Hvernig verður að fá Ómar Ragnarsson á þing?

Margrét og Ómar Samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum er Ómar Ragnarsson á leiðinni á þing. Einn vinur minn spurði mig nýlega hvernig mér litist á það. Svar: Barasta vel, sérstaklega ef Ómar fellir Magnús Þór Hafsteinsson af þingi. Þá ætti ég að geta keypt mér gin í tónik og glaðst hvernig svo sem veröldin snýst að öðru leyti á kosninganótt. Annars er ég reyndar enn að hugsa um hvernig að Ómar verði sem þingmaður, venja mig tilhugsunina um hann sem stjórnmálamann.

Það má eiginlega segja með sanni að Ómar muni verða óvæntasti stjórnmálaleiðtogi þessarar kosningabaráttu, hvernig sem allt fer. Hann verður 67 ára á þessu ári, það sem flestir kalla löggilt gamalmenni. Ómar hefur með störfum á breiðum vettvangi víða öðlast sess í huga fólks. Ómar er auðvitað ein skærasta stjarna íslenskrar sjónvarpssögu, er mikill gleðigjafi og hefur verið í miðpunkti mannlífsins alla mína ævi. Einhvernveginn finnst mér hann einstakur, hann hefur fært okkur svo mikið með sjónvarpsþáttum sínum og fært okkur öllum sýn á landið sem er ómetanleg. Fyrir það hefur hann mína virðingu.

En er Ómar stjórnmálamaður. Ég man að ég hugsaði mig talsvert um þegar að hann kastaði af sér hlutleysisgrímunni í umhverfismálum í haust og hélt beint út í elginn. Hann fór eftirminnilega göngu niður Laugaveginn sem breytti kannski einhverju í huga þeirra sem þar gengu, ég veit það ekki, en allavega hafði engin áhrif á baráttumálið. Hann kom þar fram sem maður skoðana og krafts, það voru ekki allir sammála honum en innst inni held ég að margir hafi séð þar hlið á þessum fjölbreytta manni sem enginn hafði séð áður.

Reyndar hefur Ómar alltaf verið áhlaupsmaður, er mjög frjór og kraftmikill á sínum sviðum og hefur allsstaðar vakið athygli. Enda er ekkert hálfkák á honum. Ég verð að viðurkenna að ég sé ekki Ómar fyrir mér á næturfundum í þinginu eða sitjandi daga og nætur þar yfir höfuð. Hann hefur verið með ímynd mannsins sem alltaf er á ferð og flugi. Kannski er hann bara að slaka á með því að vera kyrr á einum bletti en beita allri orku sinni með öðrum hætti.

Það eru flestir sem spá í gengi Íslandshreyfingarinnar í vor. Ef marka má kannanir getur hún náð einhverju flugi. Það verður allavega fróðlegt að sjá næstu vikurnar hvernig flugi hún nær. Merkilegast af öllu er að Ómar leiði flokkinn. Hann er það þekktur í huga landsmanna að varhugavert er að útiloka að hann nái árangri og verði í oddastöðu, sérstaklega eftir að Frjálslyndir misstu fótanna og kaffibandalagið margfræga dó.

Ómar verður litríkur þingmaður komist hann þar inn. Hann yrði elsti þingmaðurinn næði hann inn, tæki við þeim sess af Halldóri Blöndal, sem brátt hættir á þingi eftir langan stjórnmálaferil. Halldór og Ómar eru svolitlar þjóðsagnapersónur; miklir sagnamenn og fróðleiksbrunnar. Það verður varla ládeyða í þingveislunum verði Ómar Ragnarsson þar fastagestur næstu fjögur árin og hann yrði varla litlaus maður úti í horni í þingsölum.

Það yrðu vissulega merk tíðindi ef að Ómar lyki starfsferlinum sínum sem þingmaður í löggjafarsamkundunni. Hann hefur aldrei verið frambjóðandi og vissulega verður athyglisvert að sjá hann í leiðtogaþáttum næstu 40 dagana með öðrum leiðtogum flokkanna. Þetta er nýtt hlutverk fyrir mann sem þegar hefur leikið mörg athyglisverð hlutverk um dagana.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Stefán.

Skemmtilegar pælingar hjá þér. Satt að segja finnst mér bara góð tilhugsun að Ómar verði þingmaður. Fjölmargir sitja og hafa setið á Alþingi sem hafa haft mun minna til málanna að leggja en hann. Hann yrði góður þingmaður.

Kári S. Lárusson (IP-tala skráð) 3.4.2007 kl. 00:37

2 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Já eg er þarna mjög sammála Omar yrði Alþingi og þjóð mikil fengur/Halli Gamli

Haraldur Haraldsson, 3.4.2007 kl. 00:45

3 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Góður pistill Stefán. Ég hef mikið velt þessu fyrir mér með Ómar, Ómar á þing, hef bara alltaf séð hann fyrir mér, annaðhvort sem skemmtikraft, eða frábæran fréttamann, flytjandi fréttir af ýmsu sem annars hefði kannski aldrei komið fyrir almenningssjónir.  Ef maður miðar hann við ýmsa aðra, misvitra menn sem hafa setið á Alþingi okkar þá stendur hann mörgum framar, og gæti ég hugsað mér að sjá á bak mörgum, til að Ómar fengi sæti, en samt sem áður, þá held ég að allavega ég muni fyrst og fremst líta á hann sem grínara og kannski hlægja að honum ef hann kemst alla leið í ræðustól Alþingis en ég er til að gefa honum séns, til að losna þá mögulega við aðra.

Ásdís Sigurðardóttir, 3.4.2007 kl. 01:29

4 identicon

Að fá mann inn á þing með hjartað pikkandi á réttum stað og laus við allan pólitíkus..? Einlægur og hreinn hugsjónarmaður! Mannvinur  og verndari náttúruna af ástríðu..! OG LÍKA skemmtilegur !! Já takk takk.. kærkomin tilbreyting.  

Björg F (IP-tala skráð) 3.4.2007 kl. 01:39

5 identicon

HUGMYNDASMIÐURINN ÓMAR RAGNARSSON verður frábær þingmaður og jafnvel ráðherra þar að auki. En það þarf að bakka hann upp með tölur og hagfræði. Ómar hefur með gríðarmiklum kynnum sínum af landi og þjóð öðlast meiri þekkingu og dýpri skilning á mönnum og málefnum en aðrir landsmenn hafa. Hann hefur farið um allt landið og hálendið, gangandi, akandi og fljúgandi, mörg þúsund sinnum, en samt halda flestir stóriðjusinnar því fram að hann sé hálfviti sem hafi ekki glóru um hvað hann er að tala.

Ómar hefur hins vegar öðlast allt aðra og miklu dýpri sýn á alla hluti en stóriðjusinnarnir með gríðarlegri þekkingu sinni og einlægri virðingu fyrir náttúrunni. Og ekki veitir nú af að einhverjir geri það í hagfræðilegri óstjórn undanfarinna ára, geysilegri verðbólgu og viðskiptahalla, mánaðarlegum hækkunum á öllu verðlagi og heimsmeti í háum vöxtum. Framtíðarsýn Ómars er hins vegar skýr og allir vita fyrir hvað hann stendur. Það er mikils virði.

Steini Briem (IP-tala skráð) 3.4.2007 kl. 04:32

6 Smámynd: Rúnar Birgir Gíslason

Held að það sé rangt að hann eigi afmæli tveimur dögum fyrir kosningar, ég er 99% viss um að hann eigi afmæli 16. september. Ekki það að það breyti miklu.

Rúnar Birgir Gíslason, 3.4.2007 kl. 05:10

7 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk kærlega fyrir kommentin.

Kári: Já, ég er viss um að Ómar verður ekki litlaus þingmaður. Það er alltof mikið af slíkum á þingi. Er í sjálfu sér ekkert ósáttur við að fá Ómar þar inn, enda veit ég hvar hann stendur og er ákveðinn og litríkur í senn. Það skiptir máli. Slíkir stjórnmálamenn eru alltaf kærkomnir að mínu mati, gildir þá einu hvort maður er sammála þeim.

Halli: Ómar yrði allavega ekki hornkarl færi hann á þing.

Ásdís: Takk fyrir góðar pælingar sem var gaman að lesa.

Björg F: Já, Ómar er þannig gerður að hann segir það sem honum finnst. Það er kostur að mínu mati.

Steini: Ómar kemur vissulega með nýja sýn og athyglisverða. Það verður fróðlegt að sjá hann á þingi, enda virðist flest stefna í að hann komist inn. Það verður spennandi þingvetur með hann innanborðs allavega.

Rúnar: Já, þetta er rétt hjá þér. Ég kannaði þetta eftir ábendingu þína. Mér hafði verið sagt að Ómar ætti afmæli tveim dögum fyrir kosningar. Það er ekki rétt og ég hef því að sjálfsögðu lagað þetta. Takk kærlega fyrir ábendinguna.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 3.4.2007 kl. 14:48

8 Smámynd: Jón Gestur Guðmundsson

Verð því miður að vera ósammála öllu hér að ofan, fyrir utan kannski Rúnari, ég hef enga hugmynd um hvenær Ómar á afmæli.

En ég held að Ómar verði ekki góður stjórnmálamaður (skemmtilegur kannski). Málið er að Ómar hefur enga stefnu í öðrum málefnum heldur en umhverfismálum. Hans eigið svar við þessu þegar hann var spurður um önnur málefni var: "Já,já við fáum bara einhverja snillinga í það."

Það minnir mig óþægilega mikið á anti-stóriðju stefnu Steingríms J. "Við gerum bara eitthvað annað". Þessi E-h stefna er ekki beint traustvekjandi í mínum huga þar sem það sýnir mér að þessir tveir rauðhærðu skallapopparar hafa annað hvort enga stefnu gegn stóriðjustefnunni eða hafa bara alls enga hugmynd um hvað þeir eru að gera.

Ég krefst þess af þeim stjórnmálamönnum sem kjörnir eru að þeir sé "professional" og hafi einhverja stefnu í sem flestum málefnum sem við kemur kjósendum. Ómar hefur ekki sýnt þessa hlið á sér en í kosningabaráttinni.

Ég ætla mér ekki að kjósa "E-h" pólitíkusa á þing.

Ég biðst afsökunar á hverjum þeim stafsetningarvillum sem kunna að vera í þessari athugasemd.

Jón Gestur Guðmundsson, 3.4.2007 kl. 14:51

9 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

Má ég þá heldur biðja um Magnús Þór en Ómar.

Magnús hefur ekki gerst sekur um að birta myndir af landi sem ekki sökk/sekkur við Kárahnjúka og sagt það munu sökkva sinni skoðun til framdráttar...

Ég hef líka lítið álit á þeim mönnum sem nýta sér stöðu sína sem fréttamenn til þess að breiða út áróður.

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 4.4.2007 kl. 20:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband