari glamúrgellunnar miklu, felldi grímu hennar og kom fram í eigin persónu í Sunnudagskastljósi Evu Maríu. Þar talaði Ágústa Eva opinskátt um þessa athyglisverðu hlið sem hún hefur skapað með þessum karakter. Ágústa Eva hefur bæði hneykslað og glatt landsmenn með þessum karakter í rúm tvö ár og tekið allan skalann í tilfinningatúlkun.

Öll þjóðin hefur fylgst með Silvíu Nótt á þessum tíma. Hún hefur verið í miðpunkti bæði í umræðunni og verið bæði stingandi og heillandi í senn. Hápunktur og um leið botn hennar hlýtur að vera sami viðburðurinn merkilegt nokk. Sigurinn heima í Eurovision með Til hamingju Ísland var sætur en skellurinn mikli með Congratulations í Aþenu í maí 2006 var mikill, enda voru væntingar hennar og landsmanna miklir til árangurs. En segja má að ævintýrið hafi gengið of langt, dramatíkin og stingandi karakterinn hafi farið yfir strikið í Grikklandi. Á miðri Eurovision-leiðinni fór karakterinn yfir rauða strikið varhugaverða.

Það kom margt merkilegt fram í þessu viðtali. Eva María er auðvitað snilldargóður spyrill og mjög blátt áfram. Ágústa Eva opnaði karakterinn alveg upp á gátt og dró ekkert undan. Sérstaklega var athyglisvert að heyra hana lýsa Aþenu-ævintýrinu. Hún var víst alveg að leka niður af álagi og taugastrekkju er þessu lauk. Reyndar má segja að mesta afrek Ágústu Evu hafi verið að lifa í gegnum karakterinn allan þennan tíma og halda dampi. Enda er þetta frábær leikkona, hún sannaði kraft sinn og styrk sem karakterleikkonu í Mýrinni, þar sem nafna hennar, Eva Lind Erlendsdóttir, varð ljóslifandi í góðri túlkun hennar.

Það er freistandi að spyrja hvort ævintýrinu mikla með Silvíu Nótt sé að ljúka eða hreinlega á enda nú. Það væri ekki undarlegt yrði svo, enda virðist mesta fúttið úr karakternum. En hún hafði áhrif með karakternum, kannski öfug áhrif. Eins og fram kom átti Silvía Nótt að vera ádeila, en að mörgu leyti má vera að karakterinn hafi þróast í aðrar áttir. Allavega, varð þetta ævintýri eflaust mun hástemmdara og háfleygara en stefnt var sennilega að. Og það er auðvitað með vissum ólíkindum hversu langt Ágústu Evu tókst að koma með karakterinn og eiginlega hversu lengi hún lifði í gegnum hann.

Ágústa Eva er leikkona sem á mörg tækifæri framundan myndi ég segja. Hún hefur allavega sýnt að hún getur leikið, getur túlkað allan tilfinningaskalann. Það eru viss tíðindi að leikþættinum sem slíkum sé lokið. Reyndar var svolítið spes að sjá Ágústu Evu tala svo opinskátt um karakterinn, enda hefur hún annaðhvort komið fram í karakter eða hreinlega talað í kringum hann í öðrum túlkunum. Ætli það sé búið að gera upp Silvíu Nótt? Það verður fróðlegt að sjá hver framtíð hennar og skaparans verður.


Styrmir leitar að Styrmi í Kringlunni

Litlu fréttirnar á hverjum degi eru oft skemmtilegastar. Fréttin af tjaldinum Styrmi sem heldur tryggð við Morgunblaðshúsið í Kringlunni er ansi skondin. Sennilega er hann að leita að nafna sínum Gunnarssyni, ritstjóra og fyrrum húsbónda í Kringlunni, en hann er farinn upp í Hádegismóa með allt sitt starfslið.

Ég man að ég las um þennan tjald í Mogganum í fyrra og það er gaman að sjá tryggð hans við gamla staðinn. Fuglarnir eru reyndar vel minnugir og með á hlutina, þeir eru heldur ekki nýjungagjarnir. Veit ég þetta vel því að ár hvert verpa fuglar heima í garði í skjóli þar. Það er mjög gaman að sjá þá koma og finna staðinn sinn.

Þetta eru skynugar skepnur, enginn vafi leikur á því. Hitchcock gerði fuglana ansi grimma og harðskeytta í kvikmyndinni The Birds. Ráðlegg fuglavinum að forðast hana, en aðrir hafa merkilegt nokk gaman af henni. Kannski maður horfi á The Birds í kvöld, hver veit?

mbl.is Styrmir enn á ferð við Morgunblaðshúsið í Kringlunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grimmd í samfélaginu

Það er oft sláandi að lesa fréttir og heyra sögur af grimmd í samfélaginu. Nokkrir dagar eru síðan að ráðist var á mann á áttræðisaldri og nú heyrast fréttir af því að fatlaður maður hafi orðið fyrir árás á Lækjartorgi þar sem hann var barinn og rændur. Það er því miður að verða svo að fréttir af líkamsárásum eru að hætta að vera einstakt fyrirbæri, þetta er orðið alltof algengt. Þó er sláandi að heyra fréttir af því að ráðist sé að öldruðum og öryrkjum.

Það er eiginlega ekki undrunarefni að maður hugsi við að lesa svona fréttir á hvaða leið samfélagið okkar sé eiginlega. Er virðingarleysið orðið algjört? Því miður er ekki hægt annað en hugsa á þeim forsendum. Hvers vegna gerist enda svona nokkuð nema að eitthvað stórlega sé að. Þetta er grimmd og mannvonska af verstu sort. Það þarf svosem ekkert að rökstyðja það frekar.

Svona fréttir eru napur vitnisburður þess hvernig samfélagið er orðið að mörgu leyti. Það er vond þróun sem birtist í svona tíðindum allavega.

mbl.is Barinn og rændur í hjólastól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Harður heimur viðskiptanna

Það er rosaleg harka í heimi viðskiptanna. Þar dugar sjaldan hálfkák og hik, heldur er stungið djúpt og allt virðist leyfilegt, það eru fáir vinir í átökunum sem einkenna það. Var að lesa yfirlýsingu fyrrum forsvarsmanna Iceland Express sem þeir beina til Pálma Haraldssonar. Ansi sterkt orðalag og beitt framsetning sem þar blasir við. Já, þau eru ansi köld viðskiptin stundum.

mbl.is Segja Pálma eiga persónulegan þátt í rekstrarerfiðleikum IE
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig verður að fá Ómar Ragnarsson á þing?

Margrét og Ómar Samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum er Ómar Ragnarsson á leiðinni á þing. Einn vinur minn spurði mig nýlega hvernig mér litist á það. Svar: Barasta vel, sérstaklega ef Ómar fellir Magnús Þór Hafsteinsson af þingi. Þá ætti ég að geta keypt mér gin í tónik og glaðst hvernig svo sem veröldin snýst að öðru leyti á kosninganótt. Annars er ég reyndar enn að hugsa um hvernig að Ómar verði sem þingmaður, venja mig tilhugsunina um hann sem stjórnmálamann.

Það má eiginlega segja með sanni að Ómar muni verða óvæntasti stjórnmálaleiðtogi þessarar kosningabaráttu, hvernig sem allt fer. Hann verður 67 ára á þessu ári, það sem flestir kalla löggilt gamalmenni. Ómar hefur með störfum á breiðum vettvangi víða öðlast sess í huga fólks. Ómar er auðvitað ein skærasta stjarna íslenskrar sjónvarpssögu, er mikill gleðigjafi og hefur verið í miðpunkti mannlífsins alla mína ævi. Einhvernveginn finnst mér hann einstakur, hann hefur fært okkur svo mikið með sjónvarpsþáttum sínum og fært okkur öllum sýn á landið sem er ómetanleg. Fyrir það hefur hann mína virðingu.

En er Ómar stjórnmálamaður. Ég man að ég hugsaði mig talsvert um þegar að hann kastaði af sér hlutleysisgrímunni í umhverfismálum í haust og hélt beint út í elginn. Hann fór eftirminnilega göngu niður Laugaveginn sem breytti kannski einhverju í huga þeirra sem þar gengu, ég veit það ekki, en allavega hafði engin áhrif á baráttumálið. Hann kom þar fram sem maður skoðana og krafts, það voru ekki allir sammála honum en innst inni held ég að margir hafi séð þar hlið á þessum fjölbreytta manni sem enginn hafði séð áður.

Reyndar hefur Ómar alltaf verið áhlaupsmaður, er mjög frjór og kraftmikill á sínum sviðum og hefur allsstaðar vakið athygli. Enda er ekkert hálfkák á honum. Ég verð að viðurkenna að ég sé ekki Ómar fyrir mér á næturfundum í þinginu eða sitjandi daga og nætur þar yfir höfuð. Hann hefur verið með ímynd mannsins sem alltaf er á ferð og flugi. Kannski er hann bara að slaka á með því að vera kyrr á einum bletti en beita allri orku sinni með öðrum hætti.

Það eru flestir sem spá í gengi Íslandshreyfingarinnar í vor. Ef marka má kannanir getur hún náð einhverju flugi. Það verður allavega fróðlegt að sjá næstu vikurnar hvernig flugi hún nær. Merkilegast af öllu er að Ómar leiði flokkinn. Hann er það þekktur í huga landsmanna að varhugavert er að útiloka að hann nái árangri og verði í oddastöðu, sérstaklega eftir að Frjálslyndir misstu fótanna og kaffibandalagið margfræga dó.

Ómar verður litríkur þingmaður komist hann þar inn. Hann yrði elsti þingmaðurinn næði hann inn, tæki við þeim sess af Halldóri Blöndal, sem brátt hættir á þingi eftir langan stjórnmálaferil. Halldór og Ómar eru svolitlar þjóðsagnapersónur; miklir sagnamenn og fróðleiksbrunnar. Það verður varla ládeyða í þingveislunum verði Ómar Ragnarsson þar fastagestur næstu fjögur árin og hann yrði varla litlaus maður úti í horni í þingsölum.

Það yrðu vissulega merk tíðindi ef að Ómar lyki starfsferlinum sínum sem þingmaður í löggjafarsamkundunni. Hann hefur aldrei verið frambjóðandi og vissulega verður athyglisvert að sjá hann í leiðtogaþáttum næstu 40 dagana með öðrum leiðtogum flokkanna. Þetta er nýtt hlutverk fyrir mann sem þegar hefur leikið mörg athyglisverð hlutverk um dagana.

Króníkan öll - blaðamennirnir fara ekki á DV

Króníkan Það eru alltaf tíðindi þegar að fjölmiðill deyr, sérstaklega ef hann deyr langt um aldur fram. Króníkan dó í vikunni sem leið, aðeins sjö tölublöð komu út undir þeim merkjum. Háleitt markmið um öflugan fjölmiðil brást og eftir standa brostnar vonir og væntingar þeirra sem töldu þetta blað geta fyllt upp í blaðamarkaðinn. Það má reyndar hugsa sig um hvort að þessi markaður sé ekki orðinn mettur og muni jafnvel fara að sverfa að fleiri blöðum.

Er blaðamarkaðurinn enn í tísku? Er ekki netið að drepa blöðin hægt og rólega? Sérstaklega blað sem fókuserar á svona kreðsur eins og Krónikunni var ætlað að gera? Má vel vera. Ég persónulega er t.d. nær hættur að lesa blöð. Les reyndar alltaf Moggann og Fréttablaðið í bítið en þar með er það nær upptalið. Ég er ekki áskrifandi að neinum blöðum utan gamla góða Moggans, enda tel ég mig fá allan fróðleik dagsins meira og minna á Netinu. Það er sú upplýsingaveita sem er ferskust og áreiðanlegust á að uppfærast eftir nýjustu viðburðum. Á hana stóli ég fyrst og fremst.

Króníkan var metnaðarfullt blað. Ég keypti mér nokkur tölublöð af henni í lausasölu. Ég fer stundum á kvöldin í 10-11, er víst svona nútímamaður að því leyti að fara þangað þegar að vantar eitthvað. Fílaði sum blöðin, önnur ekki. Varð fyrir vissum vonbrigðum með fyrsta blaðið og fannst það ekki alveg nógu gott. Gaman að lesa, en heildarmyndin var þung. Sérstaklega fannst mér djarft útspil hjá þeim að veðja á Hannes Smárason, peningamaskínu og stórlax, sem forsíðu"stúlku". En það er oft gott að veðja miklu, held þó að þau hafi ekki veðjað þar á réttan hest.

Heillaðist meira af næstu blöðum og fannst tvö síðustu blöðin gríðarlega góð. Sérstaklega var gaman að lesa áhugavert viðtal við Bjarna Benediktsson, alþingismann, og vönduð skrif Örnu Schram klikkuðu ekki. Þetta blað dó áður en það gat sannað sig endanlega. En kannski var þetta vonlaust frá byrjun? Veit það ekki, allavega dó blaðið ungt. Það varð bensínlaust á viðkvæmasta hjallanum upp brekkuna og komst aldrei fyllilega alla leið upp. Ég sá t.d. blaðastabbann alltaf fullan af Króníku þegar að ég fór í 10-11 hverfisbúðina mína. Þar varð aldrei uppselt.

Sigríður Dögg, bloggvinkona og stjörnublaðamaður, ritstýrði blaðinu. Hún er nú farin yfir á DV. Þau sem með henni unnu ætla ekki að fylgja henni þangað. Enda sé ég ekki Aðalheiði Ingu, Kristján Torfa og Örnu Schram alveg fyrir mér þar undir ritstjórn Sigurjóns M. Egilssonar í sannleika sagt. En það er leiðinlegt að Króníkan dó. Held að þeim hafi mistekist sumt en gengið vel upp í öðru. Heildarmyndin var ekki að ganga og svo fór sem fór því miður.

En það er mikið verkefni að halda í svona bissness. Það er mikið sett undir og það er spilað djarft. Þetta gekk ekki upp. En kannski er þetta byrjun á hnignun í blaðabransanum? Hver veit. Það munu eflaust margir fylgjast með því hvort að DV gangi upp sem dagblað. Er þessi markaður ekki orðinn fullmettaður? Stórt er spurt vissulega - það fylgjast allir með hvort og þá hvaða fjölmiðill falli jafnvel næstur uppfyrir í hörðum bransa.

Survival of the Fittest, er kannski réttnefni á þennan bransa núna?

mbl.is Króníkufólk fer ekki á DV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvö ár frá láti páfans - verður hann dýrlingur?

Jóhannes Páll II Í dag eru tvö ár liðin frá láti Jóhannesar Páls II páfa. Unnið er nú að því innan kaþólsku kirkjunnar að hann verði tekinn í dýrlingatölu og hefur Benedikt XVI páfi, eftirmaður Jóhannesar Páls II, talað fyrir því og í raun opnaði fyrstur allra á það tal, eftir að almenningur allt að því gerði kröfu um það dagana eftir lát hans í apríl 2005. Fræg voru áköllin um það frá mannfjöldanum sem kom til að votta honum virðingu sína er hann lá á virðingarbörum í Péturskirkjunni. Nýr páfi lét hefðir lönd og leið og hóf ferlið fyrr en almennt er gert ráð fyrir.

Jóhannes Páll II lést kl. 19:37 að íslenskum tíma að kvöldi 2. apríl 2005, eftir að hafa háð langt og erfitt veikindastríð. Hann ríkti á páfastóli í tæp 27 ár. Jóhannes Páll II var kjörinn til páfasetu þann 16. október 1978 og tók við embætti af Jóhannesi Páli I sem aðeins sat á páfastóli í rúman mánuð, 33 daga. Jóhannes Páll páfi II sat lengst allra páfa á 20. öld og einungis tveir páfar sátu lengur á páfastóli en hann, þeir Pius IX og St. Peter. Pólverjinn Karol Józef Wojtyla var fyrsti páfinn í 455 ár sem ekki var Ítali. Hann fæddist 18. maí 1920 í smábænum Wadowice í Póllandi.

Jóhannes Páll II páfi þótti litríkur páfi og markaði stór spor í sögu kirkjunnar. Hann fór í 104 opinberar heimsóknir og heimsótti 129 lönd. Hann eyddi 822 dögum embættisferils síns, eða 2 árum og 3 mánuðum, í ferðir utan Vatíkansins. Hann flutti 20.000 ræður og ávörp og veitti rúmlega 1.000 áheyrnir í Vatíkaninu sem 17 milljónir og 800.000 manns sóttu. Hann átti fundi með 1.600 stjórnmálaleiðtogum þar af 776 þjóðarleiðtogum. Hann gaf út fleiri grundvallaryfirlýsingar og tilskipanir innan kirkjunnar en áður hafði þekkst og tók 482 menn í dýrlingatölu sem var meira en allir forverar hans höfðu gert í 400 ár.

Jóhannes Páll II var mikill boðberi friðar, ötull talsmaður friðarboðskapar og hans framlag skipti sköpum er kom að endalokum kommúnismans og grimmilegs einræðis sem predikað var í nafni hans. Heimsókn hans til heimalands síns, Póllands, árið 1979, markaði söguleg skref og það er ekkert vafamál á að hann var ötull talsmaður gegn kommúnisma í heimalandi sínu. Fyrir páfakjörið 1978 hafði hann verið ötull andstæðingur kommúnismans og kjör hans í embættið styrkti mjög baráttu stjórnarandstöðuaflanna í heimalandi hans. Forysta Jóhannesar Páls II á páfastóli hafði hiklaust áhrif við að berja kommúnismann niður í A-Evrópu allri að lokum.

Hann réði ekki yfir herstyrk eða vopnavaldi en vald hans og áhrif var öflugra en það allt til samans, hann vann á grundvelli trúar og var einlægur fulltrúi þess sem kristin trú byggir á. Áhrif hans við að tjá þann boðskap var sterkari en allt mannlegt. Hans verður sennilega helst minnst þannig.


Myndin með færslunni var tekin 30. mars 2005, þrem dögum fyrir lát páfans. Þá kom hann fram í hinsta skipti í glugga herbergis síns í Vatikaninu. Hann var orðinn það veikur undir lok ævi sinnar að hann gat ekki lengur talað. Á páskum, viku fyrir lát sitt, tjáði hann sig ekki en gerði krossmark með sama hætti og er við þetta tilefni, er hann kom síðast fram opinberlega.

mbl.is Fyrsta skrefið stigið í að gera Jóhannes Pál II að dýrlingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veiðisumarið að hefjast

Veiði Mörgum finnst það toppurinn á tilverunni á hverju sumri að standa vígreifur úti í á eða árbakkanum með veiðistöng í hendi og reyna að veiða sér fisk. Það verður seint sagt að ég sé meðal þeirra. Hef ekki verið beint aflakló í gegnum árin. Fór þó fyrir nokkrum árum í veiðitúr með nokkrum félögum mínum, þar sem ég ætlaði að prófa þennan "spennandi" heim. Hafði ekki verið lengi með veiðistöngina í hendi og reynt við þetta verkefni er ég varð sannfærður um að þetta ætti ekki við mig.

Það þarf varla að taka fram að ég veiddi ekkert í þessum kostulega veiðitúr, þó vinir mínir sem eru vanir í þessum bransa náðu að fanga slatta af fiskum. Þetta var viss lærdómur og lexía, var ég vel meðvitaður um það eftir þetta að ég hef hvorki áhuga á þessu né vilja til aflabragða. Það er eflaust margt sem mér er betur gefið en að standa í slíku. Það var samt gaman að prófa þetta. Það verður því seint sagt að ég sé heltekinn af slíkum veiðiáhuga eða ætli að halda á þau mið í sumar.

Það er samt yndislegt að vera úti í náttúrunni, njóta góðs veðurs og fallegs landslags. Það ætla ég að gera í sumar, en get fullvissað lesendur um að það muni ég ekki gera með veiðistöng í hendi. Það er öðrum það betur gefið en nokkru sinni mér.

mbl.is Stangveiðisumarið hafið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1. apríl - dagur gamans og gráglettni

1. apríl Það voru eflaust margir sem hlupu 1. apríl í dag - létu gabba sig og göbbuðu svo aðra líka. Þetta er gamall og glettinn siður að gera vel grín hvort að öðru. Ég ákvað að hlífa lesendum mínum alveg við aprílgabbi þetta árið. Þau voru fjölbreytt og skemmtileg aprílgöbbin í ár fannst mér. Ég var þó vel á verði og lét mér ekkert bregða þótt ég heyrði margt sem var of gott eða vont til að vera satt. Þannig að ég hljóp nú ekki 1. apríl að þessu sinni.

Það er ágætt að vera vel vakandi á svona degi. Enda eru mörg aprílgöbbin ansi frumleg, sum fara yfir mörkin í frumleika og verða einum of ýkt. Öðrum tekst þetta skrambi vel. Það var t.d. of gott til að vera satt að hér á mbl.is væri komið vefvarpsblogg. Fannst þetta of merkur viðburður til að hann væri kynntur á sunnudegi og mönnum hefði dottið 1. apríl í hug. Sorrí Óli og aðrir góðir félagar á vefdeildinni, en ykkur tókst ekki að gabba mig. :)

Fannst fyndið að heyra svo eftir Silfur Egils að RÚV hefði sett upp fyndið gabb um að hundruð trjáplantna hefðu fundist á lóð áhaldahúss Kópavogs. Þau væru geymd þar, lægju undir skemmdum og fólk gæti keypt þau fyrir slikk. Til að gera þetta trúverðugt tók Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri, þátt í gamninu. Vel gert, en samt frekar langsótt nákvæmlega á þessum degi. Allt innbú Byrgisins átti svo að bjóða upp, en dagsetningin fékk marga til að hugsa. Fyndið gabb þó.

Mér fannst gabb Stöðvar 2 alveg magnað. Þar var sagt að færri hefðu komist að en vildu þegar fyrstu úrtökuprófin fyrir nýtt varalið lögreglunnar fóru fram um helgina. Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, tók þátt í gabbinu og sagði alvarlegur á svip í viðtali við Svein Guðmarsson að til greina kæmi vegna góðra viðbragða að hraða byggingu nýs lögregluskóla á Keflavíkurflugvelli og jafnframt kæmi til álita að fjölga verulega í liðinu. Bent var á leið til að skrá sig. Mjög vel heppnað, ætli margir hafi skráð sig í varaliðið?

Ég hló mjög í kvöld yfir aprílgabbi Ríkissjónvarpsins en þar var sagt frá uppboði á gömlum munum úr sögu Sjónvarpsins. Ástæða uppboðsins átti að vera tilkoma RÚV ohf. en fyrsti starfsdagur opinbers hlutafélags Ríkisútvarpsins er einmitt í dag og 77 ára sögu gömlu ríkisstofnunarinnar lauk formlega þar með. Páll Magnússon, útvarpsstjóri, var sýndur hvass á brá vilja selja öll menningarverðmæti sín, leikmuni og merkilega hluti. Í bakgrunni var sýnt er málverk af fyrrum útvarpsstjórum, t.d. Markúsi Erni, voru tekin niður, til að setja á uppboðið.

Gabb RÚV og Stöðvar 2 var fyndnast. Mjög gaman af þessu. Hversu margir ætli hafi annars hlaupið apríl yfir þessum og fleirum göbbum? Stór spurning, það er já eins gott að vera vel á verði á þessum degi.

mbl.is Aprílgöbb stór og smá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband